Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 225. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 449  —  225. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar
um Fisktækniskólann.


     1.      Hvenær mun Fisktækniskóli Suðurnesja í Grindavík, sem er með tveggja ára námsbraut en aðeins fjármagn til eins árs, fá varanlegri fjármögnun?
    Á milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Fisktækniskóla Íslands ehf. er í gildi samningur um tilraunakennslu skólaárin 2011–2012 og 2012–2013. Hann var gerður í september 2011 og gildir til loka júní 2013. Samtals gerir samningurinn ráð fyrir 56 millj. kr. fjárveitingu úr ríkissjóði til skólans á samningstímanum. Samningurinn kveður á um tilraunakennslu allt að 30 nemenda sem skuli ljúka námi vorið 2013. Þar kemur einnig fram að litið skuli til forinnritunar nýnema vorið 2012 til að leggja mat á þörf fyrir nám í fisktækni og þar með framhald verkefnisins.
    Skólinn óskaði eftir og fékk viðurkenningu samkvæmt reglugerð nr. 426/2010 um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi með bréfi dags. 20. júlí 2012 og nær hún til þess tíma sem fyrrnefndur samningur gildir. Um er að ræða faglega viðurkenningu sem felur hvorki í sér vilyrði um framlög né fjárskuldbindingu af hálfu ríkissjóðs.
    Í forinnritun vorið 2012 skráði einn nemandi sig í skólann sem fyrsta val og tveir sem annað val. Samkvæmt skýrslu, sem skólinn skilaði til ráðuneytisins í lok ágúst sl., voru ellefu nemendur við nám á haustönn 2011 og sjö á vorönn 2012. Á haustönn 2012 eru nemendur við skólann sex talsins samkvæmt upplýsingum frá skólanum. Nemendafjöldi er því nokkuð undir þeim fjölda sem samningurinn gerði ráð fyrir.
    Í ráðuneytinu er nú unnið að því að leggja mat á hvernig fyrirkomulagi náms í fisktækni verður best fyrir komið.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að tryggja skólanum rekstraröryggi til næstu ára, og þá hvernig og hvenær?
    Mikilvægt er að tryggja áfram framboð á námi í fisktækni og tengdum greinum á Suðurnesjum og er gert ráð fyrir áframhaldandi fjárveitingum til þess. Hins vegar er ljóst að með jafn fáa nemendur og raun ber vitni er óbreytt fyrirkomulag fjárhagslega óhagkvæmt. Samningurinn gerði ráð fyrir allt að 30 nemendum sem hefði þýtt um 900 þús. kr. á hvern nemenda. Vegna lítils fjölda nemenda hefur meðalárskostnaður á hvern nemanda við Fisktækniskóla Íslands verið rúmar 4 millj. kr. á samningstímanum. Til samanburðar er meðalárskostnaður á hvern nemenda í framhaldsskólum um 800 þús. kr.
    Ráðuneytið leitar nú leiða til að tryggja áframhaldandi námsframboð í fisktækni og tengdum greinum á Suðurnesjum í samvinnu við fleiri aðila sem tryggir að kostnaður á hvern nemanda verði ekki umfram það sem samningur gerir ráð fyrir.