Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.

Þingskjal 198  —  195. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa,
með síðari breytingum (viðvarandi starfsemi í fleiri
en einu ríki og miðlun upplýsinga).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Í stað 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur staðfestu í einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, í Sviss eða í Færeyjum og hefur jafnframt viðvarandi starfsemi hér á landi veita lögin ábyrgð á kröfum vegna þeirra launamanna sem að öllu leyti eða að jafnaði inna af hendi starfsskyldur sínar hér á landi. Við ákvörðun um ábyrgð sjóðsins skv. 2. málsl. skal kanna hvort áður hafi verið teknar ákvarðanir vegna sömu krafna launamanna í einhverju af framangreindum ríkjum.

2. gr.

    Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ábyrgðasjóður launa skal gefa lögmætri stofnun sem ábyrgist greiðslur á kröfum launamanna í bú vinnuveitanda í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, í Sviss eða í Færeyjum allar nauðsynlegar upplýsingar sem sjóðurinn kann að hafa vegna krafna hlutaðeigandi launamanna í bú vinnuveitanda.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta til breytinga á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, er lagt fram í annað sinn en það var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi 2011–2012 án þess að fjallað hafi verið um það efnislega á því þingi.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við innleiðingu á 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota (e. Directive 2008/94/EC on the protection of employees in the event of the insolvency of their employer) hér á landi. Þar sem lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, var meðal annars ætlað að innleiða eldri tilskipanir um sama efni þykir nauðsynlegt að leggja til breytingar á framangreindum lögum í því skyni að koma til móts við fyrrnefndar athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA lúta annars vegar að því hvernig fara skuli með kröfur launamanna gjaldþrota vinnuveitanda sem hefur haft viðvarandi starfsemi í fleiri en einu aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hins vegar hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemdir við að í lögum um Ábyrgðasjóð launa sé ekki sérstaklega kveðið á um miðlun upplýsinga til lögbærra stofnana sem ábyrgjast greiðslur launakrafna launamanna gjaldþrota vinnuveitanda í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eins og tilskipunin geri ráð fyrir. Í ljósi framangreinds er frumvarp þetta því lagt fram í því skyni að tryggja fullnægjandi innleiðingu á umræddri tilskipun.
    Við gerð frumvarps þessa hafði velferðarráðuneytið samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasamband Íslands, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa skal starfrækja Ábyrgðasjóð launa sem ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Enn fremur er í lögunum kveðið á um að í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur staðfestu í fleiri en einu ríki veiti lögin ábyrgð á kröfum vegna þeirra launamanna sem að öllu leyti eða að jafnaði inna af hendi starfsskyldur sínar hér á landi, enda njóti kröfur þeirra ekki ábyrgðar í öðru ríki, sbr. sama ákvæði laganna. Evrópudómstóllinn hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. C-310/07 Holmqvist að til þess að kröfur launafólks gjaldþrota vinnuveitanda njóti ábyrgðar í fleiri en einu ríki beri að túlka tilskipun 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, þannig að nægilegt sé að vinnuveitandi hafi haft staðfestu í einu aðildarríki og hafi síðar jafnframt haft viðvarandi starfsemi (e. a stable economic presence) í öðru aðildarríki þar sem launamenn starfa á vegum hans. Að mati dómstólsins er því óheimilt að setja skilyrði um staðfestu vinnuveitanda í fleiri en einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið svo að sú vernd sem tilskipuninni sé ætlað að veita komi til álita. Tilskipuninni sé ætlað að vernda launamenn sem hafi starfað á vegum hins gjaldþrota vinnuveitanda í öðrum ríkjum en því ríki þar sem hann hafi haft staðfestu enda hafi hann haft þar viðvarandi starfsemi. Er því í ákvæði þessu lagt til að í 1. mgr. 2. gr. laganna um Ábyrgðasjóð launa verði eingöngu gert að skilyrði að vinnuveitandi hafi haft staðfestu í einu aðildarríki að samningum um Evrópska efnahagssvæðið, í Sviss eða í Færeyjum og hafi jafnframt haft viðvarandi starfsemi hér á landi svo sjóðurinn beri ábyrgð á kröfum vegna þeirra launamanna hlutaðeigandi vinnuveitanda sem að öllu leyti eða að jafnaði hafi innt af hendi starfsskyldur sínar hér á landi að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Lagt er til að tekið verði fram í ákvæðinu um hvaða ríki er að ræða en ekki er um efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa enda vísað til tilskipunar 80/987/EBE, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, með síðari breytingum, í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess er varð að 2. gr. laganna um Ábyrgðasjóð launa.
    Enn fremur telur Eftirlitsstofnun EFTA það óheimilt samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að setja það skilyrði að sjóðurinn ábyrgist eingöngu þær kröfur sem njóti ekki ábyrgðar í öðrum ríkjum. Er því jafnframt í ákvæði þessu gert ráð fyrir að orðin „enda njóti kröfur þeirra ekki ábyrgðar í öðru ríki“ í 1. mgr. 2. gr. laganna falli brott. Ekki er þó gert ráð fyrir að launamenn geti fengið kröfur sínar bættar í tveimur ríkjum og er því gert ráð fyrir að við ákvörðun um ábyrgð sjóðsins í slíkum tilvikum sé kannað hvort áður hafi verið teknar ákvarðanir vegna sömu krafna launamanna í öðrum aðildarríkjum, sbr. 3. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota.

Um 2. gr.

    Ákvæði þessu er ætlað að innleiða 10. gr. tilskipunar 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, í því skyni að tryggja að hlutaðeigandi stjórnvöld sem ábyrgjast kröfur launafólks í bú gjaldþrota vinnuveitanda samkvæmt gildandi lögum í einstökum aðildarríkjum geti nálgast nauðsynlegar upplýsingar hvert hjá öðru hafi vinnuveitandi haldið úti starfsemi í fleiru en einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, í Sviss eða í Færeyjum, sbr. einnig 1. gr. frumvarps þessa. Er því lagt til að Ábyrgðasjóði launa verði gert skylt að veita hlutaðeigandi lögbærum stofnunum allar nauðsynlegar upplýsingar sem sjóðurinn kann að hafa í tengslum við kröfur launafólks í bú vinnuveitanda. Tilgangur þessa er einkum að tryggja það að launamenn fái þær kröfur sínar bættar sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt og jafnframt að gæta þess að sama krafan sé ekki tryggð í mörgum ríkjum.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum (viðvarandi starfsemi í fleiri en einu ríki og miðlun upplýsinga).

    Með frumvarpinu er verið að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunum EFTA um staðfestu vinnuveitanda í fleiri en einu aðildarríki og miðlun upplýsinga til lögbærra stofnana, sem ábyrgjast greiðslur launakrafna starfsmanna gjaldþrota vinnuveitenda í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru tvíþættar:
    Í fyrsta lagi er lagt til að fellt verði út skilyrði um að vinnuveitandi hafi staðfestu í fleiru en einu ríki en þess í stað verði nægjanlegt að vinnuveitandi hafi staðfestu í einu aðildarríki að EES samningnum, Sviss og Færeyjum og hafi síðar jafnframt haft viðvarandi starfsemi í öðru aðildarríki þar sem starfsfólk á vegum hans starfar. Skilgreiningin á vinnuveitendum þar sem launþegar gætu átt kröfur í Ábyrgðasjóð launa verður því víðtækari með samþykkt frumvarpsins. Fyrirtæki sem munu bætast við eru þau sem hafa staðfestu í aðildarríki að EES samningnum en reka starfsemi hér á landi. Slíkt er algengara í ríkjum þar sem vinnuveitandi hefur staðfestu í aðildarríki að EES samningnum en rekur einnig starfsemi yfir landamæri hjá nágrannaríki. Ljóst er að slíkt rekstrarform er sjaldgæft hjá eyríkjum eins og Íslandi og því mun launþegum sem eiga kröfur í Ábyrgðasjóð launa að öllum líkindum ekki fjölga mikið við lagabreytinguna. Engar forsendur liggja fyrir til að meta nákvæmlega hver sú fjölgun gæti orðið en það má nefna að enn hefur ekki reynt á núverandi ákvæði laganna. Áætlað er að kostnaður vegna gjaldþrots erlends fyrirtækis hér á landi gæti numið rúmum 5 m.kr. miðað við meðalgreiðslur úr Ábyrgðasjóði launa á árinu 2011 og meðalfjölda starfsmanna erlendra fyrirtækja með starfsemi á Íslandi. Útgjöld vegna gjaldþrots erlends fyrirtækis eru því að jafnaði lítil samanborin við heildarútgjöld ríkissjóðs vegna Ábyrgðasjóðs launa í fjárlögum 2012 sem nema 1.774 m.kr.
    Í öðru lagi er lögð aukin skylda á Ábyrgðasjóð launa um upplýsingagjöf vegna krafna launafólks í bú gjaldþrota vinnuveitenda. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting muni leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.
    Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að það muni hafa óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Launþegum sem eiga kröfur í Ábyrgðasjóð launa mun að öllum líkindum ekki fjölga mikið en þeim þyrfti að fjölga verulega áður en til þess kæmi að hækka þyrfti fjárheimild til Ábyrgðasjóðs launa.