Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 282. máls.

Þingskjal 315  —  282. mál.



Frumvarp til laga

um búfjárhald.

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




I. KAFLI
Markmið, yfirstjórn og skilgreiningar.
1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að setja reglur um vörslu búfjár, merkingu búfjár og öflun hagtalna.

2. gr.

    Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Matvælastofnun annast öflun hagtalna og eftirlit með merkingum búfjár.
    Með búfé er í lögum þessum átt við alifugla, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín. Rísi ágreiningur um hvað skuli falla undir hugtakið búfé sker Matvælastofnun úr.

3. gr.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Bústofn er gagnagrunnur sem Matvælastofnun heldur utan um og inniheldur upplýsingar um hagtölur.
     2.      Friðað svæði er land afmarkað vörslulínu sem hindrar aðgang búfjár.
     3.      Gripheld girðing er mannvirki úr ýmsu efni sem er reist til að hindra frjálsa för búfjár. Hún er breytileg að gerð og gæðum eftir tegund. Girðing getur miðast við aldur og kyneiginleika búfjár, verið fjárheld, hrossheld, nautgripaheld, graðpeningsheld o.s.frv.
     4.      Hagaganga er það þegar eigandi búfjár kemur því í haga til annars aðila án þess að taka landið á leigu og gerir um það samning. Sá aðili verður þar með umráðamaður búfjárins.
     5.      Hagtölur eru upplýsingar um fjölda búfjár af hverri tegund, staðsetningu þess og fóðurbirgðir.
     6.      Landspilda er ákveðinn hluti lands sem afmarkaður hefur verið.
     7.      Lausaganga er þegar búfé getur gengið í annars manns land í óleyfi.
     8.      Lausagöngubann er bann sem sveitarstjórn samþykkir fyrir sveitarfélag í heild eða hluta þess og auglýsir í Stjórnartíðindum til að koma í veg fyrir lausagöngu búfjár, einnar tegundar eða fleiri.
     9.      Umráðamaður búfjár er eigandi búfjár eða aðili sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði og vörslu þess í samræmi við gildandi reglur í viðkomandi sveitarfélagi og samkvæmt samningi milli aðila.
     10.      Umráðamaður lands er sá aðili sem hefur rétt til að ráðstafa nýtingu landsins.
     11.      Varsla búfjár er þegar umráðamaður búfjár heldur því innan afmarkaðs svæðis.
     12.      Vörslukrafa er krafa eða viðmiðun um gerð og gæði tiltekinnar vörslu, mismikil eftir tegund, aldri og kyneiginleikum búfjár.
     13.      Vörslulína er gripheld girðing, hlið og önnur mannvirki, svo og náttúrlegur farartálmi sem kemur algerlega í veg fyrir frjálsa för búfjár allt árið eða á þeim tímum árs þegar búfjár er von á svæðinu.
     14.      Vörsluskylda er skilyrðislaus krafa um að umráðamaður búfjár ábyrgist að búfé í umsjá hans sé haldið innan afmarkaðs svæðis allt árið eða tiltekna hluta þess.

II. KAFLI
Takmörkun búfjárhalds.
4. gr.

    Sveitarstjórn er heimilt að setja samþykkt um búfjárhald. Ráðherra staðfestir slíka samþykkt og birtir í Stjórnartíðindum að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands.
    Í samþykktum sveitarstjórna um búfjárhald má ákveða að tiltekið búfjárhald sé með öllu bannað í viðkomandi sveitarfélagi eða takmarkað á tilteknum svæðum innan sveitarfélagsins. Verði búfjáreigandi fyrir atvinnutjóni vegna banns eða takmarkana á búfjárhaldi, þannig að bótum varði, skal greiða bætur úr sveitarsjóði.
    Um mat bóta skv. 2. mgr. skal fara að hætti mats á eignarnámsbótum og sér matsnefnd eignarnámsbóta um framkvæmd matsins.

III. KAFLI
Varsla búfjár.
5. gr.

    Sveitarstjórnum, einni eða fleiri samliggjandi sveitarfélaga, er heimilt, til að koma í veg fyrir ágang búfjár, að ákveða að umráðamönnum búfjár sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Heimild þessi getur jafnt tekið til alls umdæmis viðkomandi sveitarfélags eða afmarkaðra hluta þess, svo sem umhverfis þéttbýli eða fjölfarna vegi.
    Þar sem sveitarstjórn hefur gert umráðamönnum búfjár skylt að hafa búfé í vörslu skal vera gripheld girðing og ber umráðamaður búfjár ábyrgð á að svo sé. Um kostnað við uppsetningu girðinga og viðhald fer eftir ákvæðum girðingar- og vegalaga.

6. gr.

    Graðpeningi skal haldið í vörslu sem hér segir:
     1.      Naut, 6 mánaða og eldri, allt árið.
     2.      Hrútar og hafrar, á tímabilinu frá 1. nóvember til 1. maí ár hvert.
     3.      Graðhestar eða laungraðir hestar, 10 mánaða og eldri, allt árið. Veturgamlir folar skulu þó ætíð vera komnir í vörslu eigi síðar en 1. júní þó að þeir séu ekki orðnir fullra 10 mánaða.
     4.      Aðrar búfjártegundir en framan greinir, allt árið.
    Sveitarstjórn skal hlutast til um að graðpeningur, sem ekki er í öruggri vörslu, sé handsamaður og honum komið í örugga vörslu. Eigandi getur leyst til sín viðkomandi graðpening gegn greiðslu áfallins kostnaðar. Við ítrekuð brot skal graðhestur seldur nauðungarsölu samkvæmt nauðungarsölulögum en felldur verði hann ekki seldur. Öðrum graðpeningi skal slátrað og sölu- eða frálagsverð látið mæta áföllnum kostnaði.

7. gr.

    Umráðamanni lands er heimilt að ákveða að tiltekið og afmarkað landsvæði sé friðað svæði og er þá umgangur og beit búfjár þar bönnuð. Slík ákvörðun skal tilkynnt viðkomandi sveitarfélagi og skal liggja fyrir umsögn búnaðarsambands um að vörslulínur séu fullnægjandi og uppfylli ákvæði laganna, sbr. 3. gr. Sveitarstjórn skal auglýsa slíka ákvörðun í Stjórnartíðindum. Umráðamaður lands skal fyrir 15. júní á hverju vori framvísa til sveitarstjórnar umsögn búnaðarsambands um að vörslulína sé fullnægjandi. Um skiptingu kostnaðar við vörslulínu á landamerkjum fer eftir ákvæðum girðingar- og vegalaga.

8. gr.

    Komist búfé inn á friðað svæði, sbr. 7. gr., skal umráðamaður lands ábyrgjast handsömun þess og koma því í örugga vörslu. Skal hann þá þegar kanna hver er réttur eigandi að hinu handsamaða búfé og tilkynna honum þegar í stað hvar búféð er. Hafi umráðamaður búfjár ekki fundist eða sinnt fyrirmælum um að sækja búféð innan tveggja sólarhringa frá tilkynningu er umráðamanni lands heimilt að afhenda viðkomandi sveitarstjórn búféð. Umráðamaður lands ber ábyrgð á því að búfé hafi nægilegt fóður og vatn á meðan það er í vörslu hans.
    Sveitarstjórn og umráðamaður lands eiga lögveð í búfénu fyrir sannanlegum kostnaði.

IV. KAFLI
Hagtölur.
9. gr.

    Á hverju hausti og eigi síðar en 1. nóvember sendir Matvælastofnun öllum umráðamönnum búfjár haustskýrslu til útfyllingar ásamt reglum um útfyllingu. Matvælastofnun er heimilt að framkvæma þessa upplýsingaöflun með rafrænum hætti og skylda búfjáreigendur til að skrá upplýsingarnar í gagnagrunninn Bústofn.
    Í haustskýrslunni skal koma fram fjöldi ásetts búfjár af hverri tegund og allt búfé í hagagöngu og á hvaða jörð eða landspildu það er. Einnig skal koma fram gróffóðurforði af hefðbundnum nytjatúnum og leigutúnum og fyrningar auk upplýsinga um aðra fóðuröflun.
    Umráðamaður búfjár skal fyrir 20. nóvember skila inn haustskýrslu með upplýsingum um framangreindar hagtölur.
    Matvælastofnun skal fara og skoða hjá umráðamönnum búfjár sem ekki skila inn fullnægjandi gögnum. Slík skoðun skal framkvæmd á kostnað umráðamanns búfjár.
    Matvælastofnun er jafnframt heimilt að fara árlega í skoðun til allra umráðamanna búfjár til að sannreyna upplýsingagjöf skv. 2. mgr.
    Matvælastofnun og Hagstofu Íslands er heimilt að nota upplýsingar úr skýrslum skv. 2. mgr. Öðrum opinberum aðilum er heimilt að nota upplýsingar úr skýrslum skv. 2. mgr. að fengnu leyfi Matvælastofnunar.

10. gr.

    Matvælastofnun hefur eftirlit með merkingum og skráningum búfjár, sbr. 12. gr. Umráðamaður búfjár ber kostnað af eftirliti reynist merkingum eða skráningum ábótavant.

11. gr.

    Meini umráðamaður búfjár Matvælastofnun um aðgang að gripahúsum og/eða beitilöndum þannig að ekki verði komið við upplýsingaöflun samkvæmt lögum þessum er heimilt að leita aðstoðar lögreglustjóra. Óheimilt er að fara í þessum tilgangi inn í gripahús án leyfis ábúanda eða umráðamanns búfjár nema að undangengnum dómsúrskurði.
    Matvælastofnun er heimilt að fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði sé stofnuninni meinaður aðgangur til talningar búfjár enda sé fjöldi gripa grundvöllur greiðslna.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
12. gr.

    Ráðherra getur m.a. sett eftirfarandi reglugerðir um búfjárhald:
     1.      Reglugerð um merkingar búfjár þar sem kveðið er á um að umráðamönnum búfjár sé skylt að merkja allt búfé sitt samkvæmt viðurkenndu merkingar- og skráningarkerfi.
     2.      Reglugerð um vörslu búfjár. Í reglugerðinni skal fjallað um almenn ákvæði um vörslu búfjár af hverri tegund og einnig kveðið á um almennar reglur um framkvæmd þeirrar vörslu.
     3.      Reglugerð um eftirlit og öflun Matvælastofnunar á hagtölum.

13. gr.

    Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum og samþykktum sem settar verða samkvæmt þeim varða sektum.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarpi þessu var dreift á 140. löggjafarþingi og er nú lagt fram óbreytt.
    Frumvarp þetta er byggt á tillögum nefndar sem skipuð var til að vinna að heildarendurskoðun dýraverndarlaga, nr. 15/1994. Í bréfi umhverfisráðherra, dags. 2. apríl 2008, var tilkynnt að ráðuneytið hefði ákveðið að skipa nefndina. Meðal hlutverka nefndarinnar var að fara yfir ákvæði laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.
    Á seinni hluta árs 2010 byrjaði nefndin að ræða mögulegar breytingar á lögum um búfjárhald o.fl. vegna frumvarps til laga um velferð dýra sem þá var í smíðum. Upphafleg nefnd sem skipuð var 2. apríl hafði tekið breytingum m.a. vegna þess að ákveðið var í samráði ráðuneytanna sem í hlut eiga, umhverfisráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, að leggja til tilflutning málaflokksins. Eftir þær breytingar sátu í nefndinni Kristinn Hugason stjórnsýslufræðingur, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, formaður, Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, tilnefndur af Matvælastofnun, Hjalti J. Guðmundsson sviðsstjóri, tilnefndur af Umhverfisstofnun, Sif Traustadóttir dýralæknir, tilnefnd af Dýralæknafélagi Íslands, Sigurborg Daðadóttir dýralæknir, tilnefnd af dýraverndarráði, og Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, tilnefnd af umhverfisráðuneytinu. Auk þess störfuðu Margrét B. Sigurðardóttir, fagsviðsstjóri á Matvælastofnun, Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun, og Steinþór Arnarson, lögfræðingur hjá Matvælastofnun, með nefndinni.
    Fundað var með Sambandi íslenskra sveitarfélaga við gerð frumvarps til laga um velferð dýra og voru mögulegar breytingar á lögum um búfjárhald o.fl. þá ræddar. Sambandið ítrekaði á fundinum afstöðu sem birtist í umsögn þess, dags. 5. mars 2002, um frumvarp til laga um búfjárhald o.fl. Í umsögn sambandsins var talið að endurskoða þyrfti hlutverk sveitarfélaga í framkvæmd búfjáreftirlits og forðagæslu og draga úr þeirri ábyrgð sem þeim er falin á einni tiltekinni atvinnugrein, þ.e. landbúnaðinum.
    Afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga var í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar um tilflutning þessa hluta stjórnsýslunnar og þótti því m.a. nauðsynlegt af þeirri ástæðu að breyta lögum um búfjárhald o.fl. Hitt vó þó þyngra á metaskálunum að með frumvarpi til laga um velferð dýra er að stærstum hluta verið að sameina löggjöf á sviði dýraverndar og búfjárhalds sem nú fellur undir bæði lög nr. 15/1994, um dýravernd, og lög nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl. Var sú leið valin að leggja fram nýtt frumvarp til laga um búfjárhald og fella núgildandi lög úr gildi.
    Í frumvarpi til laga um velferð dýra er lagt til að eftirlit með velferð dýra sé í höndum Matvælastofnunar. Eftir þá breytingu yrði umfang búfjáreftirlitsins takmarkað við upplýsingaöflun um fjölda búfjár auk eftirlits með merkingum. Afstaða sveitarfélaganna hefur lengi verið sú að búfjáreftirlitið og forðagæslu beri að flytja frá sveitarfélögunum. Þá er lagt til að Matvælastofnun annist einnig öflun hagtalna og eftirlit með merkingum. Þetta yrði viðbót við það eftirlit með starfsemi bænda sem þegar er hjá Matvælastofnun, svo sem matvælaeftirlit, fóðureftirlit og eftirlit með dýrasjúkdómum, og því skapast möguleikar á að fækka eftirlitsferðum og gera þær um leið markvissari ef stofnunin fer með málaflokkinn í heild.
    Matvælastofnun á síðan kost á að ráða til sín búfjáreftirlitsmenn sem nú eru starfsmenn sveitarfélaganna og gætu þeir starfsmenn t.d. sinnt eftirliti með velferð dýra, framleiðslu matvæla og fóðri og aflað hagtalna.
    Frumvarpið var kynnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Bændasamtökum Íslands og þeim gefið færi á að koma fram athugasemdum.
    Nokkur ákvæði er ekki að finna í frumvarpinu sem áður voru í lögum nr. 103/2002 þar sem þeim hefur verið fundinn staður með einum eða öðrum hætti í frumvarpi til laga um velferð dýra. Þetta eru 4. gr. og 14.–16. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl. Mörg önnur ákvæði eru lítillega breytt vegna breytts gildissviðs eða eru samhljóða greinum í lögum um búfjárhald o.fl.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Greinin byggist á 1. gr. laga um búfjárhald o.fl. en markmið laganna er ekki lengur að tryggja velferð búfjár og er 1. gr. breytt í samræmi við það.

Um 2. gr.

    Greinin byggist á 2. gr. laga um búfjárhald o.fl. en lögin varða ekki lengur velferð búfjár og er 2. gr. breytt í samræmi við það.

Um 3. gr.

    Greinin er nánast samhljóða 3. gr. laga um búfjárhald o.fl. en skilgreining á aðbúnaði búfjár og á tilsjónarmanni fellur brott og við bætast skilgreiningar á gagnagrunninum Bústofni og hagtölum.

Um 4. gr.

    Greinin er samhljóða 5. gr. laga um búfjárhald o.fl.

Um 5. gr.

    Greinin er samhljóða 6. gr. laga um búfjárhald o.fl.

Um 6. gr.

    Greinin er samhljóða 7. gr. laga um búfjárhald o.fl. nema hvað lagt er til að ákvæði um vörslu ungfola verði áréttað þannig að skylt verði að allir folar séu komnir í vörslu eigi síðar en 1. júní vorið sem þeir verða veturgamlir en samkvæmt núgildandi ákvæði er jafnvel ekki skylt að folar séu komnir í vörslu fyrr en í júnílok eða í júlí sé um síðkastaða fola að ræða. Það er með öllu ófullnægjandi þar sem aukið eldi og bætt meðferð hefur leitt til þess að veturgamlir folar eru nú mun meira bráðþroska en fyrr, auk þess sem sívaxandi ræktunarbúskapur gerir kröfu til þess að stemmt sé stigu við hættu á óhappafyljun.

Um 7. gr.

    Greinin er samhljóða 8. gr. laga um búfjárhald o.fl.

Um 8. gr.

    Greinin er samhljóða 9. gr. laga um búfjárhald o.fl.


Um 9. gr.

    Greinin er byggð á 11.–13. gr. laga um búfjárhald o.fl. Greininni hefur verið breytt í samræmi við að Matvælastofnun annast upplýsingaöflunina og hún gerð sveigjanlegri með tilliti til tíma og útfærslu. Gert er ráð fyrir að skylda megi búfjáreigendur til að skrá upplýsingarnar í gagnagrunninn Bústofn en sá gagnagrunnur er nú þegar starfræktur.

Um 10. gr.

    Greinin er nýmæli en á grundvelli laga um búfjárhald o.fl. hefur verið sett reglugerð um merkingar búfjár og Matvælastofnun haft eftirlit með því að reglugerðinni sé fylgt. Rétt þykir að kveða á um þetta eftirlit í frumvarpinu.

Um 11. gr.

    Greinin er að hluta til byggð á 15. gr. laga um búfjárhald o.fl. en framkvæmdin einfölduð. Þá er það nýmæli að kveða á um að heimilt sé að fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði ef stofnuninni er meinaður aðgangur til talningar búfjár. Hluti opinberra greiðslna byggist á talningu búfjár og eðlilegt að aðgengi opinberra aðila að þeim upplýsingum sé gott til að þær séu réttar og þar af leiðandi opinberar greiðslur.

Um 12. gr.

    Greinin er byggð á 17. gr. laga um búfjárhald o.fl. en heimildir til setningar á reglugerðum er varða aðbúnað búfjár eru felldar brott en þær heimildir er að finna í lögum um velferð dýra.

Um 13. gr.

    Brot gegn frumvarpinu varða sektum en ekki er ástæða til að brot varði fangelsi líkt og lög um búfjárhald o.fl. gera ráð fyrir þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir þrengra gildissviði.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Fylgiskjal I.

Atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneyti:


Mat á áhrifum frumvarps til laga um velferð dýra og frumvarps til laga um búfjárhald á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Meginmarkmið frumvarps til laga um velferð dýra er að koma á heildstæðri löggjöf um velferð dýra og einfalda framkvæmd og eftirfylgni mála sem varða málaflokkinn. Samhliða frumvarpinu og í sama tilgangi leggur ráðherra fram frumvarp til laga um búfjárhald. Samkvæmt áætlun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins er gert ráð fyrir að samanlagt hækki bæði frumvörpin árleg útgjöld Matvælastofnunar um 115 m.kr. á fyrsta ári en þau nemi eftir það um 106 m.kr. á ári. Það er mat ráðuneytisins að um 83 m.kr. af þessum útgjöldum séu vegna verkefna sem nú eru á ábyrgð sveitarfélaga. Ráðuneytið telur frumvörpin að öðru leyti ekki hafa veruleg áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Þó gæti einhver kostnaður fallið á sveitarfélögin vegna ákvæðis um hjálparskyldu, sbr. 7. gr. frumvarps til laga um velferð dýra. Þá er talið að einhver kostnaður geti fallið á sveitarfélögin vegna 23. gr. frumvarps til laga um velferð dýra sem kveður á um handsömunar- og vörsluskyldu. Ráðuneytið telur þó að sveitarfélögin geti mætt útlögðum kostnaði vegna handsömunar- og vörsluskyldunnar að mestu leyti með gjaldtöku en í nefndri grein er gert ráð fyrir heimild sveitarfélaga til að innheimta áfallinn kostnað úr hendi umráðamanns samkvæmt gjaldskrá.
    Samband íslenskra sveitarfélaga telur að stærstur hluti nýrra verkefna Matvælastofnunar við búfjáreftirlit felist í öflun hagtalna. Búfjáreftirlit og forðagæsla, sem í dag eru verkefni sveitarfélaga, verði einungis hlut af starfssviði þeirra starfsmanna sem Matvælastofnun hyggst ráða. Samband íslenskra sveitarfélaga telur að verkefnatilfærsla létti kostnaði af sveitarfélögum sem nemi um 47,4 m.kr. á ársgrundvelli. Ekki eru talin vera rök til þess að taka árlegan kostnað vegna þvingunarúrræða, sem ráðuneytið metur vera 5 m.kr. á ári, með í kostnaðarmatið, þar sem sveitarfélög hafi setið uppi með þann kostnað á umliðnum árum vegna óskýrra laga og reglugerða. Vegna hjálparskyldu, sbr. 7. gr. frumvarps til laga um velferð dýra, er talið að 10 m.kr. á ári sé varlega áætlaður kostnaður sveitarfélaga og leggja beri þá tölu til grundvallar í kostnaðarmati frumvarpanna. Samband íslenskra sveitarfélaga metur kostnað vegna handsömunar- og vörsluskyldu sveitarfélaganna, sbr. 23. gr. frumvarps til laga um velferð dýra, hljóða upp á stofnkostnað á bilinu 50–75 m.kr. og árlegan kostnað á bilinu 45–72,5 m.kr. Talið er óljóst hvernig gjaldtökuheimildir eru hugsaðar, auk þess sem þær muni ekki koma að neinu haldi í tilvikum hálfvilltra dýra og þar sem eigendur eru ekki borgunarmenn fyrir aðgerðum.

Samantekt.
    Ráðuneytið telur að kostnaður sveitarfélaga lækki um 83 m.kr. vegna frumvarpanna en þó geti einhver kostnaður fallið á sveitarfélög vegna hjálparskyldu og vegna handsömunar- og vörsluskyldu sem kveðið er á um í frumvarpi til laga um velferð dýra. Samband íslenskra sveitarfélaga telur að árlegur nettókostnaður sveitarfélaga hækki um 7,6–35,1 m.kr. Þá telur Samband íslenskra sveitarfélaga að stofnkostnaður hjá sveitarfélögunum verði 50–75 m.kr. Samband íslenskra sveitarfélaga fer fram á að sveitarfélög fái bættan mismun samkvæmt kostnaðarmati, eftir atvikum með leiðréttingu á framlögum til annarra verkefna, svo sem eyðingu á mink og ref sem kallar á um 100 m.kr. útgjöld sveitarfélaga árlega.


Fylgiskjal II.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um búfjárhald.

    Markmið frumvarps þessa er að auka skilvirkni stjórnsýslu þeirra mála er varða búfjárhald og dýravelferð og er annað tveggja frumvarpa sem ætlað er að koma á heildstæðri löggjöf um þessa málaflokka. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum sem miða að því að einfalda framkvæmd og eftirfylgni ákvarðana. Í því skyni er lagt til að verkefni sem nú eru á ábyrgð sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar verði flutt til Matvælastofnunar og að stofnunin sjái framvegis um framkvæmd þeirra. Meðal annars muni stofnunin halda utan um skrár um þá sem halda búfé auk þess sem henni verði ætlað að safna hagtölum og annast eftirlit með merkingum búfjár. Frumvarpið byggist á lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., og eru margar lagagreinar frumvarpsins samhljóða öðrum úr þeim lögum sem munu falla úr gildi verði frumvarpið samþykkt. Í sama tilgangi leggur atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra samhliða fram frumvarp til laga um velferð dýra og er því ætlað að koma í stað laga nr. 15/1994, um dýravernd, með síðari breytingum.
    Gera má ráð fyrir að lögfesting þessa frumvarps muni auka útgjöld hjá Matvælastofnun um tæpar 83 m.kr. á ársgrunni vegna nýrra verkefna sem flutt verða frá sveitarfélögum og Umhverfisstofnun, auk verkefna sem hljótast af nýjum lagaákvæðum. Á móti er gert ráð fyrir að tekjur stofnunarinnar aukist um tæpar 6 m.kr. á ári. Gera verður ráð fyrir að gert verði samkomulag um verkefnatilfærsluna milli ríkisins og sveitarfélaga þannig að hvorugur aðilinn beri skarðan hlut og að lögfesting þessara tveggja frumvarpa hafi ekki teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Nánari umfjöllun um fjárhagsleg áhrif frumvarpanna kemur fram í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarp til laga um velferð dýra