Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 103. máls.

Þingskjal 103  —  103. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á innheimtulögum,
nr. 95/2008 (víðtækara eftirlit o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „sem binda Ísland“ í b-lið 1. mgr. kemur: þ.m.t. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þar sem ríkisborgarar og lögaðilar annarra aðildarríkja svæðisins, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyingar eða færeyskir lögaðilar eru undanþegnir skilyrðum um starfsstöð hér á landi.
     b.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                      Með lögmönnum skv. 2. mgr. er einnig átt við lögmannsstofur, svo og lögaðila sem eru dótturfélög eins eða fleiri lögmanna og/eða lögmannsstofa og að öllu leyti í eigu þeirra að því skilyrði uppfylltu að starfsemin falli undir eftirlit skv. 2. mgr. 15. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þekkingu eða starfsreynslu“ í c-lið 1. mgr. kemur: þekkingu og starfsreynslu.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður sem orðast svo: hefur gilda starfsábyrgðartryggingu skv. 14. gr.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                  Innheimtuleyfi er einnig veitt samkvæmt umsókn frá lögaðila enda fullnægi framkvæmdastjóri eða yfirmaður viðkomandi starfsemi skilyrðum a–e-liðar 1. mgr. Lögaðilinn skal fullnægja skilyrðum a-, e- og f-liðar 1. mgr. Innheimtuleyfi er einnig veitt samkvæmt umsókn frá lögaðila enda fullnægi framkvæmdastjóri eða yfirmaður viðkomandi starfsemi skilyrðum a–e-liðar 1. mgr. Lögaðilinn skal fullnægja skilyrðum a-, e- og f-liðar 1. mgr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „gjalddaga kröfu“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða eindaga ef síðar er.
     b.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Beri gjalddaga eða eindaga upp á löghelgan dag, eða dag þegar bankastofnanir almennt eru lokaðar, verður greiðslu eigi krafist fyrr en næsta virkan dag og, berist greiðslan ekki þann dag, skal innheimtuviðvörun ekki dagsett og send fyrr en næsta virka dag þar á eftir. Beri lokadag gefins frests upp á löghelgan dag, eða dag þegar bankastofnanir almennt eru lokaðar, verður greiðslu eigi krafist fyrr en næsta virkan dag.
     c.      E-liður 2. mgr. orðast svo: að greiðslufall skuldara geti leitt til milliinnheimtu og/eða málshöfðunar eða annarra innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga og aukins kostnaðar fyrir skuldara.
     d.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Í viðvöruninni skal ekki krefjast greiðslu á seðilgjaldi eða samsvarandi gjaldi nema laga- eða samningsheimild sé fyrir hendi.

4. gr.

    2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Innheimtuaðila, sem stundar innheimtu fyrir aðra, er skylt að halda innheimtufé, sem hann tekur við í þágu annarra, aðgreindu frá eigin fé. Skal féð án ástæðulauss dráttar lagt á vörslufjárreikning og varðveitt þar. Opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, sem mega stunda innheimtu án innheimtuleyfis skv. 2. mgr. 3. gr., eru þó undanþegin þessari skyldu. Innheimtuaðili er ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi samkvæmt þessari grein og innstæðan er ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum og stendur utan skuldaraðar við skipti á búi hans. Sérákvæði um vörslufjárreikninga lögmanna haldast. Ráðherra setur nánari ákvæði um vörslufjárreikninga í reglugerð.

5. gr.

    3. málsl. 11. gr. laganna orðast svo: Ekki skal innheimta innheimtukostnað vegna innheimtuviðvörunar ef brotið hefur verið gegn 7. gr. þannig að viðvörunin þjóni ekki tilgangi sínum.

6. gr.

    3.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um trygginguna, m.a. um tjón sem hún nær til, lágmark tryggingarfjárhæðar vegna hvers einstaks tjónsatburðar, heildarfjárhæð bóta innan hvers tryggingartímabils, eigin áhættu og brottfall tryggingar. Innheimtuaðili skal senda viðkomandi eftirlitsaðila staðfestingu á endurnýjun starfsábyrgðartryggingar.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „úrskurðarnefnd lögmanna“ í 2. mgr. kemur: Lögmannafélag Íslands.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
                  Erindum vegna innheimtu fyrir eigin starfsemi einstaklinga eða lögaðila og innheimtu opinberra aðila, sbr. 1. mgr. 1. gr., skal beina til Neytendastofu sem hefur eftirlit með slíkri starfsemi. Ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga þessara, nema kveðið sé á um annað í lögum þessum, svo og ákvæði laga um Neytendastofu og talsmann neytenda varðandi áfrýjunarnefnd neytendamála.
     c.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 1.–3. mgr.

8. gr.

    Í stað orðanna „að lögmönnum undanskildum“ í 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: að lögmönnum og opinberum aðilum undanskildum.

9. gr.

    Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Fjárhagsleg staða.

              Innheimtuaðilar, sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins eða Lögmannafélags Íslands, skulu á hverjum tíma geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Ef líkur eru á því að innheimtuaðili geti ekki staðið við skuldbindingarnar skal hann gera eftirlitsaðila grein fyrir stöðu sinni og leggja fyrir hann áætlun um endurreisn fjárhags. Eftirlitsaðili ákveður hvort þær ráðstafanir teljast fullnægjandi.
              Áætlun skv. 1. mgr. skal m.a. geyma sundurliðaða áætlun um tekjur og gjöld og áætlaðan efnahagsreikning.
              Gefi ársreikningur innheimtuaðilans eftirlitsaðila vísbendingu um að innheimtuaðili geti ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar getur eftirlitsaðili gert honum að skila áætlun skv. 1. mgr.

10. gr.

    17. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Afturköllun innheimtuleyfis.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað innheimtuleyfi skv. 4. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. og 5. gr., ef:
     a.      innheimtuaðili hefur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum; eða
     b.      skilyrði fyrir veitingu leyfis eru ekki lengur til staðar.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal innheimtuaðila veittur hæfilegur frestur til úrbóta ef unnt er að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins.

11. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Niðurfelling innheimtuleyfis.

    Innheimtuleyfi innheimtuaðila fellur niður:
     a.      sé það ekki nýtt innan tólf mánaða frá dagsetningu innheimtuleyfis;
     b.      afsali innheimtuaðili innheimtuleyfi sínu með ótvíræðum hætti; eða
     c.      sé starfsemi hætt í meira en sex mánuði samfellt.
    Afsali innheimtuaðili innheimtuleyfi sínu skv. b-lið 1. mgr. skal hann gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja réttarstöðu viðskiptavina sinna og gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir ráðstöfunum sínum. Hann skal upplýsa viðskiptamenn sína um afsal innheimtuleyfis.
    Innheimtuaðila er óheimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu fyrr en að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlitsins á niðurfellingu leyfis.

12. gr.

    Í stað 1. mgr. 18. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem það hefur eftirlit með og brýtur gegn:
     a.      3. gr. um skilyrði til að mega stunda innheimtu fyrir aðra;
     b.      6. gr. um góða innheimtuhætti enda sé brot gróft eða ítrekað;
     c.      7. gr. um innheimtuviðvörun;
     d.      2. mgr. 10. gr. um meðferð innheimtufjár;
     e.      3. mgr. 16. gr. telji eftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilins leyfis;
     f.      16. gr. a um ráðstafanir vegna slæmrar fjárhagslegrar stöðu;
     g.      17. gr. a um ráðstafanir vegna niðurfellingar innheimtuleyfis;
     h.      sátt milli Fjármálaeftirlitsins og aðila, sbr. 19. gr.;
     i.      reglugerð ráðherra skv. 12. gr. um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar.
    Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem það hefur eftirlit með og brýtur gegn 6. gr. um góða innheimtuhætti, enda sé brot gróft eða ítrekað, eða gegn reglugerð ráðherra skv. 12. gr. um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Ákvæði 3.–6. mgr. þessarar greinar gilda eftir því sem við á.

13. gr.

    Í stað orðsins „fjármálafyrirtækis“ í 2. mgr. 20. gr. laganna kemur: innheimtuaðila.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu, sem samið var í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og snertir m.a. kröfuhafa, skuldara og innheimtuaðila, eru lagðar til nokkrar breytingar á innheimtulögum, nr. 95/2008, sem gengu í gildi 1. janúar 2009. Frumvarpið er endurflutt efnislega óbreytt frá 140. löggjafarþingi. Markmið frumvarpsins er að bæta ýmsa þætti laganna í ljósi þeirrar reynslu sem nú er komin á framkvæmd þeirra. Við vinnslu frumvarpsins var m.a. höfð hliðsjón af athugasemdum eftirlitsaðila, einkum Fjármálaeftirlitsins. Lögin kveða á um ákveðnar meginreglur um innheimtu, til hagsbóta fyrir neytendur og var talið nauðsynlegt að ráðast í vissar lagabreytingar nú til að tryggja sem best hagsmuni neytenda.
    Helstu breytingartillögur snerta vernd fjár á vörslufjárreikningum, orðalag í innheimtuviðvörun varðandi næsta stig innheimtuaðgerða, starfsábyrgðartryggingu samkvæmt reglugerð, ákvæði um Lögmannafélag Íslands sem eftirlitsaðila en ekki úrskurðarnefnd lögmanna, Neytendastofu sem almennan eftirlitsaðila með eigin innheimtustarfsemi aðila, flutning sérstaks eftirlits með innheimtu opinberra aðila frá Fjármálaeftirlitinu til Neytendastofu, lagaákvæði varðandi fjárhagslega stöðu innheimtuaðila, afturköllun innheimtuleyfis í stað leyfissviptingar og niðurfellingu innheimtuleyfis. Þá er m.a. gert ráð fyrir heimild til stjórnvaldssekta fyrir gróf eða ítrekuð brot gegn góðum innheimtuháttum.
    Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst innheimtuaðila en hefur einnig óbein áhrif á neytendur og viðskiptavini innheimtuaðila með bættum reglum og víðtækara eftirliti.
    Frumvarpið getur m.a. aukið vernd kröfuhafa vegna fjár á vörslufjárreikningum innheimtuaðila, svo og hag neytenda vegna tilnefningar á Neytendastofu sem almenns eftirlitsaðila með eigin innheimtustarfsemi aðila og heimildar til stjórnvaldssekta. Er ávinningur af slíku.
    Frumvarpið var sent til almennrar umsagnar fyrir framlagningu þess á 139. löggjafarþingi. Umsagnir bárust frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu, Intrum Justitia, Neytendastofu og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Frumvarpið var lagt fyrir að nýju á 140. löggjafarþingi með minni háttar breytingum með hliðsjón af umsögnum við meðferð þess á 139. þingi. Umsagnir án efnislegra athugasemda við frumvarpið bárust frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Nasdaq OMX (Kauphöll Íslands), ríkislögreglustjóra, ríkisskattstjóra, Samtökum fjármálafyrirtækja, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tollstjóra. Efnislegar athugasemdir bárust frá Fjármálaeftirlitinu, Neytendastofu, Seðlabanka Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Motus og Viðskiptaráði Íslands. Athugasemdir snertu m.a. löginnheimtu sem fellur utan innheimtulaga, jafnræði í eftirliti og skýrleika heimilda til stjórnvaldssekta.
    Gerð er grein fyrir þeim breytingum sem gerðar voru með tilliti til umsagna í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.
    Ekki var mælt fyrir frumvarpinu á 140. löggjafarþingi og fór það ekki til nefndar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í a-lið greinarinnar eru ítarlegri ákvæði en eru í 3. gr. laganna varðandi fasta starfsstöð hér á landi nema annað leiði af alþjóðasamningum sem binda Ísland. Eru ákvæðin einkum gerð ítarlegri með tilliti til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í b-lið er kveðið nánar á um hverjir geti fallið undir hugtakið lögmenn, m.a. lögmannsstofur og vissir lögaðilar.

Um 2. gr.

    Í greininni er m.a. bætt við ákvæðum þannig að einstaklingur eða lögaðili þurfi við umsókn um innheimtuleyfi skv. 4. gr. laganna að sýna fram á að hann hafi gilda starfsábyrgðartryggingu skv. 14. gr. laganna. Áskilnaður um þekkingu og starfsreynslu en ekki annað hvort er í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki.

Um 3. gr.

    Greinin fjallar um breytingu á 7. gr. laganna um innheimtuviðvörun.
    Í a-lið 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingum sem ætla má að séu í samræmi við framkvæmd mála og snerta þær 1. mgr. 7. gr. laganna. Í 1. mgr. 7. gr. laganna er nú talað um að innheimtuviðvörun skuli senda eftir gjalddaga kröfu. Bætt er við orðunum „eða eindaga ef síðar er“ en sumir gefa kost á greiðslu á eindaga sem er þá síðar en gjalddagi. Þykir rétt að taka í lögum af tvímæli um þetta atriði.
    Þá er í b-lið 3. gr. frumvarpsins tekið mið af ákvæðum 72. gr. víxillaga, nr. 93/1933, þar sem segir að greiðslu verði eigi krafist fyrr en næsta virka dag á eftir gjalddaga beri gjalddagann upp á löghelgan dag eða dag þegar bankastofnanir almennt eru lokaðar. Sýnist sú regla gilda nú um innheimtur en yrði nefnd í lögunum til öryggis. Jafnframt er ákveðið að eindagi komi í stað gjalddaga sé hann síðar. Verður greiðslu samkvæmt frumvarpinu eigi krafist fyrr en næsta virkan dag eftir löghelgan dag eða bankalokunardag og, berist greiðslan ekki þann dag, skal innheimtuviðvörun eigi dagsett og send fyrr en næsta virka dag þar á eftir. Ganga þarf sem sé úr skugga um að greiðslan hafi ekki borist, t.d. í banka, áður en viðvörunin er send til að valda ekki óþarfa amstri.
    Miðað við texta frumvarpsins, eins og það kom fram á síðasta löggjafarþingi, er bætt við ákvæði þar sem greint er frá því að beri lokadag gefins frests í innheimtuviðvörun upp á löghelgan dag, eða dag þegar bankastofnanir almennt eru lokaðar, verður greiðslu eigi krafist fyrr en næsta virkan dag. Þykir rétt að hafa þetta ákvæði sem skýrast.
    Í c-lið 3. gr. frumvarpsins er breytt orðalagi 2. mgr. 7. gr. um viðvörunina þannig að orðalag verði mildara og þess ekki krafist að fjallað verði um málshöfðun eða aðrar innheimtuaðgerðir á grundvelli réttarfarslaga og aukins kostnaðar fyrir skuldara. Þess í stað yrði tekið fram að greiðslufall skuldara geti leitt til milliinnheimtu og/eða málshöfðunar eða annarra innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga og aukins kostnaðar fyrir skuldara. Eigi að fara í milliinnheimtu í kjölfar innheimtuviðvörunar kann þannig að nægja að greina í viðvöruninni frá því að næsta stig verði milliinnheimta, sem eftir atvikum getur verið eitt til þrjú bréf. Í þriðja bréfi nægir síðan að gera grein fyrir málshöfðunarmöguleika.
    Ákvæði d-liðar 3. gr. frumvarpsins snerta þá undantekningu er innheimtuviðvörun er send fyrir gjalddaga ef um er að ræða innheimtu vegna eigin starfsemi. Er bætt við að eigi skuli krefjast greiðslu á seðilgjaldi eða samsvarandi gjaldi nema laga- eða samningsheimild sé fyrir hendi.
    Af þessu tilefni vill ráðuneytið benda á að starfshópur frá 29. ágúst 2007 á vegum viðskiptaráðuneytisins komst að þeirri niðurstöðu, sbr. fréttatilkynningu viðskiptaráðuneytisins nr. 7/2008 frá 19. febrúar 2008, að seðilgjöld vegna útsendingar reikninga ætti ekki að innheimta nema á grundvelli lagaheimildar (t.d. Íbúðalánasjóður, Lánasjóður íslenskra námsmanna og Orkuveita Reykjavíkur) eða samkvæmt samningi á milli aðila. Þar eð lagaheimild er sjaldnast fyrir hendi reynir oftast á þá spurningu hvort samningur hafi verið gerður milli aðila. Slíkur kostnaður kann að vera innifalinn í verði vöru eða þjónustu en ekki er einhliða unnt að ákveða seðilgjöld, hverju nafni sem nefnast, og þá ákveða einhliða fjárhæð slíkra gjalda.
    Innheimtulög snerta almennt ekki seðilgjöld en þau tengjast 3. mgr. 7. gr. innheimtulaga þar eð innheimtuviðvörun má í þeim tilvikum senda fyrir gjalddaga. Almennu athugasemdirnar um seðilgjöldin hér að framan eiga þó við um önnur tilvik við útsendingu reikninga, svo og jafnvel á síðari stigum. Þannig verður ekki unnt að krefjast seðilgjalda vegna útsendingar bréfa í milliinnheimtu enda gjöld tæmandi talin í innheimtureglugerð á grundvelli 12. gr. laganna. Þar segir að efnahags- og viðskiptaráðherra geti í reglugerð ákveðið hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar sem heimilt er að krefja skuldara um samkvæmt lögunum.

Um 4. gr.

    Í greininni er miðað að því að hafa skýrari ákvæði í 10. gr. laganna um meðferð innheimtufjár á vörslufjárreikningum og tryggja betur hag kröfuhafa. Sambærilegar reglur um vörslufjárreikninga er að finna í lögum um miðlun vátrygginga, sbr. 22. gr. laga nr. 32/2005, um lögmenn, sbr. 23. gr. laga nr. 77/1998, og um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, sbr. 17. gr. laga nr. 99/2004.
    Rétt þykir að taka sérstaklega fram að innheimtuaðili sé ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi og innstæðan sé ekki hæft andlag aðfarargerðar hjá honum og standi utan skuldaraðar við skipti á búi hans.
    Loks er kveðið á um að ráðherra, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, kveði nánar á um vörslufjárreikninga í reglugerð. Í fyrra frumvarpi, sem lagt var fram á 139. löggjafarþingi, var kveðið á um að ráðherra væri heimilt að setja reglugerð en er nú eftir ábendingum frá Fjármálaeftirlitinu kveðið á um að hann setji nánari ákvæði um vörslufjárreikninga í reglugerð í samræmi við sambærilegt ákvæði í lögum um miðlun vátrygginga.

Um 5. gr.

    Með hliðsjón af því markmiði innheimtulaga að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur þykir rétt að gera breytingu á 11. gr. laganna þannig að eigi megi innheimta innheimtukostnað vegna innheimtuviðvörunar ef brotið hefur verið gegn 7. gr. þannig að viðvörunin þjóni ekki tilgangi sínum.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um breytingu á grein um starfsábyrgðartryggingu. Lagt er til að ákvæðið verði fært til samræmis við sambærileg ákvæði í öðrum lögum, svo sem lögum um lögmenn. Í því felst að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra kveði á um það í reglugerð til hvaða tjóns starfsábyrgðartrygging skuli taka, tryggingarfjárhæðir, heildarfjárhæð bóta innan hvers tryggingartímabils, eigin áhættu og brottfall ábyrgðartryggingar. Jafnframt er lagt til að innheimtuaðili skuli senda viðkomandi eftirlitsaðila staðfestingu á endurnýjun starfsábyrgðartryggingar.

Um 7. gr.

    Í ákvæðum 2. mgr. 15. gr. innheimtulaga um eftirlit gagnvart lögmönnum þykir eðlilegt að gera breytingu þannig að fram komi að Lögmannafélag Íslands sé eftirlitsaðili í stað úrskurðarnefndar lögmanna. Byggist þessi breyting m.a. á ábendingum frá Lögmannafélagi Íslands. Fer félagið með almennt eftirlit með lögmönnum, m.a. um að þeir fari að lögum og þá uppfylli skilyrði þeirra. Þannig gæti félagið komið að samræmingu verklagsreglna um eftirlit samkvæmt innheimtulögum gagnvart Fjármálaeftirlitinu sem er almennur eftirlitsaðili samkvæmt lögunum. Þrátt fyrir þessa breytingu varðandi almennt eftirlit af hálfu lögmannafélagsins getur til þess komið að einhver mál endi hjá úrskurðarnefndinni sem fer með agavald gagnvart lögmönnum.
    Þeir sem kaupa kröfur í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfir í atvinnuskyni skv. 5. gr. laganna þurfa innheimtuleyfi og eru undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Í frumvarpinu er lagt til að Neytendastofa verði sérstakur eftirlitsaðili með almennri innheimtu á eigin kröfum einstaklinga eða lögaðila. Þykir nauðsynlegt að hafa opinberan aðila í eftirliti með þessari tegund innheimtu með tilliti til þarfa einstakra neytenda. Ákvæðin taka þó einnig til fyrirtækja og annarra lögaðila þar sem almenn eigin innheimta kemur við sögu. Þessi niðurstaða er öðruvísi en í Noregi þar sem enginn eftirlitsaðili er með slíkri starfsemi, en íslensk innheimtulög byggjast mjög á norskum lögum. Neytendastofa skal og hér á landi m.a. hafa eftirlit með innheimtu opinberra aðila, sbr. nánar í 8. gr. frumvarpsins og athugasemd við hana.
    Ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð. Þar undir falla m.a. ákvæði þeirra laga um málskotsrétt aðila til áfrýjunarnefndar neytendamála (4. gr.) og að ákvörðun Neytendastofu verði ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggi fyrir (25. gr.). Í lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, sem kveðið er á um að gildi einnig, eru sérhæfð ákvæði um áfrýjunarnefnd neytendamála. Hér vísast að lokum til 12. gr. frumvarpsins um stjórnvaldssektir. Ákvæði framangreindra neytendalaga gilda aðeins ef eigi er öðruvísi kveðið á um í lögum þessum. Þannig fer fjárhæð stjórnvaldssekta eftir ramma laga þessara.
    Í nýrri 4. mgr. er gert ráð fyrir að eftirlitsaðilarnir, Fjármálaeftirlitið, úrskurðarnefnd lögmanna og Neytendastofa, samræmi verklagsreglur sínar um eftirlit samkvæmt lögunum.

Um 8. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að breyting verði gerð á 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna þannig að auk lögmanna verði opinberir aðilar einnig undanskildir eftirliti Fjármálaeftirlitsins með innheimtu. Tengist ákvæðið þeirri breytingu sem lögð er til í 7. gr. frumvarpsins, þ.e. að eftirlit með innheimtu opinberra aðila flytjist frá Fjármálaeftirlitinu til Neytendastofu.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að ný grein bætist við lögin, 16. gr. a, sem kveður á um fjárhagslega stöðu innheimtuaðila. Er þannig lagt til að innheimtuaðili, sem lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins eða Lögmannafélags Íslands vegna innheimtu, skuli á hverjum tíma geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Tilvísun til Fjármálaeftirlitsins og Lögmannafélags Íslands er nýmæli frá fyrra frumvarpi og er bætt inn eftir ábendingar frá Neytendastofu og Motus kröfuþjónustu ehf. til að taka af allan vafa um að ákvæðið eigi bæði við um þá sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með sem og lögmenn sem Lögmannafélag Íslands hefur eftirlit með. Er ákvæðið sambærilegt við ákvæði í lögum um miðlun vátrygginga.
    Þá er í greininni lagt til að innheimtuaðili skuli gera Fjármálaeftirlitinu eða Lögmannafélagi Íslands viðvart ef líkur eru á að hann geti ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Jafnframt er lagt til að eftirlitsaðili geti gert kröfu um skil á áætlun ef ástæða er talin til að ætla að innheimtuaðilarnir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Með ákvæðinu er eftirlitsaðila falið fjárhagslegt eftirlit með innheimtuaðilum. Er með því gert ráð fyrir að hann geti haft nánara eftirlit með fjárhagslegri stöðu innheimtuaðila og geti gripið fyrr inn í en verið hefur, stefni í vandræði. Með því að gera kröfu um að innheimtuaðili leggi fram áætlun um endurreisn fjárhags er enn fremur líklegt að innheimtuaðili geri sér betur grein fyrir stöðu sinni og horfum til framtíðar.
    Sú nýjung er í frumvarpinu frá fyrri framlagningu þess að gert er ráð fyrir að eftirlitsaðili meti hvort fyrirhugaðar ráðstafanir innheimtuaðila um endurreisn fjárhags teljist fullnægjandi. Viðbótin er tilkomin vegna ábendinga Fjármálaeftirlitsins sem telur nauðsynlegt að eftirlitsaðili hafi endanlegt mat um það hvort áætlun um endurreisn fjárhags teljist fullnægjandi og á það sérstaklega við þegar upp kemur ágreiningur milli innheimtuaðila og Fjármálaeftirlitsins. Sambærilegt ákvæði má finna í lögum um miðlun vátrygginga.

Um 10. gr.

    Í greininni, sem geymir nýja 17. gr. laganna, er gert ráð fyrir að kveðið verði á um afturköllun innheimtuleyfis, ekki sviptingu innheimtuleyfis. Samkvæmt ákvæðinu hefur Fjármálaeftirlitið heimild til afturköllunar innheimtuleyfis en ekki skyldu. Þar eð um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun er að ræða, sem veltur á mati, er eðlilegt að Fjármálaeftirlitið hafi svigrúm til að meta hvort beitt skuli afturköllun eða öðrum vægari úrræðum. Er í greininni kveðið á um skilyrði fyrir afturköllun leyfisins og er m.a. lagt til að heimilt verði að afturkalla leyfið ef skilyrði þess eru ekki til staðar. Á það m.a. við ef starfsábyrgðartrygging er ekki í gildi. Þá er lagt til að áður en til afturköllunar kemur skuli innheimtuaðila veittur hæfilegur frestur til úrbóta ef unnt er að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins.

Um 11. gr.

    Hér er gert ráð fyrir nýrri grein í lögunum, 17. gr. a, sem fjallar um niðurfellingu innheimtuleyfis ef leyfið er ekki nýtt, því afsalað eða starfsemi stöðvuð. Gert er ráð fyrir ráðstöfunum til að tryggja réttarstöðu viðskiptavina. Þá skal innheimtuaðili upplýsa viðskiptamenn sína um afsal innheimtuleyfis og er honum jafnframt óheimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu sinni fyrr en Fjármálaeftirlitið hefur staðfest niðurfellingu leyfis.

Um 12. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að bætt sé við heimild í 1. mgr. 18. gr. laganna til að grípa til stjórnvaldssekta vegna brota á ákvæðum 6. gr. þeirra um góða innheimtuhætti enda sé um gróft eða ítrekað brot að ræða. Þykir nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að beita stjórnvaldssektum í þessum tilvikum. Einnig er bætt við heimild til að beita stjórnvaldssektum þegar skortir á rétta meðferð á innheimtufé skv. 2. mgr. 10. gr. laganna, þ.e. þegar innheimtufé er ekki haldið aðskildu frá eigin fjármunum innheimtuaðila og innheimtufé ekki án ástæðulauss dráttar lagt inn á vörslufjárreikning. Þá er veitt stjórnvaldssektaheimild vegna aðgerðaleysis í tengslum við 16. gr. a um ráðstafanir vegna slæmrar fjárhagslegrar stöðu og 17. gr. a um ráðstafanir vegna niðurfellingar innheimtuleyfis.
    Jafnframt þykir rétt að kveða með skýrum hætti á um heimild Neytendastofu til að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem það hefur eftirlit með og brýtur gegn 6. gr. laganna um góða innheimtuhætti enda sé brot gróft eða ítrekað eða gegn reglugerð ráðherra skv. 12. gr. laganna um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins um ákvæði þargreindra neytendalaga og þá sérstaklega athugasemdanna um fjárhæð stjórnvaldssekta. Ákvæði 3.–6. mgr. 18. gr. laganna (eftir breytingu) gilda eftir því sem við á.

Um 13. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir því að í stað refsingar vegna rangra eða villandi upplýsinga um hagi fjármálafyrirtækis í 2. mgr. 20. gr. laganna komi að um sé að ræða hagi innheimtuaðila er falla undir innheimtulög. Er talið nauðsynlegt að refsiákvæði sé fyrir hendi varðandi ekki aðeins fjármálafyrirtæki heldur og aðra innheimtuaðila í tilvikum sem þessum.

Um 14. gr.

    Grein þessi geymir gildistökuákvæði. Gert er ráð fyrir að lög þessi öðlist þegar gildi.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum,
nr. 95/2008 (víðtækara eftirlit o.fl.).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögunum, m.a. með hliðsjón af reynslu við framkvæmd þeirra og athugasemdum eftirlitsaðila. Helstu breytingar snerta vernd fjár á fjárvörslureikningum, orðalag í innheimtuviðvörunum, hækkun starfsábyrgðartryggingar, Lögmannafélag Íslands sem eftirlitsaðila í stað úrskurðarnefndar lögmanna, Neytendastofu sem eftirlitsaðila með innheimtu fyrir eigin starfsemi, flutning eftirlits með innheimtu opinberra aðila frá Fjármálaeftirliti til Neytendastofu, fjárhagslega stöðu innheimtuaðila, afturköllun innheimtuleyfis í stað leyfissviptingar og niðurfellingu innheimtuleyfis.
    Samkvæmt gildandi lögum hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með starfsemi þeirra aðila sem það hefur veitt innheimtuleyfi samkvæmt lögunum, að lögmönnum undanskildum. Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins gilda lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í frumvarpinu er lagt til að auk lögmanna verði opinberir aðilar undanskildir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Einnig er mælt fyrir um að erindum vegna innheimtu fyrir eigin starfsemi og innheimtu opinberra aðila skuli beina til Neytendastofu sem hefur eftirlit með slíkri starfsemi. Skulu ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð.
    Fjármálaráðuneytið telur að lögfesting frumvarpsins geti leitt til einhverrar aukningar í verkefnum hjá Neytendastofu vegna fyrirhugaðs eftirlits stofnunarinnar með innheimtu fyrir eigin starfsemi og innheimtu opinberra aðila. Á hitt ber þó að líta að Neytendastofa annast nú þegar eftirlit samkvæmt lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, og að erindi vegna innheimtu aðila á eigin kröfum hafa verið fátíð á umliðnum árum.
    Fjármálaráðuneytið gerir því ráð fyrir að verði frumvarpið óbreytt að lögum muni það einungis hafa í för með sér óveruleg útgjöld fyrir ríkissjóð sem rúmast innan fjárheimilda innanríkisráðuneytis.