Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 350. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 397  —  350. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, með síðari breytingum (Helguvíkurhöfn).

Flm.: Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson,
Björgvin G. Sigurðsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Helgi Hjörvar,
Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Eygló Harðardóttir,
Birkir Jón Jónsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Unnur Brá Konráðsdóttir,
Höskuldur Þórhallsson, Jón Gunnarsson, Einar K. Guðfinnsson, Vigdís Hauksdóttir,
Pétur H. Blöndal, Siv Friðleifsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Illugi Gunnarsson,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgir Ármannsson, Oddný G. Harðardóttir.

1. gr.


    Við 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þetta á einnig við um framkvæmdir, rekstur og starfsemi Helguvíkurhafnar vegna álvers eða annars iðnaðar eða stóriðju á svæðinu.


2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 139. og 140. löggjafarþingi (66. mál þess þings). Því fylgdi svohljóðandi greinargerð:
    „Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkissjóði verði heimilt að styrkja hafnarframkvæmdir við Helguvíkurhöfn. Í ákvæði til bráðabirgða II í hafnalögum, nr. 61/2003, kemur fram að þrátt fyrir 24. gr. laganna sé ríkissjóði heimilt að styrkja framkvæmdir í höfnum, sbr. ákvæði um greiðsluþátttöku í eldri hafnalögum, nr. 23/1994, með síðari breytingum. Með lögum nr. 88/2010 var heimild þessi framlengd til ársloka 2012.
    Helguvíkurhöfn er alhliða fiskiskipa- og vöruflutningahöfn, en til stendur að gera hana að stórskipahöfn fyrir álver, kísilver og aðra stóriðju með hafnsækna starfsemi. Höfnin hefur þjónað eldsneytisinnflutningi fyrir Keflavíkurflugvöll og er nú öllu flugeldsneyti á Íslandi skipað upp í Helguvík. Höfnin er enn fremur skilgreind sem neyðarhöfn þar sem unnt er að taka við olíu. Hafnarframkvæmdir í Helguvík eru ódýrari en ef um byggingu nýrrar hafnar með skjólvarnargörðum væri að ræða. Framkvæmdir þar hafa m.a. falist í að dýpka vesturhluta hennar í 12 m dýpi og 14,5 m dýpi við súrálsviðlegukant. Jafnframt hefur skjólvarnargarður NATO verið lengdur um 150 m til að skýla enn betur fyrirhuguðum viðlegukanti í vesturhluta hafnarinnar. Dýpkunarefni var nýtt að stærstum hluta í þá framkvæmd auk stórgrýtis sem sprengt var sérstaklega. Fyrirhugað er að lengja núverandi 150 m viðlegukant um 60 m til austurs og 100 m til vesturs þannig að heildarlengd verði 310 m, en þó með 100 m stækkunarmöguleika til vesturs. Sá viðlegukantur mun þjóna Íslenska kísilverinu ehf. sem staðsett verður norðan við viðlegukantinn og verður skipað upp á færiböndum frá skipi beint í verksmiðjuna. Einnig mun viðlegukanturinn nýtast til almennra farmflutninga fyrir aðra atvinnustarfsemi eins og nú. Byggður verður nýr 360 m viðlegukantur í vesturhluta Helguvíkurhafnar sem mun þjóna álveri Norðuráls og allri almennri gámaþjónustu. Samtímis verður hægt að losa súrálsskip og afgreiða gámaskip. Í fyrstu verður gámasvæðið um 3 hektarar en fyrirhugað er að það verði stækkanlegt. Þá er gert ráð fyrir að sérstakur hafnsögubátur sinni þjónustu við Helguvíkurhöfn.
    Helguvík er eftirsóknarverð sem stórskipahöfn fyrst og fremst vegna aðbúnaðarins innan grjótvarnargarðs og olíubryggju NATO en einnig vegna landfræðilegrar legu hafnarinnar. Helguvík er vel varin fyrir öllum áttum nema suðaustanátt sem hefur lítil áhrif á notagildi hafnarinnar þar sem ölduhæð er óveruleg sökum aflandsvinds. Helguvíkursvæðið er enn fremur hentugt þegar norðurslóðasiglingar opnast, bæði hvað olíubirgðastöð varðar og aðra gámaflutninga.
    Uppbygging Helguvíkurhafnar er þegar hafin og hefur sveitarfélagið þurft að leggja mikinn kostnað í verkið. Ljóst er að með tilkomu álvers og annarra stóriðjuframkvæmda á svæðinu aukast atvinnu- og skatttekjur sveitarfélagsins sem og ríkissjóðs. Í stöðugleikasáttmála Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram vilji ríkisstjórnarinnar til að greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda, sbr. þjóðhagsáætlun, og er sérstaklega minnst á álver í Helguvík í því samhengi, sbr. minnisblað vegna verklegra framkvæmda dags. 16. júní 2009, sem vísað er til í 4. gr. stöðugleikasáttmálans, en þar er álver í Helguvík og tengdar framkvæmdir efstar á blaði. Kappkostað verði að engar hindranir af hálfu stjórnvalda verði í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009. Jafnframt er vísað til þess að sveitarfélög og önnur stjórnvöld muni tryggja að farið verði að tímafrestum við gerð skipulags og allar leyfisveitingar og greitt verði fyrir nýjum fjárfestingum eins og kostur er. Er því breytingin sem frumvarp þetta felur í sér í fullu samræmi við áður nefndan stöðugleikasáttmála.
    Gert er ráð fyrir að tekjumöguleikar ríkissjóðs þegar framkvæmdir verða komnar á fullt skrið geti numið allt að 1 milljarði kr. á mánuði, sem gerir 110 milljarða kr. á 10 árum. Eru þeir útreikningar m.a. byggðir á beinum og óbeinum skatttekjum, sem og sparnaði vegna atvinnuleysisbóta. Tekjur sveitarfélaga á svæðinu munu einnig aukast, m.a. vegna fjölgunar íbúa, fasteignagjalda og hafnargjalda. Í vorskýrslu fjármálaráðuneytisins frá árinu 2009, Þjóðarbúskapurinn, kemur fram að tímasetning framkvæmda vegna fyrirhugaðs álvers á Suðurnesjum sé óvenju góð vegna efnahagslegra forsenda. Atvinnuleysi sé mikið og þau störf sem skapist við framkvæmdirnar verði hrein viðbót við þau störf sem fyrir eru. Eru þá ekki meðtalin þau fjölmörgu óbeinu störf sem verða til við framkvæmdir sem þessar. Er því ljóst að uppbygging álvers í Helguvík, sem og Helguvíkurhafnar, mun hafa góð áhrif á atvinnulíf og sveitarfélög á Reykjanesi ekki síst vegna langs framkvæmdatíma þar sem lítil hætta er á ofþenslu.“




Fylgiskjal I.

Atvinnu- og hafnasvið Reykjanesbæjar,
Pétur Jóhannesson framkvæmdastjóri:

Greinargerð um Helguvíkurhöfn.

Hvernig höfn?
    Helguvíkurhöfn var upphaflega byggð sem olíuhöfn af NATO á árunum 1987–1989. 150 m stálþilskantur var byggður á árunum 1994–1995 og loðnuflokkunarstöð tók til starfa í febrúar 1995.
    Helguvíkurhöfn hefur þjónað eldsneytisinnflutningi fyrir Keflavíkurflugvöll og er nú öllu flugeldsneyti á Íslandi skipað upp í Helguvík.
    Síldarvinnslan hf. rekur fiskimjölverksmiðju og starfrækt er loðnuflokkun Helguvíkurmjöls ehf. Aalborg Portland er með sementsbirgðastöð. Hringrás ehf. starfrækir málmsöfnunarstöð og flytur út brotajárn. Alur álvinnsla ehf. starfrækir endurvinnslu á álgjalli í húsnæði Síldarvinnslunnar.
    Helguvíkurhöfn er skilgreind sem neyðarhöfn þar sem unnt er að taka við olíu.
    Helguvíkurhöfn er því alhliða fiskiskipa- og vöruflutningahöfn í dag, en til stendur að gera hana að stórskipahöfn fyrir álver, kísilver og aðra stóriðju með hafnsækna starfsemi.
    Vesturhluti Helguvíkurhafnar var dýpkaður í 12 m og 14,5 m við súrálsviðlegukant. Jafnframt var skjólvarnargarður NATO lengdur um 150 m til að skýla enn betur fyrirhuguðum viðlegukanti í vesturhluta hafnarinnar. Dýpkunarefni var nýtt að stærstum hluta í þá framkvæmd, auk stórgrýtis er sprengt var sérstaklega.
    Fyrirhugað er að lengja núverandi 150 m viðlegukant um 60 m til austurs og 100 m til vesturs, þannig að heildarlengd verði 310 m, en þó með 100 m stækkunarmöguleika til vesturs. Sá viðlegukantur mun þjóna Íslenska kísilverinu ehf. sem staðsett verður norðan við viðlegukantinn og verður skipað upp á færiböndum frá skipi beint í verksmiðjuna. Einnig mun viðlegukanturinn nýtast til almennra farmflutninga fyrir aðra atvinnustarfsemi eins og nú.
    Byggður verður nýr 360 m viðlegukantur í vesturhluta Helguvíkurhafnar, sem mun þjóna álveri Norðuráls og allri almennri gámaþjónustu. Samtímis verður hægt að losa súrálsskip og afgreiða gámaskip. Í fyrstu verður gámasvæðið um 3 hektarar en stækkanlegt.
    Nýr vegur í gili sem liggur til álversins og verður jafnframt aðaltengibraut við atvinnusvæðin á Reykjanesi.
    Ofangreint lýsir því að hafnarframkvæmdir í Helguvík eru ódýrari, en ef um byggingu nýrrar hafnar með skjólvarnargörðum væri að ræða.

Rök fyrir höfninni í Helguvík.
    Það sem gerir Helguvík eftirsóknarverða sem stórskipahöfn er fyrst og fremst sá aðbúnaður sem er fyrir hendi innan grjótvarnargarðs og olíubryggju NATO, ásamt landfræðilegri legu hafnarinnar. Hún er vel varin fyrir öllum áttum nema suðaustanátt sem hefur lítil áhrif á notagildi hafnarinnar þar sem ölduhæð er óveruleg sökum aflandsvinds, en einnig það mikla landsvæði er umlykur Helguvíkurhöfn.
    Atvinnusvæði í Reykjanesbæ, alls 186 hektarar, hafa verið skipulögð í Helguvík og auk þess 113 hektarar í Garði fyrir álver Norðuráls. Jafnframt er unnið að skipulagi atvinnusvæða vestan við Reykjanesbæ, sem nær að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, í landi Garðs og Sandgerðis, sem býður upp á mikla framtíðarmöguleika fyrir alls konar atvinnustarfsemi er tengist flugi og höfn. Það atvinnusvæði getur náð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í suðri, Sandgerðisbæ í vestri, Sveitarfélaginu Garði í norðri og Helguvík í austri, alls hátt á annað þúsund hektara.
    Hvergi á Íslandi er jafnhentugt byggingarland fyrir atvinnusvæði og í nánd við Helguvík, eins og á Miðnesheiði. Enda er bygging Keflavíkurflugvallar engin tilviljun. Stutt er niður á fast jarðlag, öruggt grágrýtisberg laust við eldgos, sléttlendi hentugt fyrir stórar byggingar og snjóflóð ómöguleg.
    Helguvíkursvæðið er því einnig hentugt þegar norðurslóðasiglingar opnast, bæði hvað olíubirgðastöð varðar og aðra gámaflutninga.

Tekjur.
    Í fylgiskjali með greinargerðinni eru upplýsingar teknar af vef Samtaka atvinnulífsins þar sem fram kemur augljóslega hversu góð áhrif uppbygging álvers í Helguvík hefði á atvinnulíf og sveitarfélög á Reykjanesi, ekki síst vegna langs framkvæmdatíma, þar sem lítil hætta sé á ofþenslu.
    Einnig eru góðar upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu í vorskýrslu 2009 um þjóðhagsspá fyrir árin 2009–2014. Sjá bls. 9 og 10 þar um fráviksspá vegna fyrirhugaðra álversframkvæmda.
    Tekjur ríkissjóðs á meðan uppbyggingu álversins í Helguvík stendur hafa verið taldar ein milljón kr. á mánuði af bæjarstjórunum í Garði og Reykjanesbæ, en þá eru væntanlega teknar með þær fjárhæðir er falla niður við greiðslu atvinnuleysisbóta, auk skatttekjur.
    Tekjur sveitarfélaga eru ítarlega greindar í grein Samtaka atvinnulífsins, þó varfærnislega miðað við áætlaðar tekjur Reykjaneshafnar í meðfylgjandi skjali um framkvæmdaáætlun.



Fskj.


Af heimasíðu Samtaka atvinnulífsins:


Mikil áhrif álvers í Helguvík á atvinnulíf og sveitarfélög á Reykjanesi.


(8. júní 2007.)


    Norðurál áformar að reisa álver á iðnaðarsvæðinu við Helguvík á Reykjanesi. Áhrif þess á atvinnulíf, vinnumarkað, atvinnutekjur, íbúafjölda og tekjur sveitarfélaganna á Suðurnesjum verða umtalsverð. Áhrifin verða mest á svæðinu næst Helguvík en þeirra mun þó gæta allt til höfuðborgarsvæðisins þar sem gert er ráð fyrir nokkurri atvinnusókn þaðan.

Langur framkvæmdatími – lítil hætta á ofþenslu.
    Áformað er að byggja álverið í áföngum og er stefnt að því að ná allt að 250.000 tonna ársframleiðslu árið 2015. Áætlað er að hefja undirbúningsframkvæmdir fyrir árslok 2007 og gangsetja fyrsta áfanga árið 2010, en áfangaskipting fer eftir því hvernig til tekst með orkuöflun. Gert er ráð fyrir því að bygging álversins krefjist 1.800 ársverka, eða sem nemur 300 ársverkum á ári að jafnaði á 6–8 ára framkvæmdatíma. Þessi langi framkvæmdartími mun draga úr hættu á því að framkvæmdirnar stuðli að ofþenslu á byggingamarkaði. Búast má við að stór hluti starfsmanna muni koma frá Suðurnesjum, bæði á meðan byggingaframkvæmdum stendur og á rekstrartíma. Áætlað er að skiptingin verði þannig að 65% starfsmanna komi frá Reykjanesbæ, 20% frá öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum og 15% frá höfuðborgarsvæðinu.

Varanleg fjölgun um 1.200 störf – beint og óbeint.
    Þegar álverið verður komið í fulla stærð árið 2015 munu þar starfa 400 starfsmenn og má varlega áætla að auk þeirra myndist a.m.k. tvö afleidd störf utan álversins á móti hverjum starfsmanni í álverinu. Afleidd störf eru því hér áætluð 800 á ársgrundvelli og heildarfjöldi nýrra starfa 1.200 vegna tilkomu álversins. Í eftirfarandi umfjöllun er gengið út frá þeirri forsendu að bein og óbein áhrif álversins á verðmætasköpun verði hrein viðbót við þá starfsemi sem fyrir er á svæðinu, en ryðji ekki burt neinu sem fyrir er. Þá er ekki gert ráð fyrir að á svæðinu sé völ á annarri sambærilegri fjárfestingu sem kæmi í stað álversins. Ef um slíka fjárfestingarkosti verður að ræða munu þeir hæglega geta orðið að veruleika samhliða uppbyggingu álversins.
    Áætlað er að búsetuskipting þeirra starfsmanna sem fylla muni þessi 1.200 störf verði þannig að 780 verði búsettir í Reykjanesbæ, 240 í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum og 180 á höfuðborgarsvæðinu. Þótt hér sé miðað við ákveðna skiptingu milli sveitarfélaga þá getur hún hæglega orðið önnur og ber því fyrst og fremst að skoða sem vísbendingu um hver þróunin getur orðið.

Skipting starfa vegna reksturs álvers í Helguvík eftir sveitarfélögum.


Álversstörf Afleidd störf Alls
Reykjanesbær 260 520 780
Önnur sveitarfélög á Suðurnesjum 80 160 240
Höfuðborgarsvæðið 60 120 180
Alls 400 800 1.200

    Álver í Helguvík mun stuðla að íbúafjölgun á Suðurnesjum. Forsendur fyrir fjölgun íbúa eru þær að fyrir hvert 1 nýtt starf sem skapast vegna álversins fjölgi íbúum um 2 og er þá tekið mið af fyrri rannsóknum sem hafa verið gerðar hér á landi. Samkvæmt því er áætlað að íbúum fjölgi um 2.400 og miðað við núverandi íbúafjölda nemur aukningin 13% í Reykjanesbæ en 11% á Reykjanesinu öllu.

Áætluð íbúafjölgun af völdum fyrirhugaðs álvers í Helguvík.


Íbúafjölgun

Reykjanesbær 1.560
Önnur sveitarfélög á Suðurnesjum 480
Höfuðborgarsvæðið 360
Alls 2.400

    Starfsemi álvers á Suðurnesjum sem og annars staðar hefur þá kosti að störf í álveri eru langtímastörf sem eru óháð sveiflum á innlendum markaði. Þá greiða álver hærri laun en að jafnaði í landinu og því eru störfin eftirsótt hvort sem litið er til starfsgreina sem krefjast lítillar formlegrar menntunar, faglærðra eða háskólagenginna. Þetta mun stuðla að því að ungir Suðurnesjabúar, sem annars hefðu flust af svæðinu að aflokinni menntun t.d. í háskólum í Reykjavík eða erlendis, muni eiga þess kost að búa áfram í sinni heimabyggð.

Auknar tekjur sveitarfélaga.
    Sveitarfélögin í nágrenni álversins munu fá auknar skatttekjur vegna fjölgunar íbúa og þar með hærra útsvar, fasteignagjöld auk hafnargjalda. Meðaltekjur allra starfsgreina í álverinu eru áætlaðar um 390.000 kr. á mánuði á grundvelli launakönnunar Hagstofu Íslands og framreiknings til kaupgjalds á árinu 2007 með launavísitölu. Meðaltekjur í afleiddum störfum eru áætlaðar fjórðungi lægri en í álverinu. Heildarlaunagreiðslur álvers í Helguvík, án launatengdra gjalda, munu samkvæmt því verða um 1,9 milljarður króna á ári og 2,8 milljarðar króna í afleiddum störfum. Auknar launagreiðslur sem leiða munu af starfrækslu álversins munu því samtals nema 4,7 milljörðum króna á ári. Útsvarstekjur sveitarfélaga vegna þessara launatekna munu aukast um 580 m.kr. á ári og skiptast þannig að hlutur Reykjanesbæjar verður 370 m.kr., hlutur annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum 120 m.kr. og 90 m.kr. falla í hlut sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Útsvarstekjur vegna beinna og afleiddra starfa í tengslum við


fyrirhugað álver í Helguvík. Milljónir króna.


Launagreiðslur Útsvarstekjur
Reykjanesbær 3.100 370
Önnur sveitarfélög á Suðurnesjum 900 120
Höfuðborgarsvæðið 700 90
Samtals 4.700 580

Fasteignagjöld, hafnar- og skipagjöld.
    Um fasteignagjöld vegna álvers er samið sérstaklega en ætla má að þau verði svipuð og gildir um álverið á Grundatanga, eða um 100 milljónir króna á ári fyrir 250.000 tonna álver og skiptist jafnt á milli Reykjanesbæjar annars vegar og hinna sveitarfélaganna á Suðurnesjum hins vegar. Einnig greiðast hafnar- og skipagjöld en þau eru áætluð rúmlega 150 milljónir á ári, án þess að vitneskja liggi fyrir þar að lútandi.
    Fólksfjölgun í tengslum við aukið framboð starfa vegna starfsemi álversins mun verða mætt með auknu framboði íbúðarhúsnæðis sem ætla má að nemi 1.200 íbúðum á áhrifasvæðinu öllu. Við áætlun fasteignagjalda af þessum íbúðafjölda var stuðst við upplýsingar Fasteignamats ríkisins. Samkvæmt framangreindum forsendum munu fasteignagjöld í tengslum við íbúafjölgun af völdum álversins aukast um 51 m.kr. árlega í Reykjanesbæ, 16 m.kr. í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum og um 14 m.kr. á höfuðborgarsvæðinu.

Auknar tekjur af fasteignagjöldum vegna íbúafjölgunar í tengslum
við fyrirhugað álver í Helguvík.


Fjöldi íbúða
Skattur á íbúð, þús. kr. Fasteignagjöld alls, m. kr.
Reykjanesbær 780 66 51
Suðurnes 240 66 16
Höfuðborgarsvæðið 180 80 14
Alls 1.200 212 82

Tekjuaukning sveitarfélaganna í heild.
    Ætla má að starfræksla 250 þús. tonna álvers í Helguvík leiði til fjölgunar starfa, beint og óbeint, um a.m.k. 1.200, hækkunar atvinnutekna um rúma þrjá milljarða króna og fjölgunar íbúða á Suðurnesjum um 1.200. Skatttekjur Reykjanesbæjar munu verða rúmlega 600 m.kr. hærri en ella, á verðlagi í maí 2007, frá árinu 2015 ef áform um álver í Helguvík ná fram að ganga. Til samanburðar voru skatttekjur Reykjanesbæjar 3,1 milljarður króna í fjárhagsáætlun fyrir 2006 og sem fimmtungs aukning skatttekna af völdum álversins, þ.e. 20%. Skatttekjur annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum munu væntanlega aukast um tæplega 200 m.kr. en skatttekjur þeirra árið 2006 námu samtals um 1,9 milljarði króna, þannig að aukning skatttekna þeirra af völdum álversins verður 10%. Loks munu skatttekjur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu aukast um rúmlega 100 m.kr.

Skattekjur sveitarfélaga vegna beinna og afleiddra starfa í tengslum


við fyrirhugað álver í Helguvík. Milljónir króna.


Reykjanesbær Önnur sveitarfélög á Suðurnesjum Sveitarfélög á höfuðborgarsvæði Samtals
Útsvarstekjur 370 120 90 580
Fasteignagjöld af íbúðum 50 15 15 80
Fasteignagjöld af álveri 50 50 100
Hafnar- og skipagjöld 150 150
Samtals 620 185 105 910

    Áhrifin á skatttekjur ríkissjóðs verða einnig umtalsverð. Ætla má að tekjuskattur til ríkisins vegna aukinna launatekna muni nema um einum milljarði króna árlega, tekjur af tryggingagjaldi aukist um 270 m.kr. og tekjuskattgreiðslur fyrirtækisins gætu numið 1–2 milljörðum króna árlega.



Fylgiskjal II.

Ragnar Guðmundsson,
forstjóri Norðuráls:


Svar við fyrirspurn um útreikninga á nettóheildartekjum eða hagræðing ríkisins
af Helguvíkurálveri og tengdum framkvæmdum.

(22. sept. 2010.)


    Fyrsti áfangi álversins og tengd orkumannvirki kosta um 100 milljarða króna sem dreifast á næstu tvö árin, 2011 og 2012, ef framkvæmdir eru settar á fullt síðar á þessu ári. Það eru um 50 milljarðar á ári. Um 40% af þessum kostnaði er innlendur eða um 20 milljarðar á ári. Reikna má með að um þriðjungur þess kostnaðar skili sér sem tekjur fyrir hið opinbera beint og óbeint eða um 7 milljarðar á ári. Vel á þriðja þúsund manns fá vinnu við verkefnið og nú á tímum óvenju mikils atvinnuleysis munu jaðaráhrifin verða mjög mikil og má ætla að um 5 milljarðar á ári sparist í atvinnuleysisbætur. Það eru þá samtals 12 milljarðar á ári í auknar tekjur og minni kostnað fyrir hið opinbera eða 1 milljarður á mánuði. Hér eru ótalin ýmis önnur áhrif svo sem breytingar á væntingum fólks til framtíðarinnar.