Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 153. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 442  —  153. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Nefndin hefur einnig farið yfir þau erindi sem hafa borist nefndinni. Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 1.243,1 m.kr. til lækkunar gjalda og 4.344,8 m.kr. til lækkunar tekna á rekstrargrunni.
    Áhrif þessara breytinga á heildarfjárhæðir frumvarpsins eru sýnd í eftirfarandi töflu.

Í milljörðum kr. Fjárlög 2012 Fjáraukalagafrumvarp Breytingartillaga 2. umr. Samtals
Frumtekjur 501,8 8,4 -1,6 508,6
Frumgjöld 465,9 9,4 3,1 478,5
Frumjöfnuður 35,9 -1,0 -4,8 30,1
Vaxtatekjur 21,1 2,2 -2,7 20,6
Vaxtagjöld 77,8 3,1 -4,4 76,5
Vaxtajöfnuður -56,7 -0,9 1,7 -55,9
Heildartekjur 522,9 10,6 -4,3 529,2
Heildargjöld 543,7 12,5 -1,2 555,0
Heildarjöfnuður -20,7 -1,9 -3,1 -25,8

    Fjáraukalög hvers árs endurspegla að miklu leyti hvernig til tókst með framkvæmd fjárlaga innan ársins. Að öllu jöfnu má miða við að ef umfang gjaldahliðar fjáraukalaga lækkar milli ára hafi betur tekist til en áður með að halda fjárlög.
    Tekjuhlið fjáraukalaga er aftur á móti frekar tengd þjóðhagsspá og óreglulegum liðum eins og eignasölu. Tekjuáætlun ríkissjóðs gerir nú ráð fyrir 4,3 milljarða kr. lækkun frá fjáraukalagafrumvarpinu. Veigamesta skýringin liggur í 2,7 milljarða kr. lækkun vaxtatekna þar sem evruvextir hafa lækkað mikið og er leiðrétt fyrir því nú við 2. umræðu. Þá hefur innheimta veiðigjalds og fjármagnstekjuskatts lögaðila verið endurmetin til lækkunar. Á móti vegur að hluta til meiri innheimta auðlegðarskatts.
    Til margra ára hefur Ríkisendurskoðun, og reyndar einnig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, bent á nauðsyn þess að takmarka útgjöld með því að draga úr vægi fjáraukalaga, m.a. með því að hafa varasjóð í fjárlögum hverju sinni til þess að mæta óvæntum útgjöldum.
    Á undanförnum árum hefur tekist að koma á breytingum í þá veru að takmarka viðbótargjaldaheimildir í fjáraukalögum, þrátt fyrir niðurskurð á hverju ári allt frá árinu 2009. Að viðbættum tillögum fjárlaganefndar nema viðbótarheimildir nú rétt rúmum 2% af fjárlögum ársins. Það er eigi að síður heldur hærra hlutfall en gengur og gerist í flestum nágrannalöndum okkar.
    Línuritið sýnir umfang fjáraukalaga sem hlutfall af fjárlögum hvers árs, bæði með og án vaxtagjalda. Eins og sjá má aukast sveiflurnar ef vaxtagjöldin eru meðtalin. Til skýringar á árinu 2010 má benda á að þá voru vaxtagjöldin endurmetin í fjáraukalögum og lækkuðu um 24.037 m.kr. frá fjárlögum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og fram kemur á línuritinu er þróunin jákvæð að því leyti að eftir bankahrunið er umfang fjáraukalaga mun lægra en á árum áður þegar þau námu ár eftir ár á bilinu 5–8% af fjárlögum hvers árs. Nú er hlutfallið komið niður í tæp 3% fyrir utan árið 2011 þegar nauðsynlegt reyndist að endurmeta og hækka almannatryggingar í fjáraukalögum. Meiri hluti fjárlaganefndar telur að gera megi enn betur og að með samstilltu átaki og áætlanagerð með stækkandi varasjóði í fjárlögum ættu útgjaldaheimildir í fjáraukalögum að heyra til undantekninga.
    Langtímaáætlun í ríkisfjármálum sýnir glögglega að ekki má undir neinum kringumstæðum draga úr þeim aukna aga sem þó hefur tekist að koma á í ríkisútgjöldum á síðastliðnum árum. Vaxtakostnaður ríkissjóðs nemur um 15% af áætluðum heildartekjum á næsta ári og getur hæglega aukist þótt heildarskuldir lækki sökum þess að stór hluti lánskjara hans er háður markaðsaðstæðum sem eru almennt taldar vera óvenjuhagstæðar um þessar mundir. Fyrir bankahrunið nam vaxtakostnaður ríkisins um 5% af fjárlögum hvers árs og hefur hann því þrefaldast sem hlutfall af heildargjöldum.
    Einstakar breytingartillögur eru skýrðar hér á eftir auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.



SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 5. nóv. 2012.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Lúðvík Geirsson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Björgvin G. Sigurðsson.