Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 21. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 21  —  21. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna,
með síðari breytingum.


Flm.: Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason,
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Margrét Tryggvadóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Þór Saari, Þráinn Bertelsson.


1. gr.

    Við 7. mgr. 6. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ábyrgð ábyrgðarmanns fellur niður þegar hann nær 67 ára aldri enda sé lánþegi í fullum skilum við sjóðinn og ábyrgðarmaður hafi gengist í ábyrgð fyrir láni fyrir 54 ára aldur. Hafi vanskil ábyrgðartryggðrar kröfu stofnast innan þriggja almanaksára á undan því ári er ábyrgðarmaður nær 67 ára aldri er þó heimilt að afskrifa og fella niður þá fjárhæð ábyrgðarinnar sem eftir stæði hefði skuldari verið í fullum skilum.

2. gr.

    3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Greitt skal af námsláni skv. 8. gr. þar til skuldin er að fullu greidd eða lánþegi fellur frá. Þó skal heimilt að fella niður eftirstöðvar skuldabréfs, að hluta eða heild, vegna langvarandi veikinda, fötlunar eða örorku skuldara. Ráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd og skilyrði slíkrar niðurfellingar. Þá skulu námslán ætíð falla niður á því ári er skuldari nær 67 ára aldri enda sé hann í fullum skilum við sjóðinn og hafi tekið lánið fyrir 54 ára aldur. Hafi vanskil stofnast innan þriggja almanaksára á undan því ári er skuldari nær 67 ára aldri er þó heimilt að afskrifa og fella niður þá fjárhæð skuldarinnar sem eftir stæði hefði skuldari verið í fullum skilum.

3. gr.

    3. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námsláns skal stjórn sjóðsins heimilt að fella allt lánið í gjalddaga, sbr. þó 3. mgr. 7. gr.


4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
    Skuldarar sem hafa náð 67 ára aldri við gildistöku laga þessara skulu fá niðurfelldar eftirstöðvar námslána sinna eins og staða þeirra er við gildistökuna.
    Ábyrgðir ábyrgðarmanna sem hafa náð 67 ára aldri við gildistöku laga þessara falla niður að því leyti sem eftirstöðvar námslána sem þeir eru í ábyrgð fyrir eru í skilum við gildistökuna.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 139. löggjafarþingi (718. mál) og aftur á 140. löggjafarþingi (38. mál) og fylgdi frumvarpinu þá svofelld greinargerð:
    „Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi ábyrgðarmennsku og endurgreiðslu námslána samkvæmt lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, og úrræði fyrir tiltekin jaðartilvik við endurgreiðslu námslána lögfest. Lagt er til að ábyrgðir ábyrgðarmanna falli niður þegar þeir ná 67 ára aldri svo fremi sem lánþegi sé á þeim tíma í fullum skilum við sjóðinn og ábyrgðarmaður hafi gengist í ábyrgð fyrir láni fyrir 54 ára aldur. Þá er lagt til að fest verði í lög sú meginregla að greitt skuli af námsláni þar til skuldin er að fullu greidd eða fram að þeim tíma er lánþegi fellur frá. Lánasjóðurinn hefur unnið út frá því að afskrifa skuldabréf þegar lánþegi fellur frá en með frumvarpinu er sú regla lögfest. Þá er gert ráð fyrir undantekningum frá framangreindri meginreglu á þann hátt að í tilteknum tilfellum verði heimilt að fella námslán niður að hluta eða í heild áður en lán er að fullu greitt. Er þar ekki átt við niðurfellingu eða frestun á árlegum afborgunum eins og fjallað er um í 8. gr. laganna heldur er um að ræða almennar niðurfellingar eða afskriftir á skuldabréfum sem standa að baki námslánum. Þau tilfelli sem hér um ræðir eru annars vegar þegar skuldari á við langvarandi veikindi að stríða, fötlun eða mikla örorku sem áhrif hefur á greiðsluhæfni hans og hins vegar tilfelli þar sem skuldari námsláns hefur náð 67 ára aldri án þess að hafa náð að greiða að fullu niður námslán sitt.

Langvarandi veikindi, fötlun og/eða örorka.
    Eins og fram kemur í frumvarpinu er hér gert að tillögu að heimilt verði að fella niður námslánaskuld að öllu leyti eða að hluta ef skuldari á við langvarandi veikindi, fötlun eða örorku að stríða. Er þá aðallega átt við tilfelli þar sem langvarandi veikindi, fötlun eða örorka kemur til eftir að lánþegi hefur að greiða af láni sínu og þegar umrædd veikindi hafa veruleg áhrif á aflahæfi og greiðsluhæfni skuldara til framtíðar. Þykir eðlilegt að slíkt úrræði sé til staðar en gert er ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra setji reglugerð um frekari skilyrði til niðurfellingar og framkvæmd Lánasjóðsins á slíkum niðurfellingum og ákvarðanatöku við þær. Á Norðurlöndum eru slíkar niðurfellingarheimildir þekktar, t.d. í Noregi þar sem heimilt er að fella niður námslán þegar það er sanngjarnt vegna langvarandi sjúkdóma eða fötlunar (Gjelden ettergis, helt eller delvis, når det finnes rimelig på grunn av uførhet eller langvarig sykdom. Kafli III, 10. gr. laga nr. 37 frá 2005). Þar er einnig í lögunum reglugerðarheimild til nánari útfærslu á fyrirkomulaginu. Í Svíþjóð er nú í gildi ákvæði sem felur í sér að heimilt er að fella niður lán ef sérstakar ástæður standa til þess. Ber hér hins vegar að geta að í lögunum var áður skýr heimild til niðurfellingar vegna veikinda eða fötlunar sem hefur áhrif á vinnuframlag, aflahæfi og greiðsluhæfni og gildir hún um námslán sem tekin voru fyrir árið 1998. Undir núgildandi ákvæði er því líklegt að svipuð tilfelli geti fallið þótt ekki séu þau tiltekin orðrétt eins og áður var.

67 ára aldur.
    Þá er lagt til að endurgreiðsla námslána falli niður á því ári sem skuldari nær 67 ára aldri að því tilskildu að hann sé í fullum skilum við sjóðinn. Þetta á við í tilfellum þar sem skuldari hefur ekki náð að greiða upp námslán sitt við 67 ára aldursmarkið þegar flestir launþegar hefja töku lífeyris en samkvæmt upplýsingum frá LÍN er meðaluppgreiðslutími námslána um 20 ár. Hafi skuldari lent í vanskilum við sjóðinn á síðustu þremur almanaksárum á undan því ári er hann verður 67 ára er gert ráð fyrir að heimilt sé engu síður að afskrifa lánið. Er þá miðað við að afskrifuð verði sú fjárhæð sem nemur því að efndir hefðu verið réttar. Þannig ber skuldara að greiða það sem vanskilunum nemur. Er með þessu komið til móts við þá skuldara sem geta lent í erfiðleikum þegar þeir nálgast eftirlaunaaldurinn auk þess sem reistar eru skorður við því í frumvarpinu að stjórn sjóðsins gjaldfelli allt lánið með stoð í 3. mgr. 11. gr. laganna á nefndu þriggja ára tímabili vegna verulegra vanskila. Þá er það skilyrði að námslán hafi verið tekið fyrir 54 ára aldur til þess að koma í veg fyrir að einstaklingar sem hefja námslánshæft nám skömmu fyrir 67 ára aldur fá það fellt niður án þess að hafa greitt það niður svo nokkru nemi.
    Eins og alkunna er hefur landsmönnum verið búið það lögbundna hagræði að geta sest í helgan stein 67 ára með töku ellilífeyris. Ellilífeyrisþegar hafa ekki farið varhluta af þeirri kjaraskerðingu sem bankahrunið hefur haft í för með sér. Mat flutningsmanna er að létta beri af herðum þeirra áhættu sem felst í ábyrgð fyrir námsmenn þegar þeir öðlast rétt til töku ellilífeyris. Er markmiðið þannig að ábyrgðarmenn njóti sama réttar og aðalskuldarar.

Norðurlöndin.
    Frumvarpið er að mestu leyti byggt á löggjöf á Norðurlöndunum. Það ber hins vegar að hafa í huga að námsaðstoðarkerfi Norðurlandanna er sett upp með nokkuð öðrum hætti en hér á landi. Þar byggist kerfið á samsetningu styrkja og lána. Í Noregi verður lán í flestum tilvikum að vera uppgreitt á 20 árum og þegar lánþegi verður 65 ára. Í Danmörku verða lánin að vera endurgreidd á innan við 15 árum. Þetta virðist vera stuttur endurgreiðslutími en lánin eru aðeins um þriðjungur af heildaraðstoð sem nemandi fær. Í Svíþjóð er um 2/3 hlutar aðstoðar í formi lána og meginreglan er sú að endurgreiðslutími þeirra skuli ekki vera lengri en 25 ár. Frá þeirri reglu eru ákveðnar undantekningar og lán afskrifuð við vissan aldur. Þar er einnig að finna aldurstakmörk á veitingu lána sem er 54 ár og sambærilega reglu og hér er lögð til varðandi vanskil á síðustu þremur árum fyrir 67 ára aldurinn. Hvað varðar niðurfellingar og afskriftir á lánum vegna veikinda, fötlunar eða örorku er, eins og áður hefur komið fram, að finna slíkar niðurfellingarheimildir bæði í Noregi og Svíþjóð.

Réttarbót.
    Verði frumvarp þetta að lögum verður um mikla réttarbót að ræða fyrir skuldara námslána. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna voru 31. desember 2010 112 skuldarar yfir 66 ára aldri og skulduðu í heildina um 343 millj. kr. Skuldarar á aldrinum 61–65 voru 261 með heildarskuldir upp á 855 millj. kr. og skuldarar á aldrinum 56–60 ára 833 með heildarlán upp á 3.033 millj. kr. Meðaluppgreiðslutími lána er 26,1 ár og meðallán þeirra sem hófu uppgreiðslu hjá sjóðnum 2010 um 4,4 millj. kr. Af þessum tölum má ætla að við gildistöku laganna muni hátt í 343 millj. kr. verða afskrifaðar hjá sjóðnum. 1
    Tekið skal fram að meginreglan sem felst í frumvarpi þessu nær einungis til þeirra sem standa enn í skuld við sjóðinn við upphaf þess árs er þeir ná 67 ára aldri. Njóta þeir sem greitt hafa lán sín fyrir þann tíma ekki hagræðis af þessari breytingu en í ákvæði til bráðabirgða er tekið á tilfellum þar sem skuldari er eldri en 67 ára og er enn að greiða námslán sitt. Þar sem árleg endurgreiðsla námslána er miðuð við heildartekjur viðkomandi einstaklings má ætla að tekjuhærri einstaklingar hafi náð að borga stærstan hluta eða allt lán sitt. Sú breyting sem frumvarpið mælir fyrir um nær því fyrst og fremst til tekjulægri einstaklinga sem og þeirra sem hafa verið lengur í námi. Brýnt er að tryggja að endurgreiðslur námslána falli niður við 67 ára aldur svo komið sé í veg fyrir viðvarandi fátækt einstaklinga sem eyddu stórum hluta ævi sinnar í nám. Margir þessara einstaklinga hafa reynt að koma undir sig fótunum og safna upp auði fyrir efri árin, m.a. með kaupum á fasteign, en horfa nú á ævistarf sitt fuðra upp í verðbólgubáli og í eignarýrnun fasteigna. Jafnframt hafa margir þessara einstaklinga misst hluta af sparnaði sínum við fall bankanna. Enn fremur er nauðsynlegt að hafa í huga hækkun námslána en þau eru verðtryggð og miðuð við breytingar á vísitölu neysluverðs, sbr. 7. gr. laga nr. 21/1992.“
Neðanmálsgrein: 1
1 Tölulegar upplýsingar frá LÍN.