Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 112. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 261  —  112. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur um átak
í atvinnusköpun fyrir Suðurnes.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er staða þeirra verkefna sem voru á lista yfir verkefni ríkisstjórnarinnar í átaki í atvinnusköpun fyrir Suðurnes sem kynnt var á fundi í Reykjanesbæ 9. nóvember 2010?
     2.      Hversu mörg störf hafa verkefnin skapað?


    Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar 9. nóvember 2010 að hrinda af stað 11 verkefnum á Suðurnesjum til að efla atvinnu, menntun og velferð á svæðinu. Tvö verkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins voru síðar sameinuð í eitt þannig að um er að ræða 10 verkefni.
    Ábyrgð á eftirfylgni með verkefnunum 10 hefur verið á hendi mismunandi ráðuneyta og eru eftirfarandi upplýsingar um stöðu þeirra byggðar á upplýsingum sem aflað hefur verið frá viðkomandi ráðuneytum.
    Erfitt getur verið að meta nákvæmlega fjölda starfa sem verkefnunum tengjast, t.d. þar sem m.a. var ráðist í almennar aðgerðir, svo sem breytingar á skattalöggjöf og stofnun atvinnuþróunarfélags. Fyrir liggur að nú þegar hafa skapast 40–50 störf sem beint má tengja einstökum verkefnum en ekki er unnt að leggja mat á öll afleidd störf. Hins vegar er rétt að benda á að atvinnuleysi hefur lækkað hlutfallslega mest á Suðurnesjum undanfarin tvö ár. Í nóvember árið 2012 mældist atvinnuleysi á Suðurnesjum 12,9% og þá voru 1.384 á atvinnuleysiskrá en í október 2012 mældist atvinnuleysi þar 7,8% og 834 eru á atvinnuleysisskrá. Áfram verður fylgst með framgangi mála og einstakra verkefna á svæðinu.
    Staða framangreindra verkefna, flokkuð eftir ráðuneytum, er eftirfarandi:

Forsætisráðuneytið.
Myndaður verði formlegur samráðsvettvangur stjórnvalda ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu um atvinnu-, mennta- og velferðarmál.
    Umræddur samráðsvettvangur var myndaður þar sem sæti áttu fulltrúar þeirra ráðuneyta sem báru ábyrgð á verkefnunum, sveitarstjórar, fulltrúar stofnana, verkalýðsfélaga, vinnuveitenda og annarra lykilaðila í landshlutanum. Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) héldu utan um samráðsvettvanginn og voru þannig helsti samstarfsaðili stjórnsýslunnar í héraði.
    Á þessum vettvangi var unnið sameiginlega að framgangi verkefnanna 10 sem hér er gerð grein fyrir auk þess sem önnur verkefni sem sneru að samskiptum ríkis og sveitarfélaga voru rædd.
    Á fundi framangreindra aðila, 28. apríl 2011, skrifuðu SSS og Byggðastofnun, f.h. stjórnvalda, undir samning um stofnun atvinnuþróunarfélags þar sem ríkið lagði til 20 millj. kr. auk þess sem tilkynnt var um 200 millj. kr. aukafjárframlag ríkisstjórnarinnar til Kadeco til ýmissa verkefna eins og frekar verður gerð grein fyrir í þessu svari.
     Samráðsvettvangurinn var myndaður til halda utan um verkefnin fyrst um sinn og því ekki hugmyndin að hann skapaði bein störf í sjálfu sér.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið.
1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er geri samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi samkeppnisfæra við gagnaver í löndum innan ESB.
    Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, var lagt fram í desember 2010 og samþykkt sem lög nr. 163/2010. Í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar sem gerði breytingar á frumvarpinu sagði nauðsynlegt að „tryggja að rekstrarumhverfi íslenskra gagnavera verði sambærilegt við það sem gerist annars staðar í Evrópu og er það í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu.“ Einkum var um að ræða breytingar á skattlagningu vegna útflutnings á rafrænt afhentri þjónustu og vegna innflutnings á netþjónum og tengdum búnaði. Um er að ræða skattalagabreytingu til þess að styrkja stöðu við rekstur gagnavera og ýta þannig undir að til verði störf tengd þessari starfsemi þótt vissulega komi fleiri þættir þar til. 8. febrúar 2012 var gagnaver gagnsett á Ásbrú og þar vinna 15–20 manns.

2. Verklegum framkvæmdum á þróunarsvæði Keflavíkurflugvallar verði flýtt.
    Ráðist var í ytra viðhald bygginga. Má þar nefna lagfæringar og málun á gluggalistum, þakjárni og veggklæðningu. Jafnframt var farið í að heilmála byggingar ef þörf var á. Var stærsta einstaka verkefnið í þeim efnum málun Háaleitisskóla. Settir voru upp varmaskiptar í stærri byggingum sem lækka rekstrarkostnað vegna hitaveitu. Auk viðhalds og fyrirbyggjandi framkvæmda var unnið að endurbótaverkefnum til þess að auka verðmæti og nýtingarmöguleika bygginga. Framkvæmdirnar stórbættu ásýnd þeirra húsa sem verst höfðu látið á sjá og bættu heildarmynd svæðisins. Ráðist var í tvö stór umhverfishreinsunarverkefni og þeim lokið, annars vegar framkvæmdum við að loka og ganga frá aflögðum urðunarstað við Stafnes í Sandgerðisbæ og hins vegar yfirferð og hreinsun landsvæðis suðaustan við Patterson flugvöll. Verkið var m.a. unnið af Landhelgisgæslu Íslands. Kostnaður verkefna var um 135 millj. kr. og áætluð ársstörf 15.

3. Herminjasafn á Suðurnesjum.

    Unnar voru endurbætur á Grænásbraut 619, Officer Club, sem fólu í sér endurskipulagningu hússins. Gerður var sérstakur salur fyrir væntanlegt safn og gengið frá eins og kostur er, áður en endanleg hönnun safns og sýningar liggur fyrir. Vinna við að undirbyggja grundvöll að stofnun safnsins er í gangi og stefnt er að því að formleg uppbygging þess geti hafist í framhaldi af þeirri vinnu. Kostnaður við verkið var um 100 millj. kr. og áætluð ársverk 16.

4. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu.
    Lagt var í innlenda markaðsherferð með það að markmiði að benda á margvíslega nýtingarmöguleika fasteigna á Ásbrú. Greinileg aukning varð á fyrirspurnum í kjölfarið sem skilað hafa nýjum leigutökum á svæðið og fleiri eru væntanlegir.
    Jafnframt var ráðist í markaðssetningu á svæðinu í erlendum miðlum. Ákveðnar eignir, svo sem kvikmyndaver, hafa verið kynntar sérstaklega í gegnum auglýsingar og kynningu í sérhæfðum miðlum. Samningur var gerður við Íslandsstofu (Film in Iceland) um kynningu kvikmyndaversins Atlantic Studios. Kostnaður við verkefnið var um 15 millj. kr. og eitt ársverk áætlað við það.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
1. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum.
    Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum hefur skilað skýrslu til fyrrverandi iðnaðarráðuneytis. Í kjölfar skýrslunnar var staðið að stofnun atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar á Suðurnesjum. Þá var gengið frá Vaxtarsamningi Suðurnesja á milli iðnaðarráðuneytis og atvinnuþróunarfélagsins, en með honum fær það 27 millj. kr. á ári sem fjárfesta á í atvinnuskapandi verkefnum á móti jafnháu framlagi styrkþegans. Stofnun atvinnuþróunarfélagsins og gerð vaxtarsamningsins voru meðal áhersluatriða starfshóps iðnaðarráðherra um atvinnumál á Suðurnesjum. Aðrar tillögur hans hafa verið á verkefnalista félagsins og vaxtarsamningsins. Til urðu þrjú störf hjá atvinnuþróunarfélaginu. Þeir styrkir sem það síðan veitir til fyrirtækja skapa afleidd störf og mun fjöldi þeirra liggja fyrir þegar árskýrsla félagsins kemur út.

2. Klasasamstaf fyrirtækja á sviði líforku.
    Klasasamstarf á sviði líforku er langtímaþróunarverkefni sem unnið er undir forustu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (MNÍ) í samvinnu við ráðgjafafyrirtækið Gekon, KADECO og vaxtarsamning Suðurnesja. Almennri greiningarvinnu lauk í nóvember 2011. Helstu niðurstöður eru að stofnun Auðlindagarðs mundi styrkja atvinnulíf og menntun á Suðurnesjum, auka nýsköpun og styðja við markaðssetningu íslenska jarðvarmans. Áhersla er lögð á að koma upp fyrirtækjadrifnum verkefnum, þar sem byggt verður á nýsköpun og þróun nýrra afurða og þjónustu. Nú er unnið að fjármögnun verkefnisins með umsóknum í alþjóðlegar samstarfsáætlanir.

Velferðarráðuneytið.
1. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta.
    Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta var lengt í fjögur ár í desember 2010 tímabundið til loka árs 2011. Samhliða var aukið við náms- og starfsþjálfunarúrræði á vegum Vinnumálastofnunar sem miðuðu að því að auka virkni einstaklinga í atvinnuleit. Haustið 2012 gefst einstaklingum í atvinnuleit kostur á að fara í nám í eina önn án þess að bætur skerðist. Þetta úrræði nær til landsins alls en nýttist afar vel á Suðurnesjum í ljósi mikils atvinnuleysis og ungs aldurs atvinnuleitenda.

2. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum.
    Suðurnesjavaktin var sett á laggirnar í lok árs 2010 til þess að efla og styrkja samstarf á sviði velferðarmála þvert á öll sveitarfélögin á svæðinu og verkefninu fylgdi ein staða verkefnisstjóra. Suðurnesjavaktin er hluti af starfsemi velferðarvaktarinnar sem starfar á vegum velferðarráðuneytisins. Í Suðurnesjavaktinni eru fulltrúar lykilaðila í velferðarmálum. Suðurnesjavaktin hittist reglulega og fylgist vel með stöðunni á svæðinu sem hefur undanfarin ár skorið sig úr á margan hátt í samanburði við aðra landshluta. Suðurnesjavaktin hefur unnið tvær áfangaskýrslur sem gefið hafa greinargóðar upplýsingar. Var önnur skýrslan notuð sem grunnur að umsókn um styrk fyrir Suðurnes í sjóð hjá IPA, stækkunardeild Evrópusambandsins. Þá tók Suðurnesjavaktin saman bækling um úrræði og athafnir sem eru í boði á svæðinu á sviði velferðarmála sem hefur nýst vel í þjónustu við einstaklinga. Suðurnesjavaktin hefur hvatt til samstarfs um tiltekin verkefni en þar má nefna árvekniverkefni gegn heimilisofbeldi og samstarf foreldrafélaga á öllu svæðinu. Fulltrúar í Suðurnesjavaktinni eru sammála um að með tilkomu hennar hafi samstarf aukist og að þetta sé mikilvægur vettvangur til þess að skiptast á skoðunum og miðla upplýsingum er varða velferðarmál.

3. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum.
    Umboðsmaður skuldara opnaði fyrsta útibú sitt utan Reykjavíkur í Reykjanesbæ 16. desember 2010 og er því ætlað að þjóna öllum Suðurnesjum. Frá upphafi hafa starfsmenn útibúsins verið tveir í fullu starfi, einn ráðgjafi og einn lögfræðingur. Þegar útibúið var opnað var ljóst að aðstæður á Suðurnesjum væru fordæmalausar, atvinnuleysi var það mesta á landinu og um 10% allra þeirra sem höfðu þá leitað til umboðsmanns skuldara voru búsettir á Suðurnesjum.
    Frá því að útibúið var sett á fót hafa verið skráðar um 3.000 heimsóknir. Síðustu sex mánuði hafa heimsóknir að meðaltali verið um 150 á mánuði. Um 13% allra mála hjá umboðsmanni skuldara frá því að embættið var stofnað 1. ágúst 2010 eiga uppruna sinn á Suðurnesjum. Um 12% umsækjenda um greiðsluaðlögun og um 13% umsækjenda um ráðgjöf eru búsettir á Suðurnesjum.
    Auk ráðgjafar og vinnslu mála hafa starfsmenn umboðsmanns skuldara í Reykjanesbæ tekið þátt í starfi samstarfshóps velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði á Suðurnesjum.
    Þróunarverkefni um eflingu menntunar á Suðurnesjum fór af stað með tímabundinni ráðningu tveggja verkefnisstjóra. Greiningar meðal menntastofnana á svæðinu og innan atvinnulífsins leiddu m.a. í ljós að námsframboð á Suðurnesjum er mjög fjölbreytt en þátttaka oft ekki nægileg. Þá er náms- og starfsfræðsla í grunnskólum misjöfn og tengsl skóla og atvinnulífs þarf að efla. Í kjölfar þessa var haldin starfskynning fyrir nemendur í 9. og 10. bekk þar sem 80 starfsgreinar af mjög fjölbreyttu tagi voru kynntar. Um 700 nemendur sóttu kynninguna sem tókst mjög vel. Stuttu síðar var haldin námskynning sem var öllum opin og vel sótt. Menntavagn Víkurfrétta var hluti af verkefninu en þar birtust vikulegir pistlar frá menntastofnunum á svæðinu með það að markmiði að efla jákvæða umfjöllun um menntun á Suðurnesjum. Annar verkefnisstjóra tók þátt í gerð IPA-umsóknar fyrir Suðurnesin. Þar var sótt um styrk til að stofna Kennslu- og rannsóknamiðstöð Reykjaness og ef fjármagn fæst til þess gæti miðstöðin tekið yfir mikið af því sem verkefnisstjórar hafa unnið að og styrkt samstarf á milli menntastofnana. Á meðan unnið hefur verið að þróunarverkefninu hafa nokkrar nýjar námsbrautir farið af stað en einnig hafa góðar hugmyndir ekki fengið brautargengi, m.a. vegna skorts á fjármunum. Eitt af markmiðum verkefnisins var að tryggja rekstrargrundvöll menntastofnana á svæðinu en nú á haustmánuðum 2012 eru nokkrir skólar á svæðinu enn í óvissu varðandi framtíðina.
    Þá var tryggð fjárveiting fyrir einu stöðugildi við Fisktækniskólann eins og lagt var upp með í samþykkt ríkisstjórnarinnar. Fisktækniskólinn hefur fengið tímabundna viðurkenningu sem einkaskóli á framhaldsskólastigi og í gildi er samningur við skólann sem nær til loka vorannar 2013. Skólinn hefur auk fjárveitingar fyrir einu stöðugildi fengið greitt vegna kennslu nemenda, m.a. í tengslum við átakið ,,Nám er vinnandi vegur“. Í skýrslu um verkefnið sem Fisktækniskólinn skilaði nýverið kemur fram að 11 nemendur voru við nám í skólanum á haustönn 2011 og sjö á vorönn 2012. Nú á haustönn 2012 eru nemendur við skólann sex talsins. Samkvæmt þessum upplýsingum er ljóst að kostnaður á nemanda við Fisktækniskólann er hátt yfir meðalkostnaði vegna framhaldsskólanema. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur áframhaldandi fjárveitingar til Fisktækniskólans til skoðunar og einnig verður kannað hvort unnt er að samhæfa starfsemi hans öðrum menntastofnunum á Suðurnesju Til urðu þrjú störf. Eitt varanlegt starf hjá Fisktækniskólanum og tvær tímabundnar stöður verkefnastjóra, til áramóta 2012 og 2013.

Innanríkisráðuneytið.
Skoðaðir verði kostir þess að flytja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja.
    Innanríkisráðuneytið lét gera hagkvæmniathugun á mögulegum flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Samkvæmt matinu, sem var unnið af Deloitte, kostar a.m.k. um 700 millj. kr. að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja auk þess sem flutningurinn kæmi til með að leiða af sér aukinn rekstrarkostnað upp á ríflega 690 millj. kr. á ári. Með tilliti til þessarar niðurstöðu og fjárhags ríkissjóðs var ekki talið ráðlegt að færa Landhelgisgæsluna til Suðurnesja.