Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 65. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 263  —  65. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 80/2011, um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum (frestun tilfærslu).


Frá velferðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Einar Njálsson og Þorgerði Benediktsdóttur frá velferðarráðuneyti, Margréti Maríu Sigurðardóttur, umboðsmanna barna, og Báru Sigurjónsdóttur frá embætti umboðsmanns barna, Braga Guðbrandsson og Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu, Gyðu Hjartardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Halldóru Gunnarsdóttur og Stellu Víðisdóttur frá Reykjavíkurborg. Nefndinni hafa borist umsagnir um málið frá Akureyrarbæ, BSRB, Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi, Jafnréttisstofu, Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og umboðsmanni barna.
    Með frumvarpinu er lagt til að tilfærslu á heimilum og stofnunum fyrir börn frá sveitarfélögum til ríkisins sem á að eiga sér stað 1. janúar nk. verði frestað um eitt ár og eigi sér stað 1. janúar 2014. Tilfærslan var ákveðin með lögum nr. 80/2011, um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, frá 21. júní 2011. Breytingin felur í sér að tilteknar stofnanir sem Reykjavíkurborg rekur skv. 84. gr. barnaverndarlaga munu færast yfir til ríkisins en borgin er eina sveitarfélagið sem hefur starfrækt slíkar stofnanir. Markmið breytinganna er að skerpa á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og gera með því barnaverndarstarfið markvissara sem og að tryggja að öll börn sitji við sama borð óháð búsetu. Nefndin telur að vert sé að stefna að þessum markmiðum enda lykilatriði að verkaskipting og ábyrgð aðila sem koma að barnaverndarmálum sé skýr.
    Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar (þskj. 1425 á 139. löggjafarþingi) um frumvarp það er varð að lögum nr. 80/2011 kom fram að þegar málið var afgreitt úr nefndinni lá ekki fyrir samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um nánari framkvæmd við breytta verkaskiptingu og um starfsfólk, fasteignir og lausafjármuni sem við breytinguna færist frá sveitarfélögum til ríkis. Þá kom einnig fram að nauðsynlegt væri að þarfagreina landið í heild sinni svo hægt væri að tryggja úrræði fyrir þau börn sem þurfa á þeim að halda. Í nefndarálitinu komu einnig fram áhyggjur þess efnis að ef Barnaverndarstofu yrði ekki fengið aukið fjármagn til uppbyggingar nýrra úrræða væri ljóst að þjónusta við börn í Reykjavík yrði lakari frá því sem nú er. Þá voru einnig uppi áhyggjur af því að gjaldtaka vegna vistunar barna á vegum Barnaverndarstofu yrði sumum sveitarfélögum þung og mundi leggjast misþungt á þau og að sveitarfélög þyrftu mörg hver að fara að greiða fyrir þjónustu sem hingað til hefði verið þeim að kostnaðarlausu.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni nú komu fram allar þær athugasemdir sem getið er hér að framan og svo virðist sem lítið hafi miðað í undirbúningi tilfærslunnar. Það eru því nefndinni mikil vonbrigði að samkomulag hafi ekki tekist á milli aðila á því tæpa eina og hálfa ári síðan lögin voru samþykkt. Nefndin tekur þó að mestu leyti undir áhyggjur Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga hvað varðar uppbyggingu úrræða og kostnað vegna þeirra. Nefndin telur einsýnt að ef af tilfærslunni á að verða muni þurfa að koma til aukið fjármagn til uppbyggingar nýrra úrræða á vegum Barnaverndarstofu, en að öðrum kosti mun þjónusta við börn í Reykjavík verða lakari en nú er sem nefndin telur óviðunandi. Nauðsynlegt er hins vegar að greina þörfina fyrir úrræði á grundvelli barnaverndarlaga á landsvísu svo ljóst verði hversu mikið fjármagn þarf til. Nefndin telur eðlilegt að það verkefni sé á vegum velferðarráðuneytisins og beinir þeim tilmælum til ráðuneytisins að hafist verði handa við það svo fljótt sem verða má. Þá telur nefndin einnig rétt að kannað verði hvort tilfærsla fjármuna frá sveitarfélögum til ríkisins vegna tilfærslu þjónustunnar megi verða með öðrum hætti en með gjaldskrá. Fyrir nefndinni kom fram að gjaldskrá fyrir vistun barna gæti haft áhrif á val á úrræðum fyrir börn sem leitt gæti til þess í einhverjum tilvikum að barn fengi ekki þá þjónustu sem það þarfnast vegna þess kostnaðar sem því fylgir. Slíkt mundi vinna gegn grundvallarmarkmiðum barnaverndarstarfs, sbr. 2. gr. barnaverndarlaga, sem og markmiðum með tilfærslu heimila og stofnana á vegum Reykjavíkurborgar til ríkisins. Nauðsynlegt er að sátt náist um undirbúning tilfærslunnar og að framkvæmd hennar verði þannig að þjónusta við ákveðinn hóp barna skerðist ekki heldur leiði til þess að öll börn fái þá þjónustu sem þau nauðsynlega þurfa á að halda. Aðilar munu fá til þess rúmt ár og því er nauðsynlegt að nýta tímann vel.
    Að þessum athugasemdum virtum leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. október 2012.Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.Árni Þór Sigurðsson.


Einar K. Guðfinnsson.


Unnur Brá Konráðsdóttir.Eygló Harðardóttir.


Guðmundur Steingrímsson.