Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 198. máls.

Þingskjal 201  —  198. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um opinberan stuðning
við vísindarannsóknir, nr. 3/2003.

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „vísindarannsóknir“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og rannsóknartengt framhaldsnám.
     b.      Á eftir orðinu „sjóðurinn“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi og.
     c.      Í stað 1. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hlutverk Innviðasjóðs er að byggja upp rannsóknarinnviði á Íslandi. Innviðasjóður veitir styrki til kaupa á tækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði og öðrum þeim búnaði sem telst mikilvægur fyrir framfarir í rannsóknum.
     d.      Í stað orðsins „Tækjasjóði“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Innviðasjóði.
     e.      3. mgr. fellur brott.
     f.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Rannsóknasjóður og Innviðasjóður.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Tækjasjóðs“ í 2. mgr. kemur: Innviðasjóðs.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tekjur Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra skipar fimm manna stjórn til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs. Tilnefndir skulu fimm einstaklingar sem hafa reynslu og staðgóða þekkingu á vísindarannsóknum, þar af skal einn tilnefndur úr vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
     b.      Í stað orðsins „Tækjasjóðs“ í 2. mgr. kemur: Innviðasjóðs.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr Rannsóknasjóði og Innviðasjóði að fengnum umsögnum fagráða sem skipuð eru skv. 5. gr. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðanna geta veitt ef þurfa þykir.
     d.      Orðið „Rannsóknasjóðs“ í 4. mgr. og í upphafi 7. mgr. fellur brott.
     e.      Orðin „Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs“ í 5. og 6. mgr. falla brott.
     f.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Stjórn Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs.

4. gr.

    5. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, orðast svo:

Fagráð Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs.

    Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda sem skulu hafa það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn við úthlutanir úr Rannsóknasjóði og Innviðasjóði. Vísindanefnd skipar formenn fagráða sérstaklega. Fagráð eru jafnframt ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er.
    Fagráð Rannsóknasjóðs skal vera skipað allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum. Skulu þeir hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn úthlutunarsjóða samkvæmt lögum þessum. Fagráð metur umsóknir út frá vísindalegu gildi, færni og aðstöðu umsækjenda til að framkvæma verkið og líkum á að verkefnið skili mælanlegum árangri og ávinningi.
    Fagráð Innviðasjóðs skal vera skipað allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum. Skulu þeir hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn úthlutunarsjóða samkvæmt lögum þessum. Fagráð metur umsóknir út frá mikilvægi tækja og búnaðar til framfara í rannsóknum í samræmi við áherslur í stefnu Vísinda- og tækniráðs.

5. gr.

    Í stað 6.–9. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 6.–11. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:

    a. (6. gr.)

Úthlutunarreglur.

    Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs markar úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs samkvæmt áherslum Vísinda- og tækniráðs. Stjórn sjóðanna gefur út reglur um umsóknir, málsmeðferð þeirra og úthlutun eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests viðkomandi sjóðs og skulu þær kynntar ráðherra. Í reglunum skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.

    b. (7. gr.)

Markáætlun á sviði vísinda og tækni.

    Í fjárlögum eru veittir styrkir til grunnrannsókna og hagnýtra verkefna undir formerkjum Markáætlunar á sviði vísinda og tækni. Markáætlun á sviði vísinda og tækni nær yfir stefnumótandi áætlanir þar sem um er að ræða tímabundinn forgang á fjármagni. Verkefni skulu unnin í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana. Markmið verkefna skulu falla að almennum áherslum og markmiðum Vísinda- og tækniráðs.

    c. (8. gr.)

Tekjur Markáætlunar á sviði vísinda og tækni.

    Tekjur Markáætlunar á sviði vísinda og tækni eru:
     1.      Fjárveiting í fjárlögum ár hvert.
     2.      Önnur framlög.

    d. (9. gr.)

Stjórn Markáætlunar á sviði vísinda og tækni.

    Ráðherra skipar stjórn Markáætlunar á sviði vísinda og tækni til þriggja ára í senn. Stjórnin skal skipuð þremur einstaklingum úr stjórn Rannsóknasjóðs og þremur einstaklingum úr stjórn Tækniþróunarsjóðs, sem skipuð er skv. 12. gr. laga nr. 75/2007, og jafnmörgum til vara. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
    Vísinda- og tækniráð markar áherslur nýrrar Markáætlunar. Stjórn Markáætlunar setur reglur varðandi umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð í samræmi við áherslur Vísinda- og tækniráðs.
    Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Markáætlunar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
    Kostnaður við mat á umsóknum og rekstur Markáætlunar skal greiddur af ráðstöfunarfé.
    Ákvarðanir stjórnar um veitingu styrkja úr Markáætlun eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

    e. (10. gr.)

Niðurstöður rannsókna.

    Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr sjóðum er falla undir lög þessi, skulu birtar í opnum aðgangi og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið. Styrkþegar skulu í öllum ritsmíðum sínum um niðurstöður rannsókna geta um þátt sjóðanna í viðkomandi verki.

    f. (11. gr.)

Önnur verkefni.

    Ráðherra getur falið stjórn úthlutunarsjóða, sbr. 4. gr., úthlutun annarra sjóða samkvæmt frekari ákvörðun þar um.

6. gr.

    Í stað orðanna „Tækjasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs“ í 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: Innviðasjóðs og Markáætlunar á sviði vísinda og tækni.

7. gr.

    Í stað ákvæðis til bráðabirgða í lögunum koma þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)
    Við gildistöku laga þessara skulu eignir og skuldbindingar Rannsóknarnámssjóðs falla til Rannsóknasjóðs og eignir og skuldbindingar Tækjasjóðs falla til Innviðasjóðs eins og þær standa í lok árs 2012.

    b. (II.)
    Þeir sem þegið hafa styrk úr Rannsóknasjóði, Rannsóknarnámssjóði, Tækjasjóði og Markáætlun á sviði vísinda og tækni fyrir gildistöku laga þessara halda óbreyttum réttindum og skyldum samkvæmt þeim styrkveitingum.

    c. (III.)
    Núverandi stjórnir Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs skulu halda umboði sínu og starfa þar til ný stjórn úthlutunarsjóða hefur verið skipuð skv. 4. gr.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og mælir fyrir um breytingar á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Markmið með opinberum rannsóknasjóðum er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi. Lögð er áhersla á að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir hér á landi. Lögin tóku gildi 7. febrúar 2003 og leystu af hólmi eldri lög um Rannsóknarráð Íslands, nr. 61/1994.
    Forsögu frumvarps þessa má m.a. rekja til stefnu Vísinda- og tækniráðs 2010–2012 „Byggt á styrkum stoðum“. Í stefnunni er lögð sérstök áhersla á aukið samstarf háskóla, stofnana og fyrirtækja við rannsóknir og nýsköpun. Enn fremur er mælt fyrir um sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs, breytingu á nafni og starfssviði Tækjasjóðs með vísan í skýrslu innviðanefndar Vísinda- og tækniráðs um gerð vegvísis um uppbyggingu innviða og rannsókna á Íslandi frá árinu 2009. Í stefnunni er jafnframt lagt til að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð. Með endurskoðun laga nr. 3/2003 er því verið að mæta þeim áherslumálum sem koma m.a. fram í framangreindri stefnu. Þar að auki er lagt til að lögin verði samhliða þessu tekin til heildstæðrar endurskoðunar og er í frumvarpinu mælt fyrir um tillögur að breytingum á nokkrum þáttum laganna, sem þykir brýnt að bætt verði úr.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tímabært þykir að endurskoða lögin og endurmeta í ljósi reynslunnar frá því að lögin voru sett. Einkum hefur verið bent á að núverandi kerfi sé of brotakennt og ekki nógu samhæft. Þá hefur átt sér stað umtalsverð þróun innan vísindakerfisins sérstaklega er varðar háskólasamfélagið.
    Í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2010–2012 kemur m.a. fram að vísinda- og nýsköpunarstarf hér á landi búi við alþjóðlega samkeppni hvað varðar sókn í erlenda samkeppnissjóði, birtingu vísindaniðurstaðna og markaðssetningu nýsköpunar á erlendri grund. Því sé mikilvægt við uppbyggingu rannsókna og rannsóknarnáms að háskólar og stofnanir starfi þannig að besta aðstaðan og besta fólkið nýtist, að nýliðun hjá stofnunum verði meiri og að rannsóknir nái betur út í samfélag og atvinnulíf.
    Samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, starfa þrír sjóðir, Rannsóknasjóður, Rannsóknarnámssjóður og Tækjasjóður. Þeir heyra allir undir mennta- og menningarmálaráðherra og eru jafnframt allir í umsýslu Rannís:
     *      Rannsóknasjóður – 782,5 millj. kr. í fjárlögum 2012 – styrkir vísindarannsóknir.
     *      Rannsóknarnámssjóður – 96 millj. kr. í fjárlögum 2012 – styrkir nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi.
     *      Tækjasjóður – 107 millj. kr. í fjárlögum 2012 – styrkir kaup á dýrum tækjum og búnaði.
    Þessir sjóðir ásamt Tækniþróunarsjóði, sem kveðið er á um í lögum nr. 75/2007, mynda kjarna hins opinbera sjóðakerfis fyrir rannsóknir og nýsköpun hér á landi. Að auki ber að nefna Markáætlun á sviði vísinda og tækni en í fjárlögum eru veittir styrkir til grunnrannsókna og hagnýtra verkefna undir formerkjum Markáætlunar á sviði vísinda og tækni.
    Markáætlun á sviði vísinda og tækni (fjárlagaliður 02-235) var komið á fót árið 1999 en um er að ræða mikilvæga leið fyrir stjórnvöld til að samstilla, leggja nýjar áherslur og byggja upp árangursríkt starf á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Markáætlanir á sviði vísinda og tækni eru samkeppnissjóðir sem styrkja tímabundið átaksverkefni á tilteknum sviðum. Hingað til hafa þrjár markáætlanir verið starfræktar á Íslandi. Sú fyrsta, frá 1999 til 2003, um umhverfisvísindi og upplýsingatækni, sú næsta, frá 2005 til 2009, um erfðafræði í þágu heilbrigðis og örtækni, og sú nýjasta, frá 2009 til 2015, um öndvegissetur og klasa. Þessar þrjár markáætlanir hafa styrkt verkefni í opinni samkeppni á þeim sviðum sem markáætlanirnar starfa. Meðal hlutverka markáætlana er að styrkja verkefni sem spanna svið vísinda, tækni og nýsköpunar og eiga því ekki heima undir öðrum sjóðum. Markáætlun hefur verið fastur liður á fjárlögum frá 1999 en ekki haft stoð í lögum.
    Eitt meginmarkmið laga nr. 3/2003 er að sjóðakerfið myndi samfellu frá grunnrannsóknum yfir í hagnýtar rannsóknir og tækniþróun og að stefnumótun Vísinda- og tækniráðs hafi áhrif á þennan grunn í stuðningskerfinu. Sjóðirnir hafa allir sjálfstæða stjórn, fyrir utan Tækjasjóð og Rannsóknasjóð sem lúta sömu stjórn. Í framangreindri stefnu Vísinda- og tækniráðs er m.a. fjallað um nauðsyn þess að gerðar verði breytingar á núverandi stuðningskerfi rannsókna og nýsköpunar og þar á meðal sjóðakerfinu og stuðningi við það. Mikilvægt er að fengin verði betri samfella í stuðningskerfið þar sem það er of hólfað samkvæmt gildandi lögum og jafnframt þarf að stuðla að frekari samstarfi milli sjóðanna.
    Almennt má telja að mikilvægt sé að hlutverk einstakra sjóða verði skilgreint betur þannig að markmið þeirra séu skýrð og auðveldara verði að meta árangur þeirra. Meginmarkmið frumvarpsins er því að tryggja betri samfellu milli þeirra sjóða sem styrkja vísindarannsóknir. Mat og eftirfylgni verkefna og mat á árangri af starfsemi sjóðanna yrði þannig skilvirkara. Ásamt þessu er að því stefnt að styrkja hið faglega mat umsókna með frumvarpinu. Til þess að svo megi verða þarf að einfalda sjóðakerfið þannig að hægt verði að bjóða upp á fleiri styrki af þeirri stærð og gerð sem kalla á samstarf fleiri aðila. Stórir styrkir fyrir rannsóknarhópa frá stofnunum og fyrirtækjum gætu eflt nýliðun og aukið samstarf háskóla og fyrirtækja.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Eins og að framan greinir eru fjölþættar ástæður til þess að lagt er í endurskoðun á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir líkt og er að stefnt með frumvarpi þessu. Helstu tillögum um breytingar má skipta upp í fjóra þætti og verður hér gerð grein fyrir meginefni hvers og eins.
     Helstu efnisatriði frumvarpsins eru:
     1.      Rannsóknasjóður og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir.
     2.      Nafni Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans útvíkkað svo hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna, svo sem gagnagrunna og hugbúnað. Fagráð Innviðasjóðs verði skipað.
     3.      Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð og hún sett undir lögin.
     4.      Formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs verði ekki jafnframt formaður stjórnar Rannsóknasjóðs. Ráðherra skipi formann stjórnar úr hópi stjórnarmanna.
     Í fyrsta lagi er lagt til að Rannsóknasjóður og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir. Mennta- og menningarmálaráðherra skipar stjórn Rannsóknasjóðs, en stjórnin fer jafnframt með stjórn Tækjasjóðs. Ráðherra skipar einnig sérstaka stjórn Rannsóknarnámssjóðs. Þessar stjórnir starfa sjálfstætt og að því er virðist í litlu samráði. Bent hefur verið á að umsýsla sé töluvert viðamikil, ekki síst í Rannsóknarnámssjóði (þ.e. fyrir sjóð af þessari stærðargráðu). Rannsóknasjóður hefur fagráð sem sjá um faglegt mat umsókna, en ekkert fagráð er í Rannsóknarnámssjóði. Stjórnirnar setja árlega úthlutunarreglur. Þróunin í báðum sjóðunum hefur verið nokkuð svipuð á síðustu árum. Sjóðirnir veita nú færri en stærri styrki. Vert er að geta þess að úthlutanir úr Rannsóknasjóði fara að mestum hluta til að greiða laun og langstærstur hluti þeirra sem þiggja laun úr verkefnum sem styrkt eru af Rannsóknasjóði eru nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi. Í Rannsóknarnámssjóð sækja nemendur um í eigin nafni, en í Rannsóknasjóð eru þeir ráðnir af verkefnastjórum til að vinna ákveðin verkefni sem leiða oft til prófgráðu. Lagt er til að sjóðirnir verði sameinaðir undir nafni Rannsóknasjóðs. Með þessu má því fá betri yfirsýn yfir sjóðina og þau verkefni sem styrkt eru.
    Helstu kostir við sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs eru:
     a.      Sameining mun leiða til meiri samfellu og yfirsýnar í úthlutunum styrkja til nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi.
     b.      Faglegt mat umsókna til rannsóknartengds framhaldsnáms mun styrkjast, en ekkert fagráð starfar nú við sjóðinn.
     c.      Sameining mun leiða til minni umsýslu.
     Í öðru lagi er lagt til að heiti Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans útvíkkað svo að hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna, svo sem gagnagrunna og hugbúnað. Hlutverk Tækjasjóðs er að veita rannsóknarstofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði vegna rannsókna. Tækjasjóður nær þó aðeins til tækja og búnaðar en ekki annarra innviða, svo sem gagnagrunna og hugbúnaðar. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2010–2012 er lagt til að nafni sjóðsins verði breytt í Innviðasjóð og hann notaður til að byggja upp allar tegundir rannsóknarinnviða (e. research infrastructures) á Íslandi. Það er mikilvægt að útvíkka hlutverk sjóðsins svo að hann takmarkist ekki eingöngu við tæki. Einnig er lagt til að skipað verði sérstakt fagráð fyrir Innviðasjóð sem meti umsóknir um styrki úr sjóðnum. Sérstakt fagráð hefur ekki verið skipað heldur hafa formenn fagráða Rannsóknasjóðs verið stjórninni ráðgefandi varðandi úthlutanir úr sjóðnum. Það er talið heppilegra að sérstakt fagráð verði skipað fyrir Innviðasjóð sem starfi á svipaðan hátt og fagráð Rannsóknasjóðs og hafi forgöngu um faglegt mat umsókna í sjóðinn.
     Í þriðja lagi er mælt fyrir um að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð. Markáætlun á sviði vísinda og tækni fellur ekki undir lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, en er samt sem áður á forræði mennta- og menningarmálaráðherra. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2010 –2012 er kveðið á um að nýjum markáætlunum Vísinda- og tækniráðs verði settur lagarammi. Við undirbúning síðustu Markáætlunar, Markáætlunar um öndvegissetur og klasa 2009–2015, fól mennta- og menningarmálaráðherra stjórn Rannsóknasjóðs að sjá um úthlutanir með vísan í 9. gr. laga nr. 3/2003. Almennt þykir til bóta að verkefnið fái sérstaka stoð í lögum og því er í frumvarpinu mælt fyrir um að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði sett undir lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Jafnframt er lagt til að sérstakri stjórn verði falið að fara með málefni Markáætlunar á sviði vísinda og tækni. Ráðgert er að stjórnin verði skipuð einstaklingum úr stjórn Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Þannig verði tryggð aðkoma beggja undirnefnda Vísinda- og tækniráðs að ákvörðunum sem snúa að Markáætlun á sviði vísinda og tækni.
     Í fjórða lagi er lagt til að formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs verði ekki jafnframt formaður stjórnar Rannsóknasjóðs. Samkvæmt gildandi lögum stýrir formaður vísindanefndar þeirri nefnd sem tilnefnir fagráðsmenn fyrir Rannsóknasjóð. Á sama tíma gegnir formaður vísindanefndar jafnframt formennsku í stjórn Rannsóknasjóðs en hann ber ábyrgð á úthlutunum úr sjóðnum. Stjórn Rannsóknasjóðs tekur jafnframt við öllum athugasemdum sem umsækjendur gera við úthlutun sjóðsins en samkvæmt gildandi lögum sæta ákvarðanir stjórnar ekki stjórnsýslukæru. Á undanförnum árum hafa komið upp tilvik þar sem umsækjendur hafa gert athugasemdir við hæfi annaðhvort matsaðila eða fagráðsmanna til að meta umsóknir. Eina úrræði umsækjenda er að skrifa bréf til stjórnar Rannsóknasjóðs og óska eftir því að hún endurskoði ákvörðun um að hafna styrkveitingu. Hér er ekki verið að leggja til að komið verði upp áfrýjunarleið fyrir umsækjendur í opinbera sjóði heldur benda á að óæskilegt sé að sami aðili velji þá sem fjalla um umsóknir, stýri úthlutun og sé um leið eini aðilinn sem tekur við kvörtunum varðandi úthlutun sjóðsstjórnar. Til þess að starfsemi sjóða og stofnana njóti trausts er nauðsynlegt að byggja á gagnsæju vinnulagi, skýrum reglum og vel rökstuddum ákvörðunum. Ráðgert er að stjórnin verði skipuð fimm einstaklingum og jafnmörgum til vara sem hafi reynslu og staðgóða þekkingu á vísindarannsóknum samkvæmt sérstakri tilnefningu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs. Þar af skal einn tilnefndur úr vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs.

IV. Samráð.
    Við frumvarpsgerðina hafði mennta- og menningarmálaráðuneytið samráð við vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs um tillögur að breytingum á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Enn fremur ber að nefna að á fundi Vísinda- og tækniráðs 23. mars. sl. var lagt fram minnisblað um áætlun um þróun og eflingu samkeppnissjóða. Í minnisblaðinu var m.a. greint frá helstu efnisatriðum frumvarpsins um sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs, að heiti Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans útvíkkað svo að hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna, svo sem gagnagrunna og hugbúnað, og einnig að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð.
    Þess má geta að formanni vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs voru kynntar óformlega þær tillögur frumvarpsins að formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs verði ekki lengur jafnframt formaður stjórnar Rannsóknasjóðs.
    Frumvarpsdrögin fóru einnig í opið samráðsferli 30. mars sl. þar sem drögin voru send til kynningar m.a. til eftirtalinna aðila: aðalmanna og varamanna í stjórn Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknarnámssjóðs, til þeirra sem eiga sæti í fagráðum framangreindra úthlutunarsjóða, Vísinda- og tækniráði, samstarfsnefnd ráðuneytanna um Vísinda- og tækniráð, vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs og tækninefnd Vísinda- og tækniráðs. Jafnframt voru drögin send til rektora háskólanna í landinu, forstöðumanna rannsóknarstofnana og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Má nefna að ASÍ og SA eru með fulltrúa í Vísinda- og tækniráði. Veittur var frestur til loka dags 3. apríl sl. til þess að skila inn athugasemdum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu var farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegs frumvarps. Athugasemdirnar leiddu almennt ekki til grundvallarbreytinga á frumvarpsdrögunum en gerðar voru lítils háttar breytingar á almennum athugasemdum við frumvarpið.

V. Mat á áhrifum.
    Með framlagningu frumvarps þessa er gert ráð fyrir að stuðlað verði að heildstæðara og gagnsærra styrkjakerfi í opinberum stuðningi við vísindarannsóknir, sem jafnframt taki mið af þeirri þróun sem verið hefur innan vísindakerfisins. Í frumvarpinu er lagt til að starfandi verði þrír sjóðir, Rannsóknasjóður, Innviðasjóður og Markáætlun á sviði vísinda og tækni. Þeir muni allir heyra undir mennta- og menningarmálaráðherra og verði jafnframt allir í umsýslu Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Verði frumvarpið að lögum mun nást betri yfirsýn yfir styrkjakerfi til vísindarannsókna á Íslandi. Þannig verður stuðlað að betri tækifærum til að byggja upp rannsóknarinnviði á sviðum sem mikilvæg eru fyrir framfarir í rannsóknum. Frumvarpið mun einnig leiða til meiri samfellu og yfirsýnar í úthlutunum styrkja til nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi. Jafnframt er að því stefnt að hið faglega mat umsókna muni styrkjast til muna auk þess sem sameining Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs muni leiða til minni umsýslu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að Rannsóknasjóður og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir. Sameining þessara tveggja sjóða, undir heitinu Rannsóknasjóður, mun leiða til meiri samfellu og yfirsýnar í úthlutunum styrkja til nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi. Einnig er að því stefnt að hið faglega mat umsókna styrkist til muna auk þess sem sameining mun leiða til minni umsýslu. Rannsóknasjóður mun því gegna lykilhlutverki varðandi styrkveitingar til rannsókna.
    Greinin mælir einnig fyrir um að Rannsóknasjóði verði m.a. heimilt að styrkja rannsóknartengt framhaldsnám auk hlutverks sjóðsins að styrkja vísindarannsóknir á Íslandi enda falli hlutverk Rannsóknarnámssjóðs inn í hlutverk Rannsóknasjóðs. Með þessu verði tryggt að sjóðurinn styrki og efli enn frekar rannsóknartengt framhaldsnám, einkum doktorsnám hér á landi.
    Þá eru lagðar til orðalagsbreytingar, þ.e. að heiti Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð. Jafnframt er mælt fyrir um að hlutverki Innviðasjóðs verði lýst þannig í breyttri 2. mgr. laganna að sjóðnum verði ætlað að byggja upp rannsóknarinnviði á Íslandi. Með rannsóknarinnviðum (e. research infrastructure) er átt við hvers konar tæki, aðstöðu, gagnagrunna, hugbúnað, þjónustu, kerfi, tölvunet eða annað sem getur verið nauðsynlegt eða ómissandi fyrir iðkun vísinda. Rannsóknarinnviðir geta verið á hvaða sviði vísinda sem er og geta þjónað ólíkum tegundum stofnana, svo sem háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum, einum og sér eða mörgum. Með greininni er því lagt til að Innviðasjóður veiti styrki til kaupa á tækjum, gagnagrunnum, hugbúnaði (sem hvort tveggja er nýmæli) og búnaði til rannsókna, þannig að sjóðurinn nýtist til að byggja upp alla rannsóknarinnviði á Íslandi. Hér er mælt fyrir um útvíkkun á hlutverki sjóðsins svo hann takmarkist ekki eingöngu við tæki.

Um 2. gr.

    Varðandi tekjur Innviðasjóðs er gert ráð fyrir því að hann hafi sömu tekjur og Tækjasjóður samkvæmt lögum nr. 3/2003 eða sambærilegar tekjur. Nauðsynlegt þykir að Innviðasjóður sé sérstakur sjóður aðgreindur frá öðrum sjóðum vegna mikilvægis hans (og forvera hans) við fjármögnun á tækjum, gagnagrunnum, hugbúnaði (sem hvort tveggja er nýmæli) og búnaði til rannsókna, þannig að sjóðurinn nýtist til að byggja upp alla rannsóknarinnviði á Íslandi.

Um 3. gr.

    Greinin kveður á um breytta skipan stjórnar úthlutunarsjóða. Með sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs verði skipuð ein sameiginleg stjórn með Rannsóknasjóði og Innviðasjóði. Jafnframt eru gerðar breytingar á skipun stjórnarinnar frá gildandi lögum og er ráðgert að stjórn verði skipuð fimm einstaklingum og jafnmörgum til vara, sem hafi reynslu og staðgóða þekkingu á vísindarannsóknum, samkvæmt sérstakri tilnefningu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs. Þar af skal einn tilnefndur úr vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs. Með þessu verði enn tengsl milli stjórnarinnar og vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs. Einnig er mælt fyrir um að formaður og varaformaður stjórnarinnar verði skipaðir af ráðherra úr hópi stjórnarmanna. Líkt og samkvæmt gildandi fyrirkomulagi verða áfram gerðar strangar kröfur um hæfni þeirra sem sitja í stjórn úthlutunarsjóða. Þeir skulu hafa reynslu af og staðgóða þekkingu á vísindarannsóknum sem standast alþjóðlegar kröfur á sviði grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna annars vegar og sjónarmiða háskólastigs, rannsóknarstofnana og einkaaðila hins vegar.
    Þá er lagt til að formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs verði ekki lengur jafnframt formaður stjórnar Rannsóknasjóðs. Samkvæmt núgildandi lögum stýrir formaður vísindanefndar þeirri nefnd sem tilnefnir fagráðsmenn fyrir Rannsóknasjóð. Á sama tíma gegnir formaður vísindanefndar jafnframt formennsku í stjórn Rannsóknasjóðs sem ber ábyrgð á úthlutunum úr sjóðnum en stjórnin tekur einnig við öllum athugasemdum sem umsækjendur gera við úthlutun sjóðsins. Um frekari rökstuðning þessa vísast til III. kafla almennra athugasemda.

Um 4. gr.

    Greinin á sér samsvörun í 5. gr. gildandi laga nr. 3/2003. Líkt og kveðið er á um í athugasemdum við þá grein er vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs ætlað að skipa 5–7 manna fagráð til tveggja ára á helstu sviðum vísinda. Hlutverk vísindanefndar í úthlutunarferlinu takmarkast við að móta ramma úthlutana, sem skipan fagráða á helstu sviðum vísinda fellur undir í samræmi við markmið stjórnvalda um aðgreiningu stefnumótunar og úthlutunar styrkja. Fagráðum er ætlað að veita faglega ráðgjöf og meta umsóknir um styrki. Skipan í fagráð til tveggja ára veitir möguleika á að endurnýja þau reglulega. Þau fagráð sem vænta má að vísindanefnd skipi fjalla um hug- og félagsvísindi, líf- og læknisfræði, náttúru- og umhverfisvísindi og raunvísindi og verkfræði. Gert er ráð fyrir að stjórn sem skipuð verði skv. 3. gr. frumvarpsins hafi almennar áherslur Vísinda- og tækniráðs til viðmiðunar við úthlutun jafnhliða faglegu mati. Þær gætu til dæmis falið í sér tímabundnar áherslur á tiltekin rannsóknasvið, mikilvægi rannsóknanna fyrir íslenskt þjóðlíf, menntun ungra vísindamanna eða ákvæði um mótframlag. Hlutverk fagráða er hins vegar að meta umsóknir samkvæmt færni umsækjenda til að framkvæma verkið og aðstöðu þeirra til þess, auk vísindalegs gildis verkefnisins. Fagráðum er heimilt að leita umsagnar sérfróðra aðila um einstakar umsóknir. Stjórn Rannsóknasjóðs ber að gera grein fyrir áherslum sínum við úthlutun ef þær fela í sér frávik frá tillögum fagráða. Ákvæði um að sömu menn sitji ekki í fagráðum og Vísinda- og tækniráði eða stjórn Rannsóknasjóðs á að tryggja sjálfstæði fagráða. Gert er ráð fyrir að fagráð geti verið ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er.

Um 5. gr.

    Þar sem mælt er fyrir um sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs í frumvarpinu er lagt til að ákvæði 6. og 7. gr. laganna, sem fjalla um hlutverk og tekjur Rannsóknarnámssjóðs, falli brott. Verði frumvarpið að lögum skulu eignir og skuldbindingar Rannsóknarnámssjóðs falla til Rannsóknasjóðs, þ.m.t. árlegt framlag ríkisins í Rannsóknarnámssjóð en það er nauðsynlegt svo að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Með þessari breytingu fæst meiri samfella í úthlutunum styrkja til nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi og auðveldara yrði að meta áhrif styrkveitinga. Sameining sjóðanna mun einnig auðvelda daglega umsýslu, en miðað við stærð Rannsóknarnámssjóðs er umsýsla hans orðin mjög viðamikil.
     Um a-lið (6. gr.).
    Hér er gert ráð fyrir að vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs marki úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs. Stjórn úthlutunarsjóða samkvæmt frumvarpinu gefur hins vegar út reglur um umsóknir, meðferð þeirra og úthlutun. Hér er áréttuð verkaskipting vísindanefndar og stjórnar undir samheitinu úthlutunarreglur. Í úthlutunarreglum koma fram skilyrði umsókna, úthlutunarstefna sjóða og almennar áherslur Vísinda- og tækniráðs. Beinn kostnaður við mat umsókna og úthlutun styrkja skal greiðast af árlegu ráðstöfunarfé sjóðanna. Gert er ráð fyrir að viðkomandi ráðuneyti geri samning við Rannsóknamiðstöð Íslands um umsýslu sjóða og rekstrarkostnað vegna hennar. Með þeim hætti verður betur ljóst í hverju slíkur kostnaður felst.
     Um b-lið (7. gr.).
    Í greininni er lagt til að svonefndri Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð en í fjárlögum eru veittir styrkir til grunnrannsókna og hagnýtra verkefna undir formerkjum Markáætlunar á sviði vísinda og tækni. Slíkar markáætlanir eru stefnumótandi áætlanir stjórnvalda þar sem um er að ræða tímabundinn forgang á fjármagni í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana sem talin eru skipta máli fyrir uppbyggingu íslensks samfélags. Markmið Markáætlunar á sviði vísinda og tækni er að efla vísinda- og tæknirannsóknir, hvetja til árangursríkrar samvinnu milli ólíkra aðila innan lands og í alþjóðlegu samhengi og ýta undir verðmætasköpun og fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun í atvinnulífinu. Ráðgert er að markmið verkefna Markáætlunar á sviði tækni og vísinda falli að almennum áherslum og markmiðum Vísinda- og tækniráðs.
     Um c-lið (8. gr.).
    Í greininni er mælt fyrir um fjármögnun Markáætlunar á sviði vísinda og tækni. Gert er ráð fyrir að Markáætlun á sviði vísinda og tækni njóti árlegrar fjárveitingar í fjárlögum. Samkvæmt þessu byggjast tekjurnar að mestu leyti á fjárveitingum í fjárlögum en einnig verði heimilt að Markáætlun á sviði vísinda og tækni þiggi gjafir frá einstaklingum eða fyrirtækjum sem hafa það markmið að styðja við starfsemi sjóðsins.
     Um d-lið (9. gr.).
    Í greininni er lagt til að sérstakri stjórn verði falið að fara með málefni Markáætlunar á sviði vísinda og tækni. Ráðgert er að stjórnin verði skipuð einstaklingum úr stjórn Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Þannig verði tryggð aðkoma beggja undirnefnda Vísinda- og tækniráðs að ákvörðunum sem snúa að Markáætlun á sviði vísinda og tækni.
     Um e-lið (10. gr.).
    Nýmæli greinarinnar er að í öllum ritsmíðum sínum um niðurstöður rannsókna sem kostaðar eru með styrkjum skulu styrkþegar geta um þátt sjóðanna í viðkomandi verki.
     Um f-lið (11. gr.).
    Greinin á sér samsvörun í 9. gr. gildandi laga nr. 3/2003. Mælt er fyrir um smávægilegar orðalagsbreytingar á greininni. Samkvæmt greininni getur ráðherra falið stjórn úthlutunarsjóða skv. 3. gr. frumvarpsins að sjá um úthlutun annarra sjóða sem til er stofnað. Þetta geta t.d. verið sjóðir í tengslum við tímabundnar rannsóknarniðurstöður. Þannig geta stjórnvöld boðið tímabundna verkefnastyrki eftir almennum áherslum og markmiðum Vísinda- og tækniráðs hverju sinni. Þeir geta verið af ýmsum toga, til dæmis öndvegisstyrkir markaðir ákveðnum fræðasviðum eða rannsóknarstofnunum á einstökum fræðasviðum eða þverfaglegum fræðasviðum.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Um 7. gr.

    Með ákvæðunum er ætlunin að tryggja að vinna við úthlutun úr þeim sjóðum sem frumvarp þetta fjallar um raskist sem minnst, verði það að lögum. Jafnframt er ákvæðunum ætlað að tryggja eðlilega yfirfærslu starfsemi Rannsóknarnámssjóðs yfir til Rannsóknasjóðs. Mælt er fyrir um að miða skuli bókhaldslegan samruna við 1. janúar 2013. Að öðru leyti þarfnast ákvæðin ekki skýringar.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal I.


Samanburður á ákvæðum frumvarpsins og gildandi lögum.



GILDANDI
LÖG

I. kafli. Markmið.

1. gr. Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir hér á landi.

II. kafli. Úthlutunarsjóðir.

2. gr. Rannsóknasjóður og Tækjasjóður.

    Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir á Íslandi. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu. Ákvörðun um styrkveitingu skal bundin hinu faglega mati.
    Hlutverk Tækjasjóðs er að veita rannsóknastofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði til rannsókna. Við úthlutun úr Tækjasjóði skal taka mið af úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs á hverjum tíma.
    Rannsóknasjóður tekur við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs sem nú starfa samkvæmt lögum um Rannsóknarráð Íslands, nr. 61/1994, en Tækjasjóður tekur við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs samkvæmt sömu lögum. Eignir og skuldbindingar Vísindasjóðs og Tæknisjóðs falla til Rannsóknasjóðs en eignir og skuldbindingar Bygginga- og tækjasjóðs falla til Tækjasjóðs.

3. gr. Tekjur Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs.

    Tekjur Rannsóknasjóðs eru:
1.    Fjárveiting í fjárlögum ár hvert.
2.    Gjafir frá einstaklingum eða fyrirtækjum.
3.    Önnur framlög.
    Tekjur Tækjasjóðs eru:
1.    Einkaleyfisgjald af rekstri peningahappdrætta eða aðrar sambærilegar tekjur.
2.    Önnur framlög.

4. gr. Stjórn Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs.

    Ráðherra skipar fimm manna stjórn Rannsóknasjóðs til þriggja ára í senn. Stjórnina skipa eftirtaldir: Formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs sem jafnframt er formaður sjóðstjórnar, fjórir einstaklingar sem hafa reynslu af eða þekkingu á vísindarannsóknum samkvæmt tilnefningu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og fimm til vara. Formaður velur varaformann sjóðstjórnar úr hópi stjórnarmanna.
    Stjórn Rannsóknasjóðs skal jafnframt fara með stjórn Tækjasjóðs.
    Stjórnin metur umsóknir um styrk úr Rannsóknasjóði að fengnum umsögnum fagráða sem skipuð eru skv. 5. gr. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins geta veitt ef þurfa þykir. Fagráð skipað formönnum fagráða Rannsóknasjóðs metur umsóknir í Tækjasjóð áður en stjórn sjóðsins tekur þær til afgreiðslu.
    Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Rannsóknasjóðs og atkvæði falla jafnt ræður at
kvæði formanns.
    Ákvarðanir stjórnar Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs um styrkveitingar samkvæmt lögum þessum sæta ekki stjórnsýslukæru.
    Kostnaður við mat á umsóknum og við störf stjórnar Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðanna.
    Stjórn Rannsóknasjóðs er heimilt, að tillögu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs, að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í vísindarannsóknum af ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs.

5. gr. Fagráð Rannsóknasjóðs.

    Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda sem skulu hafa það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn Rannsóknasjóðs við úthlutanir úr sjóðnum. Vísindanefnd skipar formenn fagráða sérstaklega og eru þeir jafnframt ráðgefandi fyrir stjórn Tækjasjóðs skv. 3. mgr. 4. gr. Jafnframt eru fagráð ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er.
    Fagráð skulu vera skipuð allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum. Skulu þeir hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn Rannsóknasjóðs. Fagráð metur umsóknir út frá færni umsækjenda til að framkvæma verkið og aðstöðu þeirra til þess. Jafnframt skal lagt mat á vísindagildi rannsóknanna á alþjóðlegan mælikvarða eða líkur á skráningu einkaleyfis eða hugverkaréttinda eftir því sem við á.


6. gr. Rannsóknarnámssjóður.

    Hlutverk Rannsóknarnámssjóðs er að veita styrki til rannsóknartengds framhaldsnáms að loknu grunnnámi við háskóla. Ráðherra setur reglur um starfsemi sjóðsins.
    Ráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn. Í sjóðstjórn sitja fulltrúi tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, fulltrúi tilnefndur af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs og fulltrúi skipaður af ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður stjórnar sjóðsins. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.
    Ákvarðanir stjórnar Rannsóknarnámssjóðs sæta ekki stjórnsýslukæru.

7. gr. Tekjur Rannsóknarnámssjóðs.

    Tekjur Rannsóknarnámssjóðs eru framlög í fjárlögum ár hvert og framlög samstarfsaðila um rannsóknartengt framhaldsnám. Heimilt er stjórn Rannsóknarnámssjóðs að efna til samstarfs við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir um fjármögnun sérstakra styrkja til rannsóknartengds framhaldsnáms á afmörkuðum sviðum rannsókna.

8. gr. Úthlutunarreglur.

    Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs markar úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs. Stjórn Rannsóknasjóðs gefur út reglur um umsóknir, meðferð þeirra og úthlutun eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests. Þar skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.
    Stjórn Rannsóknarnámssjóðs gefur út úthlutunarreglur fyrir sjóðinn eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests.
    Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr Rannsóknasjóði og Rannsóknarnámssjóði, skulu birtar opinberlega og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið.

9. gr. Önnur verkefni.

    Ráðherra getur falið stjórnum Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs úthlutun annarra sjóða samkvæmt frekari ákvörðun þar um.

III. kafli Rannsóknamiðstöð Íslands
10. gr. Hlutverk.

    Rannsóknamiðstöð Íslands er ríkisstofnun sem heyrir undir ráðherra. Hlutverk hennar er að veita faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd vísinda- og tæknistefnu Vísinda- og tækniráðs. Í því felst að:
1.    Annast umsýslu Rannsóknasjóðs, Tækjasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs sem heyra undir ráðherra.
2.    Annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir ráðherra sem fer með málefni atvinnuþróunar og nýsköpunar.
3.    Annast umsýslu annarra sjóða samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
4.    Annast þjónustu við fagráð og stjórnir framangreindra sjóða.
5.    Annast gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir Vísinda- og tækniráð og nefndir þess um vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun í landinu; afla upplýsinga og gagna varðandi þróun vísinda og tækni á alþjóðavettvangi.
6.    Gangast fyrir mati á árangri rannsókna, þróunar og nýsköpunar í landinu með reglulegum hætti og taka þátt í fjölþjóðlegum samanburðarathugunum á því sviði fyrir hönd Íslands þegar þess er óskað.
7.    Annast kynningu á rannsóknastarfsemi í landinu fyrir almenning.
8.    Annast kynningu og ráðgjöf fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki um möguleika á styrkjum og stuðla að samvinnu um rannsóknarverkefni innan lands og utan.
9.    Hafa samstarf við hliðstæðar erlendar stofnanir eða skrifstofur og fylgjast með þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu vísindastarfi.
10.    Sinna öðrum verkefnum sem ráðherra felur stofnuninni. Stofnunin getur átt samstarf við og tekið að sér verkefni á sviði vísinda- og tæknimála fyrir önnur ráðuneyti samkvæmt samkomulagi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laga þessara skal eftirfarandi gilda:
    Þeir sem þegið hafa styrk samkvæmt lögum nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands, halda óbreyttum réttindum og skyldum samkvæmt þeim styrkveitingum.
    Rannsóknarráð Íslands samkvæmt lögum nr. 61/1994 skal annast úthlutun styrkja úr sjóðum í vörslu ráðsins á árinu 2003 og jafnframt vinna að undirbúningi tillagna um úthlutunarreglur skv. 8. gr. laga þessara um styrkveitingar á árinu 2004, þó eigi lengur en til 30. mars 2003. Skipað skal í stjórn Rannsóknasjóðs samkvæmt lögum þessum eigi síðar en 1. apríl 2003.
    Núverandi stjórn Rannsóknarnámssjóðs sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 61/1994 skal halda umboði sínu og starfa í samræmi við ákvæði laga þessara út skipunartímabil sitt.
    Samningar við þá sem ráðnir hafa verið í tímabundnar stöður rannsóknarprófessora samkvæmt lögum nr. 61/1994 halda gildi sínu í samræmi við ákvæði þeirra.
    Starfsmenn á skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands verða starfsmenn Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Embætti framkvæmdastjóra Rannsóknarráðs Íslands skal lagt niður frá og með upphafsdegi skipunar í embætti forstöðumanns Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Skipað skal í embætti forstöðumanns Rannsóknamiðstöðvar Íslands eigi síðar en 1. apríl 2003.



BREYTING,
VERÐI FRUMVARPIÐ AÐ LÖGUM

I. kafli. Markmið.

1. gr. Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir hér á landi.

II. kafli. Úthlutunarsjóðir.

2. gr. Rannsóknasjóður og Innviðasjóður.
    Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi og skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu. Ákvörðun um styrkveitingu skal bundin hinu faglega mati.
     Hlutverk Innviðasjóðs er að byggja upp rannsóknarinnviði á Íslandi. Innviðasjóður veitir styrki til kaupa á tækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði og öðrum þeim búnaði sem telst mikilvægur fyrir framfarir í rannsóknum.

3. gr. Tekjur Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs.
    Tekjur Rannsóknasjóðs eru:
1.    Fjárveiting í fjárlögum ár hvert.
2.    Gjafir frá einstaklingum eða fyrirtækjum.
3.    Önnur framlög.
    Tekjur Innviðasjóðs eru:
1.    Einkaleyfisgjald af rekstri peningahappdrætta eða aðrar sambærilegar tekjur.
2.    Önnur framlög.

4. gr. Stjórn Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs.

    Ráðherra skipar fimm manna stjórn til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs. Tilnefndir skulu fimm einstaklingar sem hafa reynslu og staðgóða þekkingu á vísindarannsóknum, þar af skal einn tilnefndur úr vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
    Stjórn Rannsóknasjóðs skal jafnframt fara með stjórn Innviðasjóðs.
     Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr Rannsóknasjóði og Innviðasjóði að fengnum umsögnum fagráða sem skipuð eru skv. 5. gr. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðanna geta veitt ef þurfa þykir.
    Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
    Ákvarðanir stjórnar um styrkveitingar samkvæmt lögum þessum sæta ekki stjórnsýslukæru.
    Kostnaður við mat á umsóknum og við störf stjórnar skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðanna.
    Stjórn er heimilt, að tillögu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs, að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í vísindarannsóknum af ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs.

5. gr. Fagráð Rannsóknasjóðs
og Innviðasjóðs.

    Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda sem skulu hafa það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn við úthlutanir úr Rannsóknasjóði og Innviðasjóði. Vísindanefnd skipar formenn fagráða sérstaklega. Fagráð eru jafnframt ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er.
    Fagráð Rannsóknasjóðs skal vera skipað allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum. Skulu þeir hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn úthlutunarsjóða skv. lögum þessum. Fagráð metur umsóknir út frá vísindalegu gildi, færni og aðstöðu umsækjenda til að framkvæma verkið og líkum á að verkefnið skili mælanlegum árangri og ávinningi.
    Fagráð Innviðasjóðs skal skipað allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum og skulu hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn úthlutunarsjóða samkvæmt lögum þessum. Fagráð metur umsóknir út frá mikilvægi tækja og búnaðar til framfara í rannsóknum í samræmi við áherslur í stefnu Vísinda- og tækniráðs.


6. gr. Úthlutunarreglur.

    Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs markar úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs samkvæmt áherslum Vísinda- og tækniráðs. Stjórn sjóðanna gefur út reglur um umsóknir, málsmeðferð þeirra og úthlutun eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests viðkomandi sjóðs og skulu þær kynntar ráðherra. Í reglunum skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.

7. gr. Markáætlun á sviði vísinda og tækni.

Í fjárlögum eru veittir styrkir til grunnrannsókna og hagnýtra verkefna undir formerkjum Markáætlunar á sviði vísinda og tækni. Markáætlun á sviði vísinda og tækni nær yfir stefnumótandi áætlanir þar sem um er að ræða tímabundinn forgang á fjármagni. Verkefni skuli unnin í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana. Markmið verkefna skulu falla að almennum áherslum og markmiðum Vísinda- og tækniráðs.

8. gr. Tekjur Markáætlunar á sviði
vísinda og tækni.

    Tekjur Markáætlunar á sviði vísinda og tækni eru:
1. Fjárveiting í fjárlögum ár hvert.
2. Önnur framlög.


9. gr. Stjórn Markáætlunar á sviði
vísinda og tækni.

    Ráðherra skipar stjórn Markáætlunar á sviði vísinda og tækni til þriggja ára í senn. Stjórnin skal skipuð þremur einstaklingum úr stjórn Rannsóknasjóðs og þremur einstaklingum úr stjórn Tækniþróunarsjóðs sem skipuð er skv. 12. gr. laga nr. 75/2007 og jafnmörgum til vara. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
    Vísinda- og tækniráð markar áherslur nýrrar Markáætlunar. Stjórn Markáætlunar setur reglur varðandi umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð í samræmi við áherslur Vísinda- og tækniráðs.
    Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Markáætlunar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
    Kostnaður við mat á umsóknum og rekstur Markáætlunar skal greiddur af ráðstöfunarfé.
    Ákvarðanir stjórnar um veitingu styrkja úr Markáætlun eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

10. gr. Niðurstöður rannsókna.

    Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr sjóðum er falla undir lög þessi, skulu birtar í opnum aðgangi og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið. Styrkþegar skulu í öllum ritsmíðum sínum um niðurstöður rannsókna geta um þátt sjóðanna í viðkomandi verki.

11. gr. Önnur verkefni.

    Ráðherra getur falið stjórn skv. 4. gr. laga þessara úthlutun annarra sjóða samkvæmt frekari ákvörðun þar um.


III. kafli. Rannsóknamiðstöð Íslands.
12. gr. Hlutverk.

    Rannsóknamiðstöð Íslands er ríkisstofnun sem heyrir undir ráðherra. Hlutverk hennar er að veita faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd vísinda- og tæknistefnu Vísinda- og tækniráðs. Í því felst að:
1.    Annast umsýslu Rannsóknasjóðs, Innviðasjóðs og Markáætlunar á sviði vísinda og tækni sem heyra undir ráðherra.
2.    Annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir ráðherra sem fer með málefni atvinnuþróunar og nýsköpunar.
3.    Annast umsýslu annarra sjóða samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
4.    Annast þjónustu við fagráð og stjórnir framangreindra sjóða.
5.    Annast gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir Vísinda- og tækniráð og nefndir þess um vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun í landinu; afla upplýsinga og gagna varðandi þróun vísinda og tækni á alþjóðavettvangi.
6.    Gangast fyrir mati á árangri rannsókna, þróunar og nýsköpunar í landinu með reglulegum hætti og taka þátt í fjölþjóðlegum samanburðarathugunum á því sviði fyrir hönd Íslands þegar þess er óskað.
7.    Annast kynningu á rannsóknastarfsemi í landinu fyrir almenning.
8.    Annast kynningu og ráðgjöf fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki um möguleika á styrkjum og stuðla að samvinnu um rannsóknarverkefni innan lands og utan.
9.    Hafa samstarf við hliðstæðar erlendar stofnanir eða skrifstofur og fylgjast með þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu vísindastarfi.
10.    Sinna öðrum verkefnum sem ráðherra felur stofnuninni. Stofnunin getur átt samstarf við og tekið að sér verkefni á sviði vísinda- og tæknimála fyrir önnur ráðuneyti samkvæmt samkomulagi.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Við gildistöku laga þessara skulu eignir og skuldbindingar Rannsóknarnámssjóðs falla til Rannsóknasjóðs og eignir og skuldbindingar Tækjasjóðs falla til Innviðasjóðs eins og þær standa í lok árs 2012.

II.

    Þeir sem þegið hafa styrk úr Rannsóknasjóði, Rannsóknarnámssjóði, Tækjasjóði og Markáætlun á sviði vísinda og tækni fyrir gildistöku laga þessara halda óbreyttum réttindum og skyldum samkvæmt þeim styrkveitingum.

III.

    Núverandi stjórnir Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs skulu halda umboði sínu og starfa þar til ný stjórn úthlutunarsjóða hefur verið skipuð skv. 4. gr.


Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003.

    Frumvarpið er liður í að mæta áherslumálum sem fram komu í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2010–2012 „Byggt á styrkum stoðum“ þar sem m.a. er kveðið á um sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs, breytingu á nafni og starfssviði Tækjasjóðs í Innviðasjóð og jafnframt að Markáætlun á sviði vísindi og tækni verði veitt lagastoð. Enn fremur eru lögin samhliða tekin til heildstæðrar endurskoðunar og í frumvarpinu mælt fyrir um tillögur að breytingum á nokkrum þáttum þeirra sem þykir brýnt að bætt verði úr.
    Samkvæmt núverandi lögum nr. 3/2003 starfa þrír sjóðir á þessu málefnasviði. Rannsókna-, Rannsóknarnáms- og Tækjasjóður og heyra þeir allir undir mennta- og menningarmálaráðherra og eru allir í umsýslu Rannís. Framlög til Rannsóknasjóðs námu í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 1.325 m.kr. en 782,5 m.kr. í fjárlögum ársins 2012. Framlög til Rannsóknarnámssjóðs nema í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 95 m.kr. en voru 96 m.kr. í fjárlögum 2012. Framlög til Tækjasjóðs nema í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 106 m.kr. en voru 107 m.kr. í fjárlögum ársins 2012. Að auki er Markáætlun á sviði vísinda og tækni með 392,5 m.kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 en fjárveiting ársins 2012 var 194,4 m.kr.
    Helstu efnisatriði frumvarpsins eru í fyrsta lagi að Rannsókna- og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir. Í öðru lagi að nafni Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans útvíkkað svo hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna. Jafnframt verði fagráði Innviðasjóðs komið á fót. Í þriðja lagi verði skipuð ein sameiginleg stjórn um Rannsóknar- og Innviðasjóð. Í fjórða lagi að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð og í fimmta lagi að formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs verði ekki jafnframt formaður stjórnar Rannsóknasjóðs. Ráðherra skipi formann stjórna á meðal stjórnarmanna. Ætlunin er að tryggja betri samfellu milli þeirra sjóða sem styrkja vísindarannsóknir. Mat og eftirfylgni með árangri af starfsemi sjóðanna verði gert skilvirkara og stefnt verði að því að styrkja faglegt mat umsókna með frumvarpinu. Jafnframt eru þau nýmæli að birta skal í opnu aðgengi niðurstöður rannsókna sem fengið hafa styrki úr samkeppnissjóðum.
    Gert er ráð fyrir einni stjórn Rannsókna- og Innviðasjóðs í stað tveggja áður (Rannsókna- og Tækjasjóðs). Á móti kemur að skipuð verður stjórn fyrir Markáætlun á sviði vísinda sem hefur hingað til verið án stjórnar. Þá er einnig lagt til að skipað verði fagráð fyrir Innviðasjóð en í dag starfa fagráð bæði fyrir Rannsókna- og Tækjasjóð. Með þessari tillögu er þannig ekki um að ræða fjölgun stjórna eða fagráða og breyting á kostnaði við þóknanir talin verða óveruleg að mati mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í frumvarpinu eru þau nýmæli lögð til að niðurstöður rannsókna sem fengið hafa styrki úr samkeppnissjóðunum verði birtar í opnum aðgangi. Ekki er talið að þetta hafi verulegan kostnað í för með sér þar sem t.d. birting rannsóknarniðurstaðna á heimasíðu uppfyllir viðmið um opinn aðgang.
    Verði frumvarpið að lögum er því ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.