Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 294. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 327  —  294. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum
(afnám stimpilgjalda vegna kaupa á íbúðarhúsnæði einstaklings).


Flm.: Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Johnsen,
Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson,
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson,
Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. a laganna:
     a.      Orðið „fyrstu“ í 1. mgr. fellur brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Skilyrði niðurfellingar skv. 1. mgr. eru að kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, sé þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi eignarhluta í þeirri fasteign sem keypt er og að lánsfjárhæð sú sem fram kemur í hinu stimpilfrjálsa skjali skuli einvörðungu ætluð til fjármögnunar kaupa á viðkomandi fasteign.
     c.      4. og 5. mgr. falla brott.
     d.      Í stað orðanna „séu uppfyllt“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: sé uppfyllt.
     e.      Í stað orðanna „skulu eftirfarandi gögn liggja fyrir“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: skal liggja fyrir afrit af þinglýstum kaupsamningi, afsali eða annarri eignarheimild vegna fasteignar sem hið stimpilfrjálsa skjal er gefið út til fjármögnunar kaupa á.
     f.      A–c-liðir 6. mgr. falla brott.
     g.      Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 24. og 26. gr. skal, þegar fasteignaveðskuldabréf einstaklings er endurnýjað með nýju fasteignaveðskuldabréfi sem kemur í stað þess eldra, að hluta eða öllu leyti, ekki greiða stimpilgjald af þeim hluta nýja fasteignaveðskuldabréfsins sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra fasteignaveðskuldabréfsins ásamt vanskilum.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013 og taka til skjala sem eru gefin út frá þeim tíma.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi (þskj. 654, 415. mál) og er nú lagt fram að nýju lítið breytt.
    Með frumvarpinu eru tekin fyrstu skref í afnámi stimpilgjalda, þessa óverjandi skatts sem lagður er á fólk og fyrirtæki sem taka lán í formi veðskuldabréfa. Hér er lagt til að stimpilgjöld vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði til eigin nota verði afnumin. Augljós rök hníga að því að auðvelda einstaklingum að koma sér þaki yfir höfuðið og telja flutningsmenn að ekki eigi að nýta slík viðskipti til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.
    Í 35. gr. a í lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, er nú kveðið á um að kaupandi íbúðarhúsnæðis til eigin nota skuli undanþeginn stimpilgjaldi við fyrstu kaup. Rétt er að víkka út það ákvæði þannig að það taki til allra almennra kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Þó er lagt til að áfram þurfi það skilyrði að vera uppfyllt að kaupandi íbúðarhúsnæðis og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali sé þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi eignarhluta í þeirri fasteign sem keypt er. Jafnframt er lagt til að endurfjármögnun lána vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota verði varanlega undanþegin stimpilgjaldi en í gildandi lögum er einungis kveðið á um tímabundið gildissvið þessarar reglu, þ.e. hún gildir til 31. desember 2012. Nú þegar margir leita leiða til að skuldbreyta húsnæðisláni sínu og íhuga til dæmis að breyta úr verðtryggðu láni í óverðtryggt er eðlilegt að fólk afli tilboða hjá fjármálafyrirtækjum og beini viðskiptum sínum þangað sem bestu kjörin bjóðast. Í dag stendur stimpilgjaldið í vegi fyrir því. Þess vegna eru lagðar til breytingar á 35. gr. a þessu til samræmis.
    Af veðskuldabréfum og tryggingarbréfum, þegar skuld ber vexti, ber að greiða 1,5% stimpilgjald af fjárhæð bréfs. Af afsölum, kaupsamningum og öðrum yfirfærslugerningum um fasteign greiðist 0,4% stimpilgjald af fasteignamati eignar að lóðarréttindum eignar meðtöldum. Afnám þessara gjalda, sem geta numið umtalsverðum fjárhæðum, er því til augljósra hagsbóta fyrir einstaklinga og fjölskyldur.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildistakan verði miðuð við 1. janúar 2013 og gildi um skjöl sem gefin eru út frá þeim tíma. Samhliða er lagt til að ákvæði til bráðabirgða III í lögunum falli brott þar sem kveðið er á um tímabundið gildissvið sambærilegs ákvæðis um að endurfjármögnun lána verði undanþegin stimpilgjaldi. Bráðabirgðaákvæðið gildir til 31. desember 2012. Flutningsmenn telja mikilvægt að þessi regla verði varanleg og gildi um fasteignaveðbréf sem koma í stað eldra bréfs að hluta eða öllu leyti. Taki lögin gildi 1. janúar 2013 verður undanþágu á stimpilgjaldi viðhaldið að þessu leyti.