Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 428. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 536  —  428. mál.
Breyttur texti.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998 (bann við myndatökum í dómshúsum).Flm.: Siv Friðleifsdóttir.1. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Við meðferð sakamála eru öðrum en dómstólum sjálfum óheimilar myndatökur og hvers kyns aðrar upptökur í dómshúsum. Frá þessu má víkja í einstök skipti með leyfi dómstjóra, enda sé þess gætt að myndatökum og upptökum verði ekki beint að aðilum dómsmáls, án þeirra samþykkis. Einnig eru óheimilar myndatökur af aðilum dómsmáls í sakamálum á leið í eða frá dómshúsi, án þeirra samþykkis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir nýmæli um bann við myndatökum og öðrum upptökum í dómshúsum við meðferð sakamála sem og af aðilum sakamáls á leið í eða frá dómshúsi, án þeirra samþykkis, að norskri og danskri fyrirmynd. Undanskildar eru þær upptökur sem fara fram á vegum dómstólsins sjálfs, og eru þar hafðar í huga þær upptökur sem eru eðlilegar við rekstur dómstólsins, svo sem hljóðritun á framburði vitna og hefðbundin notkun öryggismyndavéla. Þá er gert ráð fyrir því að dómstjóri geti heimilað myndatökur og aðrar upptökur í einstök skipti með nánar greindu skilyrði og er þar átt við upptökur er ekki snerta aðila dómsmáls, sem eru í dómshúsinu vegna málsins. Má hér hugsa sér myndatöku vegna almennrar fréttar um dómstólinn eða viðtals við dómara og svo framvegis.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í dönsku réttarfarslögunum (retsplejeloven) er meginreglan sú að hljóðritun eða myndatökur eru bannaðar, sbr. 1. mgr. 32. gr. laganna. Enn fremur eru myndatökur í dómshúsum bannaðar, nema með sérstöku leyfi. Sama gildir um myndatökur af grunuðum mönnum, sakborningum eða vitnum í sakamáli sem eru á leið til eða frá þinghaldi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ákvæðunum í norsku dómstólalögunum (Domstolloven) svipar nokkuð til dönsku reglnanna. Myndatökur og hljóðritanir í þinghaldi í sakamálum eru bannaðar og einnig er bannað að hljóðrita eða taka myndir af sakborningi á leið til eða frá þinghaldi eða í dómshúsi því sem þinghald fer fram, sbr. 131. gr. a laganna. Heimilt er að víkja frá þessu ef veigamikil rök mæla með því.
    Mjög hefur færst í vöxt að reynt sé að ná myndum af aðilum og vitnum í dómsmáli þegar þeir sinna erindum sínum í dómshúsum. Einkum á þetta við í opinberum málum. Á síðustu árum hefur jafnvel verið tíðkað að beina myndavélum inn í dómsali þegar dyr eru opnaðar á meðan á þinghaldi stendur, svo sem þegar nýtt vitni gengur í salinn. Leiðir það til þess að hinn ákærði og vitni þurfa jafnan að hafa vara á sér að þessu leyti á meðan á þinghaldinu stendur, í stað þess að einbeita sér að málsvörn sinni eða vitnaleiðslu. Þykir þessi aðstaða vera til þess fallin að trufla málsaðila. Það hefur slæm áhrif á bæði sakborninga og vitni. Dæmi eru um að vitni hafa viljað koma sér undan því að bera vitni vegna þessa. Einnig er ljóst að tækninni hefur fleygt fram hvað varðar gsm-síma, spjaldtölvur og myndavélar þannig að unnt er að taka myndir af til dæmis skjölum í dómsal, eða skjölum í fórum sakborninga eða vitna í dómshúsi. Slíkar myndatökur geta haft óeðlileg áhrif á gang mála.
    Meginreglan er sú að þinghöld skulu háð í heyranda hljóði skv. 8. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Sú regla er ekki skert með því að banna myndatökur af aðilum máls inni í dómshúsi eða nálægð dómshúss eins og tíðkast í Danmörku og í Noregi.
    Sú takmörkun sem frumvarpið gerir ráð fyrir gengur því ekki of nærri meginreglunni um opin þinghöld að mati flutningsmanns.