Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 207. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 365  —  207. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um stjórnarskrána og Evrópusambandið.


     1.      Hvaða breytingar þarf að gera á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands fyrir eða í kjölfar hugsanlegrar inngöngu í Evrópusambandið?
    Aðildarviðræður þær sem standa yfir fela í sér ítarlega skoðun allra málaflokka og íslenskrar löggjafar í samanburði við löggjöf og regluverk Evrópusambandsins. Samninganefnd skipuð af utanríkisráðherra er aðalsamningamanni til ráðgjafar og stuðnings, en sérstakur samningahópur er starfandi sem er til ráðgjafar um öll lagaleg málefni sem aðalsamningamaður eða einstakir samningahópar telja nauðsynlegt að afla álits á.
    Samningahópur um lagaleg málefni vinnur að samantekt varðandi álitamál um stjórnarskrárbreytingar, sbr. fundargerð hópsins frá 9. janúar sl., og verður hún lögð fyrir aðalsamninganefnd. Fyrir liggur, eins og fram kemur í fundargerðinni, að breytingar á stjórnarskrá gætu mögulega verið þríþættar, breytingar sem tengjast í fyrsta lagi heimildum til framsals ríkisvalds, í öðru lagi hvort eitthvað í íslensku stjórnarskránni er efnislega í andstöðu við reglur sambandsréttar og í þriðja lagi hvort rétt er að stjórnarskráin ætti að endurspegla aðild Íslands að ESB, svo sem um þátttöku og fyrirsvar Íslands í stofnunum þess, kosningar til Evrópuþings o.fl. Einnig mun í samantektinni verða farið yfir stjórnskipuleg álitaefni tengd þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild og um lagaleg áhrif niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis, þskj. 249 á 137. löggjafarþingi, um tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem var samþykkt á Alþingi 16. júlí 2009, nr. 1/137, er að finna sérstaka umfjöllun um stjórnskipuleg álitaefni á bls. 32–37. Er þar sérstaklega fjallað um staðfestingarferli, stjórnarskrárbreytingar sem þörf er á að skoða vegna hugsanlegrar aðildar og samspil þjóðaratkvæðagreiðslu við slíkar breytingar, svo nokkur atriði séu nefnd.

     2.      Er hafin vinna við undirbúning að breytingum?
    Einungis lögfræðileg greining og samantekt um álitamál, sbr. svar við 1. tölul., er hafin og er unnin af samningahópi um lagaleg málefni.