Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 323. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 370  —  323. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum
(stefnandi faðernismáls).


Flm.: Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Skúli Helgason.


1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Stefnandi faðernismáls getur verið barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig föður barns.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum, þess efnis að takmörkun sú sem nú er í 1. mgr. 10. gr. laganna varðandi heimild karlmanns til höfðunar á faðernismáli er felld brott. Frumvarp um breytingu á 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. barnalaga hefur verið flutt tvisvar áður af Dögg Pálsdóttur (á 135. og 136. löggjafarþingi) en náði ekki fram að ganga. Í núgildandi 1. málsl.1. mgr. 10. gr. kemur fram að maður sem telur sig vera föður barns getur þá aðeins höfðað faðernismál að barn hafi ekki verið feðrað. Í þessu felst veruleg takmörkun á rétti manns til að leita úrskurðar dómstóla um réttindi sín og skyldur, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sem og takmörkun á rétti barns til að þekkja foreldra sína, sbr. 1. gr. barnalaga, í þeim tilvikum sem barn hefur ekki verið rétt feðrað. Af þeim sökum er lagt til að karlmaður sem telur sig vera föður barns geti óhindrað höfðað faðernismál því til staðfestingar.
    Málshöfðunarreglur í faðernismálum hafa löngum takmarkað rétt karlmanna, sem telja sig föður barns, til að höfða dómsmál til staðfestingar á faðerni barns. Í barnalögum, nr. 20/1992, var takmörkun á þá leið að aðeins barn og móðir barns gátu höfðað faðernismál. Í Hrd. 2000, bls. 4394, taldi Hæstiréttur þá takmörkun ósamrýmanlega 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og 65. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem í 70. gr. fælist sjálfstæð regla um að menn skuli almennt eiga rétt á að bera mál sín undir dómstóla og að allar takmarkanir á þeirri meginreglu yrði að skýra með hliðsjón af því. Við umfjöllun um þá mismunun á réttindi kynjanna sem reglan fæli í sér, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, var ekki talið að hún byggðist á málefnalegum sjónarmiðum og vísað til hagsmuna þjóðfélagsins í heild og ekki síst hagsmuna barns af því að faðerni þess sé réttilega leitt í ljós og ákvarðað. Í frumvarpi því sem varð að barnalögum nr. 76/2003 lagði sifjalaganefnd til að 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. yrði samhljóða þeirri tillögu sem felst í frumvarpi þessu. Í greinargerð með frumvarpinu kom m.a. eftirfarandi fram:
    „Á undanförnum árum hafa verulegar breytingar orðið á viðhorfum í barnarétti eins og vikið hefur verið að. Kastljósinu hefur m.a. í auknum mæli verið beint að rétti barns til að þekkja báða foreldra sína og rétti þess til að njóta samvista við þá. Viðurkenning á rétti manns sem telur sig föður barns til að höfða faðernismál er fallin til að styrkja þessi réttindi barns. Í ljósi þessara breyttu viðhorfa, sem m.a. endurspeglast í dómi Hæstaréttar í máli nr. 419/2000, eru fyrrgreindar breytingar á málsaðild lagðar til.“
    Við meðferð frumvarpsins á Alþingi lagði allsherjarnefnd til þá breytingu, sem var samþykkt, að málsaðild karlmanns sem telur sig föður barns skyldi takmörkuð við þau tilvik sem barn er ófeðrað. Í nefndaráliti allsherjarnefndar (þskj. 1338 á 128. löggjafarþingi) kom fram að megintilgangur breytingartillögunnar væri að koma í veg fyrir tilhæfulausar málsóknir.
    Telja verður að þau sjónarmið sem sifjalaganefnd lagði til grundvallar í frumvarpi sínu, og byggjast að miklu leyti á áðurnefndum dómi Hæstaréttar í Hrd. 2000, bls. 4394, eigi enn við í dag og að sú takmörkun sem felst í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. barnalaga kunni að brjóta gegn 65. og 70. gr. stjórnarskrárinnar sem og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Er því með frumvarpi þessu lögð til sú breyting á 10. gr. barnalaga að karlmanni, sem telur sig föður barns, verði tryggð heimild til að höfða barnsfaðernismál án nokkurra takmarkana. Telja verður að sú þrenging á rétti karlmanns til höfðunar barnsfaðernismáls sem nú er í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. sé óeðlileg og ekki barni fyrir bestu. Ætla verður að ótti við tilhæfulausar málshöfðanir sé ástæðulaus og að dómstólum ætti að vera fullkomlega treystandi til að stöðva tilhæfulaus barnsfaðernismál.