Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 853. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1697  —  853. mál.
Svarsjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Guðrúnar H. Valdimarsdóttur
um gjaldeyristekjur af íslenska hestinum.


     1.      Hverjar má ætla að séu beinar og óbeinar gjaldeyristekjur af íslenska hestinum þegar allt er tekið til?
    Í skýrslu nefndar sem skipuð var í febrúar 2008 af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (sjá Markaðssetning íslenska hestsins erlendis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, desember 2009) kemur fram að tekjur af íslenska hestinum vegna lífhrossasölu úr landi nema um 1 milljarði króna árlega, tekjur af útflutningi hrossakjöts eru rétt um 100 milljónir á ári og tekjur hestaleiga í landinu eru um 1 til 1,5 milljarður króna árlega, aðallega af erlendum ferðamönnum, en talið er að um 90 þúsund ferðamenn fari á hestbak á ári hverju til jafnaðar. Erlendir gestir á landsmótum hestamanna hlaupa á þúsundum. Þannig er talið að þeir hafi verið um 3.000 á landsmótinu á Hellu 2008. Þeir voru töluvert færri á landsmótinu á Vindheimamelum í fyrra, enda var það mót haldið við óvenjulegar aðstæður en fyrir liggur að mikill fjöldi erlendra gesta sótti landsmótið í Reykjavík í ár eða um 3.500 manns.

     2.      Hversu stór hluti af framangreindum gjaldeyristekjum rennur til markaðssetningar á íslenska hestinum, hestatengdrar ferðaþjónustu og annars er viðkemur íslenska hestinum?
    Ómögulegt er að svara með nákvæmni til um hversu stór hluti þessara gjaldeyristekna eru nýttar til kynningarstarfs og annars þess sem um er spurt þar sem stærstur hluti þessa er kostaður af fyrirtækjunum sjálfum og kynningarstarfið o.þ.h. iðulega samþætt öðrum þáttum starfseminnar. Fyrirtækin í greininni eru að auki iðulega lítil, einyrkja- eða fjölskyldufyrirtæki, og halda þess vegna ekki margþætt bókhald. Í þessu sambandi skal bent á að þátttaka í sýningum og keppnum getur í aðra röndina verið sölustarf. Reiðkennsla skapar iðulega markaðsfæri fyrir hross, misjafnlega mörg eftir efnum og ástæðum og í gegnum hestaleigur seljast iðulega hross. Þó liggur fyrir að hið opinbera hefur lagt mikla fjármuni til eflingar hestamennsku og hrossaræktar hér á landi. Sumt á sér þar margra áratuga sögu, svo sem leiðbeiningaþjónustan í greininni, kennsla á bændaskólunum o.fl. Á síðari árum hefur þetta starf þó verið eflt, einkum hefur kennsla verið aukin og rannsóknir sömuleiðis, aukið fé frá ríki og sveitarfélögum hefur einnig verið lagt í byggingu reiðhúsa, bæði reiðhalla og minni húsa, og til lagningar reiðvega og margháttuð áhersluverkefni hafa og verið studd (sjá Íslenski hesturinn : Stuðningur ríkis, stjórnsýsla og félagslegt bakland, úttekt unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, apríl 2011).
    Einkafjárfesting hefur þó aukist enn meira í greininni en því sem nemur aðkomu hins opinbera, því að á umliðnum árum hafa bæði hrossaræktendur og almennir hestamenn staðið fyrir gríðarmikilli uppbyggingu á húsum og aðstöðu. Þáttur hins opinbera er þó veigamikill í gegnum kennslu- og námskeiðahald í greininni og mikilvægi leiðbeiningaþjónustunnar verður seint ofmetið eins og fyrr hefur verið vikið að. Kynning á hestatengdri ferðaþjónustu hefur einnig verið aukin í takt við almenna kynningu á Íslandi sem ferðamannalandi. Sé litið til sögunnar er þó næsta ljóst að minna fé fer nú til almennrar kynningar á íslenska hestinum í gegnum þátttöku á sýningum og margháttuðum kynningum en var iðulega á fyrri árum. Samanburður þarna er þó torveldur þar sem kynningarstarfið er nú á margra höndum eins og eðlilegt er og fer eftir margvíslegum leiðum. Sköpuðust hins vegar möguleikar til eða þætti skynsamlegt að auka þátt hins opinbera í kynningarstarfi yrði strax í byrjun að greina markaðinn og móta stefnu um kynningarstarfið þar sem hrossamarkaðirnir eru mjög fjölþættir og íslenski hesturinn gegnir afar ólíkum hlutverkum hvort sem er hér á landi eða erlendis. Íslenski hesturinn kemur raunar fram í hlutverkum sem líkja má við hlutverk margra og ólíkra hrossakynja í öðrum löndum. Hlutverk ferðahests, þægs fjölskylduhests og hests sem nýtist í hefðbundinni frístundahestamennsku er þannig allt annað en hlutverk keppnishrossa hvort sem er í hringvallagreinum eða kappreiðum og sýningahrossa á almennum reiðsýningum eða kynbótasýningum. Verðgildi fyrrnefndu hrossanna er þannig ekki nema brot af því sem keppnis- og sýningahrossin gefa af sér í sölu en það má heldur ekki kosta nema afar litlu til þeirra fyrrnefndu miðað við hin. Jafnframt þarf að hafa í huga að íslenskur hrossabúskapur á ekki aðeins, hvað sölu lífhrossa varðar, í samkeppni við hross af íslenskum stofni sem fædd eru í öðrum löndum heldur einnig í samkeppni um iðkendur við önnur hrossakyn en samkvæmt nýlegum upplýsingum frá FEIF, alþjóðlegra samtaka eigenda og unnenda íslenska hestsins, hefur iðkendum hestamennsku á íslenskum hestum fækkað samtímis því sem iðkendum hestamennsku hefur fjölgað í heild í heiminum. Allt þetta þarf að leggja til grundvallar áður en ráðist er í aðgerðir til markaðssóknar.