Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 844. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1695  —  844. mál.
Svariðnaðarráðherra við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar um auglýsingar um störf.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu mörg störf hafa verið auglýst „án staðsetningar“ hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess frá 1. júní 2009 til 1. júní 2012? Hversu mörg störf hafa verið auglýst á sama tímabili hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess?

    Svarið tekur til auglýsinga sem leiddu til ráðninga hjá iðnaðarráðuneyti og A-hluta stofnunum þess sem eru Byggðastofnun, Ferðamálastofa, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Orkustofnun. Litið er fram hjá ráðningum í sumarstörf í atvinnuátaki Vinnumálastofnunar sem auglýst voru á vef iðnaðarráðuneytisins og stofnana þess. Leitað var til undirstofnana ráðuneytisins og upplýsinga aflað um þau atriði sem spurt var um.
    Á tímabilinu voru átta störf auglýst laus til umsóknar hjá iðnaðarráðneytinu, eitt hjá Byggðastofnun, níu hjá Ferðamálastofu, 16 hjá Nýsköpunarmiðstöð og átta hjá Orkustofnun. Byggðastofnun er staðsett á Sauðárkróki en starfið sem auglýst var er tímabundið til eins ár með starfsstöð í Stjórnarráðinu. Hjá Ferðamálastofu voru fjögur störf auglýst á starfsstöð stofnunarinnar á Akureyri, þrjú á starfsstöðinni í Reykjavík og tvö voru auglýst þannig að umsækjandi gat valið milli þess að starfa á Akureyri eða í Reykjavík. Af þeim16 störfum sem auglýst voru hjá Nýsköpunarmiðstöð voru fimm auglýst á starfsstöðvum stofnunarinnar á landsbyggðinni en ellefu í Reykjavík. Þess má geta að Nýsköpunarmiðstöð rekur sjö starfsstöðvar á landsbyggðinni og eina í Reykjavík. Þau átta störf sem auglýst voru hjá Orkustofnun eru öll í Reykjavík en stofnunin hefur auk þess starfsstöð á Akureyri. Ekkert af framangreindum störfum var auglýst án staðsetningar.