Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 373. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 506  —  373. mál.
Svarfjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar
um réttarstöðu starfsmanna sendiráða.


     1.      Undanþiggur 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, erlend sendiráð á Íslandi frá greiðslu tryggingagjalds vegna innlendra starfsmanna sem starfa á þeirra vegum?
    Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er lögð skylda á launagreiðendur að inna af hendi tryggingagjald af greiddum launum. Í 2. mgr. 4. gr. kemur fram að gjaldskyldan taki til allra launagreiðenda sem greiða laun eða þóknanir fyrir starf. Beina undanþágu fyrir erlend sendiráð er að finna í 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. fyrrgreindra laga, en samkvæmt þeim tölulið eru sendiráð og sendiherrar erlendra ríkja, sendiræðismenn og erlendir starfsmenn við sendiráð undanþegnir gjaldskyldu. Erlend sendiráð sem greiða íslenskum aðilum laun eru því ekki tryggingagjaldsskyld af launum íslenskra starfsmanna sinna samkvæmt gildandi lögum.

     2.      Er ríkinu heimilt að taka við greiðslu tryggingagjalds úr hendi íslenskra starfsmanna erlendra sendiráða á Íslandi og er slíkt fyrirkomulag í samræmi við 3. mgr. 33. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband, sbr. lög nr. 16/1971?
    Tryggingagjald hefur verið skilgreint sem skattur sem leggst á launagreiðendur. Í því felst að kröfur stjórnarskrár um skattlagningarheimildir eiga við um gjaldskyldu tryggingagjalds. Með öðrum orðum eiga menn ekki val um það hvort þeir eru skattskyldir aðilar, heldur ræðst skattskyldan af ákvæðum laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, þannig að jafnvel þótt tiltekin réttindi séu tengd greiðslu tryggingagjalds er það gjald ekki lagt á neinn annan en þann sem fellur undir gjaldskyldu viðkomandi skattlagningarheimildar.
    Forsenda þess að launamaður haldi réttindum sínum til sjúkratrygginga, atvinnuleysisbóta, fæðingarorlofs o.s.frv. er að greitt sé tryggingagjald vegna hans. Vegna undanþágu sendiráða til greiðslu gjaldsins er starfsmanninum heimilt að standa skil á því vilji hann tryggja sér framangreind réttindi. Slíkt fyrirkomulag byggist á 2. mgr. 4. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, þar sem gjaldskyldan tekur til allra launagreiðenda, svo sem einstaklinga, félaga, sjóða og stofnana, sveitarfélaga og stofnana þeirra, ríkissjóðs, ríkisstofnana, erlendra verktaka og annarra þeirra aðila sem greiða laun eða hvers konar þóknanir fyrir starf. Enn fremur til allra þeirra sem vinna við eigin atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi. Íslenskir starfsmenn erlendra sendiráða á Íslandi, sem kjósa að greiða tryggingagjald, fá þá sérmerkingu sem leiðir til þess að þeir fá ekki áætlun vanræki þeir greiðslu gjaldsins.
    Undanþága sendiráða til greiðslu tryggingagjalds er byggð á almennum reglum sem gilda um skattskyldu sendiráða, m.a. Vínarsamningnum um stjórnmálasamband sem hefur lagagildi á Íslandi samkvæmt lögum nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband. Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laganna skal sendierindreki sem hefur í þjónustu sinni menn, er undanþágurnar samkvæmt 2. mgr. greinarinnar taka ekki til, bundinn þeim skyldum, sem almannatryggingaákvæði móttökuríkisins leggja vinnuveitendum á herðar. Ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er undanþiggur sendiráð og sendiherra erlendra ríkja, sendiræðismenn og erlenda starfsmenn við sendiráð gjaldskyldu, gengur lengra en ákvæði 3. mgr. 33. gr. laga nr. 16/1971 í þá átt að veita þeim meiri ívilnun sem ekki getur talist andstætt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband.

     3.      Má líta á slíkt fyrirkomulag sem ígildi skattlagningar þar sem íslenskir starfsmenn erlendra sendiráða á Íslandi eiga ekki annars kost en að standa skil á tryggingagjaldi vilji þeir halda rétti sínum hér á landi til sjúkratrygginga, atvinnuleysisbóta, fæðingarorlofs o.s.frv.?
    Íslenskir starfsmenn erlendra sendiráða á Íslandi teljast vera á íslenskum vinnumarkaði. Af því leiðir að um launakjör þeirra skal fara samkvæmt gildandi lögum, reglum og kjarasamningum á Íslandi. Þrátt fyrir að sendiráðin njóti úrlendisréttar og njóti tiltekinna friðhelgis- og forréttinda samkvæmt ákvæðum Vínarsamningsins, er þeim að öðru leyti skylt að virða lög og reglur á Íslandi, sbr. 41. gr. samningsins. Svo virðist sem einhver sendiráð hafi samið við íslenska starfsmenn sína um að bæta þeim upp þá skerðingu á launum sem greiðslu tryggingagjaldsins nemur.

     4.      Á hvaða lagagrundvelli er ríkinu heimilt að taka við greiðslu tryggingagjalds úr hendi íslenskra starfsmanna erlendra sendiráða á Íslandi?
    Sjá svar við spurningu 2.

     5.      Kemur til greina að ríkið standi skil á greiðslu tryggingagjalds fyrir íslenska starfsmenn erlendra sendiráða á Íslandi eða mun ráðuneytið beita sér fyrir lagabreytingu sem gerir hlutaðeigandi sendiráðum skylt að greiða gjaldið?

    Þegar horft er til þess að um skatt er að ræða á launagreiðendur verður að telja heimildir íslenskra skattyfirvalda til álagningar tryggingagjalds á aðila sem ekki eru launagreiðendur viðkomandi starfsmanna eða falla ekki undir skattalögsögu Íslands samkvæmt 1.– 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hæpnar. Standi vilji stjórnvalda til að gera breytingar þar á, t.d. með niðurfellingu á 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, þarf að huga að því að sú breyting fari ekki í bága við ákvæði alþjóðasamninga um skattfrelsi erlendra ríkja en samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, skulu sendiríki og forstöðumaður sendiráðs undanþegin öllum sköttum og gjöldum til ríkis, sveitarfélaga og annarra umdæma að því er tekur til sendiráðssvæðisins. Ráðuneytið hefur hug á, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, að kannað verði til hlítar hvort sendiráðin geti engu að síður greitt tryggingagjaldið að eigin frumkvæði líkt og sendiráð Íslands gera í mörgum ríkjum.