Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 73. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 357  —  73. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur
um endurupptöku mála fyrir Hæstarétti.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað bárust Hæstarétti margar beiðnir árlega árin 2000–2010 um endurupptöku máls sem hefur verið dæmt í Hæstarétti, sbr. 215. gr. laga um meðferð sakamála?
     2.      Hversu oft var endurupptaka máls heimiluð ár hvert á framangreindu tímabili?
     3.      Hvað bárust Hæstarétti margar beiðnir á árinu 2011 annars vegar og til 1. júlí 2012 hins vegar, sbr. heimild í 169. gr. laga um meðferð einkamála, og hversu oft var endurupptaka máls heimiluð á framangreindu tímabili?
     4.      Hvað bárust Hæstarétti margar beiðnir á árinu 2011 annars vegar og til 1. júlí 2012 hins vegar, sbr. 215. gr. laga um meðferð sakamála, um endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti og hversu oft var endurupptaka máls heimiluð á framangreindu tímabili?
     5.      Hversu margar af framangreindum beiðnum voru afgreiddar af þremur dómurum og hversu margar af fimm dómurum við réttinn?
     6.      Hvað leið langur tími frá því að Hæstarétti barst beiðni um endurupptöku samkvæmt framanrituðu, í hverju tilviki fyrir sig, þar til viðkomandi beiðni hafði verið afgreidd?

    Svar við 1., 2., 4. og 5. tölul. fyrirspurnarinnar:
Ár Fjöldi beiðna
sem bárust
Fjöldi beiðna
sem var hafnað
Fjöldi beiðna sem voru samþykktar Fjöldi beiðna sem voru afturkallaðar
2000 3 4 0 0
2001 2 0 0 1
2002 5 4 0 0
2003 2 3 0 0
2004 1 2 0 0
2005 3 1 0 0
2006 0 1 0 0
2007 0 0 1 0
2008 3 3 0 0
2009 3 3 0 0
2010 3 2 0 0
2011 5 4 0 0
2012 0 1 1 0

    Það athugist að beiðnir um endurupptöku máls eru ekki alltaf afgreiddar á sama ári og þær berast réttinum. Sem dæmi má nefna að árið 2000 bárust þrjár beiðnir en fjórar voru afgreiddar, en ástæðan er sú að ein þessara beiðna barst á árinu 1999.
    Þrír hæstaréttardómarar tóku ákvörðun í öllum framangreindra mála að einu undanskildu. Ákvörðun í því máli var tekin af fimm hæstaréttardómurum árið 2012.

    Svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar:
Ár Fjöldi beiðna
sem bárust
Fjöldi beiðna
sem var hafnað
Fjöldi beiðna sem voru samþykktar Fjöldi beiðna sem voru afturkallaðar
2011 4 3 1 0
2012 3 3 0 0

    Þrír hæstaréttardómarar tóku ákvörðun í öllum málunum.

    Svar við 6. tölul. fyrirspurnarinnar:
    Að því er varðar sakamál voru teknar ákvarðanir í tilefni af fjórum beiðnum árið 2000. Höfðu þá 28, 37, 49 og 52 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2002 voru fjórar beiðnir afgreiddar og höfðu þá 17 dagar liðið frá því að tvær þeirra bárust en 105 og 165 dagar frá því að hinar bárust. Árið 2003 voru þrjár beiðnir afgreiddar og höfðu þá 137, 152 og 266 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2004 voru tvær beiðnir afgreiddar og höfðu þá 51 og 122 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2005 var ein beiðni afgreidd og höfðu þá 123 dagar liðið frá því að beiðnin barst. Árið 2006 var ein beiðni afgreidd og höfðu þá 126 dagar liðið frá því að hún barst. Árið 2007 var ein beiðni afgreidd og höfðu þá 634 dagar liðið frá því að hún barst. Dráttur á afgreiðslu málsins skýrist aðallega af því að Hæstiréttur ákvað að dómkveðja skyldi matsmenn til að skoða málið. Árið 2008 voru þrjár beiðnir afgreiddar og höfðu þá 10, 13 og 86 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2009 voru þrjár beiðnir afgreiddar og höfðu þá 49, 90 og 53 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2010 voru fjórar beiðnir afgreiddar og höfðu þá 32 og 97 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2011 voru fjórar beiðnir afgreiddar og höfðu þá 44, 46, 57 og 124 dagar liðið frá því að þær bárust. Frá 1. janúar 2012 til 1. júlí 2012 voru tvær beiðnir afgreiddar og höfðu þá 141 og 257 dagar liðið frá því að þær bárust.
    Að því er varðar einkamál voru fjórar beiðnir afgreiddar árið 2011 og höfðu þá 9, 57, 65 og 91 dagur liðið frá því að þær bárust. Fram til 1. júlí í ár voru þrjár beiðnir afgreiddar og höfðu þá 26 dagar liðið frá því að tvær þeirra bárust en 33 dagar frá því að sú þriðja barst.