Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 456. máls.

Þingskjal 578  —  456. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit
með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum
(álagningarstofnar eftirlitsgjalds).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað „0,0338%“ í a-lið 1. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0323%.
     b.      Í stað „0,0303%“ í b-lið 1. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0292%.
     c.      Í stað „0,356%“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 0,404%.
     d.      Í stað „0,192%“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 0,223%.
     e.      Í stað „0,41%“ í 4. og 5. tölul. 1. mgr. kemur: 0,51%.
     f.      Í stað „0,033%“, „0,025%“ og „300.000 kr.“ í 6. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0344%; 0,015%; og: 200.000 kr.
     g.      Í stað „0,7%“ í 7. tölul. 1. mgr. kemur: 0,71%.
     h.      Í stað „0,81%“ í 8. tölul. 1. mgr. kemur: 0,82%.
     i.      Í stað „0,011%“, „1.140.000 kr.“, „1.720.000 kr.“, „3.000.000 kr.“, „5.580.000 kr.“ og „6.470.000 kr.“ í 9. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0114%; 1.200.000 kr.; 1.930.000 kr.; 3.370.000 kr.; 6.260.000 kr.; og: 7.260.000 kr.
     j.      Í stað „0,0043%“ í 11. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0068%.
     k.      Í stað „0,0092%“ í 12. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0088%.
     l.      9. mgr. orðast svo:
                  Fjármálafyrirtæki sem er stýrt af slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess hefur verið afturkallað, greiðir fastagjald. Gjaldið miðast við það starfsleyfi sem fyrirtækið hafði áður en það fór undir yfirráð slitastjórnar eða bráðabirgðastjórnar og greiðist samkvæmt eftirfarandi sundurliðun: Viðskiptabankar 6.000.000 kr., aðrar lánastofnanir 3.000.000 kr. og önnur fjármálafyrirtæki 1.000.000 kr. Gjald samkvæmt þessari málsgrein greiðist þangað til slitum er lokið en um gjaldið fer skv. 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Fyrirtæki greiðir eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi töluliðum 1. mgr. þar til það fer undir yfirráð slitastjórnar eða bráðabirgðastjórnar en hlutfallslega skv. 2. málsl. þessarar málsgreinar frá því tímamarki.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í samvinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins að fenginni skýrslu eftirlitsins um áætlað rekstrarumfang stofnunarinnar fyrir árið 2013.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, sem fjallar um gjaldskylda aðila, álagningarstofn og álagt gjald.
    Í 1. gr. laganna er kveðið á um að eftirlitsskyldir aðilar og aðrir gjaldskyldir aðilar skv. 5. gr. laganna skuli standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Um ákvörðun álagningar eftirlitsgjalds er fjallað í 2. gr. laganna, en þar segir:
    „Fyrir 1. júlí ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júní ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal ráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Ráðuneytið hefur yfirfarið rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins og er sammála því mati á þörf eftirlitsins fyrir fjármagn sem þar kemur fram. Er því frumvarp þetta lagt fyrir til að breyta eftirlitsgjaldi í samræmi við 2. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frá því að Fjármálaeftirlitið tók til starfa hefur verið leitast við að tryggja að starfsemi þess væri í samræmi við kjarnareglur alþjóðlegu bankaeftirlitsnefndarinnar um virkt fjármálaeftirlit (e. Basel Core Principles for Effective Banking Supervision). Til þess að svo megi verða er óhjákvæmilegt að stofnuninni sé tryggt nægilegt rekstrarfé, fullnægjandi lagaheimildir til eftirlits, virk ákvæði til framfylgni ákvarðana og sjálfstæði gagnvart öðrum hagsmunum en þeim sem felast í sjálfu eftirlitinu. Markmið frumvarpsins er að fjárhagsleg staða Fjármálaeftirlitsins verði áfram tryggð þannig að hún samræmist þessum kjarnareglum.
    Áætlaður rekstrarkostnaður að frádregnum 11 millj. kr. sértekjum árið 2013 nemur 1.944 millj. kr. Til samanburðar er rekstrarkostnaður að frádregnum 5 millj. kr. sértekjum áætlaður 1.912 millj. kr. samkvæmt samþykktri áætlun yfirstandandi árs eða 1,7% hækkun milli ára. Gert er ráð fyrir að ofangreindur rekstrarkostnaður ársins 2013 verði fjármagnaður með annars vegar eftirlitsgjaldi á eftirlitsskylda aðila og hins vegar yfirfærslu á eigin fé frá fyrra ári. Eftirlitsgjald á árinu 2013 er áætlað 1.743 millj. kr. og yfirfærsla frá fyrra ári 201 millj. kr. eða samtals 1.944 millj. kr. Sambærilegar fjárhæðir samkvæmt samþykktri áætlun ársins 2012 eru 1.859 millj. kr. eftirlitsgjald og 53 millj. kr. yfirfærsla frá fyrra ári eða samtals 1.912 millj. kr. Eftirlitsgjöld lækka þannig um 116 millj. kr., úr 1.859 millj. kr. í 1.743 millj. kr., eða um 6%. Áætluð yfirfærsla eigin fjár frá fyrra ári á árinu 2013 að fjárhæð 201 millj. kr. skýrist annars vegar af 243 millj. kr. hærra eigin fé í árslok 2011 en samþykkt áætlun ársins 2012 gerði ráð fyrir og hins vegar af 42 millj. kr. framlagi í varasjóð sem hækkar úr 38 millj. kr. í 80 millj. kr. Umrætt 243 millj. kr. frávik á áætluðu eigin fé í árslok 2011 skýrist fyrst og fremst af minni útgjöldum árið 2011 vegna seinkunar á ráðningu starfsmanna, fyrst og fremst vegna húsnæðisskorts.
    Viðbrögð við því sérstaka ástandi sem skapaðist í kjölfar hrunsins hefur sett sterkan svip á allt innra starf stofnunarinnar síðustu ár. Stærsti hluti bankakerfisins hefur verið endurreistur í breyttri mynd, nýjum stofnunum fylgt markvisst eftir á sama tíma og skilanefndum og slitastjórnum hefur verið fylgt úr hlaði. Hlutverk stofnunarinnar við að tryggja virka fjármálaþjónustu í landinu hefur verið umfangsmikið og krafist skipulagningar og samhæfingar.
    Samhliða þessari vinnu hefur Fjármálaeftirlitið unnið að uppbyggingu innra skipulags stofnunarinnar að teknu tilliti til niðurstaðna úttekta innlendra og erlendra ráðgjafa.
    Rannsóknir á meintri refsiverðri háttsemi í starfsemi fjármálastofnana í aðdraganda hrunsins hafa verið nokkuð umfangsmiklar. Þá hafa stofnuninni verið falin ýmis ný verkefni auk þess sem gerðar hafa verið verulegar breytingar á ýmsum ákvæðum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem lagt hafa auknar skyldur á stofnunina í formi eftirlitsheimilda. Þá gegnir Fjármálaeftirlitið æ ríkara hlutverki við mat á kerfislegum áhættum og fjármálastöðugleika sem og mótun og stefnumörkun varðandi framtíðarskipan fjármálakerfisins á Íslandi.
    Þessa stefnu má enn fremur sjá í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 16. ágúst 2011 þar sem því er heitið að Fjármálaeftirlitið fái fullnægjandi rekstrarfé til þess að tryggja að stofnunin geti sinnt skyldum sínum með árangursríkum hætti, sbr. 4. lið 13. tölul. yfirlýsingarinnar.
    Frumvarpi þessu fylgja eftirtalin fylgiskjöl:
     I.      Rekstraráætlun 2013 – skýrsla til efnahags- og viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2013.
     II.      Viðauki með rekstraráætlun 2013, umbótaverkefni Fjármálaeftirlitsins 2013 – 2015 og framtíðarsýn árið 2015.
     III.      Umsögn samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila um drög að skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2013.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins eru breytingar á hundraðshlutum eftirlitsgjalda og fastagjöldum sem lögð eru á eftirlitsskylda aðila.
    Í skýrslu til efnahags- og viðskiptaráðherra (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra) um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins sem birt er sem fylgiskjal I með frumvarpi þessu er að finna sundurliðun einstakra kostnaðarliða. Starfsmannafjöldi ræður mestu um helstu rekstrarstærðir Fjármálaeftirlitsins, þ.e. laun og launatengd gjöld, húsnæðisþörf og sérfræðiþjónusta. Helstu kostnaðarliðir í rekstri Fjármálaeftirlitsins samkvæmt áætlun fyrir árið 2012 eru:

a. Launakostnaður.
    Mikilvægt er fyrir Fjármálaeftirlitið að hafa ávallt á að skipa öflugum, vel menntuðum og reyndum hópi þjálfaðra sérfræðinga. Áætlaður launa- og starfsmannatengdur kostnaður er 1.426 millj. kr. að teknu tilliti til 3,25% samningsbundinna launahækkana. Þessi liður hækkar um 4% milli ára en hækkunin skýrist af því að í áætlun 2012 var gert ráð fyrir að starfsmenn hæfu störf á mismunandi tímum ársins en í áætlun 2013 er gert ráð fyrir að allir verði við störf við upphaf ársins.
    Áætlunin gerir ráð fyrir að fjöldi starfsmanna verði 125. Áfram verður unnið að uppbyggingu eftirlits stofnunarinnar í samræmi við áætlanir byggðar á mati franska ráðgjafans Pierre-Yves Thoraval sem unnið var fyrir íslensk stjórnvöld. Meginmarkmið þeirrar vinnu er að byggja upp áhættumatskerfi (e. Risk Model) sem er meginforsenda þess að stofnunin geti uppfyllt alþjóðlega staðla hvað varðar bankaeftirlit (e. Basel Core Principles for Banking Supervision, BCP).
    Meiri hluti starfsmanna sem unnið hafa að rannsóknum á föllnum fjármálafyrirtækjum munu á árinu 2013 snúa sér að vinnu við vettvangsathuganir auk vinnu að samtímarannsóknum enda mikilvægt fyrir stofnunina að efla þann þátt starfseminnar í ljósi sögunnar og nýta þá góðu reynslu og þekkingu sem áunnist hefur á undanförnum árum. Þá munu tvö stöðugildi verða tengd vinnu við frágang hrunrannsókna, vera sérstökum saksóknara til aðstoðar eftir þörfum og annast ritun lærdómsskýrslu. Tilgangur slíkrar skýrslu er að greina frá umfangi rannsóknanna, aðferðafræði vinnunnar, lærdómi og tegund brota. Vonir standa til þess að niðurstöður skýrslunnar muni gefa góða innsýn í rannsóknarmálin en þekking og reynsla af vinnunni mun nýtast stofnuninni.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra ákvarðar laun stjórnarmanna. Stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins hefur sent ráðuneytinu tillögu þess efnis að laun formanns verði lækkuð úr 600 í 400 þús. kr. á mánuði. Gert er ráð fyrir að laun annarra stjórnarmanna verði óbreytt. Að gefnum þeim forsendum er gert ráð fyrir að laun stjórnarmanna lækki um 12% og fari úr 24,2 millj. kr. í 21,1 millj. kr. með launatengdum gjöldum.

b. Húsaleiga og rekstur á húsnæði.
    Húsaleiga núverandi húsnæðis byggist á föstum samningum sem bundnir eru vísitölu neysluverðs. Áætlaður kostnaður vegna leigu og reksturs húsnæðis er 98,3 millj. kr., þar af er húsaleiga um 70 millj. kr., sem er hækkun um 13% milli ára. Hækkunin skýrist af hækkunum á sameiginlegum rekstrarkostnaði húsnæðisins (hita og rafmagns) og verðlagshækkunum auk þess sem nokkur vanáætlun var á þessum lið í áætlun 2012 er varðar ræstingu og öryggismál.

c. Sérfræðikostnaður.
    Áætlun um almennan sérfræðikostnað stofnunarinnar hækkar nokkuð milli ára eða um 27% og er kostnaðurinn áætlaður um 180,3 millj. kr. á árinu 2013 í stað 142 millj. kr. Stærsti hluti kostnaðarins lýtur að upplýsingatækni. Er hér um að ræða kostnað vegna áframhaldandi uppbyggingar á vöruhúsi gagna, gagnaskilum eftirlitsskyldra aðila, greiningar á gögnum og smíði áhættumatskerfis. Annar sérfræðikostnaður lýtur að ýmiss konar sérfræðiþjónustu, svo sem endurskoðenda, lögfræðinga, ráðningarþjónustu, sérfræðiþjónustu í tengslum við dómsmál og vegna ráðgjafarnefndar um mat á hæfi stjórnarmanna.

d. Rekstrarkostnaður samtals.
    Samtala gjaldaliða er áætluð 1.955 millj. kr. á árinu 2013 samanborið við 1.917,1 millj. kr. í áætlun ársins 2012. Þetta er um 38 millj. kr. hækkun milli ára eða rétt um 2%. Eftirlitsgjaldið mun hins vegar lækka um 85 millj. kr. eða 4,4% vegna áhrifa af yfirfærslu eigin fjár frá fyrra ári og að teknu tilliti til breytinga á varasjóði, sbr. enn fremur umfjöllun í kafla II hér á undan.

IV. Samráð.
    Í 2. gr. laga nr. 99/1999 er kveðið á um lögbundið samráð við samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs. Skal álit samráðsnefndarinnar fylgja skýrslu Fjármálaeftirlitsins til ráðherra. Í skýrslu samráðsnefndarinnar, sem birt er sem fylgiskjal III með frumvarpi þessu, kemur eftirfarandi fram sem niðurstaða nefndarinnar:
     „Samráðsnefnd telur að með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar frá fyrri áætlunum, þar sem vexti stofnunarinnar eru settar skýrar skorður og meðal annars starfsmannafjöldi takmarkaður við rúmlega 120 í staðinn fyrir 140 þegar mest var boðið, sé betur en áður gætt að þeim ólíku sjónarmiðum sem taka þarf tillit til við eflingu og rekstur FME. Samráðsnefndin brýnir fyrir stjórn og stjórnendum FME að gæta vel að aðhaldi og hagræðingu í rekstri FME.
    Frekari viðræður þurfa að fara fram á milli aðila um skiptingu eftirlitsgjaldsins og mögulega þarf að breyta hvernig gjald er lagt á aðila eins og fagfjárfestasjóði, sem FME hefur mjög takmarkað eftirlit með.
    Álit samráðsnefndarinnar er að drög stjórnenda FME að rekstraráætlun 2013, eins og þau hafa verið lögð fram fyrir nefndina í dag, teljist raunhæf.
    Samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila þakkar það samráð sem stjórn og stjórnendur FME hafa haft við nefndina við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2013.“
    Eins og fyrr er frá greint er lagt til að álagt eftirlitsgjald lækki á árinu 2013 frá því sem gert er ráð fyrir í samþykktri áætlun fyrir yfirstandandi ár, sbr. enn fremur umfjöllun í II. kafla hér á undan. Þar sem rekstur Fjármálaeftirlitsins er að öllu leyti fjármagnaður beint af þeim sem lúta eftirliti stofnunarinnar er ljóst að þeir einir verða fyrir áhrifum af breytingu á fjármögnun á rekstri eftirlitsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á ákvæðum 5. gr. laganna. Breytingar skv. 1. mgr. á álagningarhlutföllum frá gildandi lögum skýrast af lögbundnu endurmati á kostnaðarskiptingu við rekstur Fjármálaeftirlitsins, þróun álagningarstofna eftirlitsskyldra aðila og mati á kostnaðardreifingu, sbr. fylgiskjal 2 með rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2013.
    Gert er ráð fyrir lækkun gildandi álagningarhlutfalla viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, Lánasjóðs sveitarfélaga og fagfjárfestasjóða, en hækkun álagningarhlutfalla annarra eftirlitsskyldra aðila. Gert er ráð fyrir hækkun álagningarhlutfalls lífeyrissjóða úr 0,011 í 0,0114 og enn fremur er í 9. tölul. 1. mgr. gert ráð fyrir hækkunum á fastagjöldum lífeyrissjóða sem eru eins og áður í fimm þrepum og er lægsta þrepið samkvæmt frumvarpinu nú 1.200.000 kr. en það hæsta 7.260.000 kr. Breytingar frá gildandi ákvæði eru miðaðar við að hlutur fastagjaldanna verði um 60% af heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóðina, en stuðst hefur verið við það hlutfall sem viðmið frá og með árinu 2007 í samræmi við óskir Landssamtaka lífeyrissjóða.
    Gert er ráð fyrir lækkun álagningarhlutfalls fagfjárfestasjóða úr 0,025% í 0,015% og enn fremur er í 6. tölul. 1. mgr. gert ráð fyrir lækkun lágmarksgjalds á þessa sjóði úr 300.000 kr. í 200.000 kr. Breytingin tekur mið af því að kostnaður við eftirlit með fagfjárfestasjóðum dreifist á fleiri og stærri sjóði en áætlað hafði verið við upphaf eftirlits með þeim.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 9. mgr. sem varða lækkun á fastagjöldum fjármálafyrirtækja sem stýrt er af slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi fyrirtækisins hefur verið afturkallað. Gert er ráð fyrir að fast gjald á viðskiptabanka í þessari stöðu verði 6.000.000 kr., en gjaldið er nú 35.000.000 kr., fast gjald á aðrar lánastofnanir verði 3.000.000 kr., en gjaldið er nú 18.500.000 kr., og fast gjald á önnur fjármálafyrirtæki verði 1.000.000 kr., en gjaldið er nú 8.500.000 kr. Eftirlitsgjaldi á þessa aðila er ætlað að standa undir kostnaði við rannsóknarvinnu sem tengist bankahruninu og því hlutverki sem Fjármálaeftirlitinu er ætlað gagnvart föllnum fjármálafyrirtækjum. Þá er, til áréttingar, tekið fram í ákvæðinu að hér eftir sem hingað til skuli greiða eftirlitsgjöldin í samræmi við 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., enda um opinber gjöld að ræða sem leggjast á fjármálafyrirtæki eftir að þau hafa verið tekin til slita samkvæmt úrskurði héraðsdóms.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal I.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum (álagningarstofnar eftirlitsgjalds).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á álagningarhlutföllum eftirlitsgjalds á fjármálastofnanir. Samkvæmt lögum skal Fjármálaeftirlitið gefa ráðherra skýrslu fyrir 1. júlí ár hvert um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Skýrslunni skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi stofnunarinnar. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til breytinga á eftirlitsgjaldinu að mati ráðherra skal hann leggja frumvarp fyrir Alþingi þar að lútandi. Tekjur af þessum gjöldum færast á tekjuhlið ríkissjóðs í fjárlögum eins og aðrir skattar en eru markaðar til fjármögnunar á rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins á útgjaldahlið.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir breytingum á flestum álagningarhlutföllum, fastagjöldum og eftirlitsgjöldum þeirra stofnanna sem greiða kostnað vegna eftirlitsins. Tillögurnar taka mið af mati stofnunarinnar á fjárþörf sinni á næsta ári og breyttum áherslum í eftirliti á fjármálamarkaði. Gert er ráð fyrir að hlutfallstölur lánastofnana lækki en hækki hins vegar hjá vátryggingafélögum, vátryggingamiðlurum, lífeyrissjóðum, verðbréfamiðlurum og hjá rekstrarfélögum verðbréfasjóða. Þá er gert er ráð fyrir að gjaldið hækki einnig hjá Íbúðalánasjóði en með breytingum á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, hefur Fjármálaeftirlitinu verið falið aukið eftirlitshlutverk með sjóðnum.
    Til grundvallar að tillögum frumvarpsins er fjárhagsáætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2013. Þar er gert ráð fyrir að gjaldið skili um 1.743 m.kr. tekjum sem er um 6% lækkun frá yfirstandandi ári. Þessu til viðbótar koma aðrar sértekjur sem nema 11 m.kr. Auk þess er gert ráð fyrir að stofnunin muni eiga afgang frá fyrri árum og að gengið verði á eigið fé stofnunarinnar sem nemur 201 m.kr. Samtals er því áætlað að til fjármögnunar á rekstrarútgjöldum verði 1.955 m.kr. Stærsti einstaki liður rekstrarútgjaldanna eru laun og launatengd gjöld sem nema 1.426 m.kr. og hækka um 4% milli ára. Aðrir rekstrarliðir, þ.e. annar kostnaður án eignakaupa, nema um 509 m.kr. og hækka um 14% frá fyrra ári. Heildarútgjöldin hækka hins vegar ekki nema um 2% vegna 80 m.kr. lækkunar í eignakaupum eða um 80%.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 er á hinn bóginn gert ráð fyrir að tekjur af eftirlitsgjaldinu verði 1.696 m.kr. sem er um 47 m.kr. lægri fjárhæð en áætlun Fjármálaeftirlitsins gerir ráð fyrir. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 er gengið út frá því að tímabundin hækkun eftirlitsgjalds gangi til baka en gjaldið var hækkað árið 2011 vegna rannsóknarverkefna sem tengjast falli bankanna. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að stöðugildum verði fækkað um 15 þar sem verkefnunum ljúki á þessu ári. Er það í samræmi við áætlun sem birt var þegar heimild vegna þessara stöðugilda fékkst í fjárlögum fyrir árið 2011, m.a. sem fylgiskjal með frumvarpi sem lagt var fram til að breyta eftirlitsgjöldunum og lagt var fram á haustþingi 2010. Þessi fyrirætlan kemur einnig fram í rekstraráætlun fyrir árið 2012 í nóvember 2011 og einnig í grein sem birt var á heimasíðu stofnunarinnar fyrr á þessu ári. Í samræmi við þessi áform er í fjárlagafrumvarpinu reiknað með að fjárheimild vegna útgjalda stofnunarinnar verði 1.746 m.kr. á næsta ári. Verði stofnuninni fært að nýta 201 m.kr. afgangsheimildir til starfseminnar þessu til viðbótar, eins og horfur eru á, verður heildarfjárheimildin um 1.947 m.kr. eða nokkuð nærri þeirri veltu sem rekstraráætlun stofnunarinnar miðast nú við. Þess ber að geta að í fjárlagafrumvarpinu er áætlað að sértekjur stofnunarinnar verði 50 m.kr. í ljósi bókfærðra tekna undanfarinna ára en í rekstraráætlun stofnunarinnar er gert ráð fyrir að þær verði einungis 11 m.kr. eins og áður segir.
    Ein af forsendum rekstraráætlunar stofnunarinnar er að hún fái IPA-styrk frá Evrópusambandinu en honum á að verja til umbótaverkefna sem standa munu yfir næstu þrjú árin. Verkefnin miða annars vegar að því að koma á heildstæðu áhættumiðuðu eftirlitskerfi og hins vegar að koma á nýju skipulagi á stjórnun stofnunarinnar. Gera má ráð fyrir að töluverður fjöldi starfsmanna verði að vinna að þessum verkefnum næstu þrjú árin. Í rekstraráætluninni hefur verið gert ráð fyrir þeim hluta umbótaverkefnanna sem telst vera mótframlag Íslands, sem svarar til 15% af kostnaði við þau, og er það fjármagnað af greiðendum eftirlitsgjaldsins. Til að standa straum af afganginum af kostnaðinum við þessi umbótaverkefni, sem svarar til 85%, hefur verið gerð breytingartillaga við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 um 122 m.kr. fjárheimild til að ráðstafa jafnháum styrk frá Evrópusambandinu til stofnunarinnar. Styrkurinn frá Evrópusambandinu færist á tekjuhlið ríkissjóðs en greiðist sem fjárveiting úr ríkissjóði til stofnunarinnar og hefur hann því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Að þessum verkefnum meðtöldum og að viðbættum afgangsheimildum sem færast til næsta árs verður heildarvelta Fjármálaeftirlitsins 2.069 m.kr. en þar af fjármagnast 1.696 m.kr. með sköttum á fjármálafyrirtækin, 201 m.kr. með afgangsheimildum, 122 m.kr. með beinu framlagi úr ríkissjóði og 50 m.kr. með sértekjum. Eins og þessar áætlanir bera með sér hafa fáar ef nokkur önnur ríkisstofnun aukið umsvif sín eins mikið og Fjármálaeftirlitið frá því að efnahagsáföllin riðu yfir á árinu 2008. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2007 var velta Fjármálaeftirlitsins um 600 m.kr. og er því útlit fyrir að þau hafi hækkað um nálægt 1.470 m.kr. eða um hátt í 350% gangi rekstraráætlun ársins 2013 eftir.
    Eftirlitsgjöldin sem hér eru lagðar til breytingar á teljast til lögþvingaðra skatttekna ríkissjóðs en eru að lögum markaðar til eftirlits með starfsemi fjármálafyrirtækja. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur áður bent á að óheppilegt sé að ríkistekjur séu markaðar með þessum hætti til reksturs ríkisaðila. Það er mat ráðuneytisins að tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna ættu að renna í ríkissjóð á grundvelli sjónarmiða um hagkvæma og skilvirka tekjuöflun en að ákvörðun um fjárheimildir einstakra verkefna eigi almennt að vera tekin á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga óháð þeim tekjum, á grundvelli mats á fjárþörf verkefna og forgangsröð þeirra hverju sinni.
    Að öðru leyti er vísað til almennrar umfjöllunar ráðuneytisins um fyrirkomulag við fjármögnun Fjármálaeftirlitsins í umsögn með sambærilegu frumvarpi til breytingar á eftirlitsgjöldunum á 140. löggjafarþingi.
    Verði frumvarpið lögfest verður ekki séð að það gefi tilefni til breytinga á fjárheimildum Fjármálaeftirlitsins umfram það sem þegar hefur verið lagt til við aðra umræðu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013 vegna verkefnis sem styrkt er af Evrópusambandinu og að frumvarpið muni ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.