Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 220. máls.

Þingskjal 228  —  220. mál.Frumvarp til laga

um neytendalán.

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur.

2. gr.
Takmarkanir á gildissviði.

    Um yfirdráttarheimild, sbr. t-lið 5. gr., sem greiða þarf innan þriggja mánaða eða þegar lánveitandi krefst þess, gilda aðeins 1.–5. gr., 1. mgr. 6. gr., a–c-liður 2. mgr. 6. gr., 1.–3. mgr. 8. gr., 9.–11. gr., 1., 4. og 5. mgr. 12. gr., 14. gr., 17. gr., 19. gr., 21.–22. gr. og 26.–36. gr.
    Um ósamþykktan yfirdrátt, sbr. n-lið 5. gr., gilda aðeins 1.–5. gr., 20. gr. og 27.–36. gr.
    Um samkomulag neytanda og lánveitanda um frestun greiðslna eða breyttar greiðsluaðferðir vegna lánssamnings sem er kominn í vanskil gilda aðeins 1.–6., 8., 9. og 11. gr., 1. mgr. 12. gr., a–i-liður 2. mgr. 12. gr., l-liður 2. mgr. 12. gr., r-liður 2. mgr. 12. gr., 4. mgr. 12. gr., 13. gr., 15. gr., 18. gr., 20.–22. gr. og 26.–36. gr., en ekki önnur ákvæði laga þessara, að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
     a.      slíkt fyrirkomulag er líklegt til að koma í veg fyrir mögulegan málarekstur vegna vanskila og
     b.      neytandi þarf ekki að hlíta óhagstæðari skilmálum en þeim sem er mælt fyrir um í upphaflegum lánssamningi.
    Ef samkomulag skv. 3. mgr. felur í sér lánssamning í skilningi 1. mgr. gilda einungis þau ákvæði sem talin eru upp í 1. mgr. um lánssamninginn.

3. gr.
Undanþágur.

    Undanþegnir lögum þessum eru:
     a.      Lánssamningar sem kveða á um endurgreiðslu innan þriggja mánaða og bera lægri árlega hlutfallstölu kostnaðar en meðaltal innlánsvaxta almennra sparisjóðsbóka samkvæmt vaxtatöflu Seðlabankans.
     b.      Lánssamningar sem fela í sér endurgreiðslu án vaxta og kostnaðar.
     c.      Lánssamningar sem vinnuveitandi veitir starfsmönnum sínum í aukastarfsemi, vaxtalaust eða með árlegri hlutfallstölu kostnaðar sem er lægri en markaðsvextir og að jafnaði ekki í boði fyrir almenning.
     d.      Leigusamningar. Lög þessi gilda þó um eignaleigusamninga um lausafé og fasteignir.
     e.      Yfirdráttarheimildir sem endurgreiða þarf innan eins mánaðar.
     f.      Samningar við lánastofnanir, í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, sem eru gerðir í þeim tilgangi að neytandi eigi möguleika á því að eiga viðskipti með fjármálagerninga, í skilningi laga um verðbréfaviðskipti, þegar lánastofnunin sem veitir lánið á hlut að þeim viðskiptum.
     g.      Samningar sem eru gerðir vegna dómsáttar skv. XV. kafla laga um meðferð einkamála eða sáttar fyrir yfirvöldum.
     h.      Samningar um frestun greiðslu afborgunar skuldar án þess að til komi viðbótarkostnaður.
     i.      Samningar þar sem ábyrgð neytanda takmarkast eingöngu við veðsetningu handveðs, í skilningi laga um samningsveð, sem hann hefur lagt fram.
     j.      Samningar sem eru veittir takmörkuðum fjölda aðila samkvæmt lögum með almannahagsmuni í huga og með lægri vöxtum en markaðsvöxtum eða með öðrum hagstæðari skilmálum en almennt gilda á markaði.
    Ákvæði 1. mgr. gilda þó ekki um samninga sem eru gerðir í því skyni að halda þeim utan gildissviðs laga þessara, svo sem ef form samnings er valið eingöngu í þeim tilgangi að hann falli utan gildissviðs laganna.

4. gr.
Frávik.

    Heimilt er að víkja frá ákvæðum laga þessara til hagsbóta fyrir neytanda.

5. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra er merking hugtaka sem hér greinir:
     a.      Árleg hlutfallstala kostnaðar: Heildarlántökukostnaður, lýst sem árlegum hundraðshluta af heildarfjárhæð láns þess sem veitt er og reiknað út í samræmi við ákvæði 21. gr.
     b.      Eignarréttarfyrirvari: Þegar við kaup á hlut er samið um að lánveitandi sé eigandi hlutar þar til andvirði hans er að fullu greitt samkvæmt lánssamningi og að lánveitandi geti endurheimt hlutinn ef kaupandi uppfyllir ekki skyldur sínar samkvæmt samningi.
     c.      Fastir útlánsvextir: Þegar lánveitandi og neytandi samþykkja í lánssamningi sömu útlánsvexti á öllu lánstímabilinu eða mismunandi útlánsvexti á mismunandi tímabilum samnings þar sem eingöngu er notað fast, tiltekið hlutfall. Ef ekki eru allir útlánsvextir ákvarðaðir í lánssamningi skulu þeir aðeins teljast fastir útlánsvextir á þeim tímabilum þegar útlánsvextir eru eingöngu ákvarðaðir með föstum tilteknum hundraðshluta sem er samþykktur við gerð lánssamnings.
     d.      Greiðslumat: Útreikningur á greiðslugetu lántaka miðað við eignir, skuldir, gjöld og tekjur, sem m.a. byggjast á opinberum neysluviðmiðum.
     e.      Heildarfjárhæð láns: Hámarksfjárhæð sem er heimilt að nýta samkvæmt lánssamningi.
     f.      Heildarfjárhæð sem neytandi greiðir: Samanlögð heildarfjárhæð lánsins og heildarlántökukostnaður neytanda.
     g.      Heildarlántökukostnaður: Allur kostnaður, þ.m.t. vextir, þóknun, skattar og önnur gjöld sem neytandi þarf að greiða í tengslum við lánssamning og lánveitanda er kunnugt um við samningsgerð, að frátöldum þinglýsingarkostnaði. Kostnaður vegna viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning, einkum vátryggingariðgjöld, er einnig tekinn með í útreikninginn ef skylda er að gera viðbótarþjónustusamning til að lánið fáist eða til að fá það með auglýstum skilmálum og kjörum.
     h.      Lánamiðlari: Einstaklingur eða lögaðili sem starfar ekki sem lánveitandi og í atvinnuskyni gegn fjárhagslegum ávinningi kynnir eða býður neytendum lánssamninga, aðstoðar neytendur með því að taka að sér undirbúningsvinnu fyrir lánssamninga eða gerir lánssamninga við neytendur fyrir hönd lánveitanda.
     i.      Lánshæfismat: Mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum um fjárhagslega stöðu lántaka svo sem um viðskiptasögu aðila á milli, upplýsingum um eignir, skuldir, gjöld, tekjur og upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Lánshæfismat felur ekki í sér greiðslumat nema slíkt sé áskilið sérstaklega.
     j.      Lánssamningur: Samningur þar sem lánveitandi veitir eða lofar að veita neytanda lán, greiðslufrest eða sambærilega fjárhagslega fyrirgreiðslu og neytandi lofar að greiða samkvæmt ákvæðum samnings. Undanskildir eru þó samningar um veitingu endurtekinnar þjónustu eða afhendingu sams konar vöru þar sem neytandi greiðir afborganir af slíkri þjónustu eða vöru svo lengi sem hún er látin í té.
     k.      Lánveitandi: Einstaklingur, lögaðili eða hópur sem veitir eða lofar að veita lán í atvinnuskyni.
     l.      Neytandi: Einstaklingur sem á lánaviðskipti sem lög þessi ná til, enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu.
     m.      Opinn lánssamningur: Lánssamningur þar sem neytanda er gert kleift að fá endurtekna fyrirgreiðslu innan umsaminnar úttektarheimildar.
     n.      Ósamþykktur yfirdráttur: Yfirdráttur þar sem lánveitandi veitir neytanda án sérstaks samþykkis möguleika á aðgangi að fjárhæð umfram inneign á veltureikningi neytandans eða samþykkta yfirdráttarheimild.
     o.      Stýrivextir: Vextir af lánum sem Seðlabanki Íslands veitir, sbr. 10. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.
     p.      Tengdur lánssamningur: Lánssamningur þar sem viðkomandi lán þjónar eingöngu þeim tilgangi að fjármagna samning um veitingu sérstakrar vöru eða sérstakrar þjónustu og birgir eða þjónustuveitandi fjármagnar sjálfur lánið eða, þar sem þriðji aðili fjármagnar lánið, ef lánveitandi notar þjónustu birgis eða þjónustuveitanda í tengslum við gerð eða undirbúning lánssamnings eða þegar sérstök vara eða veiting sérstakrar þjónustu er sérstaklega tilgreind í lánssamningi.
     q.      Útlánsvextir: Vextir, tilgreindir sem fast eða breytilegt hlutfall, sem á ársgrundvelli eru lagðir á lánsfjárhæð.
     r.      Varanlegur miðill: Tæki sem gerir neytanda kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans persónulega, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í hæfilegan tíma.
     s.      Veltureikningur: Óbundinn innlánsreikningur með eða án úttektarheimildar umfram inneign sem neytandi notar sem næst daglega, svo sem til viðtöku launa, annarra tekna og lánsfjár og til greiðslu neysluvöru, þjónustu, reglulegra útgjalda og hvers konar fjárfestinga. Reikningur sem stofnaður er gagngert og einvörðungu til að veita lán í formi úttektar umfram inneign, eftir atvikum til sérgreindrar fjárfestingar eða afmarkaðra viðskipta telst ekki veltureikningur.
     t.      Yfirdráttarheimild: Lánssamningur þar sem lánveitandi veitir neytanda aðgang að fjárhæð umfram inneign á veltureikningi neytandans.

II. KAFLI
Upplýsingar og starfsvenjur áður en lánssamningur er gerður.
6. gr.
Upplýsingar sem eiga að koma fram í auglýsingum og öðru kynningarefni.

    Í öllum auglýsingum og kynningarefni um lánssamninga þar sem neytandi er upplýstur um vexti eða kostnað hans af láninu skulu koma fram staðlaðar upplýsingar í samræmi við þessa grein.
    Veita skal upplýsingar á skýran, hnitmiðaðan og áberandi hátt með lýsandi dæmi um:
     a.      útlánsvexti, fasta eða breytilega eða hvort tveggja, ásamt nákvæmri lýsingu á öllum kostnaði sem er innifalinn í heildarlántökukostnaði neytanda,
     b.      heildarfjárhæð láns sem unnt er að veita miðað við gefnar forsendur og, ef við á, lánshlutfall,
     c.      árlega hlutfallstölu kostnaðar,
     d.      ef við á, gildistíma lánssamningsins,
     e.      staðgreiðsluverð vöru eða þjónustu og fjárhæð útborgunar, þegar umrædd vara eða þjónusta er ekki greidd að fullu við afhendingu, og
     f.      ef við á, heildarfjárhæð sem neytandi þarf að greiða og fjárhæð afborgana.
    Ef skylt er að gera samning um viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning, einkum vátryggingar, til að fá lánið eða fá það með auglýstum skilmálum og skilyrðum, og ekki er unnt að ákvarða kostnað við þá þjónustu fyrir fram, skal ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar einnig tilgreina, á skýran og áberandi hátt, þá skyldu að gera samning um viðbótarþjónustu.
    Um upplýsingaskyldu lánamiðlara gilda einnig ákvæði VI. kafla.

7. gr.
Upplýsingar áður en samningur er gerður.

    Lánveitandi skal með eðlilegum fyrirvara veita neytanda nauðsynlegar upplýsingar til þess að hann geti borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðun um það hvort gera skuli lánssamning áður en neytandi er bundinn af lánssamningi eða tilboði. Þessar upplýsingar skulu veittar á grundvelli lánsskilmála, skilyrða lánveitanda og, ef við á, fram kominna óska og upplýsinga frá neytanda.
    Slíkar upplýsingar skal veita á pappír eða öðrum varanlegum miðli, á stöðluðu eyðublaði sem birt er í reglugerð sem ráðherra setur.
    Lánveitandi telst hafa uppfyllt kröfur um upplýsingar skv. 5.–8. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, ef hann hefur veitt upplýsingar á stöðluðu eyðublaði skv. 2. mgr.
    Í upplýsingum skal eftirfarandi koma fram:
     a.      tegund láns,
     b.      nafn, kennitala og heimilisfang lánveitanda og lánamiðlara ef við á,
     c.      heildarfjárhæð láns og skilyrði fyrir nýtingu þess,
     d.      gildistími lánssamnings,
     e.      um hvaða vöru eða þjónustu er að ræða og staðgreiðsluverð hennar, þegar um er að ræða lán í því formi að greiðslu sérstakrar vöru eða þjónustu er frestað og tengda lánssamninga,
     f.      útlánsvextir, skilyrði um beitingu þeirra og, ef við á, vísitala eða viðmiðunarvextir sem geta haft áhrif á upphaflega útlánsvexti, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtunum; gildi mismunandi útlánsvextir við mismunandi aðstæður skal veita áðurnefndar upplýsingar um þá alla,
     g.      árleg hlutfallstala kostnaðar og heildarfjárhæð sem neytandi greiðir, útskýrt með lýsandi dæmi þar sem fram koma allar forsendur sem eru notaðar við útreikning á hlutfallstölunni; ef neytandi hefur upplýst lánveitanda um einn eða fleiri þætti þess láns sem hann helst kýs, svo sem gildistíma lánssamnings og heildarfjárhæð láns, skal lánveitandi taka tillit til þeirra þátta; ef lánssamningur býður upp á mismunandi leiðir með mismunandi kostnaði eða útlánsvöxtum skal lánveitandi miða við hæsta kostnað og vexti vegna algengustu lánssamninga og greina frá því að aðrar forsendur geti leitt til hærri árlegrar hlutfallstölu kostnaðar,
     h.      fjárhæð, fjöldi og tíðni greiðslna sem neytandi þarf að standa skil á og, ef við á, með hvaða hætti greiðslum verður skipt á hinar ýmsu útistandandi skuldir með mismunandi útlánsvöxtum þegar um endurgreiðslu er að ræða,
     i.      ef við á, kostnaður við að hafa eina eða fleiri lánalínur þar sem bæði greiðslufærslur og nýting lána eru skráð, nema valfrjálst sé að opna lánalínu, ásamt kostnaði við notkun greiðsluleiða, bæði fyrir greiðslufærslur og nýtingu lána, annar kostnaður vegna lánssamnings og forsendur fyrir því að unnt sé að breyta þessum kostnaði,
     j.      ef við á, kostnaður sem neytandi kann að þurfa að greiða vegna þinglýsingar eða skráningar lánssamnings,
     k.      skuldbinding, ef einhver er, um að gera samning um viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning, einkum vátryggingar, ef gert er að skyldu að gera slíkan samning til að geta fengið lán eða fá það með auglýstum skilmálum og skilyrðum,
     l.      gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga og fyrirkomulag á breytingu á þeim og, ef við á, kostnaður sem greiða þarf vegna vanskila,
     m.      afleiðingar vangoldinna greiðslna,
     n.      ef við á, tilskildar tryggingar,
     o.      hvort réttur til að falla frá samningi er fyrir hendi eða ekki,
     p.      réttur til greiðslu fyrir gjalddaga og, ef við á, upplýsingar varðandi rétt lánveitanda til bóta og á hvaða hátt þær bætur verða ákvarðaðar í samræmi við 18. gr.,
     q.      réttur neytanda til að fá þegar í stað upplýsingar, honum að kostnaðarlausu, um niðurstöður leitar í gagnasafni sem er gerð í þeim tilgangi að meta greiðslu- og lánshæfi hans skv. 2. mgr. 11. gr.,
     r.      réttur neytanda til að fá, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, afrit af drögum að lánssamningi; þetta ákvæði gildir ekki ef lánveitandi er, þegar beiðnin er lögð fram, ófús að gera lánssamning við neytanda, og
     s.      ef við á, tímabilið sem lánveitandi er bundinn af upplýsingum sem veittar eru áður en samningur er gerður.
    Allar viðbótarupplýsingar sem lánveitandi veitir neytanda skulu veittar í sérstöku skjali sem má vera viðauki við staðlað eyðublað sem ráðherra birtir í reglugerð, sbr. 2. mgr.
    Þegar um er að ræða sölu eða markaðssetningu í síma í skilningi 9. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, skal í lýsingu á helstu einkennum fjármálaþjónustu sem skal veita skv. 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. sömu laga tiltaka að lágmarki þau atriði sem eru tilgreind í c–f- og h-lið 4. mgr., ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar, útskýrt með viðeigandi dæmi og heildarfjárhæð sem neytanda ber að greiða.
    Ef samningurinn hefur verið gerður að beiðni neytanda með fjarskiptaaðferð í skilningi 3. tölul. 4. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, sem gerir það ókleift að veita upplýsingarnar í samræmi við 1.–4. mgr., einkum í tilvikum skv. 6. mgr., skal lánveitandi, þegar í stað eftir gerð samnings, veita neytanda allar upplýsingar sem veita skal áður en samningur er gerður, á stöðluðu eyðublaði sem ráðherra birtir í reglugerð, sbr. 2. mgr.
    Auk staðlaðs eyðublaðs skv. 2. mgr. skal neytandi fá, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, afrit af drögum að lánssamningi. Þetta ákvæði gildir ekki ef lánveitandi er, þegar beiðnin er lögð fram, ófús að gera lánssamning við neytanda.
    Ef um er að ræða lánssamning þar sem greiðslur neytanda leiða ekki þegar í stað til samsvarandi lækkunar á heildarfjárhæð láns, en eru í stað þess notaðar til að hækka eða viðhalda höfuðstól á tímabilum og við aðstæður sem mælt er fyrir um í lánssamningi eða í viðbótarsamningi, skulu upplýsingar, sem veita skal áður en samningur er gerður og gerð er krafa um í 1.–4. mgr., fela í sér skýra og hnitmiðaða yfirlýsingu um að slíkir lánssamningar tryggi ekki endurgreiðslu á heildarfjárhæð láns, sem greitt er út samkvæmt lánssamningi, nema slík ábyrgð sé sérstaklega veitt.
    Lánveitandi, og eftir atvikum lánamiðlari, skal veita neytanda skýringar svo að hann geti tekið afstöðu til þess hvort lánssamningur, sem í boði er, sé lagaður að þörfum og fjárhagsstöðu hans. Þessi skylda lánveitanda felur í sér að útskýra upplýsingar sem veita skal áður en samningur er gerður í samræmi við 1.–4. mgr. og 1. mgr. 25. gr., helstu einkenni þeirra lánssamninga sem í boði eru og þær sérstöku afleiðingar sem slíkir samningar geta haft fyrir neytanda, þ.m.t. afleiðingarnar af vanskilum hans á afborgunum.

8. gr.
Kröfur um upplýsingar fyrir og við gerð tiltekinna lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar og tiltekinna sérstakra lánssamninga.

    Lánveitandi og, ef við á, lánamiðlari skal, nægilega löngu áður en neytandi verður bundinn af lánssamningi eða tilboði varðandi lánssamning, sbr. 1. eða 3. mgr. 2. gr., á grundvelli lánsskilmála og skilyrða lánveitanda og, ef við á, sérstakra óska og upplýsinga frá neytanda, veita neytanda nauðsynlegar upplýsingar til að geta borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðun um það hvort gera skuli lánssamning.
    Í viðkomandi upplýsingum skal eftirfarandi koma fram:
     a.      tegund láns,
     b.      auðkenni og heimilisfang lánveitanda, svo og auðkenni og heimilisfang lánamiðlara sem í hlut á, ef við á,
     c.      heildarfjárhæð láns og skilyrði fyrir nýtingu þess,
     d.      gildistími lánssamnings,
     e.      útlánsvextir, skilyrðin sem gilda um beitingu þeirra vaxta, vísitölu eða viðmiðunarvaxta sem gilda um upphaflega útlánsvexti, kostnaður frá þeim tíma þegar lánssamningur er gerður og, ef við á, skilyrði fyrir því að unnt sé að breyta kostnaði,
     f.      árleg hlutfallstala kostnaðar, skýrt með lýsandi dæmum þar sem fram koma allar forsendur sem eru notaðar við útreikning á hlutfallstölu,
     g.      skilyrði og málsmeðferð ef lánssamningi er sagt upp,
     h.      þegar um er að ræða lánssamninga skv. 1. mgr. 2. gr., ef við á, upplýsingar um að hvenær sem er megi krefja neytanda um endurgreiðslu allrar lánsfjárhæðar,
     i.      gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga og fyrirkomulag við breytingu á þeim og, ef við á, annar kostnaður sem greiða þarf vegna vanskila,
     j.      réttur neytanda til að fá þegar í stað upplýsingar, honum að kostnaðarlausu, um niðurstöður leitar í gagnasafni sem er gerð í þeim tilgangi að meta greiðslugetu og lánshæfi hans skv. 2. mgr. 11. gr.,
     k.      þegar um er að ræða lánssamninga skv. 1. mgr. 2. gr., upplýsingar um þann kostnað sem hefur orðið frá þeim tíma þegar slíkir samningar eru gerðir og, ef við á, forsendur fyrir því að unnt sé að breyta þeim kostnaði,
     l.      ef við á, tímabilið sem lánveitandi er bundinn af því að veita upplýsingar áður en samningur er gerður.
    Veita skal upplýsingar skv. 1. mgr. á pappír eða með öðrum varanlegum miðli og allar upplýsingar skulu vera jafnáberandi. Veita má þær með því að nota staðlað eyðublað sem ráðherra birtir í reglugerð, sbr. 2. mgr. 7. gr. Lánveitandi telst hafa uppfyllt kröfur um upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein og skv. 5.–8. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, ef hann hefur veitt lánsupplýsingar á stöðluðu eyðublaði, sbr. 2. mgr. 7. gr.
    Þegar um er að ræða lánssamninga skv. 3. mgr. 2. gr. skulu upplýsingarnar, sem eru veittar neytanda í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, einnig fela í sér:
     a.      fjárhæð, fjölda og tíðni greiðslna sem neytandi þarf að standa skil á og, ef við á, með hvaða hætti greiðslum verður skipt á hinar ýmsu útistandandi skuldir með mismunandi útlánsvöxtum þegar um endurgreiðslu er að ræða, og
     b.      réttinn til greiðslu fyrir gjalddaga og, ef við á, upplýsingar um rétt lánveitanda til bóta og á hvaða hátt þær bætur verða ákvarðaðar.
    Þegar um er að ræða samskipti í síma og þegar neytandi óskar eftir því að fá yfirdráttarheimild þegar í stað skal lýsing á helstu einkennum fjármálaþjónustu a.m.k. fela í sér þau atriði sem um getur í c-lið, e–f-lið og h-lið 2. mgr. Auk þess skal lýsingin á helstu einkennum í lánssamningum skv. 4. mgr. fela í sér upplýsingar um gildistíma lánssamnings.
    Þrátt fyrir undanþáguna sem kveðið er á um í e-lið 1. mgr. 3. gr. skulu kröfur 1. málsl. 6. mgr. gilda um lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar og þegar greiða þarf lánið innan eins mánaðar.
    Auk upplýsinga skv. 1.–6. mgr. skal neytandi fá, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, afrit af drögum að lánssamningi sem hafa að geyma þær upplýsingar um samning sem kveðið er á um í 12. gr., að svo miklu leyti sem hún á við. Þetta ákvæði gildir ekki ef lánveitandi er, þegar beiðnin er lögð fram, ófús að gera lánssamning við neytanda.
    Ef samningur hefur verið gerður að beiðni neytanda með fjarskiptaaðferð í skilningi 3. tölul. 4. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, sem gerir ókleift að veita upplýsingar í samræmi við 1.–4. mgr., einkum í tilvikum skv. 6. mgr., skal lánveitandi þegar í stað eftir gerð samnings uppfylla skyldur sínar skv. 1.–4. mgr. með því að veita upplýsingar um samning skv. 12. gr., að svo miklu leyti sem hún á við.

9. gr.
Undantekningar frá kröfum um upplýsingagjöf áður en samningur er gerður.

    Vöru- eða þjónustuveitendur sem hafa lánamiðlun sem aukastarf eru ekki bundnir af ákvæðum 7.–8. gr. Þessi undanþága hefur ekki áhrif á skyldu lánveitanda til að tryggja að neytandi fái þær upplýsingar sem veita skal áður en samningur er gerður og um getur í þessum greinum.

10. gr.
Lánshæfis- og greiðslumat.

    Áður en samningur um neytendalán er gerður skal lánveitandi meta lánshæfi neytanda.
    Lánveitandi skal, auk lánshæfismats skv. 1. mgr., framkvæma greiðslumat við lánveitingu ef fjárhæð lánssamnings er 1.000.000 kr. eða meira. Þegar um hjón eða sambúðarfólk er að ræða skal framkvæma greiðslumat áður en lánssamningur að fjárhæð 2.000.000 kr. eða meira er gerður
    Óheimilt er að veita lántaka lán ef mat á lánshæfi eða greiðslumat leiðir í ljós að hann hafi augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið. Víkja má frá ákvæði þessu ef virði veða eða annarra trygginga sem lánveitandi leggur fram er meira á þeim tíma er lánið er veitt en heildarfjárhæð láns. Lánveitandi ber ekki ábyrgð á því ef lántaki framvísar röngum upplýsingum vegna framkvæmdar lánshæfis- eða greiðslumats, nema hann viti, eða eðlilegt þyki með tilliti til aðstæðna að hann hafi mátt vita, að upplýsingarnar séu rangar.
    Ef óskað er eftir hærri lánsheimild en áður hefur verið veitt eða framlengingu lánstíma skal endurnýja lánshæfis- og, ef við á, greiðslumat. Ekki þarf að þó að endurnýja mat ef hækkun lánssamnings nemur 500.000 kr. eða lægri fjárhæð eða framlenging varir lengst til þriggja mánaða.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats, þ.m.t. um hvaða gagna skal líta til, skráningu og uppfærslu gagna, endurgreiðslutímabil, neysluviðmið og undanþágur.

III. KAFLI
Aðgangur að gagnasafni.
11. gr.
Aðgangur að gagnasafni.

    Við lánveitingu yfir landamæri skulu lánveitendur frá öðrum aðildarríkjum hafa aðgang að þeim gagnasöfnum sem eru notuð til að meta lánshæfi neytenda. Skilyrðin fyrir aðgangi skulu vera án mismununar.
    Ef lánsumsókn er hafnað á grundvelli leitar í gagnasafni skal lánveitandi upplýsa neytanda, þegar í stað og honum að kostnaðarlausu, um niðurstöður slíkrar leitar og veita nánari upplýsingar um gagnasafnið sem leitað var í.

IV. KAFLI
Upplýsingar og réttindi varðandi lánssamninga.
12. gr.
Upplýsingar sem skulu koma fram í lánssamningum.

    Lánssamningar skulu skráðir á pappír eða vera á öðrum varanlegum miðli. Allir samningsaðilar skulu fá afrit af lánssamningi.
    Í lánssamningi skal koma fram á skýran og hnitmiðaðan hátt:
     a.      tegund láns,
     b.      nafn, kennitala og heimilisfang samningsaðila; einnig, ef við á, nafn, kennitala og heimilisfang lánamiðlara sem í hlut á,
     c.      gildistími lánssamnings,
     d.      heildarfjárhæð láns og skilyrði fyrir nýtingu,
     e.      um hvaða vöru eða þjónustu er að ræða og staðgreiðsluverð hennar, þegar um er að ræða lán í því formi að greiðslu sérstakrar vöru eða þjónustu er frestað og tengda lánssamninga,
     f.      útlánsvextir, skilyrði um beitingu þeirra og, ef við á, vísitala eða viðmiðunarvextir sem geta haft áhrif á upphaflega útlánsvexti, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtum; gildi mismunandi útlánsvextir við mismunandi aðstæður skal veita áðurnefndar upplýsingar um þá alla,
     g.      árleg hlutfallstala kostnaðar og heildarfjárhæð sem neytandi greiðir, reiknað um leið og lánssamningur er gerður; tilgreina skal allar forsendur sem eru notaðar við útreikning á hlutfallstölu,
     h.      fjárhæð, fjöldi og tíðni greiðslna sem neytandi þarf að standa skil á og, ef við á, með hvaða hætti greiðslum verður skipt á hinar ýmsu útistandandi skuldir með mismunandi útlánsvöxtum þegar um endurgreiðslu er að ræða,
     i.      sé um að ræða lánssamning með föstum endurgreiðslutíma þar sem höfuðstóll lánsins er greiddur niður, réttur neytanda til að fá afhent, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, hvenær sem er á gildistíma lánssamnings, reikningsyfirlit í formi niðurgreiðslutöflu; taflan skal sýna greiðslur sem þarf að inna af hendi og tímabil og skilyrði varðandi greiðslur slíkra fjárhæða; í töflunni skal koma fram sundurliðun allra greiðslna sem sýnir niðurgreiðslu höfuðstóls, vexti sem eru reiknaðir á grundvelli útlánsvaxta og, ef við á, allan viðbótarkostnað; sé ekki um fasta vexti að ræða eða viðbótarkostnað sem kann að verða breytt samkvæmt lánssamningi skal koma fram í niðurgreiðslutöflu, á skýran og hnitmiðaðan hátt, að gögnin í töflunni haldist aðeins í gildi þar til útlánsvöxtum eða viðbótarkostnaði er breytt í samræmi við lánssamning,
     j.      yfirlit sem sýnir tímabil og skilyrði fyrir greiðslu á vöxtum og tengdum kostnaði, föstum eða tilfallandi, ef greiða skal kostnað og vexti án þess að höfuðstóll sé niðurgreiddur,
     k.      ef við á, kostnaður við að hafa eina eða fleiri lánalínur þar sem bæði greiðslufærslur og nýting lána eru skráð, nema valfrjálst sé að opna lánalínu, ásamt kostnaði við notkun greiðsluleiða bæði fyrir greiðslufærslur og nýtingu lána, og annar kostnaður vegna lánssamnings og forsendur fyrir því að unnt sé að breyta þessum kostnaði,
     l.      gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga sem gilda á þeim tíma þegar lánssamningur er gerður og fyrirkomulag við breytingu á þeim og, ef við á, kostnaður sem greiða þarf vegna vanskila,
     m.      afleiðingar vegna vangoldinna greiðslna,
     n.      ef við á, kostnaður sem neytandi kann að þurfa að greiða vegna þinglýsingar eða skráningar lánssamnings,
     o.      ef við á, tilskildar vátryggingar og tryggingar,
     p.      réttur til að falla frá samningi, tímabilið þegar nýta má þann rétt og önnur skilyrði um nýtinguna, þ.m.t. upplýsingar varðandi þá skyldu neytanda að greiða það fjármagn sem hefur verið greitt út ásamt vöxtum í samræmi við b-lið 3. mgr. 16. gr. og vaxtafjárhæðina sem fellur til greiðslu hvern dag,
     q.      upplýsingar varðandi rétt sem leiðir af 17. gr., svo og skilyrðin fyrir nýtingu þess réttar,
     r.      réttur til greiðslu fyrir gjalddaga skv. 18. gr., málsmeðferð við greiðslu fyrir gjalddaga og, ef við á, upplýsingar um rétt lánveitanda til bóta og á hvaða hátt þær bætur verða ákvarðaðar,
     s.      málsmeðferð sem fylgja skal við uppsögn lánssamnings,
     t.      hvort fyrir hendi séu kæruleiðir utan dómstóla fyrir neytendur og, ef svo er, hverjar þær séu,
     u.      ef við á, aðrir samningsskilmálar og -skilyrði,
     v.      ef við á, nafn og heimilisfang þar til bærra eftirlitsyfirvalda.
    Þegar i-liður 2. mgr. á við skal lánveitandi láta neytanda hafa niðurgreiðslutöflu, honum að kostnaðarlausu, hvenær sem er á gildistíma lánssamnings.
    Þegar um er að ræða lánssamning þar sem greiðslur neytanda leiða ekki þegar í stað til samsvarandi lækkunar á heildarfjárhæð lánsins heldur eru notaðar til að hækka eða viðhalda höfuðstól á tímabilum og við aðstæður sem mælt er fyrir um í lánssamningi eða í viðbótarsamningi skulu upplýsingarnar, sem gerð er krafa um í 2. mgr., fela í sér skýrar og hnitmiðaðar yfirlýsingar um að slíkir lánssamningar tryggi ekki endurgreiðslu á heildarfjárhæð láns sem er greidd út samkvæmt lánssamningi, nema slík ábyrgð sé sérstaklega veitt.
    Þegar um er að ræða lánssamning í formi yfirdráttarheimildar skv. 1. mgr. 2. gr. skal tilgreina eftirfarandi á skýran og hnitmiðaðan hátt:
     a.      tegund láns,
     b.      nafn, kennitölu og heimilisfang samningsaðila og, ef við á, nafn, kennitölu og heimilisfang lánamiðlara,
     c.      gildistíma lánssamnings,
     d.      heildarfjárhæð láns og skilyrði fyrir nýtingu,
     e.      útlánsvexti, skilyrði sem gilda um ákvörðun útlánsvaxta og, ef við á, vísitölu eða viðmiðunarvexti sem gilda um upphaflega útlánsvexti, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við ákvörðun á útlánsvöxtum; ef mismunandi útlánsvextir gilda við mismunandi aðstæður skulu áðurnefndar upplýsingar veittar um alla gildandi vexti,
     f.      árlega hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnað neytanda, reiknað á þeim tíma þegar lánssamningur er gerður; allar forsendur sem eru notaðar til að reikna þá vexti sem um er getið í 4.–5. mgr. 21. gr. í tengslum við a- og g-lið 5. gr. skulu nefndar,
     g.      upplýsingar um að hvenær sem er megi krefja neytanda um endurgreiðslu allrar lánsfjárhæðar,
     h.      skilyrði fyrir því að nýta rétt skv. 16. gr. til að falla frá lánssamningi, og
     i.      upplýsingar um þann kostnað sem verður frá þeim tíma er slíkir samningar eru gerðir og, ef við á, skilyrði fyrir breytingu á þeim kostnaði.

13. gr.
Upplýsingar um útlánsvexti.

    Upplýsa skal neytanda um allar breytingar á útlánsvöxtum, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, áður en breyting tekur gildi. Í upplýsingum skulu koma fram þær fjárhæðir sem greiða skal eftir gildistöku nýrra útlánsvaxta og, ef fjöldi eða tíðni greiðslna breytist, upplýsingar um það.
    Samningsaðilar geta þó komið sér saman um það, í lánssamningi, að veita skuli neytanda upplýsingar skv. 1. mgr., með ákveðnu millibili þegar breytingar á útlánsvöxtum eru af völdum breytinga á viðmiðunargengi, viðmiðunarvöxtum eða vísitölum og upplýst er um hið nýja viðmið opinberlega á viðeigandi hátt og það gert lántaka aðgengilegt hjá lánveitanda.

14. gr.
Skuldbindingar í tengslum við yfirdráttarheimild.

    Ef lánssamningur felur í sér lán í formi yfirdráttarheimildar skal upplýsa neytanda reglulega um það með reikningsyfirliti, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, sem hefur að geyma upplýsingar um eftirfarandi:
     a.      nákvæmlega tilgreint tímabil sem reikningsyfirlitið tekur til,
     b.      fjárhæðir og dagsetningar nýtingar,
     c.      stöðu á fyrra reikningsyfirliti ásamt dagsetningu,
     d.      nýja stöðu,
     e.      dagsetningar og fjárhæðir greiðslna neytanda,
     f.      gildandi útlánsvexti,
     g.      kostnað sem fallið hefur til, og
     h.      ef við á, lágmarksfjárhæð greiðslu.
    Auk þess skal veita neytanda upplýsingar, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, um hækkun útlánsvaxta eða annars kostnaðar áður en breytingin tekur gildi. Samningsaðilar geta þó komið sér saman um það í lánssamningi að upplýsingarnar varðandi breytingar á útlánsvöxtum séu veittar á þann hátt sem kveðið er á um í 1. mgr. þegar breytingar á útlánsvöxtum eru af völdum breytinga á viðmiðunargengi, viðmiðunarvöxtum eða vísitölum og upplýst er um hið nýja viðmið opinberlega á viðeigandi hátt og það gert lántaka aðgengilegt hjá lánveitanda.

15. gr.
Opnir lánssamningar.

    Neytandi getur hvenær sem er sagt upp opnum lánssamningi, sér að kostnaðarlausu nema samningsaðilar hafi komið sér saman um uppsagnartímabil. Slíkt tímabil skal ekki vera lengra en einn mánuður. Lánveitandi getur, ef kveðið er á um slíkt í lánssamningi, sagt upp opnum lánssamningi með því að veita neytanda a.m.k. tveggja mánaða uppsagnarfrest á pappír eða öðrum varanlegum miðli.
    Lánveitandi getur, ef kveðið er á um slíkt í lánssamningi, af ástæðum sem eru rökstuddar á hlutlægan hátt, svipt neytanda rétti til nýtingar á opnum lánssamningi. Lánveitandi skal upplýsa neytanda fyrir fram um fyrirhugaða sviptingu og ástæður hennar á pappír eða öðrum varanlegum miðli. Ef ómögulegt er að upplýsa neytanda áður en svipting á sér stað skal það gert strax eftir að hún hefur átt sér stað.

16. gr.
Réttur til að falla frá samningi.

    Neytandi hefur 14 almanaksdaga frest til að falla frá lánssamningi án þess að tilgreina ástæðu.
    Frestur til að falla frá samningi hefst:
     a.      þann dag sem lánssamningurinn er gerður, eða
     b.      þann dag er neytanda berast samningsskilmálar og -skilyrði og upplýsingar í samræmi við 12. gr. ef sá dagur er síðar en dagurinn sem um getur í a-lið.
    Ef neytandi nýtir rétt sinn til að falla frá samningi skal hann:
     a.      tilkynna lánveitanda það fyrir þau tímamörk sem um getur í 1. mgr., í samræmi við það sem kveðið er á um í samningi, sbr. p-lið 2. mgr. 12. gr., með sannanlegum hætti; frestur telst hafa verið virtur ef tilkynning er send áður en fresturinn rennur út, á pappír eða öðrum varanlegum miðli sem lánveitandi hefur aðgang að,
     b.      greiða lánveitanda höfuðstól, áfallna vexti og verðbætur frá því að lánið var greitt út og til þess dags þegar höfuðstóll er endurgreiddur, án óþarfa tafa og eigi síðar en 30 almanaksdögum eftir að hann sendir lánveitanda tilkynningu um að hann hyggist falla frá samningi; reikna skal vexti á grundvelli útlánsvaxta sem samningur kveður á um.
    Lánveitandi á ekki rétt á öðrum bótum frá neytanda sem fellur frá samningi en nemur óafturkræfum lögboðnum gjöldum sem lánveitandi hefur greitt til hins opinbera. Sé um veðlán að ræða á lánveitandi þó rétt á kostnaði við skjalagerð, sem farið hefur fram, eins og verðskrá lánveitanda gerir ráð fyrir hverju sinni.
    Ef viðbótarþjónusta er veitt í tengslum við lánssamning, annaðhvort af lánveitanda sjálfum eða þriðja aðila á grundvelli samnings við lánveitanda, er neytandi ekki lengur bundinn af samningi um slíka viðbótarþjónustu nýti hann rétt sinn til að falla frá samningi samkvæmt þessari grein.
    Ef neytandi á rétt á því að falla frá samningi skv. 1., 3. og 4. mgr. skal III. kafli laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, og 8. gr. laga nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga, ekki gilda.

17. gr.
Tengdir lánssamningar.

    Þegar neytandi hefur nýtt rétt sinn til að falla frá samningi um afhendingu vöru eða þjónustu er hann ekki lengur bundinn tengdum lánssamningi.
    Ef vara eða þjónusta sem fellur undir tengdan lánssamning er ekki afhent, eða aðeins afhent að hluta til, eða er ekki í samræmi við samning um slíka afhendingu, á neytandi rétt á því að beita úrræðum gegn lánveitanda, ef hann hefur beitt úrræðum gegn þeim sem afhendir vöru eða þjónustu, en ekki fengið þá úrlausn sem hann á rétt á samkvæmt dómi um afhendingu vöru eða þjónustu.
    Til þess að neytandi geti leitað úrræða gagnvart lánveitanda, sbr. 2. mgr., þarf eitt af eftirtöldum skilyrðum að vera uppfyllt:
     a.      bú seljanda hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta,
     b.      seljanda hefur verið veitt heimild til að leita nauðasamnings, eða
     c.      í ljós hefur komið við aðfarargerð að seljandi geti eigi greitt skuldir sínar.
    Möguleikar neytenda til fullnustu gagnvart kröfuhafa skv. 2. mgr. takmarkast við fjárhæð lána á þeim tíma sem krafa um úrbætur er gerð. Neytandi þarf að hafa lýst kröfu í þeim tilfellum sem a- eða b-liður 3. mgr. á við.
    Réttur neytanda til að beita úrræðum gegn lánveitanda, sbr. 2. mgr., nær ekki til fasteignalána.

18. gr.
Endurgreiðsla fyrir gjalddaga.

    Neytanda er heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningi, að öllu leyti eða að hluta, fyrir þann tíma sem umsaminn er. Notfæri neytandi sér heimild þessa á hann rétt á lækkun á heildarlántökukostnaði sem nemur vöxtum og öðrum gjöldum sem greiða átti eftir greiðsludag.
    Þegar um er að ræða greiðslu fyrir gjalddaga á lánveitandi rétt á því að fá sanngjarnar bætur, uppgreiðslugjald, sem byggist á hlutlægum grunni vegna kostnaðar sem hann hefur orðið fyrir og tengist beint greiðslu fyrir gjalddaga, að því tilskildu að greiðslan fyrir gjalddaga sé gerð á tímabili þar sem útlánsvextir eru fastir.
    Uppgreiðslugjald má ekki fara yfir 1% af fjárhæð endurgreiðslu, ef lengri tími en eitt ár er á milli greiðslunnar og loka lánstíma samkvæmt samningi aðila. Ef eitt ár eða minna er eftir af samningstíma má uppgreiðslugjaldið ekki fara yfir 0,5% af fjárhæð endurgreiðslunnar.
    Uppgreiðslugjald má að hámarki vera sú vaxtafjárhæð sem neytandi mundi hafa greitt lánveitanda á tímabilinu frá greiðslu fyrir gjalddaga og til loka lánstíma samkvæmt samningi aðila.
    Ekki er heimilt að krefjast uppgreiðslugjalds:
     a.      ef greiðsla hefur átt sér stað samkvæmt vátryggingarsamningi sem er ætlað að tryggja greiðslu lánsins,
     b.      þegar um er að ræða yfirdráttarheimild, sbr. t-lið 5. gr.,
     c.      ef lán ber breytilega vexti,
     d.      ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling láns af hálfu lánveitanda, eða
     e.      ef uppgreiðsla nemur lægri fjárhæð en 1.000.000 kr. á ársgrundvelli.
    Í þeim tilvikum sem heimilt er að krefjast uppgreiðslugjalds skal kveðið á um slíkt í lánssamningi, sbr. r-lið 2. mgr. 12. gr. Tilgreina skal upplýsingar um hvernig uppgreiðslugjald er reiknað út og hvenær það fellur á.

19. gr.
Framsal réttar.

    Ef lánveitandi framselur kröfurétt sinn til þriðja aðila samkvæmt lánssamningi, eða samninginn sjálfan, á neytandi rétt á því að halda uppi sömu mótbárum gegn framsalshafa sem hann gat nýtt sér gagnvart upphaflegum lánveitanda, þ.m.t. rétt til skuldajafnaðar.
    Upphaflegur lánveitandi skal upplýsa neytanda um framsal sem um getur í 1. mgr. nema þegar upphaflegur lánveitandi heldur áfram lánsþjónustu sinni við neytanda með samkomulagi við framsalshafa.

20. gr.
Ósamþykktur yfirdráttur.

    Þegar um er að ræða samning um veltureikning þar sem möguleiki er á því að neytandi geti stofnað til ósamþykkts yfirdráttar skulu auk þess vera í samningnum upplýsingar skv. e-lið 2. mgr. 8. gr. Lánveitandi skal í öllum tilvikum veita þær upplýsingar reglulega á pappír eða með öðrum varanlegum miðli.
    Lánastofnunum er óheimilt að innheimta kostnað vegna ósamþykkts yfirdráttar af veltureikningi ef slík gjaldtaka á sér ekki stoð í samningi. Kostnaður vegna ósamþykkts yfirdráttar skal vera hóflegur og endurspegla kostnað vegna ósamþykkta yfirdráttarins.
    Sé um ræða ósamþykktan yfirdrátt að fjárhæð 30.000 kr. í lengri tíma en einn mánuð skal lánveitandi þegar í stað veita neytanda upplýsingar, á pappír eða með öðrum varanlegum miðli, um:
     a.      yfirdráttinn,
     b.      fjárhæðina sem um er að ræða,
     c.      útlánsvexti,
     d.      hvers kyns viðurlög, dráttarvexti eða önnur gjöld vegna skuldarinnar.

V. KAFLI
Árleg hlutfallstala kostnaðar.
21. gr.
Útreikningur á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

    Árleg hlutfallstala kostnaðar er það vaxtaígildi sem jafnar núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal lýst sem árlegu hlutfalli af heildarfjárhæð sem neytandi greiðir. Skal hún reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkan sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð er ráðherra setur.
    Árleg hlutfallstala kostnaðar skal reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur er gerður. Við útreikning hennar skal gengið út frá því að lánssamningur gildi umsaminn tíma og lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum samningsins.
    Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.
    Við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal ákvarða heildarlántökukostnað neytanda. Ekki skulu meðtalin í útreikningi möguleg viðurlög eða sektargreiðslur vegna vanefnda. Slíkt hið sama á við um kostnað sem fylgir kaupum á vöru eða þjónustu, hvort sem kaupin fara fram gegn staðgreiðslu eða láni.
    Kostnaður við að viðhalda reikningi þar sem bæði greiðslufærslur og nýting lána eru skráð, kostnaður við notkun greiðsluleiða fyrir bæði greiðslufærslur og nýtingu lána og annar kostnaður í tengslum við greiðslufærslur skal vera innifalinn í heildarkostnaði af láni til neytanda nema valfrjálst sé að opna reikning og kostnaður við reikninginn sé sérstaklega og greinilega tekinn fram í lánssamningi eða öðrum samningi sem er gerður við neytanda.

VI. KAFLI
Lánamiðlarar.
22. gr.
Sérstakar skuldbindingar lánamiðlara gagnvart neytendum.

    Lánamiðlari skal:
     a.      taka fram í auglýsingum og skjölum, sem eru ætluð neytendum, hvert umboð hans sé, einkum hvort hann starfar eingöngu fyrir einn eða fleiri lánveitendur eða sem óháður miðlari,
     b.      láta neytanda vita af þóknun, ef einhver er, sem hann þarf að greiða lánamiðlara fyrir þjónustu hans og sjá til þess að fyrir liggi samkomulag um hana milli neytanda og lánamiðlara á pappír eða öðrum varanlegum miðli áður en lánssamningur er gerður,
     c.      tilkynna lánveitanda, vegna útreiknings á árlegri hlutfallstölu kostnaðar, um þóknun, ef einhver er, sem neytandi þarf að greiða lánamiðlara fyrir þjónustu hans.

VII. KAFLI
Kaup með eignarréttarfyrirvara og endurheimt eignarréttar.
23. gr.
Kaup með eignarréttarfyrirvara.

    Ef söluhlutur er seldur með eignarréttarfyrirvara getur lánveitandi endurheimt hlutinn með aðfarargerð ef ekki næst samkomulag um afhendingu á grundvelli skriflegs kaupsamnings þar sem skýrt er kveðið á um eignarréttarfyrirvarann. Skilyrði endurheimtar er að neytandi sé í vanskilum með afborganir eða lánskostnað.
    Þegar söluhlutur er endurheimtur skal við uppgjör á milli aðila lánssamnings reyna að komast sem næst því að þeir verði jafnsettir og ef viðskiptin hefðu ekki átt sér stað.
    Ef andvirði söluhlutar er meira en nemur eftirstöðvum lánssamnings skal lánveitandi endurgreiða neytanda mismuninn. Ef andvirði söluhlutar er minna skal neytandi endurgreiða lánveitanda mismuninn.
    Við mat á andvirði söluhlutar skal litið til þess hvort rýrnun og slit söluhlutar sé eðlilegt og til frádráttar vaxta frá endurheimtudegi til loka lánssamnings.
    Komi upp ágreiningur um hvert sé verð söluhlutar á almennum markaði skal hann útkljáður með matsgerð sérfróðs og óhlutdrægs manns. Matsmaður skal ákveða hvernig háttað skuli greiðslu vegna kostnaðar við matið. Nú er ágreiningur um matsgerð og er þá unnt að óska eftir nýrri matsgerð með dómkvaðningu matsmanns.

24. gr.
Fleiri en einn hlutur keyptir samkvæmt sama samningi.

    Nú hafa fleiri en einn hlutur verið keyptir samkvæmt einum samningi og lánveitandi leggur fram kröfu um endurheimt þeirra og getur neytandi þá valið einn eða fleiri hlutanna til afhendingar gegn því að greiða um leið mismun andvirðis þeirra hluta sem hann heldur eftir. Ef inneign lánveitanda er minni en andvirðið á neytandi rétt á að fá mismuninn greiddan um leið og hlutirnir eru afhentir.
    Neytandi getur ekki leyst til sín hlut ef hann er úr safni eða samstæðu sem lánveitandi hefur einnig endurheimt frá neytanda og aðskilnaðurinn hefur í för með sér verulega rýrnun á verðmæti hlutanna.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
25. gr.
Sérstök upplýsingaskylda lánveitanda vegna veðlána.

    Til þess að tryggja að neytandi sé upplýstur um hvernig þróun höfuðstóls og greiðslubyrði hefur verið skal lánveitandi áður en samningur um veðlán er gerður veita upplýsingar um sögulega þróun verðlags og vaxta og áhrif þeirra þátta á breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði sé um verðtryggt lán að ræða og um breytingar á greiðslubyrði sé um óverðtryggt lán að ræða.
    Neytendastofa skal birta opinberlega á heimasíðu sinni almennar upplýsingar og dæmi um breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði verðtryggðra lána og dæmi um breytingar á greiðslubyrði óverðtryggðra lána sem lánveitendur skulu byggja upplýsingagjöf skv. 1. mgr. á. Staðfesting neytanda á að honum hafi verið kynntar þessar upplýsingar, sbr. 10. mgr. 7. gr., telst fullnægjandi upplýsingagjöf skv. 1. mgr.

26. gr.
Hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.

    Árleg hlutfallstala kostnaðar á neytendalánum má ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum.

27. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra setur reglugerðir um:
     a.      staðlað eyðublað sem lánveitandi skal nota til að veita neytanda upplýsingar áður en lánssamningur er gerður, sbr. 2. mgr. 7. gr.,
     b.      framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats, sbr. 3. mgr. 10. gr.,
     c.      útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sbr. 1. mgr. 21. gr.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

28. gr.
Breytingar á fjárhæðum.

    Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.

IX. KAFLI
Eftirlit, viðurlög, réttarúrræði og bótaskylda.
29. gr.
Eftirlits- og ákvarðanavald Neytendastofu.

    Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laga þessara. Ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu gilda um málsmeðferð Neytendastofu.
    Ákvæði VIII. kafla laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu gilda um heimildir Neytendastofu til upplýsingaöflunar, haldlagningar gagna, þagnarskyldu og afhendingar upplýsinga til stjórnvalda annarra ríkja.
    Neytendastofa getur gripið til aðgerða gegn aðilum sem brjóta í bága við ákvæði II.–VIII. kafla, eftir því sem við getur átt. Aðgerðir Neytendastofu geta falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði. Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda.
    Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.
    Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum.
    Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndar.
    Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.

30. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á lánveitanda sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra:
     a.      6. gr. um upplýsingar sem eiga að koma fram í auglýsingum og öðru kynningarefni,
     b.      7. gr. um upplýsingar sem veita skal áður en lánssamningur er gerður,
     c.      8. gr. um upplýsingar sem veita skal áður og við gerð lánssamnings í formi yfirdráttarheimildar og tiltekinna sérstakra lánssamninga,
     d.      1.–2. mgr. 10. gr. um gerð lánshæfismats, og þegar við á greiðslumats, áður en lánssamningur er gerður,
     e.      3. mgr. 10. gr. um bann við veitingu láns komi í ljós að neytandi hafi augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið,
     f.      12. gr. um upplýsingar sem skulu koma fram í lánssamningum og upplýsingar sem veita skal að beiðni neytanda,
     g.      13. gr. um upplýsingar sem veita skal um breytingar á útlánsvöxtum áður en breyting tekur gildi,
     h.      14. gr. um upplýsingar sem veita skal reglulega vegna yfirdráttarheimilda,
     i.      1. mgr. 15. gr. um heimildir til að segja upp opnum lánssamningi,
     j.      2. mgr. 15. gr. um að upplýsa neytanda fyrir fram um fyrirhugaða sviptingu á rétti til nýtingar á opnum lánssamningi,
     k.      1. mgr. 16. gr. um rétt til að falla frá lánssamningi,
     l.      4. mgr. 16. gr. um þær bætur sem lánveitanda er heimilt að krefja neytanda um nýti neytandi rétt sinn til að falla frá samningi,
     m.      1. mgr. 18. gr. um heimild neytanda til að standa skil á skuldbindingum sínum fyrir þann tíma sem umsaminn er og um lækkun á heildarlántökukostnaði notfæri neytandi sér þá heimild,
     n.      2.–3. mgr. 18. gr. um hámarksfjárhæð uppgreiðslugjalds,
     o.      2. mgr. 19. gr. um skyldu lánveitanda til að upplýsa neytanda um framsal réttar,
     p.      1. mgr. 20. gr. um upplýsingar í lánssamningi sé um að ræða veltureikning þar sem neytandi getur stofnað til ósamþykkts yfirdráttar og um reglulega upplýsingagjöf, sbr. e-lið 2. mgr. 8. gr.,
     q.      2. mgr. 20. gr. um álagningu og innheimtu kostnaðar vegna ósamþykkts yfirdráttar,
     r.      3. mgr. 20. gr. um upplýsingagjöf fari ósamþykktur yfirdráttur yfir fjárhæðar- og tímamörk,
     s.      21. gr. um útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar,
     t.      22. gr. um skyldur lánamiðlara gagnvart neytanda og lánveitanda til upplýsingagjafar,
     u.      25. gr. um sérstaka upplýsingaskyldu lánveitanda vegna verðtryggðra og óverðtryggðra veðlána.
    Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvörðun Neytendastofu sem tekin er á grundvelli laga þessara eða sátt milli Neytendastofu og aðila, sbr. 31. gr.
    Sektir sem lagðar eru á aðila geta numið frá 100 þús. kr. til 10 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir teknar af Neytendastofu eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Neytendastofu skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

31. gr.
Dagsektir.

    Ef ekki er farið að ákvörðun sem tekin hefur verið samkvæmt þessum lögum getur Neytendastofa ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist gegn greiði dagsektir þar til farið verður að henni.
    Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir geta numið frá 50 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag.
    Ákvörðun um dagsektir má skjóta til áfrýjunarnefndar neytendamála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn. Ef ákvörðun er skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir.

32. gr.
Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða reglna settra á grundvelli þeirra er Neytendastofu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Neytendastofu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

33. gr.
Úrskurðar- og réttarúrræði.

    Lánveitendur skulu hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli lánveitanda og neytanda um neytendalán, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar skv. 2. mgr.
    Neytendur geta skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni tengda neytendalánum til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Lánveitendum er skylt að eiga aðild að úrskurðarnefndinni og skulu þeir lánveitendur sem eiga aðild að málum standa undir kostnaði nefndarinnar vegna þeirra.
    Nefndin kveður upp rökstudda úrskurði og verður þeim ekki skotið til stjórnvalda, en heimilt er aðilum máls að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjubundnum hætti.

34. gr.
Bótaskylda.

    Brot á lögum þessum getur valdið skaðabótaskyldu í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.
    Gera má lögaðila að greiða bætur þó svo að sök sannist ekki á neinn tiltekinn starfsmann lögaðilans ef sýnt þykir að einhver starfsmaður lögaðilans hafi gerst brotlegur við ákvæði laga þessara.
    Bætur sem dæmdar verða, sbr. 1. mgr., má innheimta hjá þeim einstaklingi sem dæmdur er bótaskyldur eða lögaðila þeim sem hann starfaði hjá þegar brot var framið.

35. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánssamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/ EBE eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, frá 5. febrúar 2009, sem birt var 19. mars 2009 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16/2009.

36. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2013. Á sama tíma falla úr gildi lög um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum.
    Ákvæði 13.–15. gr., 2. mgr. 19. gr. og 20. gr. skulu gilda um opna lánssamninga, sbr. 15. gr., sem eru í gildi við gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 140. löggjafarþingi en ekki náðist að afgreiða það og er það nú lagt fram öðru sinni með nokkrum breytingum sem fyrst og fremst eru byggðar á athugasemdum sem fram komu við þinglega meðferð. Breytingar eru nánar raktar í VI. kafla.
    Hinn 25. maí 2011 skipaði efnahags- og viðskiptaráðherra nefnd sem falið var það verkefni að semja frumvarp til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE. Í nefndina voru skipuð Guðmundur Kári Kárason, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Gísli Örn Kjartansson, samkvæmt tilnefningu Fjármálaeftirlitsins, Hildigunnur Hafsteinsdóttir, samkvæmt tilnefningu Neytendasamtakanna, Oddur Ólason, samkvæmt tilnefningu Samtaka fjármálafyrirtækja, og Þórunn Anna Árnadóttir, samkvæmt tilnefningu Neytendastofu.

II. Sögulegur bakgrunnur.
Fyrstu íslensku lögin um neytendalán.
    Lög nr. 30/1993, um neytendalán, tóku gildi 1. október 1993. Setning laganna var liður í aðlögun íslenskrar löggjafar að evrópskum rétti í tengslum við aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn). Fyrir gildistöku laganna voru ekki í gildi hér á landi almenn lög um neytendalán. Þó höfðu fyrir þann tíma verið lögð fram á Alþingi frumvörp um afborgunarviðskipti sem ekki náðu fram að ganga. Með aðild Íslands að EES- samningnum var nauðsynlegt að aðlaga íslenskar lagareglur að regluverki Evrópusambandsins á sviði neytendalána. Með lögunum var tilskipun ráðsins 87/102/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán, eins og henni var breytt með tilskipun ráðsins 90/88/EBE, innleidd.
    Tilgangurinn með tilskipun 87/102/EBE var að samræma reglur í löggjöf aðildarríkja á sviði neytendalána, einkum reglur um upplýsingagjöf við lánveitingu. Löggjöf á sviði neytendalána var nokkuð ólík í aðildarríkjunum sem leitt gat til röskunar á samkeppni á neytendalánamarkaði og misjafnrar réttarstöðu neytenda á milli aðildarríkja.
    Samkvæmt 2. gr. tilskipunarinnar voru vissar tegundir lánssamninga undanþegnar gildissviði tilskipunarinnar, svo sem fasteignakaupalán og lán að lægri fjárhæð en 200 ECU (forveri evrunnar) og að hærri fjárhæð en 20.000 ECU. Við setningu laganna var ekki talin ástæða til að fella fleiri tegundir lánssamninga undir lögin heldur en gildissvið tilskipunarinnar tók til, þ.e. utan þess að hámarksfjárhæð lána sem féllu undir gildissvið laganna var ákveðin 1.500.000 kr.

Breytingar á lögum nr. 30/1993 (nú lög nr. 121/1994).
    Við gildistöku laga nr. 30/1993 komu strax í ljós ýmis vandkvæði við framkvæmd þeirra. Með tilliti til þeirra annmarka fól viðskiptaráðherra starfshópi í nóvember 1993 að fara yfir þau ákvæði sem valdið höfðu vandkvæðum í framkvæmd. Í starfshópnum voru fulltrúar frá bönkum og sparisjóðum, Verslunarráði Íslands, Íslenskri verslun, Samkeppnisstofnun, Neytendasamtökunum og frá ráðuneytinu. Á grundvelli vinnu nefndarinnar var lagt fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 30/1993 sem samþykkt var á Alþingi hinn 6. maí 1994. Helstu breytingar sem lögin kváðu á um voru eftirfarandi:
     1.      Skerpt var á ákvæðum 18. gr. laganna um tryggingu vegna vanefndakrafna í tengslum við framsal viðskiptabréfa.
     2.      Þá var notkun hugtaka í ákvæðum laganna samræmd og bætt við ákvæði um eftirlit með framkvæmd laganna.
     3.      Ráðherra var veitt almenn heimild til að útfæra nánar ákvæði laganna.
     4.      Lögin voru endurútgefin sem lög nr. 121/1994, um neytendalán.
    Með lögum nr. 179/2000 voru gerðar allnokkrar breytingar á lögum nr. 121/1994 á grundvelli fenginnar reynslu. Þá voru liðin rúm sex ár frá setningu laganna og hafði framboð á lánum til neytenda vaxið mikið á þeim tíma, sem og heildarfjárhæð einstakra lána. Af þeim ástæðum þótti nauðsynlegt að gera eftirfarandi breytingar á lögunum:
     1.      Fellt var brott ákvæði sem undanskilur lánssamninga að hærri fjárhæð en 1.500.000 kr. gildissviði laganna.
     2.      Fasteignalán voru felld undir gildissvið laganna, en við athugun kom í ljós að annars staðar á Norðurlöndunum féllu lánveitendur sem veittu lán með veði í fasteign til lengri tíma undir ákvæði laga um neytendalán. Ástæðulaust þótti að undanskilja slíka aðila ákvæðum laganna og þeim skyldum sem lögin kveða á um.
     3.      Jafnframt var ákveðið að yfirdráttarlán skyldu falla undir gildissvið laganna, en sérákvæði var sett sem kvað á um sérstakar skyldur lánveitanda með tilliti til eðlis slíkra lánssamninga.
     4.      Að auki voru gerðar ýmsar smávægilegar breytingar sem voru til þess fallnar að styrkja framkvæmd samkvæmt lögunum.
    Hinn 29. ágúst 2007 skipaði viðskiptaráðherra starfshóp til að gera úttekt á lagaumhverfi að því er varðar viðskipti neytenda og fjármálafyrirtækja í ljósi nútímaviðskiptahátta, einkum með tilliti til gjaldtöku. Fulltrúar helstu hagsmunaaðila áttu sæti í hópnum, þ.e. Fjármálaeftirlitið, Neytendastofa, Neytendasamtökin, Samtök fjármálafyrirtækja og talsmaður neytenda, auk ráðuneytis. Starfshópurinn skilaði ráðherra skýrslu í árslok 2007 og er hún aðgengileg á vefsíðu ráðuneytisins. Á grundvelli vinnu nefndarinnar lagði ráðherra fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2008 sem lög nr. 63/2008. Með lögunum voru gerðar eftirfarandi breytingar:
     1.      Sett var nýtt ákvæði um gjaldtöku vegna óheimils yfirdráttar af veltureikningi sem kvað á um að gjaldtaka skyldi eiga stoð í samningi, vera hófleg og endurspegla kostnað vegna óheimila yfirdráttarins.
     2.      Lánveitanda var gert skylt að upplýsa neytanda um breytingar á gjaldskrá sem honum voru ekki til hagsbóta og kveðið á um að neytandi skyldi hafa val um með hvaða nánar tilgreindum hætti upplýsingum væri miðlað til hans.
     3.      Kveðið var á um að uppgreiðslugjald skyldi eiga sér stoð í samningi og mætti að hámarki nema því tjóni sem lánveitandi varð fyrir vegna uppgreiðslunnar.
     4.      Frestur neytanda til að gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár var lengdur úr einu ári í tvö ár frá afhendingu vöru eða þjónustu, eða í fimm ár þegar um var að ræða söluhlut sem ætlaður var verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti.

III. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.

    Á árunum 1995–1997 vann framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skýrslur um framkvæmd við veitingu neytendalána í samræmi við tilskipun 87/102/EBE og viðhafði umfangsmikið samráð við haghafa á neytendalánamarkaði. Afrakstur þeirrar vinnu leiddi í ljós umtalsverðan mun á milli laga aðildarríkja hvað varðar neytendalán, sér í lagi hvað varðar þau neytendaverndarúrræði sem aðildarríkin studdust við til fyllingar ákvæðum tilskipunar 87/102/EBE. Að mati framkvæmdastjórnarinnar gat þessi munur leitt til skekktrar samkeppnisstöðu á innri markaðnum og óæskilegra aðgangshindrana, auk þess að takmarka möguleika neytenda á lántöku yfir landamæri. Talið var að slíkt ósamræmi á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins gæti haft áhrif á framboð og eftirspurn eftir vöru og þjónustu.
    Í ljósi framangreinds og þeirrar þróunar sem orðið hefur á lánamarkaði, sér í lagi með tilliti til þeirra lánsafurða sem boðnar eru neytendum, var nauðsynlegt að endurskoða regluverk Evrópusambandsins hvað varðar veitingu neytendalána. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB er afrakstur þeirrar vinnu. Tilskipunin var samþykkt af Evrópuþinginu 23. apríl 2008 og féll þá úr gildi eldri tilskipun 87/102/EBE um sama efni. Tilskipun 2008/48/EB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 16/2009 sem birt var 19. mars 2009 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16/2009.
    Tilgangur með setningu tilskipunarinnar var að endurskoða reglur um neytendalán til að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi við veitingu neytendalána.
    Tilskipunin mælir fyrir um fulla samræmingu (e. full harmonisation), sem þýðir að heimildir til frávika frá efnisákvæðum hennar, við innleiðingu í landsrétt, eru takmarkaðar. Slíkum gerðum er ætlað að samræma réttarreglur í landsrétti einstakra aðildarríkja og því eru heimildir til frávika aðeins heimilar þar sem slíkt er sérstaklega tekið fram í tilskipuninni.
Með frumvarpi þessu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2008/ 48/EB með aðlögunaraðferðinni svo unnt sé að nýta það svigrúm sem tilskipunin heimilar við aðlögun efnis hennar að íslenskum aðstæðum.

IV. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið fjallar um veitingu lána til neytenda í atvinnuskyni. Lánveiting telst í atvinnuskyni hvort sem um er að ræða aðal- eða aukastarfsemi.

Gildissvið.
    Frumvarpið fylgir gildissviði tilskipunar 2008/48/EB að mestu leyti, þó eru fasteignalán og lán að fjárhæð undir 200 evrum og yfir 75.000 evrum ekki undanskilin gildissviði frumvarpsins líkt og tilskipunin gerir ráð fyrir. Aðildarríkjum er frjálst að fella fleiri tegundir lánssamninga undir gildissvið landslaga er innleiða tilskipun 2008/48/EB og er í frumvarpi þessu lagt til að það verði gert.

Fasteignalán.
    Frá árinu 2000, þegar lögum nr. 121/1994 var breytt með lögum nr. 179/2000, hafa fasteignalán fallið undir lög um neytendalán. Á sama tíma var tekið út ákvæði um undanþágu vegna lánssamninga að hærri fjárhæð en 1.500.000 kr. Þessar breytingar hafa gefið góða raun og er lagt til að fasteignalán falli innan gildissviðs frumvarps þessa og ekkert hámark verði á fjárhæðum lána..
    Lánssamningar vegna kaupa á fasteign eru undanþegnir gildissviði tilskipunar 2008/48/ EB. Í 14. lið formálsorða tilskipunarinnar segir að fasteignalán séu undanskilin sökum sérstaks eðlis slíkra lánssamninga án þess að það sé útskýrt nánar, en innan Evrópusambandsins hafa lengi verið hugmyndir um setningu sérstakra reglna um fasteignalán, sér í lagi vegna kaupa neytenda á íbúðarhúsnæði. Hinn 31. mars 2011 lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram drög að tilskipun um lánasamninga vegna kaupa á íbúðarhúsnæði (COM/ 2011/142/ Final) sem nú eru til umræðu innan sambandsins. Samkvæmt drögunum verða reglur um starfsemi þeirra sem lána til íbúðakaupa hertar og kröfur til slíkra aðila samræmdar. Verði tilskipunardrögin samþykkt lítt breytt verður nauðsynlegt að endurskoða og samræma það regluverk hér á landi sem um veðlán vegna íbúðarkaupa, eða -bygginga, gildir. Er í raun þegar farið að hefja undirbúning slíkrar endurskoðunar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Smálán.
    Svonefnd smálánafyrirtæki hófu starfsemi hér á landi í upphafi árs 2010, en veiting smáláns felst í því að lántaka er veitt lán til skamms tíma og óskar lántaki eftir útgreiðslu lánsins á heimasíðu lánveitanda eða með því að senda smáskilaboð úr farsíma í fyrir fram greint símanúmer.
    Mikil umræða hefur verið bæði hérlendis og í nágrannalöndum okkar um skaðsemi þessara lána. Bæði hagsmunaaðilar og eftirlitsaðilar á neytendamarkaði hafa lýst yfir miklum áhyggjum af uppgangi smálánafyrirtækja hér á landi enda sé hér um að ræða lán á okurvöxtum, allt að 648% árleg hlutfallstala kostnaðar, sem markaðssett eru sérstaklega gagnvart ungu fólk, þeim sem höllum fæti standa og þeim sem hafa lítið á milli handanna.
    Í rannsóknarritgerð frá árinu 2009 um notkun smálána hjá ungmennum í Finnlandi var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að ungmenni í öllum launaþrepum sem og atvinnulausir taki smálán en að ungir einstæðir foreldrar, láglaunafólk og atvinnulausir séu líklegri en aðrir til að ganga inn í slíka samninga. Jafnframt var leitt í ljós að ungt fólk sem tekur smálán sé líklegt til að gera það aftur og að hjá lágtekjufólki fari fjármunirnir oft í að endurgreiða eldri skuldir eða vexti. (The use of small instant loans amoung young adults – a gateway to consumer insolvency?, 2009). Í skýrslu nefndar breska þingsins (Debt management, 2012) kemur einnig fram að stór hluti smálána virðist notaður til að borga önnur smálán sem bendir til þess að þeir sem byrja að nota þessi lán geti lent í vítahring. Jafnframt kemur fram að meiri hluti lántakenda smálána (60%) sjái eftir því að hafa tekið lánin og um helmingur (48%) telur að smálán hafi gert fjárhagslega stöðu þeirra erfiðari.
    Á 139. löggjafarþingi lagði efnahags- og viðskiptaráðherra fram frumvarp til breytinga á lögum um neytendalán, nr. 121/1994, en frumvarpið náði ekki fram að ganga. Megintilgangur þess frumvarps var að fella veitingu smálána undir umgjörð og ramma neytendalöggjafarinnar til að tryggja neytendavernd. Sambærilegt fyrirkomulag er að finna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi þar sem eftirlit með smálánum er í höndum systurstofnana Neytendastofu. Við undirbúning frumvarpsins átti efnahags- og viðskiptaráðuneytið samráð við ýmsa aðila, t.d. embætti umboðsmanns skuldara, hjálparstofnanir, Velferðarvaktina, Fjármálaeftirlitið og Neytendastofu. Þau sjónarmið sem fram komu í umsögnum þessara aðilar voru á þá leið að full ástæða væri til að tryggja hagsmuni neytenda með því að fella smálán undir lagaramma neytendalána.
    Eins og staðan er í dag fellur veiting smálána ekki undir ákvæði núgildandi laga um neytendalán vegna undanþágu í a-lið 1. mgr. 2. gr. laganna þar sem segir að lánssamningar sem gilda skemmri tíma en þrjá mánuði séu undanskildir gildissviði laganna. Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði þess gildi um öll neytendalán óháð fjárhæð, þ.m.t. smálán.

Hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.
    Sum nágrannalönd okkar hafa fundið sig knúin til að bregðast við uppgangi smálánafyrirtækja með aukinni reglusetningu til verndar neytendum. Í þessu samhengi er vert að nefna að um helmingur af 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins hefur í löggjöf sinni ákvæði um hámarksvexti (Study on interest rate restrictions in the EU, 2010). Finnar hafa lagt fram frumvarp sem kveður á um hámarksvexti á smálánum og Danir hafa tilkynnt að þeir ætli sér slíkt hið sama. Í Norður-Ameríku er sama sagan; í Kanada hefur verið sett 60% hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar og í 35 fylkjum Bandaríkjanna hafa verið settar reglur um smálánastarfsemi sem taka til ýmissa skilyrða, svo sem vaxta og gjalda (How to regulate payday lending: learning from international best practice, 2011).
    Með tilliti til þessa var tekið til skoðunar hvort ástæða væri til að innleiða í íslenska löggjöf ákvæði um hámarkskostnað vegna neytendalána. Eftir að bornar voru saman ólíkar leiðir var komist að þeirri niðurstöðu að æskilegt væri að setja hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar sem ákveðinn hundraðshluta, t.d. 50% að viðbættum stýrivöxtum Seðlabankans, til að taka tillit til kostnaðar fjármagns á hverjum tíma. Þessi leið er sú sama og lögð er til í áðurnefndu finnsku frumvarpi.
    Í lok ágúst var óskað eftir formlegri umsögn Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Í umsögnunum er ekki að marka skýra afstöðu gegn því að ákvæði um hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar verði leidd í lög, þó er í þeim eðlilega bent á almenn sjónarmið um samkeppni og samningafrelsi. Með hliðsjón af ákvæðum samkeppnislaga álítur Samkeppniseftirlitið að því sé skylt að hvetja löggjafann til þess að skoða fyrst aðrar lausnir en þær sem lúta að höftum á frjálsa verðmyndun á markaði sé þess nokkur kostur. Fjármálaeftirlitið bendir á að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi til nýrra laga um neytendalán geti talist hafa í för með sér nægilega vernd fyrir lántakendur þannig að ákvæði um hámarksvexti þurfi ekki að koma til að auki. Seðlabanki Íslands kemst að því í umsögn sinni að reglur er varða ýmsar takmarkanir og skilyrði tengd smálánum muni hafa jákvæð áhrif út frá sjónarmiðum neytendaverndar án þess að hafa slæmar afleiðingar fyrir fjármálakerfið.
    Þegar kemur að neytendavernd vegna lántöku þá felur tilskipun 2008/48/EB, sem frumvarpi til nýrra laga um neytendalán er ætlað að innleiða, fyrst og fremst í sér tvær meginreglur. Sú fyrri er að neytanda skulu veittar fullnægjandi upplýsingar sem settar eru fram á samræmdan máta svo hann geti borið mismunandi lánatilboð saman og tekið upplýsta ákvörðun. Sú seinni felur í sér að lánshæfi lántaka skal metið. Ef lántaki hefur fengið fullnægjandi upplýsingar og mat á lánshæfi hans hefur leitt í ljós að hann ræður við að greiða lánið til baka þá ætti löggjafinn ekki að skipta sér frekar af skiptum lántaka og lánveitanda þó að lántaki sé neytandi nema brýna nauðsyn beri til, enda ber löggjafanum ætíð að gæta meðalhófs og velja minnst íþyngjandi leiðina til að ná settu marki – sem í þessu tilfelli er neytendavernd.
    Í umsögn Samkeppniseftirlitsins kemur fram að eftirlitið hefur ekki rannsakað smálánamarkaðinn sérstaklega, en á hinn bóginn sé ljóst að tiltekin teikn séu uppi um að þessi markaður sé ekki sérlega virkur því fyrirtækin sem á honum starfa virðast einkum keppast um að veita sem greiðast aðgengi að lánum í stað þess að keppa á grundvelli verðs og vörueiginleika líkt og almennt gerist á mörkuðum þar sem samkeppni er virk. Á þessum grundvelli álítur Samkeppniseftirlitið að ekki sé útilokað að markaðsbrestur sé til staðar á viðkomandi markaði. Að mati Fjármálaeftirlitsins ætti lánveitandi sem rekur heilbrigt fyrirtæki ekki að þurfa að leggja á hærri vexti en sem nema allt að 50% eða 100% af árlegri hlutfallstölu kostnaðar að viðbættum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands.
    Þessar ályktanir skjóta frekari stoðum undir þá skoðun að þörf sé á að setja ákvæði um hámarkskostnað vegna neytendalána til að tryggja nauðsynlega neytendavernd.
    Ef horft er til kostnaðar vegna lánssamnings þá eru tvær hliðar á þeim pening, í fyrsta lagi vextir og kostnaður sem lagður er á fyrir lánstímann og hins vegar vextir og kostnaður sem heimilt er að leggja á fari lánssamningur í vanskil. Hvað varðar samningsvexti þá voru hér á landi lengi vel í gildi lagaákvæði sem settu þeim skorður. Það var ekki fyrr en með vaxtalögum nr. 25/1987 sem staðfest var almennt frelsi til samninga manna á milli um vexti, þó ekki um dráttarvexti sem enn eru ákveðnir af Seðlabankanum, sbr. lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Hvað innheimtukostnað neytenda varðar þá fer hann samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum innheimtulaga, nr. 95/2008.
    Telja verður ljóst af framangreindu að ekki er fullkomið samningafrelsi um vexti og kostnað tengdan lánssamningum hér á landi. Sú almenna skoðun er til staðar að ástæða sé til að vernda neytendur sérstaklega gegn okurdráttarvöxtum og óhóflegum innheimtukostnaði. Verður ekki annað séð en að sömu sjónarmið gildi um okurvexti á neytendalán.
    Er í frumvarpi þessu því lagt til að sett verði hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar vegna neytendalána sem nemur 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands eins og þeir eru þegar lánssamningur er gerður. Ekki er gert ráð fyrir að þak þetta á hámarkskostnað muni hafa áhrif á aðra aðila á lánamarkaði en smálánafyrirtæki, enda þekkist ekki hjá öðrum lánveitendum að lögð sé á hærri árleg hlutfallstala kostnaðar en sem nemur 50 hundraðshlutum á ársgrundvelli.
    Nái tillaga þessi fram að ganga mun hún sem dæmi hafa þau áhrif að smálánafyrirtæki sem í dag innheimtir 11.700 kr. í kostnað vegna 60.000 kr. láns til tveggja vikna verður aðeins heimilt að innheimta 1.101 kr. vegna sams konar láns. Með nokkurri einföldun má tala um nafnvexti í stað árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og þá má segja miðað við fyrrgreint dæmi að nafnvextir séu að lækka úr 468% í 44,05%.

Upplýsingaskylda.
    Kröfur um upplýsingaskyldu lánveitanda eru nokkuð ítarlegri í frumvarpinu en þekkst hefur hér á landi. Gerð er krafa um ítarlegar upplýsingar í auglýsingum þar sem fjallað er um vexti eða önnur kjör vegna lánssamnings, gerðar eru kröfur um tilteknar upplýsingar sem ber að veita fyrir samningsgerð og ákvæði um upplýsingar eru ítarlegri en í lögum nr. 121/1994, um neytendalán.
    Eftir sem áður er rík áhersla lögð á að neytendum séu veittar upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Hlutfallstalan gerir lántökum auðveldara að bera saman kostnað við mismunandi lánstilboð og er í raun nauðsynleg þegar til skoðunar koma fleiri breytur en vextir. Upplýsingar um hlutfallstöluna geta komið að gagni í samkeppni og jafnvel haft áhrif til lækkunar á lántökukostnaði.
    Tilskipunin kveður á um að vissar upplýsingar skuli ávallt veittar á stöðluðu eyðublaði sem fylgir með sem viðauki við tilskipunina, en eyðublaðið á að auðvelda neytendum að bera saman lánstilboð. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að þeirri línu verði fylgt og ráðherra birti eyðublaðið í íslenskri þýðingu í reglugerð.

Lánamiðlarar.
    Í frumvarpinu er fjallað um skyldur lánamiðlara, en slík ákvæði er ekki að finna í núgildandi lögum um neytendalán. Um almennar skyldur lánamiðlara er fjallað í 21. gr. frumvarpsins. Þar kemur m.a. fram að lánamiðlara ber að upplýsa neytanda um það í umboði hvers hann veitir lánið og þóknun fyrir þjónustu sína. Í ákvæðum frumvarpsins um veitingu upplýsinga fyrir og við samningsgerð er vísað til lánamiðlara þegar við á, en ljóst er að slík upplýsingaskylda hvílir alltaf á lánveitanda þótt hann geti í samningi við lánamiðlara kveðið á um að lánamiðlari skuli veita þær upplýsingar.

Greiðslu- og lánshæfismat.
    Tilskipun 2008/48/EB gerir kröfu um að lánshæfi lántaka sé metið áður en gengið er frá lánssamningi. Ekki er kveðið á um með hvaða hætti lánshæfi skuli metið heldur er aðildarríkjum veitt frelsi til þess að ákveða slíkt sjálf. Hér á landi hefur lengi viðgengist að sérstakt greiðslumat sé framkvæmt við lántöku, sér í lagi vegna fasteignalána. Lagt er til að þeirri framkvæmd verið haldið áfram vegna lánveitinga sem fara yfir ákveðna fjárhæð, en vegna lægri fjárhæða verði svonefnt lánshæfismat látið nægja. Kveðið er á um skýrt bann við lánveitingu til lántaka ef mat á lánshæfi eða greiðslumat leiðir í ljós að hann hafi augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið. Lagðar eru ákveðnar línur um framkvæmd greiðslu- og lánshæfismats í frumvarpinu, en gert er ráð fyrir að ráðherra hafi heimild til að setja ákvæði í reglugerð sem kveða nánar á um gerð slíkra mata.

V. Helstu breytingar frá gildandi lögum.
     1.      Lagt er til að gildissvið laga um neytendalán verði útvíkkað frá því sem nú er. Samningar að lægri fjárhæð en 15.000 kr. verði ekki lengur undanskildir og slíkt hið sama á við um samninga sem gilda í skemmri tíma en þrjá mánuði, nema þeir beri jafnframt lægri árlega hlutfallstölu kostnaðar en meðaltal innlánsvaxta almennra sparisjóðsbóka samkvæmt vaxtatöflu Seðlabankans.
     2.      Í frumvarpinu er upplýsingaskylda lánveitanda aukin nokkuð og eru ákvæði um þær upplýsingar sem veita skal í auglýsingum (6. gr.), fyrir samningsgerð (7.– 9. gr.) og við samningsgerð (12. gr.) ítarlegri heldur en þekkst hefur við veitingu neytendalána hérlendis.
     3.      Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að lánveitanda verði skylt að framkvæma lánshæfismat, og greiðslumat eftir atvikum, vegna allra lánveitinga til neytenda sem falla undir gildissvið frumvarpsins. Jafnframt er kveðið á um bann við lánveitingu ef mat á lánshæfi eða greiðslumat leiðir í ljós að neytandi hafi augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið. Þó er veitt heimild til að víkja frá ákvæðinu ef virði veða eða annarra trygginga sem lánveitandi leggur fram er meira á þeim tíma er lánið er veitt en heildarfjárhæð láns.
     4.      Samkvæmt 16. gr. frumvarpsins mun neytandi hafa 14 almanaksdaga frest til að falla frá lánssamningi án þess að tilgreina ástæðu. Slík réttindi hafa hingað til aðeins átt við um lánssamninga sem komið er á með fjarsölu, sbr. 11. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu.
     5.      Í núgildandi lögum um neytendalán er að finna ákvæði um endurgreiðslu fyrir gjalddaga og það gjald sem lánveitanda er heimilt að innheimta í tengslum við slíka greiðslu. Í frumvarpi þessu er kveðið á um sérstaka reiknireglu sem á að tryggja að uppgreiðslugjald nemi aldrei hærri fjárhæð en 1% af fjárhæð endurgreiðslu, ef lengri tími en eitt ár er á milli greiðslunnar og loka lánstíma samkvæmt samningi aðila. Ef eitt ár eða minna er eftir af samningstíma má uppgreiðslugjaldið ekki fara yfir 0,5% af fjárhæð endurgreiðslunnar. Uppgreiðslugjald má þó að hámarki vera sú vaxtafjárhæð sem neytandi mundi hafa greitt lánveitanda á tímabilinu frá greiðslu fyrir gjalddaga og til loka lánstíma samkvæmt samningi aðila. Jafnframt er kveðið á um að óheimilt sé að innheimta uppgreiðslugjald vegna lánssamninga sem bera breytilega vexti.
     6.      Í 3. mgr. 17. gr. og 18. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, er fjallað um þau tilfelli er seljandi veitir lán fyrir kaupum. Í 3. mgr. 17. gr. laganna segir að ef neytandi á kröfu á hendur lánveitanda, sem jafnframt er seljandi, vegna kaupa, t.d. vegna galla, er framsalshafi meðábyrgur lánveitanda. Í frumvarpinu er ekki kveðið á um meðábyrgð framsalshafa. Í 1. mgr. 18. gr. segir að seljandi sem veitir neytanda lán í formi viðskiptabréfs skuli taka tryggingu vegna hugsanlegrar vanefndakröfu neytanda vegna þeirra viðskipta sem að baki viðskiptabréfinu standa. Í frumvarpinu er ekki fjallað um tryggingarskyldu seljanda þegar hann veitir neytanda lán til vöru eða þjónustukaupa í formi viðskiptabréfs.
     7.      Í frumvarpinu er fjallað um svokallaða „tengda lánssamninga“ sem skilgreindir eru sem „[l]ánssamningur þar sem viðkomandi lán þjónar eingöngu þeim tilgangi að fjármagna samning um veitingu sérstakrar vöru eða sérstakrar þjónustu…“ Ákvæðum frumvarpsins um tengda lánssamninga er ætlað að tryggja tvennt; í fyrsta lagi að neytandi sé ekki bundinn af tengdum lánssamningi ef hann nýtir sér rétt sinn til þess að falla frá samningi um afhendingu vöru eða þjónustu og í öðru lagi að ef vara eða þjónusta sem fellur undir tengdan lánssamning er ekki afhent að fullu í samræmi við samninga aðila þar um hafi neytandi rétt til að leita vissra úrræða gagnvart lánveitanda ef hann hefur árangurslaust reynt að leita úrræða gagnvart seljanda en ekki haft erindi sem erfiði.
     8.      Í frumvarpinu er að finna skýrari ákvæði um óheimilan yfirdrátt og í 20. gr. frumvarpsins er m.a. kveðið á um hvaða upplýsingar veita skal vegna slíkra lánssamninga.
     9.      Í 11. gr. frumvarpsins er að finna það nýmæli að sérstaklega er fjallað um rétt lánveitenda frá öðrum aðildarríkjum til aðgangs að gagnasöfnum við lánveitingu yfir landamæri sem notuð eru til að meta lánshæfi neytenda. Jafnframt kemur fram að ef lánsumsókn er hafnað á grundvelli slíkrar leitar í gagnasafni skal lánveitandi upplýsa neytanda þegar í stað og honum að kostnaðarlausu um niðurstöður slíkrar leitar.
     10.      Í 22. gr. frumvarpsins er það nýmæli að fjallað er sérstaklega um upplýsingaskyldur svokallaðra „lánamiðlara“, bæði gagnvart neytanda og lánveitanda.
     11.      Lagt er til að sett verði inn ákvæði um að árleg hlutfallstala kostnaðar á neytendalánum megi ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum.
     12.      Með frumvarpi þessu er ætlunin að innleiða í íslenskan rétt tilskipun 2008/48/EB sem tekur ekki til veðlána og taka upplýsingaákvæði tilskipunarinnar mið af því. Til að tryggja að neytendur séu sem best upplýstir er í 26. gr. frumvarpsins kveðið á um sérstaka upplýsingaskyldu lánveitanda vegna slíkra lána.
     13.      Í 33. gr. frumvarpsins er nú að finna ákvæði sem kveður á um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís á milli neytanda og lánveitanda. Lagt er til að neytendur geti skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

VI. Breytingar frá 140. löggjafarþingi.
    Allnokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því það var lagt fram á 140. þingi sem fyrst og fremst byggjast á athugasemdum sem fram komu við þinglega meðferð. Helstu breytingar eru:
     1.      Ákvæðum um eignarréttarfyrirvara breytt. Til að skýrt sé til hvaða úrræða lánveitandi getur gripið sé neytandi í vanskilum er tekið fram að lánveitandi geti endurheimt söluhlut með aðfarargerð ef ekki næst samkomulag um afhendingu. Ekki er lengur kveðið á um að matsmenn verði að vera dómkvaddir ef ágreiningur kemur upp um verð söluhlutar.
     2.      Skilgreiningu á lánshæfismati breytt með þeim hætti að ekki er lengur kveðið á um með afgerandi hætti hvaða upplýsinga verður að líta til við matið heldur eru nefnd dæmi. Í reglugerð sem sett verður með lagastoð í 4. mgr. 10. gr. verður nánar kveðið á um til hvaða gagna skal líta hverju sinni.
     3.      Bætt er við skilgreiningu á hugtakinu veltureikningur og taka önnur ákvæði frumvarpsins mið af því.
     4.      Í frumvarpinu er nú talað um ósamþykktan yfirdrátt (e. overrunning) í stað óheimils yfirdráttar áður. Þykir hin nýja skilgreining betur lýsa því sem á sér stað þegar aðili fer yfir á veltureikningi sínum án þess að hafa fengið heimild fyrir því fyrir fram.
     5.      Ákvæðum 10. gr. um lánshæfis- og greiðslumat breytt með þeim hætti að kveðið er á um skýrt bann við lánveitingu ef mat á lánshæfi eða greiðslumat leiðir í ljós að neytandi hafi augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið. Þó er veitt heimild til að víkja frá ákvæðinu ef virði veða eða annarra trygginga sem lánveitandi leggur fram er meira á þeim tíma er lánið er veitt en heildarfjárhæð láns. Tekið er fram að lánveitandi beri ekki ábyrgð á því ef lántaki framvísar röngum upplýsingum vegna framkvæmdar lánshæfis- eða greiðslumats, nema hann viti, eða eðlilegt þyki með tilliti til aðstæðna að hann hafi mátt vita, að upplýsingarnar séu rangar. Upplýsingaöflun lántaka byggist á fyrirframsamþykki lántaka og jafnvel í sumum tilfellum eingöngu á gögnum sem lántaki leggur fram sjálfur. Lánveitandi er ekki alltaf í aðstöðu til þess að sannreyna áreiðanleika upplýsinga sem lántaki leggur fram og er í þeim tilfellum ósanngjarnt að lánveitandi sé látinn líða fyrir það ef lántaki leggur fram rangar upplýsingar sem lánshæfis- eða greiðslumat er byggt á. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið með skýrari hætti en áður á um heimild ráðherra til að kveða nánar á um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats í reglugerð.
     6.      Lagt er til að sett verði inn ákvæði um að árleg hlutfallstala kostnaðar á neytendalánum megi ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum. Til frekari skýringar var bætt við skilgreiningu á stýrivöxtum í 5. gr. frumvarpsins.
     7.      Lagt er til að bætt verði við sérstöku upplýsingaskylduákvæði vegna fasteignalána í 26. gr. frumvarpsins, sjá nánari umfjöllun undir lið 11 í V. kafla almennra athugasemda.
     8.      Ákvæði um eftirlit, viðurlög og réttarúrræði voru gerð ítarlegri og skýrari. Ekki er lengur vísað til þess að ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu gildi um úrræði Neytendastofu.
     9.      Lagt er til að neytendur geti skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

VII. Samráð.
    Með tilliti til þess að frumvarp þetta var samið af nefnd sem skipuð var af efnahags- og viðskiptaráðherra og samanstóð af fulltrúum helstu hagsmunaaðila og að hún felur í sér innleiðingu á Evróputilskipun á sviði neytendalána sem kveður á um fulla samræmingu (e. full harmonisation) taldi ráðuneytið ekki ástæðu til að óska sérstaklega eftir umsögnum fyrir þinglega meðferð frumvarpsins.

VIII. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun upplýsingaskylda lánveitenda aukast nokkuð og því má gera ráð fyrir að þeir verði tímabundið fyrir kostnaðarauka við að uppfylla nýjar og auknar kröfur frumvarpsins.
    Til lengri tíma litið er mögulegt að með tilkomu aukinnar upplýsingagjafar lánveitenda og ítarlegra greiðslu- og lánshæfismati muni framtíðarlántakar greiða vexti og kostnað af lánveitingunni í meira samræmi við þá áhættu sem samfara henni er.
    Réttarstaða neytenda sem gera óhagstæða lánssamninga mun batna þar sem í frumvarpinu er kveðið með skýrum hætti á um rétt þeirra til að falla frá samningi innan 14 daga. Sá réttur hefur hingað til aðeins átt við um lánssamninga sem falla undir gildissvið laga nr. 33/2005 um fjarsölu á fjármálaþjónustu.
    Frumvarpið þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um I. kafla.


    Lagt er til að í I. kafla frumvarpsins verði innleidd almenn ákvæði tilskipunar 2008/ 48/EB. Um gildissvið nýrra laga um neytendalán verði fjallað í 1.–3. gr. Í 4. gr. verði kveðið á um frávik frá lögunum, með öðrum orðum að óheimilt sé að víkja frá gildissviði laganna neytanda í óhag. Þá verði mælt fyrir um orðskýringar í 5. gr.

Um 1. gr.


    Lagt er til að 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 1. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 1. mgr. er samhljóða 1. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán. Allar lánveitingar í atvinnuskyni falla undir frumvarpið, óháð því hvort um kjarna- eða hliðarstarfsemi er að ræða. Lánveitingar fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóðs, lífeyrissjóða og annarra til neytenda falla því undir frumvarpið. Lánveiting í atvinnuskyni er skilgreint mjög vítt í tilskipuninni og undir hana falla allar lánveitingar innan ramma viðskipta, atvinnustarfsemi eða sérgreinar (e. trade, business or profession) lánveitanda.

Um 2. gr.


    Lagt er til að 3., 4. og 6. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar verði innleiddar í 2. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er fjallað um yfirdráttarheimildir sem gilda í skemmri tíma en þrjá mánuði eða skal greiða þegar lánveitandi krefst þess. Að jafnaði heyra yfirdráttarheimildir þar sem lánveitandi getur krafist endurgreiðslu hvenær sem er til undantekninga, enda er yfirleitt kveðið á um gildistíma heimildar í samningi aðila á milli.
    Um þá lánssamninga sem ákvæðið tekur til gilda ekki öll ákvæði frumvarpsins. Ber hér helst að nefna að ekki er gerð krafa um upplýsingar fyrir samningsgerð, réttur til að greiða fyrir gjalddaga og falla frá samningi eigi við, upplýsingar sem þurfa að koma fram í auglýsingum og samningi eru ekki eins ítarlegar og ekki þarf að tilkynna um breytingar á útlánsvöxtum á lánstímanum.
    Vert er að taka fram að í þeim tilfellum sem neytandi á í samskiptum í gegnum síma við lánveitanda og óskar eftir því að fá yfirdráttarheimild, sem fellur undir 1. mgr. 2. gr., þegar í stað þá, fer um slíkt skv. 6. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Skal þá lánveitandi lýsa helstu einkennum fjármálaþjónustunnar sem skulu a.m.k. fela í sér þau atriði sem um getur í c-lið, e–f- lið og h-lið 2. mgr. 8. gr.
    Í 2. mgr. er lagt til að ef um óheimilan yfirdrátt er að ræða gildi aðeins tilteknar greinar frumvarpsins. Vegna eðlis slíkra lána væri illframkvæmanlegt að láta sömu skilyrði gilda um þess háttar lán og aðra hefðbundnari lánssamninga. Ákvæði frumvarpsins um upplýsingar í auglýsingum, fyrir og við samningsgerð, og um breytingar á vöxtum eiga ekki við. Hið sama á við um ákvæði laganna um lánshæfis- og greiðslumat, aðgang að gagnasafni, rétt til að falla frá samningi, rétt til að greiða fyrir gjalddaga og framsal réttar.
    Í 3. mgr. er fjallað um samninga á milli neytanda og lánveitanda um uppgjör skulda ef lánssamningur er kominn í vanskil. Um slíka samninga, sem uppfylla skilyrði ákvæðisins, gilda aðeins tilteknar greinar frumvarpsins. Um lánssamninga þessa gilda ekki ákvæði frumvarpsins um upplýsingar áður en samningur er gerður, lánshæfis- og greiðslumat, tengda lánssamninga og framsal réttar. Einnig eru upplýsingakröfur í lánssamningi takmarkaðri en ella.
    Í 4. mgr. er vísað til þess að ef samningur skv. 3. mgr. sem felur í sér uppgjör skulda vegna lánssamnings í vanskilum er veittur í formi yfirdráttarheimildar í skilningi t-liðar 5. gr. sem greiða þarf innan þriggja mánaða eða þegar lánveitandi krefst þess gilda aðeins þau ákvæði sem vísað er til í 1. mgr. um samninginn.

Um 3. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um þá samninga sem undanþegnir eru gildissviði frumvarpsins. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 2. gr. tilskipunar 2008/48/EB.
     Um a-lið. Ákvæðið felur í sér undanþágu vegna samninga sem gilda í skemmri tíma en þrjá mánuði og bera lægri árlega hlutfallstölu kostnaðar en meðaltal innlánsvaxta almennra sparisjóðsbóka samkvæmt vaxtatöflu Seðlabanka. Sem dæmi um lánssamning sem fellur undir ákvæðið eru hefðbundin kreditkort (e. charge cards) sem gefin eru út hér á landi með ákveðnum gjalddögum, venjulega mánaðarlega og þarf að greiða úttekt að fullu. Samningur um greiðsludreifingu eða raðgreiðslur í tengslum við kreditkort falla að jafnaði ekki undir undanþáguna, enda bera slíkir samningar yfirleitt hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar en innlánsvaxta almennra sparisjóðsbóka samkvæmt vaxtatöflu Seðlabankans auk þess sem endurgreiðslutími nemur gjarnan lengri tíma en þremur mánuðum. Opnir lánssamningar, sbr. 14. gr. frumvarpsins, falla ekki undir ákvæðið.
     Um b-lið. Ákvæðið er samhljóða b-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán.
     Um c-lið. Ákvæðið undanskilur lánssamninga sem vinnuveitandi veitir starfsmönnum sínum í aukastarfsemi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Með aukastarfsemi í skilningi þessa ákvæðis er átt við starfsemi sem ekki er í eðlilegu framhaldi af þeirri kjarnastarfsemi (e. core business) sem aðili stundar.
     Um d-lið. Með ákvæðinu er lagt til að leigusamningar falli utan gildissviðs frumvarpsins, þ.e. að undanskildum eignaleigusamningum um lausafé og fasteignir, svo sem kaup-, fjármögnunar- og rekstrarleigusamningar. Um er að ræða smávægilega breytingu frá núgildandi ákvæði d-liðar 2. gr. laga um neytendalán. Eftir að lög um eignarleigustarfsemi, nr. 19/1989, voru felld úr gildi er ekki að finna í löggjöf skilgreiningu á þeim undirsamningum sem í almennu tali eru taldir til eignaleigusamninga. Hugtakið eignaleiga kemur víða fyrir í íslenskri löggjöf, svo sem í lögum um fjármálafyrirtæki, vaxtalögum, lögum um fjarsölu á fjármálaþjónustu o.fl. Í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er eignaleiga skilgreind sem leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Valin er sú leið að ákvæðið nái til eignaleigusamninga einstaklinga um lausafé, óháð því, hvernig fer um skil hins leigða við lok samnings. Þetta helgast m.a. af því, að þörf neytanda fyrir upplýsingar við gerð slíkra samninga um greiðslubyrði, árlega hlutfallstölu kostnaðar o.fl. telst nánast hin sama eins og þegar almenn lán eiga í hlut og gildir þá einu hvort neytandi hefur rétt eða skyldu til að kaupa hið leigða við samningslok. Vert er að taka fram að undir eignaleigu í skilningi frumvarpsins fellur ekki hefðbundin skammtímaleiga á bílaleigubíl.
     Um e-lið. Í ákvæðinu er fjallað um lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar sem endurgreiða skal innan eins mánaðar. Ákvæðið á ekki við nema heildarfjárhæð yfirdráttarheimildar sem nýtt er sé greidd til baka innan eins mánaðar frá því að nýting yfirdráttarheimildar hófst.
     Um f-lið. Ákvæðið tekur til lánssamninga sem gerðir eru vegna fjármálagerninga þegar lánveitandi (lánastofnun) á hlut að þeim viðskiptum. Sem dæmi um samning sem fellur undir þetta ákvæði er þegar fjármálafyrirtæki fjármagnar kaup neytanda á hlut í fyrirtæki sem hefur skráð bréf sín á skipulegan verðbréfamarkað vegna viðskipta sem fjármálafyrirtækið tekur sjálft þátt í. Einnig þekkist það að einstaklingar taki lán og ráðstafi lánsfé ásamt eigin fé til eignastýringar innan sama fjármálafyrirtækis eða tengds aðila sem tekur að sér að ávaxta féð í gengum ýmsar fjárfestingar og fjármálaafurðir. Væntanlega hefði komið til álita við meðferð tilskipunarinnar hjá Evrópusambandinu að undanskilja einstaklinga sem teljast til fagfjárfesta, en hér er sú leið valin að tengja undanþáguna við tiltekna gerð lánsviðskipta, enda hefur vilji Evrópulöggjafans ekki staðið til þess að skerða rétt einstaklinga samkvæmt tilskipuninni þótt þeir í tilteknu samhengi teljist fagfjárfestar eða með þá sérþekkingu sem gerir þeim kleift að eiga viðskipti með flóknari fjármálagerninga.
     Um g-lið. Ákvæðið undanskilur lánssamninga gildissviði laganna sem gerðir eru vegna dómsáttar eða sáttar fyrir yfirvöldum. Sem dæmi um sáttir sem eru gerðar fyrir yfirvöldum og falla undir ákvæðið má nefna sættir gerðar fyrir sýslumanni skv. 107. gr. laga nr. 91/1991, um einkamál, sættir gerðar vegna brota gegn samkeppnislögum skv. 17. gr. f laga nr. 44/2005 og lögreglustjórasáttir skv. 4. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
     Um h-lið. Ákvæðið tekur til samninga um frestun greiðslu afborgunar skuldar án þess að til komi viðbótarkostnaður. Sem dæmi um lánssamning sem fellur undir ákvæðið er lánssamningur sem breytt er með þeim hætti að greiðslu afborgunar er frestað um tiltekinn tíma og ekki er innheimtur sérstakur kostnaður vegna þess. Vert er að taka fram að innheimta á almennum vaxtakostnaði telst ekki viðbótarkostnaður samkvæmt þessari grein.
     Um i-lið. Undir ákvæðið falla samningar þar sem ábyrgð neytanda takmarkast eingöngu við veðsetningu handveðs sem hann hefur lagt fram. Sem dæmi um lánssamning sem fellur undir grein þessa má nefna er lánastofnun tekur handveð í reikningi vegna lánveitingar og ábyrgð lántaka takmarkast eingöngu við innstæðu á viðkomandi reikning. Tilvik þar sem lántaki fær fjárhæð að láni gegn framlagningu lausafjármuna sem handveð, svo sem skartgrip og málverk (e. pawn shops) falla undir ákvæðið.
     Um j-lið. Í ákvæðinu er fjallað um samninga sem veittir eru takmörkuðum fjölda aðila samkvæmt lögum með almenningshagsmuni í huga og með lægri vöxtum en markaðsvöxtum eða með öðrum hagstæðari skilmálum en almennt gilda. Sem dæmi um samninga sem falla undir ákvæðið má nefna lánssamninga sem gerðir eru á grundvelli laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Lagt er til að 3. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er í samræmi við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, og þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 4. gr.


    Lagt er til að heimilt verði að víkja frá ákvæðum frumvarpsins sé það til hagsbóta fyrir neytanda. Greinin er efnislega samhljóða 24. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, og felur jafnframt í sér innleiðingu á 2. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar.

Um 5. gr.


    Lagt til að 3. gr. tilskipunarinnar sem tekur til skilgreininga verði innleidd í 5. gr. frumvarpsins.
     Um a-lið. Ákvæðið er samhljóða e-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán. Nánar er fjallað um árlega hlutfallstölu kostnaðar í 21. gr. frumvarpsins.
     Um b-lið. Ákveðið kveður á um orðskýringu á hugtakinu eignarréttarfyrirvari. Eignarréttarfyrirvari felur í sér skilmála í kaupsamningi þess efnis að seljandi haldi eignarrétti yfir seldum hlut, þrátt fyrir að kaupandi fái hlutinn í hendur, þar til hann hefur verið greiddur að fullu. Verði um vanefnd af hálfu kaupanda að ræða getur seljandi endurheimt hlutinn úr vörslum kaupandans með þeim hætti er greinir í 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins. Orðskýringin er í efnislega samhljóða f-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán.
     Um c-lið. Í ákvæðinu eru fastir útlánsvextir skilgreindir. Til nánari skýringar á hugtakinu má t.d. nefna að ef lánssamningur er gerður til 25 ára með þeim skilmálum að vextir séu fastir en endurskoða skuli þá að fimm árum liðnum frá gerð lánssamnings þá skulu þeir vextir eingöngu teljast fastir fyrstu fimm árin ef endurútreiknaðir vextir byggjast á einhverju öðru heldur en föstum fyrir fram ákveðnum hundraðshluta. Íslenskir fasteignalánssamningar þar sem vextir eru endurskoðaðir miðað við gengi ákveðinna vísitalna eða verðbólgu teljast ekki fastir eftir endurskoðunina.
     Um d-lið. Með greiðslumati er átt við útreikning á greiðslugetu viðkomandi með tilliti til þeirra þátta sem taldir eru upp í ákvæðinu.
     Um e-lið. Heildarfjárhæð láns er sú hámarksfjárhæð sem lánið getur hljóðað upp á. Höfuðstóll er vaxtaberandi fjárhæð láns.
     Um f-lið. Heildarfjárhæð sem neytandi greiðir er sú fjárhæð sem hann fær að láni auk alls kostnaðar við lántökuna sem hann þarf að bera.
     Um g-lið. Undir heildarlántökukostnað fellur allur kostnaður sem neytandi þarf að greiða í tengslum við lánssamning, þ.m.t. talið kostnaður við gerð greiðslumats og skjalagerð, ef við á.
    Í 2. málsl. er vísað til kostnaðar vegna viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning. Hér á landi er ekki algengt að gerð sé krafa um gerð sérstaks þjónustusamnings í tengslum við lánveitingar á ákveðnum kjörum, en dæmi þess þekkjast þó. Á tímabili var stundað af viðskiptabönkum og sparisjóðum að krefjast þess að lántaki keypti sérstaka líftryggingu til þess að fá lán á ákveðnum kjörum. Í þessum tilfellum er þá lánastofnunin sá sem hlýtur útgreiðslu bóta ef lántaki fellur frá og greiðist inn á höfuðstól lánsins.
     Um h-lið. Í ákvæðinu er hugtakið lánamiðlari skilgreint. Erlendis, sér í lagi í Bandaríkjunum og Bretlandi, er mjög algengt að lánamiðlarar hafi milligöngu um veitingu fasteignalána, en sú þróun hefur ekki átt sér stað hérlendis. Algengasta form lánamiðlara sem starfa hér á landi eru verslanir sem bjóða upp á fjármögnun frá þriðja aðila vegna vörukaupa neytanda (e. Point Of Sale Financing). Sem dæmi um lánamiðlara sem starfa hér á landi má nefna bílasölur, raftækjaverslanir, húsgagnaverslanir og tölvuverslanir þegar þessir aðilar eru milligönguaðilar um lánveitingu vegna sölu á vörum frá þeim sjálfum til neytanda.
     Um i-lið. Lánshæfismat er hugtak sem ekki hefur áður verið skýrt í íslenskum lögum. Til hugtaksins er vísað í 13. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, hvað varðar þær starfsheimildir sem starfsleyfi viðskiptabanka og sparisjóða getur tekið til. Lánshæfismat er mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á þeim atriðum sem talin eru upp í ákvæðinu.
     Um j-lið. Ákvæði 1. málsl. er í samræmi við c-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, og þarfnast ekki frekari skýringar. Ákvæði 2. málsl. tekur t.d. til vátryggingarsamninga þar sem greitt er fyrir samninginn með mánaðarlegum afborgunum.
     Um k-lið. Í ákvæðinu er skýrt hver telst lánveitandi í skilningi frumvarpsins og er ákvæðið í samræmi við b-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán.
     Um l-lið. Ákvæðið er í samræmi við a-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, og þarfnast ekki frekari skýringar.
     Um m-lið. Algengasta form opins lánssamnings hérlendis er lánssamningur í formi útgáfu kreditkorts. Rétt er þó að taka fram að öll kreditkort falla ekki undir skilgreininguna. Til opinna lánssamninga (e. open end credit agreements) telst aðeins ein tiltekin gerð hérlendra kreditkorta, svokölluð sveiflu- eða veltukort (e. revolving credit), þar sem ekki þarf að greiða úttekt að fullu heldur aðeins ákveðið hlutfall eða lágmark og eftirstöðvum skuldar er velt yfir á næsta tímabil. Hefðbundin kreditkort (e. charge cards) sem gefin eru út hér á landi eru með ákveðnum gjalddögum, venjulega mánaðarlega og þarf að greiða úttekt að fullu. Slík kort falla ekki undir skilgreininguna á opnum lánssamningi. Vert er einnig að taka fram að yfirdráttarheimild skv. e-lið 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins fellur ekki undir skilgreininguna nema hún sé ótímabundin.
     Um n-lið. Í skilmálum viðskiptabanka og sparisjóða um notkun veltureikninga er almennt kveðið á um að reikningseigandi ábyrgist að fylgjast með stöðu inneignar og koma þannig í veg fyrir að ósamþykktur yfirdráttur geti átt sér stað. Óframkvæmanlegt er að gera greinarmun á ástæðum óheimils yfirdráttar af veltureikningi, þ.e. ásetningi og gáleysi, og tæknilega er enn ekki unnt að koma í veg fyrir að ósamþykktur yfirdráttur eigi sér stað. Svokölluð síhringikort eru ein tegund debetkorta. Slíkum kortum hefur fjölgað mjög undanfarin ár, en ósamþykktur yfirdráttur á almennt ekki að geta átt sér stað á veltureikningum tengdum þeim. Á því eru þó undantekningar. Þannig mun sú framkvæmd til að mynda nokkuð algeng á álagstímum að slökkt sé á innhringingu greiðslukortaposa seljenda vöru eða þjónustu, sem veldur því að kort sem ella ættu að hringja eftir úttektarheimild gera það ekki.
     Um o-lið. Í ákvæðinu eru stýrivextir skilgreindir sem vextir af lánum sem Seðlabanki Íslands veitir, sbr. 10. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Í 10. gr. laga nr. 36/2001 segir m.a. að Seðlabanki Íslands ákveði vexti af lánum sem hann veitir. Með stýrivöxtum er átt við þau vaxtakjör sem Seðlabanki Íslands býður lánastofnunum á lánum til þeirra á hverjum tíma. Til einföldunar má segja að stýrivextir séu heildsöluverð peninga hjá Seðlabankanum sem lánastofnunum býðst sem þeir síðan endurselja til lántaka á smásöluverði. Í dag eru hérlendis stýrivextir þeir vextir sem Seðlabanki Íslands býður innlánsstofnunum þegar þær fá lán í sjö daga gegn veði í skuldabréfum. Stýrivexti á hverjum tíma má finna á heimasíðu Seðlabankans (sedlabanki.is) og hafa þeir staðið í 5,75% nafnvöxtum síðan 13. júní 2012. Áður voru stýrivextir þeir vextir sem Seðlabankinn bauð í svokölluðum endurhverfum verðbréfaviðskiptum, þ.e. þegar hann keypti af innlánsstofnunum skuldabréf og samdi um leið um að endurselja þeim bréfin aftur eftir tilgreindan tíma. Sama hvort um er að ræða endurhverf verðbréfaviðskipti eða lán gegn veði þá fær lántakinn í báðum tilfellum lán gegn því að leggja fram skuldabréf.
     Um p-lið. Í ákvæðinu eru tengdir lánssamningar skilgreindir. Nokkuð algengt er hérlendis að fólk nýti sér tengda lánssamninga, dæmi um slíkt eru raðgreiðslusamningar ýmissa verslana, svo sem um kaup á húsgögnum, tölvum eða bifreiðum.
     Um q-lið. Í ákvæðinu eru útlánsvextir skilgreindir. Með lánsfjárhæð í skilningi frumvarpsins er átt við útborgaða lánsfjárhæð til lántaka.
     Um r-lið. Til varanlegra miðla teljast þeir miðlar þar sem hægt er að geyma upplýsingar, sem beint er til móttakanda persónulega, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í hæfilegan tíma, svo sem geisladiskar, harðir diskar og vefsíður sem uppfylla áðurgreind skilyrði.
     Um s-lið. Lengi vel var hugtakið tékkareikningur notað um viðskiptareikning neytanda hjá viðskiptabanka. Notkun tékka er þó nánast óþekkt í dag og í ljósi þeirrar þróunar eru flestir viðskiptabankar farnir að tala um veltureikninga. Frumvarp þetta tekur mið af þeirri þróun og við umfjöllun um viðskiptareikning neytanda er vísað til veltureikninga. Hugtakið vísar einkum til mikils færslufjölda, en fyrri hlutinn er notaður í heiti annars konar fjármálaafurða, svo sem veltukort, veltulán og veltufjármögnun sem eiga það alla jafna sameiginlegt að færslufjöldi er umtalsverður.
     Um t-lið. Veltureikningur með yfirdráttarheimild er algeng tegund fjármálaþjónustu sem viðskiptavinum íslenskra viðskiptabanka og sparisjóða býðst.

Um II. kafla.


    Lagt er til að 2. þáttur tilskipunarinnar um upplýsingaskyldu verði innleiddur í II. kafla frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Lagt er til að 4. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 6. gr. frumvarpsins. Í 13. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, er fjallað um upplýsingar sem fram skulu koma í auglýsingum lánssamninga. Ákvæði greinar þessarar eru þó nokkuð ítarlegri, þó að efnislega sé ekki um mikla breytingu að ræða.
    Í 2. mgr. segir að veita skuli upplýsingar á skýran, hnitmiðaðan og áberandi hátt með lýsandi dæmi í samræmi við þá upptalningu er fram kemur í a–f-liðum. Til skýringar á því hvað teljist lýsandi dæmi (e. representative example) segir m.a. í drögum að viðmiðunarreglum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um túlkun á ákvæðum tilskipunar 2008/48/ EB hvað varðar kostnað við lántöku og árlega hlutfallstölu kostnaðar að dæmi eigi að vera lýsandi fyrir markaðsaðstæður og þau lánskjör sem neytendum standa til boða vegna tiltekinnar tegundar lánssamnings. Ef svo er ekki er hætta á að mikill munur verði á þeim upplýsingum sem veittar eru í auglýsingum og þeim upplýsingum sem neytanda eru veittar fyrir og við samningsgerð. Sökum þessa er mikilvægt að þær upplýsingar sem lánveitendur setja í lýsandi dæmi séu byggðar á raunsæju mati hvað varðar það tilboð sem verið er að bjóða neytendum.
     Um e-lið. Nokkuð algengt er að neytendur geri lánssamning um kaup á neytendavarningi eins og t.d. rafmagnstækjum, heimilistækjum og húsgögnum. Í slíkum tilfellum þarf að taka fram í auglýsingum fjárhæð útborgunar, ef einhver er, þegar gefnar eru upplýsingar um vexti eða kostnað neytandans af láninu.
    Í 2. mgr. er fjallað um tengda samninga, svo sem samning um líftryggingu í tengslum við veitingu fasteignaláns.

Um 7. gr.


    Í ákvæðinu koma fram þær upplýsingar sem lánveitanda ber að veita neytanda áður en lánssamningur er gerður og á hvaða formi upplýsingarnar skulu veittar. Í núgildandi lögum um neytendalán er ekki kveðið á um slíka skyldu og er þessi upplýsingaskylda því nýmæli hérlendis. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu lánveitanda til að veita neytanda með eðlilegum fyrirvara áður en samningur kemst á nauðsynlegar upplýsingar svo honum sé mögulegt að taka upplýsta ákvörðun um lántöku. Upplýsingarnar skulu snúa að ákveðnum lánssamningi og taka tillit til fram kominna óska og upplýsinga neytanda sem lánveitandi er tilbúinn að fallast á.
    Í 2. mgr. kemur fram á hvaða miðli upplýsingarnar skuli veittar, þ.e. á pappír eða öðrum varanlegum miðli, á stöðluðu eyðublaði sem birt verður í reglugerð sem ráðherra setur.
    Í 3. mgr. segir að lánveitandi teljist hafa uppfyllt upplýsingakröfur skv. 5.–8. gr. laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu ef hann hefur veitt upplýsingar á stöðluðu eyðublaði skv. 2. mgr.
    Í 4. mgr. kemur fram upptalning á þeim upplýsingum sem skulu koma fram skv. 1. mgr.
     Um g-lið. Vikið er að útreikningsaðferð árlegrar hlutfallstölu kostnaðar ef lánssamningur býður upp á mismunandi nýtingarleiðir sem hefðu áhrif á slíkan kostnað. Slíkir samningar er tæpast algengir þegar neytendur eiga í hlut, en vel er þekkt að kjör lána taki t.d. breytingum eftir veðstöðu og eftir atvikum fjölda þjónustuleiða sem neytandi velur sér. Ákvæðið mælir fyrir um upplýsingaskyldu ef neytandi uppfyllir ekki skilyrði fyrir þeim kjörum sem útreikningur miðast við.
     Um i-lið. Í ákvæðinu er fjallað um þær upplýsingar sem ber að veita í tengslum við kostnað við lánalínu og nýtingu greiðsluleiða. Hérlendis er yfirdráttarheimild algengasta form lánalínu en ákvæðið tekur til hvers konar lána með svipuðum einkennum, þ.e. rammasamnings um hámarkslán, lánstíma og lánskjör með breytilegri notkun lánsheimildar eða lánalínu.
     Um j-lið. Ákvæðið kveður á um að lánveitandi skuli veita upplýsingar um kostnað vegna þinglýsingar og skráningar samnings. Undir ákvæðið falla stimpilgjöld og önnur gjöld, svo sem við að tryggja veðréttindi.
     Um l-lið. Ákvæðið felur í sér að lánveitanda ber að veita upplýsingar um vexti sem og kostnað vegna vanskila. Undir ákvæðið falla m.a. dráttarvextir og kostnaður við frum- og milliinnheimtu samkvæmt innheimtulögum, nr. 95/2008.
     Um m-lið. Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu lánveitanda til að láta neytanda í té upplýsingar um afleiðingar þess að afborganir láns eru ekki greiddar á réttum tíma, svo sem um mögulega gjaldfellingu láns o.s.frv.
     Um n-lið. Lánveitandi skal samkvæmt ákvæðinu veita neytanda upplýsingar um þær tryggingar sem mögulega er farið fram á vegna lántökunnar, svo sem sjálfskuldarábyrgðir og veð.
     Um p-lið. Í ákvæðinu kemur fram skylda lánveitanda til að láta neytanda í té upplýsingar um rétt til greiðslu fyrir gjalddaga og mögulegan kostnað samfara því (uppgreiðslugjald).
    Í 5. mgr. kemur fram að allar viðbótarupplýsingar sem lánveitandi veitir neytanda skulu veittar í sérstöku skjali sem má vera viðauki við staðlað eyðublað sem ráðherra birtir í reglugerð, sbr. 2. mgr.
    Ákvæði 6. mgr. felur í sér skyldu lánveitanda til að veita þær upplýsingar sem kveðið er á um í 9. gr. laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, þegar um er að ræða sölu eða markaðssetningu í síma. Þær upplýsingar fela m.a. í sér að í upphafi símtals skal greina nafn þess sem hringir og nafn þjónustuveitanda og veita upplýsingar um að tilgangur símtalsins sé viðskiptalegs eðlis. Þá ber þjónustuveitanda ávallt að lýsa helstu einkennum fjármálaþjónustunnar sem boðin er. Auk þess ber þjónustuveitanda að gefa upplýsingar um heildarverð að meðtöldum öllum þóknunum, kostnaði, útgjöldum og sköttum, eða ef ekki er unnt að gefa upp nákvæmt verð skal gefa upp grundvöll fyrir útreikningi verðs. Þá skal tilkynna neytanda að mögulegt sé að hann þurfi að greiða aðra skatta og kostnað, sem hvorki eru greiddir fyrir milligöngu þjónustuveitanda né lagðir á af honum. Upplýst skal um rétt til að falla frá samningi og allt sem nýtingu slíks réttar tengist. Að lokum ber þjónustuveitanda skylda til að upplýsa neytanda að frekari upplýsingar liggi fyrir ef hann óskar eftir þeim. Skal þjónustuveitandi upplýsa neytanda hvers eðlis þær upplýsingar eru.
    Í 9. mgr. er vísað til lánssamninga sem ekki hafa verið við lýði hér á landi, svokallaðra Dowry-veðlána. Eitt helsta einkenni þeirra er það að lántaki greiðir ekki af láninu sjálfu heldur mynda afborganir sjóð sem lánveitandi eða t.d. verðbréfafyrirtæki á hans vegum stýrir og ávaxtar. Miðað er við að sjóðurinn nægi til þess að standa straum af uppgjöri lánsins á lokagjalddaga. Lán af þessu tagi sættu talsverðri gagnrýni þegar um ávöxtunarmöguleika þrengdist í bankakreppunni árið 2008 þannig að lántakendur stóðu frammi fyrir því að sjóðsstaða hélst alls ekki í hendur við eftirstöðvar láns.
    Í 10. mgr. er fjallað um skyldu lánveitenda og, eftir atvikum, lánamiðlara til að veita neytanda þær upplýsingar sem hann þarf til þess að taka upplýsta ákvörðun um það hvort umrædd lántaka mæti hans þörfum og sé í samræmi við greiðslugetu hans. Varðandi þær upplýsingaskyldur sem hvíla á lánamiðlara vísast til athugasemda við 9. gr. til nánari skýringa.

Um 8. gr.


    Í greininni koma fram þær upplýsingar sem lánveitanda ber að veita vegna sérstakra tegunda lánssamninga, svo sem lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar. Sérstaklega er kveðið á um að upplýsingarnar skuli veittar nægilega löngu áður en neytandinn verður bundinn af lánssamningi eða tilboði varðandi lánssamning. Um er að ræða innleiðingu á 6. gr. tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. kemur fram að upplýsingakrafan taki til lánssamninga eins og um getur í 1. og 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. eru þær upplýsingar sem fram skulu koma taldar upp.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að allar upplýsingar sem veittar eru skuli vera jafnáberandi. Þessi krafa er sett fram svo lánveitandi geti ekki viljandi gert mikilvæg atriði minna áberandi með einhverjum hætti. Jafnframt er vísað til þess að lánveitandi sem veitt hefur lánsupplýsingar á stöðluðu eyðublaði, sbr. 2. mgr. 7. gr., hefur uppfyllt kröfur þessarar greinar og upplýsingakröfur laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu.
    Í 4. mgr. kemur fram að þegar um er að ræða lánssamning sem fellur undir 3. mgr. 2. gr. þá þarf jafnframt að veita viðbótarupplýsingar þær er fram koma í undir a- og b-lið.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að um samninga er falla undir 1. mgr. 2. gr. gildi aðeins ákvæði 1.–3. mgr.
    Í 6. mgr. eru taldar upp þær upplýsingar sem veita skal er um samskipti í síma er að ræða og þegar neytandi óskar eftir yfirdráttarheimild þegar í stað.
    Í 7. mgr. kemur fram að þrátt fyrir að yfirdráttarheimildir sem endurgreiða þarf innan eins mánaðar falli utan gildissviðs laganna, sbr. e-lið 1. mgr. 3. gr., skal lánveitandi láta neytanda í té lýsingu á helstu einkennum fjármálaþjónustunnar sem a.m.k. felur í sér þau atriði sem um getur í c-, e-, f- og h-lið 2. mgr. 8. gr., þegar um er að ræða samskipti í síma og þegar neytandi óskar eftir því að fá yfirdráttarheimild þegar í stað.
    Í 8. mgr. kemur fram skylda lánveitanda til að láta lántaka í té, ef lántaki óskar eftir því, afrit af drögum að lánssamningi lántaka að kostnaðarlausu sem hafa að geyma þær upplýsingar um samning sem kveðið er á um í 11. gr., að svo miklu leyti sem hún á við. Þar sem lánveitanda er frjálst að velja hverjum hann veitir lán þá gildir ákvæði þetta eðli máls samkvæmt ekki um þau tilvik þar sem lánveitandi er ófús að veita lán til viðkomandi neytanda.
    Í 9. mgr. kemur fram að ef stofnað er til lánssamnings með fjarsölu að beiðni neytanda, sbr. 3. tölul. 4. gr. laga nr. 33/2005, og lánveitanda er ókleift sökum þess að veita upplýsingar skv. 1.–5. mgr. 8. gr., þá skal lánveitandi þegar í stað eftir gerð samningsins uppfylla skyldur sínar skv. 1.–5. mgr. með því að veita þær upplýsingar um lánssamninginn skv. 12. gr. frumvarpsins sem eiga við.

Um 9. gr.


    Færst hefur í aukana að vöru- og þjónustuveitendur bjóði neytendum upp á að ganga frá lánssamningi um fjármögnun hinnar keyptu vöru- eða þjónustu á staðnum. Seljandi er þá allajafna að miðla lánum í aukastarfi, þ.e. aðalstarf hans er sala vöru eða veiting þjónustu og lánamiðlun aðeins viðbótarþjónusta sem boðið er upp á neytendum til hægðarauka. Í slíkum tilfellum er lánamiðlari ekki bundinn af þeim upplýsingakröfum er fram koma í 7.–8. gr. frumvarpsins. Veita á neytanda upplýsingar samkvæmt greinunum, en sú skylda hvílir á lánveitanda ekki lánamiðlara. Í flestum tilfellum mun þó lánamiðlari væntanlega sjá um að veita lántaka umræddar upplýsingar á grundvelli samnings við lánveitanda þess efnis. Ef aðili hefur lánamiðlun að aðalstarfi þá gilda ákvæði 7.–8. gr. frumvarpsins um hann. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 8. gr. tilskipunarinnar.

Um 10. gr.


    Lagt er til að 8. gr. tilskipunarinnar um skyldu til að meta lánshæfi verði innleidd í 10. gr. frumvarpsins. Greiðslumat hefur verið framkvæmt við lánveitingar þar sem sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna eða lánsveð eru til tryggingar frá gildistöku samkomulags um notkun ábyrgða árið 1998 og síðar eftir samkomulagi frá 2001. Að samkomulaginu stóðu stjórnvöld, Neytendasamtökin, Samtök íslenskra sparisjóða og Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (nú Samtök fjármálafyrirtækja). Með gildistöku laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, voru sambærileg ákvæði um greiðslumat fest í lög. Auk þess hafa flestir aðilar á fasteignalánamarkaði sett eigin reglur um að umsækjendur lána standist greiðslumat áður en til lánveitingar kemur. Því má ætla að lánamarkaðurinn eigi tiltölulega auðvelt með að aðlaga sig að breytingunni. Ákvæðið felur einnig í sér þá nýbreytni, að gerður er greinarmunur á lánshæfismati og greiðslumati. Lánshæfismat í skilningi frumvarpsins er víðtækara hugtak en greiðslumat og getur tekið til huglægra þátta auk hinna hlutlægu, svo sem skilvísi og greiðslusögu. Þetta mætti orða sem svo, að með lánshæfismati sé leitast við að staðreyna greiðsluviljann en greiðslugetu með greiðslumati. Líkt og ráða má af ákvæðinu er ástæðan fyrir tvískiptingunni einnig sú, að til grundvallar minni háttar lánum eða breytingum á eldri lánum geti einungis lánshæfismat talist fullnægjandi. Einnig er litið til þess, að lánshæfismat er í örri þróun með aukinni tölvuvæðingu og bættu aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum, allt innan þeirra takmarkana sem persónuverndarsjónarmið setja. Vert er að taka fram í þessu sambandi að lántaki þarf að framvísa umbeðnum upplýsingum sjálfur eða veita samþykki sitt fyrir því að lánveitandi afli þeirra úr gagnasafni, sbr. 1. og 2. tölul. 8. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Í frumvarpinu er ekki tekin afstaða til stöðu lánssamninga þegar lánað er án þess að lánshæfismat fari fram, og greiðslumat, ef við á, eða ef lántaki hefur augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið. Dómstólum er látið eftir að móta framkvæmd á því sviði. Tekið er fram að lánveitandi ber ekki ábyrgð á því ef lántaki framvísar röngum upplýsingum vegna framkvæmdar lánshæfis- eða greiðslumats, nema hann viti, eða eðlilegt þyki með tilliti til aðstæðna að hann hafi mátt vita að upplýsingarnar séu rangar. Lánveitandi ber ekki ábyrgð á því ef lántaki framvísar röngum upplýsingum vegna framkvæmdar lánshæfis- eða greiðslumats. Ef að ákvörðun um lánveitingu er tekin á grundvelli rangra upplýsinga frá lántaka þá skal ekki beita stjórnvaldssektum gagnvart lánveitanda, sbr. e-lið 1. mgr. 29. gr., nema ljóst þyki að lánveitandi vissi eða mátti vita að upplýsingarnar væru rangar.
    Ef óskað er eftir hærri lánsheimild en áður hefur verið veitt eða framlengingu lánstíma skal endurnýja lánshæfis- og, ef við á, greiðslumat. Ekki þarf að þó að endurnýja mat ef hækkun lánssamnings nemur 500.000 kr. eða lægri fjárhæð eða framlenging varir lengst til þriggja mánaða.
    Samræmdar efnisreglur um gerð greiðslumats hafa ekki verið færðar í laga- eða reglugerðarbúning og er lagt til að á því verði ráðin bót. Þó ber þess að geta að í áðurnefndu samkomulagi um notkun ábyrgða var vísir að slíkum reglum hvað tilteknar lánategundir varðaði. Þá hefur ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna og arftaki hennar, embætti umboðsmanns skuldara, notað tiltölulega fastmótaðar aðferðir í þessum efnum um árabil þegar um mat á greiðslugetu aðila í greiðsluerfiðleikum hefur verið að ræða.
    Lagt er til að ráðherra skuli setja reglugerð um nánari framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats.

Um III. kafla.


    Lagt er til að 3. þáttur tilskipunarinnar verði innleiddur í III. kafla, um aðgang að gagnasafni. Í kaflanum er einungis ein grein sem skiptist annars vegar í aðgang lánveitanda að gagnasöfnum annarra aðildarríkja ef um lánveitingar yfir landamæri er að ræða og hins vegar upplýsingaskyldu lánveitanda til neytanda ef lánsumsókn hans er hafnað á grundvelli leitar í gagnasafni.

Um 11. gr.


    Lagt er til að 9. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 11. gr. frumvarpsins. Lánveitendur sem veita lán yfir landamæri skulu hafa óhindraðan aðgang að þeim gagnasöfnum sem notuð eru til að meta lánshæfi neytenda í viðkomandi aðildarríki. Með aðildarríki er átt við ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar. Á Íslandi þurfa gagnasöfn sem falla undir ákvæðið starfsleyfi frá Persónuvernd til að annast söfnun og skráningu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, í því skyni að miðla þeim til annarra, sbr. 33. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 712/2008, um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð nr. 246/ 2001, um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Í 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins er upplýsingaskylda lögð á lánveitanda ef hann hafnar lánsumsókn á grundvelli upplýsinga um viðkomandi neytanda sem fram koma vegna leitar lánveitanda í gagnasafni. Lánveitandi skal upplýsa neytanda, þegar í stað og endurgjaldslaust, um niðurstöðu slíkrar leitar, m.a. á hvaða upplýsingum úr gagnasafninu höfnunin byggist. Jafnframt skal hann upplýsa neytanda um gagnasafnið sem leitað var í, hið minnsta nafn þess og hvers konar upplýsingum það safnar.

Um 12. gr.


    Lagt er til að 10. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 12. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu eru taldir upp þær upplýsingar sem fram þurfa að koma í lánssamningi. Þar sem þær upplýsingar sem fram þurfa að koma við og fyrir samningsgerð eru að mestu leyti þær sömu þá vísast til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins er fjallar um upplýsingar er ber að veita fyrir samningsgerð til nánari skýringar.
     Um i-lið 2. mgr. Í ákvæðinu kemur fram sú skylda lánveitanda að tilgreina það sérstaklega í lánssamningi ef upplýsingar í vaxta- og kostnaðartöflum vegna lánssamnings kunna að taka breytingum. Með niðurgreiðslutöflu er átt við töflu sem sýnir hvernig höfuðstóll lánsins er greiddur niður.
     Um k-lið 2. mgr. Í ákvæðinu er fjallað um þær upplýsingar sem ber að veita í tengslum við kostnað við lánalínu og nýtingu greiðsluleiða. Hérlendis er yfirdráttarheimild algengasta form lánalínu en ákvæðið tekur til hvers konar lána með svipuðum einkennum, þ.e. rammasamnings um hámarkslán, lánstíma og lánskjör með breytilegri notkun lánsheimildar eða lánalínu.
     Um t-lið 2. mgr. Hvað varðar þau úrræði sem neytendum standa til boða utan dómstóla til að fá úr málum sínum leyst er snúa að neytendalánum ber einna helst að nefna úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 32. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. er vísað til lánssamninga sem ekki hafa verið við lýði hér á landi, svokallaðra Dowry-veðlána. Nánari umfjöllun um þessa tilteknu lánstegund er að finna í athugasemdum við 7. mgr. 7. gr.

Um 13. gr.


    Lagt til að 11. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 13. gr. frumvarpsins. Með viðmiðunargengi er átt við gengi sem er notað til grundvallar útreikningi við gjaldeyrisviðskipti og er aðgengilegt hjá lánveitanda og opinberlega. Viðmiðunarvextir í skilningi þessa frumvarps er vaxtastig sem notað er til grundvallar útreikningi á vöxtum og aðgengilegt er opinberlega og báðir aðilar að lánssamningi geta sannreynt, svo sem lægstu vextir seðlabankans á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum lánastofnana.

Um 14. gr.


    Lagt er til að 12. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 14. gr. frumvarpsins. Ákvæðið fjallar um þá viðvarandi upplýsingaskyldu er hvílir á lánveitanda í tengslum við lán í formi yfirdráttarheimildar. Varðandi skilgreiningu á viðmiðunargengi og viðmiðunarvöxtum vísast til athugasemda við 13. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.


    Lagt er til að 13. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 15. gr. frumvarpsins. Ákvæðið fjallar um svokallaða opna lánssamninga. Hugtakið opinn lánssamningur er skilgreint í m-lið 5. gr. sem samningur þar sem neytanda er gert kleift að fá endurtekna fyrirgreiðslu innan umsaminnar úttektarheimildar. Algengasta form opins lánssamnings hérlendis er lánssamningur í formi útgáfu ákveðinnar tegundar kreditkorts, þ.e. svokallaðs sveiflu- eða veltukorts (e. revolving credit), þar sem ekki þarf að greiða úttekt að fullu heldur aðeins ákveðið hlutfall eða lágmark og eftirstöðvum skuldar er velt yfir á næsta tímabil.
    Í 1. mgr. kemur fram að lántaki hefur óskilyrta heimild til að segja upp opnum lánssamningi sér að kostnaðarlausu, nema aðilar hafi komið sér saman um uppsagnartímabil sem má að hámarki vera einn mánuður. Lánveitandi hefur ekki heimild til þess að segja upp opnum lánssamningi nema slíkt komi fram í samningi aðila á milli. Uppsagnarfrestur má aldrei vera styttri en tveir mánuðir.
    Í 2. mgr. kemur fram að lánveitanda er heimilt, sé kveðið á um slíkt í samningi aðila á milli, að loka fyrir frekari notkun úttektarheimildar. Ákvörðun um lokun úttektarheimildar skal alltaf rökstudd og byggð á hlutlægum grunni. Ástæður sem geta legið til grundvallar slíkri lokun geta m.a. verið grunur um óheimila eða sviksamlega nýtingu á úttektarheimild eða veruleg aukin líkindi á að neytandi verði ófær um að standa við þá skuldbindingu sína að endurgreiða lánið.

Um 16. gr.


    Lagt til að 14. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 16. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu er kveðið á um rétt neytanda til að falla frá lánssamningi innan 14 daga. Ákvæðið miðast við það að neytandi geti fallið frá samningi án þess að gefa fyrir því nokkrar ástæðu. Reglur varðandi það hvenær þessi 14 daga frestur byrjar að líða er að finna í a- og b-lið 2. mgr., en þar koma fram tvenns konar tímamörk. Annars vegar skal miða við að fresturinn byrji að líða þann dag sem samningur er gerður og hins vegar er í b-lið 2. mgr. kveðið á um að ef neytanda eru ekki veittar þær upplýsingar sem kveðið er á um að veita skuli skv. 12. gr. frumvarpsins fyrr en síðar skal frestur miðast við það tímamark. Þannig verður neytandi aldrei bundinn af samningi fyrr en honum hefur borist upplýsingarnar. Þar sem gert er ráð fyrir því í 12. gr. frumvarpsins að umræddar upplýsingar komi fram í samningnum sjálfum má þó gera ráð fyrir að sjaldan reyni á síðara tímamarkið. Miðað er við að 14 daga frestur byrji að líða þannig að dagurinn eftir samningsgerð, eða eftir atvikum þegar upplýsingar berast, teljist fyrsti dagur og svo framvegis.
    Í a-lið 3. mgr. er kveðið á um það hvernig neytandi eigi að bera sig að hyggist hann nýta sér rétt sinn til að falla frá samningi. Neytanda ber að tilkynna lánveitanda, innan þess tímafrests sem kveðið er á um 1. mgr., hyggist hann nýta sér rétt sinn til að falla frá samningi. Telst það skilyrði m.a. uppfyllt ef send er tilkynning til þjónustuveitanda í ábyrgðarpósti, símbréfi með kvittun eða tölvubréfi. Tilkynning neytanda til lánveitanda skal jafnframt vera í samræmi við það sem kveðið er á um samningi aðila, enda hafi neytandi fengið sérstakar upplýsingar um það, sbr. p-lið 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins.
    Þá er í b-lið 3. mgr. kveðið á um það að kjósi neytandi að nýta sér rétt sinn til að falla frá samningi skuli hann endurgreiða lánveitanda útgreiddan höfuðstól, vexti og, ef við á, verðbætur sem hafa fallið á lánið á því tímabili frá því að lánið var greitt út og þar til endurgreiðsla fer fram. Miða skal vaxtaútreikning við þá vexti sem kveðið er á um í samningi aðila en lánveitanda er óheimilt að reikna sér álag af neinu tagi við þann útreikning.
    Í fyrri málslið 4. mgr. er kveðið á um það að lánveitandi eigi ekki rétt á neinum annars konar greiðslum frá neytanda, fyrir utan óafturkræf opinber gjöld sem lánveitandi hefur greitt til hins opinbera vegna lántökunnar. Athygli er vakin á að gerður er áskilnaður um það í áðurnefndu ákvæði tilskipunarinnar að greiðsla slíkra gjalda hafi farið fram og ómögulegt sé að fá þau endurgreidd. Hér á landi má reikna með að það séu fyrst og fremst stimpilgjöld vegna tryggingarbréfa og skuldabréfa sem geti komið hér til álita, en um þá gjaldtöku er fjallað í lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald. Í lögunum er kveðið á um að stimpilskyld skjöl skuli stimpluð innan tveggja mánaða frá útgáfudegi, nema eindagi sé fyrr. Jafnframt er kveðið á um það að lánastofnanir séu skyldugar til að stimpla skjöl án endurgjalds. Þá er enn fremur kveðið á um þá meginreglu í áðurnefndum lögum að standa skuli ríkissjóði skil á innheimtu stimpilgjalds fyrir 15. dag næsta mánaðar eftir að stimplun á sér stað. Ákvæði laga um stimpilgjald leiða þó ein og sér ekki til að neytendur þurfi ekki að sæta því að greiða stimpilgjald kjósi þeir að falla frá samningi. Viðkomandi lánveitandi sem jafnframt skal standa skil á stimpilgjaldi til ríkissjóðs þarf allt að einu að óska eftir endurgreiðslu eða niðurfellingu gjaldsins hjá sýslumanni til þess að leiðrétta skilagrein sína þegar að uppgjöri kemur. Fjármálaráðuneytið gaf út umburðarbréf árið 1993 til sýslumanna þar sem þeim var heimilað að endurgreiða stimpilgjald í nánar tilgreindum tilvikum. Ráðuneytið setti nýverið „Verklagsreglur við innheimtu stimpilgjalda“ (jan. 2012). Í athugasemdum með 14. gr. reglnanna (sem fjalla um endurgreiðslu) segir að nefnt umburðarbréf gildi enn. Þá segir enn fremur að um endurgreiðslu getur verið að ræða vegna skulda- eða tryggingarbréfs í þeim tilvikum sem skjali er vísað frá þinglýsingu eða ef skjal er afturkallað úr þinglýsingu eða því aflýst. Gæta þarf þess að skjali sé aflýst vegna þess að hætt hafi verið við lántöku. Bréfið verður að bera með sér að ekki hafi verið greitt af því.
    Með hliðsjón af framangreindum heimildum virðast gildandi lög ekki torvelda framkvæmd ákvæða frumvarps þessa varðandi rétt lántaka til falla frá samningi.
    Í síðari málslið 4. mgr. er þrátt fyrir ákvæði fyrri málsliðar 4. mgr. og lokamálsliðar b-liðar 3. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar lagt til að lánveitandi eigi þó rétt á greiðslu vegna skjalagerðar sem farið hefur fram í tengslum við töku veðláns, enda sé gjaldtakan í samræmi við verðskrá lánveitanda. Þetta helgast af því að tilskipunin gildir, eins og áður segir, ekki um veðlán, þótt aðildarríkjum sé heimilt að fella slík lán undir landslög sem byggja á ákvæðum hennar. Í ljósi þess að töluverð vinna getur legið að baki skjalagerð vegna slíkrar lántöku þykir því rétt að lánveitanda sé heimilt að fara fram á greiðslu vegna hennar.
    Í 5. mgr. kemur fram að sé viðbótarþjónusta veitt í tengslum við lánssamning, annaðhvort af lánveitanda sjálfum eða þriðja aðila á grundvelli samnings við lánveitanda skal neytandi ekki lengur vera bundinn af samningi um slíka viðbótarþjónustu nýti hann rétt sinn til að falla frá samningi samkvæmt þessari grein. Ekki algengt hér á landi að gerð sé krafa um gerð sérstaks þjónustusamnings í tengslum við lánveitingu á ákveðnum kjörum. Til nánari skýringar á viðbótarþjónustu vísast til athugasemda við g-lið 5. gr. frumvarpsins.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að eigi neytandi rétt til að falla frá samningi skv. 1., 3. eða 4. mgr. skuli ákvæði um sama efni í lögum um fjarsölu á fjármálaþjónustu og lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga ekki gilda.

Um 17. gr.


    Lagt er til að 15. gr. tilskipunarinnar um tengda lánssamninga verði innleidd í 17. gr. frumvarpsins. Samkvæmt öðrum ákvæðum frumvarpsins hefur neytandi rétt til að falla frá almennum lánssamningi að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ákvæðið gerir neytenda þetta kleift þrátt fyrir að lántakan tengist kaupum á vöru eða þjónustu. Oft er aðstaðan sú að sala vöru eða veiting þjónustu og lánveiting er ekki á sömu hendi. Neytandi semur einungis við seljanda vöru en á engin samskipti við lánveitanda. Án ákvæða af þessu tagi gæti neytandi verið bundinn af lánssamningi þó að varan hefði ekki haft tilskilda eiginleika. Að óbreyttu væri eina úrræði hans að greiða lánið og endurkrefja seljanda með þeim kostnaði og fyrirhöfn sem slíkt hefði í för með sér að ógleymdri þeirri áhættu sem bág staða seljanda gæti haft í för með sér.
    Ólíkt almennu ákvæði um rétt til að falla frá lántöku er rétturinn ekki bundinn við önnur tímamörk en þau sem varða rétt neytenda til að falla frá kaupum. Ákvæðið tekur ekki sérstaklega til kostnaðar af samningsgerðinni eða skilum á lánsfé.
    Í 2. mgr. er fjallað um rétt neytanda til að beita úrræðum gegn lánveitanda ef hann hefur beitt úrræðum gegn seljanda vegna vanefnda samnings, en ekki fengið þá úrlausn sem hann á rétt á samkvæmt lögum. Eitt af þeim skilyrðum er talin eru upp til þess að neytandi geti átt rétt skv. 2. mgr. er ef að vara eða þjónusta er ekki í samræmi við samning um slíka afhendingu. Til skýringar er rétt að taka fram að hér er t.d. átt við að varan sé haldin galla í skilningi laga um neytendakaup eða laga um þjónustukaup. Ljóst er að til þess að neytandi geti nýtt sér þennan rétt sinn þarf dómur að hafa gengið um að hann hafi sannarlega ekki fengið fulla afhendingu í samræmi við samning og hann eigi rétt á úrbótum.
    Hvað varðar þau úrræði sem ákvæðið vísar til þá getur neytandi beitt þeim úrræðum gegn lánveitanda sem hann gæti almennt beitt gegn seljanda, svo sem úrræði samkvæmt lögum um neytendakaup og almenn réttarfarsúrræði. Hann getur þó ekki krafist úrbóta eða nýrrar afhendingar í skilningi laga um neytendakaup og laga um þjónustukaup, enda væri slíkt óþarflega íþyngjandi kvöð gagnvart lánveitendum.
    Í 3. mgr. er fjallað um þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt eigi neytandi að geta nýtt sér úrræði gegn lánveitanda skv. 2. mgr. Vísað er til þess að bú seljanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, honum hafi verið veitt heimild til að leita nauðasamnings eða hjá honum hafi verið framkvæmt árangurslaust fjárnám.
    Í 4. mgr. er vísað til þess að neytandi getur ekki krafið seljanda um frekari bætur en nemur höfuðstól lánssamningsins á þeim tíma sem krafa um úrbætur er gerð. Réttur neytanda skv. 2. mgr. er miðaður að því að hann geti leitað úrræða gegn lánveitanda í þeim tilfellum sem hann hefur þegar reynt slíkt gegn seljanda en ekki fengið þá úrlausn sem hann á rétt á samkvæmt lögum. Þessi réttur takmarkast þó við þá fjárhæð sem er eftirstandandi skuld neytanda við lántaka á þeim tíma sem krafa um úrbætur er sett fram gagnvart lánveitanda. Hugsunin er því sú að neytandi þurfi ekki að halda áfram að greiða að fullu fyrir vöru eða þjónustu sem hann fékk ekki afhenta í samræmi við samning, þó að ekki sé hægt að leita fullra efnda frá seljanda. Til þess að neytandi geti leitað úrræða gegn lánveitanda í þeim tilfellum er greinir í b- eða c-lið 3. mgr. þarf hann að hafa lýst kröfu á hendur seljanda eða þrotabúi hans.
    Í 5. mgr. er fjallað um fasteignalán. Fasteignir teljast seint til vöru eða þjónustu, þó er talin full ástæða til þess að koma í veg fyrir misskilning að árétta sérstaklega að neytandi njóti ekki réttar til að beita úrræðum gegn lánveitanda á grundvelli 2. mgr. vegna fasteignalána. Fasteignalán falla ekki innan gildissviðs tilskipunar 2008/48/EB og er aðildarríkjum því frjálst að ákveða hvaða reglur gilda um þau, m.a. sökum þess að eðli fasteignalána er annað heldur en hefðbundinna neytendalána og þær fjárhæðir sem um ræðir mun hærri.

Um 18. gr.


    Lagt er til að 16. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 18. gr. frumvarpsins. Í greininni er kveðið á um rétt neytenda til endurgreiðslu fyrir gjalddaga. Samkvæmt ákvæðinu hefur neytandi rétt á að heildarlántökukostnaður sé lækkaður vegna vaxta og kostnaðar til loka lánstímans greiði hann fyrir gjalddaga. Í ákveðnum tilvikum getur lánveitandi þó átt rétt til sanngjarnra bóta vegna greiðslu fyrir gjalddaga. Um slíkar bætur er í núgildandi lögum og almennri málnotkun notað hugtakið uppgreiðslugjald og er því notast við það hugtak í frumvarpinu. Í 16. gr. og 16. gr. a núgildandi laga um neytendalán eru ákvæði um uppgreiðslugjald. Almennt ákvæði um rétt neytanda til greiðslu fyrir gjalddaga er í 16. gr. þeirra laga. Ákvæðið hefur verið í lögum frá því árið 1993 og með setningu þess var 8. gr. tilskipunar 87/102/EBE innleidd. Er skýrt kveðið á um það að neytandi eigi rétt á að standa skil á skuldbindingum sínum fyrir þann tíma sem ákveðinn er í samningi. Í tilskipun 87/102/EBE, sem breytt var með tilskipun ráðsins 90/88/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/7/EB, eru engin ákvæði sem takmarka umsamdar bætur til lánveitanda greiði neytandi fyrir gjalddaga. Með lögum nr. 63/2008 var lögum um neytendalán breytt og nýtt ákvæði lögfest, 16. gr. a, sem takmarkar fjárhæð uppgreiðslugjalds og segir nánar til um í hvaða tilvikum megi krefja neytendur um gjaldið.
    Í nýrri tilskipun Evrópusambandsins um neytendalán sem ætlunin er að innleiða með þessu frumvarpi eru hins vegar ófrávíkjanleg ákvæði um takmarkanir á uppgreiðslugjaldi. Tilskipunin gerir ráð fyrir að reglur um hámark uppgreiðslugjalds vegna neytendalána verði samræmdar innan Evrópusambandsins. Verði frumvarpið að lögum ganga í gildi nýjar reglur um heimildir lánveitanda til töku uppgreiðslugjalds.
    Ekki er ætlunin að 17. gr. frumvarpsins gildi afturvirkt. Sé kveðið á um uppgreiðslugjald í samningum gerðum fyrir gildistöku laga nr. 63/2008, frá 12. júní 2008, halda slík ákvæði gildi sínu. Eftir gildistöku ákvæða um uppgreiðslugjald takmarka þau ákvæði, eins og þau eru á hverjum tíma, samningsfrelsi lánveitenda og neytenda. Verði frumvarp þetta að lögum þurfa því samningar sem eru gerðir eftir gildistöku laganna að uppfylla skilyrði þeirra um uppgreiðslugjald.
    Í 1. mgr. er innleitt almennt ákvæði um rétt neytenda til að greiða fyrir gjalddaga sem efnislega samhljóða 1. mgr. 16. gr. núgildandi laga um neytendalán.
    Í 2. mgr. er lánveitanda veittur réttur til að fá sanngjarnar bætur vegna greiðslu fyrir gjalddaga. Uppgreiðslugjaldið skal byggjast á hlutlægum grunni vegna kostnaðar eða tjóns sem lánveitandi hefur orðið fyrir vegna greiðslunnar. Það skilyrði er þó sett að greiðslan sé gerð á því tímabili sem útlánsvextir eru fastir.
    Í 3. mgr. er lagt til að sett verði þak á hámarksfjárhæð uppgreiðslugjalds. Annars vegar er um að ræða hámark 1% af fjárhæð endurgreiðslunnar þegar lengri tími en eitt ár er milli hennar og loka lánstíma samkvæmt samningi aðila og hins vegar hámark 0,5% ef eitt ár eða minna er eftir af samningstímanum. Þessi regla felur þannig í sér að vilji neytandi til að mynda greiða 2.000.000 kr. inn á höfuðstól láns þegar tvö ár eru eftir af lánstíma er einungis heimilt að krefjast 20.000 kr. af þeirri greiðslu sem uppgreiðslugjald.
    Í 4. mgr. er að finna ákvæði sem felur í sér innleiðingu á 5. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar sem takmarkar enn frekar hversu hátt uppgreiðslugjald lánveitandi má krefja neytanda um þar sem það má ekki vera hærra en sú vaxtafjárhæð sem neytandi hefði greitt til enda lánstímans.
    Þá er í 5. mgr. lagt til bann við uppgreiðslugjaldi í fjórum tilvikum.
     Um a-lið. Greiðslur samkvæmt vátryggingarsamningi sem er ætlað að tryggja greiðslu lánsins. Þetta á t.d. við um líftryggingu sem tekin er til tryggingar greiðslu ef neytandi fellur frá.
     Um b-lið. Kveðið er á um að óheimilt sé að krefjast uppgreiðslugjalds þegar um er að ræða yfirdráttarheimild.
     Um c-lið. Lán með breytilegum vöxtum eru undanþegin en sambærileg regla er í 1. mgr. 16. gr. a núgildandi laga. Reglur um uppgreiðslugjald miða við að lánveitandi verði fyrir tjóni og eigi rétt til bóta sé lán endurgreitt fyrir gjalddaga, svo sem vegna ýmiss konar kostnaðar og vaxtataps. Í þeim tilvikum þar sem vextir eru breytilegir telst tjón hans það óverulegt að það réttlæti ekki töku uppgreiðslugjalds af hálfu lánveitanda, enda geti hann endurlánað þá fjármuni sem hann fær með þessum hætti á sömu kjörum. Þetta ákvæði tengist 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins þar sem einnig er gert ráð fyrir að lánveitandi eigi ekki rétt á bótum í þeim tilvikum sem greitt er á því tímabili sem útlánsvextir eru breytilegir.
     Um d-lið. Kveðið er á um að lánveitanda sé ekki heimilt að krefjast uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling af hans hálfu. Sams konar ákvæði er í 2. mgr. 16. gr. a núgildandi laga um neytendalán. Miða ber við almennar reglur kröfuréttar um gjaldfellingu.
     Um e-lið. Lagt til að a-liður 4. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar verði innleiddur, en það ákvæði veitir aðildarríkjum heimild til þess að kveða á um lágmarksfjárhæð sem uppgreiðsla þarf að nema á hverju almanaksári svo að gjaldtaka vegna endurgreiðslu neytanda fyrir gjalddaga sé heimil af hálfu lánveitanda.
    Þá er í 6. mgr. að finna ákvæði sem leggur þá skyldu á lánveitanda að kveða á um það í lánssamningi ef heimilt er að krefjast uppgreiðslugjalds, sbr. r-lið 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.


    Lagt er til að 17. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 19. gr. frumvarpsins. Um er að ræða hliðstæð ákvæði og í 17. gr. núgildandi laga um neytendalán. Ákvæði 1. mgr. 19. gr. frumvarpsins tryggir að neytandi geti borið fyrir sig gagnvart framsalshafa hverja þá mótbáru sem honum var tiltæk gagnvart upphaflegum lánveitanda, þ.m.t. rétt til skuldajafnaðar. Þetta er háð því skilyrði að lántakanda hafi verið þetta kleift gagnvart lánveitanda áður en kröfuhafaskiptin fóru fram. Er því hér um að ræða frávik á almennum reglum kröfuréttar.
    Í 2. mgr. er lögð upplýsingaskylda á upphaflegan lánveitanda um framsal skv. 1. mgr. Undantekning frá upplýsingaskyldunni er þegar upphaflegur lánveitandi heldur áfram að þjónusta lánið með samkomulagi við framsalshafa.

Um 20. gr.


    Lagt er til að 18. gr. tilskipunarinnar um óheimilan yfirdrátt verði innleidd í 20. gr. frumvarpsins. Lög nr. 94/1933, um tékka, hafa ekki að geyma önnur ákvæði um innstæður en þau að reikningshafi skuli tryggja að ávallt sé nægileg innstæða á móti útgefnum tékkum. Ákvæði sem þessi bæta því að vissu leyti úr brýnni þörf þótt deila megi um hversu langt eigi að ganga í setningu lagaákvæða til stuðnings aðila sem vanefnir samning, einkanlega þar sem önnur ákvæði laganna gera tilteknar kröfur um skýrleika lánasamninga. Til þess ber þó að líta, að ákvæðið hefur þá sérstöðu að ekki er tilskilið að samið hafi verið um lánveitingu. Því má segja að það sé nauðsynlegt til skýringar á réttindum neytanda þegar enginn samningur liggur til grundvallar láni.
    Tækniþróun hefur gjörbreytt notkun tékkareikninga hvað úttektarleiðir varðar, en ekki því að lán í formi yfirdráttarheimildar eru enn algeng sökum einfaldleika og flýtis við afgreiðslu. Þrátt fyrir nefndar tækniframfarir hefur ekki reynst kleift að koma algerlega í veg fyrir að ósamþykktur yfirdráttur myndist á reikningi þó ólíku sé saman að jafna við þá tíma þegar úttektir áttu sér stað með eiginlegum tékkum. Af og til hefur komið upp umræða um svonefndan FIT-kostnað en skammstöfunin stendur fyrir færsluskrá innistæðulausra tékka. Núgildandi lögum um neytendalán var breytt með lögum nr. 63/2008 til að setja slíkum kostnaði skorður. Þá hafa lánastofnanir tekið upp skilmála er gera neytenda kleift að komast hjá kostnaði ef greitt er innan nokkurra daga. Ákvæðið takmarkar slík viðurlög og leggur aukna upplýsingaskyldu á lánveitanda sem ætti að skila sér í enn frekari fækkun tilvika er flokka má sem yfirdrátt án undangengins samþykkis lánveitanda (ósamþykktur yfirdráttur). Kostnaðurinn skal vera hóflegur og endurspegla kostnað sem hlutaðeigandi lánastofnun verður fyrir vegna óheimila yfirdráttarins. Með kostnaðartengingu er tryggt að innheimta gjalda vegna brota á viðskiptaskilmálum með óheimilum yfirdrætti byggist ekki á gróðasjónarmiðum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um upplýsingaskyldu lánveitanda í þeim tilfellum sem ósamþykktur yfirdráttur nemur fjárhæð að andvirði 30.000 kr. eða meira og varir í lengri tíma en einn mánuð. Í tilskipuninni er ekki kveðið á um fasta fjárhæð heldur er aðeins rætt um verulegan óheimilan yfirdrátt (e. significant overrunning) og er aðildarríkjum gefinn kostur á að láta þar við standa eða ganga lengra og tilgreina ákveðna fjárhæð. Lagt er til að miðað verði við 30.000 kr. í þessu samhengi með tilliti til skýrleika í lagasetningu, enda getur reynst erfitt að byggja rétt á orðalaginu verulegur ósamþykktur yfirdráttur.

Um 21. gr.


    Lagt til að 19. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 21. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. felst skilgreining á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og er hún í samræmi við núgildandi skilgreiningu, sbr. 10. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán. Lagt er til að hlutfallstalan skuli reiknuð út samkvæmt ákveðinni stærðfræðilíkingu sem ráðherra setur með reglugerð, sbr. 25. gr.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að útreikningurinn fari fram þegar lánssamningur gengur í gildi. Ekki skal tekið tillit til breytinga sem kunna að verða á samningnum né hugsanlegra vanefnda á samningi.

Um VI. kafla.


    Lagt er til að 6. þáttur tilskipunarinnar verði innleiddur í VI. kafla, um lánamiðlara. Í kaflanum er einungis ein grein sem fjallar um skyldur lánamiðlara gagnvart neytanda en hugtakið lánamiðlari er skilgreint í h-lið 5. gr. frumvarpsins.

Um 22. gr.


    Lagt er til að 21. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 22. gr. frumvarpsins. Ákvæði 22. gr. kveður á um skyldur lánamiðlara gagnvart neytendum. Skyldur lánamiðlara eru þríþættar. Í fyrsta lagi ber lánamiðlara að upplýsa neytanda um umboð sitt, þ.e. hvort hann sé óháður lánamiðlari eða starfi í umboði eins eða fleiri lánveitenda. Í öðru lagi þarf lánamiðlari að upplýsa neytanda fyrir fram hvort hann þurfi að greiða sér þóknun fyrir þjónustu sína og samkomulag um hana sé gert á milli þeirra áður en lánssamningur er gerður. Í þriðja lagi ber lánamiðlara að tilkynna lánveitanda, sem hann starfar í umboði fyrir, um þá þóknun sem neytandi þarf að greiða honum fyrir þjónustu sína, svo unnt sé að innifela hana í útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

Um VII. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um kaup með eignarréttarfyrirvara og endurheimt eignarréttar sé neytandi í vanskilum með afborganir eða lánskostnað. Kaflinn er samhljóða V. kafla laga nr. 121/1994, um neytendalán. Tilskipun 2008/48/EB tekur ekki á kaupum með eignarréttarfyrirvara með beinum hætti, en í 35. lið formálsorða tilskipunarinnar segir að þegar neytandi fellur frá lánssamningi sem tengist vöru sem hann hefur fengið, einkum þegar um er að ræða kaup með afborgunum eða eignaleigusamning þar sem kveðið er á um kaupskyldu, er tilskipunin með þann fyrirvara að aðildarríki geta sett reglur um atriði sem varða skil á vörunni og um slíka eignarréttarfyrirvara.

Um 23. gr.


    Í ákvæðinu kemur fram að lánveitandi getur vegna vanskila neytanda endurheimt hlut sem seldur er með eignarréttarfyrirvara ef skýrt er kveðið á um fyrirvarann í skriflegum samningi aðila á milli. Leita skal sanngirni og reynt að koma því fyrir að aðilar verði jafnsettir og ef viðskipti hefðu ekki átt sér stað. Komi upp ágreiningur um verð hlutar skal hann útkljáður með matsgerð.

Um 24. gr.


    Ákvæðið felur í sér efnisreglur vegna þeirra tilvika er fleiri en einn hlutur hefur verið keyptur á grundvelli sama samningsins og lánveitandi leggur fram kröfu skv. 23. gr. um endurheimt þeirra.

Um VIII. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um sérstaka upplýsingaskyldu lánveitanda vegna veðlána, reglugerðarheimildir ráðherra, sem og um breytingar á þeim fjárhæðum er fram koma í frumvarpinu.

Um 25. gr.


    Þegar borin er saman árleg hlutfallstala kostnaðar á óverðtryggðu láni og verðtryggðu er ljóst að samanburðurinn hlýtur alltaf að vera verðtryggða láninu í hag ef gert er ráð fyrir stöðugu verðlagi út lánstímann. Til að bregðast við þessu er lagt til að bætt sé við lögin ákvæði þess efnis að lánveitendur skuli áður en lánssamningur um veðlán er gerður veita upplýsingar um sögulega þróun verðlags og vaxta og áhrif þeirra þátta á breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði sé um verðtryggt lán að ræða og um breytingar á greiðslubyrði sé um óverðtryggt lán að ræða. Tilgangur ákvæðisins er að upplýsa neytendur um hvernig höfuðstóll og greiðslubyrði verðtryggðra lána getur þróast en ljóst er að slíkar upplýsingar geta ekki haft bindandi áhrif og verða aðeins til viðmiðunar.
    Lagt er til að Neytendastofu verði falið að birta opinberlega á heimasíðu sinni almennar upplýsingar og dæmi um breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði verðtryggðra lána og dæmi um breytingar á greiðslubyrði óverðtryggðra lána. Þetta er gert til að tryggja samræmda upplýsingagjöf á milli lánveitenda. Gerð er krafa um að lánveitendur kynni neytendum þessar upplýsingar með sama hætti og aðrar upplýsingar sem veita skal fyrir gerð lánssamnings, sbr. 10. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Staðfesting neytanda á að honum hafi verið kynntar þessar upplýsingar, sbr. 10. mgr. 7. gr., telst fullnægjandi upplýsingagjöf skv. 1. mgr.

Um 26. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að árleg hlutfallstala kostnaðar á neytendalánum megi ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum, sbr. 10. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Stýrivextir eru skilgreindir í o-lið 5. gr. frumvarpsins og er nánari umfjöllun um þá að finna í athugasemdum við þá grein. Til nánari skýringar á því hvað hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar má á hverjum tíma nema þá væri hámarkið í dag 55,75 hundraðshlutar (prósent) þar sem stýrivextir eru að nafnvirði 5,75 hundraðshlutar. Hvað varðar nánari umfjöllun um þörf á því að setja hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar vísast til IV. kafla almennra athugasemda.

Um 27. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldur og heimildir ráðherra til að kveða nánar á um framkvæmd laganna með setningu reglugerða verði frumvarpið að lögum.

Um 28. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um að fjárhæðir í lögunum skuli taka breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs. Við útreikning skal horft til þeirra breytinga sem á vísitölunni hafa orðið frá gildistöku laga þessara fram til 1. janúar ár hvert.

Um 29. gr.


    Lagt til að eftirlit með neytendalánum verði hjá Neytendastofu. Um er að ræða hliðstætt ákvæði við 25. gr. núgildandi laga um neytendalán þar sem Neytendastofu er falið eftirlit og felur í sér innleiðingu á 20. gr. tilskipunarinnar. Í 23. gr. tilskipunarinnar er aðildarríkjum gert að setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum tilskipunarinnar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Neytendastofa hefur eftirlit með lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, þar sem henni eru veittar heimildir til að beita ýmsum úrræðum verði fyrirtæki uppvís að brotum gegn ákvæðum laganna. Í því felst m.a. eftirlit með skilmálum sem fyrirtæki beita í viðskiptum við neytendur. Eftirlit með lögum um neytendalán fer því vel með verkefnum Neytendastofu og er því lagt til að stofnunin sinni þeim verkefnum líkt og verið hefur.
    Lagt er til í 1. mgr. ákvæðisins að lög nr. 57/2005 gildi um úrræði og eftirlit Neytendastofu, þ.m.t. varðandi málsmeðferð eftir því sem við getur átt. Rétt þykir að við eftirlit samkvæmt frumvarpinu njóti stofnunin sömu heimilda og úrræða sem og við eftirlit sem stofnunin sinnir nú þegar á grundvelli laga nr. 57/2005. Aðgerðir Neytendastofu geta falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnum skilyrðum. Jafnframt getur stofnunin lagt stjórnvaldssektir og dagsektir á fyrirtæki sé ekki farið að ákvæðum laganna eða ákvörðunum hennar. Í 2. mgr. er kveðið á um heimild til að skjóta ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Það skal gert innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðunum um dagsektir er einnig heimilt að skjóta til áfrýjunarnefndarinnar en það þarf að gera innan 14 daga frá ákvörðun, sbr. ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Í 3. mgr. er lagt til að ákvörðun Neytendastofu verði ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir. Er með þessu kveðið á um að kæruleiðir innan stjórnsýslunnar verði tæmdar áður en mál er borið undir dómstóla. Þetta er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og 40. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005. Eðlilegt þykir að nýta fyrst þau úrræði sem eru í boði innan stjórnsýslunnar til þess að fá ákvörðun endurskoðaða áður en máli er skotið til dómstóla. Loks er í 4. mgr. að finna ákvæði þess efnis að mál fyrir dómstólum skuli höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fær vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Þetta er í samræmi við ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Hér búa réttaröryggissjónarmið að baki en óvissa getur verið fólgin í því að málshöfðun í tilteknu máli, sem áfrýjunarnefndin hefur kveðið upp úrskurð í, geti verið yfirvofandi jafnvel um árabil.

Um 30. gr.


    Lagt er til að Neytendastofu verði veitt heimild til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn þeim ákvæðum frumvarpsins sem talin eru upp í greininni.

Um 31. gr.


    Í 31. gr. er kveðið á um heimild Neytendastofu til að ákveða þeim dagsektir sem ekki fara að ákvörðun sem stofnunin hefur tekið samkvæmt lögunum. Greinin er sambærileg ákvæði 23. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Um 32. gr.


    Í 32. gr. er lagt til að Neytendastofu verði veitt heimild til að ljúka málum með sátt. Sambærilegt ákvæði er að finna í 17. gr. f samkeppnislaga, nr. 44/2005.

Um 33. gr.


    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir skyldu lánveitanda til upplýsingagjafar gagnvart neytanda um möguleg úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís vegna neytendaláns. Hér er því um sambærilegt ákvæði og nú er í 1. mgr. 19. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og í 76. gr. laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu.
    Neytendastofa eða aðrir opinberir eftirlitsaðilar skera ekki úr um einkaréttarleg álitaefni eða kröfur um skaðabætur. Eftirlit með framkvæmd laganna skv. 28. gr. er allsherjarréttarlegs eðlis. Því er gert ráð fyrir að neytendur geti skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni tengda neytendalánum til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Neytendur geta jafnframt, augljóslega, borið ágreining um fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni undir dómstóla, en í 24. gr. tilskipunar 2008/48/EB er gert ráð fyrir að aðildarríki sjái neytendum fyrir þeim möguleika að skjóta slíkum málum til úrskurðaraðila, annars en dómstóla. Jafnframt er lagt til að lánveitendum verði gert skylt að eiga aðild að úrskurðarnefndinni.
    Nefndin starfar samkvæmt samkomulagi sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök fjármálafyrirtækja og Neytendasamtökin eru aðilar að og á grundvelli 19. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Nefndin fjallar í dag einungis um tiltekinn ágreining viðskiptamanna fjármálafyrirtækja við fjármálafyrirtæki. Ljóst er það fyrirkomulag sem hér er lagt til þarfnast samþykkis fyrrgreindra aðila og breytinga á samþykktum nefndarinnar. Tillaga þessi hefur verið kynnt fyrir aðilum áðurgreinds samkomulags og standa vonir til að hægt verði að ljúka nauðsynlegum breytingum á þessum grundvelli sem fyrst.

Um 34. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 27. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán. Í því er gert ráð fyrir að gera megi aðila að greiða bætur vegna brota gegn ákvæðum frumvarpsins verði það að lögum.

Um 35. gr.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að tilskipun 2008/48/EB verði innleidd í íslenskan rétt, með vísan til ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, frá 5. febrúar 2009.

Um 36. gr.


    Í ljósi þess að lánveitendur sem undir lögin falla þurfa að aðlaga starfsemi sína að ítarlegum efnisákvæðum frumvarpsins, svo sem með skilmálabreytingum, er lagt til að lögin öðlist gildi 1. febrúar 2013. Við gildistöku falla lög nr. 121/1994, um neytendalán, úr gildi.
    Lagt er til að 2. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 2. mgr. 36. gr.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um neytendalán.


    Meginmarkmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun 2008/48/EB um neytendalán í íslensk lög en tilgangur hennar er að auka neytendavernd vegna lánastarfsemi. Við gildistöku laganna sem gert er ráð fyrir að verði 1. febrúar 2013 falla úr gildi lög um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum, og jafnframt tilskipun 87/102/EBE sama efnis eins og hún var innleidd í íslensk lög.
    Ákvæði frumvarpsins ná yfir fleiri lán en tilskipunin Evrópusambandsins gerir, til að mynda fasteignalán og smálán, en frumvarpið tekur með fáeinum undantekningum til allra lána sem veitt eru í atvinnuskyni. Á Íslandi hafa fasteignalán fallið undir lög um neytendalán allt frá árinu 2000 en nokkur nýmæli eru í frumvarpinu, m.a. eftirlit með svokölluðum smálánum sem eru tiltölulega ný viðbót í lánamöguleikum einstaklinga, auk þess sem almennt eru gerðar auknar kröfur um form og efni neytendalána og upplýsingaskylda lánveitenda til lántakenda er aukin. Þá er sett hámark á árlegan hlutfallslegan kostnað neytendalána sem ekki má verða hærri 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum.
    Frumvarpið er að uppistöðu byggt á samsvarandi ákvæðum í gildandi lögum um neytendalán en samkvæmt þeim hefur Neytendastofa farið með eftirlit vegna ákvæða laganna, t.d. varðandi lán á borð við yfirdráttarlán í fjármálastofnunum eða raðgreiðslulán, upplýsingaskyldu lánveitenda o.fl. Hins vegar er með frumvarpinu tekið á breyttum aðstæðum á lánamarkaði og fela sum ákvæði frumvarpsins í sér nokkuð aukna eftirlitsskyldu stofnunarinnar með neytendalánum frá því sem er í gildandi lögum. Í því sambandi má benda á þrjú atriði sem vega þyngst: Í fyrsta lagi eftirlit með smálánum og þeim fyrirtækjum sem veita slík lán en fimm slík fyrirtæki munu nú vera starfrækt hér á landi. Í öðru lagi meira eftirlit með lánamiðlurum en undir þá falla allir þeir sem bjóða upp á fjármögnun á hinu keypta fyrir hönd þriðja aðila, eins og t.d. bílasalar, húsgagnasalar og raftækjaverslanir. Sem dæmi um slíka lánasamninga má nefna raðgreiðslusamninga eins og kreditkortafyrirtækin veita. Í þriðja lagi verður vinna stofnunarinnar við að yfirfara upplýsingar sem lánveitendur þurfa að veita neytendum nokkru meiri en nú er krafist. Þá verður Neytendastofu heimilt að leggja stjórnvaldssektir á lánveitanda sem brýtur gegn ákveðnum ákvæðum laganna og reglum settum á grundvelli þeirra en þær renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu.
    Að mati Neytendastofu þyrfti að efla eftirlit á þessu sviði verði frumvarpið lögfest og telur stofnunin að fjölga þyrfti um eitt starf í því skyni eða sem svarar til um 9 m.kr. í auknum útgjöldum á ári. Ekki er gert ráð fyrir þeim útgjöldum hjá stofnuninni í frumvarpi til fjárlaga 2013 og mundi halli á afkomu ríkissjóðs aukast sem þeim nemur að öðru óbreyttu. Ef talin er þörf fyrir að efla eftirlitið með lánveitingum af þessum toga og umfram það sem kveðið er á um í tilskipun ESB á þessu sviði verður hins vegar að gera ráð fyrir að viðkomandi ráðuneyti muni leitast við að forgangsraða til verkefnisins öðrum fjárheimildum innan síns útgjaldaramma.