Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 418. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 524  —  418. mál.




Frumvarp til stjórnarskipunarlaga


um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944,
með síðari breytingum (kosningaaldur).

Flm.: Árni Þór Sigurðsson.


1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 33. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo: Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 16 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Þetta frumvarp er efnislega samhljóða þingsályktunartillögu sem Hlynur Hallsson flutti á 133. löggjafarþingi (þskj. 777, 514. mál).
    Þegar sú tillaga var flutt í byrjun árs 2007 var þeirra landa getið í greinargerð þar sem kosningaaldur hefði þegar verið lækkaður niður í 16 ár en það voru Brasilía, Níkaragva og Kúba. Í nokkrum ríkjum á Balkanskaga, þ.e. Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi, hafa ungmenni á vinnumarkaði sem eru orðin 16 ára einnig kosningarrétt. Viss straumhvörf urðu í þessum efnum þetta sama ár, 2007, því þá bættist Austurríki í hóp þeirra landa sem miða kosningaaldur við 16 ár; aðeins til Evrópuþingskosninga þurfa austurrískir þegnar að vera orðnir 18 ára til þess að mega kjósa.
    Raunar hefur kosningaaldur verið lækkaður víðar niður í 16 ár en þá einkum í kosningum til héraðs- eða sveitarstjórna. Því er þannig háttað á eynni Mön í Stóra-Bretlandi; í Þýskalandi er sá háttur hafður í sambandslandinu Bremen og í sveitarstjórnarkosningum í Neðra- Saxlandi, Mecklenburg-Vorpommern, Nordrhein-Westphalen, Sachsen-Anhalt og Slésvík- Holtsetalandi sem og í kantónunni Glarus í Sviss.
    Víða er til umræðu að fylgja þessu fordæmi, svo sem í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna, í Kanada og Ástralíu en enn hafa tillögur þess efnis ekki hlotið meirihlutastuðning á þingi. Skoski Þjóðarflokkurinn hefur enn fremur lagt til að kosningaaldur miðist við 16 ár í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands sem áformað er að verði haldin árið 2014.
    Ýmsir flokkar í nágrannalöndum okkar beita sér fyrir þessari lækkun kosningaaldurs, t.d. vinstri- og miðflokkar í Bretlandi, Danmörku, Írlandi og Noregi sem og Parti Québécois í Québec-fylki í Kanada.
    Af þessari upptalningu má því vera ljóst að krafan um lækkun kosningaaldurs fer nú vaxandi og breiðist til fleiri landa. Oft er hún tilkomin á lægri stjórnsýslustigum en nær síðan til efri stiga og má því segja að hún spretti fremur úr grasrótarhreyfingum en með boðum „að ofan“, að hún tengist kröfunni um beinna og nútímalegra lýðræði en vitundarvakning í þeim efnum hefur víða átt sér stað.
    Í greinargerð með þingsályktunartillögunni, sem áður var vísað í, segir um kosti og hugsanlega galla umræddrar breytingar:
    „Helstu rökin fyrir því að 16 ára einstaklingar hljóti kosningarrétt eru þau að það muni smám saman leiða til breyttra áherslna í landsmálunum þar sem kjörnir fulltrúar landsins mundu leitast við að verja hagsmuni stærri hluta þjóðarinnar. Kosningarréttur hefði þroskandi áhrif á ungt fólk og það yrði að ábyrgum þátttakendum í samfélaginu.
    Rök gegn því að ungt fólk fái kosningarrétt eru til dæmis þau að börn og unglingar búi ekki yfir vitsmunaþroska til að taka afstöðu í þjóðmálum eða sveitarstjórnarmálum, að þau láti tilfinningar ráða fremur en dómgreindina og séu líkleg til að verða fórnarlömb áróðursmeistara. Öll þessi rök lýsa vantrausti á ungt fólk og hafa reyndar einnig verið notuð á liðnum tímum til að koma í veg fyrir að konur, eignalausir, undirokaðir kynþættir og jafnvel almenningur hljóti kosningarrétt!“
    Ekki verður talið að 16 ára kosningaaldur fari í bága við ákvæði um 18 ára sjálfræðisaldur. Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er barni almennt tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar, til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar, sbr. t.d. 13.–15. gr. sáttmálans.
    Nú eru til meðferðar tillögur að nýrri stjórnarskrá og því er talið rétt að hreyfa þessu máli svo það geti fengið efnislega umfjöllun í þeirri vinnu.
    Flutningsmaður þessa frumvarps er þeirrar skoðunar að sú stjórnmálavitund sem mikilvægt er að ungmenni öðlist muni ekki aukast að ráði nema þau fái aukin áhrif á samfélagið og beri aukna ábyrgð á því. Markmið þessa frumvarps er því annars vegar að koma til móts við siðferðislegan rétt ungmenna til þess að láta að sér kveða í landsmálum, hins vegar að auka áhuga þeirra á stjórnmálum og vekja þau til aukinnar vitundar um mikilvægi lýðræðisins.