Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 145. máls.

Þingskjal 145  —  145. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með
síðari breytingum (greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði, frestun).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
1. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 1. gr., a- og b-liður 2. gr. og 4. gr. gildi 1. október 2012.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Hinn 1. júní 2012 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum. Lögin sem kveða á um nýtt greiðsluþátttökukerfi í lyfjakostnaði sjúkratryggðra taka gildi 1. október næstkomandi.
    Innan velferðarráðuneytisins hófst strax vinna við undirbúning að innleiðingu hins nýja greiðsluþátttökukerfis og var stýrihópur settur á laggirnar til að fylgja málinu eftir. Í hópnum eru fulltrúar frá embætti landlæknis, lyfjagreiðslunefnd, Lyfjastofnun, Sjúkratryggingum Íslands og velferðarráðuneytinu. Verkáætlanir hafa verið unnar af viðkomandi stofnunum og vinnuhópum á þeirra vegum og komið hefur í ljós að enn vantar nokkuð upp á að sjúkratryggingastofnunin geti tekið upp nýtt greiðsluþátttökukerfi 1. október næstkomandi eins og lögin gera ráð fyrir. Með hliðsjón af því er lagt til að gildistöku laganna, að því er varðar miðlægan lyfjagreiðslugrunn, verði frestað til 1. janúar 2013.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum (greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði, frestun).

    Í frumvarpinu er lagt til að gildistöku laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum, sem samþykkt voru á Alþingi í júní sl., verði frestað. Núgildandi lög gera ráð fyrir að þau taki gildi 1. október 2012 en með frumvarpinu er lagt til að fresta því fram til 1. janúar 2013. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að ákvæði um lyfjagagnagrunn landlæknis í sömu lögum taki eftir sem áður gildi 1. október 2012.
     Með lögum um breytingar á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, sem samþykkt voru í júní sl., voru gerðar umtalsverðar breytingar á núverandi greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar einstaklinga. Í stað þess að lyfjanotendur greiði tiltekið hlutfall fyrir hverja lyfjaávísun, eins og verið hefur, er gert ráð fyrir ákveðnum fjárhæðaþrepum í hinu nýja kerfi. Þannig greiði einstaklingur lyfjakostnað að fullu upp að ákveðinni fjárhæð en eftir það munu sjúkratryggingar greiða ákveðið hlutfall af lyfjakostnaðinum. Við tiltekið þrep mun lyfjakostnaður verða að fullu endurgreiddur af ríkinu og því mun hið nýja kerfi nýtast þeim best sem þurfa á mestum lyfjum að halda. Greiðsluþátttaka miðast við eitt ár eftir fyrsta skipti sem greitt er fyrir lyf og því er mismunandi eftir einstaklingum og lyfjanotkun þeirra hversu mikið ríkið endurgreiðir hverju sinni. Gert er ráð fyrir að öll þau lyf, sem sjúkratryggingar hafa hingað til tekið þátt í að greiða, að hluta eða að fullu, falli undir nýja kerfið.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að gildistöku breyttrar greiðsluþátttöku og starfrækslu á miðlægum lyfjagreiðslugrunni verði frestað fram til 1. janúar 2013. Af hálfu velferðarráðuneytisins hefur komið fram að frestunin sé tilkomin vegna tæknilegrar útfærslu á tölvukerfum sem felist í aðlögun og útfærslu á kerfum Sjúkratryggingastofnunar, aðlögun og útfærslu á kerfum apóteka og samskiptum milli þessara aðila og þar af leiðandi verði greiðsluþátttökukerfið ekki tilbúið til notkunar á tilskildum tíma. Við 2. umræðu um frumvarpið sem varð að lögum um breytingar á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum var ákveðið að breyta gildistökunni frá 1. janúar 2012 til 1. október 2012 með þeim rökum að þá gæfist nægur tími til undirbúnings og innleiðingu á hinu nýja kerfi. Eftir setningu laganna 1. júní 2012 hófst vinna á vegum velferðarráðuneytisins við verkáætlun til að undirbúa innleiðingu kerfisins. Við nánari skoðun á verkáætluninni telur velferðarráðuneytið að ekki náist að gera kerfið tilbúið á tilsettum tíma og leggur því til umrædda frestun.
    Þar sem lagasetningin dróst fram til 1. júní og skemmri tími er áætlaður til að koma kerfinu í notkun en reiknað var með þá telur Sjúkratryggingastofnun að útgjöld vegna smíði og innleiðingar á hugbúnaði fyrir hið nýja kerfi verði töluvert meiri en gert var ráð fyrir. Í fjárlögum ársins 2012 var veitt 15 m.kr. fjárheimild vegna verkefnisins en nú er útlit fyrir að það þurfi allt að 10 m.kr. til viðbótar til að klára verkið hjá Sjúkratryggingastofnun innan þessara tímamarka.
    Við útfærslu á aðhaldsráðstöfunum og útgjaldarömmum einstakra ráðuneyta fyrir fjárlagafrumvarp ársins 2013 var velferðarráðuneytinu, eins og öðrum ráðuneytum, sett veltutengd aðhaldsmarkmið sem eru liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Velferðarráðuneytið útfærði hluta af aðhaldsmarkmiði sínu í tilfærsluútgjöldum á þá leið að nýtt greiðsluþátttökukerfi, sem gengur í gildi ásamt viðeigandi reglugerð um næstu áramót samkvæmt þessu frumvarpi, leiði til 250 m.kr. lækkunar á útgjöldum vegna almennra lyfja á ársgrundvelli, eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Áform ráðuneytisins gera ráð fyrir því að viðmiðunarfjárhæðir þrepa í hinu nýja kerfi taki mið af verðlagsbreytingum sem orðið hafa á tímabilinu frá því að frumvarpið var upphaflega lagt fram enda hefur kostnaður ríkissjóðs aukist vegna þess. Engu að síður má gera ráð fyrir að kostnaðarhlutdeild sjúklinga og hins opinbera haldist áþekk og í núverandi greiðsluþátttökukerfi. Enn fremur verða í reglugerðinni ákvæði um skilyrta greiðsluþátttöku í tilteknum lyfjum, svo sem með vali á hagkvæmari lyfjum og á stærð pakkninga, sem munu skila frekari lækkun útgjalda. Forsendan fyrir því að þetta markmið um 250 m.kr. lækkun útgjalda gangi eftir er að hið nýja kerfi og reglugerð sem á því byggi hafi tekið í gildi í byrjun árs 2013 og miðar þetta frumvarp að því.
    Gangi innleiðing kerfisins eftir með þessum hætti 1. janúar nk. má gera ráð fyrir að þessar forsendur fyrir aðhaldsráðstöfunum velferðarráðuneytisins í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 skili tilætluðum árangri. Á hinn bóginn eru nú horfur á að ráðuneytið og Sjúkratryggingastofnun muni þurfa að verja um 10 m.kr. til innleiðingar á nýja greiðsluþátttökukerfinu umfram það sem gert var ráð fyrir í gildandi fjárlögum.