Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 274. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 503  —  274. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar
um dýralæknaráð.


     1.      Hverjar eru lagaskyldur dýralæknaráðs?
    Lagaskyldur dýralæknaráðs koma fram í 4. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, en í 2. mgr. greinarinnar segir svo: „Ráðið skal ávallt fjalla um innflutning búfjár og erfðaefnis þess sé hans óskað. Einnig skal ráðið fjalla um innflutning annarra dýra, búfjárafurða og aðra þætti er snerta heilbrigðismál dýra og dýraafurða þegar þess er óskað af ráðherra eða Matvælastofnun. Ráðinu er heimilt, ef aðstæður krefja, að kalla sérfræðinga til ráðuneytis.“
    Í 3. mgr. sömu greinar segir: „Sömu aðilar og taldir í 2. mgr. geta vísað ágreiningsmálum varðandi dýralæknisþjónustu til ráðsins. Við úrlausn þeirra ágreiningsmála skal ráðherra kalla til starfa með ráðinu lögfræðing sem fullnægir skilyrðum um skipan til starfa héraðsdómara.“
    Í lokamálsgrein sömu greinar segir svo: „Ráðið skal halda gerðabók um störf sín.“

     2.      Hvenær skal kalla ráðið saman og hver gerir það?
    Líkt og fram kemur í svari við 1. spurningu skal ávallt kalla ráðið saman til að fjalla um innflutning búfjár og/eða erfðaefnis þess. Einnig skal ráðið fjalla um innflutning annarra dýra, búfjárafurða og aðra þætti sem snerta heilbrigðismál dýra eða dýraafurða þegar þess er óskað af ráðherra eða Matvælastofnun.

     3.      Hversu oft á liðnum árum hefur ráðið verið kallað saman til að fjalla um mál?
    Frá setningu laganna 1998 hefur ráðið verið kallað saman á 29 fundi til að ræða og afgreiða 18 erindi.

     4.      Hefur ráðið verið kallað saman vegna IBR/IPV-veirusýkingarinnar á Austurlandi?

    Dýralæknaráð hefur enn sem komið er ekki verið kallað saman vegna téðrar veirusýkingar á Austurlandi. Matvælastofnun hefur leitt varnarbúnað vegna máls þessa samkvæmt lögum og góðri venju og hafa staðið yfir sýnatökur og greiningar til undirbúnings ákvarðanatöku um frekari meðferð málsins. Verið er að endurskipa í dýralæknaráð og mun ráðuneytið í samráði við Matvælastofnun í framhaldinu skoða aðkomu þess að málinu.