Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 165. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 234  —  165. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar
um úrskurðarnefndir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?

    Eftirfarandi eru umbeðnar upplýsingar um sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir á vegum ráðuneytisins og kostnað við starfsemi þeirra.

Lög nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Matsnefnd.
    Ráðherra skipar þrjá menn og jafnmarga til vara í matsnefnd til fjögurra ára í senn.
    Tveir nefndarmanna skulu skipaðir að tilnefningu Hæstaréttar Íslands og skulu þeir uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara. Einn nefndarmaður skal skipaður að tilnefningu stjórnar Landssambands veiðifélaga. Nefndin skiptir með sér störfum. Annar þeirra nefndarmanna sem Hæstiréttur tilnefnir skal vera formaður nefndarinnar.
    Hlutverk matsnefndarinnar er að meta hve mikið af heildartekjum veiðifélags skal koma í hlut einstakra félagsmanna (jarða) í veiðifélagi. Nánar má sjá um þetta í reglugerð nr. 403/ 2012, um arðskrár veiðifélaga.

Lög nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
    Hlutverk úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna er að ákveða fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar einstakra skipa við tiltekin skilyrði sé málinu skotið til nefndarinnar af Verðlagsstofu skiptaverðs, heildarsamtökum sjómanna og eða útvegsmanna. Sjá nánar lög nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
    Í úrskurðarnefndinni eiga sæti níu menn skipaðir af ráðherra. Af þeim tilnefna Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands og Félag vélstjóra og málmtæknimanna einn fulltrúa hvert og einn fulltrúa sameiginlega. Þá skal Landssamband íslenskra útvegsmanna tilnefna þrjá fulltrúa og Landssamband smábátaeigenda einn fulltrúa. Loks skipar ráðherra formann nefndarinnar án tilnefningar en að höfðu samráði við framangreind samtök sjómanna og útvegsmanna. Varamenn eru skipaðir á sama hátt og aðalmenn.

Lög nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Úrskurðarnefnd til að úrskurða álagningu gjalds.
    Greiða skal sérstakt gjald fyrir veiðar, verkun, vinnslu eða viðskipti með ólögmætan sjávarafla.
    Í þessu sambandi telst ólögmætur sá sjávarafli eða hluti afla sem:
     1.      ekki nær þeirri lágmarksstærð sem kveðið er á um í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða sérstökum veiðileyfum,
     2.      er umfram þann hámarksafla sem veiðiskipi er settur,
     3.      fenginn er utan leyfilegra sóknardaga,
     4.      fenginn er með óleyfilegum veiðarfærum,
     5.      fenginn er á svæði þar sem hlutaðeigandi veiðar eru bannaðar,
     6.      fenginn er án þess að tilskilin veiðileyfi hafi verið fyrir hendi,
     7.      2. mgr. 7. gr. laga nr. 37/1992 tekur til.
    Fiskistofa leggur gjaldið á og geta aðilar kært úrskurðinn til úrskurðarnefndar.
    Ráðherra skipar þriggja manna nefnd til að úrskurða álagningu gjalds og jafnmarga menn til vara. Aðalmenn og varamenn skulu skipaðir til þriggja ára í senn og skal einn nefndarmanna skipaður formaður hennar. Nefndarmenn skulu fullnægja almennum skilyrðum laga til að fá skipun í stöðu í þjónustu ríkisins. Formaður nefndarinnar og varamaður hans, sem tekur sæti formanns í forföllum hans, skulu að auki fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.

Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar.
    Samkvæmt löggjöf um einkaleyfi, vörumerki og hönnun skipar ráðherra áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Skipa skal formann nefndarinnar til þriggja ára í senn. Nefndin skal úrskurða í ágreiningsmálum, m.a. varðandi einkaleyfi, vörumerki og hönnunarvernd, sbr. nánar reglugerð nr. 275/2008.

Samkeppnislög, nr. 44/2005. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála.
    Með tilvísun til 9. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, og eftir tilnefningu Hæstaréttar er skipað í áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Í 3. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að skipunartími áfrýjunarnefndar skuli vera hinn sami og skipunartími stjórnar Samkeppniseftirlitsins.

Lög nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Kærunefnd um lausafjár- og þjónustukaup.
    Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa er skipuð til fimm ára í senn, sbr. 99. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, með síðari breytingum. Nefndarmenn skulu vera þrír. Ráðherra skipar einn nefndarmanna eftir tilnefningu Neytendasamtakanna, annan eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og hinn þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Hann skal fullnægja skilyrðum til að vera héraðsdómari. Kærunefndin skal vistuð hjá Neytendastofu sem sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu, tekur við kvörtunum til nefndarinnar, annast tilkynningar og sér um vörslu gagna.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.
    Í nefndinni sitja þrír fulltrúar og þrír til vara, sem allir skulu vera löglærðir og valdir til tveggja ára í senn. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Neytendasamtökin og Samband íslenskra tryggingafélaga velja hvert sína aðal- og varafulltrúa til setu í nefndinni. Nefndin velur sér formann og varaformann.
    Nefndin fjallar um ágreining varðandi bótaskyldu, þ.m.t. sök og sakarskiptingu, milli neytenda og vátryggingafélags sem starfsleyfi hefur hér á landi.
    Nefndin úrskurðar ekki um bótafjárhæðir nema að fengnu samþykki aðila.
    Nefndin úrskurðar hvort ágreiningur aðila heyri undir nefndina og hvort ágreiningur sé þess eðlis eða studdur þeim gögnum að unnt sé að úrskurða í málinu. Telji nefndin svo ekki vera vísar hún málinu frá.

Lög nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands. Úrskurðarnefnd um Viðlagatryggingu Íslands.
    Samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, skipar ráðherra fjögurra manna úrskurðarnefnd sem tjónþoli getur skotið máli sínu fyrir vilji hann ekki sætta sig við úrskurð stjórnar Viðlagatryggingar Íslands um greiðsluskyldu og fjárhæð vátryggingabóta. Hæstiréttur skal tilnefna einn fulltrúa sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Annar skal skipaður eftir tilnefningu Veðurstofu Íslands, hinn þriðji af Háskóla Íslands og sá fjórði án tilnefningar.

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
    Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki starfar samkvæmt samkomulagi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, Sambands íslenskra sparisjóða og Neytendasamtakanna frá 8. júní 2000 og samþykktum byggðum á því samkomulagi.
    Samkvæmt samkomulagi aðila eiga allir viðskiptamenn fjármálafyrirtækja, einstaklingar sem lögaðilar, málskotsrétt til nefndarinnar með kvartanir vegna viðskipta við þau. Nefndin tekur til meðferðar kvartanir sem varða réttarágreining milli fjármálafyrirtækis eða dótturfyrirtækis slíks fyrirtækis annars vegar og viðskiptamanns hins vegar, enda sé samningssamband milli aðila. Jafnframt tekur nefndin til meðferðar ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga á milli landa skv. 13. gr. laga nr. 87/1992, með síðari breytingum, hvort sem viðkomandi fjármálafyrirtæki er aðili að nefndinni eður ei.

Úrskurðarnefnd verðbréfamiðstöðva.
    Samkvæmt 25. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, skal senda til úrskurðarnefndar verðbréfamiðstöðva kæru vegna ágreinings sem kann að rísa í tilefni af eignarskráningu í verðbréfamiðstöð eða annarra atriða sem falla undir gildissvið laganna. Þetta á þó ekki við um skaðabótakröfur. Úrskurðarnefnd er ætlað að kveða á um rétt og skyldu manna í tengslum við eignarskráningar í verðbréfamiðstöð. Úrskurðir nefndarinnar teljast því til stjórnvaldsákvarðana og fer um störf nefndarinnar eftir stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Ráðherra skipar þrjá menn í úrskurðarnefnd, þar af einn sem formann og skal hann fullnægja skilyrðum til þess að verða skipaður héraðsdómari. Aðrir nefndarmenn skulu hafa staðgóða þekkingu á rafrænni skráningu eignarréttinda.

Raforkulög, nr. 65/2003. Úrskurðarnefnd raforkumála.
    Í 30. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, er kveðið á um úrskurðarnefnd raforkumála. Úrskurðarnefndinni er ætlað það hlutverk að úrskurða um kærur sem henni berast vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru af Orkustofnun á grundvelli raforkulaga og varða gjaldskrá eða starfsemi flutningsfyrirtækisins eða dreifiveitna.

Endurkröfunefnd skv. 96. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
    Samkvæmt 96. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, skipar ráðherra þriggja manna nefnd til að kveða á um hvort beita skuli endurkröfurétti vegna gáleysis eða ásetnings þess sem ábyrgð ber á tjóni sem vátryggingafélag hefur bætt samkvæmt umferðarlögum. Skipunartími nefndarinnar er þrjú ár.
    Ráðherra setur reglur um starfsháttu nefndarinnar, þar á meðal um það hvernig vátryggingafélögin senda nefndinni þau gögn sem félögin hafa reist bótakröfur sínar á. Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði, en vátryggingafélögin skulu endurgreiða þann kostnað eftir reglum sem ráðherra setur.

Heildarkostnaður ríkisins af starfsemi úrskurðarnefnda
á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

2009 2010 2011
Lög nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði; matsnefnd Ríkissjóður ber engan kostnað Ríkissjóður ber engan kostnað Ríkissjóður ber engan kostnað
Lög nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna; úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna 1.289 þús. kr. 1.320 þús. kr. 1.356 þús. kr.
Lög nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla; úrskurðarnefnd til að úrskurða álagningu gjalds 634 þús. kr. 286 þús. kr. 321 þús. kr.
Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar 2.551 þús. kr. 2.647 þús. kr. 2.880 þús. kr.
Samkeppnislög nr. 44/2005; áfrýjunarnefnd samkeppnismála 11.122 þús. kr. 8.406 þús. kr. 7.401 þús. kr.
Lög nr. 50/2000, um lausafjárkaup; kærunefnd um lausafjár- og þjónustukaup 5.929 þús. kr. 6.598 þús. kr. 3.228 þús. kr.
Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum 2.486 þús. kr. 4.350 þús. kr. 4.529 þús. kr.
Lög nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands; úrskurðarnefnd um Viðlagatryggingu Íslands 0 kr. 0 kr. 0 kr.
Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki 1.353 þús. kr. 2.445 þús. kr. 2.675 þús. kr.
Úrskurðarnefnd verðbréfamiðstöðva 437 þús. kr.
Raforkulög, nr. 65/2003; úrskurðarnefnd raforkumála 334 þús. kr.
Endurkröfunefnd skv. 96. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 Ríkissjóður ber engan kostnað Ríkissjóður ber engan kostnað Ríkissjóður ber engan kostnað