Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.






Skýrsla

forsætisráðherra um meðferð og
framkvæmd ályktana Alþingis 2011.

(Lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




         Samkvæmt 8. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis skal forsætisráðherra í október ár hvert leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem þingið samþykkti á næstliðnu ári og kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar, nema lög kveði á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt. Í skýrslunni skal enn fremur fjalla um meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstaks ráðherra. Þegar skýrslan hefur verið lögð fram skal hún ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar.
    Skýrsla sú, sem nú er lögð fram, nær til ályktana Alþingis á árinu 2011. Forsætisráðuneytið óskaði eftir því að viðkomandi ráðuneyti tækju saman greinargerðir um meðferð og framkvæmd þeirra þingsályktana og málefna sem þeim hefði verið falin meðferð á og fara svör ráðuneytanna hér á eftir.
    Þá fylgir skýrslunni einnig yfirlit yfir framkvæmd ályktana þingsins þrjú ár aftur í tímann í samræmi við fyrrnefnt ákvæði laga um þingsköp Alþingis. Er yfirlitið unnið á grundvelli upplýsinga frá viðkomandi ráðuneytum.


FORSÆTISRÁÐUNEYTIÐ


Þál. 19/139 um skipun stjórnlagaráðs, 24. mars 2011 – þskj. 1120.

     Alþingi ályktar að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Bjóða skal þeim sæti í ráðinu sem landskjörstjórn úthlutaði sæti í kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010, sbr. auglýsingu nr. 929/2010, en að öðrum kosti þeim sem næstir voru í röðinni, sbr. upplýsingar um niðurstöður talningar sem landskjörstjórn hefur birt, en þó þannig að hvort kyn um sig hljóti a.m.k. 10 sæti í ráðinu.
    Stjórnlagaráð taki sérstaklega til umfjöllunar eftirfarandi þætti:
     1.      Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
     2.      Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
     3.      Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
     4.      Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
     5.      Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
     6.      Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
     7.      Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
     8.      Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
    Stjórnlagaráð getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti en getið er að framan.
    Stjórnlagaráð skili tillögum sínum til Alþingis í formi frumvarps til stjórnarskipunarlaga fyrir lok júní 2011. Stjórnlagaráði er heimilt að óska eftir því við forseta Alþingis og forsætisnefnd að starfstími ráðsins verði framlengdur um allt að einn mánuð.
    Stjórnlagaráð kjósi formann úr sínum hópi. Fundir ráðsins verði opnir. Um skipulag og starfshætti stjórnlagaráðs fer að öðru leyti eftir starfsreglum sem stjórnlagaráð setur sér.
    Undirbúningsnefnd sem hefur starfað samkvæmt lögum um stjórnlagaþing, nr. 90/2010, gangi frá skipan ráðsins í samræmi við 1. mgr. og undirbúi fyrsta fund stjórnlagaráðs. Enn fremur sjái undirbúningsnefndin ráðinu fyrir starfsaðstöðu, starfsliði og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð.
    Fulltrúar í stjórnlagaráði njóti á starfstíma ráðsins launa sem samsvara þingfararkaupi alþingismanna. Formaður ráðsins njóti samsvarandi launa og forseti Alþingis og beri fjármálalega ábyrgð á störfum ráðsins gagnvart undirbúningsnefnd, sbr. 6. mgr. Kostnaður við störf stjórnlagaráðs greiðist úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis.

    Samkvæmt ályktuninni bauð Alþingi þeim 25 sem landskjörstjórn úthlutaði sæti í kosningu til stjórnlagaþings sæti í ráðinu, en að öðrum kosti þeim sem næstir voru í röðinni sbr. upplýsingar um niðurstöður talningar sem landskjörstjórn birti. Einn þeirra frambjóðanda sem hafði verið úthlutað sæti í kosningu til stjórnlagaþings þáði ekki sæti í stjórnlagaráði og tók því sá frambjóðandi sem næstur var í atkvæðaröðinni sæti í ráðinu. Í ráðinu sátu því eftirfarandi fulltrúar: Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Dögg Harðardóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Freyja Haraldsdóttir, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Illugi Jökulsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, Katrín Fjeldsted, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Ómar Ragnarsson, Pawel Bartoszek, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson.
    Stjórnlagaráð var sett formlega 6. apríl 2011 en við það tækifæri afhenti stjórnlaganefnd skýrslu sína. Í skýrslunni voru settir fram rökstuddir valkostir um breytingar á stjórnarskránni og fjallað um ýmiss viðfangsefni sem koma þyrftu til skoðunar við þá vinnu.
    Í ályktun Alþingis um skipan stjórnlagaráðs var sérstaklega tiltekið að fjallað skyldi um tiltekin atriði sem voru þau sömu og talin voru upp í lögum nr. 90/2010 um stjórnlagaþing. Þá var einnig kveðið á um að ráðinu væri heimilt að taka fleiri atriði til umfjöllunar í starfi sínu. Meðal ráðsfulltrúa kom strax í upphafi fram mikill vilji til að taka mannréttindakafla núgildandi stjórnarskrár til endurskoðunar. Þá var jafnframt ákveðið að taka fyrir nokkur önnur efni en þau sem voru nefnd sérstaklega í þingsályktuninni en hafði verið fjallað um í skýrslu stjórnlaganefndar, s.s. stöðu þjóðkirkjunnar og sveitarfélaga. Ráðið leit á skýrslu stjórnlaganefndar sem góðan grundvöll að byggja á en ekki bindandi fyrirmæli eða valkosti.
    Fyrsta verkefni ráðsins var að kjósa sér formann og varaformann og ganga frá starfsreglum. Formaður var kjörin Salvör Nordal og varaformaður Ari Teitsson. Samkvæmt starfsreglum sem samþykktar voru á 3. fundi var ráðsfundur æðsta vald stjórnlagaráðs og stýrði formaður þeim og varaformaður í hans fjarveru. Ráðsfundir urðu 19 talsins.
    Á 5. fundi stjórnlagaráðs, 19. apríl 2011, var málefnum skipt á milli þriggja nefnda og kosnir formenn og varaformenn fyrir hverja nefnd. Að lokinni kosningu nefndaformanna var stjórn stjórnlagaráðs fullskipuð. Meginverkefni stjórnar var að skipuleggja og stýra starfi ráðsins og í því skyni voru haldnir 28 stjórnarfundir. Aðallögfræðingur stjórnlagaráðs, Sif Guðjónsdóttir, var ritari stjórnar og Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri stjórnlagaráðs starfaði fyrir stjórn og sat alla stjórnarfundi.
    Undirbúningur að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga miðaðist í fyrstu við svokallað áfangaskjal sem aðgengilegt var á vefsíðu stjórnlagaráðs. Vinnutilhögun var á þá leið að í kjölfar nefndarfunda í hverri kynntu nefndirnar tillögur sínar á fundum með öðrum fulltrúum og þar á eftir á opnum ráðsfundi. Í kjölfar kynningar gátu tillögurnar tekið breytingum, með hliðsjón af erindum, umsögnum fræðimanna og stofnana, umræðna í nefndum og ráði og á vefsíðu stjórnlagaráðs. Að lokinni kynningu og frekari vinnslu eftir atvikum voru tillögur aftur lagðar fram á ráðsfundi til samþykktar inn í áfangaskjalið. Á þennan hátt mótuðust tillögurnar smám saman í samræðum milli fulltrúa ráðsins innbyrðis og í samræðum við almenning. Úr áfangaskjalinu voru síðan unnin drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og það afgreitt eftir tvær umræður í ráðinu, með atkvæðagreiðslum um hvert ákvæði og breytingartillögur við það.
    Nánari upplýsingar um störf verkefnanefnda stjórnlagaráðs og samráð sem þær stóðu fyrir má finna í skýrslu forsætisnefndar Alþingis á þingskjali 3 á 140. löggjafarþingi. Stjórnlagaráð samþykkti frumvarp sitt einróma með atkvæðum allra ráðsfulltrúa á 18. fundi ráðsins, miðvikudaginn 27. júlí 2011.
    Stjórnlagaráð afhenti forseta Alþingis frumvarp að nýrri stjórnarskrá 29. júlí 2011. Fulltrúar ráðsins lýstu þeirri afstöðu sinni að greiða skyldi atkvæði um nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi afgreiddi frumvarpið endanlega. Forsætisnefnd Alþingis lagði tillögur stjórnlagaráðs fyrir Alþingi í formi skýrslu þann 4. október 2011. Á tímabilinu frá 13. október 2011 til 20. febrúar 2012 voru tillögurnar og meðferð málsins ræddar á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Á fundina komu ýmsir sérfræðingar og ræddu um tillögur stjórnlagaráðsins og svöruðu spurningum nefndarmanna. Fjölmargir aðilar sendu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd umsagnir vegna málsins þar sem ýmist voru gerðar athugasemdir við efni frumvarps stjórnlagaráðs eða lýst stuðningi við að frumvarpið yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá.
    Í kjölfar þess ritaði nefndin fyrrum fulltrúum í stjórnlagaráði bréf þar sem ráðið var kvatt saman til sérstaks fjögurra daga fundar. Fundurinn fór fram 8. til 11. mars 2012. Var fundinum ætlað að fjalla um spurningar og ábendingar nefndarinnar um hugsanlegar breytingar á frumvarpi ráðsins. Með bréfi dags. 11. mars 2012 brást ráðið við spurningum og ábendingum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Í sumum tilfellum eru þar settir fram valkostir við fyrra orðalag og tók ráðið fram að samræmi í frumvarpinu ætti ekki að raskast þótt þeir yrðu valdir í stað þess texta sem fyrir var í frumvarpi ráðsins.


Þál. 33/139 um menntun og atvinnusköpun ungs fólks, 7. júní 2011 – þskj. 1654.

     Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að hafa yfirumsjón með mótun aðgerðaáætlunar sem hafi þann tilgang að samþætta áherslur í menntastefnu og atvinnustefnu stjórnvalda með áherslu á að greina menntunarþörf atvinnulífsins, auka vægi starfsnáms í íslensku menntakerfi og þróa nýjar fjölbreyttar starfsnámsleiðir.
    Aðgerðaáætlunin verði mótuð í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, samtök launafólks og atvinnurekenda, háskóla, framhaldsskóla, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Landssamband æskulýðsfélaga og Vinnumálastofnun. Stefnt verði að því að skila niðurstöðum fyrir 1. desember 2011.

    Starfshópurinn hefur haldið 35 fundi og er að ljúka við tillögugerð/skýrslu. Skjalið hefur verið sent í yfirlestur til sérfræðinga utan hópsins.


Þál. 44/139 um prófessorsstöðu tengda nafni Jóns
Sigurðssonar forseta, 15. júní 2011 – þskj. 1812.

     Alþingi ályktar – í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta 17. júní 2011 – að stofnuð verði prófessorsstaða tengd nafni hans.
    Prófessorsstaðan verði við Háskóla Íslands en starfsskyldur þess sem henni gegnir verði m.a. við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða.
    Staðan verði auglýst og skipað í hana á fimm ára fresti eftir almennum reglum um prófessora. Heimilt verði að endurnýja skipunartímann einu sinni.
    Prófessorinn hafi rannsóknar- og kennsluskyldu í sínu fagi. Eitt lykilverkefna verði að halda árlega ráðstefnur og námskeið í sumarháskóla á Hrafnseyri með innlendum og erlendum kennurum og fyrirlesurum.
    Við skipun í prófessorsembættið verði höfð hliðsjón af því hvernig áætlun umsækjenda um rannsóknastarf og kennslu tengist lífi, starfi og arfleifð Jóns Sigurðssonar og efli þekkingu á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa málið þannig að prófessorinn geti tekið til starfa frá og með næstu áramótum.

    Háskóla Íslands var veitt fjárveiting fyrir stöðunni. Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur var skipaður í prófessorsstöðuna við Háskóla Íslands en hann tók við starfinu þann 1. apríl síðastliðinn.


Þál. 1/140 um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi
Palestínu, 29. nóvember 2011 – þskj. 407.

     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt skorar Alþingi á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis.
    Alþingi áréttar að PLO, Frelsissamtök Palestínu, eru hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar og minnir jafnframt á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi krefst þess af deiluaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs að þeir láti þegar í stað af öllum hernaði og ofbeldisverkum og virði mannréttindi og mannúðarlög.

    Þann 15. desember 2011 staðfestu utanríkisráðherrar Íslands og Palestínu með formlegum hætti upptöku stjórnmálasambands milli Íslands og Palestínu sem tveggja sjálfstæðra og fullvalda ríkja. Viðurkenning Íslands á Palestínu fór fram í samræmi við ályktun Alþingis þann 29. nóvember 2011 og kom utanríkisráðherra Palestínu, Dr. Riad Malki, í opinbera heimsókn til Íslands af þessu tilefni.
    Viðurkenning Íslands fól einnig í sér að sendiskrifstofa Palestínu gagnvart Íslandi fékk viðurkenningu sem sendiráð gagnvart Íslandi og er sendiherra Yasser Najjar, sem hefur aðsetur í Osló. Sendiherra Íslands gagnvart Palestínu er Anna Jóhannsdóttir og afhenti hún forseta Palestínu trúnaðarbréf þann 11. mars 2012.


ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTIÐ


Þál. 23/139 um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir
árin 2010–2013, 15. apríl 2011 – þskj. 1328.

     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013. Áætlunin byggist á aðgerðum í nýsköpun og atvinnuþróun í samræmi við aðra stefnumótun við gerð Sóknaráætlunar 2020.
    Meginmarkmið byggðaáætlunarinnar verði að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum og efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum.
    Forsætisráðherra, f.h. ríkisstjórnar sinnar, flytji Alþingi munnlega skýrslu um framgang byggðaáætlunar, sem jafnframt verði rædd á Alþingi, í upphafi ársins 2012.
    Til þess að ná markmiðum áætlunarinnar verði gripið til eftirfarandi aðgerða sem falla undir níu skilgreind lykilsvið:
     1.      Atvinnustefna. Kjarni atvinnustefnunnar er bætt samkeppnishæfni, nýsköpun og sjálfbær þróun atvinnulífsins þar sem byggt er á sérstöðu og styrkleikum hvers svæðis eða atvinnugreinar fyrir sig, menntun, rannsóknum og margvíslegum menningar- og samfélagslegum þáttum.
     2.      Samþætting áætlana og aukið samstarf. Samþætting opinberra áætlana, m.a. á sviði byggðamála, menntamála, orkumála, samgangna, fjarskipta og menningarmála, er hugsuð í þeim tilgangi að bæta árangur í þágu atvinnulífs og búsetuskilyrða auk betri nýtingar fjármuna.
     3.      Efling stoðkerfis atvinnulífsins. Tilgangurinn með þessu er m.a. að auka skilvirkni atvinnulífsins og gera það einfaldara. Það er meðal annars gert með því að leggja áherslu á vaxtarsamninga sem byggjast á klasahugsun og á svæðisbundin þekkingarsetur sem samþætta þverfagleg fræðasvið og staðbundnar áherslur, sérkenni og styrkleika og eru líkleg til að skila auknum árangri í nýsköpun og atvinnuþróun.
     4.      Nýsköpun og sprotafyrirtæki. Stuðningur við nýsköpun og sprotafyrirtæki verði þrenns konar. Í fyrsta lagi í gegnum menntakerfið og stoðkerfi atvinnulífsins, svo sem Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélögin, starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og sjóði til stuðnings nýsköpun, atvinnusköpun og sprotafyrirtækjum. Í öðru lagi í gegnum skattalegar ívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og endurgreiðslur kostnaðar vegna rannsókna og þróunar. Í þriðja lagi í gegnum skilgreind verkefni, klasa eða áherslur opinberra aðila, svo sem að auka hlutfall innlendra visthæfra orkugjafa í samgöngum eða að þróa leiðir til að nýta eða binda koltvísýring úr útblæstri orku- og iðjuvera.
     5.      Erlend nýfjárfesting í atvinnulífinu. Til viðbótar við innlenda nýsköpun og vöxt atvinnulífsins, sem kalla má „innri vöxt“, er mikilvægt að stuðla markvisst að erlendri nýfjárfestingu í atvinnulífinu. Rammalöggjöf um ívilnanir vegna fjárfestingar mun taka til svæða sem skilgreind eru á byggðakorti Eftirlitsstofnunar EFTA og mikilvægt að atvinnuþróunarfélög eigi samstarf við Fjárfestingarstofu um kynningu á helstu kostum og styrkleikum svæða.
     6.      Efling ferðaþjónustu. Eftir mikinn vöxt, vöruþróun og nýsköpun á síðustu árum er ferðaþjónustan orðin ein af meginstoðum íslensks efnahagslífs og skapar um fimmtung gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Mikilvægt er að byggja nú á þeim styrkleikum sem til staðar eru og markaðssetja þá sérstaklega gagnvart erlendum ferðamönnum um leið og gætt er að gæðum og frekari vöruþróun. Horfa þarf sérstaklega til sviða þar sem sérstaða íslenskrar náttúru, afurða og náttúruauðlinda nýtist, svo sem heilsu- og lífsstílstengdrar ferðaþjónustu.
     7.      Félagsauður. Félagsauður hvers svæðis er grundvöllur atvinnulífs, þjónustu og almennrar þátttöku í uppbyggingu samfélagsins. Félagsauðurinn ræður því miklu um almenn búsetuskilyrði og samkeppnishæfni. Menntun, menning, félagsstarf, lýðræðisleg þátttaka í stefnumótun og framtíðarsýn eru allt atriði sem skipta máli. Jafnrétti og þátttaka beggja kynja í atvinnulífi og samfélagsmótun er sérstakt viðfangsefni sem líta þarf til.
     8.      Efling menningarstarfs og skapandi greina. Menning og listir skipa æ ríkari sess í nýsköpun og eflingu atvinnulífs um land allt og hafa þar með jákvæð áhrif á byggðaþróun. Svæðisbundnir menningarsamningar hafa reynst vel og styðja við fjölbreytt menningar- og listalíf á landsbyggðinni og efla tengsl lista og menningartengdrar ferðaþjónustu. Mikilvægt er að styrkja grundvöll skapandi greina með því að auka áherslu á menntun á þessu sviði. Nýta má menningarsamninga og vaxtarsamninga í þessu skyni og koma á víðtæku samstarfi við þekkingarsetur og menningarsetur í heimabyggð, framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar um eflingu menntunar á sviði skapandi greina.
     9.      Jöfnun lífsskilyrða: Lögð verði sérstök áhersla á að lífskjör séu þau sömu um allt land, sem og áhersla á valfrelsi til búsetuskilyrða. Sem fyrstu aðgerðir til að stuðla að þessu verði lögð sérstök áhersla á jöfnun húshitunarkostnaðar og flutningsjöfnun á vörum bæði fyrir almenning og fyrirtæki á landsbyggðinni.

    Framkvæmd ályktunarinnar hófst á árinu 2010 og verður í vinnslu út árið 2013. Í þingsályktuninni eru átta lykilsvið skilgreind:
    1)    Atvinnustefna: Unnið er að gerð hennar í ráðuneytinu og verður uppkast tilbúið fyrir árslok 2012.
    2)     Samþætting áætlana og aukið samstarf: Vinna við samþættingu áætlana hófst 2011 með þátttöku allra ráðuneyta og undir forustu forsætisráðuneytis. Ekki liggur fyrir hvenær starfinu lýkur.
    3)     Efling stoðkerfis atvinnulífsins: Unnið hefur verið að verkefninu frá 2010, m.a. við endurnýjun vaxtarsamninga og með greiningu á samþættingu verkefna stofnana iðnaðarráðuneytisins. Reiknað er með að verkinu verði lokið á gildistíma áætlunarinnar.
    4)     Nýsköpun og sprotafyrirtæki: Unnið hefur verið að því að bæta starfsskilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja, t.d. með myndun klasasamstarfs og með löggjöf sem veitir skattaafslátt vegna rannsókna- og þróunarstarfsemi fyrirtækja. Þetta er langtímaverkefni sem lýkur í raun aldrei.
    5)     Erlend nýfjárfesting í atvinnulífinu: Samþykkt hefur verið ný rammalöggjöf um ívilnanir vegna fjárfestinga og Alþingi hefur ályktað um erlendar fjárfestingar sem nú eru til frekari úrvinnslu í ráðuneytinu.
    6)     Efling ferðaþjónustu: Hefur verið átaksverkefni allan gildistíma áætlunarinnar m.a. með verkefnum á borð við „Inspired by Iceland“ og „Ísland allt árið“ og með stofnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.
    7)     Félagsauður: Í atvinnustefnu og sóknaráætlunum landshluta vegur félagsauðurinn þungt í þeirri heildarmynd að efla atvinnulífið og félagslega stöðu fólks.
    8)     Efling menningarstarfs og skapandi greina: Eru aðrir veigamiklir þættir af sama meiði og félagsauðurinn. Menningarsamningar og vaxtarsamningar hafa skipt miklu máli við að efla félagsauð, menningarsamstarf og skapandi greinar en til lengri tíma litið er stefnt að því að þessir grunnþættir verði fléttaðir inn i aðra stefnumótun eins og atvinnustefnu. Málefni skapandi greina hafa fengið sérstaka athygli á gildistíma áætlunarinnar með heildstæðri úttekt á gildi þeirra.


Þál. 24/139 um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands
undan Norðausturlandi, 2. maí 2011 – þskj. 1350.

     Alþingi ályktar að tryggðir verði fjármunir til að nú þegar verði hafnar markvissar rannsóknir á því hvort olía eða gas finnst á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Leitað verði samstarfs við erlenda aðila um rannsóknir eftir því sem við á og við staðarval verði stuðst við fyrri rannsóknir.

    Orkustofnun hefur eftir megni stuðlað að rannsóknum á því hvort olía eða gas finnst á svokölluðu Gammsvæði á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Rannsóknirnar hafa verið stundaðar að svo miklu leyti sem kostnaður vegna þeirra hefur rúmast innan fjárhagsramma stofnunarinnar. Nú er áætlað að kostnaður við þær viðbótarrannsóknir sem taldar eru nauðsynlegar á svæðinu geti numið um 13 millj. kr. Miðað við núverandi fjárhagsramma Orkustofnunar er ólíklegt að hægt verði að ljúka þessum rannsóknum á næstunni nema sérstakar fjárveitingar komi til.


Þál. 34/139 um ferðamálaáætlun 2011–2020, 7. júní 2011 – þskj. 1657.

     Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að stefna að eftirfarandi meginmarkmiðum í ferðamálum á tímabilinu 2011–2020:
     a.      að auka arðsemi atvinnugreinarinnar,
     b.      að standa að markvissri uppbyggingu áfangastaða, öflugri vöruþróun og kynningarstarfi til að skapa tækifæri til að lengja ferðamannatímabilið um land allt, minnka árstíðasveiflu og stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið,
     c.      að auka gæði, fagmennsku, öryggi og umhverfisvitund ferðaþjónustunnar,
     d.      að skilgreina og viðhalda sérstöðu Íslands sem áfangastaðar ferðamanna, m.a. með öflugu greiningar- og rannsóknarstarfi.
    Þessi fjögur meginmarkmið ferðaþjónustunnar hvíli á eftirfarandi:

    1. Innviðir og grunngerð.
     a.      Íslensk náttúra er auðlind ferðaþjónustunnar. Mikilvægt er að byggja upp, vernda og viðhalda ferðamannastöðum um allt land. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar sameinist um leiðir til að fjármagna slíkar umbætur.
     b.      Uppbygging innviða ferðaþjónustunnar miði að því að vernda náttúru Íslands og ferðamálaáætlun stefni að því að innleiða hugarfar sjálfbærni og ábyrgðar á náttúru og menningu landsins.
     c.      Lagaumhverfi ferðamála taki mið af þeirri áætlun sem hér liggur fyrir.
     d.      Leyfis- og öryggismál í ferðaþjónustu verði tekin til gagngerrar endurskoðunar í samræmi við þær áherslur sem birtast í þessari áætlun.
     e.      Samgöngur eru mikilvægasta forsenda allrar ferðaþjónustu á Íslandi og mikilvægt að við áætlanagerð og framkvæmdir í tengslum við samgöngumál verði tekið tillit til hagsmuna ferðaþjónustunnar.
     f.      Unnin verði viðbragðsáætlun vegna náttúruhamfara fyrir ferðaþjónustuna sem byggist á reynslu af þeim tveimur eldgosum sem valdið hafa töluverðum truflunum á flugi og öðrum samgöngum.

    2. Kannanir, rannsóknir, spár.


     a.      Mikilvægt er að stutt sé við þróun ferðaþjónustunnar og uppbyggingu með verulega aukinni áherslu á greiningar, rannsóknir og spár.
     b.      Sjálfstæði rannsókna verði tryggt en Ferðamálastofa hafi yfirsýn yfir og beri ábyrgð á mótun stefnu varðandi framkvæmd og úrvinnslu kannana og að gerðar séu framtíðarspár um þróun greinarinnar í samvinnu við Hagstofu Íslands, háskóla og Rannsóknamiðstöð ferðamála.
     c.      Hagstofa Íslands beri ábyrgð á opinberri hagskýrslugerð í ferðaþjónustu samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði hagskýrslugerðar í ferðaþjónustu.
     d.      Í þjóðhagsreikningi liggi alltaf fyrir töluleg gögn um þróun ferðaþjónustunnar frá ári til árs.
     e.      Farnar verði bestu fáanlegar leiðir til að tryggja að gerðar verði samræmdar ítarlegar úttektir á auðlindum og innviðum ferðaþjónustunnar um allt land.

    3. Vöruþróun og nýsköpun.
     a.      Vöruþróunarverkefni í ferðaþjónustu verði byggð á klasahugmyndafræði og grundvallist á sérstöðu og stefnumótun svæða.
     b.      Leitað verði nýrra leiða við vöruþróun með klasasamstarfi og tækni- og þekkingaryfirfærslu.
     c.      Stoðkerfi ferðaþjónustunnar verði einfaldað og tryggt að öflugar einingar séu til staðar úti um allt land sem hafa gott faglegt bakland og næga burði til að styðja við þróun áfangastaða, vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu.
     d.      Opinbert fjármagn til vöruþróunar á sviði ferðaþjónustu fari einkum til samstarfsverkefna sem hafi meðal markmiða að lengja ferðamannatímabilið.

    4. Markaðsmál.
     a.      Opinbert kynningarstarf tengt ferðaþjónustu taki mið af markmiðum ferðamálaáætlunar.
     b.      Leitað verði nýrra leiða í opinberu kynningarstarfi og einnig til að auka faglegt samstarf opinberra aðila á sviði vöruþróunar og kynningarmála.
     c.      Við mótun samstarfs ferðamálayfirvalda við Íslandsstofu er mikilvægt að sett séu mælanleg markmið og mælikvarðar á árangur.
     d.      Mælikvarðar á árangur í kynningarstarfi eru meðal annars ferðaútgjöld samkvæmt ferðaþjónustureikningum, gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum, dreifing gistinátta yfir árstíðir og landsvæði og fjöldi ferðamanna auk kannana um væntingar og upplifun ferðamanna.

    Framkvæmd ferðamálaáætlunar stendur yfir. Framkvæmdin er á ábyrgð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytsins og Ferðamálastofu.


Þál. 35/139 um orkuskipti í samgöngum, 7. júní 2011 – þskj. 1658.

    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að vinna að því að minnka hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum með notkun endurnýjanlegra orkugjafa og orkusparnaði. Stefnt skal að orkuskiptum í samgöngum þar sem jarðefnaeldsneyti verði leyst af hólmi með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum.
    Með orkuskiptum í samgöngum er stuðlað að grænu hagkerfi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, óverulegri losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum og gjaldeyrissparnaði sem nota má til uppbyggingar á innviðum, þekkingu, framleiðslugetu og nýrri atvinnustarfsemi.
    Unnið verði að stefnumótun, markmiðasetningu og aðgerðaáætlun fyrir orkuskipti í samgöngum fram til 2020 og skal sú stefnumótun liggja fyrir 1. janúar 2012. Við þá vinnu skal hafa eftirfarandi markmið að leiðarljósi:

     1. Markmið.
    Að því skal stefnt að Ísland verði í forustu við notkun á endurnýjanlegri orku í samgöngum. Nú er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á Íslandi töluvert lægra en annars staðar eða minna en 1%. Markmiðið innan ESB er 10% fyrir árið 2020.

     2. Mikilvægi.
    Unnið verði markvisst og eins hratt og kostur er að því að draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti með því að hvetja til orkusparnaðar og skapa hagrænar forsendur fyrir notkun ökutækja sem nota endurnýjanlega orkugjafa. Stefnt skal að því að hefja framleiðslu og notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum sem leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda, gjaldeyrissparnaðar og meira orkuöryggis.

     3. Skattaumhverfi.
    Skattaumhverfi verði þróað áfram til að það hvetji bæði neytendur og fyrirtæki til orkuskipta í samgöngum og til framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum til samgangna. Jafnframt felist hvati til orkusparnaðar í skattkerfinu.

     4. Orkusparnaður.
    Markvisst verði hvatt til orkusparnaðar í samgöngum, m.a. með miðlun upplýsinga til almennings, umhverfismiðuðu svæðaskipulagi, breyttu skattkerfi, eflingu almenningssamgangna og fleira í samvinnu við þá aðila sem nú þegar vinna að þessum málum, svo sem Orkusetur og sveitarstjórnir.

     5. Samstarf.
    Lykilaðgerðir sem grípa þarf til verði skipulagðar og samstaða sköpuð um þær, m.a. með klasasamstarfi með þátttöku atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkis.

     6. Rannsóknir og þróun.
    Stuðla skal að rannsóknum, tækniþróun, nýsköpun og atvinnuþróun tengdri endurnýjanlegum orkugjöfum. Menntun og fræðsla á þessu sviði skal einnig efld.
    
     7. Ísland sem tilraunavettvangur.
    Ísland er ákjósanlegur vettvangur til að reyna ýmsar nýjungar í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum í samgöngum. Efla skal þátttöku í erlendu samstarfi í því skyni að laða að þekkingu og fjármagn.
    
     8. Stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun.
    Efla skal stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun í tengslum við orkuskipti í samgöngum og stefnt skal að sérstakri fjármögnun verkefna á þessu sviði. Fé til verkefna sem tengjast orkuskiptum í samgöngum verði aukið.

     9. Alþjóðasamstarf.
    Ísland uppfylli allar þær skyldur og kröfur sem alþjóðasamþykktir gera til landsins varðandi losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, orkusparnað og hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Jafnframt taki Ísland þátt í alþjóðlegum verkefnum á þessu sviði eftir því sem efni þykja til.

    Framkvæmd þingsályktunar er lokið, sjá þskj. 453 – 377. mál á 140. löggjafarþingi, skýrsla Grænu orkunnar, verkefnastjórnar um orkuskipti í samgöngum, lögð fram af iðnaðarráðherra.


Frv. til l. um sölu sjávarafla o.fl. vísað til
ríkisstjórnarinnar, 31. mars 2011 – þskj. 1265.

    Innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er unnið að endurframlagningu frumvarpsins.


Þál. 55/139 um samvinnu milli vestnorrænu ríkjanna um stjórn veiða
úr sameiginlegum fiskstofnum, 16. september 2011 – þskj. 1967.

     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efla samvinnu við Færeyjar og Grænland um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum og skorar á hana að vinna með löndunum tveimur að undirbúningi viðræðna og samstarfs við aðrar fiskveiðiþjóðir á Norður-Atlantshafi um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum.

    Færeyjar og Ísland hafa um langt skeið haft sín á milli samning um gagnkvæmar fiskveiðar þjóðanna í lögsögu hinnar. Einu sinni á ári hittast ráðherrar, ýmist í Reykjavík eða Þórshöfn, þar sem farið er yfir þau mál sem upp hafa komið og fundin á þeim lausn. Þetta samstarf er í mjög föstum og góðum farvegi og þarna gefst tækifæri til að taka bókstaflega öll mál upp sem skipta þessar þjóðir sameiginlegu máli á sjávarútvegssviðinu.
    Samvinna við Grænlendinga hefur verið minni en við Færeyjar, en á því er orðin bragarbót. Á síðasta vori tókst, eftir nær tveggja áratuga bið, að gera samning um veiðar á grálúðu sem er sameiginlegur stofn þjóðanna. Á fundi sjávarútvegsráðherra beggja í Grænlandi í sumar var jafnframt ákveðið að þjóðirnar settu á stofn sameiginlega fiskveiðinefnd þar sem að tekin yrðu fyrir mál sem kunna að koma upp og snerta sameiginlega hagsmuni þeirra í sjávarútvegi. Nú er unnið að undirbúningi þess og gert ráð fyrir að hún verði komin á laggirnar fyrir áramót. Fyrsta verkefni hennar verður að ræða möguleika á samningi um s.k. Dhornbanka rækju sem er sameiginlegur stofn þjóðanna, en ósamið um eins og sakir standa.


FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTIÐ


    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins á umræddu tímabili.


INNANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ


Þál. 14/139 um flug til Grænlands um Ísafjarðarflugvöll,
16. mars 2011 – þskj. 1063.

     Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að gera úttekt á kostnaði og mögulegum leiðum til þess að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli verði nægjanlegur búnaður og aðstaða til að unnt verði að sinna þaðan flugi til Grænlands. Úttektin og niðurstöður hennar verði kynntar samgöngunefnd Alþingis eins fljótt og auðið er.

    Með þingslályktuninni var ráðherra falið að gera úttekt á kostnaði og mögulegum leiðum til þess að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli verði nægjanlegur búnaður og aðstaða til að unnt verði að sinna þaðan flugi til Grænlands. Úttektin og niðurstöður hennar verði kynntar samgöngunefnd Alþingis. Þingsályktunin var send ISAVIA og Flugmálastjórn til skoðunar. Niðurstöður af könnun málsins liggja nú fyrir sem senda þarf umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til kynningar.


Þál. 15/139 um úttekt á gerð göngubrúar yfir Ölfusá
við Selfoss, 16. mars 2011 – þskj. 1064.

     Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta meta kosti þess að gera göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss og meta kostnað við slíka framkvæmd. Úttekt á framkvæmdinni og kostnaðarmat liggi fyrir 1. febrúar 2012.

    Með þingsályktuninni var ráðherra falið að láta meta kosti þess að gera göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss og meta kostnað við slíka framkvæmd. Ráðherra fól Vegagerðinni að gera umrædda úttekt og lá hún fyrir í febrúar sl. Í henni kemur fram að líklegir staðir fyrir göngubrú séu rétt fyrir neðan og rétt fyrir ofan brúna yfir Ölfusá. Þetta mun hafa þau áhrif að umferðaröryggi mun aukast á brúnni sem er þó gott fyrir. Rýmra verður um alla umferð þegar hægt verður að taka þann hluta sem nú er notaður fyrir gangandi og hjólandi fólk undir bílaumferð. Þá mun brúin falla að skipulagi sveitarfélagsins en misvel eftir kostum. Ekki var metinn kostnaður við stíga og lagnir sem þó þarf að gera heldur eingöngu kostnað við brúna sjálf. Sá kostnaður er metinn um 380 m.kr.


Þál. 18/139 um kynningarefni um Icesave-samningana fyrir
þjóðaratkvæðagreiðslu, 17. mars 2011 – þskj. 1072.

     Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að láta Lagastofnun Háskóla Íslands gera hlutlaust og aðgengilegt kynningarefni um Icesave-samningana fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem verður haldin 9. apríl 2011 og senda það öllum heimilum í landinu samhliða sérprentun laganna, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Kostnaður við kynningu þessa greiðist úr ríkissjóði.

    Með þingsályktuninni var ráðherra falið að láta Lagastofnun Háskóla Íslands gera hlutlaust og aðgengilegt kynningarefni um Icesave-samningana fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var 9. apríl 2011 og senda það öllum heimilum í landinu samhliða sérprentun laganna, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 91/2010 um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.
    Í samræmi við ákvæði þingsályktunarinnar fól innanríkisráðherra Lagastofnun Háskóla Íslands að útbúa kynningarefnið. Var kynningarefnið birt á vefnum thjodaratkvaedi.is auk þess sem bæklingur þar sem efnið var kynnt var sendur öllum heimilum í landinu ásamt sérprentun laganna.

Þál. 21/139 um úttekt á öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar
Herjólfs, 31. mars 2011 – þskj. 1204.

     Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að gera könnun á nauðsyn þess að endurnýja björgunarbúnað Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Ráðherra kynni samgöngunefnd Alþingis niðurstöður könnunarinnar.

    Með þingsályktuninni var ráðherra falið að gera könnun á nauðsyn þess að endurnýja björgunarbúnað Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs og kynna samgöngunefnd Alþingis niðurstöður könnunarinnar. Könnun á öryggisbúnaði Herjólfs fór fram á árinu 2011. Var niðurstaðan sú að sá öryggisbúnaður sem nú er í Herjólfi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til slíkt búnaðar og sé nægilegur á þeim siglingaleiðum sem Herjólfur hefur heimildir til að sigla á. Var Alþingi tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi dags. 12. maí 2011.


Þál. 29/139 um göngubrú yfir Markarfljót, 17. maí 2011 – þskj. 1437.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að smíði göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal.

    Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að hefja undirbúning að smíði göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal. Ekki hefur fengist fjárveiting til verkefnisins.

Þál. 54/139 um eflingu samgangna milli Vestur-Norðurlanda,
16. september 2011 – þskj. 1966.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna vinnuhóp, í samvinnu við Færeyjar og Grænland og með mögulegri þátttöku Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA), til að vinna tillögur til eflingar innviða flug- og sjósamgangna á milli Vestur-Norðurlandanna í þágu aukins samstarfs á sviði ýmiss konar viðskipta og þjónustu auk vöru- og farþegaflutninga á milli landanna. Byggt verði á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram hjá ýmsum stofnunum á svæðinu. Skoðaðar verði sérstaklega í þessu sambandi forsendur fyrir auknum tengslum á sviði þjónustu og viðskipta á milli Vestfjarða og Austur-Grænlands.

    Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að stofna vinnuhóp, í samvinnu við Færeyjar og Grænland og með mögulegri þátttöku Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA), til að vinna tillögur til eflingar innviða flug- og sjósamgangna á milli Vestur-Norðurlandanna í þágu aukins samstarfs á sviði ýmiss konar viðskipta og þjónustu auk vöru- og farþegaflutninga á milli landanna. Umræddur starfshópur hefur ekki verið skipaður en málið er í skoðun í ráðuneytinu.


MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTIÐ

Þál. 22/139 um eflingu skapandi greina, 7. apríl 2011 – þskj. 1279.

    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að koma á formlegum samstarfsvettvangi með aðild fulltrúa allra stjórnmálaflokka, iðnaðarráðuneytis og fulltrúa skapandi greina sem hafi það hlutverk að ræða starfsumhverfi skapandi greina á Íslandi og móta tillögur um hvernig megi styrkja stöðu þeirra í íslensku atvinnulífi. Lagt verði mat á hvernig opinber stuðningur nýtist skapandi greinum, forsendur úthlutunar og eftirlit með ráðstöfun fjárveitinga.
    Sérstaklega verði leitað leiða til að bæta rekstrarskilyrði skapandi greina á Íslandi, fjölga menntaúrræðum og störfum auk þess að ýta undir nýsköpun innan skapandi greina.
    Niðurstöðum verði skilað til Alþingis fyrir 1. október 2011.

    Framkvæmdinni er lokið og var skýrslan Skapandi greinar – sýn til framtíðar kynnt opinberlega 19. október síðastliðinn.

Þál. 56/139 um samvinnu milli ríkissjónvarpsstöðva
vestnorrænu ríkjanna, 16. september 2011 – þskj. 1968.


     Alþingi ályktar að hvetja mennta- og menningarmálaráðherra f.h. Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) til að útvíkka og styrkja samstarf RÚV við KNR (Útvarp Grænlands) og ÚF (Útvarp Færeyja) með því að auka framboð á fréttum og fréttatengdu efni frá Færeyjum og Grænlandi. Ríkisútvarpið geri sjónvarpsútsendingar frá Færeyjum og Grænlandi aðgengilegar í svo miklum mæli sem unnt er. Til lengri tíma litið verði stefnt að samstarfi milli stöðvanna um framleiðslu á efni, svo sem sjónvarpsþáttaröðum.

    Óskað hefur verið eftir upplýsingum frá Ríkisútvarpinu. Framkvæmdin er hafin en henni er ekki lokið.


UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTIÐ


    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á umræddu tímabili.


UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ


Þál. 4/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál)
við EES-samninginn, 16. mars 2011 – þskj. 1053.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011. Hún hefur ekki enn öðlast gildi sökum stjórnskipulegs fyrirvara af hálfu Noregs.


Þál. 5/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 18/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál)
við EES-samninginn, 16. mars 2011 – þskj. 1054.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 16. júní 2011 og öðlaðist gildi 1. ágúst 2011.


Þál. 6/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 16/2009 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við
EES-samninginn, 16. mars 2011, 16. mars 2011 – þskj. 1055.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.


Þál. 7/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 80/2008 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 16. mars 2011 – þskj. 1056.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 80/2008, frá 4. júlí 2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1569/2007 um að koma á fót aðferð til að ákvarða jafngildi reikningsskilastaðla sem útgefendur verðbréfa í þriðja landi beita samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB og 2004/109/EB.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.


Þál. 8/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 16. mars 2011 – þskj. 1057.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008, frá 7. nóvember 2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og niðurfellingu tilskipunar 97/5/EB.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.


Þál. 9/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 32/2010 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi)
við EES-samninginn, 16. mars 2011 – þskj. 1058.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011. Hún hefur ekki enn öðlast gildi sökum stjórnskipulegs fyrirvara af hálfu Noregs.


Þál. 10/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 10/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 16. mars 2011 – þskj. 1059.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010, frá 29. janúar 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/961/EB um notkun útgefenda verðbréfa í þriðju löndum á tilteknum innlendum reikningsskilastöðlum þriðju landa og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikningsskila sinna.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.


Þál. 11/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 37/2010 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur)
við EES-samninginn, 16. mars 2011 – þskj. 1060.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/EB frá 16. september 2009 um breytingu á tilskipunum ráðsins 77/91/EBE, 78/855/EBE og 82/891/EBE og tilskipun 2005/56/EB að því er varðar kröfur um skýrslugjöf og upplýsingar við samruna og skiptingu.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.


Þál. 12/139 um heimild til staðfestingar tveggja ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál)
við EES-samninginn, 16. mars 2011 – þskj. 1061.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn annars vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB frá 19. nóvember 2008, um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi, og hins vegar ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/450/EB frá 8. júní 2009, um ítarlega túlkun á flugstarfseminni sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.

    Í þingsályktuninni fólst heimild til handa íslenskum stjórnvöldum til að samþykkja umræddar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar án stjórnskipulegs fyrirvara, þrátt fyrir að þær kölluðu á lagabreytingar hér á landi. Þær voru teknar af sameiginlegu EES-nefndinni, án stjórnskipulegs fyrirvara af Íslands hálfu, 1. apríl 2011 og öðluðust gildi 2. apríl 2011.


Þál. 13/139 um gerð samninga um gagnkvæma vernd
fjárfestinga, 16. mars 2011 – þskj. 1062.

    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að hefja stefnumótun um gerð samninga við önnur ríki um gagnkvæma vernd fjárfestinga. Verði að því stefnt að fjölga gerð slíkra samninga til þess að efla traust og skapa hagfelld skilyrði fyrir beina erlenda fjárfestingu hér á landi sem og fjárfestingu íslenskra aðila erlendis. Gerð slíkra samninga stuðlar jafnframt að aukinni milliríkjaverslun og veitir fjárfestum aukna vernd. Sérstaklega verði að því stefnt að gera samninga af þessu tagi við þau ríki þar sem Íslendingar hafa mestu viðskiptahagsmunina.

    Í 7. kafla skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, sem lögð var fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi, er gerð grein fyrir stefnumörkun utanríkisráðherra varðandi gerð fjárfestingasamninga við önnur ríki (sjá 761. mál, þskj. 1229, bls. 100–102).

Þál. 16/139 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2009
og nr. 126/2010 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál)
við EES-samninginn, 22. mars 2011 – þskj. 1090.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2009, frá 3. júlí 2009, og nr. 126/2010, frá 10. nóvember 2010, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/118/EB um verndun grunnvatns gegn mengun og spillingu, og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/915/EB um að ákvarða gildi fyrir flokkun í vöktunarkerfi aðildarríkjanna á grundvelli niðurstaðna úr millikvörðun samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB.

    Ákvarðanirnar voru staðfestar af Íslands hálfu 24. maí 2011 og öðluðust gildi 1. júlí 2011.


Þál. 18/139 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 55/2010 og nr. 124/2010 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál)
við EES-samninginn, 22. mars 2011 – þskj. 1091.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2010, frá 30. apríl 2010, og nr. 124/2010, frá 10. nóvember 2010, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB um að koma á grunngerð fyrir landupplýsingar í Evrópubandalaginu (INSPIRE), reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1205/2008 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar lýsigögn og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/442/EB um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar vöktun og skýrslugjöf.

    Ákvarðanirnar voru staðfestar af Íslands hálfu 13. maí 2011 og öðluðust gildi 1. júlí 2011.


Þál. 20/139 um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, 28. mars 2011 – þskj. 1148.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, að höfðu samráði við Alþingi, að fylgja eftirfarandi meginstefnu í málefnum norðurslóða sem miðar að því að tryggja hagsmuni Íslands með tilliti til áhrifa loftslagsbreytinga, umhverfis- og auðlindamála, siglinga og samfélagsþróunar auk þess að efla tengsl og samstarf við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni svæðisins.
    Stefnan um norðurslóðir feli í sér eftirfarandi tólf meginþætti:
     1.      Að efla og styrkja Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samráðsvettvanginn um málefni norðurslóða og vinna að því að alþjóðlegar ákvarðanir um málefni norðurslóða séu teknar þar.
     2.      Að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins hvað varðar áhrif á þróun og alþjóðlegar ákvarðanir um málefni svæðisins á grundvelli lagalegra, efnahagslegra, vistfræðilegra og landfræðilegra raka. Í því efni verði m.a. byggt á þeirri staðreynd að þar sem norðurhluti efnahagslögsögu Íslands er innan norðurskautssvæðisins og nær til Grænlandshafs við Norður-Íshafið á Ísland bæði land og rétt til hafsvæða norðan heimskautsbaugs. Samhliða skal ríkisstjórnin hafa forgöngu um að þróa í samvinnu við viðeigandi stofnanir þau rök sem styðja þetta markmið.
     3.      Að efla skilning á því að norðurslóðir ná bæði yfir norðurskautið og þann hluta af Norður-Atlantshafssvæðinu sem er nátengdur því. Ekki ber að einblína á þrönga landfræðilega skilgreiningu heldur líta á norðurslóðir sem víðtækt svæði í vistfræðilegum, efnahagslegum, pólitískum og öryggistengdum skilningi.
     4.      Að byggja á hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna við úrlausn álitaefna sem upp kunna að koma í tengslum við norðurslóðir. Hafréttarsamningurinn myndar lagalegan ramma um málefni hafsins og hefur m.a. að geyma ákvæði um siglingar, fiskveiðar, nýtingu olíu, gass og annarra auðlinda landgrunnsins, afmörkun hafsvæða, varnir gegn mengun hafsins, hafrannsóknir og lausn deilumála sem gilda um öll hafsvæði, m.a. á norðurslóðum.
     5.      Að styrkja og auka samstarf við Færeyjar og Grænland með það fyrir augum að efla hag og pólitískt vægi landanna þriggja.
     6.      Að styðja réttindi frumbyggja á norðurslóðum í nánu samstarfi við samtök þeirra og styðja beina aðild þeirra að ákvörðunum um málefni svæðisins.
     7.      Að byggja á samningum og stuðla að samstarfi við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni er varða hagsmuni Íslands á norðurslóðum.
     8.      Að vinna með öllum ráðum gegn loftslagsbreytingum af manna völdum og áhrifum þeirra og tryggja þannig bætta velferð íbúa og samfélaga á norðurslóðum. Ísland beiti sér í hvívetna fyrir því að við aukin efnahagsleg umsvif á norðurslóðum verði stuðlað að sjálfbærri nýtingu auðlinda og gætt að ábyrgri umgengni um hin viðkvæmu vistkerfi og verndun lífríkis. Einnig skal stuðlað að varðveislu hinnar sérstöku menningar og lífshátta frumbyggja sem þróast hafa á norðurslóðum.
     9.      Að gæta öryggishagsmuna í víðu samhengi á norðurslóðum á borgaralegum forsendum og vinna gegn hvers konar hervæðingu norðurslóða. Efla ber samstarf Íslands við önnur ríki um viðbúnað til eftirlits, leitar, björgunar og mengunarvarna á norðurslóðum.
     10.      Að byggja upp viðskiptasamstarf ríkja á norðurslóðum og búa þannig í haginn að Íslendingar geti keppt um þau atvinnutækifæri sem verða til í kjölfar aukinna efnahagsumsvifa á norðurslóðum.
     11.      Að auka þekkingu Íslendinga á málefnum norðurslóða og að kynna Ísland erlendis sem vettvang fyrir fundi, ráðstefnur og umræður um norðurslóðir. Vinna ber að því að efla og styrkja miðstöðvar, rannsóknarsetur og menntastofnanir um norðurslóðir á Íslandi í samstarfi við önnur ríki og alþjóðastofnanir.
     12.      Að auka innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða til að tryggja aukna þekkingu á vægi norðurslóða, lýðræðislega umræðu og samstöðu um framkvæmd norðurslóðastefnu stjórnvalda.
    Alþingi felur utanríkisráðherra framkvæmd og þróun stefnunnar í samstarfi við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, sem og sérfræðistofnanir og samtök um málefni Norðurslóða, og jafnframt að hafa samráð við utanríkismálanefnd og umhverfisnefnd Alþingis um útfærslu stefnunnar eftir því sem aðstæður krefjast.

    Í 2. kafla skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, sem lögð var fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi, er fjallað um framkvæmd norðurslóðastefnunnar (sjá 761. mál, þskj. 1229, bls. 12–16).


Þál. 25/139 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Albaníu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Albaníu, 17. maí 2011 – þskj. 1433.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd annars vegar fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Albaníu sem undirritaður var 17. desember 2009 í Genf og hins vegar landbúnaðarsamning milli Íslands og Lýðveldisins Albaníu sem undirritaður var sama dag.

    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 29. júní 2011 og öðluðust þeir gildi að því er Ísland varðar 1. október sama ár.


Þál. 26/139 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Perús og landbúnaðarsamnings milli Íslands
og Lýðveldisins Perús, 17. maí 2011 – þskj. 1434.

     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd annars vegar fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Perús sem undirritaður var af ráðherrum EFTA-ríkjanna 24. júní 2010 í Reykjavík og af Perú í Líma 14. júlí 2010 og hins vegar landbúnaðarsamning milli Íslands og Lýðveldisins Perús sem undirritaður var í Reykjavík og Líma sömu daga.

    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 29. júní 2011 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. október sama ár.


Þál. 27/139 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Serbíu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Serbíu, 17. maí 2011 – þskj. 1435.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd annars vegar fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Serbíu sem undirritaður var 17. desember 2009 í Genf og hins vegar landbúnaðarsamning milli Íslands og Lýðveldisins Serbíu sem undirritaður var sama dag.

    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 29. júní 2011 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. október sama ár.


Þál. 28/139 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Úkraínu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Úkraínu,
17. maí 2011, þskj. 1436.

     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd annars vegar fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Úkraínu sem undirritaður var 24. júní 2010 í Reykjavík og hins vegar landbúnaðarsamning milli Íslands og Úkraínu sem undirritaður var sama dag.

    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 29. júní 2011 og öðluðust gildi 1. júní 2012.


Þál. 31/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta)
við EES-samninginn, 27. maí 2011 – þskj. 1568.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2010, frá 1. október 2010, um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/767/EB frá 16. október 2009 um ráðstafanir sem greiða fyrir notkun rafrænnar málsmeðferðar með upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB um þjónustu á innri markaðnum.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 16. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.


Þál. 32/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 86/2009 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd)
við EES-samninginn, 27. maí 2011 – þskj. 1569.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2009, frá 3. júlí 2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB frá 14. janúar 2009 um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 16. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.


Þál. 36/139 um staðfestingu samnings milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur, 10. júní 2011 – þskj. 1722.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur sem gerður var í Reykjavík 3. nóvember 2008.

    Samningurinn var staðfestur af Íslands hálfu 29. júní 2011 og öðlaðist gildi 3. október 2011.


Þál. 37/139 um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska
síldarstofninum á árinu 2011, 10. júní 2011 – þskj. 1723.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtalda samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2011 sem gerðir voru í London 21. október 2010:
     1.      Sameiginlega bókun um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórnun veiða úr norsk- íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2011.
     2.      Samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Noregs norðan 62°N, fiskveiðilögsögu Jan Mayen og efnahagslögsögu Íslands á árinu 2011.
     3.      Samkomulag milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2011.

    Samningarnir, sem einungis voru til eins árs, voru staðfestir af Íslands hálfu 29. júní 2011. Þeim var beitt til bráðabirgða frá 1. janúar 2011.


Þál. 38/139 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar
innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2011, 10. júní 2011 – þskj. 1724.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2011 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 18. og 22. febrúar 2011.

    Samningurinn, sem einungis var til eins árs, var staðfestur af Íslands hálfu 29. júní 2011. Honum var beitt til bráðabirgða frá 22. febrúar 2011.


Þál. 39/139 um heimild til staðfestingar ákvörðunar sameiginlegu
EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi)
við EES-samninginn, 10. júní 2011 – þskj. 1725.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og niðurfellingu tilskipunar ráðsins 91/670/EBE, reglugerðar (EB) nr. 1592/2002 og tilskipunar 2004/36/EB.

    Í þingsályktuninni fólst heimild til handa íslenskum stjórnvöldum til að samþykkja umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar án stjórnskipulegs fyrirvara, þrátt fyrir að hún kallaði á lagabreytingar hér á landi. Ákvörðunin var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni 19. desember 2011, án stjórnskipulegs fyrirvara af Íslands hálfu. Hún hefur hins vegar ekki enn öðlast gildi vegna stjórnskipulegs fyrirvara af Noregs hálfu.


Þál. 40/139 um fullgildingu Singapúr-samnings um
vörumerkjarétt, 10. júní 2011 – þskj. 1731.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Singapúr-samning um vörumerkjarétt sem var gerður 27. mars 2006.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 5. september 2012 og öðlast gildi hvað Ísland varðar 14. desember 2012.


Þál. 41/139 um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu
Íslands 2011–2014, 10. júní 2011 – þskj. 1732.

     Alþingi ályktar, sbr. lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, að á árunum 2011-2014 skuli unnið að þróunarsamvinnu Íslands í samræmi við eftirfarandi áætlun.
    Markmið Íslands með alþjóðlegri þróunarsamvinnu sé að leggja lóð sitt á vogarskálar í baráttunni gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heimsins. Með virkri þátttöku á þessu sviði leitist Ísland við að uppfylla pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. Alþjóðleg þróunarsamvinna sé ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu.
    Barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum sé forgangsmál í öllu þróunarstarfi og verði áfram þungamiðjan í stefnu Íslands í þessum efnum. Jafnframt verði lögð mikil áhersla á mannréttindi, jafnrétti kynjanna, réttindi barna, frið og öryggi. Leitast verði við að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkisstefnu Íslands með tilliti til hnattrænna efnahags-, umhverfis- og öryggismála.
    Íslensk þróunarsamvinna endurspegli þau gildi sem íslenskt samfélag stendur fyrir, virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum, fjölbreytni mannlífs, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu. Í ljósi þessa verði lögð áhersla á:
     a.      Ábyrgð – að ráðvendni og gagnsæi verði höfð að leiðarljósi í þróunarstarfi og ábyrgð á framkvæmd og árangri starfsins deilt með samstarfsaðilum.
     b.      Árangur – að allir þættir þróunarstarfsins, stjórnun, verklag og aðferðafræði verkefna, stuðli að því að árangur þróunarsamvinnu verði sem mestur.
     c.      Áreiðanleika – að landi og þjóð verði aflað virðingar á alþjóðavettvangi með því að vera faglegur og traustur samstarfsaðili í þróunarstarfi.
    Markmið Íslands í þróunarsamvinnu verði að styðja áætlanir um útrýmingu fátæktar á grunni sjálfbærrar þróunar og uppbyggingar á mannauði. Sérstök áhersla verði lögð á mannréttindi, jafnrétti, frið, öryggi og verkefni þar sem íslensk sérþekking og reynsla nýtist.

    Framlög.
    Íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu. Mörkuð verði sú stefna að Ísland muni á næstu tíu árum skipa sér í hóp þeirra ríkja sem leggja meira en sem nemur 0,7% af VÞT til þróunarsamvinnu. Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:
     a.      Fylgt verði tímasettri áætlun um hækkun framlaga á gildistíma þessarar áætlunar, úr 0,21% í 0,28% af VÞT á tímabilinu 2011–2014, sbr. eftirgreinda töflu.
     b.      Hraðað verði hækkun framlaga við endurskoðun áætlunarinnar árið 2013.
     c.      Verði hagvöxtur meiri en nú er spáð komi framlögin til endurskoðunar en jafnframt tryggt að framlög til þróunarmála verði aldrei lægri að raungildi en árið 2011.
     d.      Árið 2017 renni 0,5% af VÞT til þróunarmála og árið 2019 renni 0,7% af VÞT til þróunarmála.
     e.      Sérstakir fjárlagaliðir fyrir samstarf við félagasamtök, Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ), Alþjóðabankann og umhverfis- og loftslagsmál verði í fjárlögum 2012.
    Áætlað er að þróun framlaga á gildistíma áætlunarinnar verði sem hér segir:

VÞT*(m.kr.) Hlutfall af VÞT (%) Framlög (m.kr.)
2011 1.342.565 0,21 2.765
2012 1.468.071 0,21 3.083
2013 1.538.568 0,25 3.846
2014 1.657.441 0,28 4.640
Samkvæmt Hagstofu Íslands.

    Fylgt verði eftirfarandi áætlun um skiptingu framlaga eftir fjárlagaliðum:

2011     2012 2013 2014
(m.kr.) (%) (m.kr.) (%) (m.kr.) (%) (m.kr.) (%)
Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) 1.166,3 42 1.234,0 40 1.539,0 40 1.856,0 40
Utanríkisráðuneytið 1.599,0 58 1.670,0 54 2.038,0 53 2.413,0 52
Þar af:
Jarðhitaskóli HSÞ 187,7 7 199,0 6
Matvæla- og landbúnaðarst. SÞ, FAO 11,0 0 11,0 0
Þróunaráætlun SÞ, UNDP 22,1 1 23,0 1
Barnahjálp SÞ, UNICEF 112,4 4 122,0 4
Sjávarútvegsskóli HSÞ 147,3 5 158,0 5
UNIFEM/UN Women 102,0 4 117,0 4
Mannúðarmál og neyðaraðstoð 221,4 8 173,0 6
Íslensk friðargæsla 115,8 4 144,0 5
Þróunarmál og hjálparstarfsemi 353,3 13 169,0 5
Átak í lækkun skulda þróunarríkja 20,0 1 - -
Alþjóðabankinn - - 138,0 4
Landgræðsluskóli HSÞ - - 68,0 2
Umhverfis- og loftslagsmál - - 60,0 2
SÞ (alm. framl., alþj. friðarg., ILO, WHO) 56,0 2 56,0 2
Stofnfjárframlög (IDA, NDF) 250,0 9 230,0 7
Samstarf við frjáls félagasamtök - - 179,0 6 269,0 7 371,0 8
SAMTALS 2.765,3 100 3.083,0 100 3.846,0 100 4.640,0 100
Hlutfall af VÞT 0,21% 0,21% 0,25% 0,28%

    Framkvæmd.
    Í þróunarstarfi Íslands verði áhersla lögð á að skerpa sýn og fylgja skýrari forgangsröðun á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:

     I. Áherslusvið, málaflokkar og þverlæg málefni.
             1. Fiskimál:
                  a.      Virk þátttaka verði í stefnumótun alþjóðastofnana á sviði fiskimála.
                  b.      Áhersla verði lögð á störf FAO og Alþjóðabankans.
                  c.      Þróunarsamvinnustofnun Íslands leggi sérstaka áherslu á fiskimál í Mósambík og Úganda.
                  d.      Stofnað verði fagteymi utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í auðlindamálum.
                  e.      Öflugt starf verði á vegum Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Starfsemi skólans verði liður í heildarstefnu Íslands í málaflokknum.
    
             2. Orkumál:
                  a.      Virk þátttaka verði í stefnumótun alþjóðastofnana á sviði orkumála.
                  b.      Stuðlað verði að aukinni fjárfestingu ríkja og þróunarstofnana í jarðhitaverkefnum til hagsbóta fyrir þróunarríki.
                  c.      Áhersla verði lögð á störf Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans, Norræna þróunarsjóðsins og IRENA.
                  d.      Þróunarsamvinnustofnun Íslands starfi að orkumálum í tvíhliða og svæðisbundnu samstarfi.
                  e.      Öflugt starf verði á vegum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Starfsemi skólans verði liður í heildarstefnu Íslands í málaflokknum.

             3. Menntun:
                  a.      Sérstök áhersla verði á menntun og fullorðinsfræðslu í öllum samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
                  b.      Samstarf verði við félagasamtök í menntamálum.
                  c.      Starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á sviði fiskimála, orkumála og landgræðslu verði liður í áherslu á menntun.
                  d.      Stuðningur verði við UN Women og UNICEF sem lykilstofnanir sem stuðla að menntun stúlkna og kvenna.

             4. Heilbrigðismál:
                  a.      Þróunarsamvinnustofnun Íslands leggi áherslu á heilbrigðismál og hollustuhætti í Malaví og Úganda, sérstaklega mæðra- og ungbarnaheilsu.
                  b.      Samstarf verði við félagasamtök í heilbrigðismálum.
                  c.      Samstarf verði við UN Women sem stuðlar að bættri heilsu stúlkna og kvenna.
                  d.      Þátttaka verði í samstarfi Norðurlanda um mikilvægi kyn- og frjósemisheilbrigðis og -réttinda.
                  e.      Stuðningur verði við UNICEF með áherslu á heilsufar barna.

             5. Stjórnarfar:
                  a.      Stuðningur verði við verkefni UN Women á Balkanskaga, í Afganistan og Palestínu.
                  b.      Framfylgt verði aðgerðaáætlun um konur, frið og öryggi.
                  c.      Nám sérfræðinga frá stríðshrjáðum ríkjum verði við jafnréttisskólann.
                  d.      Stuðningur verði við mannúðarstörf alþjóðaráðs Rauða krossins.

             6. Endurreisn:
                  a.      Framlag verði til samhæfingar endurreisnarstarfs í Afganistan.
                  b.      Stuðningur verði við palestínska flóttamenn með framlagi til Sameinuðu þjóðanna (UNRWA/ UNHCR).
                  c.      Stuðningur verði við samhæfingu mannúðaraðstoðar í Palestínu í samstarfi við OCHA.
                  d.      Stuðningur verði við verkefni UN Women og UNICEF.

             7. Jafnréttismál:
                  a.      Stofnað verði fagteymi utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um jafnréttismál.
                  b.      Mótuð verði jafnréttisstefna í þróunarsamvinnu byggð á endurskoðun á stefnu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Lokið: Janúar 2012.
                  c.      Endurskoðun fari fram á aðgerðaáætlun um konur, frið og öryggi. Lokið: Mars 2011.
                  d.      Stuðningur verði við tilraunaverkefni um jafnréttisskóla.
                  e.      Í úttektum á þróunarverkefnum verði lagt sérstakt mat á samþættingu jafnréttissjónarmiða.
                  f.      Jöfn staða kynjanna verði meðal starfsmanna í þróunarsamvinnu.
                  g.      Unnið verði markvisst að jafnréttismálum og framgangi ályktana öryggisráðsins um konur, frið og öryggi á vettvangi alþjóðastofnana.

             8. Umhverfismál:
                  a.      Mótuð verði umhverfisstefna í þróunarsamvinnu. Lokið: Apríl 2012.
                  b.      Sérstaklega verði fjallað um sjálfbærni í umhverfismálum við undirbúning og framkvæmd þróunarverkefna.
                  c.      Virk þátttaka verði í störfum alþjóðastofnana á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.
                  d.      Öflug starfsemi verði á vegum Jarðhitaskóla og Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
                  e.      Framlag verði til alþjóðlegs loftslagssjóðs á vegum Sameinuðu þjóðanna.
                  f.      Stuðningur verði við smá eyþróunarríki vegna loftslagsmála.

    II. Neyðar- og mannúðaraðstoð.
             1. Stefnumótun og stuðningur við félagasamtök:
                  a.      Sérstakur fjárlagaliður verði um samstarf við félagasamtök í fjárlögum frá 2012.
                  b.      Fylgt verði núverandi verklagsreglum um umsóknir og styrkveitingar.
                  c.      Endurskoðun verði á verklagsreglum. Lokið: Ágúst 2012.
                  d.      Ísland gerist aðili að alþjóðlegu átaki um mannúðaraðstoð innan tveggja ára.
                  e.      Unnið verði skipulega samkvæmt verklagi og viðmiðum átaksins frá árinu 2012.

             2. Stuðningur við skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA):
                  a.      Regluleg framlög verði til OCHA. Sérstök framlög verði skapist ófyrirséð þörf.
                  b.      Skammtímastörf sérfræðinga á vegum utanríkisráðuneytisins verði fyrir OCHA á vettvangi.
                  c.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um neyðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna.

             3. Stuðningur við Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF):
                  a.      Regluleg framlög verði til CERF.
                  b.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um neyðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna.

             4. Stuðningur við matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (CERF):
                  a.      Framlög verði til neyðaraðstoðar WFP þar sem þörf skapast.
                  b.      Skammtímastörf sérfræðinga á vegum utanríkisráðuneytisins verði fyrir WFP á vettvangi.
                  c.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um WFP.

    III. Lönd og landsvæði.
             1. Afganistan:
                  a.      Gerð verði aðgerðaáætlun fyrir 2012–2014. Lokið: Nóvember 2011.
                  b.      Íslendingar taki þátt í norrænu samstarfi sem byggist m.a. á samnorrænni úttekt frá 2009.
                  c.      Stuðlað verði að betri samhæfingu aðstoðar alþjóðasamfélagsins.
                  d.      Unnið verði að málefnum kvenna.
                  e.      Neyðar- og mannúðaraðstoð verði á vegum alþjóðastofnana og félagasamtaka.

             2. Malaví:
                  a.      Gerð verði samstarfsáætlun fyrir 2012–2014. Lokið: Október 2011.
                  b.      Mannauður: Áhersla verði lögð á menntun, heilbrigðismál og hollustuhætti.

             3. Mósambík:
                  a.      Gerð verði samstarfsáætlun fyrir 2012–2014. Lokið: Október 2011.
                  b.      Auðlindir og mannauður: Áhersla verði lögð á fiskimál og menntun.

             4. Palestína:
                  a.      Gerð verði aðgerðaáætlun fyrir 2012–2014. Lokið: Nóvember 2011.
                  b.      Neyðar- og mannúðaraðstoð verði á vegum alþjóðastofnana og félagasamtaka.
                  c.      Aðstoð verði við flóttamenn.
                  d.      Aðstoð verði við konur og börn.

             5. Úganda:
                  a.      Gerð verði samstarfsáætlun fyrir 2012–2014. Lokið: Október 2011.
                  b.      Auðlindir og mannauður: Áhersla verði lögð á fiskimál, menntun og byggðaþróun.

    IV. Stofnanir.
             1. Alþjóðabankinn:
                  a.      Framlag Íslands verði vegna 16. samningalotu um endurfjármögnun IDA, 2011.
                  b.      Átaksverkefni í jafnréttismálum (GAP). Mat verði lagt á hugsanlegt áframhald á samstarfi. Lokið: Október 2011.
                  c.      Verkefni á sviði fiskimála (PROFISH). Mat verði lagt á hugsanlegt áframhald á samstarfi. Lokið: Júní 2011.
                  d.      Verkefni í orkumálum (ESMAP). Mat verði lagt á hugsanlegt áframhald á samstarfi. Lokið: Október 2012.
                  e.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í stjórn bankans.
                  f.      Þátttaka verði í samstarfsverkefni kjördæmisins á sviði mannréttindamála.

             2. UNICEF:
                  a.      Störf íslenskra sérfræðinga verði á vettvangi.
                  b.      Fylgt verði samstarfssamningi um skammtímastörf sérfræðinga vegna neyðarverkefna.
                  c.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um UNICEF.
                  d.      Störf ungra íslenskra sérfræðinga verði fyrir UNICEF á vettvangi.
                  e.      Samstarf verði við UNICEF á Íslandi.

             3. UN Women:
                  a.      Störf íslenskra sérfræðinga verði á vettvangi.
                  b.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu um jafnréttismál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
                  c.      Störf ungra íslenskra sérfræðinga verði fyrir UN Women.
                  d.      Stuðningur verði við styrktarsjóð á vegum UN Women til afnáms ofbeldis gegn konum.
                  e.      Samstarf verði við landsnefnd UNIFEM/UN Women á Íslandi.
                  f.      Þátttaka verði í samstarfi Norðurlanda um UN Women.

             4. Háskóli Sameinuðu þjóðanna:
                  a.      Virk starfsemi Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og námskeiðahald á hans vegum í þróunarlöndum.
                  b.      Virk starfsemi Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og námskeiðahald á hans vegum í þróunarlöndum.
                  c.      Virk starfsemi Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og námskeiðahald á hans vegum í þróunarlöndum.
                  d.      Stuðningur verði við tilraunaverkefni um jafnréttisskóla.
                  e.      Unnið verði að undirbúningi að framtíðarfyrirkomulagi starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á tímabilinu.

    Alþjóðlegt samstarf og viðmið.
    Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegar samþykktir um þróunarsamvinnu sem íslensk stjórnvöld eru aðili að verði nú sem fyrr leiðarljós þróunarsamvinnu Íslands. Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:

             1. Sameinuðu þjóðirnar:
                  a.      Sérstök áhersla verði lögð á samstarf við undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna sem sinna áherslumálum Íslands.
                  b.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu gagnvart Sameinuðu þjóðunum á vegum utanríkisráðuneytisins og fastanefnda.
                  c.      Virkt samstarf verði við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

             2. OECD-samstarf:
                  a.      Ísland verði aðili að DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD, á framkvæmdatímabili áætlunarinnar.
                  b.      Umbætur verði gerðar í fyrirkomulagi rekstrar og bókhalds vegna þróunarframlaga. Lokið: Desember 2011.
                  c.      Jafningjarýni á þróunarsamvinnu Íslands fari fram fyrir endurskoðun áætlunarinnar.

             3. Parísaryfirlýsingin, Accra-aðgerðaáætlunin:
                  a.      Mótuð verði tímasett markmið í þróunarsamvinnu Íslands með tilliti til Parísaryfirlýsingarinnar og Accra-aðgerðaáætlunarinnar. Lokið: Febrúar 2012.
                  b.      Virk þátttaka verði í starfi DAC um framgang Parísaryfirlýsingarinnar.

    Stefnumörkun, innra og ytra starf.
    Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:

             1. Stefnumörkun og eftirlit:
                  a.      Endurskoðuð áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands verði lögð fyrir Alþingi árið 2013.
                  b.      Utanríkisráðherra gefi skýrslu til Alþingis um framkvæmd áætlunarinnar á árinu 2013.
                  c.      Regluleg skýrslugjöf verði til utanríkismálanefndar og fjárlaganefndar.

             2. Samspil tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu:
                      Stofnuð verði fagteymi utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á eftirfarandi sviðum til eflingar tvíhliða og marghliða samvinnu: i) jafnréttismál; ii) auðlindamál; iii) verklag og eftirlit.

             3. Mannauðsstjórn:
                  a.      Mótuð verði sameiginleg mannauðsstefna utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands vegna starfa að þróunarmálum. Lokið: Nóvember 2011.
                  b.      Haldnir verði sameiginlegir málfundir og námskeið á vegum utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
                  c.      Komið verði á starfsmannaskiptum við alþjóðastofnanir og þróunarstofnanir annarra ríkja.
                  d.      Hlutur kvenna og karla verði jafnaður samkvæmt jafnréttisstefnu í þróunarsamvinnu.

             4. Samstarf við frjáls félagasamtök:
                  a.      Hlutfall framlaga sem renna til samstarfs við félagasamtök verði hækkað á tímabilinu.
                  b.      Fylgt verði sameiginlegum verklagsreglum og eitt umsóknarferli verði fyrir allt samstarf stjórnvalda og félagasamtaka.
                  c.      Stjórnvöld viðhaldi góðum samskiptum við samstarfshóp félagasamtaka.
                  d.      Félagasamtök sæti úttektum og öðrum eftirlitsaðgerðum sem fylgt er í þróunarstarfi.

             5. Samstarf við háskólasamfélagið:
                      Mótaðar verði áherslur um samstarf stjórnvalda og háskólasamfélagsins á sviði þróunarsamvinnu. Lokið: Maí 2012.

             6. Kynning og umfjöllun:
                  a.      Fylgt verði árlegri sameiginlegri kynningaráætlun utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
                  b.      Ráðstefnur og málþing verði skipulögð í samráði við félagasamtök og háskólasamfélagið.

             7. Þátttaka einkaaðila í þróunarsamvinnu:
                      Unnin verði greining á möguleikum íslenskra aðila til þátttöku í uppbyggingu atvinnuvega í þróunarlöndum. Lokið: Júní 2012.

    Frá samþykkt þingsályktunartillögunnar hefur framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands byggst á áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011–2014. Í áætluninni er fjallað um skyldur Íslands í alþjóðlegu þróunarstarfi, sett eru fram markmið um aukningu framlaga til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu auk þess sem settar eru fram áherslur Íslands, þ.m.t. á ákveðna málaflokka, alþjóðastofnanir og samstarfslönd. Þá er fjallað um alþjóðlegt samstarf og viðmið í þróunarstarfi Íslands og lögð er rík áhersla á árangur og skilvirkni þróunarstarfs. Jafnframt er fjallað um innra og ytra starf, samþættingu þróunarstarfs Íslands og eflingu samstarfs við félagasamtök auk þess sem hlutverk Alþingis við eftirlit og stefnumótun er áréttað. Fyrir hvern lið áætlunarinnar eru sett fram markmið auk áætlunar um aðgerðir til að stuðla að framgangi þeirra. Stærstur hluti fyrirhugaðra aðgerða hefur komið til framkvæmda. Í samræmi við lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands nr. 121/2008 mun ráðherra á vorþingi 2013 gefa Alþingi skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar ásamt því að leggja fram tillögu til endurskoðaðrar áætlunar um þróunarsamvinnu Íslands sem taka mun til áranna 2013–2016.


Þál. 45/139 um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir
Ísland, 16. september 2011 – þskj. 1945.

    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd tíu þingmanna til að vinna tillögur að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Nefndin verði skipuð tveimur þingmönnum tilnefndum frá þingflokkum sérhvers eftirtalinna stjórnmálaflokka: Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokks, auk eins tilnefnds af Hreyfingunni. Ráðherra skipi formann án tilnefningar.
    Hlutverk nefndarinnar verði að fjalla um og gera tillögur um stefnu sem tryggi þjóðaröryggi Íslands á grundvelli her- og vopnleysis. Við mótun stefnunnar taki nefndin mið af áhættumatsskýrslu fyrir Ísland frá árinu 2009, stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, m.a. um bann við kjarnorkuvopnum, samþykktum Alþingis um stefnu Íslands í afvopnunarmálum og frumvarpi til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja (sbr. 18. mál 139. þings). Nefndin skilgreini meginforsendur stefnunnar og setji fram tillögur um markmið og leiðir til að ná þeim.
    Nefnd þingmanna um mótun þjóðaröryggisstefnu skili tillögu til utanríkisráðherra svo fljótt sem verða má og eigi síðar en í júní 2012. Ráðherra leggi að því búnu tillögu að þjóðaröryggisstefnu Íslands fyrir Alþingi.

    Nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland hóf störf í upphafi árs 2012 og miðar hún tillöguskil sín við 1. nóvember 2012. Að fengnum tillögum nefndarinnar mun utanríkisráðherra leggja fram á Alþingi tillögu að þjóðaröryggisstefnu.


Þál. 46/139 um fullgildingu Árósasamnings um aðgang að upplýsingum,
þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri
málsmeðferð í umhverfismálum, 16. september 2011 – þskj. 1951.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum sem gerður var í Árósum 25. júní 1998.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 7. október 2011 og öðlaðist gildi hvað Ísland varðar 18. janúar 2012.


Þál. 47/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 56/2008 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfisvernd)
við EES-samninginn, 16. september 2011 – þskj. 1959.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2008, frá 25. apríl 2008, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 916/2007 frá 31. júlí 2007 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2216/2004 um staðlað og varið skráakerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. nóvember 2011 og öðlaðist gildi 1. janúar 2012.


Þál. 48/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr.
50/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn, 16. september 2011 – þskj. 1960.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010, frá 30. apríl 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. nóvember 2011 og öðlaðist gildi 1. janúar 2012.


Þál. 49/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við
EES-samninginn, 16. september 2011 – þskj. 1961.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009, frá 4. desember 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. nóvember 2011 og öðlaðist gildi 1. janúar 2012.


Þál. 50/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 35/2010 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd)
við EES-samninginn, 16. september 2011 – þskj. 1962.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB frá 23. apríl 2009 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. nóvember 2011 og öðlaðist gildi 1. janúar 2012.


Þál. 51/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 85/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta)
við EES-samninginn, 16. september 2011 – þskj. 2011.

     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010, frá 2. júlí 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009 um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2007/64/EB að því er varðar banka sem tengjast miðlægum stofnunum, tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættuskuldbindingar, fyrirkomulag eftirlits og krísustjórnun.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. nóvember 2011 og öðlaðist gildi 1. janúar 2012.


Þál. 52/139 um athugun á fyrirkomulagi fraktflutninga við
austurströnd Grænlands, 16. september 2011 – þskj. 1964.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna vilja grænlensku landsstjórnarinnar til að láta meta hagkvæmni þess að breyta fyrirkomulagi vöruflutninga við austurströnd Grænlands í ljósi þeirra takmarkana sem núverandi sérleyfisfyrirkomulag hefur í för með sér fyrir byggðir þar.

    Í tengslum við heimsókn Kuupik Kleist, formanns grænlensku landstjórnarinnar, í september 2011, óskaði utanríkisráðuneytið eftir að ræða fyrirkomulag fraktflutninga við austurströnd Grænlands. Í aðdraganda þess fundar töldu grænlensk stjórnvöld ekki tímabært að taka það til umræðu þar sem málið væri til skoðunar hjá samgöngunefnd grænlenska þingsins. Í sama mánuði kom út ítarleg úttekt á vegum innviða- og samgönguráðuneytis Grænlands (d. Undersøgelse af mulighederne for alternativ godsforsyning af Østgrønland). Í úttektinni er í meginatriðum lagst gegn því að miklar breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi fraktflutninga við austanvert Grænland. Málið hefur því lítið hreyfst en verður tekið upp á næsta tvíhliða fundi Íslands og Grænlands.


Frv. til l. um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum
og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja vísað
til ríkisstjórnarinnar, 29. ágúst 2011 – þskj. 1826.


    Hinn 16. september 2011 samþykkti Alþingi þingsályktun um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland (þskj. 1945, þál. 45/139). Á grundvelli þingsályktunarinnar var skipuð tíu manna nefnd sem vinnur nú að tillögum um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Við mótun stefnunnar er nefndinni m.a. ætlað að taka mið af frumvarpi til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Er efni frumvarpsins því til umræðu í nefndinni.


VELFERÐARRÁÐUNEYTIÐ


Þál. 30/139 um áætlun í jafnréttismálum til
fjögurra ára, 19. maí 2011 – þskj. 1480.

    Alþingi ályktar skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, að samþykkja eftirfarandi áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2011–2014:

    A. Stjórnsýslan.
    1. Ráðherranefnd um jafnrétti kynja.
    Ráðherranefnd um jafnrétti kynja starfi í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 15. september 2009 í því skyni að samþætta kynja- og jafnréttismál inn í stefnumörkun og aðgerðir ríkisstjórnarinnar, samhæfa starf hennar og fylgja eftir framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.
    Tímaáætlun: Viðvarandi.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneytanna.
    Ábyrgð: Forsætisráðherra, velferðarráðherra, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra.

    2. Framkvæmdasjóður jafnréttismála.
    Varið verði 30 millj. kr. samtals af fjárlögum tímabundið til þriggja ára, 2012–2014, 10 millj. kr. árlega, til jafnréttisverkefna á vegum ráðuneyta til að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu eða innleiða tillögur sem telja má til afraksturs af verkefnum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ráðherranefnd um jafnrétti kynja úthlutar þessu fé. Viðmið við úthlutun verði kynnt ráðuneytum fyrir árslok 2011.
    Tímaáætlun: 2012–2014.
    Kostnaðaráætlun: 30 millj. kr.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti, velferðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

    3. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna móti í samstarfi við Jafnréttisstofu heildstæða áætlun til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og opinberra stofnana. Í henni felist m.a.:
     1.      Stofnun stýrihóps með þátttöku æðstu stjórnenda í ráðuneytum.
     2.      Sérstakir fundir ráðherra, æðstu embættismanna og sérfræðinga á sviði jafnréttismála um stefnu, áherslur og aðferðir á sviði jafnréttismála.
     3.      Fræðsla fyrir starfsfólk ráðuneyta og stofnana um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.
     4.      Árlegar tillögur um a.m.k. tvö verkefni á málefnasviði hvers ráðuneytis sem tilraunaverkefni og skal þeim lokið í lok hvers árs.
     5.      Mælitölur eða lykiltölur á öllum helstu sviðum í starfsemi ráðuneyta og stofnana verði greindar til að jafnan séu fyrir hendi upplýsingar greindar eftir kynjum til stuðnings stefnumörkun og ákvörðunum. Greint verði á hvaða sviðum reglulegri upplýsingaöflun er ábótavant og úrbætur gerðar.
    Tímaáætlun: 2011-2014.
    Kostnaðaráætlun: 2,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti og velferðarráðuneyti.

    4. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna vinni að kynjasamþættingu á málefnasviði hlutaðeigandi ráðuneytis. Enn fremur fjalli jafnréttisfulltrúar um jafnréttisstarf og hafi eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess. Þar á meðal komi þeir að gerð og endurskoðun jafnréttisáætlana ráðuneyta og gæti þess að allar skýrslur og rannsóknir sem gerðar eru á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis eða stofnana þess séu kyngreindar.
    Jafnréttisfulltrúar afli sér þekkingar á sviði jafnréttismála og starfi eftir samþykktri starfs- og fræðsluáætlun. Við framkvæmd fræðsluáætlunar verði höfð samvinna við námsbraut í kynjafræðum við Háskóla Íslands. Sérfræðingur Stjórnarráðsins í jafnrétti kynja og Jafnréttisstofa gegni ráðgjafarhlutverki fyrir jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 700.000 kr. vegna fræðslu fyrir jafnréttisfulltrúa.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

    5. Kynjuð fjárlagagerð.
    Kynjuð fjárlagagerð verði innleidd í áföngum á árunum 2011–2014. Í því skyni verði efnt til tilraunaverkefna í ráðuneytum og stofnunum sem hafi að markmiði að þróa verkferla og aðferðir við undirbúning kynjaðra fjárlaga. Útgáfu handbókar um kynjaða fjárlagagerð verði fylgt eftir með markvissri fræðslu. Verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð mun stýra verkefninu.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 5,2 millj. kr.
    Ábyrgð: Fjármálaráðuneyti.

    6. Siðareglur.
    Siðareglum fyrir ráðherra og ríkisstarfsmenn, þar sem m.a. er gert ráð fyrir ákvæðum um bann við kaupum á kynlífsþjónustu, verði fylgt eftir með kynningu og fræðslu fyrir starfsfólk ráðuneyta og stofnana.
    Tímaáætlun: Viðvarandi.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

    7. Hlutur kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum stjórnvalda.
    Ráðuneytin fylgi lögbundnu 40:60 viðmiði við skipun í nefndir, ráð og stjórnir og viðhaldi því, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnréttisstofa og ráðuneytin birti upplýsingar um hlut kynjanna a.m.k. árlega á vef stofunnar og allra ráðuneyta, sundurgreindar eftir ráðuneytum.
    Tímaáætlun: Viðvarandi.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneytanna.
    Ábyrgð: Öll ráðuneyti.

    8. Jafnréttisáætlanir Stjórnarráðsins, ráðuneyta og stofnana.
    Ný jafnréttisáætlun fyrir Stjórnarráðið verði samþykkt og jafnréttisáætlanir einstakra ráðuneyta endurskoðaðar með hliðsjón af henni í samráði við Jafnréttisstofu. Átak verði gert í því að tryggja að allar stofnanir ríkisins starfi eftir jafnréttisáætlunum með sundurliðuðum markmiðum og aðgerðum í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Tímaáætlun: Árslok 2011.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneyta.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

    9. Jafnréttissjóður.
    Rannsóknir og verkefni sem unnin hafa verið með styrk úr Jafnréttissjóði verði gerð aðgengileg á vefsvæði Stjórnarráðsins í þeim tilgangi að þau nýtist sem best til aðgerða í þágu jafnréttis kynjanna. Úthlutanir úr Jafnréttissjóði hefjist að nýju á árinu 2012. Fagráð skipað m.a. sérfræðingum á sviði kynjafræða leggi faglegt mat á umsóknir.
    Tímaáætlun: 2012–2014.
    Kostnaðaráætlun: 10 millj. kr. á ári.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.

10. Kynjagreining upplýsinga.
    Tryggt verði að farið sé eftir 16. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við opinbera hagskýrslugerð og í viðtals- og skoðanakönnunum með því að upplýsingar verði greindar eftir kyni, þar sem það á við. Upplýsingar í stjórnsýslunni verði kyngreindar eftir 1. janúar 2012. Í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verði þeir áminntir sem bera ábyrgð á því að ekki er farið eftir þessu markmiði.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti/forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

11. Jafnréttismat á frumvörpum.
    Við endurskoðun á reglum um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa verði tryggt að frumvörpum fylgi gátlisti um jafnréttismál þar sem farið er yfir það hvort og þá hvernig frumvarp hefur áhrif á jafnrétti. Endurskoðuðum reglum og gátlista verði fylgt eftir með kynningu og fræðslu.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti/forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

    B. Vinnumarkaður - launamisrétti kynjanna.
     12. Framkvæmdaáætlun gegn launamisrétti kynjanna.
    Gerð verði heildstæð framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir gegn launamisrétti kynjanna með það að markmiði að útrýma því. Framkvæmdaáætlunin feli m.a. í sér eftirfarandi:
     1.      Skipuð verði framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem hafi með höndum yfirumsjón og samhæfingu aðgerða í því skyni að draga úr launamisrétti kynjanna.
     2.      Lokið verði við gerð jafnréttisstaðals á tímabilinu og honum fylgt eftir með markvissri fræðslu um innleiðingu hans.
     3.      Launaumsjónarkerfi ríkisins verði endurbætt tæknilega þannig að unnt verði að gera marktækar og reglulegar úttektir á launum karla og kvenna í ráðuneytum og stofnunum ríkisins.
     4.      Fram fari athugun á árangri starfsmats sveitarfélaga við að draga úr launamisrétti kynja og við endurmat hefðbundinna kvennastarfa og metinn ávinningur ríkisins af því að innleiða starfsmat.
     5.      Efnt verði til samstarfs við samtök aðila vinnumarkaðarins um innleiðingu Vegvísis um launajafnrétti og þróaðar verði áfram hugmyndir um jafnréttisvottun.
     6.      Gefinn verði út bæklingur til leiðbeiningar um túlkun ákvæðis laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf, m.a. með hliðsjón af Evrópurétti.
     7.      Gefinn verði út gátlisti fyrir forstöðumenn stofnana um viðmið varðandi endurskoðun á launum þannig að markmiðum um launajafnrétti verði náð.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 6,4 millj. kr. (þar af 3,4 millj. kr. vegna jafnlaunastaðals).
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

    13. Launamisrétti kynjanna á landsbyggðinni.
    Byggðastofnun, sem heyrir undir iðnaðarráðuneyti, greini orsakir launamisréttis kynjanna eftir landsvæðum með það að markmiði að móta tillögu að aðgerðaáætlun til að útrýma launamisrétti kynjanna. Verkefnið er m.a. afrakstur vinnu að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við endurskoðun byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013. Í tillögu að nýrri byggðaáætlun, sem lögð hefur verið fram á Alþingi, er kveðið á um að jafnrétti og þátttaka beggja kynja í atvinnulífi og samfélagsmótun sé sérstakt viðfangsefni sem líta þurfi til. Árangursmat á verkefninu verði gert á miðju tímabili áætlunarinnar. Verkefnið er unnið af Byggðastofnun í samstarfi við Jafnréttisstofu, Hagstofu Íslands, háskóla og rannsóknastofnanir.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneyti.

    14. Úttekt á launamisrétti kynja í sjávarútvegi og landbúnaði og aðstöðu til náms í greinunum.
    Gerð verði úttekt á annars vegar launum karla og kvenna í landbúnaði og sjávarútvegi og hins vegar stöðu karla og kvenna til náms í greinunum sem og námsframboði á framhaldsskóla- og háskólastigi.
    Tímaáætlun: Lokið 2014.
    Kostnaðaráætlun: 5 millj. kr.
    Ábyrgð: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

    15. Fæðingarorlof.
    Gerð verði könnun á töku foreldra á fæðingarorlofi og áhrifum þess á verkaskiptingu þeirra á heimilum og atvinnuþátttöku kvenna og karla. Þá verði könnuð staða mæðra og feðra eftir að fæðingarorlofstímabili lýkur. Sérstaklega verði könnuð áhrif niðurskurðar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á töku foreldra á fæðingarorlofi. Upplýsingar verði greindar eftir kyni, aldri og stöðu foreldra. Verkefnið verði unnið í samvinnu við Jafnréttisstofu.
    Tímaáætlun: 2010–2012.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

    16. Nefnd um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.
    Nefnd skipuð í samræmi við áherslur jafnréttisráðs árið 2010 kanni leiðir sem ætlað er að auðvelda virkum þátttakendum á vinnumarkaði að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Nefndin afli upplýsinga um það hvernig virkum þátttakendum á innlendum vinnumarkaði finnst þeim takast að samhæfa fjölskyldu- og atvinnulíf og leggi til við velferðarráðherra hvernig unnt sé að auðvelda fólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
    Tímaáætlun: Skýrsluskil í janúar 2012.
    Kostnaður: Rúmast innan fjárheimilda velferðarráðuneytis og jafnréttisráðs.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

     17. Aðgengi kvenna að fjármagni til stofnunar fyrirtækja.
    Sjóðir sem heyra undir stofnanir iðnaðarráðuneytis, þ.e. Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Byggðastofnun, Orkusjóður og Tækniþróunarsjóður, haldi kerfisbundið til haga upplýsingum um kynjaskiptingu styrkþega fyrir árið 2011 þannig að unnt verði á árinu 2012 að leggja mat á hvernig starfsemi sjóðanna nýtist hvoru kyni fyrir sig og endurskoði úthlutunarreglur komi í ljós að halli á annað kynið meðal styrkþega.
    Tímaáætlun: 2011–2012.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda sjóðanna.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneyti.

     18. Lánatryggingasjóður kvenna.
    Starfsemi Lánatryggingasjóðs kvenna sem starfaði á árunum 1998–2003 á vegum félagsmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og Reykjavíkurborgar verði endurvakin. Markmið sjóðsins verði að styðja við nýsköpun í atvinnurekstri kvenna með því að veita ábyrgðir á lánum. Verkefnið verði unnið í samstarfi við fjármálastofnanir og aðila sem veita ráðgjöf og handleiðslu við framkvæmd verkefna, en fé til starfseminnar sé fyrir hendi í sjóði.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 60 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.

     19. Úttekt á túlkun jafnréttislaga í álitum kærunefndar jafnréttismála.
    Lögfræðileg úttekt á málum sem kærð hafa verið til kærunefndar jafnréttismála verði gerð og þróun á túlkun jafnréttislaga hjá kærunefnd jafnréttismála og í dómum Hæstaréttar Íslands verði skoðuð.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

    C. Kyn og völd.
     20. Starfsumhverfi og starfskjör í sveitarstjórnum.
    Starfshópur verði skipaður til að kanna starfsumhverfi og starfskjör kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum með tilliti til kynjasjónarmiða og áhrifa þeirra á þátttöku kvenna í sveitarstjórnarstarfi. Í starfi hópsins verði m.a. unnið í samræmi við tillögur starfshóps um aðgerðir til að jafna betur stöðu kynja í sveitarstjórnum, sbr. greinargerð frá október 2009. Verkefnið verði unnið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Tímaáætlun: 2011–2012.
    Kostnaðaráætlun: 300.000 kr.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

     21. Gagnagrunnur um jafnrétti kynjanna í sveitarfélögum.
    Gagnagrunnur Jafnréttisstofu sem hún vann innan vébanda Evrópuverkefnisins Jafnréttisvogin (e. Tea for two) verði uppfærður og honum viðhaldið þannig að hann gefi á hverjum tíma upplýsingar um skilgreinda þætti er varða jafnrétti kynjanna innan sveitarstjórna, svo sem kynjahlutfall innan sveitarstjórna, í nefndum og ráðum, skiptingu íbúa, þjónustuþætti o.fl. Grunnurinn verði þróaður áfram í samvinnu við sveitarfélögin og nýtist til að leggja mat á stöðu jafnréttismála í sveitarfélögunum og sem hvatning til góðra verka.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaður: 700.000 kr.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

     22. Hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja og stofnana.
    Staðið verði fyrir upplýsingagjöf og samið kynningarefni til að vekja athygli á gildistöku laga nr. 13/2010 sem kveða á um að í hlutafélögum og einkahlutafélögum þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum. Þegar stjórn er skipuð fleiri en þremur verði tryggt að hlutfall annars kyns sé ekki lægra en 40%.
    Efnt verði til fræðslu um ábyrgð og skyldur stjórnenda og stjórnarmanna í fyrirtækjum. Markmiðið verði að auka hæfni þessara aðila til að gegna stöðum sínum með áherslu á að ná til kvenna. Komið verði upp gagnagrunni með upplýsingum um þá sem hlotið hafa slíka fræðslu til að gera stjórnendum og stjórnarmönnum kleift að mynda með sér tengsl og auðvelda fyrirtækjum að finna hæfa stjórnendur og stjórnarmenn.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda efnahags- og viðskiptaráðuneytis.
    Ábyrgð: Efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

    D. Kynbundið ofbeldi.
     23. Ný aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi.
    Unnið verði að gerð nýrrar aðgerðaáætlunar stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi fyrir tímabilið 2011–2015. Í nýrri aðgerðaáætlun verði tekið mið af rannsóknum úr gildandi aðgerðaáætlun frá 2006 auk rannsóknar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá verði sérstök áhersla lögð á að skoða samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu. Auk þessa verði mótuð afstaða til meðferðar nýs sáttmála Evrópuráðsins í málaflokknum og verkefni endurskilgreind með hliðsjón af honum. Skipuð verði nefnd til að vinna að framangreindri áætlun um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: 600.000 kr. við gerð áætlunar.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

     24. Úrræði vegna heimilisofbeldis.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um nálgunarbann verði lagt fram á Alþingi til þess að leiða í lög heimild fyrir þar til bæra aðila innan réttarvörslukerfisins til að fyrirskipa að einstaklingur, sem beitir heimilismenn sína ofbeldi, yfirgefi heimilið. Svonefnd „austurrísk leið“ liggi til grundvallar þeirri vinnu.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

     25. Karlar til ábyrgðar.
    Meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar verði eflt og boðið upp á þjónustu víðar um land. Brugðist verði við væntanlegri heimild til að fjarlægja ofbeldismann af heimili með því að bjóða upp á meðferð til að losna úr vítahring ofbeldis. Kannað verði hvort rétt sé að heimila að menn verði dæmdir til meðferðar. Þá verði úrræðið árangursmetið og árangur borinn saman við sambærileg verkefni erlendis.
    Tímaáætlun: 2010–2014.
    Kostnaðaráætlun: 12,7 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

     26. Forvarnir gegn vændi.
    Fræðsluherferð sem beinist að mögulegum kaupendum vændis verði hleypt af stokkunum, meðal annars með áherslu á unga karlmenn til að koma í veg fyrir að þeir gerist kaupendur á kynlífsmarkaði.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

     27. Staða kvenna sem búa við fötlun.
    Könnuð verði staða þeirra kvenna sem búa við fötlun með það að markmiði að greina stöðu þessara einstaklinga sem eru í áhættuhóp hvað varðar ofbeldi, misnotkun og misneytingu og hvort grípa þurfi til sértækra aðgerða til að tryggja að konurnar njóti mannréttinda og mannfrelsis til fulls í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Tímaáætlun: 2012–2013.
    Kostnaðaráætlun: 1,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

    E. Menntir og jafnrétti.
     28. Kynungabók.
    Handbók fyrir ungt fólk með upplýsingum um kynferði og jafnrétti sem gefin var út á árinu 2010 verði fylgt markvisst eftir með kynningum, m.a. í tengslum við innleiðingu nýrra námskráa og námsefnisgerð. Upplýsingar verði endurnýjaðar og gefnar út aftur á tímabilinu.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

     29. Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum.
    Verkefninu Jafnrétti í skólum verði fram haldið til þess að hugmyndir og verkefni sem unnin voru nýtist fleiri skólum og sveitarfélögum en verkefnið felur í sér jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum. Verkefnið var unnið í grunnskóla og leikskóla í fimm sveitarfélögum, samtals í tíu skólum, og eru upplýsingar um það á vefnum jafnrettiiskolum.is. Verkefnið verði unnið í samráði við sérfræðinga í kynjafræðum og sveitarfélög.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 1,1 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

    30. Jafnrétti í framhaldsskólum.
    Áföngum í kynja- og jafnréttisfræðum verði komið inn í framhaldsskóla á sviði jafnréttismála. Reynslu verði miðlað milli skóla með kynningum, fundum og samstarfi. Árin 2013 og 2014 verði veitt jafnréttisverðlaun til þeirra þátttakenda sem sýnt hafa mestan árangur á sviði jafnréttismála.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

    31. Jafnrétti í háskólum.
    Fræðslu í jafnréttismálum verði komið á innan háskóla. Skipaður verði starfshópur til að skipuleggja og innleiða slíkt ferli, en í hópnum eigi sæti fulltrúar háskóla og mennta- og menningarmálaráðuneytis og sérfræðingar í kynjafræðum. Reynslu verði miðlað milli skóla með kynningum, fundum og samstarfi. Árin 2013 og 2014 verði veitt jafnréttisverðlaun til þeirra þátttakenda sem sýnt hafa mestan árangur á sviði jafnréttismála.
    Tímaáætlun: 2012–2014.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

     32. Félagslíf í framhaldsskólum.
    Þátttaka pilta og stúlkna í félagslífi verði könnuð með það að markmiði að stuðla að jöfnum tækifærum pilta og stúlkna. Út frá þeirri vinnu verði skoðað, í samráði við nemendafélög, hvort grípa þurfi til sértækra aðgerða til að hvetja annað kynið til frekari þátttöku. Birtingarmyndir framhaldsskólans í ríkisfjölmiðlum (RÚV) verði skoðaðar sérstaklega til að tryggja að ekki halli óeðlilega á annað kynið.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

     33. Starfsgreinar.
    Kannaðar verði ástæður þess að stúlkur leita fremur í starfsgreinar sem skilgreindar hafa verið sem hefðbundnar kvennagreinar og piltar í þær sem hafa verið skilgreindar sem hefðbundnar karlagreinar. Enn fremur verði kannað hvernig opna megi aðgang að þeim starfsgreinum sem virðast lokaðar ýmist körlum eða konum. Með samstilltu átaki starfsgreinaráða, skóla og atvinnufyrirtækja verði leitast við að nemendur hafi jöfn tækifæri til að velja sér nám og störf óháð kyni.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 200.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

     34. Kennaramenntun.
    Inntak kennaramenntunar verði endurskoðað og háskólar hvattir til að innleiða skyldunámskeið í kynjafræði fyrir alla nemendur. Starfshópur sem vinnur að endurskoðun kennaramenntunar og reglugerð taki mið af þessum markmiðum.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárveitingar til endurskoðunar kennaramenntunar.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

     35. Konur og kvikmyndagerð.
    Kannað verði hvers vegna konur sækja síður en karlar um styrki úr kvikmyndasjóði. Fundin verði leið til þess að hvetja konur reglulega til að sækja um styrki fyrir eigið efni til handritsgerðar og framleiðslu kvikmynda, heimildarmynda og sjónvarpsþátta. Leitað verði leiða til þess að viðfangsefni með kvenlægum gildum njóti viðurkenningar til jafns við karllæg viðmið í mati á umsóknum. Markmiðið verði að fá fleiri myndir og þætti unna út frá kvenlægum sjónarhornum. Fundin verði leið til að hvetja skólastúlkur frá unga aldri til að skapa og miðla sínu sjónarhorni með kvikmyndasköpun ekki síður en pilta. Grunn- og framhaldsskólar verði hvattir til að standa fyrir átaksverkefnum í stuttmyndagerð stúlkna.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

    36. Aðgengi kvenna og karla að fjármagni til vísindarannsókna.
    Sjóðir sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og starfa á grundvelli laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir haldi kerfisbundið til haga upplýsingum um kynjaskiptingu fagráða, umsækjenda og styrkþega, og styrkupphæðir í öllum styrkjaflokkum fyrir árið 2012. Þannig verði á árinu 2013 unnt að leggja mat á hvernig starfsemi sjóðanna nýtist hvoru kyni fyrir sig. Komi í ljós að halli á annað kynið meðal styrkþega verði kannað hvort grípa skuli til aðgerða til að rétta þann halla, t.d. með því að gera styrkumsóknir aðgengilegri eða endurskoða úthlutunarreglur. Upplýsingar og viðeigandi aðgerðir nái jafnframt til verkefna sem Rannís styrkir til endurúthlutunar.
    Tímaáætlun: 2012–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda sjóðanna.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

    F. Karlar og jafnrétti.
    37. Karlar um borð.
    Skipaður verði starfshópur sem geri tillögur um hvernig auka megi þátttöku karla í umræðum um jafnrétti kynja og auka aðild karla að jafnréttisstarfi. Greining á stöðu karla í samfélaginu og möguleikum þeirra til virkrar þátttöku á nýjum og breyttum forsendum verði gerð. Starfshópurinn leiti samstarfs um verkefni sem stuðla að því að slík greining fari fram. Markmiðið sé að fá fram tillögur um m.a. hvernig megi auka náms- og starfsval karla sem og annað hlutverkaval þeirra, vinna gegn staðalímyndum kynjanna og auka þátttöku í verkefnum fjölskyldunnar. Hugað verði að neikvæðum þáttum, svo sem áhættuhegðun, ofbeldi og sjálfsvígum. Starfshópurinn hafi sér til fulltingis stærri ráðgjafahóp karla sem endurspegli breiðan bakgrunn með tilliti til aldurs og reynslu.
    Tímaáætlun: 2011–2012.
    Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

    G. Alþjóðastarf.
     38. Eftirfylgni við aðgerðaáætlun um framkvæmd ályktunar öryggisráðsins nr. 1325 og tengdar ályktanir um konur, frið og öryggi á alþjóðavettvangi.
    Áætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325 frá árinu 2000 um konur, frið og öryggi verði endurskoðuð með framsetningu skýrra og tímasettra markmiða. Tekið verði mið af öðrum ályktunum öryggisráðsins sem samþykktar hafa verið með skírskotun til ályktunar 1325 (ályktanir nr. 1820 (2008), 1888 (2009), 1889 (2009) og 1960 (2010)). Ísland efli jafnframt stöðu sína sem málsvari málaflokksins á alþjóðavettvangi bæði í marghliða og tvíhliða starfi með frumkvæði, sterkum áherslum og eftirfylgni á grundvelli framkvæmdaáætlunarinnar. Markvisst verði unnið að því að fræða starfsfólk utanríkisráðuneytisins og friðargæsluliða í málefnum öryggisráðsályktunar 1325 og tengdra ályktana.
    Tímaáætlun:     2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 2,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneyti.

     39. Verkefni um Jafnréttisskóla.
    Starf Jafnréttisskóla á vegum Háskóla Íslands verði stutt sem liður í uppbyggingu þekkingarsamfélags á Íslandi á sviði jafnréttismála. Markmið verkefnisins sé að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna með styttri námskeiðum fyrir sérfræðinga frá þróunarríkjum, átakasvæðum og samfélögum þar sem nýlega hefur komist á friður að átökum loknum. Unnið verði markvisst að því að Jafnréttisskólinn verði hluti af tengslaneti Sameinuðu þjóðanna. Markhópurinn sé starfsmenn stjórnsýslu og félagasamtaka sem starfa að jafnréttismálum í framangreindum ríkjum og svæðum. Utanríkisráðuneytið kosti verkefnið samkvæmt árlegri fjárhagsáætlun og samþykktum fjárlögum.
    Tímaáætlun:     2010–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Háskóli Íslands og utanríkisráðuneyti.

     40. Kyn og loftslag.
    Umhverfisráðuneyti og utanríkisráðuneyti haldi áfram kynjasjónarmiðum á lofti í samningaviðræðum um loftslagsmál. Ráðuneytin eigi samstarf um að kynna mikilvægi kynjasjónarmiða hvað varðar loftslagsmálin innan lands, svo sem með málþingum. Rannsóknir á kynjaþætti loftslagsmála verði efldar og áhersla lögð á kynjasjónarmið og loftslagsmál, ekki síst í fræðslu hvað málaflokkinn varðar í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.
    Tímaáætlun: 2010–2012.
    Kostnaðaráætlun: 1,4 millj. kr.
    Ábyrgð: Umhverfisráðuneyti og utanríkisráðuneyti.

    41. Könnun á áhrifum mismunandi hegðunar kynjanna á loftslag á Íslandi.
    Gerð verði könnun á þeim þáttum í hegðun kynjanna hér á landi sem ýmist auka eða minnka losun gróðurhúsalofttegunda, svo sem með akstri einkabíla, notkun á almenningssamgöngum, orkunotkun, flokkun sorps, kaupum á umhverfisvænum vörum, kjötneyslu og öðru. Metið verði hversu mikil áhrif hvort kyn um sig hefur og til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Markmiðið sé að vekja fólk til vitundar um áhrif einstaklinganna á umhverfi sitt.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaður: 1 millj. kr.
    Ábyrgð: Umhverfisráðuneyti.

    H. Eftirfylgni og endurskoðun.
    42. Eftirfylgni.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta annist eftirfylgni með framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum á vettvangi sinna ráðuneyta í samstarfi við Jafnréttisstofu og sérfræðing Stjórnarráðsins í jafnrétti kynja. Framvinduskýrsla fylgi árlegri greinargerð jafnréttisfulltrúa til Jafnréttisstofu. Skýrsla um stöðu verkefna samkvæmt framkvæmdaáætluninni verði lögð fyrir ráðherranefnd um jafnrétti kynja og jafnréttisþing.
    Tímaáætlun: 2010–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

    43. Árangursmat.
    Áætlunin verði árangursmetin og eftir atvikum endurskoðuð að tveimur árum liðnum frá samþykkt hennar.
    Tímaáætlun: 2012.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

    Verkefni í áætluninni eru 43 talsins og eru þau komin mislangt.
    Hér á eftir fara upplýsingar um stöðu verkefna, flokkaðar eftir ábyrgð ráðuneyta á verkefnum. Litið er á það ráðuneyti sem fyrst er nefnt sem ábyrgðaraðila ef fleiri en eitt ráðuneyti er nefnt sem ábyrgðaraðili á verkefni.

Forsætisráðuneytið.

    Níu verkefni eru falin forsætisráðuneytinu og lúta þau flest að stjórnsýslunni. Flest þeirra eru hafin. Þar á meðal er skipun ráðherranefndar um jafnrétti kynjanna en markmið hennar er að styrkja umgjörð jafnréttismála í Stjórnarráðinu með því að tryggja að fjallað sé um jafnréttismál af breiðum hópi ráðherra.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

    Undir nýtt ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar falla þrjú verkefni. Tvö þeirra eru ekki hafin þar sem þeim hefur ekki verið tryggt fjármagn. Þriðja verkefnið sem varðar aðgengi kvenna að fjármagni til stofnunar fyrirtækja hófst árið 2011 og er á áætlun.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið.

    Undir ráðuneytið falla tvö verkefni, annars vegar um kynjaða fjárlagagerð og hins vegar um hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Bæði verkefnin eru farin af stað. Ríkisstjórnin samþykkti þann 27. apríl 2011 þriggja ára áætlun um innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar og samkvæmt henni er verkefnið á áætlun. Öll ráðuneytin hafa valið sér meginmálaflokk sem unnið er með á árunum 2012–1014 en í fjárlagafrumvarpi ársins 2013 er að finna stuttar skýrslur um hvert verkefni.

Innanríkisráðuneytið.

    Fjögur verkefni eru falin innanríkisráðuneytinu og eru þrjú þeirra hafin.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

    Undir mennta- og menningarmálaráðuneytið falla níu verkefni. Þeim hefur verið deilt niður á verkefnisstjóra og sérfræðinga í ráðuneytinu. Stofnaðir hafa verið hópar til að vinna að flestum þeirra og fjármagn til þeirra verið tryggt.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

    Undir ráðuneytið falla tvö verkefni og er unnið að þeim báðum. Annars vegar er um að ræða verkefni um kyn og loftslag og hefur ráðuneytið ásamt utanríkisráðuneytinu átt samstarf um að kynna mikilvægi kynjasjónarmiða í loftslagsmálum. Hins vegar verkefni um könnun á áhrifum mismunandi hegðunar kynjanna á loftslag á Íslandi. Það verkefni er ekki hafið en Félagsvísindastofnun HÍ hefur lýst yfir áhuga á að koma að verkefninu og er það nú til skoðunar í ráðuneytinu.

Utanríkisráðuneytið.

    Tvö verkefni eru falin utanríkisráðuneytinu í áætluninni og er unnið að þeim báðum. Annað þeirra varðar Jafnréttisskóla SÞ en ráðuneytið hefur stutt skólann frá 2010 sem hluta af þróunarsamvinnu Íslands. Skólinn var settur upp sem tilraunaverkefni en er nú orðinn fullgildur skóli innan Háskóla Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem er sérstök stofnun innan SÞ.

Velferðarráðuneytið.

    Tólf verkefni eru falin velferðarráðuneytinu og eru nær öll komin í ákveðinn farveg, ýmist með stofnun nefnda til að vinna að verkefnunum eða með því að fela rannsóknaraðilum framkvæmd rannsókna. Eitt af stærstu verkefnunum snýr að gerð heildstæðrar framkvæmdaáætlunar til fjögurra ára um aðgerðir til að vinna gegn launamisrétti kynjanna. Velferðarráðherra skipaði nefnd í lok árs 2011 til að vinna að áætluninni og kynnti velferðarráðherra nýja aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna á kvennafrídaginn 24. október 2012.


Þál. 53/139 um vestnorrænt samstarf til að bæta aðstæður einstæðra
foreldra á Vestur-Norðurlöndum, 16. september 2011 – þskj. 1965.

    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hafa frumkvæði að samstarfi við Færeyjar og Grænland um að stuðla að umbótum á aðstæðum einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum. Samstarf við Færeyjar og Grænland verði aukið, m.a. með því að ríkin skiptist á hugmyndum, þekkingu og reynslu með það að markmiði að leggja fram sameiginlegar tillögur um það hvernig best væri að bæta aðstæður fjölskyldna einstæðra foreldra. Sem fyrsta skref er skorað á velferðarráðherra að skipuleggja ráðstefnu, í samvinnu við velferðarráðherra Færeyja og Grænlands, þar sem skipst verði á hugmyndum og árangursríkar aðgerðir kynntar.

    Tillaga að ofangreindri þingsályktun var sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2010 frá 24. ágúst 2010.
    Á fyrsta vest-norræna ráðherrafundinum um heilbrigðis- og velferðarmál, sem var haldinn í Nuuk á Grænlandi dagana 23.–26. mars 2012, var farið yfir helstu þætti heilbrigðis- og velferðarmála og þótti hann takast vel. Velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson bauð til næsta fundar og er gert ráð fyrir að hann verði haldinn í Reykjavík um miðjan janúar 2013. Þar verður m.a. fjallað um barnaverndarmál og félagsþjónustu og er gert ráð fyrir að málefni einstæðra foreldra verði einnig á dagskrá fundarins.
    Dagana 7.–8. nóvember 2012 verður haldin stór ráðstefna í Reykjavík á vegum NORA (Nordisk Atlantsamarbejde) með þátttöku frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi, Danmörku, OECD o.fl. Þar verður rætt um framtíð velferðarþjónustunnar, m.a. aðstæður einstæðra foreldra.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.