Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 106. máls.

Þingskjal 106  —  106. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði (lykilupplýsingar, markaðssetning, samrunasjóðir, Evrópupassi og höfuðsjóðir og fylgisjóðir).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast fimm nýir töluliðir, 15.–19. tölul., svohljóðandi:
     15.      Samruni: Samruni þar sem:
                  a.      einum eða fleiri verðbréfasjóðum (samrunasjóðum), eða einstökum deildum samrunasjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., er slitið án skuldaskila og allar eignir og skuldbindingar samrunasjóðsins eru yfirfærðar til annars starfandi verðbréfasjóðs (yfirtökusjóðs), eða einstakra deilda yfirtökusjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., í skiptum fyrir útgáfu hlutdeildarskírteina til handa eigendum hlutdeildarskírteina samrunasjóðsins og, ef við á, greiðslu reiðufjár sem er ekki umfram 10% verðmætis þeirra hlutdeildarskírteina,
                  b.      tveimur eða fleiri verðbréfasjóðum (samrunasjóðum), eða einstökum deildum samrunasjóða séu þeir deildaskiptir skv. 12. gr., er slitið án skuldaskila og allar eignir og skuldbindingar samrunasjóðanna eru yfirfærðar í verðbréfasjóð (yfirtökusjóð) sem þeir stofna, eða til einstakra deilda yfirtökusjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., í skiptum fyrir útgáfu hlutdeildarskírteina til handa eigendum hlutdeildarskírteina samrunasjóðanna og, ef við á, greiðslu reiðufjár sem er ekki umfram 10% verðmætis hreinnar eignar þeirra hlutdeildarskírteina,
                  c.      einn eða fleiri verðbréfasjóðir (samrunasjóðir), eða einstakar deildir verðbréfasjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., halda áfram starfsemi sinni en yfirfæra hreina eign sína til annarrar deildar sama verðbréfasjóðs eða yfir í verðbréfasjóð (yfirtökusjóð) sem stofnaður er eða einstakra deilda hans sé hann deildaskiptur skv. 12. gr.
     16.      Innlendur samruni: Samruni verðbréfasjóða sem hafa staðfestu og staðfestingu hér á landi og hafa ekki markaðssett hlutdeildarskírteini sín í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     17.      Millilandasamruni: Samruni verðbréfasjóða þar sem:
                  a.      að minnsta kosti tveir verðbréfasjóðanna eru með staðfestu og staðfestingu í mismunandi aðildarríkjum,
                  b.      verðbréfasjóðir með staðfestu og staðfestingu í sama aðildarríki renna saman í nýjan verðbréfasjóð með staðfestu og staðfestingu í öðru aðildarríki,
                  c.      verðbréfasjóðir með staðfestu og staðfestingu hér á landi, þar sem að minnsta kosti einn verðbréfasjóðanna hefur markaðssett hlutdeildarskírteini sín í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, renna saman.
     18.      Fylgisjóður: Verðbréfasjóður, eða einstakar deildir verðbréfasjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., sem hefur fengið heimild til að fjárfesta að minnsta kosti 85% eigna sinna í hlutdeildarskírteinum höfuðsjóðs eða einstakra deilda hans sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., þrátt fyrir 1. mgr. 39. gr.
     19.      Höfuðsjóður: Verðbréfasjóður, eða einstakar deildir verðbréfasjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
                  a.      hefur að minnsta kosti einn fylgisjóð úr hópi eigenda hlutdeildarskírteina,
                  b.      er ekki sjálfur fylgisjóður,
                  c.      er ekki eigandi hlutdeildarskírteina fylgisjóðs.

2. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Skrá yfir verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði skal birt opinberlega.

3. gr.

    Á eftir 1. mgr. 4. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Verðbréfasjóðir geta fengið staðfestingu Fjármálaeftirlitsins til þess að hefja starfsemi ef rekstrarfélög þeirra eru með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og uppfylla að öðru leyti reglur sem settar eru innan Evrópska efnahagssvæðisins um verðbréfasjóði um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar, m.a. um umsókn rekstrarfélags með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins um staðfestingu verðbréfasjóðs hér á landi.

4. gr.

    Í stað orðanna „útdráttur úr útboðslýsingu“ í 5. gr. laganna og í stað sömu orða í 1., 2. og 3. mgr. og fyrirsögn 51. gr., 8. mgr. 52. gr., 1., 2., og 3. mgr. 53. gr. og 4. tölul. 2. mgr. 55. gr. kemur (í viðeigandi beygingarföllum): lykilupplýsingar; í stað orðanna „útdráttum úr þeim“ í 8. mgr. 52. gr. kemur: lykilupplýsingum; og í stað orðanna „skal boðinn“ og „aðgengileg“ í 1. og 3. mgr. 53. gr. kemur: skulu boðnar; og: aðgengilegar.

5. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 18. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    44. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

    Markaðssetning erlendra verðbréfasjóða með staðfestu og staðfestingu
í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi.

    Erlendum verðbréfasjóði með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að markaðssetja skírteini sín hér á landi eftir að Fjármálaeftirlitið hefur staðfest móttöku tilkynningar um fyrirhugaða starfsemi frá lögbærum eftirlitsaðila heimaríkis verðbréfasjóðsins.
    Fjármálaeftirlitið skal staðfesta móttöku tilkynningar eigi síðar en fimm virkum dögum eftir móttöku. Hið sama gildir um starfsemi svissneskra og færeyskra verðbréfasjóða, enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og til verðbréfasjóða með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra eða færeyskra yfirvalda.
    Tilkynningu um markaðssetningu skulu fylgja eftirfarandi gögn:
     1.      Yfirlýsing lögbærs eftirlitsaðila í heimaríki verðbréfasjóðsins um að hann hafi staðfestingu í því ríki og uppfylli að öðru leyti reglur sem settar eru innan Evrópska efnahagssvæðisins um verðbréfasjóði um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.
     2.      Reglur verðbréfasjóðsins.
     3.      Útboðslýsing og lykilupplýsingar.
     4.      Endurskoðaður ársreikningur næstliðins árs, sé hann fyrirliggjandi, og síðari hálfsársuppgjör.
    Verðbréfasjóður skal gera ráðstafanir til að tryggja rétt eigenda hlutdeildarskírteina til útgreiðslu hagnaðar, innlausnar hlutdeildarskírteina og þeirra upplýsinga sem sjóðnum er skylt að miðla, m.a. upplýsinga um fyrirhugaðar ráðstafanir sjóðsins til að tryggja rétt hlutdeildarskírteinishafa ef sjóðurinn hyggst hætta starfsemi eða markaðssetningu hérlendis.
    Verði breytingar á áður tilkynntum atriðum skal verðbréfasjóður tilkynna breytinguna til Fjármálaeftirlitsins.
    Verðbréfasjóður skal þó upplýsa Fjármálaeftirlitið skriflega fyrir fram um breytingar á framkvæmd fyrirhugaðrar starfsemi eða markaðssetningar hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðsins sem fram koma í tilkynningu um markaðssetningu. Verðbréfasjóður skal m.a. upplýsa hverjir muni annast sölu hlutdeildarskírteina og hafa lögformlega heimild til innlausnar fyrir hönd verðbréfasjóðsins og hver væntanlegur markhópur fjárfesta verður.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
                  Hafi Fjármálaeftirlitið rökstudda ástæðu til að ætla að erlendur verðbréfasjóður brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim eða gegn ákvæðum annarra laga um fjármálastarfsemi skal Fjármálaeftirlitið gera lögbærum eftirlitsaðila verðbréfasjóðs viðvart, enda sé um að ræða brot gegn ákvæðum sem Fjármálaeftirlitinu er ekki falið eftirlit með sem gistiríki. Telji Fjármálaeftirlitið að ráðstafanir lögbærs eftirlitsaðila verðbréfasjóðs séu ófullnægjandi til að stöðva ólögmæta háttsemi verðbréfasjóðsins hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fjárfestum og heilbrigðri starfsemi fjármálamarkaða hér á landi. Í þessu felst m.a. heimild til að banna erlendum verðbréfasjóði að markaðssetja skírteini sín hér á landi. Fjármálaeftirlitið getur endurnýjað heimild verðbréfasjóðsins til markaðssetningar geti sjóðurinn sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði laga um starfsemi verðbréfasjóða.
     b.      Orðin „verðbréfasjóði og“ og „verðbréfasjóður eða“ í 1. mgr. falla brott.

8. gr.

    48. gr. laganna orðast svo:
    Hyggist verðbréfasjóður markaðssetja hlutdeildarskírteini sín utan Íslands skal hann tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það.
p     Í tilkynningu vegna fyrirhugaðrar markaðssetningar verðbréfasjóðs skal vera lýsing á framkvæmd markaðssetningar hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðsins, m.a. hverjir munu annast sölu hlutdeildarskírteina og hafa lögformlega heimild til innlausnar fyrir hönd verðbréfasjóðsins og hver væntanlegur markhópur fjárfesta verður. Tilkynningu skulu fylgja eftirfarandi gögn:
     1.      Reglur verðbréfasjóðsins.
     2.      Útboðslýsing og lykilupplýsingar.
     3.      Endurskoðaður ársreikningur næstliðins árs, sé hann fyrirliggjandi, og síðari hálfsársuppgjör.
    Fjármálaeftirlitið skal staðfesta að framlögð gögn skv. 2. mgr. séu fullnægjandi.
    Fjármálaeftirlitið skal senda lögbærum eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetning er fyrirhuguð gögn skv. 2. mgr. ásamt yfirlýsingu um að verðbréfasjóðurinn hafi staðfestingu á Íslandi og uppfylli að öðru leyti reglur sem settar eru innan Evrópska efnahagssvæðisins um verðbréfasjóði um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Gögn samkvæmt þessari málsgrein skulu send lögbærum eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetning er fyrirhuguð eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að tilkynning ásamt fullnægjandi gögnum barst Fjármálaeftirlitinu.
    Fjármálaeftirlitið skal án tafar tilkynna verðbréfasjóðnum þegar lögbær eftirlitsaðili í því landi þar sem verðbréfasjóðurinn hyggst markaðssetja hlutdeildarskírteini sín hefur staðfest móttöku tilkynningarinnar og er verðbréfasjóðnum þá heimilt að markaðssetja sig í því landi.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 55. gr. laganna:
     a.      Orðin ,,og í öðru kynningarefni einstakra sjóða“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      2. málsl. fellur brott.

10. gr.

    Á eftir 56. gr. laganna koma sjö nýjar greinar, 56. gr. a – 56. gr. g, ásamt fyrirsögnum og millifyrirsögnum, svohljóðandi:

I. Samruni verðbréfasjóða.

    a. (56. gr. a.)
    Verðbréfasjóðir sem hyggjast renna saman skulu gera sameiginlega samrunaáætlun. Innlendir samrunar eru aðeins heimilir að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Millilandasamrunar eru aðeins heimilir að fengnu samþykki lögbærs eftirlitsaðila samrunasjóðs og skal samruni vera í samræmi við lög og reglur heimaríkis samrunasjóðs.

    b. (56. gr. b.)

Upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa.

    Eftir að Fjármálaeftirlitið hefur heimilað fyrirhugaðan samruna skulu verðbréfasjóðir sem hyggjast renna saman afhenda hlutdeildarskírteinishöfum samrunasjóðs og yfirtökusjóðs nákvæmar og fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugaðan samruna. Upplýsingarnar skulu gera hlutdeildarskírteinishöfum kleift að gera sér grein fyrir áhrifum fyrirhugaðs samruna á fjárfestingu þeirra og að nýta sér réttindi sín samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Upplýsingarnar skulu vera veittar eigi síðar en 30 dögum áður en innlausnarskyldu skv. 56. gr. c lýkur.
    Upplýsingar skal veita um eftirfarandi:
     1.      Ástæður og aðdraganda fyrirhugaðs samruna.
     2.      Þau áhrif sem álitið er að samruninn muni hafa á hlutdeildarskírteinishafa, m.a. breytingar á fjárfestingarstefnu, væntan árangur, reglubundnar skýrslur og, ef við á, viðvörun til fjárfesta um að skattaleg meðferð geti breyst vegna fyrirhugaðs samruna.
     3.      Réttindi hlutdeildarskírteinishafa vegna fyrirhugaðs samruna, rétt hlutdeildarskírteinishafa til innlausnar og, ef við á, rétt þeirra til að skipta hlutdeildarskírteinum sínum endurgjaldslaust og innan hvaða tímamarka þeir geti nýtt þau réttindi sín.
     4.      Atriði sem varða málsmeðferð og áætlaðan gildistökudag samrunans.
     5.      Lykilupplýsingar yfirtökusjóðs.

    c. (56. gr. c.)

Innlausnarskylda.

    Hlutdeildarskírteini samrunasjóðs og yfirtökusjóðs skulu innleyst að kröfu eigenda samkvæmt reglum verðbréfasjóðanna án annars gjalds en þess sem verðbréfasjóðurinn heldur eftir til að standa undir kostnaði við sölu eigna og, ef við á, skal eigendum hlutdeildarskírteina heimilt að óska eftir því að skipta hlutdeildarskírteinum sínum í hlutdeildarskírteini í öðrum verðbréfasjóði með sambærilega fjárfestingarstefnu sem er stjórnað af sama rekstrarfélagi eða félagi sem rekstrarfélagið er tengt í gegnum sameiginlega stjórnun eða beint eða óbeint eignarhald.
    Innlausnarskyldan tekur gildi þegar hlutdeildarskírteinishafar hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um samrunann og gildir þar til fimm virkum dögum fyrir viðmiðunardag við útreikning á skiptihlutfalli samrunans.

    d. (56. gr. d.)

Reglugerð.

    Ráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa kafla. Í henni skulu m.a. koma fram ákvæði um:
     1.      heimild til samruna,
     2.      umsókn um heimild til samruna,
     3.      sameiginlega samrunaáætlun samrunasjóðs og yfirtökusjóðs,
     4.      upplýsingagjöf til hlutdeildarskírteinishafa heimild til samruna.

J. Höfuðsjóðir og fylgisjóðir.

    e. (56. gr. e.)

Umsókn fylgisjóðs til fjárfestingar í höfuðsjóði.

    Fylgisjóði er einungis heimilt að fjárfesta í höfuðsjóði að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið skal heimila fjárfestingu fylgisjóðs í höfuðsjóði ef fylgisjóður, vörslufyrirtæki fylgisjóðs, endurskoðandi fylgisjóðs og höfuðsjóður uppfylla skilyrði laga sem um þau gilda.
    Fylgisjóður skal leggja fram til Fjármálaeftirlitsins:
     1.      Reglur fylgisjóðs og höfuðsjóðs.
     2.      Útboðslýsingu og lykilupplýsingar fylgisjóðs og höfuðsjóðs.
     3.      Samkomulag á milli fylgisjóðs og höfuðsjóðs eða, ef við á, samkomulag um innri reglur.
     4.      Upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa fylgisjóðs.
     5.      Samning milli vörslufyrirtækja fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti ef fylgisjóður og höfuðsjóður hafa ekki sama vörslufyrirtæki.
     6.      Samning milli endurskoðenda fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti ef fylgisjóður og höfuðsjóður hafa ekki sama endurskoðanda.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna fylgisjóði hvort umsókn um fjárfestingar í höfuðsjóði sé samþykkt eigi síðar en 15 virkum dögum eftir móttöku fullnægjandi gagna samkvæmt þessari grein.
    Ef höfuðsjóður er með staðfestu og staðfestingu í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal fylgisjóður leggja fram yfirlýsingu lögbærs eftirlitsaðila höfuðsjóðsins um að hann hafi staðfestingu í því ríki og uppfylli að öðru leyti reglur sem settar eru innan Evrópska efnahagssvæðisins um verðbréfasjóði um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum og skilyrði skilgreiningar höfuðsjóðs.

    f. (56. gr. f.)

Fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.

    Þrátt fyrir 1. mgr. 39. gr. er fylgisjóði heimilt að fjárfesta að minnsta kosti 85% af eignum sínum í höfuðsjóði að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.
    Fylgisjóði er heimilt að fjárfesta allt að 15% af eignum sínum í reiðufé eða auðseljanlegum eignum í samræmi við 2. mgr. 31. gr. og afleiðum til varna í samræmi við 5. tölul. 30. gr.

    g. (56. gr. g.)

Reglugerð.

    Ráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa kafla. Í henni skulu m.a. koma fram ákvæði um:
     1.      samkomulag milli fylgisjóðs og höfuðsjóðs,
     2.      samkomulag um innri reglur fylgisjóðs og höfuðsjóðs,
     3.      upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa fylgisjóðs,
     4.      samning milli vörslufyrirtækja fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti,
     5.      samning milli endurskoðenda fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti,
     6.      útboðslýsingu fyrir fylgisjóð með viðbótarupplýsingum,
     7.      fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.

11. gr.

    Á eftir orðinu „Fjármálaeftirlitinu“ í 3. málsl. 2. mgr. 58. gr. laganna kemur: og hlutdeildarskírteinishöfum og tekur gildi við sendingu tilkynningar.

12. gr.

    Í stað orðanna „sbr. ákvæði laga um verðbréfasjóði“ í 2. mgr. 62. gr. laganna kemur: sbr. ákvæði laga um verðbréfaviðskipti.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 65. gr. laganna:
     a.      Í stað „2. málsl. 2. mgr. 4. gr.“ í 1. tölul. kemur: 2. málsl. 3. mgr. 4. gr.
     b.      Í stað „3. mgr. 4. gr.“ í 3. og 22. tölul. kemur: 4. mgr. 4. gr.
     c.      Við bætist nýr töluliður, 22. tölul., svohljóðandi: 56. gr. f um fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
     a.      Í stað „2. málsl. 2. mgr. 4. gr.“ í 1. tölul. kemur: 2. málsl. 3. mgr. 4. gr.
     b.      Í stað „3. mgr. 4. gr.“ í 2. og 10. tölul. kemur: 4. mgr. 4. gr.
     c.      Við bætist nýr töluliður, 10. tölul., svohljóðandi: 56. gr. f um fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.

15. gr.

    72. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS). Tilskipun 2007/16/EB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2007 sem birt var 21. febrúar 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 9/2008. Tilskipun 2009/65/EB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 sem birt var 3. mars 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 12/2011.

16. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.     Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þann 28. október 2011 skipaði efnahags- og viðskiptaráðherra nefnd til þess að endurskoða lög um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði með það að markmiði að innleiða efni tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS).
    Nefndin var þannig skipuð: Sigríður Marta Harðardóttir, sérfræðingur í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, formaður, Berglind Helga Jónsdóttir, lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu, Haraldur Örn Ólafsson, lögfræðingur hjá Íslandsbanka, tilnefndur af Samtökum fjármálafyrirtækja, Helga Rún Helgadóttir, viðskiptafræðingur hjá Seðlabankanum, tilnefnd af Seðlabankanum, Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur, tilnefndur af Samtökum fjárfesta.
    Nefndin fundaði að jafnaði vikulega. Ákveðið var að byggja á núgildandi lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nr. 128/2011, með það að markmiði að innleiða efni tilskipunar 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS). Tilskipunin leysir af hólmi fyrri tilskipanir um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Frumvarp þetta felur í sér innleiðingu á efnisbreytingum í tilskipun 2009/65/EB eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 sem birt var 3. mars 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 12/2011.

II.     Meginefni frumvarpsins.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að kynningarferli við markaðssetningu verðbréfasjóða utan heimalands er einfaldað og rekstrarfélög geta því markaðssett verðbréfasjóði utan heimalands með skilvirkari hætti. Verði frumvarpið að lögum mun Fjármálaeftirlitið hafa fimm virka daga til þess að staðfesta móttöku tilkynningar um markaðssetningu frá lögbærum eftirlitsaðila heimaríkis verðbréfasjóðs sem hyggst markaðssetja hlutdeildarskírteini sín hér á landi. Eftir staðfestingu á móttöku tilkynningar um markaðssetningu getur verðbréfasjóður hafið markaðssetningu hér á landi. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 584/2010 um markaðssetningu verðbréfasjóða hefur m.a. að geyma nákvæm atriði um hvernig tilkynning á sérstöku eyðublaði og yfirlýsing um staðfestu og staðfestingu verðbréfasjóðs skulu vera framsettar, en reglugerðin verður innleidd í íslenskan rétt með reglugerð.
    Íslenskur verðbréfasjóður sem hyggst markaðssetja hlutdeildarskírteini sín utan Íslands skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu það. Eftir að Fjármálaeftirlitinu hafa borist tilskilin gögn frá verðbréfasjóði skal Fjármálaeftirlitið staðfesta að framlögð gögn séu fullnægjandi og senda þau til lögbærs eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetningin er fyrirhuguð innan tíu virkra daga frá því að tilkynning og fullnægjandi gögn bárust. Eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fengið staðfestingu frá lögbærum eftirlitsaðila um móttöku tilkynningar um markaðssetningu getur verðbréfasjóðurinn markaðssett hlutdeildarskírteini sín utan Íslands. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna verðbréfasjóðnum um leið og lögbær eftirlitsaðili í því landi sem verðbréfasjóðurinn hyggst markaðssetja hlutdeildarskírteini sín í hefur staðfest móttöku tilkynningarinnar.
    Lagt er til að í stað útdráttar úr útboðslýsingu skuli rekstrarfélag gefa út lykilupplýsingar. Í stað útdráttar úr útboðlýsingu kemur því staðlað form, ,,key investor information“ eða lykilupplýsingar. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 583/2010 um lykilupplýsingar hefur að geyma nákvæm atriði um framsetningu lykilupplýsinga, en reglugerðin verður innleidd í íslenskan rétt með reglugerð. Lykilupplýsingar hafa að geyma helstu atriði sem finna má í útboðslýsingu verðbréfasjóðs, settar fram á auðskiljanlegan hátt fyrir fjárfesta. Öllum rekstrarfélögum verðbréfasjóða á Evrópska efnahagssvæðinu er skylt að gefa út lykilupplýsingar og mun það auðvelda fjárfestum að bera saman verðbréfasjóði og auka samkeppni.
    Gerð er tillaga um að rekstrarfélögum sé veitt heimild á grundvelli svokallaðs Evrópupassa til að stofna og stjórna sjóðum sem hafa staðfestu og staðfestingu í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Fjármálaeftirlitinu er einungis heimilt að veita verðbréfasjóði staðfestingu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2010/43/EB um framkvæmd tilskipunar 2009/65/EB er varðar almennar skipulagskröfur, hagsmunaárekstra, viðskiptahætti og áhættustýringu rekstrarfélaga og nánari útfærslu á samningi rekstrarfélags og vörslufyrirtækis verður innleidd í reglugerð með stoð í þessum lögum og lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, verði frumvarp þetta að lögum. Öll rekstrarfélög verðbréfasjóða þurfa að uppfylla ákvæði tilskipunar 2010/43/EB hvort sem þau ætla að stýra verðbréfasjóði með staðfestingu og staðfestu í öðru aðildarríki en heimaríki rekstrarfélagsins eða ekki.
    Lagt er til að lögfestar verði reglur varðandi höfuðsjóði og fylgisjóði. Fylgisjóðir eru verðbréfasjóðir sem fá heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að fjárfesta að minnsta kosti 85% eigna sinna í höfuðsjóði. Höfuðsjóður er sjóður sem að hefur að minnsta kosti einn fylgisjóð úr hópi eigenda hlutdeildarskírteina, er sjálfur ekki fylgisjóður og er ekki eigandi hlutdeildarskírteina fylgisjóðs. Höfuðsjóður getur átt fleiri en einn fylgisjóð. Um frávik er að ræða frá fjárfestingarheimildum verðbréfasjóða, en þær kveða á um að verðbréfasjóði eða einstakri deild hans sé óheimilt að binda meira en 20% af eignum sínum í hlutdeildarskírteinum einstakra verðbréfasjóða.
    Lagt er til að lögfestar verði reglur varðandi innanlandssamruna og millilandasamruna verðbréfasjóða. Með innlendum samruna er átt við samruna verðbréfasjóða sem hafa staðfestu og staðfestingu hér á landi. Með millilandasamruna er átt við samruna verðbréfasjóða þar sem að minnsta kosti tveir verðbréfasjóðanna eru með staðfestu og staðfestingu í mismunandi aðildarríkjum, verðbréfasjóðirnir sem fyrirhugað er að renni saman munu renna saman í nýjan verðbréfasjóð með staðfestu og staðfestingu í öðru aðildarríki og einnig er það millilandasamruni verðbréfasjóða þegar verðbréfasjóðir sem hafa staðfestu og staðfestingu hér á landi, þar sem að minnsta kosti einn verðbréfasjóðanna hefur markaðssett hlutdeildarskírteini sín í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, renna saman.
    Með frumvarpinu er fjórum gerðum sem fela í sér útskýringar á tilteknum atriðum sem fram koma í tilskipun 2009/65/EB veitt lagastoð. Þær eru reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 583/2010 og 584/2010 og tilskipanir framkvæmdastjórnarinnar 2010/43/EB og 2010/44/EB. Efnisákvæði framangreindra gerða verða innleidd með reglugerðum.

III.     Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá.
    Lagðar eru til breytingar til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/ EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS). Eins og fram hefur komið leysir tilskipunin fyrri tilskipanir um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum af hólmi en tilskipunin hefur jafnframt að geyma tilteknar breytingar á markaðssetningu verðbréfasjóða og lykilupplýsingar og nýmæli er varða samruna verðbréfasjóða, höfuð- og fylgisjóða, og svokallaðan Evrópupassa rekstrarfélaga verðbréfasjóða.

IV.     Samráð.
    Frumvarpið var samið af nefnd sem skipuð var af efnahags- og viðskiptaráðherra í októbermánuði 2011. Nefndarmenn voru tilnefndir af Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka og Samtökum fjárfesta.

V.     Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun það m.a. stuðla að einfaldara tilkynningarferli við markaðssetningu verðbréfasjóða utan heimalands, heimila rekstrarfélögum að stjórna sjóðum með staðfestu og staðfestingu í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og veita betri rétt til handa hlutdeildarskírteinishöfum vegna samruna verðbréfasjóða. Þá verða heimilaðir svokallaðir höfuð- og fylgisjóðir. Verðbréfasjóðum verður skylt að gefa út lykilupplýsingar í stað útdráttar úr útboðslýsingu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Fram kemur í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, að orðskýringarákvæði laganna megi finna á einum stað til skýringar á helstu hugtökum.
    Tilskipun 2009/65/EB kveður á um að millilandasamruna verðbréfasjóða skuli heimila, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Lagt er til að í 15. tölul. verði skilgreining á samruna verðbréfasjóða. Tilskipun 2009/65/ EB kveður á um lagaramma vegna millilandasamruna verðbréfasjóða og skilgreinir einnig í hvaða tilvikum samrunar sjóða teljast hafa átt sér stað.
    Í 16. tölul. er að finna skilgreiningu á innlendum samruna, en með innlendum samruna er átt við samruna verðbréfasjóða sem hafa staðfestu og staðfestingu hér á landi.
    Í 17. tölul. er skilgreining á millilandasamruna. Með millilandasamruna er átt við samruna verðbréfasjóða þar sem að minnsta kosti tveir verðbréfasjóðanna eru með staðfestu og staðfestingu í mismunandi aðildarríkjum, einnig ef verðbréfasjóðir renna saman í nýjan verðbréfasjóð með staðfestu og staðfestingu í öðru aðildarríki og ef verðbréfasjóðir sem hafa staðfestu og staðfestingu hér á landi, þar sem að minnsta kosti einn verðbréfasjóðanna hefur markaðssett hlutdeildarskírteini sín í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, renna saman.
    Í 18. tölul. er fylgisjóður skilgreindur. Tilskipun 2009/65/EB kveður á um að fylgisjóðir skuli vera heimilaðir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Um frávik er að ræða frá fjárfestingarheimildum verðbréfasjóða, en þær kveða á um að verðbréfasjóði eða einstakri deild hans sé óheimilt að binda meira en 20% af eignum sínum í hlutdeildarskírteinum einstakra verðbréfasjóða.
    Í 19. tölul. er höfuðsjóður skilgreindur. Fylgisjóður bindur nánast allar eignir sínar í höfuðsjóði og er höfuðsjóðurinn bundinn af fjárfestingarheimildum verðbréfasjóða. Höfuðsjóður getur átt fleiri en einn fylgisjóð.

Um 2. gr.

    Lagt er til að Fjármálaeftirlitið skuli birta opinberlega skrá yfir fagfjárfestasjóði líkt og það birtir opinberlega skrá yfir verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Einungis verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í verðbréfum og öðrum eignum og skilur það fagfjárfestasjóði frá verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum. Óheimilt er að markaðssetja eða koma fagfjárfestasjóði á framfæri við almenning. Opinber birting á skrá yfir fagfjárfestasjóði er einungis yfirlit yfir fagfjárfestasjóði sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins, en samkvæmt lögum þessum lúta fagfjárfestasjóðir lágmarkseftirliti Fjármálaeftirlitsins.

Um 3. gr.

    Nýmæli er lagt til í 4. gr. laganna er varðar heimild rekstrarfélags með staðfestu og starfsleyfi í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins til að fá að stofna sjóð hér á landi á grundvelli svokallaðs Evrópupassa. Fjármálaeftirlitinu er einungis heimilt að veita staðfestingu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2010/ 43/EB um framkvæmd tilskipunar 2009/65/EB er varðar almennar skipulagskröfur, hagsmunaárekstra, viðskiptahætti og áhættustýringu rekstrarfélaga og nánari útfærslu á samningi rekstrarfélags og vörslufyrirtækis verður innleidd að fullu í reglugerð með lagastoð í þessum lögum og lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Öll rekstrarfélög verðbréfasjóða þurfa að uppfylla ákvæði tilskipunar 2010/43/EB hvort sem þau ætla að stofna sjóð í öðru aðildarríki en heimaríki rekstrarfélagsins eða ekki.

Um 4. gr.
    

    Tilskipun 2009/65/EB hefur að geyma nýmæli er varðar með hvaða hætti upplýsingar skulu vera lagðar fram fyrir fjárfesta. Í stað útdráttar úr útboðlýsingu kemur staðlað form, svokallað ,,key investor information“ eða lykilupplýsingar. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 583/2010 hefur að geyma nákvæm atriði er varða lykilupplýsingar, en sú reglugerð mun verða innleidd í íslenskan rétt að fullu með reglugerð. Þá hefur samstarfsnefnd evrópskra verðbréfaeftirlitsaðila, Committee of European Securities (CESR), gefið út leiðbeinandi tilmæli um framsetningu lykilupplýsinga, en mikilvægt er að verðbréfasjóðir leggi fram lykilupplýsingarnar með sama hætti til að fjárfestar geti borið saman sjóði á Evrópska efnahagssvæðinu á skilvirkan hátt.

Um 5. gr.

    Lagt er til að 3. málsl. 1. mgr. 18. gr. laganna falli brott. Um er að ræða málslið er kveður á um að meiri hluti verkefna skv. 1. tölul. 17. gr. skuli vera unninn innan rekstrarfélags. Samkvæmt tilskipun 2009/65/EB er rekstrarfélögum verðbréfasjóða heimilt að stýra verðbréfasjóðum sem stofnaðir eru af öðrum rekstrarfélögum. Samkvæmt því er rekstrarfélag, sem er með staðfestu og starfsleyfi í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og uppfyllir að öðru leyti reglur sem settar eru innan Evrópska efnahagssvæðisins um verðbréfasjóði um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, heimilt að stýra sjóði sem stofnaður er af öðru rekstrarfélagi. Þetta gildir jafnt um sjóði sem stofnaðir eru í heimaríki rekstrarfélagsins sem í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um hvernig erlendur verðbréfasjóður með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skuli bera sig að við markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna hér á landi. Tilskipun 2009/65/EB hefur að geyma nýmæli sem einfalda eiga tilkynningarferli við markaðssetningu verðbréfasjóða utan heimalands. Fjármálaeftirlitið hefur fimm virka daga til þess að staðfesta móttöku tilkynningar ásamt meðfylgjandi gögnum skv. 2. mgr. 44. gr. frá lögbærum eftirlitsaðila heimaríkis verðbréfasjóðs sem hyggst markaðssetja hlutdeildarskírteini sín hér á landi. Eftir staðfestingu á móttöku getur verðbréfasjóður hafið markaðssetningu hér á landi. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 584/ 2010 hefur m.a. að geyma nákvæm atriði er varða framsetningu tilkynningar á sérstöku eyðublaði og yfirlýsingar um staðfestu og staðfestingu verðbréfasjóðs, en sú reglugerð verður innleidd í íslenskan rétt með reglugerð.

Um 7. gr.

    Lögbær eftirlitsaðili heimaríkis verðbréfasjóðs sem markaðssetur sig hér á landi fer með eftirlit með verðbréfasjóðnum og skal grípa til viðeigandi úrræða ef verðbréfasjóðurinn brýtur gegn ákvæðum laganna, reglum settum samkvæmt þeim eða gegn ákvæðum annarra laga um fjármálastarfsemi. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að vernda fjárfesta og heilbrigða starfsemi fjármálamarkaða hérlendis, m.a. með því að banna verðbréfasjóði markaðssetningu hlutdeildarskírteina hér á landi ef lögbær eftirlitsaðili heimaríkis verðbréfasjóðsins grípur ekki til fullnægjandi aðgerða eftir að Fjármálaeftirlitið hefur gert honum aðvart um að rökstudd ástæða sé til að ætla að erlendur verðbréfasjóður brjóti gegn lögum um fjármálastarfsemi.

Um 8. gr.

    Í greininni er fjallað um markaðssetningu íslenskra verðbréfasjóða utan Íslands. Tilskipun 2009/65/EB hefur að geyma nýmæli sem hafa það að markmiði að einfalda tilkynningarferli við markaðssetningu verðbréfasjóða utan heimalands. Samkvæmt tilskipuninni skal verðbréfasjóður sem hyggst markaðssetja hlutdeildarskírteini sín utan Íslands tilkynna Fjármálaeftirlitinu það. Eftir að Fjármálaeftirlitinu hafa borist tilskilin gögn frá verðbréfasjóðnum skal það staðfesta að framlögð gögn séu fullnægjandi og senda þau til lögbærs eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetningin er fyrirhuguð innan tíu virkra daga frá því að tilkynning og fullnægjandi gögn bárust. Eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fengið staðfestingu frá lögbærum eftirlitsaðila um móttöku tilkynningar um markaðssetningu getur verðbréfasjóðurinn markaðssett hlutdeildarskírteini sín utan Íslands. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna verðbréfasjóðnum um leið og lögbær eftirlitsaðili í því landi sem verðbréfasjóðurinn hyggst markaðssetja hlutdeildarskírteini sín í hefur staðfest móttöku tilkynningarinnar.

Um 9. gr.

    Í 3. mgr. 55. gr. laga nr. 128/2011 eru tilgreindar þær upplýsingar sem skylt er að birta á heimasíðu rekstrarfélags og í öðru kynningarefni einstakra sjóða. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 128/2011 kom fram að með kynningarefni væri t.d. átt við einblöðunga sem eru að jafnaði gefnir út mánaðarlega sem og bæklinga. Ekki væri átt við auglýsingar og styttra efni ætlað til kynningar og markaðssetningar. Með ákvæði þessu er lagt til ákvæði 3. mgr. 55. gr. taki aðeins til þeirra upplýsinga sem skylt er að birta á heimasíðu rekstrarfélags en ekki til annars kynningarefnis. Byggist tillagan á því að efni greinarinnar vísar einkum til upplýsinga á heimasíðu rekstrarfélags, svo sem skyldu til að uppfæra upplýsingar um stærstu útgefendur sjóðs að minnsta kosti á sex vikna fresti. Upplýsingar um stærstu útgefendur verða fljótt úreltar og eiga því síður við í útgefnu efni sem ætlaður er nokkur líftími. Það sama á við um upplýsingar um nafn- og raunávöxtun sjóðs auk þess sem ekki kann að vera rétt að skylda rekstrarfélög til að birta upplýsingar um ávöxtun fortíðar í öllu slíku kynningarefni. Þá er ljóst að mánaðarlegir einblöðungar sem gefnir hafa verið út af rekstrarfélögum hafa ákveðna skörun við lykilupplýsingar sem skylt verður að gefa út verði þetta frumvarp að lögum. Í lykilupplýsingum verður m.a. skylt að birta ávöxtun sjóðsins síðustu tíu árin. Er því ekki talin þörf á að vísa til annars kynningarefnis í ákvæðinu og því lagt til að tilvísunin verði felld brott.
    Í 28. gr. reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja er kveðið á um upplýsingagjöf til viðskiptavina og skal miðað við síðastliðin fimm ár. Í 15. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 583/2010 um lykilupplýsingar er kveðið á um birtingu ávöxtunar síðastliðin tíu ár. Í 2. málsl. 3. mgr. 55. gr. laganna er kveðið á um að birta skuli ávöxtun síðustu þriggja reikningsára. Lagt er til að málsliðurinn verði felldur brott þar sem hann kveður á um verri rétt til handa fjárfestum og er í ósamræmi við þær reglur sem gilda um birtingu ávöxtunar verðbréfasjóða.

Um 10. gr.

     Um a-lið (56. gr. a).
    Tilskipun 2009/65/EB hefur að geyma nýmæli er varða millilandasamruna verðbréfasjóða. Lagt er til að innanlandssamruni verðbréfasjóða heyri einnig undir lög um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Ákvæði varðandi innanlandssamruna verðbréfasjóða og millilandasamruna verðbréfasjóða verða útfærð nánar í reglugerð. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2010/44/EB um framkvæmd tilskipunar 2009/65/EB er varðar samruna verðbréfasjóða og fylgi- og höfuðsjóði útfærir nánar ákvæði er varða millilandasamruna verðbréfasjóða og mun tilskipun 2010/44/EB verða innleidd með reglugerð.
     Um b-lið (56. gr. b).
    Greinin kveður á um upplýsingaskyldu verðbréfasjóða vegna fyrirhugaðs samruna. Mikilvægt er að hlutdeildarskírteinishafar séu nægilega upplýstir um fyrirhugaðan samruna. Upplýsingaskyldan tekur bæði til hlutdeildarskírteinishafa samrunasjóðs og yfirtökusjóðs. Fullnægjandi upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa samrunasjóðs og yfirtökusjóðs skulu veittar eigi síðar en 30 dögum áður en innlausnarskyldan fellur úr gildi, en innlausnarskyldan fellur úr gildi í síðasta lagi fimm virkum dögum eftir þann dag sem skiptihlutfallið er reiknað.
     Um c-lið (56. gr. c).
    Greinin kveður á um innlausnarskyldu samrunasjóðs og yfirtökusjóðs. Hlutdeildarskírteini samrunasjóðs og yfirtökusjóðs skulu innleyst að kröfu eigenda samkvæmt reglum verðbréfasjóðanna. Þá er eigendum hlutdeildarskírteina samrunasjóðs og yfirtökusjóðs einnig heimilt að óska eftir því að skipta hlutdeildarskírteinum sínum í hlutdeildarskírteini í öðrum verðbréfasjóði með sambærilega fjárfestingarstefnu sem stjórnað er af sama rekstrarfélagi eða félagi sem rekstrarfélagið er tengt í gegnum sameiginlega stjórnun eða beint eða óbeint eignarhald.
     Um d-lið (56. gr. d).
    Ráðherra skal setja reglugerð sem kveður nánar á um reglur um samruna verðbréfasjóða. Tilskipun 2010/44/EB útfærir m.a. nánar ákvæði er varða samruna verðbréfasjóða sem kveðið er á um í tilskipun 2009/65/EB, en sú tilskipun verður innleidd með reglugerð.
     Um e-lið (56. gr. e).
    Til þess að vernda eigendur hlutdeildarskírteina fylgisjóðs skal fylgisjóði einungis heimilt að fjárfesta í höfuðsjóði að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.
    Þá skulu fylgisjóður og höfuðsjóður gera sérstakt samkomulag. Sé fylgisjóði og höfuðsjóði stýrt af sama rekstrarfélagi nægir að sjóðirnir geri samkomulag um innri reglur. Samningur milli vörslufyrirtækja fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti, ef fylgisjóður og höfuðsjóður hafa ekki sama vörslufyrirtæki, skal tryggja að flæði upplýsinga og gagna sé nægilegt fyrir vörslufyrirtæki eða endurskoðanda fylgisjóðsins til þess að uppfylla skyldur sínar.
     Um f-lið (56. gr. f).
    Ákvæðið kveður á um fjárfestingarheimildir fylgisjóðs. Fylgisjóður er verðbréfasjóður sem hefur fengið heimild til að fjárfesta að minnsta kosti 85% eigna sinna í höfuðsjóði. Samkvæmt ákvæðinu getur fylgisjóður fjárfest að hámarki 15% í reiðufé eða auðseljanlegum eignum og afleiðum til varna. Er það ætlað til þess að viðkomandi sjóður geti mætt innlausnum.
     Um g-lið (56. gr. g).
    Ráðherra skal setja reglugerð sem kveður nánar á um atriði sem varða fylgisjóði og höfuðsjóði. Tilskipun 2010/44/EB útfærir m.a. nánar ákvæði er varða fylgisjóði og höfuðsjóði sem kveðið er á um í tilskipun 2009/65/EB, en sú tilskipun verður innleidd í íslenskan rétt með reglugerð.

Um 11. gr.

    Lagt er til að sama regla gildi um innlausn hlutdeildarskírteina fjárfestingarsjóða og innlausn hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða, enda eru ákvæðin sambærileg. Frestun innlausnar fjárfestingarsjóða skal því samkvæmt frumvarpinu taka gildi þegar Fjármálaeftirlitinu berst tilkynning rekstrarfélags þess efnis.

Um 12. gr.

    Lagt er til að núgildandi lög séu leiðrétt og vísun verði til réttra laga, en fagfjárfestar eru skilgreindir í lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

Um 13. gr.

    Ákvæðið kveður á um að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leggja stjórnvaldssekt á hvern þann sem brýtur gegn ákvæði um fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.

Um 14. gr.

    Ákvæðið kveður á um að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæði um fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.

Um 15. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um innleiðingu Evrópugerða um verðbréfasjóði og þarfnast hún ekki skýringa.

Um 16. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 128/2011,
um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði
(lykilupplýsingar, markaðssetning, samrunasjóðir,
Evrópupassi og höfuðsjóðir og fylgisjóðir).

    Í frumvarpi þessu felst innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB, um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS). Tilskipuninni er ætlað að auðvelda markaðssetningu verðbréfasjóða utan heimalands. Jafnframt er með frumvarpinu veitt lagastoð fyrir fjórum öðrum gerðum en þær fela í sér útskýringar á tilteknum atriðum sem fram koma í tilskipun 2009/65/EB. Um er að ræða reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins nr. 583/2010 og nr. 584/2010 og tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2010/43/EB og 2010/44/EB. Efnisákvæði framangreindra gerða verða innleidd með reglugerðum.
    Helstu tillögur frumvarpsins eru eftirtaldar: Í fyrsta lagi er lagt til að rekstrarfélögum sem hyggjast markaðssetja sjóði sína erlendis verði heimilt að notast við staðlað form lykilupplýsinga í stað útdráttar úr útboðslýsingu eins og nú er. Allar umsóknir íslenskra aðila um markaðssetningu erlendis munu fyrst þurfa að fara til Fjármálaeftirlitsins sem mun yfirfara gögnin með tilliti til forms og innihalds þeirra. Fjármálaeftirlitið sendir þau síðan til lögbærs eftirlitsaðila í viðkomandi landi sem síðan samþykkir eða hafnar umsókn. Sams konar verklag verður viðhaft ef erlendir sjóðir ætla að markaðssetja sig hérlendis. Í þeim tilvikum mun Fjármálaeftirlitið þurfa að samþykkja eða hafna umsókn. Í öðru lagi er lagt til að rekstrarfélögum verði veitt heimild á grundvelli svokallaðs Evrópupassa til að stofna og stjórna sjóðum sem hafa staðfestu og staðfestingu í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og mun það verða verkefni Fjármálaeftirlitsins að veita sjóðunum staðfestingu. Í þriðja lagi eru í frumvarpinu gerðar tillögur er varða lagaramma svokallaðra höfuð- og fylgisjóða en slíkir sjóðir lúta ákveðnum reglum um eignarhald og fjárfestingarmöguleika sem nánar er skilgreint í frumvarpinu. Í fjórða lagi eru gerðar tillögur að lagaramma vegna svokallaðra innanlandssamruna og millilandasamruna verðbréfasjóða.
    Lögunum er ætlað að taka strax gildi en tillögur frumvarpsins fela í sér að eftirlitsskylda Fjármálaeftirlitsins eykst frá því sem nú er. Ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í gildandi fjárlögum eða í frumvarpi til fjárlaga 2013 en ætla má að sá kostnaður sé óverulegur og rúmist innan gildandi fjárheimilda Fjármálaeftirlitsins sem eru um tveir milljarðar króna árið 2012. Rekstur Fjármálaeftirlitsins er alfarið fjármagnaður með eftirlitsgjaldi á fjármálastofnanir og því hefur hækkun rekstrarkostnaðar stofnunarinnar í för með sér hækkun tekna og útgjalda ríkissjóðs.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.