Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 120. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 120  —  120. mál.
Breyttur texti.
Frumvarp til lagaum miðstöð innanlandsflugs.


Flm.: Jón Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Árni Johnsen, Einar K. Guðfinnsson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Vigdís Hauksdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Tryggvi Þór Herbertsson,
Ólöf Nordal, Sigmundur Ernir Rúnarsson.


1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja tilvist miðstöðvar innanlandsflugs í næsta nágrenni við helstu heilbrigðis-, mennta- og stjórnsýslustofnanir landsins.

2. gr.
Stjórnsýsla.

    Ráðherra samgöngumála fer með framkvæmd laga þessara.

3. gr.
Miðstöð innanlandsflugs.

    Miðstöð innanlandsflugs skal starfrækt í Reykjavík.
    Flugvöllur í Reykjavík skal gegna hlutverki varaflugvallar fyrir innanlandsflug og millilandaflug.

4. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi (232. mál).
    Markmið frumvarpsins er að treysta í sessi flugvöll í Reykjavík í ljósi verulegrar þýðingar hans fyrir samgönguöryggi og stöðu og framgang innanlandsflugs.
    Brýnt er að marka stefnu um framtíð flugvallar í Reykjavík. Sú óvissa sem ríkir kemur sér illa fyrir hagsmunaaðila og brýnt er að henni verði eytt svo fljótt sem verða má.
    Meginhlutverk flugvallar í Reykjavík er að vera miðstöð innanlandsflugs auk þess sem hann þjónar mikilvægu hlutverki sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Núverandi flugvöllur hefur verið miðstöð innanlandsflugs í rúm 60 ár. Hann er vel staðsettur með tilliti til veðurfars og annarra þátta sem snerta flug að og frá flugvellinum og nýting hans er góð.
    Hlutverk flugvallar í Reykjavík sem varaflugvallar fyrir innanlandsflug og millilandaflug er mjög mikilvægt og þá sérstaklega fyrir millilandaflugið. Varaflugvöllur í Reykjavík sparar töluvert fé við flugrekstur og hefur mikla þýðingu fyrir öryggi flugsamgangna til og frá landinu, sem og innan lands.
    Verði innanlandsflug flutt til Keflavíkurflugvallar, eins og rætt hefur verið um, er enginn varaflugvöllur á þéttbýlasta svæði landsins. Reiknað er með að við þær aðstæður yrði að gera varaflugvöll á Suðurlandi vegna öryggis í flugsamgöngum milli landa og innan lands.
    Fjölbreytt störf, mörg tengd ferðaþjónustu, flugrekstri og kennslu, fylgja starfsemi flugvallar í Reykjavík. Áætla má að um sé að ræða allt að 1.000 störf sem tengjast starfseminni beint og óbeint. Flugvöllur í Reykjavík er því mjög mikilvægur fyrir atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu.
    Flutningur miðstöðvar innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar væri veruleg afturför í flugsamgöngum innan lands. Áhrif þess á ferðaþjónustu og tengsl landsbyggðar við höfuðborgarsvæðið eru óásættanleg.