Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 77. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 203  —  77. mál.
Svarvelferðarráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Geirssonar um endurreikning
á lífeyrisgreiðslum frá almannatryggingum.


     1.      Hversu margir bótaþegar hafa fengið leiðréttingu og endurreikning á lífeyrisgreiðslum frá almannatryggingum á undanförnum fimm árum?
     2.      Um hversu háar fjárhæðir er að ræða og hvernig hafa þær skipst annars vegar í vangreiðslur og hins vegar ofgreiðslur til lífeyrisþega?
    Svör við 1. og 2. tölul. koma fram í töflunni hér á eftir en leitað var upplýsinga hjá Tryggingastofnun ríkisins.
    Í töflunni má meðal annars sjá að alls voru bætur 47.606 manna endurreiknaðar fyrir árið 2007 en bætur 52.263 manna voru endurreiknaðar vegna ársins 2011. Fjölgun þeirra sem fengu endurreiknaðar bætur nemur því um 10% á þessu tímabili. Árið 2007 nam heildarfjárhæð endurreiknings tæplega 40 milljörðum kr. en var rúmlega 60 milljarðar kr. á árinu 2011 sem þýðir um 50% hækkun fjárhæða.
    Upplýsingar um fjölda þeirra sem fengu ofgreiddar og vangreiddar bætur ásamt heildarfjárhæð ofgreiðslna og vangreiðslna koma einnig fram í töflunni. Þá er einnig tilgreindur fjöldi þeirra sem fékk engan mismun.
    Heildarniðurstaða endurreiknings sýnir mismun ofgreiðslna og vangreiðslna á hverju ári þar sem mínustala þýðir að ofgreiðslur hafa numið hærri fjárhæð en vangreiðslur en plústala að vangreiðslur hafa reynst meiri en ofgreiðslur.

Ár Fjöldi með ofgreiðslu Upphæð ofgreiðslna Fjöldi með vangreiðslu Upphæð vangreiðslna Fjöldi með engan mismun Heildarniðurstaða Samtals fjöldi Heildarfjárhæð endurreiknings
2007 25.261 -2.578.118.219 14.353 1.106.848.022 7.992 -1.471.270.197 47.606 39.991.129.134
2008 33.439 -4.419.716.391 10.345 961.801.528 7.475 -3.457.914.863 51.259 45.661.411.273
2009 28.546 -4.456.973.451 17.234 2.019.165.268 6.404 -2.437.808.183 52.184 51.198.771.246
2010 10.969 -1.362.914.508 33.611 4.140.157.560 7.600 2.777.243.052 52.180 54.017.508.785
2011 15.579 -2.883.063.752 30.250 3.234.022.626 6.434 350.958.874 52.263 60.083.385.295
-15.700.786.321 11.461.995.004 -4.238.791.317
    
    Til nánari skýringar má geta þess að árið 2011 voru niðurstöðurnar þær að 30.250 einstaklingar áttu inni hjá Tryggingastofnun vangreiddar bætur sem námu um 3,2 milljörðum kr. Á milli 65 og 70% áttu inneignir sem námu 100.000 kr. eða minna. Á sama ári höfðu 15.579 einstaklingar fengið ofgreiddar bætur sem námu tæplega 2,9 milljörðum kr. Á milli 65 og 70% fengu ofgreiðslu undir 100.000 kr. Sjá nánar eftirfarandi töflur og myndir.
    Á næstu myndum sést að árin 2007–2009 voru ofgreiðslur mun algengari hjá lífeyrisþegum en vangreiðslur. Þetta hefur snúist við og síðustu tvö árin hefur meiri hluti lífeyrisþega fengið greidda inneign frá Tryggingastofnun við uppgjör bóta.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hver er meginskýringin á þeim miklu endurreikningum og leiðréttingum sem fara fram á hverju ári vegna lífeyrisgreiðslna og tengdra bóta frá almannatryggingum?
    Greiðslur almannatrygginga eru yfirleitt tekjutengdar og ráðast jafnframt af öðrum aðstæðum, t.d. hjúskaparstöðu, lengd búsetu hér á landi, hvort viðkomandi býr einn eða er í sambúð o.s.frv. Réttindi eru reiknuð út frá áætluðum tekjum lífeyrisþegans sem hann gefur upp við upphaf hvers árs. Þegar upplýsingar um endanlegar tekjur liggja fyrir samkvæmt skattframtölum eru þær bornar saman við uppgefnar tekjur og réttindi einstaklinganna endurreiknuð. Munur á greiddum bótum og réttindum til greiðslna er þá gerður upp og þannig tryggt að allir fái réttar greiðslur lífeyris.
    Lífeyrisþegar bera sjálfir ábyrgð á að veita Tryggingastofnun réttar upplýsingar um tekjur sínar og aðstæður, en stofnunin aðstoðar lífeyrisþega við þetta í ríkum mæli. Gerð er tillaga að tekjuáætlun sem er byggð á fyrri áætlunum og horft til væntra verðbreytinga á komandi ári. Lífeyrisþegar fá þessar tillögur og samþykkja þær eða gera breytingar á þeim. Þegar greiðslur ársins hefjast fylgist Tryggingastofnun síðan með tekjum í staðgreiðsluskrá skattyfirvalda og gerir lífeyrisþegum viðvart ef um veruleg frávik er að ræða milli áætlaðra tekna og raunverulegra tekna eins og þær birtast í staðgreiðsluskrá.
    Aftur á móti er ekki hægt að fá upplýsingar um fjármagnstekjur fyrr en staðfest skattframtal liggur fyrir. Við það bætist að erfitt getur verið að spá fyrir um fjármagnstekjur og því eru frávik vegna þeirra mjög algeng.
    Nánast öll frávik í tekjum hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur til lækkunar eða hækkunar. Það er því í raun athyglisvert hve margir lífeyrisþegar fá réttar greiðslur, þ.e. hvorki of- eða vangreiðslur við uppgjör Tryggingastofnunar. Hjá langflestum lífeyrisþegunum eru frávikin lítil og eru ofgreiðslur í langflestum tilvikum leiðréttar með skuldajöfnun á næstu 12 mánuðum. Vangreiðslur eru greiddar út þegar að loknum endurreikningi og uppgjöri.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á næstu mynd er sýndur samanburður á tekjum lífeyrisþega samkvæmt tekjuáætlunum annars vegar og skattframtölum hins vegar. Eins og þar sést eru frávik langmest vegna fjármagnstekna. Á árunum 2007–2009 var um ofgreiðslur að ræða þar sem lífeyrisþegar höfðu gefið upp of lágar fjármagnstekjur í tekjuáætlunum. Þetta snerist við árið 2010 og síðan þá hafa vangreiðslur verið mestar vegna fjármagnsteknanna. Heildarfrávik vegna atvinnutekna og lífeyrissjóðstekna eru verulega minni og fara minnkandi þrátt fyrir kvikara kerfi með nýjum bótaflokki, sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu, sem bregst við öllum breytingum í tekjum og hefur tryggt stórum hluta lífeyrisþega lágmarksframfærslu.      4.      Hvaða leiðir eru mögulegar að mati ráðherra til að lágmarka þörfina fyrir enduruppgjör á ári hverju?
    Núverandi kerfi er staðgreiðslukerfi sem hefur marga góða kosti. Það bregst fljótt og vel við tekjubreytingum og hefur það meðal annars tryggt lífeyrisþegum ákveðna framfærslu þrátt fyrir lækkun lífeyrissjóða á greiðslum lífeyris og verulega lækkun fjármagnstekna og atvinnutekna undanfarin ár. Með endurreikningnum er tryggt að lífeyrisþegar njóti til fulls réttar síns til bóta og að sama skapi að bætur séu ekki greiddar umfram réttindi.
    Öflugra samtímaeftirlit og betri tengingar Tryggingastofnunar við lífeyrissjóði og gögn ríkisskattstjóra mundu bæta enn frekar það staðgreiðslukerfi sem fyrir er. Til þess þurfa allir lífeyrissjóðirnir að senda stofnuninni reglubundið og rafrænt upplýsingar um lífeyrissjóðstekjur því margir lífeyrisþegar fá greiðslur úr mörgum sjóðum og heildargreiðslurnar þurfa að liggja fyrir áður en réttur innan almannatryggingakerfisins er ákvarðaður. Einnig þyrfti að taka til sérstakrar skoðunar alla meðferð upplýsinga um fjármagnstekjur, en eins og áður hefur komið fram fær Tryggingastofnun ekki upplýsingar um endanlegar fjármagnstekjur fyrr en skattframtal liggur fyrir.
    Ef komast á hjá endurreikningi en viðhalda tekjutengingum í kerfinu þarf væntanlega að fara frá staðgreiðslukerfi yfir í eftirágreiðslur þegar upplýsingar um raunverulegar tekjur liggja fyrir. Með því mundi trygging framfærslugreiðslna lífeyrisþega tapast, boðið yrði upp á ótrygga afkoma þeirra frá ári til árs. Gott tekjuár mundi leiða til lágra lífeyrisgreiðslna ári síðar og öfugt, óháð því hverjar samtímatekjurnar væru. Þetta yrði svipað og ef fallið yrði frá samtímaskatti til gamla kerfisins þar sem skattar voru greiddir ári síðar. Aftur á móti mætti e.t.v. hugsa sér blöndu af þessu tvennu, t.d. að byggja greiðslur lífeyris á staðgreiðsluskrá skattyfirvalda og greiða þá t.d. með þriggja mánaða seinkun, þ.e. byggja t.d. greiðslur fyrir aprílmánuð á tekjum janúarmánaðar, maígreiðslur á tekjum febrúarmánaðar o.s.frv. Ef þessi háttur yrði hafður á yrði þó farið frá þeirri lagareglu að byggja greiðslur lífeyris á árstekjum og jafna lífeyrisréttinn yfir árið til þess að ákvarða réttinn frá mánuði til mánaðar. Kerfið yrði því væntanlega flóknara í framkvæmd og mundi ekki tryggja með sama hætti framfærslu frá mánuði til mánaðar.

     5.      Má vænta einhverra breytinga á fyrirkomulagi þessara mála á næstunni?
    
Vinna stendur yfir við heildarendurskoðun almannatryggingalaga þar sem farið er yfir kosti þess og galla að stokka upp gildandi kerfi. Aftur á móti er mikilvægt að hafa í huga þá miklu kosti sem felast í núverandi fyrirkomulagi áður en ákveðið verður að ráðast í breytingar á því. Það felst mikill kostur í því að tryggja öllum lífeyrisþegum réttar greiðslur miðað við endanlegar tekjur þeirra og koma þannig í veg fyrir of háar eða of lágar greiðslur. Einfaldara kerfi sem auðveldar lífeyrisþegum að skilja regluverkið mun tvímælalaust hjálpa til í þessum efnum og er stefnt að því að frumvarp þess efnis verði samþykkt á yfirstandandi þingi.