Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 202. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 414  —  202. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar
um þriggja fasa rafmagn.


     1.      Hversu margir bæir eru nú án þriggja fasa rafmagns? Svar óskast sundurliðað eftir sýslum.
    Dreifbýlissvæði á dreifiveitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur er á Kjalarnesi, í Mosfellsdal og Miðdal. Á því svæði geta allir sem þess óska fengið tengingu við þriggja fasa rafmagn, en háspennt rafdreifikerfi Orkuveitu Reykjavíkur á dreifbýlissvæði er byggt upp sem þriggja fasa rafdreifikerfi. Meiri hluti lögbýla á svæðinu er tengdur þriggja fasa rafmagni.
    Á veitusvæði RARIK eru 1.639 bæir án þriggja fasa rafmagns. Þeir skiptast þannig eftir sýslum.

Kjósarsýsla 17
Borgarfjarðar- og Mýrasýsla 192
Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla 88
Dalasýsla 125
Húnavatnssýslur 175
Skagafjarðarsýsla 165
Eyjafjarðarsýsla 90
Þingeyjarsýslur 162
Múlasýslur 289
Skaftafellssýslur 118
Rangárvallasýsla 117
Árnessýsla 101

    Á veitusvæði Orkubús Vestfjarða eru 133 bæir án þriggja fasa rafmagns. Þeir skiptast þannig eftir sýslum.

Norður-Ísafjarðarsýsla 18
Vestur-Ísafjarðarsýsla 8
Vestur-Barðastrandarsýsla 29
Austur-Barðastrandarsýsla 13
Strandasýsla 55

    Á veitusvæði Orkubús Vestfjarða eru einnig bæir án þriggja fasa rafmagns, sem ekki teljast til lögbýla en þar sem rekin er atvinnustarfsemi, svo sem ferðaþjónusta. Sérstaklega er um að ræða eftirtalda staði:
          Krossholt á Barðaströnd
          Brjánslækur
          Laugarhóll í Bjarnarfirði
          Hnjótur
          Flókalundur
          Djúpavík
          Breiðavík
          Norðurfjörður
          Broddanes

    Hjá RARIK eru bæir skilgreindir sem lögbýli þar sem er búseta, þó ekki endilega búrekstur, en í svörum Orkubús Vestfjarða er um lögbýli í ábúð að ræða.

     2.      Hvaða dæmi fyrirfinnast um að sveitarfélög séu algjörlega eða að mestu án þriggja fasa rafmagns?
    Tjörneshreppur er eina sveitarfélagið á dreifiveitusvæði RARIK sem er algjörlega án þriggja fasa rafmagns.
    Sveitarfélög sem eru að mestu án þriggja fasa rafmagns, utan þéttbýlis, eru:
          Svalbarðshreppur í Þistilfirði.
          Djúpavogshreppur (Berufjörður, Hamarsfjörður og Álftafjörður).
          Skaftárhreppur (Síða, Fljótshverfi, Landbrot, Meðalland, Skaftártunga og Álftaver).

    Til viðbótar eru eftirfarandi svæði að miklu leyti án þriggja fasa rafmagns, skipt eftir landshlutum:
          Vesturland: Lundarreykjadalur, Mýrar, Kolbeinsstaðahreppur, Laxárdalur og Fellsströnd/Skarðsströnd.
          Norðurland vestra: Miðfjörður, Vatnsnes, Svínavatn, Svartárdalur, Skagi og inndalir Skagafjarðar.
          Norðurland eystra: Innsti hluti Eyjafjarðardala, Bárðardalur, Melrakkaslétta og Langanes.
          Austurland: Jökuldalur, Jökulsárhlíð/Hróarstunga, Mjóifjörður, Breiðdalur og Lónsfjörður.
          Suðurland: Selvogur.

    Árneshreppur er eina sveitarfélagið á dreifiveitusvæði Orkubús Vestfjarða sem er algjörlega án þriggja fasa rafmagns.
    Eftirfarandi svæði eru auk þess án þriggja fasa rafmagns:
          Kaldrananeshreppur: Norðan Bjarnafjarðarháls.
          Strandabyggð: Sunnan Þorpa á Ströndum, norðan Blævardals og sunnan Nauteyrar í Ísafjarðardjúpi.
          Reykhólahreppur: Sunnan Króksfjarðarness og norðan við Bjarkarlund.
          Vesturbyggð: Vestan Bíldudals og austan Dufansdals í Arnarfirði. Ekkert þriggja fasa rafmagn er í Vesturbyggð sunnan og austan Patreksfjarðar.
          Súðavíkurhreppur er án þriggja fasa rafmagns milli Súðavíkur og Látra. Þriggja fasa strengur er með þjóðvegi frá Reykjanesi að Látrum.
          Ísafjarðarbær er án þriggja fasa rafmagns vestan Þingeyrar og vestan Núps. Ingjaldssandur er án þriggja fasa rafmagns og nokkrir aðrir bæir í Önundarfirði.
          Tálknafjarðarhreppur er án þriggja fasa rafmagns utan við Tálknafjörð.

     3.      Hefur verið lagt mat á kostnaðinn við að koma á þriggja fasa rafmagni þar sem það er ekki núna?
    RARIK áætlar að kostnaður við þrífösun á dreifiveitusvæði fyrirtækisins sé um 15 milljarðar króna. Þar er um að ræða endurnýjun eins fasa loftlína með þriggja fasa jarðstreng ásamt notendaspennistöðvum.
    Orkubú Vestfjarða telur að gróflega áætlað sé kostnaður við að tryggja öllum aðgang að þriggja fasa rafmagni á dreifiveitusvæði fyrirtækisins, eins og það er uppbyggt í dag, um 2,5 milljarðar króna.

     4.      Liggja fyrir áætlanir um það hvernig verður staðið að því að tryggja aðgengi að þriggja fasa rafmagni?
    Frá árinu 1995 hefur RARIK unnið að endurnýjun loftlínukerfisins með þriggja fasa jarðstrengjum.
    Byrjað var á elstu línunum og þeim sem útsettastar voru fyrir ísingu. Fram til ársins 2020 hafa forgang línur byggðar árin 1955–1965 í framhaldi af gerð fyrstu 10 ára sveitastyrkingaráætlunarinnar, en þá var lögð áhersla á þéttbýlli héruð landsins. Strjálbýlustu sveitirnar voru rafvæddar síðast. Línur þar eru yngstar og verða því endurnýjaðar síðast samkvæmt núverandi framkvæmdaáætlun fyrir árin 2013–2035.
    Í árslok 2035 er áætlað að strengvæðingunni verði lokið og öllum notendum þar með tryggður aðgangur að þriggja fasa rafmagni.
    Orkubú Vestfjarða hefur ekki lagt fram heildstæða áætlun um 100% aðgengi að þriggja fasa rafmagni á dreifiveitusvæði sínu en á hverju ári er unnið að endurbótum samkvæmt framkvæmdaáætlun viðkomandi árs sem tekur mið af ástandi dreifikerfisins.
    Framangreind svör byggja á umbeðnum umsögnum frá Orkubúi Vestfjarða, Orkuveitu Reykjavíkur og RARIK.