Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 176. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 177  —  176. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (lán til starfsmanna).

Flm.: Pétur H. Blöndal, Kristján Þór Júlíusson, Atli Gíslason, Birgitta Jónsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Margrét Tryggvadóttir, Þuríður Backman, Þór Saari.


I. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 104. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: starfsmanns félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir hann allt að 1 millj. kr. á ári.
     b.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 1. mgr.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 154. gr. laganna kemur ný málsgrein sem hljóðar svo:
    Það varðar fangelsi allt að fjórum árum að láta fé ganga í hring með því að láta hlutafélag kaupa eða selja hluti í öðrum lögaðila eða láta hlutafélag lána eða fá lán hjá öðrum lögaðila í þeim tilgangi að sýna aukið eigið fé viðkomandi hlutafélags eða lögaðila án þess að um raunverulega eign sé að ræða. Þetta ákvæði á þó ekki við takmarkaða undanþágu skv. 3. málsl. 2. mgr. 104. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 79. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: starfsmanns félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir hann allt að 1 millj. kr. á ári.
     b.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 1. mgr.

4. gr.

    Á eftir 1. mgr. 128. gr. laganna kemur ný málsgrein sem hljóðar svo:
    Það varðar fangelsi allt að fjórum árum að láta fé ganga í hring með því að láta einkahlutafélag kaupa eða selja hluti í öðrum lögaðila eða láta einkahlutafélag lána eða fá lán hjá öðrum lögaðila í þeim tilgangi að sýna aukið eigið fé viðkomandi einkahlutafélags eða lögaðila án þess að um raunverulega eign sé að ræða. Þetta ákvæði á þó ekki við takmarkaða undanþágu skv. 3. málsl. 2. mgr. 79. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

Umsagnir.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 140. þingi og afgreitt til efnahags- og viðskiptanefndar þann 16. júní sl. og sent 33 aðilum til umsagnar 18. júní sl. Eftirtaldar fjórar umsagnir bárust.
     1.      Landssamtök lífeyrissjóða fagna frumvarpinu í umsögn sinni frá 3. júlí sl. en undrast að sama skapi að það sé ekki fyrr á ferðinni í ljósi þeirra skelfilegu afleiðinga sem hegðunin, sem frumvarpið beinist gegn, hefur haft á íslenskt samfélag. Þá vilja þau að skoðað verði hvort slík hegðun kunni ekki að falla undir ákvæði auðgunarkafla almennra hegningarlaga, þ.e. XXVI. kafla laga nr. 19/1940.
     2.      Samtök atvinnulífsins benda á í umsögn sinni dagsettri 10. júlí sl. að ákvæði laga um lán til starfsmanna hlutafélaga séu nánast samhljóða hér á landi og í Danmörku. Þá benda þau á að reglur um lán fjármálafyrirtækja með veði í hlutabréfum séu sambærilegar reglum á t.d. Norðurlöndum og jafnvel þrengri. Því sé engin ástæða til að breyta þeim reglum. Þau eru sammála markmiði frumvarpsins en leggjast gegn þeirri miklu takmörkun sem er á lánum til starfsmanna og benda á að krefjast megi annarra veða en hlutabréfanna sjálfra. Ákvæði frumvarpsins um refsingar telja þau handahófskennd og vísa á ákvæði auðgunarkafla almennra hegningalaga, þ.e. XXVI. kafla laga nr. 19/1940. Þau ræða ekkert um meinta veilu í hlutafélagaforminu, sem t.d. gerir kleift að auka eigið fé hlutafélaga að vild með hringferli fjár né mótmæla þau með rökum að þessi veila sé til staðar eða taka afstöðu til hörmulegra afleiðinga þessarar veilu á efnahagskerfið. Verður það að teljast miður.
     3.      Í umsögn ríkisskattstjóra frá 11. júlí sl. kemur fram að verulega þrengd undanþága fyrir hlutafélög til að lána starfsmönnum sínum til hlutabréfakaupa sé líkleg til að ná markmiðum frumvarpsins og mælir með því að frumvarpið verði samþykkt.
     4.      Viðskiptaráðuneytið vísar til þess í umsögn sinni dagsettri 13. júlí sl. að ákvæði 104. gr. sem ætlunin er að takmarka í 1. gr. feli í sér innleiðingu á 23. gr. 2. félagaréttartilskipunar 77/91/EBE. Ráðuneytinu virðist ákvæði 1. gr. ekki vera andstæð ofangreindu ákvæði 2. félagaréttartilskipunar 77/91/EBE en segir þau ekki eins frjálsleg og löggjöf Norðmanna. Ráðuneytið leggst svo gegn samþykkt 2. gr. þar sem vandséð er að hún samræmist EES-rétti. Auk þess megi efast um skýrleika refsiheimildarinnar. Sama á við um 3. gr. og 4. gr. Ráðuneytið ræðir ekkert um forsendur frumvarpsins, meinta veilu í hlutafélagaforminu, sem t.d. gerir kleift að auka eigið fé hlutafélaga að vild með hringferli fjár. Ekki er því mótmælt með rökum að þessi veila sé til staðar né tekin afstaða til hörmulegra afleiðinga þessarar veilu á efnahagskerfið, heldur vísað í reglur EES, sem virðast ekki taka á þessari veilu. Verður það að teljast miður.
    Það eru vonbrigði hve margir aðilar svöruðu ekki beiðni um að senda inn umsagnir, sérstaklega aðilar sem sökum sérþekkingar sinnar gætu lagt mat á þá meintu veilu í hlutafélagaforminu sem frumvarpinu er ætlað að leiðrétta og getur valdið miklu tjóni. Á þessu kann að vera sú skýring að umsagnartíminn er mikill sumarleyfistími.

Fyrri þingmál um hringferla fjár.
    Það sést á fyrirliggjandi umsögnum að lagaumhverfið er alþjóðlegt og því brýnt að kanna hvort þessi veila í hlutabréfaforminu sé til staðar alþjóðlega. Margt bendir til þess. Þetta voru rök sem mæla gegn hugmyndum um sérstakan flokk hlutafélaga hér á landi, gegnsæ hlutafélög, sem fyrsti flutningsmaður kynnti með þingsályktunum á 136. þingi, 375. mál, og á 137. þingi, 5. mál, og síðar með frumvörpum til laga um breytingar á lögum á 138. þingi, 499. mál, og 139. þingi, 176. mál. Ef tekinn yrði upp slíkur flokkur hér á landi gætu erlend hlutafélög ekki fjárfest í gegnsæjum hlutafélögum sem er ekki viðunandi. Í þessum fyrri þingmálum um gegnsæ hlutafélög er bent á eina leið til að leysa þennan vanda en þá leið yrði að fara alþjóðlega. Þess vegna er lögð til sú leið sem kemur fram í 2. og 4. gr. sem ein umsögn telur vera handahófskennda og önnur umsögn segir að efast megi um skýrleika refsiheimildanna. En það er ljóst af þeirri umfjöllun sem fylgir hér á eftir að afleiðingar þessara veilu eru það alvarlegar að löggjafinn þarf að grípa til einhverra ráða eins og einnig er bent á í umsögnum.

Ályktun ÖSE-þingsins.
    Á ársfundi ÖSE-þingsins sem haldinn var í Mónakó 5.–9. júlí 2012 var samþykkt breytingartillaga frá fyrsta flutningsmanni þessa frumvarps sem kom fram í ályktun þingsins í eftirfarandi punktum 34, 35 og 54:

     34. Realizing that there is a weakness in the Shareholder Companies model, which becomes apparent when a shareholder company buys shares in another company and so on, allowing money to circulate and enabling insiders to create non-existent capital that artificially inflates equity with no real money. (Geri sér grein fyrir veikleika í hlutafélagaforminu, þegar hlutafélag á viðskipti með hluti í öðru félagi gefa viðskiptin innherjum færi á að sýna aukið eigið fé annars félagsins án þess að raunveruleg eign standi þar að baki.)
    
     35. Understanding the likely role of the phenomenon mentioned in the previous paragraph in the 2008 collapse of the Icelandic economy and pointing out that it is widely used around the world. (Skilur að áðurnefndur veikleiki á vissan þátt í íslenska efnahagshruninu 2008 og bendir á að hann þekkist víða í heiminum).
    
     54. Calls on the OSCE participating States to urgently review their corporate legislation to identify whether it allows the circulation of money to create non-existent capital and if so, to introduce the necessary legislative amendments. (Skorar á aðildarríki ÖSE að yfirfara hið fyrsta hlutafélagalöggjöf sína til að greina hvort hægt sé að búa til falskt eigið fé með hringferli fjár og, ef svo er, leggja til nauðsynlegar lagabreytingar.)

    Í ályktun ÖSE-þingsins er vakin athygli á þessari hugsanlegu veilu í hlutafélagaforminu, líklegum áhrifum hennar við hrunið hér á landi og að þátttökuríkin skuli skoða hvort slíkir hringferlar fjár séu mögulegir samkvæmt félagalöggjöf hvers lands og koma með nauðsynlega lagasetningu til að hindra hana ef svo er.
    Greinilegt er að slíkir hringferlar fjár sem nefndir eru í ályktun ÖSE-þingsins eru mögulegir með tvennum hætti í hlutafélagalöggjöf hér á landi. Annars vegar með lánum hlutafélaga til starfsmanna sinna sem lagt er til að takmarka verulega í 1. og 3. gr. þar sem fé streymi fyrst til starfsmannsins sem lán og síðan streymir féð aftur til hlutafélagsins sem hlutafjárkaup og eigið fé hlutafélagsins vex sem nemur lánsupphæðinni þar sem félagið gefur út og selur hlutafé gegn staðgreiðslu. Þessi aðferð er rædd ítarlega hér á eftir en hafði miklu minna vægi í hruninu en hringferlar sem mögulegir eru í núverandi löggjöf um hlutafélög og einkahlutafélög og felast í því að hlutafélag lánar til eða kaupir hluti í öðru hlutafélagi. Hér eru möguleikarnir óteljandi og er farið í gegnum örfá dæmi hér á eftir.

Lán til starfsmanna.
    Þann 23. apríl 1997 voru með lögum nr. 35/1997 og lögum nr. 31/1997 samþykktar samhljóða breytingar á lögum um hlutafélög annars vegar og einkahlutafélagalögum hins vegar er fólust í lögfestingu svohljóðandi ákvæðis: „Ákvæði 1.–2. málsl. eiga þó ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá.“ Tilvitnað ákvæði er nú að finna í 3. málsl. 2. mgr. 104. gr. hlutafélagalaga og 3. málsl. 2. mgr. 79. gr. einkahlutafélagalaga. Þarna var gefin undanþága frá almennu banni hlutafélaga og einkahlutafélaga til að lána fyrir kaupum á hlutafé þegar um starfsmenn eða tengda aðila væri að ræða. Undanþágan er án nokkurrar takmörkunar á upphæð.
    Í almennum athugasemdum í viðkomandi frumvörpum kom fram að þau væru lögð fram í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA sem settar voru fram á grundvelli 1. og 2. félagaréttartilskipunar Evrópusambandsins. Í skýringum við einstakar greinar kom enn fremur fram sá skilningur að með þeim yrði hlutafélagi/einkahlutafélagi ekki bannað að veita starfsmönnum félagsins eða tengds félags lán til að fjármagn kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess. Félaginu væri og heimilt að leggja fram fé eða setja tryggingu í tengslum við slík kaup starfsmanna á hlutum. Sama gilti væri þetta gert fyrir þá.
    Fyrsta umræða um málið fólst í þriggja mínútu ræðu þáverandi viðskiptaráðherra, Finns Ingólfssonar, sem sagði um þetta atriði: „Þá eru í 8. gr. hlutafélagafrv. og 4. gr. einkahlutafélagafrv. gerðar undantekningar frá banni við því að hlutafélög veiti lán til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess eða leggi fram fé eða setji tryggingar í tengslum við slík kaup. Slíkt bann mun samkvæmt frv. ekki eiga við um t.d. kaup starfsmanna félags eða tengds félags á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess nema í sérstökum tilvikum ef fjárhagur viðkomandi félags þykir leyfa slíkt.“
    Ekkert kom fram um þessa undantekningu í nefndaráliti eða þriggja mínútu ræðu framsögumanns um þessa lagabreytingu.
    Afleiðingar þessara breytinga eru eftirfarandi: Hlutafélag eða einkahlutafélag lánar starfsmanni til dæmis 10 millj. kr. til kaupa á hlutafé fyrir 10 millj. kr., sem félagið gefur út í þessu skyni. Féð fer í hring, frá hlutafélaginu til starfsmannsins og þaðan aftur til hlutafélagsins. Starfsmaður ber ábyrgð og mikla áhættu ef verð hlutabréfanna lækkar. Þá kemur að orðunum eða „tengds félags“ í breytingunum. Starfsmaðurinn getur stofnað einkahlutafélag sem hann á einn, lagt fram lágmarkshlutafé, núna 500 þús. kr., og þetta félag hans kaupir hlutinn. Þá tapar hann að hámarki þessum 500 þús. kr. og áhættan hverfur að mestu en hann getur grætt mikið ef hlutabréf vinnuveitanda hans hækka mikið, t.d. tvöfaldast.
    Áhrif þessara viðskipta á hlutafélagið, sem umræddur starfsmaður starfar hjá, eru þau, að það telur skuldabréfið, lánið, sem eign en telur hlutafé sem það hefur selt ekki sem skuld. Eign þess hækkar um 10 millj. kr. Hlutur annarra hluthafa rýrnar þar sem starfsmaðurinn eignast hlutdeild í fyrirtækinu. Sýndaraukning á eigin fé kann að þykja nægilegur ágóði fyrir þá fórn, sérstaklega ef illa árar og mikil krafa er um hátt eigið fé. Þetta var staðan hér á landi 2007.
    Þar sem féð fer í hring og hægt er að takmarka áhættu starfsmannsins eru í raun engin mörk á fjárhæðum. Enda voru menn mjög stórtækir fyrir hrun í þessum efnum. Einstakir starfsmenn tóku yfir milljarð króna að láni til kaupa á hlutabréfum en milljarður svarar til ævitekna 50 venjulegra launþega. Við það hækkaði eigið fé t.d. bankanna um tugi milljarða og það hafði áhrif á lánshæfismat þeirra og möguleika til að fá erlent lánsfé og hlutafé. Því má færa rök fyrir því að slíkar aðgerðir hafi nýst hlutafélögunum miklu meira við að búa til (falskt) traust en starfsmönnunum sem sumir lentu í miklum skaða í kjölfarið og rétt er að benda á að þetta ferli er löglegt einmitt samkvæmt þessari heimild sem hér er lagt til að verði verulega takmörkuð. Auðvelt er að sjá fyrir sér þann félagslega þrýsting, sem t.d. lykilstarfsmenn lentu í ef þeir reyndu að neita slíku kostaboði frá stjórn félagsins. Hvort þeir hefðu enga trú á fyrirtækinu? Sumir þeirra eru núna gjaldþrota. Það er enn fremur galli á þessu ákvæði að ekki er skilgreint hvað er starfsmaður og hvort hann hafi starfað lengi eða bara í 10 mín. Þetta atriði skiptir miklu minna máli eftir að kaupin hafa verið takmörkuð við 1 millj. kr. á ári.
    Markmið ofangreindra breytinga á lögunum var eflaust það að hagsmunir starfsmanna og hluthafa færu saman. Ef starf starfsmanna eykur hagnað hlutafélagsins njóta þeir þess í hærra verði á hlut sínum. Þessu markmiði má ná með miklu eðlilegri og heilbrigðari hætti með því að gefa starfsmönnum kauprétt að hlutabréfum. Ef bréfin hækka í verði getur starfsmaðurinn keypt bréf á lægra verði en því sem er í gildi gegn beinhörðum peningum og notið þannig hagnaðar hlutafélagsins.

Hringferlar fjár: Kaup hlutafélaga á hlutum í öðrum hlutafélögum.
    Einfaldasta og augljósasta leiðin er þegar tvö hlutafélög gefa út og selja hluti hvort til annars (krosseignarhald). Þessi leið er takmörkuð við 20% eignarhlut því annars verða félögin tengd og geta þurft að mynda samstæðureikningsskil þar sem krosseignarhaldið núllast út. Með þessum takmörkunum vex eigið fé beggja félaga um upphæð gagnkvæmu hlutafjárkaupanna. Dæmi um þetta voru krosseignarhald Kaupþings hf. og Exista hf. Flóknari leið og duldari fer í gegnum þrjú félög A, B og C sem eru jafnvel staðsett í fleiri en einu landi.
    Dæmi: A er með 100 millj. kr. reiðufé. B gefur út og selur hluti til A fyrir 100 millj. kr. Við það vex eigið fé B um 100 millj. kr. en eigið fé A breytist ekki. (Það á hlutabréf i B í stað reiðufjár.) C gefur út og selur hlutafé til B fyrir 100 millj. kr. Við það vex eigið fé C um 100 millj. kr. en eigið fé B breytist ekki. Að síðustu gefur A út og selur hlutafé til C fyrir 100 millj. kr. Við það vex eigið fé A um 100 millj. kr. en eigið fé C breytist ekki. Reiðuféð er komið „heim“, ekkert hefur breyst nema eigið fé allra félaganna þriggja, A,B og C, hefur vaxið um 100 millj. kr. hjá hverju og stjórnir félaganna fara með aukinn hlut. Auðvitað þarf samþykki hluthafafunda í félögunum en það krefst sérfræðiþekkingar að sjá í gegnum slíka fléttu, sérstaklega þegar eigið féð virðist vaxa. Eftir kaupin fer stjórn A með atkvæði í C fyrir þennan hlut, C í B og B í A. Hluthafar sem ekki sitja í stjórn (smáhluthafar) hafa tapað hluta af völdum sínum. Svo má senda reiðuféð annan hring eða öfugan hring eða mynda hring með öðrum félögum. Endurskoðendur t.d. B sjá ekki eignatengslin á milli A og C og geta því ekki bent á slíkan hringferil og sjá ekki að eigið féð er einfaldlega ekki til staðar. Málið má svo flækja með því að B láni 100 millj. kr. til C í stað þess að kaupa hlut í C.
    Slíka hringekju fjár þarf að stöðva því annars er ekkert að marka eigið fé hlutafélaga, smáhluthafar eru óvarðir og hugsanlegir kaupendur hlutafjár, lánardrottnar, matsfyrirtæki og birgjar geta ekki treyst á eigið fé hlutafélaga.

Tap af hruni skráðra hlutafélaga.
    Í fylgiskjali sést að alls nam heildartap hluthafa í tilteknum skráðum hlutafélögum 1,437 milljörðum kr. (nánast landsframleiðsla Íslands!). Langstærsti hluti þessa taps, eða 1.351 milljarður kr., var tap einstaklinga (186 talsins) og lögaðila (287 talsins) sem töpuðu hver meira en 50 millj. kr. Þessi mikla eign byggðist hugsanlega að hluta á raðeignarhaldi eða lánveitingum.
    Eftir stendur 86 milljarða kr. tap þeirra sem áttu minna en 50 millj. kr. hver. Þetta voru 55.559 einstaklingar sem töpuðu alls 80 milljörðum kr. eða að meðaltali 1,4 millj. kr. og 1.618 lögaðilar sem töpuðu 6 milljörðum kr. eða að meðaltali 4 millj. kr. Rétt er að benda á að þessar eignir höfðu eins og margar aðrar eignir hækkað umtalsvert næstu árin fyrir hrunið en voru þó umtalsverður hluti af sparnaði heimilanna.
    Ekki fengust upplýsingar um tap stofnfjáreigenda í sparisjóðum en það hleypur á milljörðum króna og hefur valdið miklum vandræðum hjá fjölda heimila. Ekki er heldur hægt að fá upplýsingar um gjaldþrota óskráð fyrirtæki en þar hafa einstaklingar eflaust tapað umtalsverðum fjármunum sem hlutafé. Eru þá ótaldar kröfur birgja og annarra smærri lánveitenda og starfsmanna, sem misstu atvinnuna unnvörpum, sem olli áður óþekktu atvinnuleysi hér á landi.

Áhrif hringferla fjár fyrir hrun.
    Þeir hringferlar fjár sem hér er lýst hafa með krosseignarhaldi og raðeignarhaldi ásamt lánveitingum með veði í hlutabréfum orðið til þess að allt í einu var farið að tala um milljarða með sama hætti og milljónir áður og eigið fé hlutafélaga og einkahlutafélaga hækkaði stórlega. Slík eignamyndun upp úr engu er mjög varasöm og breytir bæði valdahlutföllum og eignahlutföllum á mjög vafasaman hátt.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mikil fléttun hlutafélaga eins og bent var á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og hringferlar fjár sem sköpuðu innistæðulaust eigið fé var hugsanlega ein af meginástæðum hrunsins. Ofangreind glæra sem ríkisskattstjóri sýndi á fundi Félags löggiltra endurskoðenda 14. janúar 2011 sýnir kannski gleggst um hvað málið snýst.
    Vert er að hafa í huga að verg landsframleiðsla var 1.482 milljarðar kr. árið 2008. Ofangreint eigið fé fyrirtækja sem skiluðu rafrænum skattframtölum var 7.183 milljarðar kr. það ár (í árslok 2007) eða næstum fimmföld verg landsframleiðsla. Ári seinna (árslok 2008) var þetta eigið fé horfið og við það vakna spurningar um gæði ársreikninga og hvert þessi eign fór eða hvort hún hafi yfirleitt verið til. Ári seinna, í árslok 2009, var þetta eigið fé um það bil ein verg landsframleiðsla í mínus. Til þess að loka þó ekki sé nema einni tegund af slíkum hringferli fjár er þetta frumvarp flutt en jafnframt undirstrikað að loka þarf öllum slíkum hringferlum en það er alþjóðlegt vandamál.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er lagt til að undanþága frá almennu banni við lánveitingum hlutafélaga til kaupa á eigin hlutabréfum, þ.e. heimild hlutafélaga til að lána einstökum starfsmönnum til kaupa á eigin hlutafé, verði takmörkuð verulega. Þeim verður heimilt að lána allt að 1 millj. kr. til hvers starfsmanns á hverju ári. Það er í eðlilegu samræmi við tekjur fólks og venjulegar eignir og nær því markmiði að hagsmunir starfsmanna og fyrirtækis fari saman. Með þessari breytingu er komið í veg fyrir að hlutafélög geti auki eigið fé sitt umtalsvert án þess að fyrir þeirri eignaaukningu séu raunhæfar eignir og einnig komið í veg fyrir hörmulega áhættutöku einstaklinga. Engan veginn er komið í veg fyrir eðlileg kaup starfsmanna á hlutafé með venjubundnum hætti, þ.e. gegn staðgreiðslu.

Um 2. gr.

    Með hringferlum fjár er átt við ferli eins og t.d. er sýnt í dæmi hér að framan. Sú aðgerð, sem í reynd breytti engu, jók eigið fé allra félaganna, A, B og C, og stjórnirnar fengu aukin völd í hinum fyrirtækjunum á kostnað upphaflegra hluthafa. Sama á við um krosseignarhald.
    Oft eru þessir hringir miklu flóknari, fyrirtækin í mismunandi löndum, sem sum hver veita litlar upplýsingar og stundum er lánveitingum blandað inn í keðjuna (gjarnan kúlulán, sem ekki gjaldfalla fyrsta kastið). Staða fyrirtækjanna virðist blómstra og hún gabbar bæði matsfyrirtæki og lánveitendur sem og aðra hluthafa og birgja.
    Í þessari grein er gert ráð fyrir að bannað verði að taka þátt í að mynda slíkan hringferil fjár með því að kaupa hluti í lögaðila eða lána til lögaðila, sem getur verið t.d. hlutafélag, einkahlutafélag, samlagshlutafélag, sameignarfélag og samvinnufélag og sparisjóður.
    Vegna þess hve alvarlegar afleiðingar slíkir hringferlar fjár hafa á stöðu minni hluthafa, birgja, lánveitenda og alls efnahagslífsins og þjóðfélagsins eins og kom í ljós í hruninu er lagt til að refsing við slíku athæfi verði allt að fjögur ár. Þeir sem taka eða koma að slíkri ákvörðun bera ábyrgð samkvæmt þessu ákvæði en einnig þeir sem vita eða mega vita af ákvörðuninni, svo sem endurskoðendur og leiðandi starfsmenn.

Um 3. og 4. gr.

    Greinarnar eru samhljóða 1. og 2. gr.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.


Tap eigenda hlutabréfa skráðra félaga sem urðu verðlaus í hruninu.

    Eftirgreindar upplýsingar eru frá Verðbréfaskráningu Íslands. Verkefni hennar var að:
     *      Finna samanlagt verðmæti eignar hverrar kennitölu einstaklinga yngri en 65 ára í skráðum hlutafélögum sem voru með verðmæti 1. júlí 2008 en voru verðlaus síðar. Finna fjölda þeirra og samanlagða eign þeirra á neðangreindum bilum.
     *      Finna sama fyrir þá sem eru 65 ára og eldri (fædda 1943 og fyrr).
     *      Finna sama fyrir fyrirtæki/lögaðila (fyrirtæki, lífeyrissjóðir, safnreikningar o.fl.).
    Verðmæti hlutabréfanna er miðað við 27. júní 2008, en þau urðu síðan verðlaus. Ekki liggja fyrir sambærilegar upplýsingar um önnur hlutabréf eða stofnbréf sparisjóða, sem urðu verðlaus en þar var einnig um að ræða umtalsvert tap einstaklinga, mælt í tugum milljarða króna.

Gengistafla Dagsetning 27.6.2008 Gengi hlutafélaga skráð á markaði sem urðu verðlaus
Kaupþing Landsbankinn Glitnir Atorka
770 23,35 15,65 6,44
Exista Straumur Bakkavör TM Avion
7,6 9,96 29,25 46,00 14,3
Fjöldi
Eign á bilinu
Milljónir kr.
Einstaklingar fæddir fyrir 1944 yngri en 64 ára Einstaklingar fæddir 1944 og síðar Lögaðilar Samtals
0–1 7.336 33.204 920 41.460
1–3 2.816 5.769 271 8.856
3–6 1.351 2.044 136 3.531
6–10 634 847 89 1.570
10–20 423 651 109 1.183
20–50 191 293 93 577
yfir 50 96 190 287 573
Samtals 12.847 42.998 1.905 57.750
                      
Verðmæti
Samanlagt
Milljarðar kr.
Einstaklingar fæddir fyrir 1944 yngri en 64 ára Einstaklingar fæddir 1944 og síðar Lögaðilar Samtals
0–1 2,3 7,5 0,2 10,0
1–3 5,0 9,9 0,5 15,4
3–6 5,7 8,7 0,6 14,9
6–10 4,9 6,5 0,7 12,1
10–20 5,8 8,9 1,6 16,3
20–50 5,8 8,8 3,0 17,6
yfir 50 15,1 88,1 1.247,6 1.350,8
Samtals 44,6 138,4 1.254,2 1.437,1
                      
Meðaltal
Milljónir kr.
Einstaklingar fæddir fyrir 1944 yngri en 64 ára Einstaklingar fæddir 1944 og síðar Lögaðilar Samtals
0–1 0,3 0,2 0,2 0,2
1–3 1,8 1,7 1,8 1,7
3–6 4,2 4,2 4,2 4,2
6–10 7,7 7,7 8,1 7,7
10–20 13,7 13,7 14,5 13,8
20–50 30,3 30,2 31,9 30,5
yfir 50 157,7 463,4 4.347,1 2.357,4
Samtals 3,5 3,2 658,4 24,9
Þeim sleppt sem töpuðu meira en 50 millj. kr. hver
Einstaklingar fæddir fyrir 1944 yngri en 64 ára Einstaklingar fæddir 1944 og síðar Allir einstaklingar
Fjöldi 12.751 42.808 55.559
Heildarupphæð milljarðar kr. 29,5 50,3 79,8
Meðalupphæð milljónir kr. 2,3 1,2 1,4
Þeir sem töpuðu meira en 50 millj. kr. hver
Einstaklingar fæddir fyrir 1944 yngri en 64 ára Einstaklingar fæddir 1944 og síðar Allir einstaklingar
Fjöldi 96 190 286
Heildarupphæð milljarðar kr. 15,1 88,1 103,2
Meðalupphæð milljónir kr. 157,7 463,4 360,8

    Samkvæmt þessu var heildartap hluthafa í þessum skráðu hlutafélögum 1,437 milljarðar kr. (nánast landsframleiðsla Íslands!). Langstærsti hluti þessa taps, eða 1.351 milljarður kr., var tap einstaklinga (186 talsins) og lögaðila (287 talsins) sem töpuðu hver meira en 50 millj. kr. Þessi mikla eign byggðist hugsanlega að hluta á raðeignarhaldi eða lánveitingum. Eftir stendur 79,8 milljarða kr. tap þeirra sem áttu minna en 50 millj. kr. hver. Þetta voru 55.559 einstaklingar sem töpuðu tæpum 80 milljörðum kr. eða að meðaltali 1,4 millj. kr. Rétt er að benda á að þessar eignir höfðu eins og margar aðrar eignir hækkað umtalsvert næstu árin fyrir hrunið. Ekki fengust upplýsingar um tap stofnfjáreigenda í sparisjóðum en það hleypur á milljörðum króna og hefur valdið miklum vandræðum hjá fjölda heimila því oft var lánað fyrir kaupunum. Ýmsir kaupendur gegn láni voru undir félagslegum þrýstingi að kaupa því annars hefðu þeir ekki trú á hlutafélaginu sem þeir unnu hjá eða sveitarfélaginu sem þeir bjuggu í.
    Ekki er hægt að fá upplýsingar um gjaldþrota óskráð fyrirtæki en þar hafa einstaklingar eflaust tapað umtalsverðum fjármunum sem hlutafé. Eru þá ótaldar kröfur birgja og annarra smærri lánveitenda fyrir utan þann fjölda starfsmanna sem missti atvinnuna.