Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 303. máls.

Þingskjal 336  —  303. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008,
með síðari breytingum (samningar sjúkratryggingastofnunar).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
1. gr.

    Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um gerð samninga skv. 2. mgr. í reglugerð. Þar skal kveðið á um tegund og umfang þeirrar heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggingastofnun semur um, meðal annars um heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum í eigu ríkisins.

2. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 56. gr. laganna orðast svo: Enn fremur koma ákvæði IV. kafla til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2015 að því er varðar samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili.


3. gr.

    Í stað orðanna „1. janúar 2013 í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 1. janúar 2015.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í velferðarráðuneytinu og felur í sér að ráðherra verði heimilt með reglugerð að útfæra nánar ákvæði laga um sjúkratryggingar er varða samningsumboð vegna samninga um heilbrigðisþjónustu.
    Þá felur frumvarpið í sér að gildistöku ákvæðis um samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili verði frestað vegna fyrirhugaðs flutnings á málefnum aldraðra til sveitarfélaga og ákvæði til bráðabirgða um tímabundna heimild ráðherra til að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum verði jafnframt framlengt.
    Frumvarpið var kynnt sjúkratryggingastofnun sem taldi mikilvægt að lögin tækju að fullu gildi um næstu áramót. Þá taldi stofnunin eftirsóknarvert að skýrar og samhæfðar reglur væru innleiddar um fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar. Það yrði best gert með því að efla rekstur sjúkratryggingastofnunar í samræmi við þau áform sem kynnt hafi verið við setningu laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.
    Vegna flutnings á málefnum aldraðra yfir til sveitarfélaga, sem fyrirhugaður er í síðasta lagi árið 2015, þykir óskynsamlegt að breyta greiðslufyrirkomulagi vegna hjúkrunarrýma meðan á undirbúningi flutnings stendur. Þá þykja ákvæði 39. gr. laganna er varða samningsumboð afar opin og kunni það að leiða til óvissu í framkvæmd. Með reglugerð megi kveða ítarlegar á um framkvæmd greinarinnar. Með vísan til framangreinds þykir, þrátt fyrir afstöðu sjúkratryggingastofnunar, rétt að gera fyrrgreindar breytingar á lögunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar annast sjúkratryggingastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, samningsgerð um kaup á heilbrigðisþjónustu. Í lögunum er gert ráð fyrir að frá 1. janúar 2013 semji Sjúkratryggingar Íslands um heilbrigðisþjónustu sem veitt er á heilbrigðisstofnunum í eigu ríkisins (sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum).
    Samkvæmt 4. gr. sjúkratryggingalaga fer ráðherra með yfirstjórn sjúkratrygginga og samningsgerð um heilbrigðisþjónustu, og aðra aðstoð samkvæmt lögunum og yfirstjórn sjúkratryggingastofnunarinnar. Samkvæmt 2. gr. laganna markar ráðherra stefnu innan ramma laganna, laga um heilbrigðisþjónustu og annarra laga. Ráðherra er enn fremur heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja þeirri stefnu, meðal annars hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni.
    Ákvæði 39. gr. sjúkratryggingalaga um umboð sjúkratryggingastofnunar til samningsgerðar eru afar opin og kunna að leiða til óvissu um framkvæmd. Því þykir rétt að bæta við greinina nýrri málsgrein þar sem kveðið er á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um tegund og umfang þeirrar heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggingastofnun semur um, meðal annars hvað varðar heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum í eigu ríkisins.

Um 2. og 3. gr.

    Ákvæði um samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili tekur, að óbreyttum lögum, gildi 1. janúar 2013 og tímabundið ákvæði IV til bráðabirgða í lögum um sjúkratryggingar fellur úr gildi um næstkomandi áramót. Ákvæðið felur í sér heimild ráðherra til að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila.
    Flutningur á málefnum aldraðra yfir til sveitarfélaga er fyrirhugaður í nánustu framtíð, þ.e. í síðasta lagi árið 2015. Undirbúningur er þegar hafinn í nefnd sem skipuð er fulltrúum helstu hagsmunaaðila og á hennar vegum starfa fjölmargir vinnuhópar að einstökum verkefnum. Óskynsamlegt er talið að breyta greiðslufyrirkomulagi vegna hjúkrunarrýma meðan á undirbúningi flutnings stendur, þ.e. að sjúkratryggingastofnun taki að óbreyttum lögum að semja um heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum frá 1. janúar 2013. Því er með frumvarpi þessu lagt til óbreytt fyrirkomulag, þ.e. að ráðherra ákveði daggjöld með reglugerð, í síðasta lagi til ársloka 2014 þegar gera má ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir varðandi flutning á málefnum aldraðra til sveitarfélaga.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar,
nr. 112/2008, með síðari breytingum (samningar sjúkratryggingastofnunar).

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða samninga sjúkratrygginga-stofnunar um heilbrigðisþjónustu.
    Annars vegar er lögð til frestun á gildistöku ákvæðis varðandi samninga við sveitarfélög og rekstraraðila hjúkrunarheimila um tvö ár frá 1. janúar 2013 til 1. janúar 2015. Unnið er að flutningi á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga og er áætlað að þeim flutningi verði lokið fyrir árslok 2014. Ekki er talið heppilegt að sjúkratryggingastofnun taki að sér að semja um veitingu heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum á meðan sá undirbúningur stendur yfir. Af sömu ástæðu er lagt til í frumvarpinu að heimild ráðherra til að ákvarða daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum verði framlengd um sama tíma.
    Hins vegar er lagt til að ráðherra setji reglugerð um gerð samninga þar sem kveða skal á um tegund og umfang þeirrar heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggingastofnun semur um, meðal annars um heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum í eigu ríkisins. Að óbreyttu mun ákvæði er varðar samninga um heilbrigðisþjónustu við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins taka gildi 1. janúar 2013 en þeirri gildistöku hefur þrívegis verið frestað frá gildistöku laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Einn tilgangur með setningu laganna var að sameina hjá nýrri sjúkratryggingastofnun þá verkþætti hjá ríkinu sem varða samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu og greiðslu endurgjalds fyrir hana með það að markmiði að stuðla að hagkvæmum rekstri heilbrigðisþjónustu og styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Einnig var þá gert ráð fyrir að með samningum og blönduðum greiðslukerfum mætti kalla fram fjölbreytilegri rekstrarform sem gætu fjölgað valkostum hjá bæði starfsfólki og notendum, svo sem með aukinni þjónustu á vegum einkaaðila, sjálfseignarstofnana og sveitarfélaga.
    Ástæða þess að gildistöku ákvæðis um samninga við heilbrigðisstofnanir sem ríkið rekur hefur verið frestað mun einkum hafa verið sú að Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki verið í stakk búnar til að taka verkefnið að sér bæði hvað varðar mannafla og fjármagn. Ekki verður þó séð að breytingar hafi orðið á þeim forsendum því samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu verður stofnuninni ekki falið að takast á hendur aukna samningsgerð nema að því marki sem stofnunin hefur mannafla og fjármagn til á hverjum tíma. Þá mun ekki heldur vera gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um gerð samninga við ríkisreknar heilbrigðisstofnanir fyrr en tekin hefur verið ákvörðun um að fela stofnuninni aukna samningsgerð. Af þeim sökum er erfitt um vik að meta hvaða áhrif kynnu að leiða af gildistöku ákvæðis um þessa samningagerð og hugsanlegri reglugerð um inntak hennar.
    Ákvarðanir um fjárveitingar vegna umfangs heilbrigðisþjónustu eru teknar árlega á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga og því ættu breytingar á fyrirkomulagi samningagerðar eða upptaka þjónustusamninga við ríkisstofnanir í sjálfu sér ekki að hafa áhrif á þá útgjaldaramma sem settir eru í fjárlögum hverju sinni. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki séð að það muni hafa bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs, a.m.k. ekki fyrst um sinn.