Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 854. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1693  —  854. mál.
Svarmennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar H. Valdimarsdóttur
um hollustu skólamáltíða.


     1.      Er til opinber stefna um hollustu skólamáltíða, svo sem eins og um næringarinnihald hverrar máltíðar og hlutfall af unnum kjöt- og fiskvörum?
    Í lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldskóla og nýjum aðalnámskrám árið 2011 birtist sú menntastefna sem unnið er eftir í landinu. Þar er skólum sett það markmið að tryggja börnum og ungmennum holla og góða næringu, m.a. með skólamáltíðum. Ekki er vísað sérstaklega til viðmiða um næringarinnihald hverrar máltíðar og hlutfall af unnum kjöt- og fiskvörum eins og nefnt er í fyrirspurninni heldur vísað til almennra manneldis- og lýðheilsumarkmiða. Landlæknisembættið veitir stjórnvöldum faglega ráðgjöf um manneldismál og birtir ráðleggingar um mataræði og næringarefni í samvinnu við helstu sérfræðinga á sviði næringar hér á landi. Embættið á einnig samstarf við skóla og fleiri stofnanir um heilsueflingu á sviði næringar. Embættið hefur gefið út sérstakar handbækur fyrir leikskólaeldhús, skólamötuneyti og um mataræði í framhaldsskólum.
    Í 23. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er að finna ákvæði um skólamálsverði. Þar segir að í grunnskóla skuli nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið og er sveitarfélögum heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja. Við 20. gr. sömu laga sem fjallar um skólamannvirki hefur ráðuneytið sett reglugerð nr. 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða. Í þeirri reglugerð eru nánar útfærð ákvæði um lágmarksaðstöðu í grunnskólum þar sem m.a. er kveðið á um rétt nemenda á aðstöðu til að neyta málsverða og til viðveru utan kennslustunda.
    Í 36. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 segir um heilsuvernd, hollustuhætti og forvarnir að framhaldsskólar skuli tryggja að í boði sé innan veggja hvers skóla heilnæmt fæði í samræmi við opinber manneldismarkmið og að framhaldsskólar skuli hvetja til heilbrigðs lífernis og heilsuræktar nemenda. Sérhver framhaldsskóli skal setja sér stefnu um forvarnir og á að birta þá stefnu opinberlega.
    Í lögum um leikskóla nr. 90/2008 er ekki fjallað með beinum hætti um hollustu skólamáltíða en í löggjöfinni er fjallað um að í leikskólum skuli velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi og að í leikskólum skuli vera til staðar aðstaða fyrir börn til að neyta málsverða.
    Í aðalnámskrám allra skólastiganna er sérstaklega fjallað um mikilvægi hollrar næringar enda tengist velferð barna og nemenda líkamlegu og andlegu heilbrigði. Í sameiginlegum hluta aðalnámskrár allra skólastiganna er fjallað um grunnþáttinn heilbrigði og velferð. Þar segir að allt skólastarf þurfi að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla. Í skólum á að skapa heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Á meðal helstu þátta heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á er næring og hollusta. Í skólaumhverfinu á einnig að stuðla að heilsusamlegu fæðuvali með fræðslu og góðu framboði á fjölbreyttum mat og leggja á áherslu á uppeldis- og félagslegt gildi máltíða meðal annars með því að gefa nægan tíma til að nærast.
    Að lokum má nefna tvö verkefni sem ráðuneytið hefur tekið þátt í og styrkt undanfarin ár. Annað þeirra nefnist heilsueflandi skólar og byggist á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilsueflingu. Það tekur til sex grundvallaratriða og eitt þeirra lýtur að stefnuviðmiðum um heilsueflandi skóla sem koma skýrt fram í gögnum eða viðteknum venjum skóla til að efla heilsu og bæta líðan, t.d. viðmiðum sem snúast um að taka upp hollara mataræði í skólum. Hitt verkefnið var sett af stað fyrr á árinu. Verkefnið gengur undir heitinu „Léttara líf“ og byggist að hluta til á skýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið árið 2007 og snýr að heilsueflingu í leikskólum, þ.m.t. að innleiða leiðir til að auka hreyfingu og hollustu í leikskólum.

     2.      Eru til opinber viðmið um þann tíma sem börn hafa til að matast á skólatíma?
    Af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis hafa ekki verið sett sérstök opinber viðmið um þann tíma sem börn hafa til að matast á skólatíma að öðru leyti en því, sem fyrr var nefnt, að skólum ber að skipuleggja skólastarf þannig að börn og ungmenni í skólum hafi nægan tíma til að nærast.

     3.      Hvernig er eftirliti með hollustu skólamáltíða í grunnskólum háttað?
    Samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er rekstur almennra grunnskóla á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskóla sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Samkvæmt lögunum ber þeim að sinna mati og eftirlit með gæðum skólastarfs og fylgja eftir innra og ytra mati þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi.
    Samkvæmt grunnskólalögum ber ráðuneytinu að annast greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í grunnskólum á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum og með sjálfstæðri gagnaöflun. Ráðuneytið gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd laganna og aðalnámskrár grunnskóla og aðra þætti skóla
starfs.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur ekki skoðað sérstaklega eða haft eftirlit með hollustu skólamáltíða í grunnskólum. Þess má þó geta að í reglubundnum úttektum sem ráðuneytið hefur látið framkvæma á starfi grunnskóla, úttektum sem byggjast á svokölluðu ytra mati, hefur ekki komið fram óánægja með skólamáltíðir, frekar er að nemendur og foreldrar séu ánægðir með þær.