Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 384. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 535  —  384. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um
málsmeðferð landlæknis við úrlausn stjórnsýslumála.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra íhugað hvort rétt sé að gera úttekt á því hvort landlæknir hagi eða hafi hagað málsmeðferð við úrlausn stjórnsýslumála, einkum mála er varða ákvæði laga um landlækni og lýðheilsu, t.d. 7., 9., 10. og 12. gr. þeirra, í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, reglur stjórnsýsluréttar og góða stjórnsýsluhætti?

    Þann 14. ágúst 2012 barst velferðarráðherra erindi frá umboðsmanni Alþingis þar sem segir að athuganir á ýmsum kvörtunum og ábendingum varðandi eftirlit Embættis landlæknis sem umboðsmanni hafi borist hafi orðið honum tilefni til að staðnæmast við ýmis atriði er lúta að framkvæmd landlæknis á eftirlitinu, hvernig því er sinnt og leyst úr málum með tilliti til stjórnsýslureglna. Í erindinu var óskað eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um hvort á vegum þess stæði yfir eða væri fyrirhuguð vinna við athugun eða frekari útfærslu á reglum og fyrirkomulagi við það eftirlit sem landlæknir á samkvæmt lögum að hafa með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum.
    Í framhaldinu ritaði velferðarráðuneytið Embætti landlæknis bréf og fundaði í tvígang með fulltrúum embættisins þar sem m.a. var farið yfir atriði er snúa að málsmeðferð við úrlausn stjórnsýslumála og fyrirkomulag lögbundins eftirlits landlæknis. Á fundunum kom fram að vinna við endurnýjun verkferla, m.a. er varða eftirlit og afgreiðslu kvartana, hófst fyrr á árinu hjá embættinu auk þess sem endurnýjun gæða- og öryggishandbókar embættisins stendur yfir. Ráðuneytið lagði áherslu á að þessari vinnu yrði haldið áfram og óskaði eftir nánari upplýsingum skriflega.
    Ráðuneytið upplýsti umboðsmann Alþingis bréflega, 20. september 2012, um framgang málsins.
    Um miðjan október sl. bárust ráðuneytinu upplýsingar frá Embætti landlæknis en ráðuneytið taldi þær ekki lýsa nægilega vel hvernig embættið hyggst bæta verklag, verkferla og umgjörð um eftirlitið og framkvæmd stjórnsýslureglna. Því óskaði ráðuneytið, með bréfi dagsettu 31. október 2012, eftir nánari skýringum. Svör frá embættinu hafa ekki borist ráðuneytinu.
    Þann 18. október 2012 barst ráðuneytinu bréf frá umboðsmanni Alþingis þar sem hann tilkynnir að í ljósi viðbragða velferðarráðuneytisins við erindi hans telji hann ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu en muni fylgjast áfram með almennri þróun þessara mála og bregðast við ef hann telji tilefni til.
    Þá skal þess getið að þann 10. desember nk. mun ráðuneytið standa fyrir námskeiði fyrir þá starfsmenn Embættis landlæknis sem koma helst að eftirliti og kvörtunarmálum. Á námskeiðinu verður m.a. farið yfir helstu þætti stjórnsýslu- og upplýsingalaga, svo sem atriði er varða málshraða, jafnræðisreglu, upplýsingaskyldu, leiðbeiningarskyldu og rétt til aðgangs að upplýsingum.
    Velferðarráðuneytið tekur ábendingum umboðsmanns Alþingis alvarlega og mun fylgja því eftir að verklag, verkferlar og umgjörð um eftirlit Embættis landlæknis verði í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, reglur stjórnsýsluréttar og góða stjórnsýsluhætti.