Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 15. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 431  —  15. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur
um eldgos ofan Hafnarfjarðar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur verið farið yfir ummæli Haralds Sigurðssonar eldfjallasérfræðings um hugsanleg eldgos ofan Hafnarfjarðar og liggja fyrir viðbragðsáætlanir vegna slíkra hamfara?

    Af þessu tilefni aflaði ráðuneytið umsagnar ríkislögreglustjóra og er umsögn hans svohljóðandi:
    „Ríkisstjórnin samþykkti sl. haust áætlun um gerð heildstæðs hættumats vegna eldgosa á Íslandi. Hafin er vinna við kortlagningu eldstöðva sem nýtt verður við forgangsröðun verkefnisins. Lagt er upp með að þær eldstöðvar sem taldar eru skapa mesta hættu verði metnar fyrst. Hluti af þeirri vinnu nær til hugsanlegs eldgoss ofan Hafnarfjarðar.
    Ummæli Haraldar Sigurðssonar fjalla m.a. um það svæði sem nú er unnið að gerð hættumats fyrir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur fundað með Haraldi vegna þessa máls.
    Gerð sértækra viðbragðsáætlana er byggð á niðurstöðum hættumats grundvallað á þekkingu á viðkomandi hættu og verður unnin þegar hættumat liggur fyrir á hverju svæði fyrir sig.
    Þó ekki liggi fyrir sértækar viðbragðsáætlanir þá er í almennu neyðarskipulagi almannavarna unnið eftir stjórnskipulagi, verkferlum og gátlistum sem æfðir eru reglulega. Auk þess hefur reynt verulega á skipulagið vegna jarðskjálfta, eldgosa, farsótta og óveðra undanfarinna ára. Almennar viðbragðsáætlanir almannavarna eru því til staðar vegna hugsanlegra náttúruhamfara eða annarrar bráðrar almannahættu svo sem eldgos, jarðskjálftar, fárviðri, snjóflóð, skriðuföll, stórbrunar, sprengingar og meiriháttar veitubilanir.“