Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 138. máls.

Þingskjal 138  —  138. mál.Frumvarp til laga

um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála.

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Hlutverk og markmið.

    Vegagerðin er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra.
    Vegagerðin hefur það hlutverk að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir.
    Vegagerðin skal í starfsemi sinni stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum. Þá skal stofnunin stuðla að því að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið.

2. gr.
Skipulag stofnunarinnar o.fl.

    Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn og staðfestir skipurit hennar.
    Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar.
    Forstjóri ræður annað starfsfólk til stofnunarinnar.
    Vegagerðin skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína.

3. gr.
Samvinna og samráð.

    Vegagerðin skal hafa samvinnu og samráð við þá aðila, félög, samtök og stofnanir sem tengjast starfsemi hennar.
    Ráðherra getur sett á stofn fagráð með fulltrúum stofnunarinnar, hagsmunaaðila og annarra aðila í þeim tilgangi að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta á fagsviði stofnunarinnar.

II. KAFLI
Verkefni.
4. gr.
Almennt.

    Vegagerðin skal vera ráðgefandi fyrir ráðherra, veita honum aðstoð við undirbúning að setningu laga og reglugerða á starfssviði sínu og aðstoða við stefnumótun og ákvarðanatöku í samgöngumálum.
    Vegagerðin tekur þátt í gerð samgönguáætlunar. Stofnunin mótar almenna stefnu og viðmið um byggingu, viðhald og þjónustu samgöngumannvirkja, annast forsendugreiningu og frumrannsóknir vegna þeirra, greinir og ber saman ólíka valkosti, gerir tillögu að forgangsröðun verkefna, frumhannar mannvirki og metur kostnað, arðsemi og umhverfisáhrif þeirra. Þá sér stofnunin um framkvæmd samgönguáætlunar, þ.e. verkhönnun framkvæmda, útboð verkefna, samninga við verktaka, eftirlit á framkvæmdatíma, skilamat og uppgjör.
    Vegagerðin skal annast upplýsingamiðlun um samgöngumál eftir því sem við á.
    Vegagerðin annast rekstur tölvu- og upplýsingakerfa er lúta að starfsemi stofnunarinnar.
    Vegagerðin tekur afstöðu til tillagna sem berast frá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

5. gr.
Framkvæmdir og viðhald samgöngumannvirkja.

    Vegagerðin annast uppbyggingu vega, sjóvarnargarða og leiðsögu- og eftirlitskerfa. Jafnframt hefur stofnunin umsjón með framkvæmdum við samgöngumannvirki og samgöngukerfi sem njóta beinna ríkisstyrkja.
    Vegagerðin annast viðhald þeirra mannvirkja sem hún fer með eignarhald á.

6. gr.
Eignarhald og rekstur.

    Vegagerðin annast rekstur samgöngumannvirkja og samgöngukerfa og fer með eignarhald þeirra fyrir hönd ríkissjóðs. Í þessu sambandi sinnir stofnunin eða felur öðrum að sinna:
     1.      rekstri og umsjón vegakerfisins,
     2.      eftirliti með burðarþoli vega og brúa; og ákveður stofnunin takmarkanir á heildarþunga og ásþunga ökutækja, ef þörf krefur,
     3.      rekstri og viðhaldi vita og sjómerkja,
     4.      rekstri og viðhaldi leiðsögu-, vöktunar-, upplýsinga- og eftirlitskerfa,
     5.      rekstri Landeyjahafnar og ferjubryggja.
    Vegagerðinni er heimilt að taka að sér uppbyggingu, rekstur og viðhald flugvalla samkvæmt samningi við þar til bæra aðila.

7. gr.
Almenningssamgöngur.

    Vegagerðin annast rekstrarverkefni ríkisins á sviði almenningssamgangna. Skal stofnunin m.a. annast:
     1.      útboð, gerð og eftirfylgd þjónustusamninga vegna almenningssamgangna,
     2.      umsjón með styrkveitingum vegna almenningssamgangna,
     3.      umsjón með ferjum og öðrum eignum ríkisins sem nýttar eru í almenningssamgöngum.

8. gr.
Samgönguöryggi.

    Vegagerðin vinnur að auknu öryggi í samgöngum með því markmiði að fækka slysum og draga úr tjóni af völdum þeirra. Stofnunin skal m.a.:
     1.      vinna að bættu öryggi innviða samgöngukerfisins með öryggisstjórnun, greiningu á öryggisþáttum og slysum og aðgerðaáætlunum,
     2.      annast framkvæmd öryggisstjórnunar samgöngumannvirkja og samgöngukerfa,
     3.      annast ráðgjöf um umbætur sem stuðla að auknu samgönguöryggi.

9. gr.
Alþjóðlegt samstarf.

    Vegagerðin tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á starfssviði sínu eftir því sem kveðið er á um í lögum, alþjóðasamningum eða með ákvörðun ríkisstjórnar.

10. gr.
Rannsóknir og þróunarstarf.

    Vegagerðin tekur þátt í og annast rannsóknir, greiningu og þróun á starfssviði sínu.
    Ráðherra skal setja reglugerð um hlutverk Vegagerðarinnar á sviði rannsókna, greiningar og þróunar.

11. gr.
Framsal verkefna.

    Vegagerðinni er heimilt að framselja eða fela öðrum framkvæmd einstakra verkefna eða verkþátta á starfssviði stofnunarinnar.

III. KAFLI
Gjaldtaka.
12. gr.
Fjármögnun.

    Verkefni Vegagerðarinnar og rekstur skal fjármagna með mörkuðum tekjum og beinum framlögum úr ríkissjóði. Til markaðra tekna teljast sérstakt bensíngjald, olíugjald, kílómetragjald og vitagjald.
    Heimilt er að ákveða í samgönguáætlun að veghald einstakra kafla þjóðvega skuli kostað að hluta eða öllu leyti með veggjaldi af umferð eða með notkunargjaldi.
    Vegagerðinni er heimilt að taka gjald fyrir tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning verka sem hún hefur umsjón með.

13. gr.
Tekjur.

    Vegagerðinni er heimilt að afla tekna með sölu á sérhæfðri þjónustu og vöru- og efnissölu, sem og af rannsóknar- og þróunarstarfsemi.
    Gjaldtaka skv. 1. mgr. skal ákveðin í viðmiðunargjaldskrá sem Vegagerðin setur.
    Þann hluta starfsemi Vegagerðarinnar sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði skal skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrarins og skal endurgjald taka mið af markaðsverði. Sala á slíkri þjónustu skal byggjast á samningum.
    Ráðherra staðfestir gjaldskrá samkvæmt þessari grein.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
14. gr.
Rekstur o.fl.

    Vegagerðinni er heimilt, með samþykki ráðherra, að kaupa og fara með hlut ríkisins í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum. Jafnframt er stofnuninni heimilt að bjóða fram sérþekkingu á alþjóðamarkaði og afla tekna með útflutningi sérfræðiþekkingar sem hún býr yfir.
    Vegagerðinni er heimilt, með samþykki ráðherra, að stofna félag eða félög sem hafa það hlutverk að sinna framkvæmda- og þjónustuverkefnum stofnunarinnar.

15. gr.
Kæruheimild.

    Ákvarðanir Vegagerðarinnar sæta kæru til ráðherra í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

16. gr.
Þagnarskylda og veiting upplýsinga.

    Starfsmenn Vegagerðarinnar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki, að viðlagðri ábyrgð, skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara. Sama gildir um sjálfstæða sérfræðinga sem starfa á vegum Vegagerðarinnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum eða verksamningi ljúki.

17. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2013. Frá 1. janúar 2013 falla úr gildi ákvæði 3. málsl. 4. gr. og 5. gr. vegalaga, nr. 80/2007.

Ákvæði til bráðabirgða.


     1.      Starfsmönnum stofnana, sem sinnt hafa þeim verkefnum sem munu heyra undir Vegagerðina samkvæmt lögum þessum og eru í starfi við gildistöku laga þessara, skal boðið starf hjá hinni nýju stofnun. Um réttarvernd starfsmanna til starfa hjá Vegagerðinni fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, og laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/ 2002, eins og við á hverju sinni. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessum tölulið.
     2.      Þrátt fyrir 1. tölul. þessa ákvæðis verða embætti starfsmanna þeirra stofnana sem sameinast í Vegagerðina lögð niður þegar lög þessi koma til framkvæmda. Ráðherra er heimilt að taka ákvörðun um að flytja forstöðumann úr hópi núverandi forstöðumanna samgöngustofnana í embætti forstjóra Vegagerðarinnar, sbr. 36. gr. laga nr. 70/1996. Þeim embættismönnum sem ekki hljóta áframhaldandi skipun skulu boðin störf í Vegagerðinni eða Farsýslunni.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 138., 139. og 140. löggjafarþingi. Umhverfis- og samgöngunefnd lauk umfjöllun með nefndaráliti þar sem mælt var með samþykkt þess óbreytts að undanskildum gildistíma sem lagt var til að yrði frá 1. janúar 2013. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót stofnun sem sinni framkvæmdum og viðhaldi samgöngumannvirkja ásamt því að fara með eignarhald og sinna rekstri þeirra. Myndun stofnunarinnar er hluti af heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana sem felur í sér að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslan og hins vegar Vegagerðin.
    Stofnanirnar verða reistar á grunni núverandi samgöngustofnana, þ.e. Siglingastofnunar Íslands, Flugmálastjórnar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar. Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp um Farsýsluna. Myndun stofnananna tveggja er samþætt verkefni og því eru almennar athugasemdir við þetta frumvarp að miklu leyti samhljóða almennum athugasemdum við frumvarp um Farsýsluna.
    Endurskipulagning samgöngustofnana á sér nokkurn aðdraganda. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar „Samgönguframkvæmdir – Stjórnsýsluúttekt“ (Ríkisendurskoðun, júní 2008) eru settar fram tillögur um breytt stofnanakerfi samgöngumála þar sem lagt er til að settar verði á fót tvær stofnanir, þ.e. stjórnsýslustofnun og framkvæmdastofnun, ásamt ríkisfyrirtæki á sviði rekstrar og viðhalds.
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði í janúar 2009 nefnd um framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Nefndin skilaði skýrslu sinni „Framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Greining og valkostir“ í lok júní 2009. Þar voru kynntir fimm valkostir um stofnanaskipan, auk tillagna og ábendinga um meiri samhæfingu í samgöngumálum, t.d. um að bæta verklag við undirbúning samgönguáætlunar og efla stefnumótunarhlutverk ráðuneytisins.
    Að vel athuguðu máli og með hliðsjón af tillögum Ríkisendurskoðunar ákvað samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hefja undirbúning að myndun tveggja stofnana í samræmi við einn valkosta nefndarinnar:
     1.      Stjórnsýslustofnunar með sameiningu Umferðarstofu, Flugmálastjórnar og stjórnsýsluverkefna Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar.
     2.      Framkvæmda- og rekstrarstofnunar með sameiningu framkvæmda- og rekstrarverkefna Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar.

Undirbúningur.
    Skipaður var stýrihópur til að vinna nákvæma greiningu á kostum endurskipulagningarinnar og leggja fram tillögur um breytta stofnanaskipan samgöngumála. Hlutverk stýrihópsins var:
     1.      Stjórn verkefnisins, stefnumótun, áætlanir, tillögugerð til ráðherra og undirbúningur lagafrumvarps.
     2.      Tillögur til ráðherra um verkaskiptingu stofnana og mótun helstu hlutverka og viðfangsefna þeirra.
     3.      Mótun framtíðarsýnar, markmiða, áherslna og meginskipulags nýrra samgöngustofnana.
     4.      Skilgreining verkefna vinnuhópa og móttaka niðurstaðna og tillagna þeirra.
     5.      Athugun á mögulegu samstarfi við aðrar stofnanir og opinber hlutafélög, svo sem á sviði framkvæmda og viðhalds flugvalla og leiðsögukerfis hafsins.
     6.      Öflun frekari upplýsinga um skipan samgöngumála í öðrum löndum.
     7.      Samráð við hagsmunaaðila og samskiptaáætlun.
    Í stýrihópnum áttu sæti Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, formaður, Karl Alvarsson skrifstofustjóri, Ingilín Kristmannsdóttir skrifstofustjóri, Sigurður Örn Guðleifsson lögfræðingur, ritari stýrihópsins, og Ingvar Sverrisson, aðstoðarmaður ráðherra, öll frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Pétur K. Maack flugmálastjóri og Hlín Hólm, Flugmálastjórn Íslands, Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri og Stefán Pálsson, Siglingastofnun Íslands, Karl Ragnars forstjóri og Sædís Jónasdóttir, Umferðarstofu, og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Aron Bjarnason og Ólöf Thorarensen, Vegagerðinni. Verkefnisstjóri var Sigurður H. Helgason ráðgjafi frá Stjórnháttum.
    Í starfi stýrihópsins hefur verið lögð áhersla á samstarf og samráð við stofnanir og á að halda vel á starfsmannaþætti breytinga. Settur var upp innri vefur þar sem upplýsingar um verkefnið voru aðgengilegar öllum starfsmönnum.
    Á vegum stýrihópsins hafa starfað sjö vinnuhópar skipaðir starfsmönnum stofnananna og ráðuneytisins sem vinna að greiningu og útfærslu einstakra þátta. Viðfangsefni hópanna voru:
     1.      Verkefni, verklag og verkferlar. Hópurinn setti fram tillögur um skiptingu verkefna núverandi stofnana milli nýrra stofnana. Þá vann hann greiningu á öllum helstu verkferlum núverandi stofnana og lagði mat á mögulega samþættingu þeirra miðað við nýja stofnanaskipan.
     2.      Starfsmannamál, þ.m.t. virkt upplýsingastreymi til starfsmanna. Hópurinn greindi m.a. starfsmannahópinn og lagði mat á mögulega fækkun starfsmanna á næstu árum vegna starfsmannaveltu. Þá lagði hann fram greiningu og samanburð á mannauðs- og launastefnu.
     3.      Fjármál og fjármögnun. Hópurinn greindi fjármál núverandi stofnana og fjallaði um gjaldtöku. Hópurinn vann nákvæma greiningu á fjármálum, m.a. með tilliti til skiptingar framlaga og tekna milli nýrra stofnana.
     4.      Upplýsingatækni. Hópurinn lagði fram lýsingu og mat á fyrirkomulagi upplýsingatæknimála og upplýsingakerfa og lagði fram tillögur í því efni.
     5.      Árangurs- og gæðastjórnun. Hópurinn lagði fram lýsingu og mat á fyrirkomulagi árangurs- og gæðastjórnunar og lagði fram tillögur í því efni.
     6.      Húsnæðismál. Hópurinn greindi núverandi húsnæði og undirbjó þarfagreiningu vegna nýrra stofnana.
     7.      Þróun, rannsóknir og tækifæri. Hópurinn kortlagði núverandi starfsemi og fjallaði um ýmsar hugmyndir að framtíðarfyrirkomulagi.
    Stýrihópurinn mun áfram vinna að undirbúningi sameiningar. Við gildistöku laganna er ætlunin að fyrir liggi endanleg samrunaáætlun sem taki m.a. til starfsmannamála, fjármála og húsnæðismála. Stefnt er að því að sameina sem fyrst höfuðstöðvar hvorrar stofnunar fyrir sig í húsnæði, enda er slíkt forsenda þess að áform um hagræðingu nái fram að ganga.

Markmið.
    Markmiðin með endurskipulagningu samgöngustofnana eru fyrst og fremst faglegur ávinningur og skýrari verkaskipting stofnana. Meginþættir faglegs ávinnings eru:
     1.      Að skýra verkaskiptingu og bæta þjónustu og árangur. Aðgreining stjórnsýslu frá framkvæmdum og rekstri sem mætir innlendum og erlendum kröfum um gagnsæi og faglega og hlutlausa stjórnsýslu og tryggir að sambærilegar kröfur séu gerðar til framkvæmda og rekstrar mannvirkja og annarra þátta samgöngumála.
     2.      Aukin samþætting þvert á samgöngugreinar sem endurspeglar áherslur samgönguáætlunar og leggur áherslu á hagkvæmni og virkni samgöngukerfisins fremur en þær leiðir sem bundnar eru einstökum samgöngugreinum.
     3.      Að auka faglegan styrk. Sérhæfing sem gefur færi á að efla vinnubrögð, fagmennsku og árangur, t.d. á sviði stjórnsýslu og framkvæmda.
     4.      Öflugri stofnanir sem stuðlar að meiri og breiðari sérfræðiþekkingu.
     5.      Sterkari yfirstjórn sem stuðlar að gæðum, hagkvæmni og markvissari þjónustu við notendur.
     6.      Tækifæri til frekari þróunar og endurskipulagningar starfseminnar.
     7.      Að auka hagkvæmni og bæta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til samgöngumála.
     8.      Að samþætta betur þróun og rannsóknir á sviði samgöngumála.
     9.      Að tryggja markvissara samráð við hagsmunaaðila.

Rök fyrir endurskipulagningu.
    Með sameiginlegri samgönguáætlun allra samgöngugreina var mótuð ný sameiginleg framtíðarsýn þar sem litið er á samgöngugreinarnar sem eina heild með sameiginleg markmið. Þar er mörkuð stefna um sameiginlega áætlanagerð og stefnumótun fyrir allar greinar samgangna, samræmda forgangsröðun og hagkvæmari nýtingu fjármagns og mannafla. Þar er jafnframt horft til þriggja meginviðfangsefna: (1) samgöngukerfisins, (2) stjórnsýslu og eftirlits og (3) starfsemi sem nýtir samgöngukerfið. Samgönguáætlun hefur náð fram að ganga en samgöngustofnanirnar og skipulag þeirra endurspegla enn fyrra umhverfi. Mikilvægt er að samgöngustofnanir þjóni nýjum markmiðum og nýrri hugsun.
    Skipulag samgöngumála í Evrópu og víða annars staðar hefur einkennst af aukinni aðgreiningu þriggja meginhlutverka samgöngukerfisins í:
     1.      Regluvæðingu (Regulation) sem felur í sér stýringu á athöfnum einstaklinga og lögaðila með því að framfylgja reglum og tryggja þannig öryggi, heilsu, umhverfi og rekstrarskilyrði fyrirtækja.
     2.      Innviði (Infrastructure) sem felur í sér skipulag, uppbyggingu, viðhald og rekstur samgöngumannvirkja, svo sem vega, járnbrautakerfis, hafna og flugvalla, ásamt tilheyrandi stýri-, eftirlits- og leiðsögukerfum.
     3.      Starfsemi (Operations) sem felur í sér rekstur og notkun farartækja og tilheyrandi þjónustu.
    Þessi þróun hefur þegar haft umtalsverð áhrif hér á landi og var ein meginástæðan fyrir því að hluti verkefna Flugmálastjórnar, þ.e. þau sem lúta að framkvæmdum og rekstri, var færður til Flugstoða ohf. Sterk rök eru fyrir því að skipulag samgöngumála lúti framangreindum aðskilnaði hlutverka og má vænta þess að kröfur um aðskilnað muni aukast á næstu árum. Íslensk stjórnsýsla hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Ríkar kröfur eru um öfluga, gagnsæja, óháða og sterka en einfalda stjórnsýslu. Í samgöngumálum er talið að óháð stjórnsýsla eigi ekki samleið með framkvæmdum og rekstri samgöngukerfisins.
    Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að gera þurfi umtalsverðar umbætur og breytingar á stjórnkerfinu til að nýta takmarkaða fjármuni eins vel og unnt er, en jafnframt með það að markmiði að stjórnsýsla og þjónusta hins opinbera við almenning og atvinnulíf verði eins góð og kostur er.

Ávinningur af endurskipulagningu samgöngustofnana.
    Endurskipulagning samgöngustofnana getur bæði falið í sér faglegan ávinning og rekstrarlega hagræðingu.
    Faglegur ávinningur liggur einkum í bættum möguleikum stofnana til að sinna hlutverki sínu í samfélaginu og bregðast við breyttum kröfum til starfsemi þeirra. Aðgreining stjórnsýslu frá framkvæmdum og rekstri mætir innlendum og erlendum kröfum um faglega og hlutlausa stjórnsýslu og tryggir að sambærilegar kröfur séu gerðar til framkvæmda og rekstrar mannvirkja og annarra þátta samgöngumála. Aukin samþætting þvert á samgöngugreinar endurspeglar heildstæða samgönguáætlun og leggur áherslu á hagkvæmni og virkni samgöngukerfisins fremur en þær leiðir sem bundnar eru einstökum samgöngugreinum. Sérhæfing stofnana gefur færi á að efla vinnubrögð, fagmennsku og árangur, t.d. á sviði stjórnsýslu og framkvæmda.
    Hagræðing, samfara endurskipulagningu, bætir almennt möguleika stofnana til að taka á sig lækkun útgjalda án skerðingar þjónustustigs. Reynslan sýnir að stærri stofnanir hafa yfirleitt hlutfallslega lægri kostnað vegna rekstrar, þjónustu og yfirstjórnar en minni stofnanir. Greining á verkferlum samgöngustofnana sýnir að þeir eru í mörgum tilfellum sambærilegir milli stofnana og að samþætta megi ýmsa þætti í starfsemi núverandi stofnana í nýjum stofnunum. Starfsemi utan kjarnaviðfangsefna tekur oft mikla athygli frá meginhlutverki og því stuðlar vel skilgreint hlutverk að markvissari stjórnun og starfsemi.
    Hagræðing í rekstri er ekki einungis fjárhagsleg spurning, heldur skiptir verklag og stjórnun við ákvörðun og innleiðingu skipulagsbreytinga miklu máli. Þá snýst hún um pólitískar ákvarðanir um fjárhagslegan ramma stofnunar og með hvaða hætti yfirstjórn stofnunar starfar innan þess ramma. Útreikningar á hagræðingu geta leitt líkur að því hvaða rekstrarlegir og fjárhagslegir möguleikar eru fyrir hendi en hin eiginlega hagræðing byggist á skýrum pólitískum skilaboðum til stofnana ásamt vilja og eftirfylgd stjórnenda þeirra.
    Hagræðingarmöguleikar samgöngustofnananna tveggja eru talsvert ólíkir. Við myndun Farsýslunnar er verið að sameina tvær heilar stofnanir auk hluta úr tveimur öðrum og má gróflega segja að þetta samsvari sameiningu þriggja stofnana. Við myndun Vegagerðarinnar er verið að sameina hluta úr tveimur stofnunum. Stærðarmunur núverandi Vegagerðar og væntanlegrar Vegagerðar er hlutfallslega lítill eða um 6%.
    Möguleikar á hagræðingu við myndun Farsýslunnar voru metnir með tveimur aðferðum, í fyrsta lagi á grundvelli mats á samþættingarmöguleikum ólíkra verkferla og í öðru lagi með samanburði á kostnaði vegna yfirstjórnar og stoðþjónustu stærri stofnana. Við mat á mögulegri hagræðingu vegna verkferla voru notaðar eftirfarandi forsendur:
     1.      Verkferlar sem eru samþættanlegir frá upphafi –100% hagræðing.
     2.      Verkferlar sem eru samþættanlegir eftir eitt ár – 25% hagræðing.
     3.      Verkferlar sem eru hugsanlega samþættanlegir og þá að hluta – 5% hagræðing.
    Miðað við greiningu á samþættingarmöguleikum gefa þessar forsendur möguleika á 14% hagræðingu.
    Við upphaflegan undirbúning frumvarpsins benti samanburður á hlutfalli stjórnenda og starfsmanna stoðdeilda þeirra stofnana sem mynda Farsýsluna og stærri stofnana (með um 150 starfsmenn eða fleiri) til þess að tækifæri væri til að lækka yfirstjórnarkostnað um allt að 50% eða sem samsvarar rúmum 11% af heildarrekstrarkostnaði. Þó að stofnanir séu aldrei algerlega samanburðarhæfar verður að hafa í huga að í þessu mati voru ótaldir hagræðingarmöguleikar í faglegri starfsemi stofnananna.
    Þó að ávallt sé álitaefni hvaða forsendur skuli notaðar við mat á mögulegri hagræðingu voru við framlagningu frumvarpsins möguleikar á beinni innri hagræðingu áætlaðir vera á bilinu 10–15% af rekstrargjöldum:
     1.      Lægri yfirstjórnarkostnaður. Stærri stofnanir (með 100–150 starfsmönnum og fleiri) hafa yfirleitt hlutfallslega mun lægri kostnað vegna rekstrar, þjónustu og yfirstjórnar en minni stofnanir (með 40–70 starfsmönnum). Miðað er við að engum verði sagt upp störfum en fækkun stofnana úr fjórum í tvo gefur tækifæri með tímanum til þess að hagræða og styrkja kjarnastarfsemi stofnananna.
     2.      Samþætting verkferla þvert á samgöngugreinar. Greining á verkferlum samgöngustofnana sýnir að þeir eru í mörgum tilfellum sambærilegir milli stofnana og að samþætta megi hluta af starfsemi núverandi stofnana í nýjum stofnunum.
     3.      Fagleg samþætting. T.d. starfa í hverri af núverandi stofnunum 2–3 lögfræðingar. Stjórnsýslu- og eftirlitsþáttur gæti styrkst, t.d. í Farsýslunni. Svipað má eflaust segja um starfsmenn á öðrum fagsviðum.
     4.      Skýrara hlutverk stofnana. Starfsemi utan kjarnaviðfangsefna tekur oft mikla athygli frá meginhlutverki. Vel skilgreint hlutverk stofnana, svo sem „eftirlitsstarfsemi“, óháð samgöngugrein, stuðlar að markvissari stjórnun og starfsemi.
    Ljóst er að lækkun fjárveitinga undanfarin ár eftir að frumvarpið var fyrst lagt fram hefur dregið úr tækifærum til hagræðingar. Stofnanirnar hafa þegar þurft að þola niðurskurð en án þess að njóta ávinnings af hagræðingu sem horft er til við sameiningu þeirra. Sameining stofnana getur varið þjónustuna, dregið úr neikvæðum afleiðingum minnkandi fjárveitinga og takmarkað útgjaldavöxt við hagstæðari fjárhagsleg skilyrði. Markmiðið með kerfisbreytingunni er að nýta betur fjármuni en jafnframt að verja stjórnsýslu- og þjónustuhlutverk þessara stofnana á niðurskurðartímum.
    Hagræðingarmöguleikar Vegagerðarinnar eru af talsvert öðrum toga en Farsýslunnar. Endurskipulagningin felur í sér óverulega stækkun og hagræðing í stoðþjónustu og yfirstjórn því mun minni en í tilfelli Farsýslunnar. Möguleikar á faglegri samlegð eru hins vegar fyrir hendi sem m.a. kemur fram í því að nær engir verkferlar eru fyrir fram taldir ósamþættanlegir. Stór stofnun sem hefur trausta innviði og markvissa stjórnun getur oft bætt við sig verkefnum án þess að kostnaður aukist að ráði. Í þessu felst að jaðarkostnaður vegna viðbótarverkefna er takmarkaður. Auk þess felur sameining í sér tækifæri til að endurmeta og bæta starfsemina.

Þörf fyrir hagræðingu á næstu árum.
    Markmiðið með kerfisbreytingunni er vissulega að nýta betur fjármuni en framar stendur þó það markmið að verja stjórnsýslu- og þjónustuhlutverk þessara stofnana á niðurskurðartímum. Samgöngustofnanir falla undir þann flokk stofnana sem þurfa að sæta mestri lækkun fjárveitinga. Lækkun fjárveitinga til rekstrar stofnananna frá hruni hefur numið ríflega þriðjungi þar sem mest hefur verið skorið niður.
    Við mat á hagræðingu verður að taka tillit til þess að oft felur sameining eða endurskipulagning stofnana í sér kostnað, t.d. vegna sameiningar húsnæðis, flutninga, samræmingar tækjakosts, þjálfunar starfsfólks, starfsloka og ráðgjafar. Líta má á þennan kostnað sem fjárfestingarkostnað til að ná fram hagræðingu. Hafa verður í huga að þegar lagt er í kostnað vegna sameiningar er það ávallt gert með hliðsjón af væntanlegum ávinningi. Við erfiða fjárhagsstöðu verður oft að dreifa þessum kostnaði á lengri tíma en ella. Til lengri tíma getur ónóg fjárfesting í upphafi dregið úr hagkvæmni endurskipulagningar. Einnig tekur nokkurn tíma að fá nýjar stofnanir til að virka sem eina heild. Því má vænta þess að bein hagræðing skili sér ekki að fullu fyrr en á öðru og þriðja ári frá sameiningu.
    Þegar meta á hagræði samfélagsins af einfaldara stofnanakerfi er ekki nægilegt að líta eingöngu til beinnar hagræðingar vegna rekstrarlegrar samlegðar, þ.e. vegna fækkunar stjórnenda, endurskipulagningar ýmiss konar stoðþjónustu, samþættingar verkferla, hagkvæmari innkaupa, minni húsnæðiskostnaðar o.s.frv. Þegar vel tekst til getur þekking sem skiptist milli margra stofnana skapað margvísleg tækifæri þegar hún er sameinuð hjá einni stofnun. Fækkun stofnana getur ein og sér skilað hagræði vegna einföldunar á stjórnsýslu, bættrar samhæfingar og markvissari þjónustu við notendur. Loks er ótalið að öflugri stofnanir geta haft jákvæð áhrif á efnahagslífið. Nægir að nefna í þessu sambandi að jafnvel mjög litlar breytingar á virkni samgöngukerfisins geta skilað umtalsverðum þjóðhagslegum ávinningi.
    Það skref sem hér er stigið til endurskipulagningar þykir rökrétt og hæfilegt. Hugmyndir hafa verið uppi um aðra kosti, t.d. nýja stofnun hafs og stranda, en hér er það metið svo að ekki sé rétt að leggja meira undir að sinni. Gaumgæfa þarf mjög vel öll frekari skref. Frumvarpið lokar ekki á möguleika síðar á að þróa verkaskiptinguna áfram og flytja verkefni á milli stofnana þyki það ákjósanlegt.

Helstu ákvæði frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er meginverkefnum stofnunarinnar skipt upp í tvo þætti, annars vegar framkvæmdir og viðhald samgöngumannvirkja og hins vegar eignarhald og rekstur þeirra. Þá er gert ráð fyrir í frumvarpinu að almenningssamgöngur verði á könnu Vegagerðarinnar auk verkefna á sviði samgönguöryggis.
    Í ákvæði til bráðabirgða er fjallað um málefni starfsmanna. Öllum starfsmönnum stofnananna fjögurra, að frátöldum forstöðumönnum, verður boðið starf hjá nýjum stofnunum. Þá er gert ráð fyrir að forstöðumenn nýrra stofnana verið skipaðir þegar lögin öðlast gildi og vinni að undirbúningi stofnsetningar nýrra stofnana fram til 1. janúar 2013 en þá er gert ráð fyrir að stofnanirnar taki formlega til starfa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er mælt svo fyrir að Vegagerðin skuli vera sérstök stofnun sem heyri undir yfirstjórn ráðherra og fari með það hlutverk að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi eins og nánar er talið upp í 2. mgr. greinarinnar.
    Markmiðið með starfsemi stofnunarinnar er að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum. Með markmiði um sjálfbærar samgöngur er átt við eflingu almenningssamgangna og annarra vistvænna samgöngumáta, auk þess sem dregið verði úr losun koltvísýrings frá samgöngum og annarra efna sem skaðleg áhrif hafa á umhverfið.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að forstjóri stofnunarinnar sé skipaður til fimm ára í senn og að hann beri ábyrgð á og fari með stjórn stofnunarinnar, ásamt því að móta starf hennar. Í því sambandi er gert ráð fyrir að hann ráði starfsfólk til stofnunarinnar. Lagt er til að ráðherra staðfesti skipurit stofnunarinnar.
    Fyrirmynd 4. mgr. er sótt í 11. gr. laga um Flugmálastjórn Íslands, nr. 100 frá 2006. Skýrslur Flugmálastjórnar Íslands hafa gefið góða mynd af starfi stofnunarinnar og rétt að hin nýja stofnun tileinki sér einnig þau vinnubrögð og vinni árlega skýrslu um starfsemi sína sem gefi raunsanna mynd af því starfi sem stofnuninni er að lögum falið að sinna.

Um 3. gr.


    Mikilvægt er stofnunin hafi traust samráð og samvinnu við hagsmunaaðila og almenning um þau verkefni sem henni eru falin. Er gert ráð fyrir að stofnunin hafi rúmar heimildir til að haga þessu samráði eftir því sem best þykir henta, t.d. með starfandi faghópum sem fylgjast með og fjalla um þróun mála á tilteknum sviðum, í þeim tilgangi að opna fyrir betri aðkomu þeirra aðila sem hagsmuna eiga að gæta í einstökum málaflokkum.
    Lagt er til í 2. mgr. að ráðherra skipi fagráð eins og þörf krefur hverju sinni eða skipuleggi samráð um ýmis sérmál og tæknileg úrlausnarefni.

Um 4. gr.


    Ákvæði 1. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Vegagerðinni er ætlað að taka þátt í gerð samgönguáætlunar í samræmi við ákvæði sérlaga sem gilda um þá áætlun. Í 2. mgr. er ferli framkvæmda lýst nánar ásamt því hvað felist í framkvæmd samgönguáætlunar. Er það til fyllingar ákvæðum laga um samgönguáætlun.
    Þær stofnanir sem verða hluti af Vegagerðinni reka í dag ýmis tölvu- og upplýsingakerfi önnur en þau almennu upplýsingakerfi sem stofnanir almennt reka eins og skjalastjórnunarkerfi. Lagt er til að slíkur rekstur verður áfram hluti af verkefnum Vegagerðarinnar. Má þar nefna upplýsingakerfi um færð á vegum.

Um 5. og 6. gr.


    Í 5. og 6. gr. frumvarpsins er verkefnum stofnunarinnar skipt upp í framkvæmd og viðhald samgöngumannvirkja annars vegar og eignarhald og rekstur þeirra hins vegar. Um þessi verkefni er nánar fjallað í einstökum sérlögum sem stofnunin starfar eftir. Má þar nefna vegalög og hafnalög.
    Rekstur flugvalla, flugstöðva og flugleiðsögu er hjá Isavia ohf. Þannig taka lögin ekki til samgöngumannvirkja og samgöngukerfa sem lúta að flugsamgöngum. Rétt þykir hins vegar að heimila Vegagerðinni að gera samninga um uppbyggingu, rekstur og viðhald flugvalla ef það er talið hagkvæmt.
    Um Landeyjahöfn gilda sérlög. Höfnin er eina höfn landsins sem er að fullu í eigu íslenska ríkisins og er Siglingastofnun Íslands falin umsjón og rekstur hafnarinnar. Lagt er til að Vegagerðin sinni þessu verkefni.
    Þrátt fyrir að heimildina í 2. mgr. 6. gr. skal ábyrgð á rekstri flugvalla hvað varðar flugöryggi og flugvernd ávallt vera hjá þeim aðila sem hefur starfsleyfi frá Farsýslunni.

Um 7. gr.


    Í greininni er sérstaklega fjallað um rekstrarverkefni á sviði almenningssamgangna. Almenningssamgöngur eru framkvæmdarverkefni og því eðlilegt að slík verkefni séu á könnu Vegagerðarinnar á sviði samgangna. Snúa verkefnin bæði að uppbyggingu almenningssamgangna sem og umsjón og rekstri þeirra.

Um 8. gr.


    Ákvæðið miðar að því að auka öryggi í samgöngum og þannig draga úr slysum og draga úr tjóni af þeirra völdum. Í því skyni eru stofnuninni falin verkefni sem lúta að öryggisstjórnun samgangna og ráðgjöf þar að lútandi.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 10. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um það mikilvæga hlutverk Vegagerðarinnar að sinna rannsóknum, greiningu og þróun á starfssviði sínu. Falla þar undir bæði einstök verkefni sem stofnunin sinnir sjálf sem og þátttaka í verkefnum með öðrum aðilum sem stunda rannsóknir, greiningu og þróun á sama sviði.
    Í 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til setningar reglugerðar um hlutverk stofnunarinnar á sviði rannsókna, greiningar og þróunar.

Um 11. gr.


    Í ákvæðinu er að finna framsalsheimild fyrir stofnunina vegna einstakra verkefna eða verkþátta ef hagkvæmnisrök hníga til þess að fela öðrum aðila utan stofnunarinnar slík verk. Þannig er stofnuninni heimilt að fela öðrum aðilum umsjón með framkvæmdum við samgöngumannvirki og samgöngukerfi. Má þar í dæmaskyni nefna flutning verkefna til Landhelgisgæslu Íslands. Mikilvægt er að slík heimild sé í lögunum svo svigrúm gefist til framsals verkefna í einstökum tilvikum ef hagkvæmnisrök standa til þess.

Um 12. gr.


    Í 1. mgr. er að finna skattlagningarheimild fyrir Vegagerðina vegna markaðra tekna fyrir sérstakt bensíngjald samkvæmt lögum nr. 29/1993, um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og olíugjald og kílómetragjald samkvæmt lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Í lögum um vitagjald, nr. 132/1999, með áorðnum breytingum, er að finna heimild vegna vitagjalds.
    Í 2 mgr. er fjallað um þá heimild samkvæmt vegalögum, nr. 80/2007, að ákveða í samgönguáætlun að veghald einstakra vegakafla þjóðvega skuli kostað að hluta eða öllu leyti með veggjaldi af umferð eða með notkunargjaldi.
    Með ákvæði 3. mgr. er Vegagerðinni veitt heimild til að taka gjald vegna kostnaðar sem hlýst af undirbúningi verka sem stofnuninni er falið að hafa umsjón með.

Um 13. gr.


    Í greininni er kveðið á um að Vegagerðin geti aflað sér tekna með sölu á sérhæfðri þjónustu vegna starfsemi sem rekin er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði og tekið fram að slík tekjuöflun skuli byggð á viðmiðunargjaldskrá sem stofnunin setji. Þar verði m.a. kveðið á um taxta á útseldri vinnu stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að sú gjaldskrá taki mið af markaðsverði þjónustunnar. Að auki er gert ráð fyrir að greina skuli kostnað allra verkefna og á allur kostnaður vegna þessarar sérhæfðu þjónustu að vera fjárhagslega aðskilinn frá lögmæltum verkefnum stofnunarinnar.
    Verkefni þau sem hér um ræðir eru fyrst og fremst innlend og erlend verkefni hafnasviðs stofnunarinnar. Hafnasvið sinnir einkum lögboðnum verkefnum er lúta að rannsóknum og áætlanagerð, svo og umsjón og eftirliti með þeim hafnarframkvæmdum og sjóvörnum sem ríkissjóður veitir fjármuni til. Auk þess sinnir hafnasviðið verkefnum innan lands sem ekki eru lögbundin en sérhæfð á sviði hafnargerðar. Þannig nýtir stofnunin þá sérþekkingu sem hún hefur í hafnargerð í þágu þeirra aðila sem á þurfa að halda. Slík verkefni eru m.a. botnrannsóknir, dýptarmælingar, keyrsla sérhæfðra ölduforrita og hönnun hafnarmannvirkja.

Um 14. gr.


    Ákvæði 1. mgr. sækir uppruna sinn í 3. mgr. 3. gr. laga um Siglingastofnun Íslands og hefur þann tilgang m.a. að stuðla að hagkvæmri nýtingu og vexti íslenskrar þekkingar á starfssviði stofnunarinnar, m.a. til útflutnings.
    Ákvæði 2. mgr. veitir stofnuninni heimild til að stofna félag eða félög vegna einstakra framkvæmda- og þjónustuverkefna enda hnígi hagkvæmnisrök til þess að svo sé gert.

Um 15. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 16. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um þagnarskyldu starfsmanna. Er það til viðbótar við almennt þagnarskylduákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Þá er tekið fram að þagnarskylda nái ekki eingöngu til starfsmanna stofnunarinnar heldur einnig til þeirra sjálfstæðu sérfræðinga sem starfa á vegum stofnunarinnar. Jafnframt er gert ráð fyrir því, í samræmi við almennt ákvæði 18. gr. laga nr. 70/1996, að þagnarskylda haldist þótt látið sé af störfum. Gildir það einnig um þá sérfræðinga sem starfað hafa fyrir stofnunina.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða er fjallað um réttarstöðu og réttarvernd starfsmanna stofnana sem sinnt hafa þeim verkefnum sem munu heyra undir Farsýsluna, samkvæmt þessu frumvarpi, og eru í starfi við gildistöku laganna. Skal þeim boðið starf hjá hinni nýju stofnun. Um réttarvernd starfsmanna til starfa hjá Farsýslunni fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, og laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eins og á við hverju sinni. Tilgangur þess að vísa til laga nr. 72/2002, til viðbótar við lög nr. 70/1996, er að tryggja réttarvernd þeirra starfsmanna sem kunna að falla utan ákvæða laga nr. 70/1996. Lög nr. 72/2002 voru sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar, sbr. tilskipun 77/187/EBE og tilskipun 98/50/EB um sama efni. Að meginreglu falla breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalda eða tilfærsla á verkefnum milli stjórnvalda utan laga nr. 72/2002. Evrópudómstóllinn hefur þó túlkað hugtakið „fyrirtæki“ í skilningi 1. mgr. 1. gr. laganna rúmt ( EBD, mál C-108/10 Scottolon) og talið stjórnvöld sem veita þjónustu gegn endurgjaldi falla undir hugtakið, jafnvel þótt um þjónustu í almannaþágu sé að ræða, svo lengi sem hægt sé að aðskilja þá þjónustu frá því sem kallast eiginleg stjórnsýsluverkefni ( EBD, mál C-82/01Aéroports de Paris).Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Vegagerðina,
framkvæmdastofnun samgöngumála.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á fót framkvæmdastofnun sem sinni framkvæmdum og viðhaldi samgöngumannvirkja ásamt því að fara með eignarhald og sinna rekstri þeirra. Myndun stofnunarinnar er hluti af heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana sem felur í sér að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar stjórnsýslustofnun sem beri heitið Farsýslan og hins vegar framkvæmdastofnun sem beri heitið Vegagerðin. Stjórnsýslustofnunin verður til með sameiningu Umferðarstofu, Flugmálastjórnar og stjórnsýsluverkefna Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar. Framkvæmda- og rekstrarstofnun verður hins vegar til með sameiningu framkvæmda- og rekstrarverkefna Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar. Markmiðin með endurskipulagningu þessara samgöngustofnana eru í fyrsta lagi að auka faglegan styrk, í öðru lagi að skýra verkaskiptingu og bæta þjónustu og árangur, í þriðja lagi að efla, einfalda og auka gagnsæi stjórnsýslunnar, í fjórða lagi að tryggja markvissara samráð við hagsmuna-aðila, í fimmta lagi að efla samgönguáætlun og tryggja markvissa framkvæmd hennar, í sjötta lagi að auka hagkvæmni og bæta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til samgöngumála og í sjöunda lagi að samþætta þróun og rannsóknir á sviði samgöngumála. Gert er ráð fyrir að samruni stofnananna komi til framkvæmda 1. janúar 2013.
    Frumvarpið var áður lagt fram á sl. vorþingi og voru þá ekki fyrirliggjandi rekstraráætlanir fyrir þessar nýju stofnanir né hvernig 484 m.kr. rekstrarframlag Vegagerðarinnar og 692,4 m.kr. rekstarframlag Siglingastofnunar í fjárlögum 2012 muni skiptast milli stofnananna tveggja. Slíkar áætlanir liggja ekki heldur fyrir á þessu stigi hjá innanríkisráðuneytinu. Til að átta sig á umfangi þessara breytinga má þó sjá í eftirfarandi töflu hvernig fjárheimildir sem falla undir þessa sameiningu eru í fjárlögum 2011. Heildarveltan í þessari starfsemi nemur um 24,7 milljörðum kr. en nettóvelta þegar sértekjur hafa verið dregnar frá nemur um 17,9 milljörðum kr.

06-651
Vegagerðin
06-657
Umferðarstofa
06-661
Siglingastofnun
Íslands
06-662
Hafnar-
framkv.
06-671
Flugmálastj.
Íslands
Samtals
Almennur rekstur 11.331,3 434,9 972,3 12,1 449,3 13.199,9
Viðhaldsverkefni 4.679,0 4.679,0
Stofnkostnaður 5.976,0 197,3 565,1 6.738,4
Gjöld samtals 21.986,3 434,9 1.169,6 577,2 449,3 24.617,3
Sértekjur -6.272,4 -234,1 -226,5 -4,8 -6.737,8
Gjöld umfram tekjur 15.713,9 200,8 943,1 577,2 444,5 17.879,5
Fjármögnun:
Greitt úr ríkissjóði 189,5 678,7 577,2 224,5 1.669,9
Innheimt af ríkistekjum 15.449,4 200,8 264,4 220,0 16.134,6
Viðskiptahreyfingar 75,0 75,0

    Eins og fyrr segir er gert ráð fyrir að framlög vegna stofnkostnaðar- og viðhalds-verkefna muni heyra undir Vegagerðina en í fjárlögum 2011 námu útgjöld vegna þessara verkefna rúmum 11,4 milljörðum kr. Þá er gert ráð fyrir að til stofnunarinnar flytjist einnig framlög til almenns rekstrar vegna þjónustu vegakerfisins, styrkja til ferja og sérleyfishafa, styrkja til innanlandsflugs, rannsókna, Vaktstöðvar siglinga, umdæma og rekstrardeilda Vegagerðarinnar og innheimtukostnaðar vegna markaðra tekna. Í fjárlögum 2011 voru útgjöld þessara verkefna að frádregnum sértekjum áætluð um 5 milljarðar kr.
    Samkvæmt mati innanríkisráðuneytisins er gert ráð fyrir að með samþættingu þessara verkefna í tvær nýjar stofnanir verði mögulegt að ná fram beinni hagræðingu í rekstrargjöldum sem nemi um 10%. Ekki liggur þó fyrir áætlun um það hvernig hagræðingin muni skiptast á milli Farsýslunnar og Vegagerðarinnar. Samkvæmt fjárlögum 2011 má ætla að samanlagðar fjárheimildir vegna rekstrarkostnaðar við yfirstjórn og stjórnsýslu beggja stofnananna nemi um 1,6 milljörðum kr. að frádregnum sértekjum. Samkvæmt því gæti 10% hagræðing í rekstrargjöldum numið samtals um 160 m.kr. Hér er eingöngu um að ræða þá hagræðingu sem gert er ráð fyrir að verði vegna samlegðaráhrifa í rekstrargjöldum þeirra stofnana sem sameinast samkvæmt frumvarpinu en ekki aðhaldsaðgerðir sem stjórnvöld kunna að ákveða í almennum rekstri við þjónustu vegakerfisins, viðhaldsverkefnum eða framkvæmdum á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að starfsmannafjöldi Farsýslunnar verði 147 og 321 hjá Vegagerðinni eða samtals 468 manns til að byrja með. Er það sami fjöldi og nú starfar hjá Flugmálastjórn, Siglingastofnun, Vegagerðinni og Umferðarstofu en hins vegar er gengið út frá því að um 14 manns muni láta af störfum árlega vegna aldurs. Gert er ráð fyrir að í mörgum tilvikum muni ekki þurfa að ráða í þau störf sem losna.
    Gert er ráð fyrir að verkefni Vegagerðarinnar verði fjármögnuð með mörkuðum tekjum og beinum framlögum úr ríkissjóði en til markaðra tekna teljast bensíngjald, olíugjald, kílómetragjald og vitagjald. Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á þessum mörkuðu tekjum til hækkunar eða lækkunar. Fjármálaráðuneytið telur það ekki vera heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar með þessum hætti til starfsemi ríkisaðila. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna að vera tekin í fjárlögum hverju sinni. Í því sambandi má benda á að til að fjármagna framkvæmdir Vegagerðarinnar á árunum 2007 til 2010 voru veittar um 19 milljörðum kr. með beinum framlögum úr ríkissjóði umfram innheimtu markaðra tekna. Vegagerðin þurfti þannig að fá fyrirframráðstöfun á mörkuðum tekjum stofnunarinnar eða með öðrum orðum taka lán hjá ríkissjóði með veði í tekjum framtíðarinnar sem þessu nam. Vandséð er hvernig framkvæmdastofnunin muni geta staðið skil á uppsafnaðri skuld af þessari stærðargráðu af tekjum komandi ára með tilheyrandi skerðingu á framkvæmdagetu. Fyrirliggjandi samgönguáætlun gerir ráð fyrir að greiddar verði til baka 100 m.kr. af tekjum ársins 2012 og þá án vaxta. Fjármálaráðuneytið telur að þetta dæmi sýni glöggt að fyrirkomulag fjármögnunar af þessum toga hefur gengið sér til húðar og fellur hvorki að rammafjárlagagerð stjórnvalda né að fjárstjórnarvaldi Alþingis. Mörkun teknanna eru leifar frá fyrri tíð sem er einungis til þess fallið að flækja allt utanumhald, framsetningu og eftirfylgni í fjármögnun stofnunarinnar. Ekki verður séð hvaða ávinningur hlýst af því umfram það að stofnunin fái einfaldlega bein framlög úr ríkissjóði.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum miðast mat innanríkisráðuneytisins þannig við að útgjöld ríkissjóðs geti lækkað um samtals 160 m.kr. vegna samlegðaráhrifa í rekstri við sameiningu Flugmálastjórnar, Siglingastofnunar, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu í tvær stofnanir. Gert er ráð fyrir að einhver kostnaður kunni að falla til við sameininguna en að þeim kostnaði verði mætt með tímabundnum hagræðingarráðstöfunum hjá þessum stofnunum sem eigi því ekki að leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Hér er eingöngu um að ræða þá hagræðingu sem gert er ráð fyrir að verði vegna samlegðaráhrifa í rekstrargjöldum þeirra stofnana sem sameinast samkvæmt frumvarpinu en ekki aðhaldaðgerðir sem stjórnvöld kunna að ákveða í almennum rekstri við þjónustu vegakerfisins, viðhaldsverkefnum eða framkvæmdum á þessu sviði. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála og er að öðru leyti vísað til umsagnar um það frumvarp.