Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 433. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 541  —  433. mál.




Fyrirspurn



til fjármála- og efnahagsráðherra um kostnað við breytingar á tölvukerfum
á sviði beinna skatta í tengslum við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.

Frá Jóni Bjarnasyni.


     1.      Hver er kostnaðurinn við aðlögunarvinnu íslenskra stjórnvalda að Evrópusambandinu vegna breytinga á tölvukerfum á sviði beinna skatta vegna 16. samningskafla aðildarviðræðnanna um skattamál, m.a. við:
                  a.      aðlögun á upplýsingatæknikerfi til að gera upplýsingaskipti möguleg um tekjur fólks með aðsetur erlendis af sparnaði (sbr. sparnaðartilskipun Evrópusambandsins),
                  b.      sjálfvirkt kerfi fyrir upplýsingaskipti um tekjur af sparnaði í formi vaxtagreiðslna með rafrænum og samræmdum hætti?
     2.      Eru fleiri slík verkefni við breytingar á tölvukerfum á sviði beinna skatta í tengslum við aðildarumsókn að Evrópusambandinu en framangreind, til að mynda þverlæg?
     3.      Hver er kostnaðurinn við að efla stjórnsýslugetu embættis ríkisskattstjóra og tollstjóra vegna þessara verkefna á sviði tölvukerfa með ráðningum og þjálfun starfsmanna?
     4.      Hvaða tæknibúnað þarf vegna þessara verkefna og í hvaða áföngum hefur verið lofað að taka hann upp miðað við tímasett loforð?
     5.      Hverjir eru áfangar eða tímamörk fyrir verkefnin, eru vinna við þau hafin, hvenær á þeim að ljúka og hvenær er gert ráð fyrir að innleiðingu verði lokið?
     6.      Í hvaða tilvikum er stuðst við útvistunarsamninga vegna þessara verkefna, svo sem þróunar, prófana, reksturs og viðhalds hugbúnaðar, vélbúnaðar og samskiptakerfa?
     7.      Hefur verið gerð grein fyrir kostnaði við verkefnin í fjárlagfrumvarpi fyrir árið 2013? Verður gert ráð fyrir honum í útgjaldaáætlun fyrir 2014 og í áætlun um ríkisfjármál, sbr. 4. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis?
    Svar óskast sundurliðað eftir árum fyrir hvern lið, þ.m.t. áætlaður eða fyrirhugaður kostnaður.


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.


    Samningsafstaða Íslendinga í 16. kafla, um skattamál, hefur nýlega verið afgreidd af hálfu ríkisstjórnarinnar og send Evrópusambandinu. Þar eru gefnar skuldbindandi yfirlýsingar um aðlögun og formlegan undirbúning aðildar í þessum málaflokki. Efni 16. kafla, um skattamál, er ekki hluti af EES-samningnum og stofnanarammi, bókhalds- og tölvukerfi ESB á þessu sviði eru allt annars konar en nú er hér á landi. Skuldbindandi yfirlýsingum og aðlögun íslenskra stjórnvalda er því beinlínis ætlað að uppfylla kröfur ESB í samningaviðræðunum: „Ísland mun hafa innleitt allt útistandandi regluverk og sett upp nauðsynlegan stofnanaramma og fyllilega rekstrarhæf tölvukerfi sem gera samhæfingu og samtengingu við viðkomandi kerfi Evrópusambandsins mögulega við aðild.“ Mikilvægt er að kostnaðarmat á slíkum loforðum liggi fyrir áður en þau eru gefin.