Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.

Þingskjal 87  —  87. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum,
með síðari breytingum (breyting á viðaukum, fjölgun
tilkynningarskyldra framkvæmda).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
1. gr.

    Á eftir d-lið 3. gr. laganna kemur nýr stafliður, e-liður, svohljóðandi: Fyrirhuguð framkvæmd: Framkvæmd sem er komin á það stig að hún geti hlotið málsmeðferð skv. IV. kafla.

2. gr.

    Síðari málsliður 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Á varnar- og öryggissvæðum fer ráðherra varnarmála með lögsögu í samræmi við skilgreiningu í varnarmálalögum, nr. 34/2008, sbr. og lög um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, nr. 110/1951, og lög um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006.


3. gr.

    Í stað orðanna ,,1. viðauka“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: flokki A í 1. viðauka.


4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „2. viðauka“ í 1. mgr. kemur: flokki B og flokki C í 1. viðauka.
     b.      Í stað 2. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Nú er fyrirhuguð framkvæmd meðal þeirra sem taldar eru í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lög þessi og ber framkvæmdaraðila þá að tilkynna Skipulagsstofnun um hana. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um hvaða gögn skuli lögð fram til Skipulagsstofnunar.
                      Falli framkvæmd í flokk B í 1. viðauka við lög þessi skal Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn um framkvæmdina berast taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögum þessum. Með fullnægjandi gögnum er átt við endanleg gögn sem umsagnaraðilar geta byggt umsagnir sínar á og geta verið grundvöllur ákvarðana Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Við ákvörðun um matsskyldu skal Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 2. viðauka. Áður skal stofnunin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Skipulagsstofnun skal gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og kynna hana almenningi.
                      Falli framkvæmd í flokk C í 1. viðauka við lög þessi skal Skipulagsstofnun innan tveggja vikna frá því að fullnægjandi gögn um framkvæmdina berast taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögum þessum. Með fullnægjandi gögnum er átt við endanleg gögn sem að mati Skipulagsstofnunar er hægt að byggja ákvörðun um matsskyldu á. Við ákvörðun um matsskyldu skal Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 2. viðauka. Skipulagsstofnun er heimilt að leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Leiti Skipulagsstofnun álits lengist frestur Skipulagsstofnunar til að taka ákvörðun um matsskyldu um eina viku. Skal Skipulagsstofnun gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og kynna hana almenningi.
     c.      Í stað orðsins „Almenningi“ í 3. mgr. kemur: Öllum.
     d.      Í stað orðanna „2. viðauka“ í 3. mgr. kemur: 1. viðauka.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „1. og 2. viðauka“ í 1. málsl. kemur: 1. viðauka.
     b.      Í stað orðanna „3. viðauka“ í 3. málsl. kemur: 2. viðauka.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skv. 1. mgr.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: samkvæmt flokki A.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                      Við útgáfu leyfis til framkvæmdar samkvæmt flokki B og flokki C skal leyfisveitandi kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Ef um matsskylda framkvæmd er að ræða samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar eða úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fer um málsmeðferð skv. 2. mgr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „2. viðauka“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: flokki B og flokki C í 1. viðauka.
     b.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 5. mgr. kemur: úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

8. gr.

    Í stað orðanna „skv. 2. viðauka“ í a-lið 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: samkvæmt flokki B og flokki C í 1. viðauka.

9. gr.

    Í stað 1. og 2. viðauka við lög þessi kemur nýr viðauki, 1. viðauki, sem orðast svo:

1. viðauki.

Flokkur framkvæmda
1. Landbúnaður, skógrækt og fiskeldi A B C
1.01 Framkvæmdir til endurskipulagningar á landareignum í dreifbýli sem taka til 20 ha eða stærra landsvæðis. X
1.02 Framkvæmdir til endurskipulagningar á landareignum í dreifbýli á landsvæði allt að 20 ha. X
1.03 Framkvæmdir til að leggja óræktað land eða lítt snortið svæði undir þaulnýtinn landbúnað. X
1.04 Vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, þ.m.t. áveitu- og framræsluframkvæmdir, sem hafa áhrif á 10 ha svæði eða stærra eða á verndarsvæðum. X
1.05 Vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, þ.m.t. áveitu- og framræsluframkvæmdir, sem hafa áhrif á allt að 10 ha svæði. X
1.06 Nýræktun skóga á 200 ha svæði eða stærra eða á verndarsvæðum sem breytir fyrri landnotkun. Varanleg skógareyðing sem breytir fyrri landnotkun. X
1.07 Nýræktun skóga á allt að 200 ha svæði sem breytir fyrri landnotkun. X
1.08 Uppgræðsla lands á verndarsvæðum. X
1.09 Þauleldi alifugla og svína með að minnsta kosti: X
i. 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 fyrir hænur,
ii. 3.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) eða fleiri eða
iii. 900 stæði fyrir gyltur eða fleiri.
1.10 Þauleldi búfjár utan þess sem tilgreint er í flokki A samkvæmt tölulið 1.09. X
1.11 Þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er 20 tonn eða meiri og fráveita í ferskvatn. X
1.12 Þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er minni en 200 tonn og fráveita til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er minni en 20 tonn og fráveita í ferskvatn. X
1.13 Endurheimt lands frá hafi. X
2. Námuiðnaður A B C
2.01 Efnistaka og/eða haugsetning á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska 50.000 m² svæði eða stærra eða efnismagn er 150.000 m³ eða meira. X
2.02 Efnistaka og/eða haugsetning á verndarsvæðum. X
2.03 Efnistaka og/eða haugsetning á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska 25.000 m² svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m³ eða meira. Efnistaka og/eða haugsetning þar sem fleiri en einn efnistökustaður og/eða haugsetningarstaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 25.000 m². X
2.04 Efnistaka og/eða haugsetning á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska minna en 25.000 m² svæði eða efnismagn er minna en 50.000 m³. X
2.05 Neðanjarðarnámur. X
2.06 Djúpborun (að frátalinni borun til að kanna stöðugleika jarðvegs), einkum: X
i. borun á vinnsluholum og rannsóknarholum á háhitasvæðum,
ii. borun eftir jarðhita á lághitasvæðum þar sem ölkeldur, laugar eða hverir eru á yfirborði eða í næsta nágrenni,
iii. borun fyrir geymslu kjarnorkuúrgangs,
iv. vinnsla og rannsóknarboranir vegna kolvetnis utan netlaga og innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka,
v. borun eftir vatni þar sem gert er ráð fyrir að vinna að minnsta kosti 100 l/sek.,
vi. borun eftir vatni þar sem gert er ráð fyrir að vinna allt að 100 l/sek. X
2.07 Iðjuver ofan jarðar til að nema kol, jarðolíu, jarðgas og málmgrýti, svo og jarðbiksleir. X
3. Orkuiðnaður A B C
3.01 Olíuhreinsunarstöðvar (þó ekki fyrirtæki sem framleiða eingöngu smurolíur úr hráolíu) og mannvirki fyrir kolagösun og þéttingu úr a.m.k. 500 tonnum af kolum eða jarðbiksleir á dag. X
3.02 Jarðvarmavirkjanir og önnur varmaorkuver með 50 MW uppsett varmaafl eða meira og önnur orkuver með 10 MW uppsett rafafl eða meira. X
3.03 Kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar, einnig þegar slík orkuver eða kjarnakljúfar (kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar teljast ekki lengur til slíkra stöðva þegar öll kjarnakleyf efni og önnur geislamenguð efni hafa verið endanlega fjarlægð af staðnum) eru rifin niður eða tekin úr notkun (nema rannsóknastöðvar með yfir 1 kW heildarhitaafköst þar sem fram fer umbreyting á kjarnakleyfum efnum og tímgunarefnum). X
3.04 Stöðvar þar sem geisluð kjarnakleyf efni eru endurunnin. Stöðvar til framleiðslu eða auðgunar kjarnakleyfra efna, til vinnslu geislaðra kjarnakleyfra efna eða mjög geislavirks úrgangs, til endanlegrar geymslu á geisluðum kjarnakleyfum efnum, eingöngu til endanlegrar geymslu á geislavirkum úrgangi eða eingöngu til geymslu (til meira en tíu ára) á geisluðum kjarnakleyfum efnum eða geislavirkum úrgangi annars staðar en á framleiðslustað. X
3.05 Stöðvar til vinnslu og geymslu á geislavirkum úrgangi, utan þeirra sem tilgreindar eru í flokki A samkvæmt tölulið 3.04. X
3.06 Vinnsla á meira en 500 tonnum á dag af jarðolíu og meira en 500.000 m³ af jarðgasi á dag. X
3.07 Iðjuver til framleiðslu á rafmagni, gufu og heitu vatni og varmavinnsla úr jarðhitasvæðum sem nemur 2.500 kW hráafli eða meira. X
3.08 Loftlínur til flutnings á raforku með 66 kV spennu eða hærri. Sæstrengir til flutnings á raforku með 132 kV spennu eða hærri og eru 20 km eða lengri. X
3.09 Flutningskerfi gass, gufu eða heits vatns sem tengist iðnaðarframkvæmdum. X
3.10 Leiðslur sem eru 1 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á gasi eða vökvum sem eru eldfimir eða hættulegir umhverfi. X
3.11 Leiðslur sem eru 1 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á koltvísýringi (CO2) sem binda á í jarðlög, ásamt þrýstiaukadælu. X
3.12 Leiðslur til flutnings á olíu og gasi og til flutnings á koltvísýringi (CO2) til bindingar í jarðlögum á verndarsvæðum. X
3.13 Leiðslur til flutnings á olíu og gasi og til flutnings á koltvísýringi (CO2) til bindingar í jarðlögum utan verndarsvæða. X
3.14 Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu eða efnavörur með 50.000 m³ geymslugetu eða meira. X
3.15 Geymsla á jarðgasi ofanjarðar á verndarsvæðum. X
3.16 Geymsla á jarðgasi ofanjarðar, utan verndarsvæða. X
3.17 Neðanjarðargeymsla á eldfimu gasi á verndarsvæðum. X
3.18 Neðanjarðargeymsla á eldfimu gasi utan verndarsvæða. X
3.19 Geymsla jarðefnaeldsneytis ofanjarðar á verndarsvæðum. X
3.20 Geymsla jarðefnaeldsneytis ofanjarðar, utan verndarsvæða. X
3.21 Gerð taflna úr kolum og brúnkolum. X
3.22 Vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira. X
3.23 Vatnsorkuver með uppsett rafafl allt að 200 kW. X
3.24 Stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu (vindbú) með 2 MW uppsett rafafl eða meira. X
3.25 Stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu (vindbú) með minna en 2 MW rafafl. X
3.26 Geymslusvæði fyrir koltvísýring (CO2) sem binda á í jarðlög. X
3.27 Mannvirki, sem hafa þann tilgang að fanga koltvísýring (CO2) sem binda á í jarðlög, frá verksmiðjum eða iðjuverum sem heyra undir flokk A eða frá verksmiðjum eða iðjuverum þar sem árlegt heildarmagn koltvísýrings sem fangaður er nemur 1,5 megatonnum eða meira. X
3.28 Mannvirki, sem hafa þann tilgang að fanga koltvísýring (CO2) sem binda á í jarðlög, frá verksmiðjum eða iðjuverum sem falla ekki undir flokk A samkvæmt tölulið 3.27. X
4. Framleiðsla og vinnsla málma A B C
4.01 Verksmiðjur þar sem fram fer frumbræðsla á steypujárni og stáli. Framleiðsla hrámálms, sem inniheldur ekki járn úr grýti, kirni eða afleiddu hráefni, fer fram með málmvinnsluaðferðum, efnafræðilegum aðferðum eða rafgreiningaraðferðum. X
4.02 Stöðvar til framleiðslu á 20 tonnum á dag eða meira af steypujárni og stáli (fyrsta og önnur bræðsla) ásamt samfelldri steypingu. X
4.03 Stöðvar til framleiðslu allt að 20 tonnum á dag af steypujárni og stáli (fyrsta og önnur bræðsla) ásamt samfelldri steypingu. X
4.04 Stöðvar til vinnslu á járnkenndum málmum: X
i. heitvölsunarstöðvar,
ii. smiðjur með hömrun,
iii. varnarhúðun með bræddum málmum.
4.05 Málmsteypusmiðjur fyrir járnkennda málma. X
4.06 Stöðvar til bræðslu, einnig málmblendis, á járnlausum málmum öðrum en góðmálmum, einnig endurheimtum vörum (hreinsun, steypa í steypusmiðjum o.s.frv.). X
4.07 Stöðvar þar sem unnið er að yfirborðsmeðferð málma og plastefna með rafgreiningar- og efnaaðferðum. X
4.08 Framleiðsla og samsetning vélknúinna ökutækja og framleiðsla á hreyflum í slík ökutæki. X
4.09 Skipasmíðastöðvar. X
4.10 Stöðvar sem eru 1 ha að stærð eða meira til smíða og viðgerða á loftförum. X
4.11 Stöðvar sem eru allt að 1 ha að stærð til smíða og viðgerða á loftförum. X
4.12 Framleiðsla á járnbrautarbúnaði. X
4.13 Málmmótun með sprengiefnum. X
4.14 Stöðvar til að brenna og glæða málmgrýti. X
5. Steinefnaiðnaður A B C
5.01 Koxofnar (þurreiming kola). X
5.02 Sementsverksmiðjur. X
5.03 Stöðvar til framleiðslu á gleri og trefjaefni. X
5.04 Stöðvar til að bræða steinefni og framleiða steinefnatrefjar. X
5.05 Framleiðsla á keramikvörum með brennslu, svo sem þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteinum, flísum, leirmunum eða postulíni, 75 tonn á dag eða meira eða rúmtak ofns er 4 m³ eða meira. X
5.06 Framleiðsla á keramikvörum með brennslu, svo sem þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteinum, flísum, leirmunum eða postulíni, allt að 75 tonn á dag eða rúmtak ofns er undir 4 m³. X
6. Efnaiðnaður A B C
6.01 Efnaverksmiðjur sem framleiða: X
i. lífrænt hráefni,
ii. ólífrænt hráefni,
iii. áburð sem inniheldur fosfór, köfnunarefni eða kalíum (einnig áburðarblöndur),
iv. grunnvörur fyrir plöntuvarnarefni og lífeyða,
v. grunnlyfjavörur með efnafræðilegum og líffræðilegum aðferðum,
vi. sprengiefni.
6.02 Meðferð á hálfunnum vörum og framleiðsla kemískra efna. X
6.03 Framleiðsla á varnarefnum og lyfjum, málningu og lakki, gúmmílíki og peroxíðum. X
6.04 Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu og önnur kemísk efni á verndarsvæðum. X
6.05 Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu og önnur kemísk efni utan verndarsvæða. X
7. Matvælaiðnaður A B C
7.01 Vinnsla á olíu og fitu úr jurtum og dýrum á verndarsvæðum. X
7.02 Vinnsla á olíu og fitu úr jurtum og dýrum utan verndarsvæða. X
7.03 Pökkun og niðursuða á jurta- og dýraafurðum 75 tonn á dag eða meira á verndarsvæðum. X
7.04 Pökkun og niðursuða á jurta- og dýraafurðum sem ekki fellur í flokk B samkvæmt tölulið 7.03. X
7.05 Framleiðsla á mjólkurvörum 200 tonn á dag eða meira á verndarsvæðum. X
7.06 Framleiðsla á mjólkurvörum sem fellur ekki í flokk B samkvæmt tölulið 7.05. X
7.07 Öl- og maltgerð á verndarsvæðum. X
7.08 Öl- og maltgerð utan verndarsvæða. X
7.09 Framleiðsla á sætindum og sírópi á verndarsvæðum. X
7.10 Framleiðsla á sætindum og sírópi utan verndarsvæða. X
7.11 Sláturhús á verndarsvæðum. X
7.12 Sláturhús utan verndarsvæða. X
7.13 Stöðvar til sterkjuframleiðslu á verndarsvæðum. X
7.14 Stöðvar til sterkjuframleiðslu utan verndarsvæða. X
7.15 Fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 1.000 tonn á sólarhring eða meiri. X
7.16 Fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur á verndarsvæðum; fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 500 tonn á sólarhring eða meiri. X
7.17 Fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur utan þeirra sem falla í flokk A samkvæmt tölulið 7.15 og flokk B samkvæmt tölulið 7.16. X
7.18 Sykurverksmiðjur á verndarsvæðum. X
7.19 Sykurverksmiðjur utan verndarsvæða. X
8. Textíl-, leður-, timbur- og pappírsiðnaður A B C
8.01 Verksmiðjur: X
i. sem framleiða pappírsdeig úr timbri eða svipuðum trefjaefnum,
ii. sem framleiða pappír og pappa og geta framleitt meira en 200 tonn á dag.
8.02 Verksmiðjur til framleiðslu á pappír og pappa, utan þeirra sem tilgreind eru í flokki A samkvæmt tölulið 8.01. X
8.03 Stöðvar þar sem fram fer formeðferð (t.d. þvottur, bleiking, mersivinna) eða litun trefja eða textílefna. X
8.04 Stöðvar þar sem fram fer sútun á húðum og skinnum. X
8.05 Stöðvar þar sem fram fer vinnsla og framleiðsla á sellulósa. X
9. Gúmmíiðnaður A B C
9.01 Framleiðsla og meðferð á vörum úr gúmmílíki. X
10. Grunnvirki A B C
10.0 1 Framkvæmdir á iðnaðarsvæði sem taka til 50 ha eða stærra svæðis. X
10.0 2 Framkvæmdir á iðnaðarsvæði sem taka til allt að 50 ha svæðis. X
10.0 3 Stærri byggingarframkvæmdir í þéttbýli, þ.m.t. verslunarmiðstöðvar, bílastæði, íþróttaleikvangar, háskólar, sjúkrahús, nýuppbygging hverfa og aðrar sambærilegar framkvæmdir. X
10.0 4 Bygging samgöngumiðstöðva fyrir margþátta samgöngustarfsemi. X
10.0 5 Flugvellir með 2.100 m langa meginflugbraut eða lengri. X
10.0 6 Flugvellir með styttri en 2.100 m langa meginflugbraut. X
10.0 7 Lagning nýrra tveggja akreina vega með framúrakstursrein og vega með fjórar akreinar eða fleiri. X
10.0 8 Nýir vegir sem eru 10 km eða lengri. Enduruppbygging vega utan þéttbýlis þar sem samanlögð nýlagning utan eldra vegsvæðis er a.m.k. 10 km að lengd. X
10.0 9 Lagning tveggja akreina vega styttri en 10 km í þéttbýli. Allir nýir vegir utan þéttbýlis á verndarsvæðum og á svæðum sem eru á náttúruminjaskrá. Enduruppbygging vega utan þéttbýlis á verndarsvæðum. X
10.1 0 Allir nýir vegir og endurbygging vega sem ekki falla í flokk A samkvæmt tölulið 10.07 og 10.08 eða flokk B samkvæmt tölulið 10.09. X
10.1 1 Hafnir (viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir) sem skip stærri en 1.350 tonn geta siglt um. X
10.1 2 Viðlegubryggjur (að undanskildum ferjulægjum) sem tengdar eru við land og eru utan hafna, þar sem skip stærri en 1.350 tonn geta lagst að til losunar og lestunar. X
10.1 3 Hafnir og viðlegubryggjur utan þéttbýlis á verndarsvæðum. X
10.1 4 Aðrar hafnir og viðlegubryggjur en tilgreindar eru í flokki A samkvæmt tölulið 10.12 eða flokki B samkvæmt tölulið 10.13. X
10.1 5 Byggingarframkvæmdir við skipgengar vatnaleiðir og gerð skipaskurða og fráveituskurða. X
10.1 6 Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem 3 km² lands eða meira fara undir vatn eða rúmtak vatns er meira en 10 milljónir m³. X
10.1 7 Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni á verndarsvæðum, utan þeirra sem tilgreind eru í flokki A samkvæmt tölulið 10.16. X
10.1 8 Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni á verndarsvæðum, utan þeirra sem tilgreind eru í flokki A samkvæmt tölulið 10.16 og flokki B samkvæmt tölulið 10.17. X
10.1 9 Lagning járnbrauta um langar vegalengdir. X
10.2 0 Járnbrautir, sporvagnar, lestir í lofti og neðanjarðar, svifbrautir og ámóta brautir af sérstakri gerð sem notaðar eru eingöngu eða aðallega til fólksflutninga. X
10.2 1 Lagning áveitu- eða vatnsstokka um langan veg; loftlínur til flutnings raforku á verndarsvæðum; lagning niðurgrafinna strengja/lagna 10 km eða lengri utan þéttbýlis eða óháð vegalengd á verndarsvæðum. Lagning strengja/lagna í vatni/sjó 10 km eða lengri eða óháð vegalengd á verndarsvæðum. X
10.2 2 Mannvirki til að verjast rofi á strandlengjum á verndarsvæðum og svæðum á náttúruminjaskrá, t.d. með stíflugörðum, brimbrjótum, hafnargörðum og öðrum varnarmannvirkjum gegn ágangi sjávar. Landfyllingar þar sem áætluð uppfylling er 5 ha eða stærri. Undanskilið er viðhald og endurbygging framangreindra mannvirkja. X
10.2 3 Mannvirki til að verjast rofi á strandlengjum utan verndarsvæða eða svæða utan náttúruminjaskrár, t.d. með stíflugörðum, brimbrjótum, hafnargörðum og öðrum varnarmannvirkjum gegn ágangi sjávar. Landfyllingar þar sem áætluð uppfylling er allt að 5 ha. Undanskilið er viðhald og endurbygging framangreindra mannvirkja. X
10.2 4 Vinnsla grunnvatns eða íveita vatns í grunnvatn með 300 l/sek. meðalrennsli eða meira á ári. X
10.2 5 Vinnsla grunnvatns eða íveita vatns í grunnvatn sem ekki fellur undir flokk A, tölulið 10.24. X
10.2 6 Mannvirkjagerð þegar fyrirhugað er að veita meira en 1.000 l/sek. af vatni á milli vatnasviða. Flutningur á drykkjarvatni í leiðslum er undanskilinn. X
10.2 7 Mannvirkjagerð þegar fyrirhugað er að veita vatni á milli vatnasviða sem ekki fellur undir flokk A, tölulið 10.26. Flutningur á drykkjarvatni í leiðslum er undanskilinn. X
11. Aðrar framkvæmdir A B C
11.0 1 Kappaksturs- og reynsluakstursbrautir fyrir vélknúin ökutæki á svæðum sem skilgreind eru sem slík í skipulagi. X
11.0 2 Förgunarstöðvar þar sem spilliefni eru brennd, meðhöndluð með efnum eða urðuð. Aðrar förgunarstöðvar úrgangs sem meðhöndla meira en 500 tonn af úrgangi á ári. X
11.0 3 Förgunarstöðvar þar sem úrgangur er brenndur, meðhöndlaður með efnum eða urðaður og ekki eru tilgreindar í flokki A, tölulið 11.02. X
11.0 4 Skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða iðnaði, þ.m.t. stöðvum með þaulnýtnum landbúnaði með afkastagetu sem svarar til 50.000 persónueininga eða meira. X
11.0 5 Skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða iðnaði, þ.m.t. stöðvum með þaulnýtnum landbúnaði með afkastagetu sem svarar til 100 persónueininga eða meira á verndarsvæðum, svæðum á náttúruminjaskrá eða þar sem losað er í viðkvæman viðtaka, að undanskildum þeim er tilgreind eru í flokki A, tölulið 11.04. X
11.0 6 Skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða iðnaði, þ.m.t. stöðvum með þaulnýtnum landbúnaði utan verndarsvæða, sem ekki eru tilgreind í flokki A, tölulið 11.04, eða flokki B í tölulið 11.05. X
11.0 7 Förgunarstöðvar fyrir seyru á verndarsvæðum. X
11.0 8 Förgunarstöðvar fyrir seyru utan verndarsvæða. X
11.0 9 Geymsla brotajárns, þ.m.t. bílar, sem er að magni 1.500 tonn á ári eða meira. X
11.1 0 Geymsla brotajárns, þ.m.t. bílar, sem er að magni allt að 1.500 tonn á ári. X
11.1 1 Prófunaraðstaða fyrir vélar, hverfla eða hvarfrými. X
11.1 2 Stöðvar sem framleiða steinefnatrefjar. X
11.1 3 Stöðvar til að endurvinna sprengiefni eða eyða því. X
11.1 4 Förgun sláturúrgangs. X
11.1 5 Endurnýting úrgangs þar sem meðhöndluð eru meira en 500 tonn af úrgangi á ári. X
11.1 6 Varnargarðar til varnar ofanflóðum í þéttbýli. X
12. Ferðalög og tómstundir A B C
12.0 1 Skíðasvæði, skíðalyftur og kláfar og tengdar framkvæmdir á skíðasvæðum á verndarsvæðum og jöklum. X
12.0 2 Skíðasvæði, skíðalyftur og kláfar á skíðasvæðum og tengdar framkvæmdir utan verndarsvæða og jökla. X
12.0 3 Smábátahafnir sem hafa 150 bátalægi eða fleiri. X
12.0 4 Smábátahafnir með allt að 150 bátalægi. X
12.0 5 Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi og á verndarsvæðum á láglendi utan þéttbýlis, orlofsþorp, hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis. X
12.0 6 Varanleg tjaldsvæði og hjólhýsasvæði sem eru 10 ha eða stærri. X
12.0 7 Varanleg tjaldsvæði og hjólhýsasvæði allt að 10 ha. X
12.0 8 Skemmtigarðar sem ná yfir 2 ha svæði eða meira. X
12.0 9 Skemmtigarðar sem ná yfir allt að 2 ha svæði. X
12.1 0 Golfvellir. X
13. Breytingar og viðbætur við framkvæmdir A B C
13.0 1 Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A þegar breytingin eða viðbótin sjálf fer yfir þau viðmið sem flokkur A setur. X
13.0 2 Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir samkvæmt flokki A og flokki B sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. X
13.0 3 Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem eru í flokki C sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. X
13.0 4 Framkvæmdir samkvæmt flokki A sem ráðist er í eingöngu eða aðallega til að þróa og prófa nýjar aðferðir eða vörur en eru ekki notaðar lengur en tvö ár. X

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. viðauka laganna sem verður 2. viðauki þeirra:
     a.      Í stað orðanna ,,2. viðauka“ í inngangsmálslið kemur: flokki B og flokki C í 1. viðauka.
     b.      A-liður iii. liðar 2. tölul. orðast svo: friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, þar á meðal svæða á náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun, og náttúrufyrirbæra sem falla undir ákvæði 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, einnig landsvæða í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt lögum nr. 48/2011.
     c.      E-liður iii. liðar 2. tölul. orðast svo: svæða sem njóta verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, svo sem Ramsarsamningsins (votlendi) og Bernarsamningsins (verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu), friðaðra og friðlýstra tegunda sem og ábyrgðartegunda; tegundir á válista falla hér undir enda válistar m.a. gefnir út til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Bernarsamningnum.
     d.      Við iv. lið 2. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: þéttbýlla svæða.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


12. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breyting á lögum nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, með síðari breytingum:
    Í stað orðanna „lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: A- og B- flokki í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Tilskipun ráðsins 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið var tekin í íslenskan rétt með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Tilskipun ráðsins 97/11/EB um breytingu á tilskipun 85/337/EBE fól í sér umtalsverðar breytingar á tilskipun 85/337/EBE. Voru breytingarnar það viðamiklar að nauðsynlegt þótti að ráðast í heildarendurskoðun þágildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Var frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum samþykkt á Alþingi í maí árið 2000 og tóku lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, gildi 6. júní árið 2000. Frá árinu 1997 hefur tilskipun 85/337/EBE tvívegis verið breytt, þ.e. með tilskipun 2003/ 35/EB og tilskipun 2009/31/EB, og verða þær tilskipanir teknar inn í EES-samninginn á næstu missirum. Rétt þykir því að taka ákvæði tilskipana er fjalla um mat á umhverfisáhrifum upp með frumvarpi þessu.
    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem falið var að vinna frumvarp um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Starfshópurinn var skipaður 14. júní 2011 og hann skipuðu Íris Bjargmundsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneyti, formaður, Erna Hrönn Geirsdóttir, lögfræðingur hjá Skipulagsstofnun, Jakob Gunnarsson, sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun, og Rut Kristinsdóttir, sviðsstjóri hjá Skipulagsstofnun. Var starfshópnum falið að vinna að gerð frumvarps til laga um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem hafðar væru til hliðsjónar athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem bárust umhverfisráðuneytinu vegna laga um mat á umhverfisáhrifum auk tillagna á grundvelli reynslu af framkvæmd laganna. Frumvarpið var einnig lagt fram á 140. löggjafarþingi, en hlaut ekki endanlega afgreiðslu umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Frumvarpið er nú lagt fram með lítils háttar efnislegum breytingum. Breytt er orðalagi liða 10.07 og 10.09 í 9. gr. frumvarpsins vegna athugasemda Vegagerðarinnar. Í 10. gr. frumvarpsins er bætt við ákvæði til breytinga á 1. mgr. 3. viðauka laganna, sem verður 2. viðauki laganna. Einnig er í 10. gr. frumvarpsins nýjum tölulið, j-lið, bætt við iv. lið 2. tölul. 3. viðauka laganna, sem verður 2. viðauki laganna vegna athugasemda ESA um að við mat á álagsþoli náttúrunnar verði horft til þéttbýlla svæða. Enn fremur er með 12. gr. frumvarpsins fallið frá því að C-flokkur framkvæmda falli undir lög um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006, og vísast til skýringa í athugasemdum við 12. gr. frumvarpsins.

II. Athugasemdir ESA við innleiðingu Íslands á tilskipun 85/337/EBE.
    Umhverfisráðuneytinu bárust athugasemdir ESA með bréfi, dags. 1. febrúar 2010. Þar er vísað til þess að í ljósi nýlegs dóms Evrópudómstólsins nr. C-255/08, Framkvæmdastjórnin gegn Hollandi, hafi ESA ákveðið að hefja skoðun á innleiðingu EES/EFTA-ríkjanna á tilskipun 85/337/EBE. Gerir ESA athugasemdir við innleiðingu tilskipunarinnar í lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Fjalla athugasemdirnar annars vegar um þau viðmið matsskyldra og tilkynningarskyldra framkvæmda sem er að finna í 1. og 2. viðauka núgildandi laga og hins vegar um orðalag nokkurra ákvæða 1. og 2. viðauka núgildandi laga.

a.    Athugasemdir ESA er varða viðmið matsskyldra og tilkynningarskyldra framkvæmda.
    Þau ákvæði 1. og 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum sem innihalda viðmiðanir sem ESA gerir athugasemdir við eru eftirfarandi:
     Í 1. viðauka:
         25. tölul.
     Í 2. viðauka:
        A-, c-, d-, f- og g-liður 1. tölul.
        A- og c-liður 2. tölul.
        A-, b-, c-, d-, e- og h-liður 3. tölul.
        A- og h-liður 4. tölul.
        F-liður 5. tölul.
        C-liður 6. tölul.
        A-, b-, c-, d-, e-, f-, g-, h- og i-liður 7. tölul.
        C-, e-, f-, h- og i-liður 10. tölul.
        C-, d- og e-liður 11. tölul.
        A-, b-, c-, e- og f-liður 12. tölul.
    Er í athugasemdunum farið yfir þau ákvæði tilskipunarinnar sem við eiga og túlkun Evrópudómstólsins á þeim ákvæðum. Þau ákvæði tilskipunarinnar sem athugasemdir ESA lúta að eru 1. tölul. 2. gr. og 1., 2. og 3. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar og vísar ESA í röksemdum sínum til nokkurra dóma Evrópudómstólsins þar sem fjallað hefur verið um túlkun þessara ákvæða tilskipunarinnar.

i. Ákvæði tilskipunar 85/337/EBE.
    Þau ákvæði tilskipunarinnar sem við eiga eru eftirfarandi:
    Í 1. tölul. 2. gr. tilskipunar 85/337/EBE segir að aðildarríki skuli gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að áður en leyfi er veitt sé þess krafist að framkvæmdir sem geta haft í för með sér veruleg áhrif á umhverfið, m.a. vegna eðlis þeirra, umfangs eða staðsetningar, séu háðar kröfum um leyfi til framkvæmda og mati á áhrifum þeirra. Þessar framkvæmdir eru skilgreindar í 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 1. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar segir að með fyrirvara um ákvæði 3. mgr. 2. gr. skuli aðildarríkin, þegar um ræðir framkvæmdir sem eru taldar upp í I. viðauka, vera háðar mati í samræmi við 5.–10. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar segir að með fyrirvara um ákvæði 3. mgr. 2. gr. skuli aðildarríkin, þegar um ræðir framkvæmdir sem taldar eru upp í viðauka II, ákveða:
     a.      með því að skoða hvert tilvik um sig (e. case by case), eða
     b.      taka mið af þeim mörkum eða viðmiðunum sem aðildarríkið hefur sett (e. thresholds or criteria)
hvort framkvæmd skuli háð mati í samræmi við 5.–10. gr. tilskipunarinnar. Aðildarríkin geta ákveðið að beita báðum aðferðunum sem um getur í a- og b-lið.
    Í 3. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar segir að þegar einstök tilvik séu skoðuð eða mörk eða viðmiðanir ákveðin vegna 2. tölul. beri að taka tillit til viðeigandi valviðmiðana í viðauka III tilskipunarinnar.
    Í viðauka III tilskipunarinnar, sbr. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, koma fram viðmið eins og eiginleikar hugsanlegra áhrifa framkvæmdar og staðsetning og eðli áhrifa framkvæmdarinnar.

ii. Dómar Evrópudómstólsins.
    Evrópudómstóllinn hefur fjallað um framangreind ákvæði tilskipunar 85/337/EBE í nokkrum dómum sínum.
    Í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-392/96, Framkvæmdastjórnin gegn Írlandi, bendir dómstóllinn á að jafnvel lítil framkvæmd geti haft mikil áhrif á umhverfið ef framkvæmdin er staðsett þar sem umhverfisþættir, sbr. 3. gr. tilskipunarinnar, eins og fána og flóra, jarðvegur, vatn, loftslag eða menningarleg arfleifð eru viðkvæmir fyrir minnstu breytingum.
    Í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-72/95, Kraaijeveld og aðrir gegn Hollandi, segir að þau mörk eða þröskuldsgildi sem kveðið sé á um í 2. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar séu sett til að auðvelda skoðun á einkennum framkvæmdar til ákvörðunar um hvort framkvæmdin eigi að falla undir mat á umhverfisáhrifum en ekki til að útiloka fyrir fram ákveðnar tegundir framkvæmda sem tilgreindar eru í viðauka II tilskipunarinnar og búast megi við að muni verða farið í innan aðildarríkisins.
    Í dómum Evrópudómstólsins hefur dómstóllinn fjallað um svigrúm ríkja til ákvarðana um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum í skilningi tilskipunarinnar. Í fyrrnefndum dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-72/95 segir að jafnvel þó að 2. tölul. 4. gr. tilskipunar 85/337/EBE veiti aðildarríki svigrúm til ákvörðunar um hvaða tegundir framkvæmda séu háðar mati á umhverfisáhrifum eða setningu marka eða þröskuldsgilda þá takmarki 1. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar, um að framkvæmdir sem eru líklegar sökum eðlis, stærðar eða staðsetningar að hafa veruleg áhrif á umhverfið eigi að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, þá ákvörðun. Að sömu niðurstöðu komst dómstóllinn í máli nr. C-392/96, Framkvæmdastjórnin gegn Írlandi, og máli nr. C-255/08, Framkvæmdastjórnin gegn Hollandi.
    Í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. 435/1997, WWF og aðrir gegn Autonome Provinz Bozen, segir dómstóllinn að hvaða aðferð sem aðildarríkin styðjist við til ákvörðunar um matsskyldu, hvort sem slíkt mat fari fram með lögbundnum viðmiðunum eða með því að skoða hvert tilvik fyrir sig, megi sú aðferð ekki grafa undan markmiðum tilskipunarinnar sem sé að engin framkvæmd sem kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi tilskipunarinnar verði undanþegin mati á umhverfisáhrifum nema sú framkvæmd hafi á grunni víðfeðmar skoðunar ekki verið talin hafa slík áhrif.
    Jafnframt kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu í fyrrgreindum málum nr. C-392/96 og C-255/08 og í máli nr. C-66/06, Framkvæmdastjórnin gegn Írlandi, að þau aðildarríki sem hafi tilgreind viðmiðunarmörk eða þröskuldsgildi í ákvæðum viðaukanna sem aðeins byggjast á stærð framkvæmdarinnar án þess að taka tillit til eðlis framkvæmdarinnar eða staðsetningar hennar fari út fyrir svigrúm sitt til ákvörðunar skv. 1. tölul. 2. gr. og 2. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Dómstóllinn hefur einnig komist að svipaðri niðurstöðu þar sem ríki hafa sett inn viðmiðunarmörk tengd verndarsvæðum. Í máli nr. C-474/99, Framkvæmdastjórnin gegn Spáni, komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að við ákveðnar kringumstæður geti val á viðmiðunarmörkum í tengslum við staðsetningar eins og „verndarsvæði“ til að uppfylla markmið 2. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar haft þau áhrif að undanskilinn skyldu á mati verði fjöldi framkvæmda sem eru utan við vernduð svæði en eru líklegar til að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið. Er slíkt val á viðmiðunarmörkum sem kemur í veg fyrir að tekið sé til greina viðmið og/eða þröskuldsgildi sem tengjast stærð og eðli framkvæmda aðildarríkjum ekki heimilt skv. 1. tölul. 2. gr. og 2. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Samkvæmt athugasemdum ESA sem fær stoð í fyrrnefndri dómaframkvæmd Evrópudómstólsins er niðurstaðan sú að aðildarríki sem setur þröskuldsgildi eða mörk á grundvelli 2. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar sem aðeins taka mið af stærð framkvæmdar og/eða staðsetningu án þess að horft sé til annarra viðmiða viðauka III tilskipunarinnar fari út fyrir svigrúm sitt til ákvörðunar skv. 1. tölul. 2. gr. og 2. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í athugasemdum ESA segir að við innleiðingu tilskipunar 85/337/EBE í íslenskan rétt hafi Ísland farið þá leið að nota þröskuldsgildi eða mörk til að skilgreina ákveðna framkvæmdaflokka 2. viðauka laganna sem ættu að vera háðir nánari skoðun og mati á áhrifum. Ísland hafi einnig notað frekari viðmið fyrir ákveðna framkvæmdaflokka eins og staðsetningu framkvæmdar innan verndarsvæðis eða staðsetningu á öðrum skilgreindum stöðum eins og hálendi eða láglendi. Afleiðing þess sé að framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka laganna og eru á verndarsvæðum eða öðrum tilgreindum svæðum undirgangast mat en framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka laganna og falla neðan viðmiðunarmarka eða eru utan verndarsvæða fara ekki í slíkt mat. Þær framkvæmdir eru því útilokaðar frá hvers konar mati á umhverfisáhrifum nema þær falli undir ákvæði 1. viðauka laganna.
    Niðurstaða ESA er því sú að framkvæmdir sem heyra undir framkvæmdaflokka þá sem tilgreindir eru í viðauka II tilskipunarinnar en falla utan við viðmiðunarmörk 1. og 2. viðauka laganna eða eru ekki taldar þar upp og/eða eru ekki á verndarsvæðum séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum eða nánari skoðun. Falla slík tilvik því utan við gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Í núgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum er farin sú leið að tilgreina þröskuldsgildi eða viðmiðunarmörk við mat á því hvort framkvæmd skuli vera háð mati á umhverfisáhrifum. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir að þær framkvæmdir sem falla utan við viðmiðunarmörk viðaukanna séu metnar með hliðsjón af 3. viðauka laganna. Eru þær framkvæmdir sem ekki ná tilgreindum þröskuldsgildum eða viðmiðunarmörkum í 2. viðauka laganna því ekki tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu og tekur Skipulagsstofnun þar með ekki afstöðu til þess hvort þær framkvæmdir skuli vera matsskyldar samkvæmt lögunum.

b.    Athugasemdir ESA við orðalag nokkurra ákvæða viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum.
    Eins og að framan greinir gerði ESA einnig athugasemdir við orðalag einstakra ákvæða viðauka núgildandi laga. Leiddu þær athugasemdir til breytinga á einstökum ákvæðum viðaukanna. Hér á eftir er að finna yfirlit yfir þau ákvæði laganna sem gerð var athugasemd við að hálfu ESA.

1. viðauki
2. tölul. Jarðvarmavirkjanir og önnur varmaorkuver með 50 MW uppsett varmaafl eða meira og önnur orkuver með 10 MW uppsett rafafl eða meira.
5. tölul. Verksmiðjur þar sem fram fer frumframleiðsla eða endurbræðsla á málmum.
10. tölul. i.    Stofnbrautir í þéttbýli.
ii.    Nýir vegir utan þéttbýlis sem eru 10 km eða lengri. Enduruppbygging vega utan þéttbýlis þar sem nýlagning samkvæmt áætlunum er a.m.k. 10 km að lengd.
11. tölul. Hafnir (viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir) sem skip stærri en 1.350 tonn geta siglt um.
13. tölul. Kerfi til að vinna grunnvatn ef árlegt magn vatns sem unnið er eða veitt á er 10 milljónir m3 eða meira.
18. tölul. Leiðslur sem eru 1 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á gasi eða vökvum sem eru eldfimir eða hættulegir umhverfi.
22. tölul. Loftlínur utan þéttbýlis til flutnings á raforku með 66 kV spennu eða hærri. Sæstrengir til flutnings á raforku með 132 kV spennu eða hærri og eru 20 km eða lengri.
23. tölul. Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu eða efnavörur með 50.000 m3 geymslugetu eða meira.
2. viðauki
A-liður 2. tölul. Efnistaka á landi eða úr hafsbotni þar sem áætluð efnistaka raskar 25.000 m2 svæði eða stærra eða er 50.000 m3 eða meiri. Efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 25.000 m2.
C-liður ii. 2. tölul. Borun eftir jarðhita á lághitasvæðum þar sem ölkeldur, laugar eða hverir eru á yfirborði eða í næsta nágrenni,
C-liður iv. 2. tölul. Borun eftir neysluvatni miðað við 2 milljóna m3 ársnotkun eða meiri,
D-liður 2. tölul. Jarðvarmavirkjanir ofanjarðar til að nema kol, jarðolíu, jarðgas og málmgrýti, svo og jarðbiksleir.
G-liður 4. tölul. Stálskipasmíðastöðvar.
C-liður 10. tölul. Tengibrautir í þéttbýli. Allir nýir vegir utan þéttbýlis á verndarsvæðum og á svæðum sem eru á náttúruminjaskrá. Enduruppbygging vega utan þéttbýlis á verndarsvæðum. Hafnir utan þéttbýlis á verndarsvæðum.
J-liður 10. tölul. Vinnsla grunnvatns og tilflutningur grunnvatns.
C-liður 12. tölul. Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi.
D-liður 12. tölul. Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi.
    Á fundi umhverfisráðuneytis og ESA upplýsti ESA að gerð væri krafa um að þær framkvæmdir sem falla utan við núverandi viðmiðunarmörk 2. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum verði metnar út frá þeim viðmiðunum sem fram koma í 3. viðauka laganna. Enn fremur upplýsti ESA að ekki væri gerð krafa um sambærilega málsmeðferð fyrir þær framkvæmdir og framkvæmdir sem er að finna í 2. viðauka núgildandi laga. Er Íslandi þannig heimilt að taka upp einfaldari málsmeðferð fyrir þær framkvæmdir sem falla utan við viðmiðunarmörk 2. viðauka laganna. Í ljósi þess er í frumvarpi þessu gerð tillaga um að þær framkvæmdir sem falla neðan viðmiðunarmarka skv. 2. viðauka núgildandi laga verði tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar. Einnig er gerð tillaga um að þær framkvæmdir fái sérstaka málsmeðferð sem er einfaldari en sú málsmeðferð sem ráð er fyrir gert varðandi tilkynningarskyldar framkvæmdir í núgildandi lögum.
    Síðasta viðamikla breytingin sem gerð var á lögum um mat á umhverfisáhrifum var gerð með lögum nr. 74/2005. Frá þeim tíma hafa komið í ljós vankantar á einstökum ákvæðum laganna sem nauðsynlegt þykir að laga. Í frumvarpinu eru því einnig gerðar tillögur um breytingar á lögunum á grundvelli þess.

III. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningar þessarar eru athugasemdir ESA við innleiðingu Íslands á einstökum ákvæðum tilskipunar 85/337/EBE. Eru athugasemdir ESA tilkomnar vegna dómsniðurstöðu Evrópudómstólsins eins og að framan greinir. Að mati ESA uppfyllir Ísland ekki ákvæði tilskipunarinnar hvað varðar viðmið þau sem fram koma í 1. og 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Er markmið lagasetningar þessarar að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar að þessu leyti og koma til móts við athugasemdir ESA ásamt því að gera einstakar lagfæringar á lögunum sem þörf er talin á.
    Upphaflega var tilskipun 85/337/EBE innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 63/1993. Hefur tilskipun 85/337/EBE þrívegis verið breytt; með tilskipun 97/11/EB sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt með setningu núgildandi laga nr. 106/2000, tilskipun 2003/35/EB og tilskipun 2009/31/EB. Verða tilskipanir 2003/35/EB og 2009/31/EB teknar inn í EES-samninginn á næstu missirum.

IV. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er gerð tillaga um að framkvæmdir þær sem eru matsskyldar skv. 5. gr. laganna og tilkynningarskyldar til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laganna verði flokkaðar í þrjá flokka, flokk A, B og C. Í flokk A falla þær framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt núgildandi lögum og finna má í 1. viðauka laganna. Í flokki B er að finna þær framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt núgildandi lögum og falla þar undir 2. viðauka. Í flokki C eru þær framkvæmdir sem fallið hafa utan viðmiðunarmarka þeirra framkvæmda sem tilgreindar eru í 2. viðauka og nauðsynlegt þykir í ljósi athugasemda ESA að bæta við gildandi lög. Lagt er til að í stað þriggja viðauka verði tveir viðaukar. Í 1. viðauka verða tilgreindar þær framkvæmdir sem falla í A-, B- og C-flokk og í 2. viðauka er að finna ákvæði þau sem eru í 3. viðauka núgildandi laga með viðbótum. Gerðar eru breytingar á einstökum ákvæðum viðaukanna til að þau falli betur að ákvæðum tilskipunarinnar en einnig þótti ástæða til að gera orðalag skýrara og breyta mælieiningum á nokkrum stöðum. Gerð er tillaga að breyttri uppsetningu viðauka þar sem framkvæmdir samkvæmt núgildandi 1. og 2. viðauka eru númeraðar. Framkvæmdir eru flokkaðar saman og tilgreint er hvort viðkomandi framkvæmd falli í flokk A, B eða C. Talið er að sú uppsetning sé einfaldari og aðgengilegri en núverandi uppsetning viðaukanna.
    Gerð er tillaga að mismunandi málsmeðferð hvers flokks fyrir sig. Varðandi matsskyldar framkvæmdir, sem er að finna í 1. viðauka núgildandi laga og gerð er tillaga um að falli í flokk A, verður um óbreytta málsmeðferð að ræða frá núgildandi lögum. Varðandi þær framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, samkvæmt núgildandi 2. viðauka laganna og gerð er tillaga um að falli í flokk B, verður einnig um óbreytta málsmeðferð að ræða. Varðandi þær framkvæmdir sem fallið hafa utan viðmiðunarmarka núgildandi laga, og gerð er tillaga um að verði tilkynningarskyldar og falli í flokk C, er í frumvarpi þessu gerð tillaga að einfaldari málsmeðferð en lagt er til varðandi þær framkvæmdir sem falla í flokk B. Er markmið einfaldari málsmeðferðar að stytta þann tíma sem tekur Skipulagsstofnun að taka ákvörðun um matsskyldu. Gerðar verða vægari kröfur til framkvæmdaraðila um skil á gögnum með tilkynningu um framkvæmd til Skipulagsstofnunar og styttri tímafresti Skipulagsstofnunar til að taka ákvörðun um matsskyldu og verður Skipulagsstofnun heimilt en ekki skylt að leita umsagnar. Talið er að með framangreindum breytingum verði kröfum tilskipunarinnar fullnægt og komið til móts við athugasemdir ESA.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tillögur að breytingum á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með síðari breytingum. Ef frumvarp þetta verður að lögum mun það kalla á breytingu á reglugerð nr. 1123/2005. Eru tillögur þessar til komnar vegna athugasemda ESA við innleiðingu Íslands á tilskipun 85/337/EBE en öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins ber að innleiða þá tilskipun inn í sinn landsrétt.

V. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta hefur ekki gefið sérstakt tilefni til mats á samræmi við stjórnarskrá þar sem um er að ræða breytingu á núgildandi ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér eru í samræmi við skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir með aðild að alþjóðlegum og evrópskum samningum. Þar má nefna Ramsarsamninginn um votlendi sem Ísland gerðist aðili að árið 1977 og samninginn um líffræðilega fjölbreytni sem Ísland gerðist aðili að árið 1992.

VI. Samráð.
    Frumvarp þetta varðar framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnun vegna þeirrar aukningar á framkvæmdum sem munu heyra undir lög um mat á umhverfisáhrifum ef frumvarp þetta verður að lögum. Einnig mun frumvarpið hafa áhrif á sveitarfélögin vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar útgefinna framkvæmdaleyfa. Í skipulagslögum er kveðið á um heimild fyrir sveitarfélög til að innheimta framkvæmdaleyfisgjald fyrir framkvæmdir sem afla þarf framkvæmdaleyfis fyrir.
    Áður en frumvarp þetta var lagt fram á Alþingi var það sent til umsagnar tiltekinna framkvæmdaraðila, sveitarfélaga og hagsmunaaðila ásamt því að almenningi var gefinn kostur á að koma að athugasemdum við frumvarpið á heimasíðu umhverfisráðuneytisins. Alls bárust 29 umsagnir og leiddu ábendingar sem þar var að finna til nokkurra breytinga á einstökum ákvæðum frumvarpsins. Fjölluðu flestar umsagnir sem bárust um breytingu á ákvæðum varðandi skógrækt og þann kostnaðarauka sem lagabreyting mun hafa í för með sér fyrir framkvæmdaraðila.
    Verði frumvarp þetta samþykkt mun það leiða til þess að öll skógrækt verður tilkynningarskyld sem er í samræmi við tilskipun 85/337/EBE. Krafa er um að tilkynning til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skógræktar innihaldi ýmsar upplýsingar eins og kveðið verður á um í reglugerð. Benda má á að stór hluti af þeirri vinnu sem skógræktandi þarf væntanlega að leggja fram í skógræktaráætlun getur nýst sem efniviður í tilkynningu til Skipulagsstofnunar og því ætti umframkostnaður vegna tilkynningar á framkvæmd ekki að verða mjög hár.
    Einnig fjölluðu nokkrar umsagnir um hvernig túlka bæri athugasemdir ESA og niðurstöður Evrópudómstólsins varðandi innleiðingu tilskipunarinnar.
    Í einni umsögn segir m.a. að í frumvarpsdrögum sé ekki gert ráð fyrir að heimilt sé að kveða á um tilkynningarskyldu framkvæmda fyrir fram með setningu almennra viðmiðana. Hafi dómur Evrópudómstólsins í máli nr. C-255/08 ekki bannað það enda sé skýrt kveðið á um það í tilskipun 97/11/EB að slíkt sé heimilt. Dómurinn feli í sér að óheimilt sé að kveða aðeins á um tiltekin stærðarmörk heldur verði að horfa til þeirra þátta sem tilgreindir eru í viðauka III núgildandi laga þegar settar séu almennar viðmiðanir, svo sem varðandi staðsetningu og eðli framkvæmdar. Séu viðmið um hvort tilkynningarskyld framkvæmd eigi að vera matsskyld í 3. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum og sé heimilt að beita þeim annars vegar með setningu almennra viðmiðana eða að meta hverju sinni hvort ástæða sé til að meta umhverfisáhrif. Með frumvarpinu verði óheimilt að útiloka fyrir fram tilteknar framkvæmdir jafnvel þó að augljóst sé að mat á umhverfisáhrifum sé óþarft. Enn fremur segir að frumvarpsdrögin séu byggð á röngum ályktunum af gildandi EB-reglum um þær skyldur sem hvíli á ríkjum innan EES hvað það varðar. Fara þurfi nánar yfir álit ESA, dómaframkvæmd og gildandi tilskipanir til að leiða betur í ljós raunverulegar skyldur Íslands á þessu sviði.
    Í annarri umsögn segir m.a. að í frumvarpsdrögum hafi því verið haldið fram að dómur Evrópudómstólsins í máli nr. C-255/08 krefjist þess að lögum nr. 106/2000 verði breytt með þeim hætti sem lagt sé til í frumvarpsdrögunum. Sé fjallað um þann dóm í riti sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út um dóma Evrópudómstólsins í málum er varða mat á umhverfisáhrifum. Ekki sé hægt að lesa úr því riti þá túlkun sem frumvarpsdrögin virðast byggjast á. Skýrt komi fram að þröskuldsgildi verði að innihalda viðmið um stærð framkvæmda, eðli framkvæmda og staðsetningu. Það kalli vissulega á endurskoðun á 2. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum en annars konar breytingu á viðaukanum en þá sem lögð sé til í frumvarpsdrögunum. Enn fremur segir að frá því að lög nr. 106/2000 hafi tekið gildi hafi meira en 400 framkvæmdir verið tilkynntar til ákvörðunar um matsskyldu. Hafi aðeins 7% þeirra verið skyldaðar í mat. Veki það spurningu um hvort þröskuldsgildi 2. viðauka laganna séu of lág.
    Í núgildandi 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum er að finna um 50 ákvæði er innihalda viðmiðunargildi og er í öllum tilfellum annaðhvort miðað við staðsetningu eða stærð framkvæmdar. Í aðeins örfáum tilvikum er í núgildandi lögum að finna viðmiðunargildi sem tekur mið af hvoru tveggja, þ.e. bæði staðsetningu og stærð, en hvergi er að finna ákvæði þar sem tekið er mið af öllum þremur atriðunum, þ.e. staðsetningu, stærð og eiginleikum og/eða eðli áhrifa framkvæmdar. Fjallað hefur verið, hér að framan, á mjög ítarlegan hátt um þau ákvæði tilskipunarinnar sem um ræðir og dómaframkvæmd Evrópudómstólsins varðandi túlkun þeirra ákvæða. Evrópudómstóllinn hefur sagt í dómum sínum að ekki sé heimilt að setja viðmið sem taki aðeins til hluta af þeim viðmiðum sem fram koma í 3. viðauka núgildandi laga heldur verður að horfa til allra viðmiðanna, þ.e. stærðar og staðsetningar framkvæmdar og eiginleika áhrifa framkvæmdarinnar. Enn fremur hefur dómstóllinn sagt að hvaða aðferð sem aðildarríkin styðjist við til ákvörðunar um matsskyldu þá megi sú aðferð ekki grafa undan markmiðum tilskipunarinnar.
    Í ljósi framangreinds er það því talin vönduð málsmeðferð og í samræmi við markmið tilskipunarinnar að matsskylda framkvæmda skv. B- og C-flokki sé ákvörðuð í hverju tilviki fyrir sig með því að framkvæmd sé gerð tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar eins og lagt er til í frumvarpi þessu. Það liggur fyrir að aðildarríki geti ekki sett viðmiðunargildi þannig að allar framkvæmdir af tiltekinni tegund falli sjálfkrafa utan mats- og tilkynningarskyldu nema hægt sé að sýna fram á að allar þær framkvæmdir, þegar þær eru skoðaðar í heild, séu ekki líklegar til að hafa veruleg umhverfisáhrif. Ef farin yrði sú leið að bæta við frekari viðmiðunum t.d. varðandi staðsetningu og eiginleika/eðli framkvæmda við þær viðmiðanir sem nú eru til staðar, t.d. varðandi stærð, í núgildandi lögum er talið erfitt að sýna fram á og rökstyðja að þær framkvæmdir sem falla utan við þau viðmið séu ekki líklegar til að hafa veruleg umhverfisáhrif og fari þar með gegn markmiðsákvæði tilskipunarinnar. Enn fremur er óljóst hvaða viðmið mundu tryggja að aðeins þær framkvæmdir sem taldar eru hafa áhrif á umhverfið væru tilkynningarskyldar eða matsskyldar.
    Eins og áður segir kemur fram í framangreindum athugasemdum að fjöldi þeirra framkvæmda sem hafi verið skyldaðar í mat frá því að lög nr. 106/2000 hafi tekið gildi veki spurningar um hvort þröskuldsgildi 2. viðauka laganna séu of lág. Á það skal bent að tilgangur með umhverfismati framkvæmda er að áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið liggi fyrir áður en ráðist er í framkvæmdina. Þannig er tryggt að tekin verði upplýst ákvörðun um framkvæmdina byggð á þekkingu á áhrifum hennar. Þegar Skipulagsstofnun tekur þá ákvörðun að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum þá gefur það til kynna að nægjanlegar upplýsingar liggi fyrir um hver áhrif af framkvæmdinni verði. Það gefur vísbendingu um að við undirbúning framkvæmdarinnar hafi verið horft til áhrifa framkvæmdarinnar á umhverfið og reynt hafi verið að lágmarka áhrif hennar á umhverfið. Í ljósi framangreinds er það því í raun markmiðið með mati á umhverfisáhrifum að sem fæstar framkvæmdir séu matsskyldar. Það hversu fáar framkvæmdir hafa verið skyldaðar í mat gefur því vísbendingu um að lög um mat á umhverfisáhrifum nái þeim tilgangi sínum.
    Frumvarpsdrög voru send sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu til umsagnar en engar athugasemdir bárust.

VII. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið, verði það að lögum, hefur það í för með sér að fleiri framkvæmdir verða tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu Skipulagsstofnunar heldur en nú er samkvæmt núgildandi lögum. Það mun leiða til upplýstari ákvarðanatöku um fleiri framkvæmdir hvað varðar áhrif á umhverfið og gefa almenningi aukin tækifæri til að afla sér upplýsinga um fleiri framkvæmdir en verið hefur.
    Mun breytingin hafa í för með sér fjölgun tilkynninga til ákvörðunar um matsskyldu til Skipulagsstofnunar frá framkvæmdaraðilum. Reynt er að draga úr áhrifum þeirrar fjölgunar með því að tekin verði upp einfaldari málsmeðferð fyrir þær framkvæmdir sem ekki hafa verið tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu fram að þessu. Talið er óhætt að gera ráð fyrir styttri tíma til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmda sem falla í C-flokk en þeirra sem falla í B-flokk. Í fyrsta lagi er fljótlegra að fara yfir fylgigögn með tilkynningu um framkvæmd sem fellur í C-flokk en B-flokk þar sem um færri gögn er að ræða sem Skipulagsstofnun þarf að horfa til við matið. Í öðru lagi er talið að yfirferð umsagna vegna framkvæmda sem falla í C-flokk verði einfaldari og fljótlegri en vegna framkvæmda sem falla í B-flokk. Gert er ráð fyrir að í flestum tilfellum verði tilkynntar framkvæmdir þess eðlis að leita þurfi til aðeins fárra aðila varðandi umsagnir eða jafnvel engra í sumum tilfellum. Einnig má benda á að eftir því sem umsagnaraðilum fækkar aukast líkur á skjótari málsmeðferð þar sem minni líkur eru þá á að einstakir umsagnaraðilar geti tafið mál með því að skila seint inn umsögnum. Í frumvarpi þessu er lagt til að framkvæmdir þessar séu flokkaðar í C-flokk og eru í frumvarpinu gerðar tillögur að um 40 mismunandi framkvæmdum sem falla í C-flokk.
    Mun breytingin hafa í för með sér aukið álag á sveitarfélög vegna fjölgunar umsókna til sveitarfélaga um framkvæmdaleyfi.
    Fyrirsjáanlegt er einnig að fjölgun tilkynninga til ákvörðunar um matsskyldu muni valda auknu álagi á stjórnsýslu ríkisins, m.a. á úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hver verði aukningin í málafjölda en ljóst er að fjöldi tilkynninga til ákvörðunar um matsskyldu mun lítið breytast í sumum tilfellum en í öðrum algengum framkvæmdum, t.d. vegagerð og efnistöku, mun tilkynningum væntanlega fjölga. Varðandi enn aðrar framkvæmdir, t.d. byggingarframkvæmdir í þéttbýli, er talið erfitt að áætla fjölgun tilkynninga. Þó verður að hafa í huga að væntanlega mun stærstur hluti nýrra tilkynninga á grundvelli C-flokks fela í sér umfangsminni framkvæmdir og/eða framkvæmdir á svæðum sem eru síður viðkvæm. Það leiðir til þess að umfang tilkynninga til ákvörðunar um matsskyldu mun verða smærra í sniðum, tilkynningar munu taka styttri tíma í afgreiðslu og ekki verður þörf á umsagnarferli vegna þess. Álag vegna fjölgunar tilkynninga ætti því að verða viðráðanlegt.
    Talið er að verði frumvarpið að lögum muni það hafa í för með sér aukið álag á helstu umsagnaraðila. Eins og að framan greinir er búist við að Skipulagsstofnun geti oft afgreitt mál án umsagnarferlis og því er ekki búist við markverðri fjölgun umsagnarbeiðna til helstu umsagnaraðila.
    Búist er við að fjölgun tilkynninga til ákvörðunar um matsskyldu verði mismikil milli flokka framkvæmda. Þær framkvæmdir þar sem búist er við mestri fjölgun tilkynninga eru: skógrækt, fiskeldi, efnistaka og haugsetning, smávirkjanir, niðurgrafning jarðstrengja, vegir, niðurgrafning vatnsleiðslna og breytingar og viðbætur við framkvæmdir sem falla í C-flokk.
    Sá ávinningur sem hlýst af samþykki frumvarpsins er að það mun leiða til upplýstari ákvörðunartöku um fleiri framkvæmdir en nú er samkvæmt gildandi lögum og munu fleiri framkvæmdir verða metnar. Mun leyfisveitandi verða að kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar þegar um tilkynningarskylda framkvæmd er að ræða. Einnig verður horft til fleiri þátta en nú er gert í gildandi lögum varðandi staðsetningu framkvæmda á verndarsvæðum og sjónarmið um sjálfbæra þróun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í l. gr. er lögð til sú breyting á 3. gr. laganna að bætt er við nýjum staflið. Talin er þörf á að skýra hugtakið „fyrirhuguð framkvæmd“ sem fjallað er um í 2. mgr. 5. gr. núgildandi laga og því er lagt til að „fyrirhuguð framkvæmd“ sé skýrð sem framkvæmd sem komin sé á það stig að hún geti hlotið málsmeðferð skv. IV. kafla laganna. Í úrskurði umhverfisráðherra frá 28. janúar 2010, málsnúmer 09110008, er varðar ákvörðun Skipulagsstofnunar um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína kemur fram að framkvæmd geti ekki talist „fyrirhuguð“ skv. 2. mgr. 5. gr. laganna nema hún sé komin á það stig að hún geti hlotið málsmeðferð skv. IV. kafla laganna Ekki er því talið nægjanlegt að framkvæmdin sé á hugmyndastigi.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er lagt til að kveðið sé á um að á varnar- og öryggissvæðum fari ráðherra varnarmála með lögsögu í samræmi við skilgreiningu svæðanna í varnarmálalögum, nr. 34/2008, sbr. og lög nr. 110/1951 og lög nr. 176/2006. Um þessi svæði er fjallað í varnarmálalögum, nr. 34/2008, sbr. lög nr. 110/1951, og í lögum nr. 176/2006, um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt þeim lögum skiptist varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli í flugvallarsvæði, öryggissvæði og starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 38/2007 sem og auglýsingu nr. 1263/2007 var mörkum varnarsvæðisins breytt þannig að flugvallarsvæðið og starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar falla nú utan skilgreinds varnarsvæðis en öryggissvæði fellur áfram undir varnarsvæði.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. er lögð til sú breyting á 1. mgr. 5. gr. laganna að í staðinn fyrir 1. viðauka standi flokkur A í 1. viðauka.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. er lögð til breyting á 6. gr. laganna.
    Í a-lið er lagt til að í 1. mgr. standi flokki B og flokki C í 1. viðauka í stað 2. viðauka.
    Í b-lið er lagt til að í stað 2. mgr. 6. gr. komi þrjár málsgreinar.
    Í 1. mgr., sem verður 2. mgr. 6. gr. laganna, er kveðið á um að framkvæmdaraðili tilkynni framkvæmdir til Skipulagsstofnunar ef þær eru taldar upp í flokki B og flokki C í 1. viðauka. Um er að ræða nánast óbreytt orðalag frá 1. og 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. núgildandi laga ef frá er talið að í stað 2. viðauka stendur flokkur B og flokkur C í 1. viðauka.
    Í 2. mgr., sem verður 3. mgr. 6. gr. laganna, er kveðið á um að ef framkvæmd fellur í flokk B í 1. viðauka skuli Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn um framkvæmdina berast henni taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati. Um er að ræða nær óbreytta málsmeðferð frá núgildandi lögum er varðar tilkynningar um framkvæmdir er kunna að hafa umhverfisáhrif sem finna má í 2. viðauka laganna ef frá er talið að lagt er til að tímafrestur sá sem Skipulagsstofnun hefur haft til að tilkynna hvort framkvæmd sé háð mati byrji ekki að líða fyrr en fullnægjandi gögn hafa borist stofnuninni. Fram kemur hvað teljist fullnægjandi gögn en um er að ræða endanleg gögn sem umsagnaraðilar geta byggt umsagnir sínar á og geta verið grundvöllur ákvarðana Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Gert er ráð fyrir að þau gögn sem farið er fram á að framkvæmdaraðili leggi fram til Skipulagsstofnunar með tilkynningu um framkvæmd sem fellur í B-flokk verði eftirfarandi eftir því sem við á:
     a.      lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd, umfangi hennar og helstu framkvæmda- og rekstrarþáttum, sbr. 1. tölul. 2. viðauka við lög þessi,
     b.      uppdráttur að fyrirhugaðri framkvæmd og afstöðu hennar í landi þar sem fram koma mörk framkvæmdasvæðis, mannvirki sem fyrir eru á svæðinu og upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd,
     c.      upplýsingar um hvernig fyrirhuguð framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum,
     d.      lýsing á staðháttum, landslagi, gróðurfari og landnotkun og hvort fyrirhugað framkvæmdasvæði sé á eða nærri verndarsvæðum, sbr. 2. tölul. 2. viðauka við lög þessi,
     e.      lýsing á hvaða þættir framkvæmdar og/eða rekstrar valda helst áhrifum á umhverfið, sbr. 3. tölul. 2. viðauka við lög þessi,
     f.      upplýsingar um fyrirliggjandi álit umsagnaraðila og annarra eftir eðli máls sem framkvæmdaraðili kann að hafa leitað eftir.
    Um er að ræða sömu gögn og gerð hefur verið krafa um að framkvæmdaraðili skili inn með tilkynningarskyldum framkvæmdum í 2. viðauka núgildandi laga og kveðið er á um í 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.
    Enn fremur er kveðið á um að Skipulagsstofnun beri að fara eftir viðmiðum þeim sem fram koma í 2. viðauka við ákvörðun um matsskyldu og einnig ber Skipulagsstofnun að leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá núgildandi lögum.
    Í 3. mgr., sem verður 4. mgr. 6. gr. laganna, er lagt til að tekinn verði upp flokkur C sem er nýr flokkur framkvæmda en undir hann falla framkvæmdir sem ekki hafa verið tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu fram að þessu. Um er að ræða þær framkvæmdir sem ESA gerði athugasemdir við að féllu utan við gildissvið núgildandi laga og væru þar með ekki metnar eftir þeim viðmiðum sem fram koma í núgildandi 3. viðauka laganna. Gert er ráð fyrir að þær framkvæmdir sem falla í flokk C fái einfaldari og fljótlegri málsmeðferð en framkvæmdir sem falla í flokk B. Eins og með framkvæmdir þær er falla í flokk B er lagt til að tímafrestur sá sem Skipulagsstofnun hefur til að tilkynna hvort framkvæmd sé háð mati byrji ekki að líða fyrr en fullnægjandi gögn hafa borist stofnuninni. Með fullnægjandi gögnum er átt við að gögnin séu endanleg gögn sem að mati Skipulagsstofnunar er hægt að byggja ákvörðun um matsskyldu á. Í samræmi við að gert sé ráð fyrir einfaldari og fljótlegri málsmeðferð framkvæmda sem falla í flokk C er gerð lágmarkskrafa til þeirra gagna sem fylgja skulu tilkynningu um framkvæmd. Þau gögn sem fylgja skulu tilkynningu um framkvæmd sem fellur í C-flokk eru eftirfarandi, ef við á:
     a.      stutt og hnitmiðuð lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd, umfangi og helstu framkvæmda- og rekstrarþáttum og helstu mögulegum umhverfisáhrifum,
     b.      uppdráttur að fyrirhugaðri framkvæmd og afstöðu hennar í landi þar sem fram koma mörk framkvæmdasvæðis og mannvirki sem fyrir eru á svæðinu,
     c.      stutt lýsing á staðháttum og hvort fyrirhugað framkvæmdasvæði sé á eða nærri verndarsvæðum, sbr. 2. tölul. 2. viðauka við lög þessi.
    Mun verða kveðið á um gögn þessi í reglugerð eins og verið hefur með tilkynningarskyldar framkvæmdir samkvæmt núgildandi lögum.
    Eins og með framkvæmdir sem falla í flokk B er lagt til að Skipulagsstofnun fari eftir viðmiðum þeim sem fram koma í 2. viðauka, 3. viðauka núgildandi laga, við ákvörðun um matsskyldu.
    Gert er ráð fyrir styttri tímafrestum varðandi framkvæmdir sem falla í flokk C. Í stað fjögurra vikna frests sem Skipulagsstofnun hefur, samkvæmt núgildandi lögum, til að tilkynna um hvort framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum er kveðið á um tveggja vikna frest fyrir Skipulagsstofnun til ákvörðunar um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Möguleiki er á lengingu á fresti um eina viku ef Skipulagsstofnun telur nauðsynlegt að leita álits leyfisveitanda, framkvæmdaraðila og annarra aðila. Ekki er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun leiti alltaf álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eins og gerð er krafa um varðandi þær framkvæmdir sem falla í B-flokk heldur verður Skipulagsstofnun það heimilt ef stofnunin telur það nauðsynlegt. Búist er við að í mörgum tilfellum muni Skipulagsstofnun geta afgreitt mál án nokkurs eða fulls umsagnarferlis. Verði umsagna óskað af hálfu Skipulagsstofnunar mun sá frestur sem Skipulagsstofnun hefur til að taka ákvörðun um matsskyldu lengjast um eina viku. Þrátt fyrir að frestur verði aðeins aukinn um eina viku fyrir Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu er gert ráð fyrir að umsagnaraðilum verði áfram veittur 10 daga frestur til umsagna eins og venja hefur verið fram að þessu. Gert er ráð fyrir að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé kæranleg eins og verið hefur um ákvarðanir Skipulagsstofnunar varðandi tilkynningarskyldar framkvæmdir í núgildandi lögum.
    Í c-lið er lögð til breyting á 3. mgr. 6. gr. laganna, sem verður 5. mgr. 6. gr. laganna, en í stað þess að aðeins almenningi sé heimilt að tilkynna framkvæmd eða bera fram fyrirspurn er öllum það heimilt. Algengt er að framkvæmdaraðilar vilji afla sér upplýsinga um hvort framkvæmd sé matsskyld áður en framkvæmd er formlega tilkynnt inn. Eðlilegra þykir því að öllum sé heimilt að tilkynna framkvæmd og bera fram fyrirspurn um matsskyldu framkvæmda. Einnig er lagt til að í stað 2. viðauka standi 1. viðauki.

Um 5. gr.

    Í 5. gr. er lögð til breyting á 7. gr. laganna. Í stað 1. og 2. viðauka kemur 1. viðauki og í stað 3. viðauka kemur 2. viðauki.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er lögð til sú breyting á 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna að lagt er til að í stað þess að vísað sé til 1. mgr. verði vísað til A-flokks. Einnig er lögð til ný málsgrein, sem verði 3. mgr. 13. gr. núgildandi laga, þar sem segir að við útgáfu leyfis til framkvæmda samkvæmt flokki B eða C skuli leyfisveitandi kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar. Enn fremur skuli leyfisveitandi kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Ef um matsskylda framkvæmd er að ræða samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar eða úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fer um málsmeðferð skv. 2. mgr.
    Rétt þykir að skýra betur skyldur leyfisveitanda varðandi þær framkvæmdir sem falla í B- og C-flokk. Í 1. mgr. 13. gr. segir að ekki megi gefa út framkvæmdaleyfi fyrr en Skipulagsstofnun hafi gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum eða tekið ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í 2. mgr. er kveðið á um að leyfisveitandi kynni sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taki rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Lúta skyldur leyfisveitanda til að taka tillit til niðurstöðu Skipulagsstofnunar við auglýsingu framkvæmdaleyfis því aðeins að matsskyldum framkvæmdum. Talið er eðlilegt að þær skyldur leyfisveitanda varði einnig tilkynningarskyldar framkvæmdir. Mikilvægt er að leyfisveitanda sé ljóst að sú framkvæmd sem hann er að veita leyfi fyrir sé eins og hún var kynnt til Skipulagsstofnunar. Þá eru einnig oft í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu tilgreindar mótvægisaðgerðir eða ábendingar um verklag sem æskilegt er að framkvæmdarleyfishafi kynni sér áður en leyfi er gefið út. Enn fremur er gert ráð fyrir að þegar Skipulagsstofnun hefur komist að niðurstöðu um að framkvæmd sem fellur í B- og C-flokk sé matsskyld þá beri leyfisveitanda að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar eins og á við varðandi matsskyldar framkvæmdir skv. A-flokki.

Um 7. gr.

    Í 7. gr. er lögð til breyting á 1. mgr. 14. gr. laganna. Í stað 2. viðauka kemur flokkur B og flokkur C í 1. viðauka. Enn fremur er gerð breyting á lögunum og sett inn úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í stað ráðherra. Er það gert þar sem ákvarðanir samkvæmt lögunum eru ekki lengur kæranlegar til ráðherra heldur úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.


Um 8. gr.

    Í 8. gr. er lögð til breyting á a-lið 1. mgr. 20. gr. laganna. Í stað 2. viðauka kemur flokkur B og flokkur C í 1. viðauka.


Um 9. gr.

    Í 9. gr. er lögð til breyting á 1. og 2. viðauka laganna. Í stað tveggja viðauka, 1. og 2. viðauka, kemur einn viðauki, 1. viðauki. Eru þær framkvæmdir sem áður var að finna í 1. viðauka að finna í flokki A og eru þær framkvæmdir sem áður var að finna í 2. viðauka að finna í flokki B. Til verður nýr framkvæmdaflokkur, flokkur C, þar sem er að finna framkvæmdir sem ekki hafa áður verið tilkynningarskyldar. Framkvæmdir eru flokkaðar saman en um er að ræða sömu framkvæmdaflokka og finna má í núgildandi 2. viðauka laganna.
     1. kafli. Landbúnaður, skógrækt og fiskeldi.
    Í lið 1.01 er lagt til að framkvæmd til endurskipulagningar á landareignum í dreifbýli sem taki til 20 ha eða stærra landsvæðis falli í flokk B en ákvæði þetta er að finna í núgildandi a-lið 1. tölul. 2. viðauka laganna.
    Í lið 1.02 er gerð tillaga um að framkvæmdir til endurskipulagningar á landareignum í dreifbýli á landsvæði sem er allt að 20 ha falli í flokk C en um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA.
    Í lið 1.03 er lagt til að framkvæmdir til að leggja óræktað land eða lítt snortið svæði undir þaulnýtinn landbúnað falli í flokk B en ákvæði þetta er að finna í núgildandi b-lið 1. tölul. 2. viðauka laganna. Í leiðbeiningarriti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skilgreiningar á tilteknum framkvæmdaflokkum í viðauka I og II tilskipunarinnar um mat á umhverfisáhrifum sem gefið var út árið 2008 kemur fram að það hafi verið eftirlátið aðildarríkjum að ákveða hvers konar svæði falli undir ,,óræktað land“ eða ,,lítt snortið svæði“ í ljósi þess að landnotkun og landbúnaður sé ólíkur milli landa. Hafi sum ríki útbúið leiðbeiningar með það að markmiði að skýra hvernig ákvæðið skuli túlkað. Er hugtakinu ,,óræktað land“ ætlað að taka til allra svæða sem eru ekki skipulögð sem landbúnaðarsvæði (e. agriculturally managed). Hins vegar er landsvæði (afrétt, varanlegir hagar) sem er tímabundið tekið úr ræktun ekki skilgreint sem ,,óræktað land“. Í áðurnefndri skýrslu kemur fram að hugtakið,,þaulnýtinn“ sé skýrt í þessu samhengi sem aðgerðir sem notaðar séu til að bæta með merkjanlegum hætti gæði lands með það markmið að auka framleiðslu þess með tilliti til landbúnaðar.
    Í lið 1.04 er gerð tillaga um að vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, þ.m.t. áveitu- og framræsluframkvæmdir, sem hafa áhrif á 10 ha svæði eða stærra eða eru á verndarsvæðum falli í flokk B. Ákvæði þetta er að finna í c-lið 1. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að orðalag ákvæðisins verði gert skýrara með því að bæta við orðunum „sem hafa áhrif á“.
    Í lið1.05 er að finna nýtt ákvæði sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA en þar er gerð tillaga um að vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, þ.m.t. áveitu- og framræsluframkvæmdir, sem hafa áhrif á allt að 10 ha svæði falli í flokk C.
    Í lið 1.06 er lagt til að nýræktun skóga á 200 ha svæði eða stærra eða á verndarsvæðum sem breytir fyrri landnotkun og varanleg skógareyðing sem breytir fyrri landnotkun falli í flokk B. Í tilskipun 85/337/EBE, sem breytt var með tilskipun 97/11/EB, segir í tölul. 1(d) í II. viðauka tilskipunarinnar að skógrækt og skógarruðningur sem hafi þann tilgang að breyta landnotkun (e. initial afforestation and deforestation for the purposes of conversion to another type of land use) sé tilkynningarskyld framkvæmd. Ákvæði um tilkynningarskyldu nýræktunar skóga og ruðnings á skógi er að finna í núgildandi d-lið 1. tölul. 2. viðauka laganna. Þar segir að nýræktun skóga á 200 ha svæði eða stærra eða á verndarsvæðum og ruðningur á náttúrulegum skógi sé tilkynningarskyld framkvæmd. Lagt er til að orðalagi ákvæðisins verði breytt í samræmi við texta tilskipunarinnar þannig að tilkynningarskylda varðandi nýræktun og eyðingu skóga miðist við að um breytingu á fyrri landnotkun sé að ræða og að fellt verði niður skilyrði um að tilkynningarskyld skógareyðing miðist aðeins við náttúrulegan skóg.
    Nýræktun skóga á Íslandi felur í sér breytta landnýtingu þar sem ræktunin hefur í för með sér miklar breytingar á vistkerfi og landslagi. Skógrækt er ólík hefðbundinni ræktun í landbúnaði með því að vera langtímaráðstöfun á landi, auk þess að vera mun fyrirferðarmeiri í landslagi. Eru umhverfisáhrif skógræktar jafnframt talin vera mismunandi eftir markmiðum skógræktarinnar svo sem vegna timburnytja, útivistar og náttúruverndar.
    Á stefnuskrá íslenskra stjórnvalda er að staðfesta landslagssáttmála Evrópu. Landslagssáttmálinn hefur það að markmiði að vernda landslagsheildir og ósnortin víðerni. Leggur sáttmálinn ríka áherslu á að við áætlanagerð og framkvæmdir eigi að huga að því hvernig þær geti haft áhrif á landslag.
    Þegar frumvarp þetta var sent til umsagnar var gerð sú tillaga að ruðningur á náttúrulegum skógi yrði tilkynningarskyldur til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar þegar um breytingu á landnotkun væri að ræða. Í umsögn Skógræktar ríkisins og fleiri um frumvarpið var gerð athugasemd við að notað væri orðalagið „ruðningur“. Bent var á að heppilegra væri að nota orðalagið „varanleg skógareyðing“ þar sem hugtakið „ruðningur“ næði ekki til allra þeirra leiða sem hægt er að nota til að eyða skógi. Það næði t.d. ekki til eiturúðunar eða til þess þegar skógar fara undir miðlunarlón. Þá var einnig lagt til að ákvæðið næði til allra skóga en ekki aðeins náttúruskóga þar sem það væri í samræmi við tilskipunina en í henni væri fjallað um „deforestation“ en ekki t.d. „deforestation of natural forests“. Auk þess væru engu minni umhverfisáhrif af eyðingu gróðursetts skógar en náttúruskógar. Eftir sem áður næði ákvæðið ekki til fellingar skógar til nytja svo fremi að séð væri til þess að skógurinn yxi upp að nýju, enda væri þar ekki um að ræða breytingu á landnotkun.
    Er tekið undir framangreindar athugasemdir og lagt til í frumvarpi þessu að varanleg skógareyðing sem breyti fyrri landnotkun verði tilkynningarskyld framkvæmd til ákvörðunar um matsskyldu og falli í B flokk.
    Varðandi skilgreiningu á skógareyðingu þá hefur Skógrækt ríkisins byggt skilgreiningu á skógarruðningi á alþjóðlegum skilgreiningum og viðmiðum en hún er eftirfarandi: Ruðningur á náttúrulegum skógi sem felur í sér varanlega eyðingu skógar (trjákennds gróðurs) sem fullvaxinn getur náð a.m.k. 2 m hæð, er a.m.k. 0,5 ha að flatarmáli og þekur a.m.k. 10% svæðis. Lagt er til í frumvarpi þessu að skilgreining á skógarruðningi verði yfirfærð á skógareyðingu og að sú skilgreining verði notuð við mat á umhverfisáhrifum skógareyðingar.
Varðandi skilgreiningu á hugtakinu skógur þá hefur einnig verið talið óljóst hver viðmiðin eru, þ.e. hvenær trjákenndur gróður á svæði getur talist skógur. Í ritinu Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga sem gefið var út af Skógrækt ríkisins og Skipulagsstofnun í ágúst 2008 segir á bls. 17 að Skógrækt ríkisins telji að skógur sé land vaxið trjákenndum gróðri sem a) geti náð a.m.k. tveggja metra hæð þegar hann er fullvaxinn, b) krónuþekja er a.m.k. 10% og c) er a.m.k. 0,5 ha að flatarmáli. Að auki megi aðallandnýting á svæðinu ekki vera önnur en skógrækt eða skógarnytjar. Þannig geti t.d. þéttbýli ekki talist skógur þótt hæð og þekja trjáa dugi, því þar sé helsta landnýting íbúðarbyggð. Þykir ástæða til að notast við framangreinda skilgreiningu á skógi við mat á umhverfisáhrifum nýræktunar skóga.
    Í lið 1.07 eru lagt til það nýmæli að nýræktun skóga á allt að 200 ha svæði sem breyti fyrri landnotkun falli í flokk C. Er breyting þessi tilkomin vegna framangreindra athugasemda ESA. Ef frumvarp þetta verður að lögum er ljóst að öll skógræktarverkefni verða tilkynningarskyld í samræmi við tilskipun 85/337/EBE. Varðandi rökstuðning að öðru leyti vísast til umfjöllunar um lið 1.06.
    Í lið1.08 er fjallað um uppgræðslu lands á verndarsvæðum. Er um að ræða óbreytt ákvæði núgildandi laga sem er að finna í e-lið 1. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falla í flokk B.
    Í lið 1.09 er fjallað um þauleldi alifugla og svína. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá núgildandi f-lið 1. tölul. 2. viðauka og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk A til samræmis við tilskipun 85/337/EBE.
    Í lið 1.10 er gerð tillaga um nýtt ákvæði sem kveður á um að þauleldi búfjár, utan þess sem tilgreint er í flokki A, sbr. tölulið 1.09, skuli falla í flokk B. Skv. 3. tölul. 1. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, er skilgreining á „búfé“ að um sé að ræða hross, nautgripi, sauðfé, geitur, svín, loðdýr, kanínur og alifugla, auk þess eldisfiska og önnur dýr sem haldin eru til nytja. Er breyting þessi í samræmi við tilskipun 85/337/EBE. Í íslenskum lögum er hvergi að finna skilgreiningu á þauleldi. Samkvæmt Umhverfisstofnun Evrópu (heimasíða www. eea.europa.eu/) er þauleldi (e. intensive animal husbandry) skýrt sem: ,,Specialized system of breeding animals where the livestock are kept indoors and fed on concentrated foodstuffs, with frequent use of drugs to control diseases which are a constant threat under these conditions.“ Það mætti útleggja þauleldi á íslensku sem: Framleiðslukerfi þar sem dýr eru ræktuð innan dyra og fóðruð á tilbúnu fóðri og þar sem þörf er á tíðri lyfjagjöf til að hafa stjórn á sjúkdómum sem eru stöðug ógn við þessar aðstæður.
    Í lið 1.11 er lagt til að þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er 20 tonn eða meiri og fráveita í ferskvatn falli í flokk B. Um óbreytt ákvæði núgildandi laga er að ræða en ákvæði þetta að finna í g-lið 1. tölul. 2. viðauka. Í leiðbeiningarriti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skilgreiningar á tilteknum framkvæmdaflokkum í I og II viðauka tilskipunarinnar um mat á umhverfisáhrifum kemur fram skilgreining á hvenær eldi á fiski sé þauleldi. Samkvæmt skýrslunni er eldi á fiski talið þauleldi þegar það hefur í för með sér eldisþéttleika sem fari langt yfir þau mörk sem sé að finna við náttúrulegar aðstæður. Yfirleitt sé hér átt við starfsemi sem feli í sér fóðurgjöf, lyfjagjöf og aðra tækni sem notuð er við þauleldi búfjár.
    Í lið 1.12 er um nýmæli að ræða þar sem lagt er til að þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er minni en 200 tonn og fráveita er til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er minni en 20 tonn og fráveita í ferskvatn falli í flokk C. Er nýmæli þetta tilkomið vegna framangreindra athugasemda ESA.
    Í lið 1.13 er að finna óbreytt ákvæði frá h-lið 1. tölul. 2. viðauka núgildandi laga þar sem kveðið er á um endurheimt lands frá hafi. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
     2. kafli. Námuiðnaður.
    Í lið 2.01 er kveðið á um efnistöku og/eða haugsetningu á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska 50.000 m² svæði eða stærra eða efnismagn er 150.000 m³ eða meira. Um er að ræða breytingu á ákvæði því sem finna má í 21. tölul. 1. viðauka núgildandi laga. Talið er brýnt að haugsetning efnis fái á allan hátt sömu málsmeðferð og efnistaka enda ljóst að um sambærileg umhverfisáhrif er að ræða af hvoru tveggja. Má benda á nauðsyn þessarar viðbótar hvað snertir haugsetningu efnis úr jarðgöngum (hvort heldur vegna virkjana eða vegagerðar) og ekki síður varðandi haugsetningu efnis sem fellur t.d. til frá húsagrunnum á stærri þéttbýlissvæðum. ESA gerði athugasemdir við ákvæðið þar sem í lagaákvæðinu var ekki sérstaklega kveðið á um efnistöku í árfarvegi. Talið er að efnistaka í árfarvegi falli undir efnistöku á landi og því er ekki gerð tillaga til breytinga á ákvæðinu er varðar þann þátt. Lagt er til að framkvæmdin falli í A-flokk.
    Í lið 2.02 er fjallað um efnistöku og/eða haugsetningu á verndarsvæðum en þar er um að ræða nýtt ákvæði. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 106/2000 var efnistaka á verndarsvæðum tilkynningarskyld framkvæmd en í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 74/2005 var ákvæðið fellt brott og er engar skýringar á þeirri niðurfellingu að finna í athugasemdum við frumvarpið. Rétt er því talið að efnistaka á verndarsvæðum bætist aftur við núgildandi lög enda getur lítil efnistaka á verndarsvæði haft mikil neikvæð umhverfisleg áhrif í för með sér, svo sem vegna áhrifa á fornminjar og þar sem framkvæmdir fara inn á hraun. Er verndarsvæði skilgreint í iii. lið 2. tölul. 3. viðauka núgildandi laga. Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á a-lið ákvæðisins þannig að í stað friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd segir: friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, þar á meðal svæða á náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun, og náttúrufyrirbæra sem falla undir ákvæði 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Rétt þykir að haugsetning á verndarsvæðum verði einnig tilkynningarskyld framkvæmd og vísast til fyrrgreindra raka í lið 2.01. Lagt er til að framkvæmdin falli í B-flokk.
    Í lið 2.03 er gerð tillaga um efnistöku og/eða haugsetningu á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska stærra en 25.000 m² svæði eða efnismagn er meira en 50.000 m³. Efnistaka og/eða haugsetning þar sem fleiri en einn efnistökustaður og/eða haugsetningarstaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 25.000 m². Hér er um að ræða breytt ákvæði a-liðar 2. tölul. 2. viðauka núgildandi laga en rétt þykir að ákvæðið eigi einnig við um haugsetningu og vísast til framangreindra raka í lið 2.01. Gerð er tillaga um að framkvæmdir þessar falli í flokk B.
    Í lið 2.04 er gerð tillaga um efnistöku og/eða haugsetningu á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska minna en 25.000 m² svæði eða efnismagn er minna en 50.000 m³. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og gert er ráð fyrir að framkvæmdir þessar falli í flokk C. Rétt þykir að ákvæðið eigi einnig við um haugsetningu og vísast til framangreindra raka í lið 2.02.
    Í lið 2.05 er fjallað um neðanjarðarnámur og er um óbreytt ákvæði að ræða frá núgildandi lögum. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B en ákvæðið er að finna í b-lið 2. tölul. 2. viðauka núgildandi laga.
    Í lið 2.06 er fjallað um djúpborun en borun til að kanna stöðugleika jarðvegs er þar undanskilin. Í núgildandi lögum er í v. lið c-liðar 2. tölul. 2. viðauka tekið fram að frátalið djúpborun sé borun til að kanna stöðugleika jarðvegs. Þykir fara betur á að setja undantekningu þá ekki sem sérstakan lið heldur að tiltaka hana í fyrirsögn ákvæðisins. Þessi liður skiptist í sex undirliði, fimm liði sem eru nánast óbreyttir frá núgildandi lögum og einn lið sem í er að finna nýmæli.
    Í lið i er fjallað um borun á vinnsluholum og rannsóknarholum á háhitasvæðum. Undanþegnar eru grannar borholur í vöktunar- eða könnunarskyni. Ástæða þess er að yfirleitt krefjast borholur í vöktunar- eða könnunarskyni ekki sérstaks borplans. Yfirleitt er ekki þörf á veglagningu, notkun skolvatns er lítil sem og magn borsvarfs. Slíkar holur eru ekki látnar blása og það fylgja þeim ekki gufustrókar, hávaði eða jarðhitavökvi sem getur haft neikvæð áhrif á vistkerfi. Þarna er um óbreytt ákvæði að ræða sem er að finna í i. lið c-liðar 2. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og fellur framkvæmdin því í flokk B.
    Liður ii fjallar um borun eftir jarðhita á lághitasvæðum þar sem ölkeldur, laugar eða hverir eru á yfirborði eða í næsta nágrenni. Gerði ESA athugasemdir við að með ákvæðinu væri verið að útiloka lághitasvæði þar sem ekki sé að finna ölkeldur, laugar eða hveri á yfirborðinu eða í næsta nágrenni. Ljóst er að mestu umhverfisáhrif djúpborana á jarðhitasvæðum verða vegna borana á háhitasvæðum og þeim lághitasvæðum þar sem merki um jarðhita eru á yfirborði, þ.e. við borun getur orðið röskun á eðli eða virkni ölkeldna, hvera og lauga. Í þeim tilfellum sem um er að ræða lághitasvæði án slíkra ummerkja á yfirborði er talið að áhrif borana á umhverfið séu hvorki þess eðlis né að umfangi að ástæða sé til að þau falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þarna er því um óbreytt ákvæði að ræða sem er að finna í ii. lið c-liðar 2. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og fellur framkvæmdin í flokk B.
    Liður iii fjallar um borun fyrir geymslu kjarnorkuúrgangs. Þarna er um óbreytt ákvæði að ræða sem er að finna í iii. lið c-liðar 2. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og fellur framkvæmdin því í flokk B.
    Í lið iv er fjallað um vinnslu og rannsóknarboranir vegna kolvetnis utan netlaga og innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá núgildandi lögum sem er að finna í vi. lið c-liðar 2. tölul. 2. viðauka og fellur því framkvæmdin í flokk B.
    Liður v fjallar um borun eftir vatni þar sem gert er ráð fyrir að vinna að minnsta kosti 100 l/sek. Þarna er um breytingu að ræða frá núgildandi lögum. Í iv. lið c-liðar 2. tölul. 2. viðauka núgildandi laga segir að átt sé við borun eftir neysluvatni miðað við 2 milljóna m³ ársnotkun eða meira. Gerði ESA athugasemd við að með orðnotkuninni neysluvatn væri verið að undanskilja grunnvatn sem væri borað eftir í öðrum tilgangi og þar með væri ákvæði tilskipunarinnar ekki uppfyllt. Í ljósi þess þykir rétt að víkka út orðalag ákvæðisins og láta það ná til vatns í stað eingöngu neysluvatns. Einnig þykir rétt að breyta mælieiningu úr rúmmetrum, m³, í lítra á sekúndu, l/sek., í samræmi við almenna hugtakanotkun á Íslandi. Þar sem framkvæmdin fellur undir 2. viðauka í núgildandi lögum fellur framkvæmdin í flokk B.
    Í lið vi er um að ræða nýtt ákvæði sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og fjallar það um borun eftir vatni þar sem gert er ráð fyrir að vinna allt að 100 l/sek. Lagt er til að framkvæmdin falli í flokk C.
    Í lið 2.07 er fjallað um iðjuver ofanjarðar sem nema kol, jarðolíu, jarðgas og málmgrýti, svo og jarðbiksleir. Í d-lið 2. tölul. 2. viðauka núgildandi laga segir að ákvæðið eigi aðeins við um jarðvarmavirkjanir. Gerði ESA athugasemdir við þennan lið en fram kemur að með því að tilgreina jarðvarmavirkjanir sé verið að undanskilja aðrar tegundir iðjuvera og því sé ákvæði tilskipunarinnar ekki uppfyllt. Rétt þykir því að breyta ákvæðinu og því er lagt til að ákvæðið eigi ekki aðeins við um jarðvarmavirkjanir. Þar sem framkvæmdin fellur undir d-lið 2. tölul. 2. viðauka í núgildandi lögum er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    3. kafli. Orkuiðnaður.
    Í lið 3.01 er fjallað um olíuhreinsunarstöðvar (þó ekki fyrirtæki sem framleiða eingöngu smurolíur úr hráolíu) og mannvirki fyrir kolagösun og þéttingu úr a.m.k. 500 tonnum af kolum eða jarðbiksleir á dag. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá núgildandi lögum sem fellur undir 1. tölul. 1. viðauka og því er lagt til að framkvæmdin falli í flokk A.
    Í lið 3.02. er kveðið á um jarðvarmavirkjanir og önnur varmaorkuver með 50 MW uppsett varmaafl eða meira og önnur orkuver með 10 MW uppsett rafafl eða meira. Eins og fyrr greinir gerði ESA athugasemdir við þetta ákvæði laganna og taldi að önnur varmaorkuver næðu ekki yfir „other combustion installations“ sem kveðið er á um í tilskipuninni. Talið er að önnur varmaorkuver sé þýðing á „other combustion installations“ og er því lagt til að ákvæðið verði óbreytt frá núgildandi lögum sem er að finna í 2. tölul. 1. viðauka. Er lagt til að framkvæmdin falli í flokk A.
    Í lið 3.03 er fjallað um kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfa, einnig þegar slík orkuver eða kjarnakljúfar (kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar teljast ekki lengur til slíkra stöðva þegar öll kjarnakleyf efni og önnur geislamenguð efni hafa verið endanlega fjarlægð af staðnum) eru rifin niður eða tekin úr notkun (nema rannsóknastöðvar með yfir 1 kW heildarhitaafköst þar sem fram fer umbreyting á kjarnakleyfum efnum og tímgunarefnum). Um er að ræða óbreytt ákvæði frá núgildandi lögum sem fellur undir 3. tölul. 1. viðauka og því er lagt til að framkvæmdin falli í flokk A.
    Í lið 3.04 er fjallað um stöðvar þar sem geisluð kjarnakleyf efni eru endurunnin. Stöðvar til framleiðslu eða auðgunar kjarnakleyfra efna, til vinnslu geislaðra kjarnakleyfra efna eða mjög geislavirks úrgangs, til endanlegrar geymslu á geisluðum kjarnakleyfum efnum, eingöngu til endanlegrar geymslu á geislavirkum úrgangi eða eingöngu til geymslu (til meira en tíu ára) á geisluðum kjarnakleyfum efnum eða geislavirkum úrgangi annars staðar en á framleiðslustað. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá núgildandi lögum sem fellur undir 4. tölul. 1. viðauka og því er lagt til að framkvæmdin falli í flokk A.
    Í lið 3.05 er kveðið á um að stöðvar til vinnslu og geymslu á geislavirkum úrgangi, öðrum en þeim sem tilgreindur er í flokki A, tölulið 3.04, séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða viðbót við g-lið 3. tölul. 2. viðauka núgildandi laga sem segir stöðvar til vinnslu og geymslu á geislavirkum úrgangi. Sú viðbót sem lögð er til að bætt verði við textann er í samræmi við lið 3(g) í viðauka II í tilskipun 85/337/EBE. Lagt er til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 3.06 er fjallað um vinnslu á meira en 500 tonnum á dag af jarðolíu og meira en 500.000 m³ af jarðgasi á dag. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá núgildandi lögum sem fellur þar undir 16. tölul. 1. viðauka og gerð er tillaga um að framkvæmdin falli í flokk A.
    Í lið 3.07 er kveðið á um iðjuver til framleiðslu á rafmagni, gufu og heitu vatni og varmavinnsla úr jarðhitasvæðum sem nemur 2.500 kW hráafli eða meira. Um er að ræða breytt ákvæði frá núgildandi lögum sem fellur þar undir a-lið 3. tölul. 2. viðauka. Þar eru vatnsorkuver talin upp en betur þótti fara á að setja þau sem sér lið 3.23 og 3.24. Gerð er tillaga um að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 3.08 er kveðið á um loftlínur til flutnings á raforku með 66 kV spennu eða hærri og sæstrengi til flutnings á raforku sem eru með 132 kV spennu eða hærri og eru 20 km eða lengri. Um er að ræða breytingu á ákvæði núgildandi laga sem rekja má til athugasemda ESA er lutu að núgildandi ákvæði 22. tölul. 1. viðauka laganna þar sem kveðið er á um að loftlínur utan þéttbýlis séu matsskyldar. Skv. 20. tölul. viðauka I í tilskipun 85/337/EBE eru loftlínur til flutnings á raforku með 220 kV spennu eða hærri sem eru 15 km eða lengri matsskyldar óháð staðsetningu. Gerð er tillaga um að framkvæmdin falli í flokk A sem er í samræmi við tilskipun 85/337/EBE.
    Í lið 3.09 er kveðið á um flutningskerfi gass, gufu eða heits vatns sem tengist iðnaðarframkvæmdum. Um er að ræða breytingu á núgildandi b-lið 3. tölul. 2. viðauka laganna þar sem segir að flutningskerfi gass, gufu eða heits vatns, flutningur á raforku með jarðstrengjum utan þéttbýlis sem eru 10 km eða lengri og eru grafnir niður eða lagðir í stokk, flutningur á raforku með loftlínum á verndarsvæðum og sæstrengir séu tilkynningarskyld framkvæmd. Í tilskipuninni er fjallað um flutningskerfi undir formerkjum orkuiðnaðar og í b-lið 3. tölul. viðauka II segir: „Industrial installations for carrying gas, steam and hot water; transmission of electrical energy by overhead cables (projects not included in Annex I).“ Núgildandi ákvæði laganna inniheldur því þrengri viðmið en tilskipunin kveður á um. Rétt þykir að þýða ákvæði tilskipunarinnar beint og færa þann hluta flutningskerfis sem ekki heyrir undir iðnað og setja undir grunnvirki í tölul. 10.21. Áréttað er að þegar talað er um flutningskerfi fyrir heitt vatn er ekki verið að vísa til dreifikerfis, þ.e. stofnæða, götuæða og heimæða til neytenda. Lagt er til að framkvæmdin falli í flokk B sem er í samræmi við núgildandi lög og texta tilskipunar 85/337/EBE.
    Í lið 3.10 er lagt til að lagning leiðslna sem eru 1 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á gasi eða vökvum sem eru eldfimir eða hættulegir umhverfi sé matsskyld framkvæmd. Gerði ESA athugasemd við orðalag ákvæðisins og óskaði eftir að sýnt væri fram á að ákvæði laganna næði yfir ákvæði tilskipunarinnar um flutning með leiðslum á olíu, efnum og gasi. Er talið að ákvæði laganna fullnægi ákvæði tilskipunarinnar og er því um að ræða óbreytt ákvæði frá 18. tölul. 1. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmdin falli í flokk A.
    Í lið 3.11 er kveðið á um að lagning leiðslna sem eru 1 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á koltvísýringi (CO 2) sem binda á í jarðlög, ásamt þrýstiaukadælu sé matsskyld framkvæmd. Um nýmæli er að ræða sem kemur inn í tilskipun 85/337/EBE með tilskipun 2009/31/EB. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 3.12 er kveðið á um leiðslur til flutnings á olíu og gasi og til flutnings koltvísýringi (CO 2) til bindingar í jarðlögum á verndarsvæðum (framkvæmdir sem ekki falla í flokk A samkvæmt tölulið 3.11). Um nýmæli er að ræða þar sem kveðið er á um flutning á CO 2. Það ákvæði kemur inn í tilskipun 85/337/EBE með tilskipun 2009/31/EB. Annar hluti ákvæðisins er óbreyttur og er að finna í núgildandi g-lið 10. tölul. 2. viðauka. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 3.13 er kveðið á um leiðslur til flutnings á olíu og gasi og til flutnings koltvísýringi (CO 2) til bindingar í jarðlögum utan verndarsvæða. Um nýmæli er að ræða sem kemur inn í tilskipun 85/337/EBE með tilskipun 2009/31/EB. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 3.14 er kveðið á um að geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu eða efnavörur með 50.000 m³ geymslugetu eða meira sé matsskyld framkvæmd. ESA gerði athugasemdir við þetta ákvæði laganna þar sem í tilskipuninni er kveðið á um 200.000 tonn. 1 m³ samsvarar 1 tonni og er því talið að ákvæði laganna uppfylli ákvæði tilskipunarinnar. Um óbreytt ákvæði er því að ræða frá 23. tölul. 1. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk A.
    Í lið 3.15 er kveðið á um að geymsla á jarðgasi á verndarsvæðum sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði sem er að finna í c-lið 3. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 3.16 er kveðið á um að geymsla á jarðgasi ofanjarðar utan verndarsvæða sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk C.
    Í lið 3.17 er kveðið á um að neðanjarðargeymsla á eldfimu gasi á verndarsvæðum sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá d-lið 3. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 3.18 er kveðið á um að neðanjarðargeymsla á eldfimu gasi utan verndarsvæða sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða nýmæli sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk C.
    Í lið 3.19 er kveðið á um að geymsla jarðefnaeldsneytis ofanjarðar á verndarsvæðum sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði sem er að finna í e-lið 3. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 3.20 er kveðið á um að geymsla jarðefnaeldsneytis ofanjarðar utan verndarsvæða sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk C.
    Í lið 3.21 er kveðið á um að gerð taflna úr kolum og brúnkolum sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði sem er að finna í f-lið 3. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 3.22 er kveðið á um að vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um nýmæli er að ræða þar sem lagt er til að ákvæðið verði fært til samræmis við tilskipun 85/337/EBE. Í tilskipuninni eru vatnsorkuver tilgreind í sér tölulið, sbr. lið 3(h) í viðauka II, en ekki blandað saman við ákvæði sem fjalla um iðjuver eins og er í núgildandi lögum, sbr. b-lið 3. tölul. 2. viðauka. Lagt er til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 3.23 er kveðið á um að vatnsorkuver með uppsett rafafl allt að 200 kW séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmdin falli í flokk C.
    Í lið 3.24 er kveðið á um að stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu (vindbú) með 2 MW uppsett rafafl eða meira séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði h-liðar 3. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 3.25 er kveðið á um að stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu (vindbú) með minna en 2 MW rafafl séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmdin falli í flokk C.
    Í lið 3.26 er kveðið á um geymslusvæði fyrir koltvísýring (CO 2) sem binda á í jarðlög. Er um nýmæli að ræða sem tilkomið er vegna tilskipunar 2009/31/EB sem breytir tilskipun 85/337/EB. Í 18. lið aðfaraorða tilskipunarinnar kemur fram að tilskipunin eigi ekki við um framkvæmdir þar sem heildargeymslurými sé undir 100 kílótonnum, um sé að ræða rannsóknir, þróun eða prófanir á nýjum framleiðsluvörum og -ferlum og fellur framangreint því ekki undir ákvæði þetta né ákvæði 3.27 og 3.28.
    Í lið 3.27 er kveðið á um mannvirki sem hafa þann tilgang að fanga koltvísýring (CO 2) sem binda á í jarðlög, frá verksmiðjum eða iðjuverum sem heyra undir flokk A eða frá verksmiðjum eða iðjuverum þar sem árlegt heildarmagn koltvísýrings sem fangaður er nemur 1,5 megatonnum eða meira. Er um nýmæli að ræða sem tilkomið er vegna tilskipunar 2009/31/ EB sem breytir tilskipun 85/337/EB.
    Í lið 3.28 er kveðið á um mannvirki sem hafa þann tilgang að fanga koltvísýring (CO 2), sem binda á í jarðlög, frá verksmiðjum eða iðjuverum sem falla ekki í flokk A samkvæmt tölulið 3.28.
     4. kafli. Framleiðsla og vinnsla málma.
    Í lið 4.01 er kveðið á um verksmiðjur þar sem fram fer frumbræðsla á steypujárni og stáli og um framleiðsla hrámálms sem inniheldur ekki járn úr grýti, kirni eða afleiddu hráefni, sem fer fram með málmvinnsluaðferðum, efnafræðilegum aðferðum eða rafgreiningaraðferðum. Gerði ESA athugasemdir við að ákvæði 5. tölul. 1. viðauka núgildandi laga, þar sem kveðið er á um matsskyldu verksmiðju þar sem fram fer frumframleiðsla eða endurbræðsla á málmum, væri ekki sambærilegt við ákvæði tilskipunar 85/337/EBE. Ljóst er að það er verulegur munur á orðalagi tilskipunarinnar og íslenska ákvæðisins. Orðalagið endurbræðsla á málmum má skilja á þann veg að það felli alla endurvinnslu málma með uppbræðslu vegna formbreytingar undir ákvæðið, sem er talið of langt gengið, en jafnframt er hægt að túlka ákvæðið á þann hátt að framleiðsla áls úr súráli falli ekki undir ákvæðið. Án skýringa dugir ákvæði núgildandi laga ekki til að kveða upp úr um slík álitamál. Það er því nauðsynlegt að lagaákvæðið taki bæði til frumvinnslu málma úr málmgrýti og öðrum jarðefnum sem og frekari vinnslu (aðgreining og einangrun) málma úr efnasamböndum (t.d. rafgreining áls úr súráli og hreinsun kísils úr kísiloxíðum) án tillits til aðferða við málmvinnsluna. Hefur Skipulagsstofnun orðið að kveða upp úr um túlkun á því hvort tilteknar framkvæmdir falli undir 1. eða 2. viðauka laganna. Með skoðun lögskýringargagna, þ.e. athugasemda við frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum og tilskipunar 85/337/EBE, hafa framkvæmdir ávallt verið túlkaðar í samræmi við tilskipunina. Rétt þykir því að taka ákvæðið upp eins og það kemur fyrir í tilskipuninni og lagt er til að framkvæmdin falli í flokk A.
    Í lið 4.02 er kveðið á um að stöðvar til framleiðslu á 20 tonnum á dag eða meira af steypujárni og stáli (fyrsta og önnur bræðsla) ásamt samfelldri steypingu séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá a-lið 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 4.03 er kveðið á um að stöðvar til framleiðslu á allt að 20 tonnum á dag af steypujárni og stáli (fyrsta og önnur bræðsla) ásamt samfelldri steypingu séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og gerð er tillaga um að framkvæmdin falli í flokk C.
    Í lið 4.04, lið i, ii og iii, er kveðið á um að stöðvar til vinnslu á járnkenndum málmum, þ.e. heitvölsunarstöðvar, smiðjur með hömrun og varnarhúðun með bræddum málmum, séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá i., ii. og iii. lið b-liðar 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 4.05 er kveðið á um að málmsteypusmiðjur fyrir járnkennda málma séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá c-lið 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 4.06 er kveðið á um að stöðvar til bræðslu, einnig málmblendis, á járnlausum málmum öðrum en góðmálmum, einnig endurheimtum vörum (hreinsun, steypa í steypusmiðjum o.s.frv.) séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá d-lið 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 4.07 er kveðið á um stöðvar þar sem unnið er að yfirborðsmeðferð málma og plastefna með rafgreiningar- og efnaaðferðum. Um er að ræða breytingu á orðalagi e-liðar 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga þar sem ástæða þótti til að gera orðalagið skýrara. Er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 4.08 er kveðið á um að framleiðsla og samsetning vélknúinna ökutækja og framleiðsla á hreyflum í slík ökutæki sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá f-lið 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 4.09 er kveðið á um að skipasmíðastöðvar séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða breytingu á g-lið 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga þar sem kveðið er á um að stálskipasmíðastöðvar séu tilkynningarskyld framkvæmd. Gerði ESA athugasemdir við að ákvæðið ætti aðeins við um stálskipasmíðastöðvar. Hér er því lagt til að ákvæðið nái til allra skipasmíðastöðva og að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 4.10 er kveðið á um að stöðvar sem eru 1 ha að stærð eða meira til smíða og viðgerða á loftförum séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá h-lið 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 4.11 er kveðið á um að stöðvar sem eru allt að 1 ha að stærð til smíða og viðgerða á loftförum séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og gerð er tillaga um að framkvæmdin falli í flokk C.
    Í lið 4.12 er kveðið á um að framleiðsla á járnbrautarbúnaði sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá i-lið 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 4.13 er kveðið á um að málmmótun með sprengiefnum sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá j-lið 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 4.14 er kveðið á um að stöðvar til að brenna og glæða málmgrýti sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá k-lið 4. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
     5. kafli. Steinefnaiðnaður.
    Í lið 5.01 er kveðið á um að koksofnar (þurreiming kola) sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá a-lið 5. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 5.02 er kveðið á um að sementsverksmiðjur séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá b-lið 5. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 5.03 er kveðið á um að stöðvar til framleiðslu á gleri og trefjaefni séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá d-lið 5. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 5.04 er kveðið á um að stöðvar til að bræða steinefni og framleiða steinefnatrefjar séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá e-lið 5. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 5.05 er kveðið á um að framleiðsla á keramikvörum með brennslu, svo sem þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteinum, flísum, leirmunum eða postulíni, 75 tonn á dag eða meira eða rúmtak ofns er 4 m³ eða meira, sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá f-lið 5. tölul. 2. viðauka núgildandi laga og er lagt til að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 5.06 er kveðið á um að framleiðsla á keramikvörum með brennslu, svo sem þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteinum, flísum, leirmunum eða postulíni, allt að 75 tonn á dag eða rúmtak ofns er undir 4 m³, sé tilkynningarskyld framkvæmd. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og gerð er tillaga um að framkvæmdin falli í flokk C.
    6. kafli. Efnaiðnaður.
    Í lið 6.01, liðum i–vi, er kveðið á um efnaverksmiðjur sem framleiða lífrænt og ólífrænt hráefni, áburð sem inniheldur fosfór, köfnunarefni eða kalíum, grunnvörur fyrir plöntuvarnarefni og lífeyða, grunnlyfjavörur og sprengiefni. Um er að ræða óbreytt ákvæði sem finna má í 7. tölul. 1. viðauka núgildandi laga. Gerð er tillaga um að framkvæmdir þessar falli í flokk A.
    Í lið 6.02 er kveðið á um meðferð á hálfunnum vörum og framleiðslu kemískra efna. Um er að ræða óbreytt ákvæði sem finna má í a-lið 6. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 6.03 er kveðið á um framleiðslu á varnarefnum og lyfjum, málningu og lakki, gúmmílíki og peroxíðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi b-liðar 6. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 6.04 er kveðið á um geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu og önnur kemísk efni á verndarsvæðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi c-liðar 6. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 6.05 er kveðið á um geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu og önnur kemísk efni utan verndarsvæða. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
     7. kafli. Matvælaiðnaður.
    Í lið 7.01 er kveðið á um vinnslu á olíu og fitu úr jurtum og dýrum á verndarsvæðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi a-liðar 7. tölul. 2. viðauka laganna. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 7.02 er kveðið á um vinnslu á olíu og fitu úr jurtum og dýrum utan verndarsvæða. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 7.03 er kveðið á um pökkun og niðursuðu á jurta- og dýraafurðum 75 tonn á dag eða meira á verndarsvæðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi b-liðar 7. tölul. 2. viðauka laganna. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 7.04 er kveðið á um pökkun og niðursuðu á jurta- og dýraafurðum, utan þær framkvæmdir sem falla undir lið 7.03. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 7.05 er kveðið á um framleiðslu á mjólkurvörum 200 tonn á dag eða meira á verndarsvæðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi c-liðar 7. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 7.06 er kveðið á um framleiðslu á mjólkurvörum, utan þær framkvæmdir sem falla undir lið 7.05. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 7.07 er kveðið á um öl- og maltgerð á verndarsvæðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi d-liðar 7. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 7.08 er kveðið á um öl- og maltgerð utan verndarsvæða. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 7.09 er kveðið á um framleiðslu á sætindum og sírópi á verndarsvæðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi e-liðar 7. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 7.10 er kveðið á um framleiðslu á sætindum og sírópi utan verndarsvæða. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 7.11 er kveðið á um sláturhús á verndarsvæðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi f-liðar 7. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 7.12 er kveðið á um sláturhús utan verndarsvæða. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 7.13 er kveðið á um stöðvar til sterkjuframleiðslu á verndarsvæðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi g-liðar 7. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 7.14 er kveðið á um stöðvar til sterkjuframleiðslu utan verndarsvæða. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 7.15 er kveðið á um fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 1.000 tonn á sólarhring eða meiri. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi 24. tölul. 1. viðauka laganna. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 7.16 er kveðið á um fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur á verndarsvæðum og fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 500 tonn á sólarhring eða meiri. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi h-liðar 7. tölul. 2. viðauka laganna. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 7.17 er kveðið á um fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur utan þeirra sem falla í flokk A samkvæmt tölulið 7.15 og flokk B samkvæmt tölulið 7.16. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 7.18 er kveðið á um sykurverksmiðjur á verndarsvæðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi i-liðar 7. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 7.19 er kveðið á um sykurverksmiðjur utan verndarsvæða. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
     8. kafli. Textíl-, leður-, timbur- og pappírsiðnaður.
    Í lið 8.01, i. og ii. lið, er kveðið á um verksmiðjur sem framleiða pappírsdeig úr timbri eða svipuðum trefjaefnum og verksmiðjur sem framleiða pappír og pappa og geta framleitt meira en 200 tonn á dag. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi i. og ii. liðar 20. tölul. 1. viðauka laganna. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 8.02 er kveðið á um verksmiðjur til framleiðslu á pappír og pappa, utan þeirra sem tilgreindar eru í flokki A í lið 8.01. Um er að ræða breytingu á ákvæði núgildandi a-liðar 8. tölul. 2. viðauka laganna þar sem gerð er tillaga um að notað verði orðið verksmiðjur í stað iðnvera. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 8.03 er kveðið á um stöðvar þar sem fram fer formeðferð (t.d. þvottur, bleiking, mersivinna) eða litun trefja eða textílefna. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi b-liðar 8. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 8.04 er kveðið á um stöðvar þar sem fram fer sútun á húðum og skinnum. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi c-liðar 8. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 8.05 er kveðið á um stöðvar þar sem fram fer vinnsla og framleiðsla á sellulósa. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi d-liðar 8. tölul. 2. viðauka. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
     9. kafli. Gúmmíiðnaður.
    Í lið 9.01 er kveðið á um framleiðslu og meðferð á vörum úr gúmmílíki. Um er að ræða óbreytt ákvæði 9. tölul. 2. viðauka laganna. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
     10. kafli. Grunnvirki.
    Í lið 10.01 er kveðið á um framkvæmdir á iðnaðarsvæði sem taki til 50 ha eða stærra svæðis. Um er að ræða breytt ákvæði frá i-lið 25. tölul. 1. viðauka núgildandi laga þar sem kveðið er á um iðnaðarframkvæmdir sem taki til stærra svæðis en 50 ha. Talið er að orðalagið „Framkvæmdir á iðnaðarsvæði“ sé nær orðalagi tilskipunarinnar þar sem segir „Industrial estate development projects“. Í tilskipun 85/337/EBE tilheyrir framkvæmd þessi viðauka II en í núgildandi lögum er framkvæmdin matsskyld og fellur undir 1. viðauka laganna. Í ljósi þess að gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu að iðnaðarframkvæmdir sem taki til 50 ha eða minna verði tilkynningarskyld framkvæmd er gerð tillaga um að iðnaðarframkvæmdir sem taka til 50 ha eða stærra svæðis verði flokkaðar í samræmi við tilskipunina. Gerð er því tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B. Samkvæmt leiðbeiningarriti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skilgreiningar á tilteknum framkvæmdaflokkum í viðauka I og II tilskipunarinnar um mat á umhverfisáhrifum er skilgreining á iðnaðarsvæði sú að það taki til samtímanota nokkurra fyrirtækja sem séu í nálægð hvert við annað. Geti þessi fyrirtæki nýtt sér sameiginlega innviði svæðisins til iðnaðar eða viðskipta.
    Í lið 10.02 er kveðið á um framkvæmdir á iðnaðarsvæði sem taka til allt að 50 ha svæðis eða minna. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 10.03 er kveðið á um byggingarframkvæmdir í þéttbýli, þ.m.t. verslunarmiðstöðvar, bílastæði, íþróttaleikvanga, háskóla, sjúkrahús, nýuppbyggingu hverfa og aðrar sambærilegar framkvæmdir. Í ii. lið 25. tölul. 1. viðauka núgildandi laga er kveðið á um að bygging verslunarmiðstöðva sem eru stærri en 40.000 m² og bygging bílastæðahúsa fyrir fleiri en 1.400 stæði sé matsskyld framkvæmd. Er sá töluliður byggður á grein 10(b) í viðauka II með tilskipun 85/337/EBE um byggingarframkvæmdir í þéttbýli, m.a. byggingu verslunarmiðstöðva og bílastæða (e. urban development projects, including the construction of shopping centres and car parks). Ljóst er að ii. liður 25. tölul. 1. viðauka laganna er skilgreindur mun þrengra en ákvæði tilskipunarinnar þar sem í 25. tölul er aðeins fjallað um byggingu verslunarmiðstöðva og bílastæðahúsa en í tilskipuninni er kveðið á um byggingarframkvæmdir, m.a. verslunarmiðstöðvar og bílastæði.
    Hugtakið „urban development projects“ í lið 10(b) tilskipunarinnar mætti þýða sem byggingarframkvæmdir í þéttbýli eða þróunarverkefni í þéttbýli og er hér gerð sú tillaga að hugtakið verði þýtt sem byggingarframkvæmdir í þéttbýli. Í tilskipuninni fellur ákvæðið undir flokkinn „Infrastructure projects“ sem hefur verið þýtt sem „Grunnvirki“. Af því má leiða að þær byggingarframkvæmdir sem átt sé við séu þær sem hafi áhrif á grunnvirki sem ætti að gefa vísbendingar um stærðarmörk framkvæmdanna.
    Óljóst er hversu víðtækt ákvæðið er og er litlar upplýsingar að hafa í texta ákvæðisins sjálfs um hvað sé átt við með byggingarframkvæmdum í þéttbýli né hvaða aðrar framkvæmdir eigi þar undir en verslunarmiðstöðvar og bílastæði. Eru aðildarríkin talin hafa ákveðið svigrúm til að ákveða hvaða verkefni eða framkvæmdir falli undir ákvæðið og virðast þær framkvæmdir vera ákveðnar í samræmi við efnahagslega og félagslega þætti í hverju landi fyrir sig.
    Leiðbeiningar varðandi túlkun á ákvæðinu er helst að sækja í dóma Evrópudómstólsins og í leiðbeiningarrit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skilgreiningar á tilteknum framkvæmdaflokkum í viðauka I og II tilskipunarinnar um mat á umhverfisáhrifum. Í leiðbeiningarriti framkvæmdastjórnarinnar er að finna samantekt á þeim atriðum sem vert er að skoða þegar metið er hvort byggingarframkvæmd falli undir ákvæði laganna og byggist sú umfjöllun á dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Samkvæmt þeirri umfjöllun geta eftirfarandi framkvæmdir fallið undir tölulið 10.3:
     1.      Framkvæmdir sem hafa svipuð einkenni og bílastæði og verslunarmiðstöðvar. Sem dæmi er nefnd bílageymsla fyrir rútur (e. bus garages).
     2.      Byggingarframkvæmdir eins og bygging íbúðarhverfa, spítala, háskóla, íþróttaleikvanga, kvikmyndahúsa og leikhúsa. Þarna er um að ræða framkvæmdir sem oft eiga sér stað í þéttbýli og geta valdið svipuðum áhrifum á umhverfið.
     3.      Aðildarríki Evrópusambandsins hafa talið verslunarmiðstöðvar, bílastæði og einnig nýuppbyggingu hverfa, íþróttavanga, viðskiptahverfi/-skrifstofur, samgöngumiðstöðvar, háskóla, spítala, leikhús/kvikmyndahús, frístundabyggð/íþróttamiðstöðvar (e. Holiday Village/Leisure centre) falla undir byggingarframkvæmdir í þéttbýli. Virðist meginreglan vera sú að þessar framkvæmdir eru yfirleitt í þéttbýli og geta valdið vissum umhverfisáhrifum, eins og hávaða- og sjónmengun, aukningu umferðar sem tengist röskun við framkvæmdir, t.d. á byggingum, upptöku lands og skerðingu landrýmis vegna lokunar, auk sjónrænna áhrifa.
    Ekki er ljóst hvers vegna framkvæmd þessi hefur í núgildandi lögum fallið undir 1. viðauka en gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B í samræmi við tilskipunina.
    Í lið 10.04 er kveðið á um byggingu samgöngumiðstöðva fyrir margþátta samgöngustarfsemi. Um er að ræða breytt ákvæði frá núgildandi a-lið 10. tölul. 2. viðauka laganna en þar segir að bygging járnbrauta og samgöngumiðstöðva sé tilkynningarskyld framkvæmd. Lagt er til að járnbrautir séu felldar brott úr ákvæðinu þar sem kveðið er á um tilkynningarskyldu járnbrauta í lið 10.19. Einnig er gerð tillaga um að texti ákvæðisins sé færður nær þeim texta sem finna má í tilskipuninni en þar segir á ensku ,,construction of railways and intermodal transshipment facilities, and of intermodal terminals (projects not included in Annex I)“. Gerð er tillaga um að framkvæmdin falli í flokk B.
    Í lið 10.05 er kveðið á um flugvelli með 2.100 m langa meginflugbraut eða lengri. Um er að ræða óbreytt ákvæði 9. tölul. 1. viðauka laganna. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 10.06 er kveðið á um flugvelli með styttri en 2.100 m langa meginflugbraut. Um er að ræða óbreytt ákvæði b-liðar 10. tölul. 2. viðauka laganna og er gerð tillaga um að framkvæmdin falli í flokk B.
    Varðandi liði 10.07–10.10 sem fjallað er um hér að aftan ber að nefna að í lögum þessum er miðað við að til vega teljist þeir vegir sem eru að eðli til sambærilegir við þá vegi sem flokkast til þjóðvega skv. 2. mgr. 8. gr. vegalaga, nr. 80/2007. Ekki falla því hér undir vegir sem nefndir eru sveitarfélagavegir í vegalögum. Rétt er að árétta að þrátt fyrir að vísað sé til skilgreiningar á þjóðvegi í vegalögum getur vegur samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum átt við um sambærilega vegi sem ekki eru taldir upp í vegaskrá skv. 1. mgr. 8. gr. vegalaga.
    Í lið 10.07 er kveðið á um lagningu nýrra tveggja akreina vega með framúrakstursrein og vega með fjórar akreinar eða fleiri. Um er að ræða breytingu á núverandi ákvæði i-liðar 10. tölul. 1. viðauka en þar er kveðið á um matsskyldu stofnbrauta í þéttbýli. Samkvæmt athugasemdum við frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum, sem síðar varð að lögum nr. 106/2000, var með stofnbrautum í þéttbýli m.a. átt við breikkun vega úr tveimur akreinum í fjórar og gerð mislægra gatnamóta, þ.e. lagningu vega með fleiri en tvær akreinar. Í athugasemdum ESA kemur fram að samkvæmt núgildandi lögum séu styttri vegir en 10 km utan þéttbýlis, sbr. tölulið 10.08 hér að aftan, sem eru „motorways“ eða „expressways“, ekki matsskyld eða tilkynningarskyld framkvæmd en í tölulið 7(b) í I. viðauka tilskipunar 85/ 337/EB er kveðið á um að „motorways“ og „expressways“ eigi að vera matsskyldar framkvæmdir. Skilgreiningu hugtakanna „motorways“ og „expressways“ er að finna í athugasemdum ESA og í leiðbeiningarriti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skilgreiningar á tilteknum framkvæmdaflokkum í viðauka I og II tilskipunarinnar um mat á umhverfisáhrifum. Í ljósi skilgreininga sem þar eru settar fram er varla að finna hér á landi vegi sem geta flokkast undir „motorways“ og „expressways“, m.a. vegna umfangs, en talið er að vegur með þremur eða fleiri akreinum með eða án mislægra gatnamóta komist næst þeim skilgreiningum. Talið er heppilegra að miða við tveggja akreina veg með framúrakstursrein en stofnbraut þar sem það hugtak er ekki skilgreint í vegalögum. Til að koma til móts við framangreindar athugasemdir ESA er lagt til að lagning vega með tvær akreinar með framúrakstursrein og vega með fjórar akreinar eða fleiri einnig utan þéttbýlis og óháð vegalengd sé framkvæmd sem falli í flokk A þar sem oft er um að ræða mikil mannvirki.
    Í lið 10.08 er kveðið á um nýja vegi sem eru 10 km eða lengri. Enduruppbyggingu vega utan þéttbýlis þar sem samanlögð nýlagning utan eldra vegsvæðis er a.m.k. 10 km að lengd. Um er að ræða breytingu á núgildandi ii. lið 10. tölul. 1. viðauka laganna þar sem kveðið er á um nýja vegi utan þéttbýlis sem tilkomin er vegna framangreindra athugasemda ESA. Ef til þess kæmi að lagður yrði 10 km vegur innan svæðis sem skilgreint er sem þéttbýli og væri með færri akreinar en þrjár, sbr. tölulið 10.07, teldist eðlilegt að sú framkvæmd félli hér undir. Að öðru leyti þykir rétt að skerpa á orðalagi ákvæðisins og setja skýrari viðmið um beitingu þess. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 10.09 er kveðið á um lagningu tveggja akreina vega styttri en 10 km í þéttbýli, alla nýja vegi utan þéttbýlis á verndarsvæðum og á svæðum sem eru á náttúruminjaskrá og enduruppbyggingu vega utan þéttbýlis á verndarsvæðum sem tilkynningarskylda framkvæmd. Um er að ræða breytingu á ákvæði c-liðar 10. gr. 2. viðauka laganna. Í samræmi við töluliði 10.07 og 10.08 er lagt til að lagning tveggja akreina vega styttri en 10 km í þéttbýli falli undir þennan lið óháð því hvort um sé að ræða tengibrautir eða stofnvegi. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 10.10 er kveðið á um að allir nýir vegir og endurbygging vega sem ekki falla í flokk A samkvæmt tölulið 10.07 og 10.08 eða flokk B samkvæmt tölulið 10.09 séu tilkynningarskyld framkvæmd. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmdin falli í flokk C.
    Í lið 10.11 er kveðið á um að hafnir (viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir) sem skip stærri en 1.350 tonn geti siglt um séu matsskyld framkvæmd. Um er að ræða óbreytt ákvæði núgildandi 11. tölul. 1. viðauka laganna. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 10.12 er kveðið á um viðlegubryggjur (að undanskildum ferjulægjum) sem tengdar eru við land og eru utan hafna, þar sem skip stærri en 1.350 tonn geta lagst að til losunar og lestunar. Um nýmæli er að ræða. Í athugasemdum ESA var gerð athugasemd við að í 1. viðauka væri ekki að finna slíkar bryggjur og rétt þykir að bæta úr því þar sem 8.(b) töluliður viðauka I tilskipunarinnar kveður á um slíkt. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 10.13 er kveðið á um hafnir og viðlegubryggjur utan þéttbýlis á verndarsvæðum. Um er að ræða breytt ákvæði frá núgildandi ákvæði 4. málsl. c-liðar 10. tölul. 2. viðauka sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA. Rétt þykir að ákvæðið nái einnig yfir viðlegubryggjur utan þéttbýlis á verndarsvæðum til samræmis við ákvæði liðar 10.12. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 10.14 er kveðið á um aðrar hafnir og viðlegubryggjur en tilgreindar eru í flokki A samkvæmt tölulið 10.12 og flokki B samkvæmt tölulið 10.13. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 10.15 er kveðið á um byggingarframkvæmdir við skipgengar vatnaleiðir og gerð skipaskurða og fráveituskurða. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá núgildandi d-lið 10. tölul. 2. viðauka. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 10.16 er kveðið á um stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem 3 km² lands eða meira fara undir vatn eða rúmtak vatns er meira en 10 milljónir m³. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá 17. tölul. 1. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 10.17 er kveðið á um stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni á verndarsvæðum, utan þeirra framkvæmda sem tilgreindar eru í flokki A samkvæmt tölulið 10.16. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá e-lið 10. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 10.18 er kveðið á um stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni á verndarsvæðum, utan þeirra sem tilgreind eru í flokki A samkvæmt tölulið 10.16 og flokki B samkvæmt tölulið 10.17. Um nýmæli er að ræða sem eru tilkomin vegna framangreindra athugasemda ESA sem lagt er til að falli í flokk C.
    Í lið 10.19 er kveðið á um lagningu járnbrauta um langar vegalengdir. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá 8. tölul. 1. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 10.20 er kveðið á um járnbrautir, sporvagnar, lestir í lofti og neðanjarðar, svifbrautir og ámóta brautir af sérstakri gerð sem notaðar eru eingöngu eða aðallega til fólksflutninga. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá f-lið 10. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 10.21 er kveðið á um lagningu áveitu eða vatnsstokka um langan veg, loftlínur til flutnings raforku á verndarsvæðum, lagningu niðurgrafinna strengja/lagna 10 km eða lengri utan þéttbýlis eða óháð vegalengd á verndarsvæðum og lagningu strengja/lagna í vatni/sjó 10 km eða lengri eða óháð vegalengd á verndarsvæðum. Um er að ræða breytt ákvæði frá h-lið 10. tölul. 2. viðauka núgildandi laga en þar segir að vatnsleiðslur utan þéttbýlis 10 km eða lengri og grafnar niður séu tilkynningarskyld framkvæmd. Lagt er til að ákvæðinu verði breytt til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar þar sem stendur í j-lið 10 tölul. viðauka II að um sé að ræða lagningu vatnsveitna um langan veg (e. installations of long-distance aqueducts). Í aðeins einum dómi Evrópudómstólsins er að finna vísbendingu um hvað felst í orðunum ,,um langan veg“. Í máli nr. C-227/01, er varðar túlkun á 7. tölul. viðauka I tilskipunarinnar sem fjallar um lagningu lína um langan veg fyrir járnbrautir, kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að „um langan veg“ þýði 13 km og lengri vegalengd. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B. Eins og fram kemur í umfjöllun um ákvæði 3.09 hér að framan er núgildandi ákvæði b-liðar 3. tölul. 2. viðauka talið innihalda þrengri viðmið en tilskipunin kveður á um, þ.e. flutningskerfið er ekki einskorðað við flutningskerfi tengt iðnaði. Auk þess hefur verið sett inn séríslenskt ákvæði um niðurgrafna háspennustrengi sem ættu í raun frekar heima undir grunnvirkjum. Þau umhverfislegu áhrif sem slíkar niðurgrafnar framkvæmdir hafa eru talin svipuð óháð því hvað flutt er með lögninni/strengnum. Í ljósi þess er æskilegt að sett séu sambærileg ákvæði vegna annarra niðurgrafinna línulegra framkvæmda sem talin eru hafa sams konar áhrif, þ.m.t. lagnir sem flytja vatn (heitt eða kalt), skolp og eins vegna strengja, hvort sem um er að ræða rafstrengi eða fjarskiptastrengi. Í umfjöllun um „niðurgrafna“ strengi er átt við framkvæmdir sem fela í sér að grafa þarf góðan skurð með gröfu. Oft þarf að leggja vegslóða meðfram skurðinum sem þarf að geta borið þung tæki og þörf er á aðfluttu efni til framkvæmdanna. Vegna háspennustrengja hefur viðmiðið verið að grafa þurfi alla strengi sem eru 66 kV og stærri í jörðu. Minni strengir (33 kV, 11 kV og minni) eru að öllu jöfnu plægðir niður ef um plægjanlegt land er að ræða, ellegar grafnir niður. Rask vegna strengja sem plægðir eru niður er mun minna en vegna niðurgrafinna strengja og því hefur hingað til ekki verið litið svo á að plægðir strengir flokkist sem niðurgrafnir. Lagnir geta ýmist verið grafnar niður eða plægðar og því ætti það sama að eiga við um þær, þ.e. plægðar lagnir mundu ekki flokkast sem niðurgrafnar. Er lagning strengja /lagna í vatni eða sjó ekki einskorðuð við að þeir séu niðurgrafnir. Lagt er til að framkvæmdin falli í flokk B sem er í samræmi við núgildandi lög og texta tilskipunar 85/337/EBE.
    Í lið 10.22 er kveðið á um mannvirki til að verjast rofi á strandlengjum á verndarsvæðum og svæðum á náttúruminjaskrá, t.d. með stíflugörðum, brimbrjótum, hafnargörðum og öðrum varnarmannvirkjum gegn ágangi sjávar og landfyllingar þar sem áætluð uppfylling er 5 ha eða stærri. Undanskilið er viðhald og endurbygging framangreindra mannvirkja. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá i-lið 10. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 10.23 er kveðið á um mannvirki til að verjast rofi á strandlengjum utan verndarsvæða eða svæða utan náttúruminjaskrár, t.d. með stíflugörðum, brimbrjótum, hafnargörðum og öðrum varnarmannvirkjum gegn ágangi sjávar og landfyllingar þar sem áætluð uppfylling er allt að 5 ha. Undanskilið er viðhald og endurbygging framangreindra mannvirkja. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og lagt er til að framkvæmdin falli í flokk C.
    Í lið 10.24 er kveðið á um vinnslu grunnvatns eða íveitu vatns í grunnvatn með 300 l/sek. meðalrennsli eða meira á ári. Um er að ræða breytingu á orðalagi ákvæðis 13. tölul. 1. viðauka laganna. Í athugasemdum ESA segir að ákvæði núgildandi laga nái ekki yfir það sem tilskipunin kveður á um. Í tilskipun 85/337/EBE er kveðið á um það sem nefnt er á ensku,,artificial groundwater recharge schemes“ en ,,groundwater recharge“ hefur verið þýtt sem grunnvatn eða vatn sem er „veitt á“ sem þykir óljós þýðing. Talið er að í tilskipuninni sé átt við vinnslu grunnvatns eða íveitu í grunnvatnsforða, t.d. með niðurdælingu vatns í lek jarðlög. Einnig er það talið eðlilegra, í samræmi við almenna hugtakanotkun hérlendis, að nota heldur l/sek. sem viðmið í stað rúmmetra. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 10.25 er kveðið á um vinnslu grunnvatns eða íveitu vatns í grunnvatn sem ekki fellur undir flokk A, tölulið 10.24. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 10.26 er kveðið á um mannvirkjagerð þegar fyrirhugað er að veita meira en 1.000 l/sek. af vatni á milli vatnasviða. Flutningur á drykkjarvatni í leiðslum er undanskilinn. Um er að ræða breytingu á 14. tölul. 1. viðauka laganna. Talið er að um ranga þýðingu sé að ræða á orðalagi tilskipunar 85/337/EBE en þar er talað um „works for the transfer of water between river basins“. Lind er heiti á náttúrufyrirbæri þar sem grunnvatn kemur fram á yfirborði. Lind sem slík verður ekki flutt á milli vatnasvæða/vatnasviða heldur vatnið sem úr henni kemur. Vatnasvæði er t.d. Arnarvatnsheiði en þar eru mörg vatnasvið sem vatn fellur af til norðurs eða suðurs. Vatnasvið er svæði sem vatn rennur frá til eins óss við sjó, stöðuvatns eða fallvatns. Talið er réttara að tala um vatnasvið í skilningi ákvæðisins, enda er hugtakið vatnasvæði frekar notað yfir landsvæði, t.d. Arnarvatnsheiði. Að sama skapi er talið eðlilegra að miða við l/sek. í stað m³ á ársgrundvelli í samræmi við hugtakanotkun hérlendis. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 10.27 er kveðið á um mannvirkjagerð þegar fyrirhugað er að veita vatni á milli vatnasviða sem ekki fellur undir flokk A, tölulið 10.26. Flutningur á drykkjarvatni í leiðslum er undanskilinn. Um orðalagsbreytingu er að ræða frá ákvæði k-liðar 10. tölul. 2 viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
     11. kafli. Aðrar framkvæmdir.
    Í lið 11.01 er fjallað um kappaksturs- og reynsluakstursbrautir fyrir vélknúin ökutæki á svæðum sem skilgreind eru sem slík í skipulagi. Um er að ræða breytingu á núgildandi a-lið 11. tölul. 2. viðauka laganna. Fram að þessu hefur túlkun á varanlegum kappakstursbrautum verið sú að þær sem lagðar hafa verið malbiki séu varanlegar, sbr. úrskurð umhverfisráðuneytisins frá 23. febrúar 2009, mál nr. 08060035. Við nánari skoðun þykir rétt að hverfa frá þeirri túlkun. Gerðar hafa verið varanlegar akstursbrautir sem taka yfir stór svæði, fela í sér mikla landmótun og hafa varanleg áhrif á ásýnd, gróður og jarðmyndanir. Þá er ljóst að vélknúin ökutæki geta valdið hávaða, haft áhrif á andrúmsloft og skapað hættu á mengun jarðvegs/vatns. Litlu virðist þar breyta hvort um er að ræða malbikaðar brautir eður ei. Rétt þykir því að fella hugtakið „varanleg“ úr ákvæðinu og miða varanleika brauta við að þær séu á staðfestri skipulagsáætlun. Þá heyra ekki undir ákvæðið brautir sem lagðar eru tímabundið vegna einstakra keppna eða viðburða. Með þessari tillögu er byggt á því að í skipulagsáætlun er mörkuð stefna um tiltekna landnotkun til ákveðins tíma óháð þeirri hugsanlegu mannvirkjagerð, landmótun eða starfsemi sem fram fer á viðkomandi svæði. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 11.02 er fjallað um förgunarstöðvar þar sem spilliefni eru brennd, meðhöndluð með efnum eða urðuð og aðrar förgunarstöðvar úrgangs sem meðhöndla meira en 500 tonn af úrgangi á ári. Um er að ræða óbreytt ákvæði 12. tölul. 1. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 11.03 er fjallað um förgunarstöðvar þar sem úrgangur er brenndur, meðhöndlaður með efnum eða urðaður sem ekki eru tilgreindar í flokki A, tölulið 11.2. Um er að ræða breytingu á orðalagi núgildandi b-liðar 11. tölul. 2. viðauka laganna þar sem bætt er við að um sé að ræða framkvæmdir sem ekki eru tilgreindar í flokki A og fjallað er um í lið 11.02. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í liðum 11.04 til 11.06 er fjallað um hreinsivirki fyrir skolp. Í lögum nr. 9/2009 er hreinsivirki skilgreint sem búnaður til hreinsunar á skolpi og/eða ofanvatni áður en því er veitt í viðtaka, þ.m.t. rotþrær með siturlögnum. Hér er bæði átt við hreinsivirki frá íbúðarbyggð og frá iðnaði, þ.m.t. frá þaulnýtnum landbúnaði. Er talin ástæða til að hnykkja sérstaklega á því að þaulnýtinn landbúnaður teljist til iðnaðar.
    Í lið 11.04 er fjallað um skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða iðnaði, þ.m.t. stöðvum með þaulnýtnum landbúnaði með afkastagetu sem svarar til 50.000 persónueininga eða meira. Um er að ræða orðalagsbreytingu á ákvæði 15. tölul. 1. viðauka núgildandi laga þar sem segir að skolphreinsistöðvar með afkastagetu sem svari til 50.000 persónueininga eða meira sé matsskyld framkvæmd. Í 13. tölul. viðauka I við tilskipun 85/337/EBE segir að skolphreinsistöðvar (e. waste water treatment plants) með yfir 150 þúsund persónueiningar séu matsskyld framkvæmd. Í núgildandi lögum er því gengið lengra en tilskipunin segir og þykir ekki ástæða til að breyta því hér. Tilskipun 97/11/EB, sem núgildandi lög eru byggð á, mælir fyrir um lágmarkskröfur þær sem ríki verða að uppfylla en þeim er í sjálfsvald sett hvort þau vilja gera ríkari kröfur en þær sem settar eru fram í tilskipuninni. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 11.05 er fjallað um skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða iðnaði, þ.m.t. stöðvum með þaulnýtnum landbúnaði með afkastagetu sem svarar til 100 persónueininga eða meira á verndarsvæðum, svæðum á náttúruminjaskrá eða þar sem losað er í viðkvæman viðtaka, að undanskildum þeim sem er tilgreind eru í flokki A, tölulið 11.04. Um er að ræða breytingu á orðalagi núgildandi c-liðar 11. tölul. 2. viðauka laganna þar sem segir að skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum og svæðum á náttúruminjaskrá séu tilkynningarskyld framkvæmd. Mikilvægt að þarna falli undir hreinsivirki sem losa í viðkvæman viðtaka en það er viðtaki sem gæti orðið fyrir áhrifum vegna mengunar sé ekki gripið til verndaraðgerða eða viðtaki sem hefur orðið fyrir áhrifum vegna mengunar, sbr. ákvæði í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skolp. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 11.06 er fjallað um skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða iðnaði, þ.m.t. stöðvum með þaulnýtnum landbúnaði utan verndarsvæða, sem ekki eru tilgreind í flokki A, tölulið 11.04, eða flokki B í tölulið 11.05. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA. Skv. 1. og 2. gr. falla leyfisskyldar framkvæmdir undir gildissvið núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Það er því ljóst að undir lið 11.06 falla aðeins skolphreinsivirki sem eru leyfisskyld en ákvæði um starfsleyfisskyldar skolphreinsistöðvar er að finna í fylgiskjali 2 við reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 11.07 er kveðið á um förgunarstöðvar fyrir seyru á verndarsvæðum. Um er að ræða óbreytt ákvæði d-liðar 11. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 11.08 er kveðið á um förgunarstöðvar fyrir seyru utan verndarsvæða. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 11.09 er fjallað um geymslu brotajárns, þ.m.t. bíla, sem er að magni 1.500 tonn á ári eða meira. Um er að ræða óbreytt ákvæði e-liðar 11. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 11.10 er fjallað um geymslu brotajárns, þ.m.t. bíla, sem er að magni allt að 1.500 tonn á ári. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er gerð tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 11.11 er fjallað um prófunarstaði fyrir vélar, hverfla eða hvarfrými. Um er að ræða óbreytt ákvæði f-liðar 11. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 11.12 er fjallað um stöðvar sem framleiða steinefnatrefjar. Um er að ræða nánast óbreytt ákvæði g-liðar 11. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að orðið manngert verði fellt úr ákvæðinu þar sem það er ekki talið skipta máli varðandi mat á umhverfisáhrifum hvort um manngerðar steinefnatrefjar sé að ræða eður ei. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 11.13 er fjallað um stöðvar til að endurvinna sprengiefni eða eyða því. Um er að ræða óbreytt ákvæði h-liðar 11. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 11.14 er fjallað um stöðvar til förgunar sláturúrgangs. Um er að ræða óbreytt ákvæði i-liðar 11. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 11.15 er fjallað um endurnýtingu úrgangs þar sem meðhöndluð eru meira en 500 tonn af úrgangi á ári. Um er að ræða breytt ákvæði j-liðar 11. tölul. 2. viðauka núgildandi laga en óljóst hefur verið talið fram að þessu hvernig eigi að túlka núgildandi ákvæði sem segir að endurvinnslustöð sé tilkynningarskyld framkvæmd. Með því að breyta hugtakinu yfir í endurnýtingu fellur öll endurnýting úrgangs undir lögin, en ekki bara sá hluti endurnýtingar sem telst vera endurvinnsla. Ef lögin ná einungis yfir endurvinnslu úrgangs ná þau ekki yfir ýmsa starfsemi sem gæti mögulega haft töluverð umhverfisáhrif en sem dæmi má nefna gasvinnslu úr úrgangi og framleiðslu á olíu úr úrgangi. Slík starfsemi telst ekki endurvinnsla heldur endurnýting. 500 tonn eru í samræmi við skiptingu í fylgiskjali 1 með rgl. 785/1999. Þar fellur meðhöndlun úrgangs yfir 500 tonnum í eftirlitsflokk 1 til 4. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 11.16 er fjallað um varnargarða til varnar ofanflóðum í þéttbýli. Um er að ræða breytingu á orðalagi núgildandi k-liðar 11. tölul. 2. viðauka laga þar sem í stað snjóflóðavarnargarða segir varnargarðar. Skv. 1. gr. laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, eru ofanflóð samheiti fyrir snjóflóð og skriðuföll. Æskilegt er talið að skýrt sé að varnargarðar vegna hvors tveggja heyri undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
     12. kafli. Ferðalög og tómstundir.
    Í lið 12.01 er fjallað um skíðasvæði, skíðalyftur og kláfa og tengdar framkvæmdir á skíðasvæðum á verndarsvæðum og jöklum. Um breytingu er að ræða á orðalagi ákvæðis a-liðar 12. tölul. 2. viðauka núgildandi laga þar sem gildissvið ákvæðisins er víkkað nokkuð út. Er við ákvæðið bætt ,,og tengdar framkvæmdir“ (e. associated developments) og er breyting sú í samræmi við ákvæði 12(a) í viðauka II tilskipunar 85/337/EBE. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 12.02 er fjallað um skíðasvæði, skíðalyftur og kláfa á skíðasvæðum og tengdar framkvæmdir utan verndarsvæða og jökla. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er lagt til að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 12.03 er fjallað um smábátahafnir sem hafa 150 bátalægi eða fleiri. Um er að ræða óbreytt ákvæði b-liðar 12. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 12.04 er fjallað um smábátahafnir með allt að 150 bátalægi. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er lagt til að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 12.05 er fjallað um þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi og á verndarsvæðum á láglendi utan þéttbýlis, orlofsþorp, hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis. Í ákvæði 12(c) í viðauka II tilskipunar 85/337/EBE segir: ,,Holiday villages and hotel complexes outside urban areas and associated developments.“ Í núgildandi lögum er þessu ákvæði tilskipunarinnar skipt upp í tvo aðskilda liði. Í c-lið 12. tölul. 2. viðauka laganna er kveðið á um þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi. Í d-lið 12. tölul. 2. viðauka laganna er kveðið á um þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi. Eru íslensku ákvæðin ólík texta tilskipunarinnar og taka ekki á þeim framkvæmdum sem tilskipunin nefnir. Gerir ESA athugasemd við ákvæðin en ekki liggur fyrir hvers vegna orðalagið er með þessum hætti og engar athugasemdir er að finna í núgildandi lögum sem útskýrir það. Hér er því lagt til að c- og d-liður 12. tölul. verði sameinaðir í einn lið með beinni þýðingu á texta tilskipunarinnar ásamt því að séríslensk ákvæði eru látin halda sér. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 12.06 er fjallað um varanleg tjaldsvæði og hjólhýsasvæði sem eru 10 ha eða stærri. Um er að ræða óbreytt ákvæði e-liðar 12. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 12.07 er fjallað um varanleg tjaldsvæði og hjólhýsasvæði allt 10 ha. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er lagt til að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 12.08 er fjallað um skemmtigarða sem ná yfir 2 ha svæði eða meira. Um er að ræða nánast óbreytt ákvæði f-liðar 12. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Kveðið er skýrar á um að um sé að ræða 2 ha svæði eða stærra. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    Í lið 12.09 er fjallað um skemmtigarða sem ná yfir allt að 2 ha svæði. Um nýmæli er að ræða sem tilkomið er vegna framangreindra athugasemda ESA og er lagt til að framkvæmd þessi falli í flokk C.
    Í lið 12.10 er fjallað um golfvelli. Um nýmæli er að ræða en rétt þykir að taka golfvelli upp í lög um mat á umhverfisáhrifum. Í tilskipun 85/337/EBE er ekki að finna ákvæði um golfvelli og er það sett í hendur aðildarríkja að ákveða hvort golfvellir eigi að falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Víða í aðildarríkjum EES-samningsins falla golfvellir undir lög um mat á umhverfisáhrifum, m.a. í Noregi. Undanfarin ár hefur orðið gífurleg aukning á uppbyggingu golfvalla hérlendis með miklum umhverfisáhrifum enda er oft óraskað land nýtt undir slíkar framkvæmdir. Einnig geta golfvellir haft önnur umhverfisáhrif svo sem vegna áburðargjafar og vökvunar og haft í för með sér aukið álag á ýmis grunnvirki eins og veitur og umferðarmannvirki. Hér er því lagt til að golfvellir falli í flokk B þar sem talið er að þeir geti haft sambærileg áhrif og aðrar framkvæmdir sem taldar eru upp í þessum kafla, þ.e. ferðalög og tómstundir.
     13. kafli. Breytingar og viðbætur við framkvæmdir.
    Í lið 13.01 er kveðið á um allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A þegar breytingin eða viðbótin sjálf fer yfir þau viðmið sem flokkur A setur. Um nýmæli er að ræða sem finna má í 22. tölul. 1. viðauka tilskipunar 85/337/EBE eins og henni var breytt með tilskipun 2003/35/EB. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk A.
    Í lið 13.02 er kveðið á um allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir samkvæmt flokki A og flokki B sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Um er að ræða breytingu á orðalagi a-liðar 13. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Gerð er tillaga um að skipta ákvæðinu upp þannig að framkvæmdir samkvæmt flokki A og flokki B sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif falli í flokk B en framkvæmdir samkvæmt flokki C sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif falli í flokk C og kveðið er á um í lið 13.03.
    Í lið 13.03 eru allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem eru í flokki C sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Gerð er tillaga um að framkvæmdin falli í flokk C, sbr. athugasemd við lið 13.02.
    Í lið 13.04 er kveðið á um framkvæmdir samkvæmt flokki A sem ráðist er í eingöngu eða aðallega til að þróa og prófa nýjar aðferðir eða vörur en eru ekki notaðar lengur en tvö ár. Um er að ræða óbreytt ákvæði frá b-lið 13. tölul. 2. viðauka núgildandi laga. Gerð er tillaga um að framkvæmd þessi falli í flokk B.

Um 10. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lögð til breyting á 1. mgr. 3. viðauka laganna sem verður 2. viðauki laganna. Í stað orðanna 2. viðauka kemur: flokki B og flokki C í 1. viðauka.
    Lagðar eru til tvær breytingar á iii. lið 2. tölul. 3. viðauka laganna, sem verður 2. viðauki laganna. Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmda ber að líta til þess hvort tilkynnt framkvæmd skv. 6. gr. laganna falli undir þau viðmið sem tiltekin eru í núgildandi 3. viðauka laganna. Eitt af þeim viðmiðum sem tiltekin eru er staðsetning framkvæmdar og þar á meðal hvort framkvæmdin sé á verndarsvæði. Þykir skilgreining verndarsvæðis ekki vera nægjanlega skýr né uppfylla stefnumörkun íslenskra stjórnvalda um sjálfbæra þróun og þykir ástæða til að bæta þar úr.
    Við a-lið bætist eftirfarandi: „þar á meðal svæða á náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun, og náttúrufyrirbæra sem falla undir ákvæði 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, einnig landsvæða í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt lögum nr. 48/2011“. Er breyting þessi í samræmi við frumvarp til laga um breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sem lagt var fram á 140. löggjafarþingi, og lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011.
    Lagt er til að við e-lið bætist friðaðar og friðlýstar tegundir ásamt ábyrgðartegundum. Í stefnumörkun stjórnvalda til sjálfbærrar þróunar árin 2010–2013 sem ber yfirskriftina „Velferð til framtíðar“ er það sett sem markmið að leiðbeiningarreglur samningsins um líffræðilega fjölbreytni um hvernig fjalla skal um líffræðilega fjölbreytni við mat á umhverfisáhrifum verði hafðar til hliðsjónar við mat á umhverfisáhrifum. Í ljósi þess þykir ekki fullnægjandi að við ákvörðun um matsskyldu sé aðeins horft til þeirra svæða sem njóta verndar samkvæmt Bernarsamningnum og þeirra tegunda válista sem gefnir hafa verið út til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt honum. Nauðsynlegt er talið að einnig verði horft til friðaðra og friðlýstra tegunda ásamt ábyrgðartegundum við ákvörðun um matsskyldu og með því að bæta við áðurgreindu ákvæði er komið til móts við þau sjónarmið.
    Enn fremur er lögð til breyting á iv. lið 2. tölul. 3. viðauka laganna, sem verður 2. viðauki þeirra. Lagt er til að nýjum tölulið, j-lið, verði bætt við þar sem kveðið verður á um að við mat á álagsþoli náttúrunnar verði horft til þess hvort um þéttbýlt svæði sé að ræða. Er breyting þessi tilkomin vegna framangreindra athugasemda ESA en rétt þykir að bæta þessu ákvæði við til samræmis við g-lið 2. tölul. viðauka III tilskipunar 85/337/EEB.


Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 12. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á lögum nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Í stað orðanna “lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000“, sem er að finna í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna, er lagt til að standi „A- og B- flokki í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000“.
    Ekki er talið að þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í C-flokki kunni almennt að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Í tilskipun 2001/42/EB um umhverfismat áætlana, en lögin um umhverfismat áætlana eru byggð á tilskipuninni, er heimild fyrir ríki til að undanskilja slíkar framkvæmdir umhverfismati áætlana. Þar sem framkvæmdir sem falla í C-flokk munu verða tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar á framkvæmdarstigi er það talið mjög íþyngjandi fyrir stjórnsýsluna að umhverfismat fyrir þessar minni framkvæmdir muni einnig fara fram á skipulagsstiginu eins og verður ef lögum um umhverfismati áætlana verður ekki breytt. Enn fremur er því við að bæta að verði framkvæmd talin matskyld þá fellur hún undir lög um umhverfismat áætlana.Fylgiskjal I.

Umhverfisráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga
skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Umhverfisráðuneytið hefur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga metið forsendur kostnaðaráhrifa frumvarps um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með síðari breytingum. Markmið með frumvarpinu er að koma til móts við athugasemdir ESA við innleiðingu Íslands á tilskipun 85/337/EBE sem og gera ákvörðunartöku upplýstari varðandi fleiri framkvæmdir en nú er áskilið. Verður leyfisveitandi við útgáfu leyfis til framkvæmdar samkvæmt flokki B og C, sbr. b-lið 7. gr. frumvarpsins, að kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar. Undir verndarsvæði heyra nú fleiri þættir en í núgildandi lögum varðandi viðmiðanir um mat á framkvæmdum tilgreindum í 2. viðauka. Í a-lið 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um að við mat á umhverfisáhrifum þurfi einnig að taka tillit til friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, þar á meðal svæða á náttúruminjaskrá, náttúruverndaráætlun, í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar og náttúrufyrirbæri sem falla undir 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Einnig ber að taka tillit til friðaðra og friðlýstra tegunda sem og ábyrgðartegunda í samræmi við sjónarmið um sjálfbæra þróun, sbr. c-lið 10. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er gerð tillaga um að framkvæmdir þær sem eru matsskyldar og tilkynningarskyldar til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum verði flokkaðar í þrjá flokka, flokk A, B og C. Í flokk A falla þær framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt núgildandi lögum og gerð er grein fyrir í 1. viðauka. Í flokki B eru framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt núgildandi lögum og falla þær undir 2. viðauka. Í flokki C eru þær framkvæmdir sem hingað til hafa fallið utan viðmiðunarmarka en er nauðsynlegt í ljósi athugasemda ESA að bæta við gildandi lög. Einnig er lagt til að viðaukarnir verði tveir í stað þriggja. Þá verði í 1. viðauka tilgreindar framkvæmdir sem falla í A, B og C flokk og í 2. viðauka verði ákvæði sem eru í 3. viðauka núgildandi laga með viðbótum. Jafnframt eru gerðar breytingar á einstökum ákvæðum viðaukanna til að þau falli betur að ákvæðum tilskipunarinnar og er orðalag gert skýrara og mælieiningum breytt á einstaka stað. Þá er uppsetningu viðaukanna breytt þar sem framkvæmdir samkvæmt núgildandi 1. og 2. viðauka eru númeraðar, framkvæmdir flokkaðar saman og tilgreint hvort viðkomandi framkvæmd falli í flokk A, B eða C. Þetta er gert til að einfalda núverandi uppsetningu viðaukanna og gera þá aðgengilegri en í núverandi uppsetningu laganna.
    Niðurstaða ráðuneytisins er að aukin vinna verður hjá sveitarfélögum vegna ákvæðis 7. gr. um að við útgáfu leyfis skuli leyfisveitandi kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Hins vegar er sveitarfélögunum heimilt að innheimta þann kostnað hjá framkvæmdaaðilum. Það er því sameiginlegt mat ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga að ekki verði um kostnaðarauka að ræða hjá sveitarfélögunum vegna frumvarpsins.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000,
um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum (breyting á viðaukum,
fjölgun tilkynningarskyldra framkvæmda).

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum vegna athugasemda ESA við innleiðingu Íslands á tilskipun 85/337/EBE sem leidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 106/2000. Samkvæmt lögunum eru framkvæmdir undir tilgreindum viðmiðunarmörkum ekki tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar og tekur stofnunin því ekki afstöðu til þess hvort þessar framkvæmdir skuli vera matsskyldar. Markmiðið með frumvarpinu er að koma til móts við athugasemdir ESA hvað þetta varðar svo að ákvörðunartakan verði upplýstari og taki til fleiri framkvæmda en nú er áskilið í lögunum. Í frumvarpinu er lagt til að framkvæmdir sem undir lögin falla verði flokkaðar í þrjá flokka. Í flokk A falli framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt gildandi lögum og falla þar undir 1. viðauka. Í flokk B falli framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum og falla þar undir 2. viðauka og í flokk C falli framkvæmdir sem hingað til hafa fallið utan viðmiðunarmarka laganna en er nauðsynlegt, í ljósi athugasemda ESA, að fella undir lögin. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir sem falla í flokk C fái einfaldari og fljótlegri málsmeðferð en framkvæmdir sem falla í flokk B. Einnig eru lagðar til breytingar á einstökum ákvæðum viðaukanna til að þau falli betur að ákvæðum tilskipunarinnar, orðalag gert skýrara og mælieiningum breytt á einstaka stöðum.
    Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir einhverri fjölgun mála hjá Skipulagsstofnun því fleiri framkvæmdir verða tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu. Kærumálum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála kann einnig að fjölga. Fjármálaráðuneytið telur þó ekki ástæðu til að ætla að þessi breyting hafi í för með sér teljandi aukningu í starfsemi þessara aðila umfram ýmsar aðrar breytingar í rekstrarumhverfi þeirra.