Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 50. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Nr. 2/141.

Þingskjal 455  —  50. mál.


Þingsályktun

um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.,
Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.


    Alþingi ályktar, í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er rannsaki einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og tengd málefni á árunum 1998–2003.
    Nefndin taki m.a. til umfjöllunar þá stefnu og viðmið sem lágu til grundvallar einkavæðingu bankanna og að hve miklu leyti þeim var fylgt í ákvarðanatöku og framkvæmd einkavæðingarinnar. Nefndin upplýsi nánar um undirbúning og framkvæmd á sölu eignarhluta ríkisins í umræddum bönkum, m.a. í því skyni að skýra ábyrgð ráðherra og annarra sem komu að sölunni.
    Nefndin fjalli um gerð og innihald samninga við kaupendur bankanna, mat á eignum bankanna og að hve miklu leyti það samræmdist söluverði þeirra, efndir samninga og undanþágur frá ákvæðum þeirra, þ.m.t. afslætti frá kaupverði. Þá verði fjallað um eftirlit og ábyrgð með framfylgd samninganna.
    Nefndin beri einkavæðingu íslensku bankanna saman við sölu opinberra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndum og leggi fram tillögur til úrbóta varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í framtíðinni.
    Nefndin leggi mat á þær afleiðingar sem framkvæmd einkavæðingar bankanna hafði fyrir íslenskt samfélag.
    Nefndin geri eftir atvikum ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og geri jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu sinni til Alþingis.
    Rannsóknarnefndin skili forseta Alþingis skýrslu um rannsóknina eigi síðar en 1. september 2013 ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.

Samþykkt á Alþingi 7. nóvember 2012.