Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 446. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 560  —  446. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008,
með síðari breytingum (hlutverk Þróunarsamvinnunefndar).


Frá utanríkismálanefnd.


1. gr.

    3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Alþingi kýs sjö fulltrúa til setu í Þróunarsamvinnunefnd til fjögurra ára í senn og sjö fulltrúa til vara, sbr. 4. gr. Nefndin kýs sér formann og varaformann úr hópi nefndarmanna. Ráðherra tilnefnir einn fulltrúa til starfa með nefndinni. Jafnframt situr forstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands eða fulltrúi hans fundi nefndarinnar. Hlutverk Þróunarsamvinnunefndar er að tryggja aðkomu fulltrúa þingflokka að stefnumarkandi umræðu og ákvörðunum ráðherra um alþjóðlega þróunarsamvinnu til lengri tíma, m.a. um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu, framlög til þróunarsamvinnu og skiptingu þeirra milli marghliða og tvíhliða samvinnu, forgangsröðun í þróunarsamvinnu, þ.m.t. um þátttöku Íslands í starfi fjölþjóðastofnana, og um val á samstarfslöndum, sbr. 3. og 4. gr. Enn fremur fjallar nefndin um starfsáætlanir Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Þróunarsamvinnunefnd kemur saman til fundar að jafnaði mánaðarlega. Þróunarsamvinnustofnun Íslands leggur nefndinni til aðstöðu og greiðir kostnað vegna starfsemi hennar. Nefndin upplýsir utanríkismálanefnd reglulega um störf sín.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram í því skyni að skýra hlutverk Þróunarsamvinnunefndar skv. 2. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Þannig verði tekinn af allur vafi um aðkomu Alþingis og fulltrúa þingflokkanna að stefnumarkandi umræðu og ákvörðunum ráðherra um málefni alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, tvíhliða sem marghliða. Mikilvægt er að Alþingi hafi skýra aðkomu í ljósi þeirra miklu fjármuna sem veittir eru til þróunarsamvinnu nú þegar og ætlunin er að auka á næstu árum.
    Utanríkismálanefnd hefur um nokkurt skeið haft alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til umfjöllunar. Meðal þeirra atriða sem lögð hefur verið áhersla á við umfjöllunina er aðkoma Alþingis að málefnum tengdum þróunarsamvinnu og verkefni og skipan Þróunarsamvinnunefndar í kjölfar niðurlagningar stjórnar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sbr. setningu laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008.
    Nefndin ítrekar nú sem fyrr mikilvægi þverpólitísks samstarfs og samstöðu, sem og langtímastefnumörkunar á sviði þróunarsamvinnu.
    Í frumvarpinu er lagt til að 3. mgr. 2. gr. laganna verði ítarlegri en nú er.
    Lagt er til að kveðið verði á um það að Þróunarsamvinnunefnd kjósi sér formann og varaformann úr hópi nefndarmanna, ráðherra tilnefni einn fulltrúa til starfa með henni og að forstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands eða fulltrúi hans sitji jafnframt fundi nefndarinnar. Með þessu er í fyrsta lagi tryggt að Þróunarsamvinnunefnd verði kölluð saman, að beiðni formanns eða varaformanns í forföllum þess fyrrnefnda. Í öðru lagi er tryggt að nefndin eigi gott samband við ráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun.
    Þá er kveðið á um þau efnisatriði sem Þróunarsamvinnunefnd skuli fjalla um. Með ákvæðinu er bætt við hlutverk Þróunarsamvinnunefndar til samræmis við 3. og 4. gr. laganna þar sem kveðið er á um ýmis atriði sem þarfnast stefnumörkunar og ákvörðunar ráðherra. Þá er lögð til viðbót við ákvæðið um að nefndin fjalli um starfsáætlanir Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Enn fremur að bætt verði við ákvæði um reglubundin störf Þróunarsamvinnunefndar, sem komi að jafnaði mánaðarlega saman til fundar. Með ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að Þróunarsamvinnustofnun leggi nefndinni til aðstöðu og greiði kostnað vegna starfsemi hennar. Að lokum er lagt til að kveðið verði á um reglubundna upplýsingagjöf Þróunarsamvinnunefndar til utanríkismálanefndar.