Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 790. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1708  —  790. mál.
Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um aukið sjálfræði sveitarfélaga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er afstaða ráðherra til aukins sjálfræðis sveitarfélaganna og meiri valddreifingar?

    Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar og stefnuyfirlýsingin Ísland 2020 leggja grunninn að verkefninu sóknaráætlanir landshluta. Samstarfsyfirlýsingin kvað á um að efnt skyldi til víðtæks samráðs undir forustu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til að efla atvinnulíf og lífsgæði til framtíðar. Markmiðið var að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og að samþætta áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðaáætlanir auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og ýmsa vaxtarsamninga og aðra opinbera stefnumótun. Sóknaráætlanir yrðu til fyrir hvern landshluta. Þær tækju mið af stefnumótandi byggðaáætlun (2010–2013) og svæðaskiptingu kjördæmaskiptingar frá 1958. Verkefni sóknaráætlana landshluta eiga að fjármagnast með sameiningu vaxtarsamninga, menningarsamninga og endurskipulagningu og sameiningu á stoðkerfi atvinnu- og byggðaþróunar ásamt nýrri fjárveitingu til þriggja ára sem endurspeglast mun í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013. Áætlanirnar leggja markmið Ísland 2020 til grundvallar, auk hugmynda og áherslna sem fyrir liggja eftir þjóðfundi landshluta og stefnumörkun landshlutasamtaka. Forgangsröðun einstakra verkefna í hverjum landshluta er á hendi heimafólks. Skilgreindur verði sameiginlegur vettvangur sveitarstjórna og fulltrúa atvinnulífs og stofnana á hverju svæði sem komi í stað hinna ýmsu stjórna og nefnda sem koma að málum í núverandi skipulagi.
    Nú, í hartnær eitt og hálft ár, hefur svonefnt stýrinet Stjórnarráðsins þar sem sæti eiga fulltrúar allra ráðuneyta ásamt framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga í gegnum landshlutasamtök unnið í samráði að útfærslu sóknaráætlana.
    Markmiðið með sóknaráætlunum er eftirfarandi:
          að koma samskiptum ríkisvalds og sveitarfélaga í stöðugri, einfaldari og markvissari farveg,
          að auka skilvirkni og hagræðingu við úthlutun almannafjár sem ekki fara til lögbundinna stofnana í landshlutum heldur til verkefna,
          að valdefla sveitarfélög í gegnum landshlutasamtök,
          að auka samhæfingu og samvinnu innan Stjórnarráðsins í byggðamálum.
    Hinn 22. júní sl. samþykkti ríkisstjórnin tillögu að útfærslu sóknaráætlana. Að hálfu ríkisins heldur stýrinet allra ráðuneyta, staðsett í innanríkisráðuneytinu, utan um samskipti og landshlutasamtökin fyrir hönd sveitarfélaganna.
    Hvað varðar afstöðu til aukins sjálfræðis sveitarfélaga þá telur ráðherra að sú valdefling sem felst í þeim skipulagsbreytingum sem raktar hafa verið hér að framan séu til þess fallnar að styrkja landshluta og auka sjálfræði sveitarfélaga og valddreifingu auk þess sem hún auki gagnsæi stjórnsýslu á þessu sviði. Í henni birtist sú stefna sem núverandi ríkisstjórn hefur haft að leiðarljósi, þ.e. að auka vægi sveitarfélaga og landshlutasamtaka í ákvörðunum sem lúta að málefnum er standa sveitarfélögum og landshlutum nærri.