Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 272. máls.

Þingskjal 305  —  272. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum
og tollalögum (úthlutun tollkvóta og fóðursjóður).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
I. KAFLI

Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum,
nr. 99/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

    31. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    33. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Í stað 1.–3. mgr. 65. gr. A laganna koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Ráðherra skal að fengnum tillögum nefndar skv. 87. gr. úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur samkvæmt viðaukum IVA og B við tollalög á þeim tollum sem tilgreindir eru í 12. gr. tollalaga þegar framboð á viðkomandi vöru er ekki nægjanlegt á innanlandsmarkaði eða sýnt þykir að það verði ekki nægjanlegt á næstu þremur mánuðum.
    Framboð telst ekki nægjanlegt, sbr. 1. mgr., ef viðkomandi vara er ekki til stöðugrar dreifingar eða áætla má að hún verði það ekki í að lágmarki 90% magni af eftirspurn a.m.k. tveggja leiðandi ótengdra dreifingaraðila og er ekki fáanleg frá a.m.k. tveimur framleiðendum.
    Innflutningstímabil tollkvóta skv. 1. mgr. getur verið allt að eitt ár í senn en skal þó ekki vera styttra en einn mánuður.
    Tollkvóti í viðauka IVB sem við úthlutun ber lægri toll en kveðið er á um í 2. mgr. 12. gr. tollalaga kemur til frádráttar tollkvóta í viðauka IIIB. Skerðir þá kvótinn ekki úthlutunarheimildir samkvæmt þessari grein.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
     a.      Orðið „Matvælastofnun“ í 2. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „frá 100–5.000 kr., eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð“ í 2. mgr. kemur: sem mega nema 20.000–100.000 kr. fyrir hvern dag.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra skal taka ákvörðun um álagningu dagsekta skv. 2. mgr. að fenginni tillögu þess aðila sem heimilt er að safna upplýsingum samkvæmt lögum þessum. Dagsektir, að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu, renna í ríkissjóð og má gera aðför til fullnustu þeirra án undangengins dóms eða sáttar.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 87. gr. laganna:
     a.      Inngangsmálsliður 2. mgr. orðast svo: Nefndin skal gera tillögur til ráðherra um eftirgreind atriði.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Öllum þeim sem búa yfir upplýsingum sem að framan greinir ber skylda til að veita nefndinni upplýsingar sé þess óskað.

II. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
6. gr.

    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist við nýr töluliður sem orðast svo: Af fóðurvörum og hráefnum í þær í 10., 11., 12., 17. og 23. kafla tollskrár í viðauka I til framleiðslu landbúnaðarafurða.


7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „vöruliðar“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: miðað við SDR/kg.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal tollur á vörur í vöruliðum 0702– 0709 í 7. kafla tollskrár, að undanskildum vörum sem eru taldar upp í viðauka V, vera 10%.
     c.      Í stað 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Í viðaukum IVA og B eru tilgreindir tollkvótar sem ráðherra er fer með málefni landbúnaðar úthlutar skv. 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Tollur á þær vörur sem eru fluttar inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B skal lagður á sem magntollur og vera mismunur ríkjandi heildsöluverðs samkvæmt upplýsingum fengnum frá a.m.k. tveimur leiðandi ótengdum dreifingaraðilum og innflutningsverðs samkvæmt meðaltali tollverðs síðastliðinna sex mánaða. Hafi vara ekki verið flutt til landsins á síðustu sex mánuðum er heimilt að miða innflutningsverð við viðskiptaverð vörunnar í útflutningslandi að viðbættum flutnings- og vátryggingarkostnaði.
                  Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skulu við innflutning á vörum í viðauka V, á grundvelli tollkvóta samkvæmt viðaukum IVA og B, gilda þeir tolltaxtar sem þar eru tilgreindir. Úthlutun skal takmarkast af heildartollkvótum í tonnum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B.

8. gr.

    Við lögin bætist nýr viðauki, viðauki V, svohljóðandi:

Vara Verðtollar Magntollar
Tollskrárnr. % kr./kg
0208.9003 Rjúpur, frystar 0 0
0208.9007 Beinlaust hreindýrakjöt, fryst 0 878
Hreindýrakjöt með beini, fryst:
0208.9008 Skrokkar og hálfir skrokkar 0 0
0208.9009 Annað 0 878
Frjóegg til útungunar:
0407.1100 Af hænsnum af tegundinni Gallus domesticus 0 0
0407.1900 Önnur 0 0
0408.1901 Gerilsneyddar eggjarauður með 7% saltinnihaldi í ³ 5 kg umbúðum 0 39
0408.9901 Soðin egg í ³ 10 kg umbúðum 0 91
0603.1202 Innflutningur á öðrum tíma (nellikur) 0 48 kr./stk.
0603.1905 Innflutningur á öðrum tíma (lokaskegg, flamingóblóm, fuglamjólk og paradísarfuglablóm) 0 48 kr./stk.
0701.9001 Bökunarkartöflur, 65 mm eða stærri 0 0
0701.9009 Annars (kartöflur) 0 0
0703.9001 Blaðlaukur 0 0
0704.1000 Blómkál og hnappað spergilkál 0 0
0704.9001 Hvítkál 0 0
0704.9002 Rauðkál 0 0
0704.9003 Kínakál 0 0
0704.9004 Spergilkál (Brassica oleracea var. Ita.) 0 0
0706.1000 Gulrætur og næpur 0 0
0706.9001 Gulrófur 0 0
0706.9002 Rauðrófur 0 0
0709.4000 Selja, önnur en seljurót 0 0
0709.5100 Sveppir af ættinni Agaricus 0 80

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Eftirstöðvar fóðursjóðs skv. 31. og 33. gr. laga nr. 99/1993 við gildistöku laga þessara skulu renna í ríkissjóð.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 140. löggjafarþingi og er nú endurflutt að mestu óbreytt. Við frumvarpið hefur verið bætt ákvæðum um niðurlagningu fóðursjóðs.
    Frumvarp þetta, að undanskildum ákvæðum er varða fóðursjóð, er byggt á tillögum starfshóps sem skipaður var í ágúst 2011. Starfshópurinn var skipaður til að fjalla um álit umboðsmanns Alþingis frá 18. júlí 2011, í máli nr. 6070/2010, og gera tillögur að breytingum á ákvæðum tollalaga, nr. 88/2005, og laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, að teknu tilliti til athugasemda umboðsmanns Alþingis og þeirra þjóðréttarlegu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist. Í hópnum áttu sæti fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara, sem starfar skv. 87. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, vann með starfshópnum og var honum til ráðgjafar.
    Hinn 24. júní 2010 leituðu Samtök verslunar og þjónustu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir þremur reglugerðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um tollkvóta vegna innflutnings á ákveðnum landbúnaðarvörum. Kvörtunin laut að því að lagðir væru tollar á tollverð vara sem fluttar væru inn samkvæmt tollkvótum fremur en vörumagn. Í þessu fólst breyting frá því sem áður hafði gilt um úthlutun tollkvóta en ráðherra hafði fram að setningu framangreindra reglugerða sett reglugerðir þar sem miðað var við magntolla við úthlutunina, þ.e. á tímabilinu 1995–2008. Athugun umboðsmanns Alþingis á málinu varð honum tilefni til þess að taka til umfjöllunar hvernig ákvæði tollalaga, nr. 88/2005, og laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem reglugerðir ráðherra um úthlutun tollkvóta voru byggðar á, samrýmdust þeim kröfum sem leiðir af ákvæðum stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir, sbr. 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.
    Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 18. júlí 2011 er fjallað um heimild ráðherra til að leggja á verð- eða magntolla. Umboðsmaður taldi að ekki yrði annað séð en að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi með framsali verið fengið vald til að ákvarða hvort sá afsláttur sem veittur er frá greiðslu á almennum tolli samkvæmt tollalögum miðist við verð eða magn þeirrar vöru sem flutt er til landsins í samræmi við tollkvóta samkvæmt viðaukum IIIA og B og IVA og B við tollalögin. Umboðsmaður áréttaði að ákvæði 3. mgr. 5. gr. tollalaga hefðu ekki að geyma efnislega hlutlæg viðmið fyrir ráðherra til að taka ákvörðun sína um álagningu tollsins heldur leiddi aðeins af ákvæðinu að hámarkstollur færi eftir því hvort verðtollabinding eða magntollabinding leiddi af sér hærri álagningu.
    Þá vék umboðsmaður að heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skv. 3. mgr. 12. gr. tollalaga og 65. gr. A laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, til ákvörðunar tollprósentu. Samkvæmt framangreindum ákvæðum hefur löggjafinn falið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka ákvörðun með reglugerðarsetningu um það hver skuli vera tollur á þær vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B. Umboðsmaður benti á að þótt sjónarmið, sem tilgreind eru í 3. mgr. 12. gr. tollalaga, takmarki að einhverju leyti valdframsal til ráðherra til að ákvarða toll á vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum þá séu þau mjög matskennd og varpi ekki skýru ljósi á það hvernig ákvörðun ráðherra um tiltekna tollprósentu skuli fundin út.
    Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að þær heimildir sem ráðherra eru veittar til álagningar tolla samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 5. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og 3. mgr. 12. gr. sömu laga, sbr. 65. gr. A laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, væru ekki í samræmi við þær kröfur um skattlagningarheimildir sem leiðir af ákvæðum 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að fjalla um stjórnsýslulega meðferð ráðherra á þeim valdheimildum sem honum eru fengnar í lögum til þess að úthluta tollkvótum vegna innflutnings á landbúnaðarvörum í ljósi framangreindrar niðurstöðu sinnar.
    Miða þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu að því að takmarka eins og kostur er, í samræmi við athugasemdir umboðsmanns Alþingis, þau matskenndu skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt við ákvörðun um úthlutun tollkvóta og kveða skýrt á um tollprósentu sem vörur sem fluttar eru inn á grundvelli tollkvóta skuli bera þannig að ákvæðin fái staðist framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru þessar: Í fyrsta lagi er lagt til að miða skuli við magntolla við úthlutun á tollkvótum samkvæmt viðaukum IIIA og B en ekki verðtolla. Í framangreindum viðaukum eru tilgreindir tollkvótar samkvæmt skuldbindingum Íslands í samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sbr. 1. mgr. 12. gr. tollalaga, sem skylt er að úthluta árlega. Í öðru lagi er lagt til að skilgreint verði nánar í lögum hvaða staða þurfi að vera uppi á innanlandsmarkaði sem verður til þess að tollkvótum sé úthlutað samkvæmt viðaukum IVA og B. Einnig er lagt til að nánar verði skýrt hvernig tollur skuli ákveðinn við úthlutun tollkvóta og lögfest hlutlæg skilyrði fyrir þeirri ákvörðun. Með þessum breytingum er leitast við að koma til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis þar sem sett eru fram skýr og hlutlæg skilyrði fyrir ákvörðun um úthlutun tollkvóta og ákvörðun tolla á þær vörur sem úthlutað er samkvæmt slíkum kvótum.
    Frumvarp þetta viðheldur að mörgu leyti þeirri framkvæmd sem almennt hefur tíðkast um úthlutun tollkvóta en með því að lögfesta skýr og hlutlæg skilyrði fyrir ákvörðunum er talið að komið sé til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis. Hlutverk ráðgjafarnefndar sem nú starfar samkvæmt lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er skilgreint frekar með frumvarpi þessu þar sem gert er ráð fyrir að hún sinni talsverðri upplýsingasöfnun um stöðu á markaði. Skilyrðin sem sett eru fram í frumvarpinu miða að því að nægjanlegt magn af landbúnaðarvörum sé til staðar á innanlandsmarkaði á hverjum tíma þannig að þörfum neytenda sé fullnægt. Þá er stefnt að því að tryggja ákveðna verðsamkeppni á markaði með því að tryggja að vara sé ávallt fáanleg frá fleiri en einum framleiðanda, neytendum til hagsbóta. Þó er ekki hróflað við þeirri stefnu að innlend framleiðsla skuli njóta verndar gagnvart innflutningi og sé kleift að standast verðsamkeppni við vörur sem fluttar eru inn á grundvelli tollkvóta þar sem lagt er til að meginreglan verði sú að tollar séu lagðir á innfluttar vörur með hliðsjón af ríkjandi heildsöluverði á innanlandsmarkaði. Útsöluverð innfluttra vara verði þannig að jafnaði sambærilegt og útsöluverð innlendrar framleiðslu.
    Fóðursjóður var stofnaður með lögum nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Andvirði tolla af innfluttu fóðri og hráefnum í það í 10., 11., 12., 17., og 23. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög rennur í sérstakan sjóð, fóðursjóð, sem er í vörslu ráðherra. Ráðherra er heimilt að greiða innflytjendum eða kaupendum fóðurs fé úr fóðursjóði sem samsvarar tollum þeim sem þeir hafa greitt við innflutning vörunnar eða fóðurkaup. Þá er heimilt að greiða framleiðendum búvara fé úr fóðursjóði eftir afurðamagni. Eftirstöðvar tekna fóðursjóðs eftir greiðslur renna í Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Óverulegir fjármunir renna í sjóðinn því álagðir tollar eru að stærstum hluta felldir niður jafnóðum gegn framvísun skuldaviðurkenninga af hálfu innflytjenda.
    Í október 2011 hóf Ríkisendurskoðun úttekt á fóðursjóði og var gefin út skýrsla í mars 2012. Að mati Ríkisendurskoðunar ber að leggja fóðursjóð niður og afnema fóðurtolla sem felldir eru jafnharðan niður gegn framvísun skuldaviðurkenninga. Ríkisendurskoðun telur vandséð hvaða rök mæla með að fóðursjóður starfi áfram enda hafi hann einungis í för með sér kostnað og óþarfa umsýslu fyrir ríkið og innflytjendur án sjáanlegs ávinnings. Þá gefi fyrirkomulag vegna fóðursjóðs villandi mynd af tekjuöflun ríkisins þar sem ekki er um raunverulegar tolltekjur að ræða. Með frumvarpi þessu er lagt til að fóðursjóður, sem starfræktur er samkvæmt lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, verði lagður niður. Þá er lagt til að breyting verði gerð á tollalögum þannig að tollur lækki, falli niður eða endurgreiðist við innflutning fóðurs og hráefna í það í 10., 11., 12., 17., og 23. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög til framleiðslu landbúnaðarafurða samkvæmt ákvæðum tollalaga. Með þessum breytingum er stefnt að því að stuðla að einfaldari og gegnsærri stjórnsýslu við innflutning á fóðri og hráefni í það.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–2. gr.

    Með greinunum er lagt til að fóðursjóður verði lagður niður. Vísað er til almennra athugasemda frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um skilyrði þess að tollkvótum samkvæmt viðaukum IVA og B við tollalög sé úthlutað. Í frumvarpi þessu er lagt til að ráðherra sé skylt að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur á þeim tollum sem tilgreindir eru í 12. gr. tollalaga þegar sýnt þykir að ekki sé nægjanlegt framboð af viðkomandi vöru á innanlandsmarkaði en í gildandi ákvæði er kveðið á um heimild ráðherra til slíkrar úthlutunar. Þá er mælt fyrir um að heimildir ráðherra til að leggja mat á hvort „nægjanlegt framboð“ af tiltekinni vöru sé til staðar á innanlandsmarkaði verði byggðar á skýrum viðmiðum, sbr. 2. mgr. Lagt er til að ráðgjafarnefnd sem starfar skv. 87. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum verði falið það hlutverk að safna upplýsingum um stöðu og horfur á markaði og gera tillögur til ráðherra um úthlutun tollkvóta. Nefndin muni þá hefja slíka rannsókn ýmist á grundvelli innsendra erinda og upplýsinga, að eigin frumkvæði eða að beiðni ráðherra. Áréttað er að ráðherra hlýtur jafnan að fylgja ráðgjöf nefndarinnar enda verði hún byggð á bestu fáanlegu upplýsingum og faglegu mati.
    Í 2. mgr. er kveðið á um þau hlutlægu skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að ráðherra sé skylt að úthluta tollkvótum. Sé vara ekki til stöðugrar dreifingar eða áætla má að hún verði það ekki í að lágmarki 90% magni af eftirspurn að minnsta kosti tveggja leiðandi ótengdra dreifingaraðila er í frumvarpi þessu lagt til að ráðherra skuli úthluta tollkvótum samkvæmt viðaukum IVA og B. Með stöðugri dreifingu er átt við að varan sé til eða verði til innan viðunandi tímamarka á innanlandsmarkaði í að lágmarki 90% magni af eftirspurn aðilanna. Líta verður til þess hvort um sé að ræða grænmeti eða kjötafurðir því framleiðsla þeirra og dreifing er með mismunandi hætti. Gert er ráð fyrir að upplýsinga verði leitað frá að minnsta kosti tveimur leiðandi ótengdum dreifingaraðilum um eftirspurn eftir tiltekinni vöru á innanlandsmarkaði til þess að tryggja sem gleggsta mynd af markaðsaðstæðum hverju sinni. Heimilt er að leita eftir upplýsingum frá fleiri en tveimur leiðandi aðilum í þessum tilgangi. Með þessu fyrirkomulagi er einnig komið í veg fyrir að tengdir aðilar geti samræmt aðgerðir til að knýja á um úthlutun tollkvóta samkvæmt viðaukum IVA og B. Leiði upplýsingar þannig fengnar í ljós að innlendir framleiðendur nái ekki að anna að lágmarki 90% af eftirspurn eða muni ekki ná að anna þeirri eftirspurn á næstu þremur mánuðum er lagt til að ráðherra skuli úthluta tollkvóta samkvæmt ákvæðinu. Þá er gert ráð fyrir því í ákvæðinu að vara teljist ekki í boði á innanlandsmarkaði í nægjanlegu magni ef hún er eingöngu fáanleg frá einum innlendum framleiðanda. Þannig er stefnt að því að tryggja ákveðna verðsamkeppni á markaðnum.
    Leiki vafi á því hverjir séu leiðandi aðilar á markaði eða upplýsingar vantar um tengsl aðila er gert ráð fyrir að ráðgjafarnefndin geti leitað eftir aðstoð þar til bærra aðila. Ráðgjafarnefndin getur þá til dæmis í upphafi tímabils leitað eftir áliti um hvaða aðilar séu leiðandi á sínu sviði en ekki er gert ráð fyrir að leita þurfi álits í hverju einstöku tilfelli.
    Í 3. mgr. er lagt til að innflutningstímabil tollkvóta skv. 1. mgr. geti verið allt að eitt ár í senn, en þó eigi styttra en einn mánuður. Í reglugerð sem gefin verður út vegna úthlutunar tollkvóta verði tilgreint hversu langt innflutningstímabil skal vera. Ráðgjafarnefnd muni í tillögum sínum til ráðherra um úthlutun tollkvóta leggja til hversu langt tímabilið eigi að vera, með hliðsjón af aðstæðum á innanlandsmarkaði.
    Í 4. mgr. er lagt til að tollkvóti í viðauka IVB, sem við úthlutun ber lægri toll en kveðið er á um í 2. mgr. 12. gr. tollalaga, skuli koma til frádráttar tollkvóta í viðauka IIIB. Tollkvótinn skerði þá ekki úthlutunarheimildir samkvæmt greininni.
    Með ákvæði þessu er leitast við að takmarka eins og kostur er, í samræmi við athugasemdir umboðsmanns Alþingis, þau matskenndu skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt við ákvörðun um úthlutun tollkvóta samkvæmt viðaukum IVA og B við tollalög.

Um 4. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á heimild til álagningar dagsekta á þá aðila sem skylt er að veita upplýsingar samkvæmt lögunum. Lagt er til að heimild til álagningar dagsekta verði ekki takmörkuð við upplýsingagjöf til Matvælastofnunar eins og nú er skv. 2. mgr. 82. gr. laganna heldur taki heimildin til allra þeirra aðila sem safna upplýsingum á grundvelli laganna. Áskilið er að fram komi tillaga um beitingu dagsekta frá þeim sem safnar skýrslum eða upplýsingum samkvæmt lögunum og lagt til að ráðherra taki þá ákvörðun um álagningu dagsekta. Eðli málsins samkvæmt á þetta ekki við þegar ráðuneytið sjálft aflar upplýsinga.
    Lagt er til að fjárhæðir dagsekta verði hækkaðar en þær hafa verið óbreyttar frá gildistöku búvörulaga, nr. 46/1985. Þær fjárhæðir sem lagðar eru til í frumvarpi þessu þykja hæfilegar til að þjóna markmiði sínu.
    Mikilvægt er að aðilar sem safna upplýsingum samkvæmt lögunum hafi úrræði til að bregðast við þegar aðilar sem skylda hvílir á um að veita upplýsingar tregðast við að láta þær í té. Gera má ráð fyrir að ráðgjafarnefndin þurfi oft og tíðum að ráðast í viðamikla upplýsingasöfnun og er þá nauðsynlegt að hægt sé að knýja fram gögn með beitingu viðurlaga.

Um 5. gr.

    Í a-lið er kveðið á um skyldu ráðgjafarnefndar, sem starfar skv. 87. gr. laganna, til að gera tillögur til ráðherra er fer með málefni landbúnaðar um úthlutun tollkvóta, um ákvörðun verðjöfnunargjalda við inn- og útflutning og um beitingu viðbótartolla. Áður var nefndin ráðherra til ráðuneytis um framangreind atriði en ástæða þykir, með hliðsjón af öðrum breytingum sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, að kveða á um skyldu nefndarinnar til að gera tillögur til ráðherra.
    Í b-lið er kveðið á um skyldu til að veita nefndinni viðeigandi upplýsingar sé þess óskað. Til þess að ráðgjafarnefndin geti sinnt því hlutverki sem henni er falið í frumvarpi þessu er nauðsynlegt að hún geti aflað upplýsinga og er því lögð upplýsingaskylda á alla þá sem búa yfir viðeigandi upplýsingum. Ákvæði þetta tengist einnig breytingu á ákvæði 82. gr. laganna, sbr. 4. gr. frumvarpsins.

    Um 6. gr.

    Með greininni er lagt til að við 7. gr. tollalaga bætist nýr töluliður. Samkvæmt ákvæðinu skal tollur lækka, falla niður eða endurgreiðast af fóðurvörum og hráefnum í þær í 10., 11., 12., 17. og 23. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög til framleiðslu landbúnaðarafurða. Með þessu fyrirkomulagi er ekki hróflað við þeim 55% tolli sem umræddar vörur bera samkvæmt tollskrá en engu að síður verður hann felldur niður við innflutning.

Um 7. gr.

    Með greininni eru lagðar til nokkrar breytingar á 12. gr. tollalaga um ákvörðun tolls við úthlutun tollkvóta samkvæmt viðaukum IIIA og B og IVA og B við tollalög.
    Í a-lið er lagt til að tollur á þær vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum í viðauka IIIA, sem skylt er að gefa út á hverju ári, verði 32% af grunntaxta viðkomandi vöruliðar miðað við SDR/kg eins og hann er tilgreindur í viðauka IIA með tollalögum. Tollur muni þannig miðast við tollabindingu í SDR (sérstök dráttarréttindi, Special Drawing Rights) á hvert kílógramm þeirrar vöru sem flutt er inn en sú var framkvæmdin á tímabilinu 1995– 2008. Slíkur magntollur verndar innlenda framleiðslu þegar verð á heimsmarkaði er lágt betur en verðtollur og dregur úr verðsveiflum á innanlandsmarkaði. Af gildandi ákvæði verður hins vegar ráðið að ráðherra eigi val um hvort miðað sé við 32% af þeirri bindingu sem miðast við verð eða 32% af þeirri bindingu sem miðast við magn, í þeim tilvikum þegar báðar eru tilgreindar í viðauka IIA, sbr. 3. mgr. 5. gr. tollalaga.
    Í b-lið er lagt til að tollur á vörur sem falla undir vöruliði 0702–0709 í 7. kafla tollskrár, að undanskildum þeim vörum sem tilgreindar eru í nýjum viðauka við tollalögin, viðauka V, verði 10% í stað 30%, enda sé þeim úthlutað á grundvelli tollkvóta samkvæmt viðauka IIIB. Framkvæmdin hefur lengi verið sú að þær vörur sem hér falla undir hafa borið 10% verðtoll. Tollkvótum hefur þá verið úthlutað samkvæmt viðauka IVB þannig að tollur hefur verið 10%, sem er lægri en sá 30% tollur sem kveðið er á um í núgildandi 2. mgr. 12. gr. tollalaga. Tollkvótinn hefur þá komið til frádráttar tollkvóta í viðauka IIIB, sbr. heimild í 2. mgr. 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpi þessu um ákvörðun tolls við úthlutun tollkvóta úr viðauka IVB þykir þörf á að festa þessa framkvæmd í lögum.
    Í 1. mgr. c-liðar er fjallað um hvernig ákvarða skuli toll á þær vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B við tollalögin. Lagt er til að tollur verði lagður á sem magntollur og ákvarðaður sem mismunur ríkjandi heildsöluverðs og innflutningsverðs samkvæmt meðaltali tollverðs síðastliðinna sex mánaða. Hafi vara ekki verið flutt til landsins er þó heimilt samkvæmt ákvæðinu að miða innflutningsverð við viðskiptaverð vörunnar í útflutningslandi að viðbættum flutnings- og vátryggingarkostnaði. Með þessu fyrirkomulagi er stefnt að því að jafnræði ríki milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu í samkeppnislegu tilliti á innanlandsmarkaði. Þá er gert ráð fyrir því að verðtollur falli niður þar sem í ákvæðinu er einungis kveðið á um að leggja skuli magntoll á viðkomandi vörur.
    Í 2. mgr. c-liðar er mælt fyrir um undanþágu frá meginreglunni um ákvörðun tolls á grundvelli ríkjandi heildsöluverðs og innflutningsverðs í nokkrum tilvikum. Lagt er til að ákveðnar vörur verði tilgreindar í sérstökum viðauka ásamt þeim magntollum sem við eiga en lagt er til að við tollalögin bætist nýr viðauki, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Tollkvótum á grundvelli viðauka IVA og B vegna innflutnings á rjúpum, hreindýrakjöti, ákveðnum eggjaafurðum, útiræktuðu grænmeti, bökunarkartöflum, ákveðnum blómum og sveppum verður þá úthlutað á þeim tollum sem í viðaukanum greinir. Framleiðslu þessara vara er þannig háttað hér á landi að útreikningar sem lagt er til að verði notaðir almennt við úthlutun tollkvóta samkvæmt viðaukum IVA og B eiga illa við vörurnar. Því er lagt til að tollur á þær vörur verði ákveðinn í viðauka og þegar skilyrði 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum eru uppfyllt verði tollkvótum úthlutað á þeim tollum sem þar greinir og gefin út reglugerð þar sem auglýst er að tollar, sem í viðaukanum greinir, eigi við um innflutninginn í ákveðinn tíma. Þegar nægjanlegt framboð er á vörum sem tilgreindar eru í viðauka V munu hefðbundnir magntollar lagðir á vörurnar við innflutning.
    Með greininni eru lagðar til breytingar sem fela í sér að ekki er lengur um að ræða framsal á valdi frá Alþingi til ráðherra til að ákveða toll á vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum, sem tilgreindir eru í viðaukum IIIA og B og IVA og B við tollalögin, heldur ákvarðast tollur á grundvelli hlutlægra viðmiða sem kveðið er á um í lögum. Þannig er komið til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis.

Um 8. gr.

    Með greininni er lagt til að nýjum viðauka verði bætt við tollalög, nr. 88/2005. Vísað er til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu
og sölu á búvörum og tollalögum (úthlutun tollkvóta og fóðursjóður).

    Markmið frumvarpsins er tvíþætt. Annars vegar er því ætlað að innleiða í lög tillögur starfshóps sem skipaður var í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis sem laut að ákvörðun um úthlutun tollkvóta innfluttra landbúnaðarvara. Hins vegar er lagt til í frumvarpinu að Fóðursjóður verði lagður niður.
    Breytingu á framkvæmd úthlutunar tollkvóta er ætlað að bæta starfsferlið við úthlutun þeirra með því að takmarka sem kostur er þau matskenndu skilyrði sem gengið hefur verið út frá. Samtök verslunar og þjónustu kærðu framkvæmd úthlutunarinnar til umboðsmanns Alþingis eftir að fyrirkomulagi úthlutunar tollkvóta var breytt á árinu 2009 í þá veru að miðað var við verðtolla í stað magntolla eins og verið hafði allt frá árinu 1995. Helstu breytingar sem lagðar eru til vegna þessa í frumvarpinu eru í fyrsta lagi að lögfest verði að miðað skuli við magntolla þegar tollkvótum er úthlutað samkvæmt viðaukum III A og III B við tollalög. Í viðaukunum eru tilgreindir tollkvótar sem skylt er að úthluta árlega samkvæmt skuldbindingum Íslands í samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Í öðru lagi er lagt til að skilgreint verði nánar í lögum hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi á innanlandsmarkaði til þess að tollkvótum verði úthlutað samkvæmt viðaukum IV A og IV B við tollalög og að nánar verði skýrt hvernig tollur skuli ákveðinn við úthlutun tollkvóta og lögfest hlutlæg skilyrði fyrir þeirri ákvörðun. Í þriðja lagi er lögð til breyting á hlutverki ráðgjafarnefndar sem nú starfar samkvæmt lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Í frumvarpinu er lögð sú lagaskylda á nefndina að gera tillögur til ráðherra um úthlutun tollkvóta, ákvörðun um verðjöfnunargjald við inn- og útflutning og um beitingu viðbótartolla. Jafnframt eru ákvæði um upplýsingaskyldu til nefndarinnar hert. Þá er lagt til að heimild til dagsekta verði rýmkuð þannig að hún verði ekki eingöngu bundin við Matvælastofnun og að viðmið dagsekta hækki úr því að vera frá 100 kr. til 5 þús. kr. á dag í 20 –100 þús. kr. á dag. Ekki er gert ráð fyrir að hækkun dagsekta hafi teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs þar sem ætla má að slíkum dagsektum verði eingöngu beitt í undantekningartilvikum.
    Eftir að farið var að miða við verðtolla við úthlutun tollkvóta samkvæmt viðauka III A og III B árið 2009 lagðist innflutningur á slíkum vörum nánast af þar sem lítill ávinningur var af því að fá úthlutað tollkvóta. Fyrir vikið lækkuðu tekjur ríkissjóðs af þessum tollum úr rúmum 100 m.kr. árið 2008 niður í nokkur þúsund krónur árin á eftir. Gera má ráð fyrir að með lögfestingu frumvarpsins muni aftur verða ávinningur fyrir sölu- og dreifingaraðila af því að bjóða í slíka tollkvóta og að innflutningur á þessum vörum hefjist að nýju. Hverjar tekjur ríkissjóðs munu verða ræðst af markaðsaðstæðum hverju sinni en ætla má að þær gætu orðið sambærilegar við það sem þær voru áður en fyrirkomulaginu var breytt.
    Með niðurlagningu á Fóðursjóði er verið að bregðast við breyttum forsendum í framleiðslu landbúnaðarvara en sams konar áform voru uppi fyrir nokkrum árum en gengu ekki eftir. Segja má að hlutverk hans og tilgangur eigi ekki lengur við samanber úttekt Ríkisendurskoðunar á sjóðnum í október 2011. Það er mat stofnunarinnar að leggja beri sjóðinn niður þar sem hann hafi eingöngu í för með sér kostnað og óþarfa umsýslu fyrir ríkið og innflytjendur án sjáanlegs ávinnings. Fóðursjóður var stofnaður með lögum árið 1995 vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og staðfestingu Íslands á GATT-samningnum (e. General Agreement on Tariffs and Trade). Tilgangurinn með stofnun sjóðsins var að viðhalda fyrirkomulagi sem beitt var til að draga úr framleiðslu landbúnaðarvara og var í því skyni notast við álagningargjöld á innflutning á dýrafóðri og hráefni til þess. Í stuttu máli starfar sjóðurinn með þeim hætti að lagður er tollur á allt innflutt fóður og hráefni til þess. Andvirði tollanna rennur svo í sjóðinn en nánast allar tolltekjurnar er síðan endurgreiddar til innflytjenda. Því má segja að þetta fyrirkomulag gefi ranga mynd af tolltekjum ríkissjóðs þar sem þær eru í raun mjög litlar af fóðurvörum. Þess utan kostar sjóðurinn óþarfa fyrirhöfn fyrir stjórnsýsluna og atvinnulífið vegna þeirrar umsýslu sem þessu fyrirkomulagi fylgir. Til að tryggja að tollur á fóðurvörur verði felldur niður við innflutning er í frumvarpinu gert ráð fyrir nýju ákvæði í tollalögum um niðurfellingu tolla að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Engu að síður er ekki hróflað við þeim 55% tolli sem umræddar vörur bera samkvæmt tollskrá.
    Með því að leggja niður Fóðursjóð má gera ráð fyrir að tekjur og útgjöld ríkissjóðs lækki um 2.000 m.kr. sem er velta sjóðsins samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2011. Meginmarkmið með breytingunni er þó að einfalda stjórnsýsluna en ætla má að nokkur hagræðing fylgi því að leggja sjóðinn niður en ekki eru forsendur hér til að meta það í fjárhæðum.
    Að framansögðu má því gera ráð fyrir að lögfesting þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu gæti lækkað tekjur og útgjöld ríkissjóðs um 2.000 m.kr. vegna niðurlagningar Fóðursjóðs en bætt afkomu ríkissjóðs um 100 m.kr. á ári vegna tekna af auknum innflutningi á vörum sem falla undir tollkvóta frumvarpsins.