Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 414. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 507  —  414. mál.




Frumvarp til laga


um tímabundnar endurgreiðslur vegna tónlistarupptöku á Íslandi.


Flm.: Eygló Harðardóttir, Birkir Jón Jónsson, Siv Friðleifsdóttir.


I. KAFLI
Markmið. Gildissvið.
1. gr.

    Markmið laga þessara er að stuðla að eflingu innlendrar tónlistarmenningar með tímabundnum stuðningi við upptöku tónlistar og framleiðslu tónlistarmyndbanda hér á landi.

2. gr.
    Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af framleiðslukostnaði sem fellur til við upptöku tónlistar og framleiðslu tónlistarmyndbanda hér á landi.
    Nú fellur meira en 80% af heildarupptökukostnaði tónlistar og/eða heildarframleiðslukostnaði tónlistarmyndbands til á Íslandi og skal þá endurgreiðsla reiknast af þeim heildarupptökukostnaði og/eða heildarframleiðslukostnaði sem til fellur á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Með framleiðslukostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til hér á landi og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Laun og verktakagreiðslur teljast eingöngu til framleiðslukostnaðar séu þau sannanlega skattlögð hér á landi.

II. KAFLI
Umsókn. Skilyrði endurgreiðslu.
3. gr.

    Umsókn um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar skal send því ráðuneyti er fer með málefni lista og menningar. Endurgreiðslubeiðni, ásamt fylgigögnum, skal berast áður en upptaka og/eða framleiðsla hefst hér á landi. Tónlistarráð samkvæmt lögum um tónlistarsjóð, nr. 76/2004, fer yfir umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu.

4. gr.

    Við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af framleiðslukostnaði skv. 2. gr. skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:
     a.      að viðkomandi upptaka og/eða framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa,
     b.      að stofnað sé sérstakt félag um upptökuna og/eða framleiðsluna á Íslandi; íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið telst sérstakt félag,
     c.      að fyrir liggi upplýsingar um helstu aðstandendur tónlistar og tónlistarmyndbands,
     d.      að fyrir liggi upplýsingar um innlenda aðila og hlutdeild þeirra við upptöku tónlistar og/eða gerð tónlistarmyndbands,
     e.      að fyrir liggi sundurliðuð áætlun um upptökukostnað og/eða framleiðslukostnað og fjármögnun, auk staðfestingar fjármögnunaraðila, ásamt greinargerð umsækjanda um að upptakan og/eða framleiðslan falli að markmiðum laganna,
     f.      að fyrir liggi upplýsingar um efni fyrirhugaðrar upptöku og/eða framleiðslu tónlistar og tónlistarmyndbanda, svo sem tónverk, handrit og upplýsingar um tökustaði,
     g.      að fyrir liggi að hið upptekna og/eða framleidda efni sé ætlað til almennrar dreifingar,
     h.      að ekki séu fyrir hendi vangreiddir skattar eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga eða aðrar vangoldnar kröfur hér á landi vegna upptökunnar og/eða framleiðslunnar.
    Verði breyting á áætluðum kostnaði, sbr. e-lið 1. mgr., eftir að upptaka og/eða framleiðsla hefst skal ráðuneytinu send ný kostnaðaráætlun.
    Við mat á umsókn um endurgreiðslu skal tónlistarráð skv. 3. gr. hafa heimild til þess að afla álits sérfróðra aðila um ætlað listrænt gildi viðkomandi upptöku og/eða framleiðslu.
    Nú er upptöku og/eða framleiðslu tónlistar eða tónlistarmyndbands ekki lokið innan þriggja ára frá dagsetningu vilyrðis fyrir endurgreiðslu sem veitt er á grundvelli 3. gr. og fellur þá vilyrðið úr gildi.

III. KAFLI
Endurgreiðsla.
5. gr.

    Hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar skal vera 20% af framleiðslukostnaði skv. 2. gr.
    Beiðni um útborgun skal send ráðuneytinu. Ráðherra ákvarðar endurgreiðslu að fenginni tillögu tónlistarráðs skv. 3. gr. Berist beiðnin eftir að sex mánuðir hafa liðið frá lokum framleiðslu tónlistar eða tónlistarmyndbands skal hafna henni. Skilyrði endurgreiðslu er að umsækjandi færi bókhald vegna þess kostnaðar sem hann æskir endurgreiðslu á í samræmi við lög um bókhald, nr. 145/1994, og lög um ársreikninga, nr. 3/2006. Framleiðslukostnaður telst allur sá kostnaður sem er heimilt að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og fellur til hér á landi og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. mgr. 2. gr. Enn fremur skal stjórn og framkvæmdastjóri umsækjanda staðfesta að kostnaðaruppgjör sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Nemi endurgreiðslan hærri fjárhæð en 20 millj. kr. skal kostnaðaruppgjör jafnframt vera endurskoðað. Í því skyni að staðreyna kostnaðaruppgjör getur tónlistarráð skv. 3. gr. óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá skattyfirvöldum sem og bókhaldi félagsins. Sé kostnaðaruppgjör og/eða fylgigögn þess ófullnægjandi skal nefndin veita umsóknaraðila frest til að skila inn fullnægjandi gögnum. Berist nefndinni ekki fullnægjandi gögn að loknum veittum fresti eða bendi gögn málsins til þess að kostnaðaruppgjör sé ekki í samræmi við ákvæði laga þessara skal hún leggja til við ráðherra að beiðni um endurgreiðslu verði hafnað.

6. gr.

    Hafi umsækjandi hlotið styrk úr tónlistarsjóði til upptöku og/eða framleiðslu sömu tónlistar og/eða tónlistarmyndbands dregst styrkurinn frá þeirri upphæð sem telst innlendur framleiðslukostnaður.
    Samanlagður styrkur úr tónlistarsjóði og heildarfjárhæð endurgreiðslu skv. 5. gr. skal ekki fara yfir 40% af heildarupptökukostnaði og/eða heildarframleiðslukostnaði sömu tónlistar eða tónlistarmyndbanda.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
7. gr.

    Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara. Í henni skal m.a. kveðið á um framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt lögum þessum, heimildir ráðherra til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, skilyrði endurgreiðslna, umsóknir, afgreiðslu umsókna og um ákvörðun um endurgreiðslu.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Lög þessi falla úr gildi 31. desember 2015. Endurgreiðslubeiðnir sem hafa verið samþykktar fyrir þau tímamörk halda þó gildi sínu.

Greinargerð.

    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á stofn sérstakt hvatakerfi til eflingar tónlistariðnaði á Íslandi sem veiti tónlistarupptökum og myndbandagerð sama endurgreiðsluhlutfall framleiðslukostnaðar og veitt er til kvikmyndagerðar.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að komið verði á sérstöku hvatakerfi þannig að fyrir fram ákveðið hlutfall framleiðslukostnaðar sem fellur til hér á landi við upptöku tónlistar eða tónlistarmyndbanda verði endurgreitt þegar verkinu lýkur. Skýrt er kveðið á um skilyrði vegna þessa, aðgerðin verður tímabundin og henni lýkur í árslok 2015. Kerfið verður einfalt og gagnsætt, það þjónar jafnt innlendum sem erlendum tónlistarmönnum, hvetur til uppbyggingar atvinnugreinarinnar á allra næstu árum og er til þess fallið að efla innlenda tónlistargerð samfara því að erlendir tónlistarmenn sjái sér hag í að starfa hér.
    Þetta einfalda endurgreiðslukerfi kæmi í stað ýmiss konar skattaívilnana sem erfitt er að fylgja eftir í framkvæmd og eru til þess fallnar að mismuna atvinnugreinum í skattalegu tilliti. Byggt er á góðri reynslu af endurgreiðslukerfi vegna kostnaðar við kvikmyndaframleiðslu.
    Megintilgangurinn er að stuðla að eflingu innlendrar tónlistarmenningar og efla innlenda tónlistargerð þar sem íslenskir tónlistarmenn koma til með að auka þekkingu sína í samstarfi við erlenda starfsbræður sína. Með því að laða að erlenda tónlistarmenn til að taka upp tónlist eða tónlistarmyndbönd verður unnt að þjálfa íslenskt fagfólk til sjálfstæðra verka á þessu sviði, bæta tækjakost tónlistariðnaðarins hér á landi og síðast en ekki síst koma Íslandi og íslenskri tónlist á framfæri með þátttöku stórra erlendra tónlistarframleiðenda.
    Gert er ráð fyrir að kerfið verði byggt þannig upp að endurgreitt verði tiltekið hlutfall af framleiðslukostnaði. Skilyrði er að kostnaðurinn falli til hér á landi. Beiðni um endurgreiðslu verður að berast áður en framleiðslan hefst og verður metið hvort forsenda sé fyrir endurgreiðslu. Með beiðninni skulu fylgja gögn, svo sem kostnaðaráætlun, sem gefi glögga mynd af umfangi verksins og hvernig fjármögnun verði háttað, ásamt staðfestingu fjármögnunaraðila ef hann er ekki framleiðandi. Ef ráðuneytið telur beiðnina endurgreiðsluhæfa gefur það út vilyrði til framleiðanda um að tiltekið hlutfall af kostnaði sem til fellur hér á landi verði endurgreitt að lokinni framleiðslu hér. Þá yrði að leggja fram endurskoðað kostnaðaruppgjör þar sem fram kæmi skipting kostnaðar. Ákvörðun um endurgreiðslu byggðist á kostnaðaruppgjöri og þá yrði einnig metið hvaða kostnaður væri endurgreiðsluhæfur.
    Með slíkri framkvæmd væri hægt að bjóða fram verulegan stuðning við tónlistargerð á Íslandi sem þó tæki alltaf mið af þeim tekjum sem ríkissjóður hefði af starfseminni. Kerfið væri öllum opið og því nytu innlendir framleiðendur þess á við aðra.
    Mikil fagþekking er til staðar á Íslandi á upptöku tónlistar og framleiðslu tónlistarmyndbanda. Með því að veita tónlistarmönnum sama endurgreiðsluhlutfall og veitt er til kvikmyndagerðar væri verið að fjölga atvinnumöguleikum á þessu sviði. Innviðir eru til þess að fara af stað með þess háttar átak og fjárfesting því lítil sem engin til að auka umsvifin.
    Frumvarp þetta er í samræmi við skýrslu atvinnumálahóps Framsóknarflokksins sem lögð var fram á flokksþingi 2011.