Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 66. máls.

Þingskjal 66  —  66. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur
erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands
og starfskjör starfsmanna þeirra, með síðari breytingum
(réttur til launa í veikindum) .

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „föstum launum“ í 2. mgr. kemur: kjarasamningsbundnum launum í viðkomandi starfsgrein í réttu hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi.
     b.      Í stað orðanna „dagvinnulaunum sínum í þrjá mánuði“ í 4. mgr. kemur: í þrjá mánuði kjarasamningsbundnum launum í viðkomandi starfsgrein í réttu hlutfalli við starfshlutfall hans.
     c.      5. mgr. orðast svo:
                  Með kjarasamningsbundnum launum í viðkomandi starfsgrein er átt við laun samkvæmt kjarasamningi á svæði því er samningurinn tekur til miðað við dagvinnu fyrir 8 klst. á dag eða 40 klst. á viku miðað við fullt starf í viðkomandi starfsgrein.

2. gr.

    7. gr. laganna fellur brott ásamt fyrirsögn.

3. gr.

    4. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er lagt fram til breytinga á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, með síðari breytingum. Frumvarp þetta er lagt fram í annað sinn en það var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi 2011–2012 án þess að fjallað hafi verið um það efnislega á því þingi.
    Þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu er ætlað að koma til móts við niðurstöðu EFTA-dómstólsins í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi, nr. E-12/10, frá 28. júní 2011. Í máli þessu komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að með því að kveða á um rétt útsendra starfsmanna til launa í veikinda- og slysatilvikum sem og um slysatryggingar vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku með þeim hætti sem gert væri í 5. og 7. gr. laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra hefði Ísland brotið gegn ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB, frá 16. desember 1996, um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu.
    Í ákvæði 5. gr. fyrrnefndra laga er meðal annars kveðið á um að starfsmaður sem starfar að jafnaði utan Íslands en er sendur tímabundið hingað til lands á vegum fyrirtækis sem veitir þjónustu hér á landi, svokallaður útsendur starfsmaður, vinni sér inn rétt til launa í veikinda- og slysatilvikum með vinnu sinni hér á landi hjá sama fyrirtæki þannig að fyrir hvern unninn mánuð fyrstu tólf mánuðina greiðist tveir dagar á föstum launum í veikinda- og slysatilvikum. Í fyrrnefndum dómi EFTA-dómstólsins komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að framangreint ákvæði 5. gr. laganna væri ekki í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB þar sem í 1. mgr. 3. gr. þeirrar tilskipunar væri með tæmandi hætti kveðið á um starfskjör útsendra starfsmanna. Aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið væri því ekki heimilt að kveða í innlendri löggjöf á um ríkari réttindi til handa umræddum starfsmönnum en kveðið væri á um í fyrrnefndri 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Dómstóllinn komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að laun í veikinda- og slysatilvikum á grundvelli framangreindrar 5. gr. laganna gætu ekki fallið undir hugtakið „lágmarkslaun“ í skilningi tilskipunarinnar þar sem gert væri ráð fyrir því í 5. gr. laganna að laun í veikinda- og slysatilvikum miðuðust við laun starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi en ekki við lágmarkslaun. Í frumvarpi þessu er því lagt til að ákvæði 5. gr. laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra verði breytt með þeim hætti að í stað þess að kveðið sé á um rétt útsendra starfsmanna til fastra launa í veikinda- og slysatilvikum verði kveðið á um rétt þeirra í veikinda- og slysatilvikum til kjarasamningsbundinna launa í viðkomandi starfsgrein í réttu hlutfalli við starfshlutfall þeirra hverju sinni. Enn fremur er í frumvarpi þessu lagt til að með kjarasamningsbundnum launum í viðkomandi starfsgrein sé átt við laun samkvæmt kjarasamningi á svæði því er samningurinn tekur til miðað við dagvinnu fyrir 8 klst. á dag eða 40 klst. á viku miðað við fullt starf í viðkomandi starfsgrein. Í þessu sambandi er jafnframt vísað til 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum, til að undirstrika að kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins kveða á um lágmarkskjör á innlendum vinnumarkaði fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til.
    Í ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra er kveðið á um slysatryggingar vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku umræddra starfsmanna. Í fyrrnefndum dómi EFTA-dómstólsins komst dómstóllinn enn fremur að þeirri niðurstöðu að í ákvæði þessu væri kveðið á um ríkari rétt útsendra starfsmanna hvað varðar starfskjör þeirra en kveðið væri á um í 1. mgr. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB. Því væri ekki heimilt að gera þá kröfu til erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til starfa hérlendis að tryggja þá starfsmenn sína með þeim hætti sem ákvæði laganna gerði ráð fyrir. Í ljósi þessarar niðurstöðu EFTA-dómstólsins er í frumvarpi þessu lagt til að ákvæði 7. gr. laganna verði fellt brott. Í samræmi við þá breytingu á lögunum er í frumvarpinu jafnframt lagt til að 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna verði felldur brott.
    Við gerð frumvarps þessa hafði velferðarráðuneytið samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Vinnumálastofnun.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2007,
um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn
tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra
(réttur til launa í veikindum).

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að koma til móts við niðurstöðu EFTA-dómstólsins í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi, nr. E-12/10, frá 28. júní 2011.
    Í fyrsta lagi er lagt til að réttur útsendra starfsmanna erlendra fyrirtækja til launa í veikinda- og slysatilvikum fyrstu tólf mánuðina í starfi miðist við kjarasamningsbundin laun í viðkomandi starfsgrein í réttu hlutfalli við starfshlutfall þeirra í stað fastra launa áður. Enn fremur er lagt til að breyting verði gerð á því að starfsmaður fái að halda kjarasamningsbundnum launum sínum í stað dagvinnulauna í þrjá mánuði ef hann forfallast af völdum slyss við vinnu, slyss á beinni leið til eða frá vinnu eða veikist af atvinnusjúkdómi. Í samræmi við þessar breytingar er í lögunum lögð til skilgreining á því hvað teljist vera kjarasamningsbundin laun og í því sambandi horft til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
    Í öðru lagi er lagt til að ákvæði um skyldubundnar slysatryggingar erlendra fyrirtækja vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku hjá útsendum starfsmönnum verði afnumið. Í niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA segir að ekki sé heimilt að kveða á um ríkari kröfur til erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til starfa hérlendis að tryggja þá starfsmenn sína með þeim hætti sem ákvæði laganna gerðu ráð fyrir.
    Í ljósi þess að ákvæði frumvarpsins lúta eingöngu að skyldu erlendra fyrirtækja til að greiða útsendum starfsmönnum sínum kjarasamningsbundin laun í stað fastra launa í veikinda- og slysatilvikum og afnámi kvaðar erlendra fyrirtækja til að slysatryggja útsenda starfsmenn sína þá verður ekki séð að frumvarpið muni auka útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.