Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 270. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 454  —  270. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur
um gjaldeyrisúttekt Deutsche Bank.


    Leitað var eftir upplýsingum hjá Seðlabanka Íslands og eru svörin byggð á upplýsingum bankans.

     1.      Af hverju var Deutsche Bank heimilað að taka 15 milljarða kr. í erlendum gjaldeyri út úr landinu?
    Engin beiðni um undanþágu af þessu tagi hefur borist Seðlabanka Íslands og því síður hefur Seðlabankinn veitt slíka undanþágu frá ákvæðum laga um gjaldeyrismál.

     2.      Á grunni hvaða laga og reglugerða byggðist sú ákvörðun?
    Vísað er til svars við 1. tölul. Ekki er því tilefni til að svara spurningunni sem slíkri. Hins vegar vill Seðlabankinn benda almennt á að hvað varðar ferli beiðna um undanþágu frá takmörkunum laga um gjaldeyrismál er kveðið á um í ákvæði 13. gr. o að ákvæði 7. gr. laganna gildi um heimildir Seðlabankans til að veita undanþágur frá takmörkunum laganna. Í ákvæði 2. mgr. 7. gr. kemur fram að við mat á beiðni um undanþágu skuli Seðlabankinn horfa til þess hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafa fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Það er því forsenda fyrir veitingu undanþágu að hún og það fordæmi sem hún skapar valdi ekki óstöðugleika í gengis- og peningamálum.
    Seðlabankinn hefur sett sér verklagsreglur vegna afgreiðslu undanþágubeiðna. Þær gera ráð fyrir að skapi beiðni um undanþágu nýtt fordæmi og/eða varði verulega fjárhæð séu eftirfarandi sjónarmið lög til grundvallar afgreiðslu hennar: a) Eru til fyrri fordæmi sem styðja umsókn? b) Setur undanþága og viðskipti henni tengd nýtt fordæmi sem gæti leitt til umtalsverðs útstreymis erlends gjaldeyris til skemmri eða lengri tíma litið? c) Leiðir undanþágan og viðskipti henni tengd til nettó-útstreymis, þ.e. að útstreymi erlends gjaldeyris verður meira en innstreymi erlends gjaldeyris, til skamms tíma? d) Er fjárhæðin sem um ræðir það stór að hún ein eða það fordæmi sem hún skapar gæti haft áhrif á gengi krónunnar? e) Er viðkomandi verkefni umsækjanda gjaldeyrisskapandi til langs tíma? f) Hefur umsækjandi brýnna hagsmuna að gæta? Til að leggja mat á fyrrgreind sjónarmið er óskað eftir faglegu áliti viðeigandi sviðs inn Seðlabankans, sbr. t.d. hvort undanþágan kunni með einum eða öðrum hætti að hafa óæskileg skammtímaáhrif á millibankamarkað með erlendan gjaldeyri.
    Einnig skal upplýst að Ríkisendurskoðun hefur gert úttekt á undanþáguferli Seðlabankans, þ.m.t. með stikkprófum á einstökum undanþágum. Ríkisendurskoðun gerði ekki athugasemdir.
    Með svari þessu er að finna afrit af fyrstu síðum verklagsreglna gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands vegna afgreiðslu undanþágubeiðna, en þar sem verklagsreglurnar innihalda lýsingar á þeim fordæmum sem veitt hafa verið er ekki mögulegt að afhenda þann hluta, sbr. fyrri umfjöllun um þagnarskyldu bankans.

     3.      Má vænta að sérútvaldir aðilar fái aftur að fara með háar upphæðir úr landi óháð gjaldeyrishöftunum?

    Vísast á ný til svars við 1. tölul.
    Þá vill Seðlabankinn árétta það sem fyrr hefur komið fram að lög um gjaldeyrismál kveða á um þau skilyrði sem þurfa að liggja til grundvallar undanþágum sem bankinn veitir á grundvelli 13. gr. o, sbr. 7. gr. laga um gjaldeyrismál. Með hliðsjón af því ákvæði er ljóst að Seðlabankinn hefur ekki forsendur til þess að veita undanþágu sem veldur óstöðugleika í gengis- og peningamálum.


Fylgiskjal.


Verklagsreglur gjaldeyriseftirlits
vegna vinnslu undanþága á grundvelli 13. gr. o laga nr. 87/1992
um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, sbr. 7. gr. sömu laga.

Uppfærðar 29. september 2011.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.