Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 90. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 408  —  90. mál.
Svarinnanríkisráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar
um leyfisgjöf og frjálsan og opinn hugbúnað.


     1.      Hvernig miðar að innleiða og fylgja stefnu um frjálsan og opinn hugbúnað sem ríkisstjórn Íslands samþykkti í mars 2008?

Aðgerðir og athafnir stjórnvalda.
    Stjórnvöld hafa á undanförnum árum sett af stað nokkur verkefni sem snúa að frjálsum hugbúnaði. Fyrst má nefna stefnu stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað sem kom út í mars 2008 og spurningin vísar til. Stefnan felur í sér fimm liði sem allir miðast við að jafna stöðu frjáls hugbúnaðar og séreignarhugbúnaðar:
          Fyrsti liðurinn segir að við kaup á hugbúnaði skuli bera saman frjálsan hugbúnað og séreignarhugbúnað og leitast við að gera sem hagstæðust innkaup.
          Annar liðurinn segir að velja skuli hugbúnað sem byggir á opnum stöðlum.
          Þriðji liðurinn segir að opinberir aðilar eigi að forðast það að læsast í einum eða fáum þjónustuaðilum/hugbúnaðarframleiðendum.
          Fjórði liðurinn segir að við upphaf þróunarverkefna sem fjármögnuð eru af opinberu fé skuli gera áætlun um endurnýtingu.
          Fimmti liðurinn segir að nemendur í skólum landsins eigi að fá að kynnast frjálsum hugbúnaði til jafns við séreignarhugbúnað.
    Til þess að aðstoða opinbera aðila í upplýsingaöflun um frjálsan hugbúnað lét forsætisráðuneytið útbúa fræðsluefni um frjálsan hugbúnað og stafrænt frelsi almennt. Fræðsluefnið var gefið út á vefnum ut.is sem Handbók um stafrænt frelsi. Handbókinni er skipt í þrjá hluta:
          Frjáls og opinn hugbúnaður
          Opnir staðlar
          Frjálst samfélag
    Hver hluti fjallar um ýmsa þætti sem varða opinbera aðila og leitast er við að svara þeim spurningum sem mögulega koma upp. Handbókinni er ætlað að aðstoða opinbera aðila við að taka upplýstar ákvarðanir um frjálsan hugbúnað og hún er jafnframt gott kynningarefni fyrir þá sem hafa áhuga á frjálsum hugbúnaði. Meðal efnis í handbókinni er listi yfir vinsælan hugbúnað og reynslusögur opinberra aðila.
    Í samvinnu við forsætisráðuneytið gerði Ríkisskattstjóri úttekt á OpenOffice.org árið 2009. Úttektin fólst í því að gera samanburð á frjálsa skrifstofuvöndlinum og Microsoft Office með tilliti til þess hvort almennar aðgerðir sem notaðar eru í Microsoft Office hafi verið aðgengilegar. Niðurstaða úttektarinnar var sú að OpenOffice.org fullnægði að mestu leyti þörfum starfsmanna og að ekki væri þörf á mikilli kennslu. Auk þess var talið að auðvelt væri að breyta innanhússkerfum sem á þeim tíma voru háð Microsoft Office þannig að þau gætu átt í samskiptum við OpenOffice.org. Helstu vankantar á OpenOffice.org voru þeir að gagnaumsjónarkerfið Base var ekki nægilega öflugt og að Calc stæðist ekki kröfur færustu Microsoft Excel-notendanna.
    Síðan úttektin var framkvæmd hafa komið út þrjár nýjar stærri útgáfur af OpenOffice.org auk þess sem þróunarferlið var opnað enn frekar í afleiddu, sjálfstæðu verkefni sem kallast LibreOffice. LibreOffice var byggt á útgáfu 3.3 af OpenOffice.org (og hlaut sama útgáfunúmer) og nýjasta útgáfan af LibreOffice stendur í 3.6.
    Tæpu ári eftir úttekt ríkisskattstjóra var settur á laggirnar vinnuhópur sem var ætlað að setja saman lista yfir næstu skref sem stjórnvöld gætu tekið í eftirfylgni stefnunnar og aukinni nýtingu á frjálsum hugbúnaði. Ári síðar setti hópurinn fram aðgerðaáætlun fyrir innleiðingu frjáls og opins hugbúnaðar hjá opinberum aðilum með 18 aðgerðum og 5 tilmælum til opinberra aðila.
    Aðgerðaáætlunin miðar ekki beint að því að innleiða frjálsan hugbúnað heldur að undirbúa jarðveginn og auðvelda innleiðingu hjá þeim opinberu aðilum sem hafa áhuga á því að auka notkun frjáls hugbúnaðar. Áætlunin sem slík miðar þannig að því að jafna stöðu hugbúnaðarnotkunar hjá opinberum aðilum, læra af þeim opinberu aðilum sem nota frjálsan hugbúnað í dag, miðla upplýsingum til annarra opinberra aðila og aðstoða þá sem vilja nota frjálsan hugbúnað við að komast af stað. Í stuttu máli má segja að aðgerðaáætlunin snúist um að gera frjálsan hugbúnað að raunverulegum valkosti í íslenskri stjórnsýslu. Stjórnvöld völdu að fylgja tillögum vinnuhópsins í einu og öllu og settu innleiðingarverkefni af stað í mars 2012.
    Verkefnastjóri var ráðinn til þess að hafa yfirumsjón með verkefninu, ásamt því að skipaður var stýrihópur undir forystu innanríkisráðuneytis með fulltrúum frá innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Einnig var skipaður sérfræðingahópur sem er verkefnastjóranum til halds og trausts. Innleiðingarverkefnið er tímabundið verkefni til eins árs þar sem unnið verður að því að framkvæma þær aðgerðir sem settar voru fram í aðgerðaáætluninni. Að því loknu verður staðan skoðuð og ákvörðun tekin um framhaldið. Framkvæmd innleiðingarverkefnis gengur ágætlega en er þó aðeins á eftir áætlun. Sjá má nánari upplýsingar um framkvæmdina á frelsi.ut.is/.

Innleiðing hjá opinberum aðilum.
    Fjöldi opinberra aðila notar frjálsan hugbúnað að einhverju marki og þó nokkur hluti notar frjálsan hugbúnað nær eingöngu. Í dag nota fimm framhaldsskólar nær eingöngu frjálsan hugbúnað: Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Menntaskólinn í Reykjavík og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum. Auk þeirra notar meirihluti framhaldsskóla frjálsa kennsluumsjónarkerfið Moodle ásamt ýmiss konar öðrum frjálsum hugbúnaði.
    Auk skólanna hafa aðrir opinberir aðilar eins og til dæmis Fjölmiðlanefnd tekið ákvörðun um að nota eingöngu frjálsan hugbúnað. Af þeim opinberu aðilum, sem hafa tekið ákvörðun um að nota eingöngu frjálsan hugbúnað, hefur Fjölmiðlanefnd gengið lengra en allir aðrir aðilar og notar aðeins frjálsan hugbúnað á meðan aðrir nota séreignarhugbúnað í undantekningartilvikum til að auðvelda samskipti við aðrar stofnanir (oft að kröfu þeirra stofnana sem þeir eiga í samskiptum við) eða til að leysa sérstök vandamál.
    Fjórir opinberir aðilar, sem hafa notað frjálsan hugbúnað í miklum mæli, héldu kynningar á umræðufundum um frjálsan hugbúnað sem haldnir voru 29. maí 2012. Þar var sagt frá frjálsum hugbúnaði í Menntaskólanum í Reykjavík, Fjölmiðlanefnd, Landgræðslu ríkisins og hjá Reykjavíkurborg.

     2.      Hversu mikið greiðir ríkissjóður fyrir Stjórnarráðið og ríkisstofnanir í gjöld fyrir notkun á erlendum hugbúnaði, m.a. fyrir Oracle- og Microsoft-leyfi (leiga meðtalin)?
    Ekki er unnt að svara þessari spurningu þar sem ekki er haldið sérstaklega utan um þessar upplýsingar í bókhaldi ríkisins.

     3.      Hve miklir fjármunir hafa sparast með samþykkt stefnunnar og hver er annar ávinningur af henni?
    Ekki liggja fyrir haldbærar upplýsingar um hve háar fjárhæðir hafa sparast í heild hjá ríki og/eða sveitarfélögum í kjölfar stefnunnar um frjálsan og opinn hugbúnað. Þegar vel tekst til má ná umtalsverðum sparnaði og benda má á að Menntaskólinn í Reykjavík telur að verulegur sparnaður hafi náðst. Sparnaðurinn felst í því að ekki þarf að greiða leyfisgjöld af hugbúnaði, hægt er að nýta tölvubúnað mun lengur en áður og rekstrarkostnaður er lægri. Telur skólinn að sparnaðurinn geti verið nálægt 10 millj. kr. á ári.
    Annar ávinningur af stefnu stjórnvalda en sparnaður kemur fram í 2.–5. lið hennar enda er fyrsti liðurinn sá eini sem snýr sérstaklega að hagstæðum innkaupum.
          Í lið 2 er talað um að frjáls hugbúnaður byggi oft á opnum stöðlum. Opnir staðlar tryggja betri langtímavarðveislu og auðvelda samvirkni milli ólíkra kerfa.
          Í lið 3 er talað um að frjáls hugbúnaður forði opinberum aðilum frá því að læsast inni í ákveðnum framleiðanda eða þjónustuaðila. Ef opinberir aðilar eru of háðir einum aðila hefur sá aðili of mikið vald sem erfitt og dýrt getur reynst að komast undan. Minna hæði þýðir að opinberir aðilar eru sjálfstæðari.
          Í lið 4 er talað um að frjáls hugbúnaður geti leitt til meiri endurnýtingar. Þessi liður tengist sparnaði meira en hinir liðirnir þar sem með endurnýtingu er komist hjá því að marggreiða fyrir sömu vöruna. Þessi liður snýr samt meira að því að skattgreiðendur eiga að geta gert þá kröfu að ekki sé greitt fyrir sömu vöruna mörgum sinnum.
          Í lið 5 er talað um að nemendur hafi tækifæri til að kynnast frjálsum hugbúnaði til jafns við séreignarhugbúnað. Þessi liður leggur þá áherslu á menntun í landinu að hún snúist frekar um að auka upplýsingatæknilæsi frekar en að læra hvaða hnapp á að ýta á í tilteknum hugbúnaði. Frjáls hugbúnaður takmarkar ekki nemendur við eina lausn og með þessu verður framtíð Íslands minna háð ákveðnum aðilum eins og rætt er um í lið 3.
    Annar ávinningur verður augljós með skilningi á þeim réttindum sem frjálsum hugbúnaði fylgir. Notendur hugbúnaðarins geta notað hugbúnaðinn án kvaða, skoðað hugbúnaðinn og frumkótann sem gagnast t.d. við úttektir, lært af honum sem gagnast sérstaklega í menntun, fjölfaldað og dreift honum án sérstaks leyfis sem hentar fjölmennum vinnustöðum og til að auka jöfnuð óháð samfélagsstöðu t.d. í skólum og réttindi til að betrumbæta hugbúnaðinn sem gagnast öðrum notendum.
    Það hefur sýnt sig að opin þróunarferli eins og þau sem einkenna opinn hugbúnað geta leitt til hraðari og betri þróunar. Sú breyting á gæðum hugbúnaðar sem fylgir opnu þróunarferli var einmitt ástæðan fyrir því að ákveðið var að tala um opinn hugbúnað sérstaklega (til að aðskilja gæðin frá réttindum hugbúnaðarins). Það útskýrir áherslumuninn á frjálsum og opnum hugbúnaði og af hverju oft er talað um það sem sömu hugbúnaðargerðina (eins og gert er í stefnu stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað).

     4.      Hvað má gera ráð fyrir að háar fjárhæðir sparist ef það tekst að innleiða stefnu um frjálsan og opinn hugbúnað að fullu?
    Ekki hefur verið lagt mat á hve háar upphæðir gætu sparast í heild hjá ríki og sveitarfélögum. Af framangreindu dæmi um sparnað hjá Menntaskólanum í Reykjavík má þó ráða að hægt væri að spara verulegar fjárhæðir með því að innleiða frjálsan hugbúnað í stofnunum ríkis og sveitarfélaga.
    Rekstur á tölvuumhverfi, tölvupóstþjóni, skráarþjóni, afritunartöku, vefsíðu og aðgangi að þjónustuborði til að aðstoða við ýmis vandamál sem koma upp hjá Fjölmiðlanefnd er um 370 þúsund krónur á ári með virðisaukaskatti (inni í upphæðinni er ekki málaskrá Fjölmiðlanefndar þar sem ekki allir opinberir aðilar þurfa á slíkum hugbúnaði að halda og ekki IP- símkerfið þar sem kostnaðurinn fer að stærstum hluta eftir notkun). Þessa upphæð geta opinberir aðilar haft til viðmiðunar þegar þeir vilja bera tilboð í séreignarhugbúnað saman við mögulegt frjálst og opið umhverfi.
    Á móti þeim sparnaði sem næst vegna þess að leyfisgjöld falla niður og tölvur endast lengur en áður þarf þó að gera ráð fyrir talsverðum kostnaði meðan stofnanir eru að læra á nýjan hugbúnað og skipta um kerfi. Einnig verður að gera ráð fyrir kostnaði við að leysa samskipti milli ýmissa frjálsra hugbúnaðarkerfa og stórra miðlægra séreignakerfa eins og t.d. fjárhags- og mannauðskerfis ríkisins – en slík samskipti hafa einmitt verið hindrun í innleiðingu frjáls hugbúnaðar hjá ýmsum stofnunum.