Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 459. máls.

Þingskjal 583  —  459. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun (gildistími og framkvæmd styrkveitinga).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 1. mgr. kemur: Byggðastofnunar.
     b.      Í stað orðsins „Ráðuneytið“ í 2. mgr. kemur: Byggðastofnun.

2. gr.

    Í stað orðanna „31. desember 2012“ í 11. gr. laganna kemur: 31. desember 2013.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, annars vegar um framkvæmd styrkveitinga og hins vegar um gildistíma.
    Markmið gildandi laga er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað til framleiðenda sem eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við verri samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur sem eru nær markaði. Ljóst er að margir framleiðendur þurfa að flytja vöru sína langar leiðir til þess að koma henni á markað innan lands eða að útflutningshöfn og greiða fyrir það hærri kostnað. Með því að jafna samkeppnisstöðu framleiðenda eru vonir bundnar við að framleiðslufyrirtæki sjái áfram hag sinn í því að stunda framleiðslu á svæðum sem eru fjarri markaði og nýta áfram þau sóknartækifæri sem til staðar eru á landsbyggðinni. Þannig eru tækifæri til fjölbreyttrar atvinnustarfsemi aukin sem jafnframt hefur jákvæð áhrif á byggðaþróun. Við samningu frumvarpsins var stuðst við tillögur, ályktanir og skýrslur sem gefnar hafa verið út hér á landi um flutningskostnað og mikilvægi þess að jafna stöðu framleiðenda. Þá hafa rannsóknir sýnt, m.a. á vegum Statens institut för kommunikationsanalys (SIKA), að flutningsjöfnunarstyrkir í Svíþjóð hafi haft jákvæð áhrif á byggðaþróun og atvinnustarfsemi á styrksvæðum.
    Frumvarp um svæðisbundna flutningsjöfnun var fyrst lagt fram haustið 2011 á 140. löggjafarþingi. Í frumvarpinu var lagt til að gildistíminn miðaðist við gildistíma byggðakorts ESA, 2008–2013 eða í tvö ár, en fyrir lok árs 2013 yrðu lögin endurskoðuð. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 17. desember 2011 með þeim breytingum að gildistíminn var styttur úr tveimur árum í eitt ár og fleiri svæði felld undir svæði 2 þar sem heimilt er að endurgreiða 20% af flutningi á vörum ef lengd ferðar er meiri en 390 km. Í nefndaráliti með breytingartillögu kemur fram að meiri hlutinn „telur rétt að leggja það til og telur það nauðsynlegt að ráðuneytið fylgist náið með þróun flutningskostnaðar á þeim tíma og leggi til breytingar á reglum um svæðisbundna flutningsjöfnun ef þróunin gefur tilefni til þess“. Frumvarp um breytingu á lögunum er því samið á grundvelli álits þingsins.
    Ráðuneytið hefur endurreiknað flutningskostnaðinn með tilliti til verðbreytinga, vegalengda, fámennis sveitarfélaga og fjarlægða frá innanlandsmarkaði. Útreikningar sýna engar breytingar frá fyrri útreikningum að því undanskildu að aukinn umframkostnaður hefur myndast á stöðum sem tilheyra Vopnafjarðarhreppi. Er því eðlilegt að svæðið falli undir svæði 2 sem veitir 20% endurgreiðslu af flutningi á framleiðsluvöru ef lengd ferðar er meiri en 390 km, eins og verið hefur. Önnur svæði sem falla undir svæði 2 eru sveitarfélögin Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Norðurþing, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð, eins og þau voru skilgreind 1. janúar 2012. Önnur sveitarfélög landsins tilheyra svæði 1, svo fremi að þau uppfylli skilyrði um byggðaaðstoð samkvæmt byggðakorti fyrir Ísland.
    Í ljósi framangreinds og vilja Alþingis um skiptingu milli svæða 1 og 2 er ekki talin ástæða til að breyta styrktarsvæðunum við framlagningu þessa frumvarps.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að umsóknum um styrki vegna flutningskostnaðar sé skilað til ráðuneytis en hér er lagt til að umsóknir berist til Byggðastofnunar sem jafnframt annist afgreiðslu umsókna og endurgreiðslur vegna flutningskostnaðar. Er það talið vera meira í samræmi við hlutverk stofnana að annast umsýslu umsókna en ráðuneyta. Þá fellur svæðisbundin flutningsjöfnun að öðru leyti vel að hlutverki og verkefnum Byggðastofnunar um eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Áfram þykir rétt að leggja til að gildistími laganna miðist við byggðakort ESA eða til 31. desember 2013. Eðlilegt er að þá fari aftur fram endurskoðun á reglunum með tilliti til nýs byggðakorts og nýrra útreikninga á flutningskostnaði áður en lögin falla úr gildi.
    Ráðuneytið upplýsti atvinnuþróunarfélög, helstu flutningafyrirtæki og Byggðastofnun um vinnslu frumvarpsins og gaf þeim kost á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust. Að öðru leyti vísast í upprunalega frumvarpið um áhrif lagasetningar.
    Frumvarpið felur í sér kostnað fyrir ríkissjóð vegna kynningar, afgreiðslu og umsýslu Byggðastofnunar á útgreiðslum úr flutningsjöfnunarsjóði eins og fram kemur í kostnaðarmati sem fylgir frumvarpinu. Fjárheimild vegna útgreiðslna úr flutningsjöfnunarsjóði er á fjárlögum 2013 undir lið 12-831.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er fjallað um umsókn um og greiðslu flutningsjöfnunarstyrkja. Umsóknum skal skilað til Byggðastofnunar, sem fer með málefni byggðamála, í stað ráðuneytis. Er það í samræmi við hlutverk stofnana og verkefni Byggðastofnunar.
    Byggðastofnun leggur mat á umsóknir og kallar eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru, sbr. reglugerð nr. 67/2012.

Um 2. gr.


    Samkvæmt greininni gilda lögin til 31. desember 2013 og miðast gildistími laganna við byggðakort ESA. Eðlilegt er að fram fari endurskoðun á reglunum með tilliti til nýs byggðakorts og nýrra útreikninga á flutningskostnaði áður en tekin verður ákvörðun um hvort framlengja eigi gildistíma laganna.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun (gildistími og framkvæmd styrkveitinga).

    Í frumvarpi þessu er annars vegar lagt til að umsýsla umsókna og útgreiðslna styrkja vegna flutningsjöfnunar flytjist frá ráðuneytinu til Byggðastofnunar þar sem talið er að stofnunin sé betur til þess fallin en ráðuneytið að annast afgreiðslu umsókna og slíkt ætti að falla betur að verkefnum hennar. Hins vegar er lagt til að gildistími laganna verði framlengdur um eitt ár eða til ársloka 2013 og er það til samræmis við gildistíma byggðakorts Eftirlitsstofnunar EFTA. Kortið liggur til grundvallar styrkjakerfi laganna og þar kemur fram á hvaða svæðum á Íslandi er heimilt að veita byggðaaðstoð og að hvaða marki.
    Í gildandi lögum er fyrirkomulag þessara ríkisstyrkja með þeim hætti að framleiðendum á styrkhæfum svæðum er veittur réttur til greiðslna úr ríkissjóði uppfylli þeir almenn skilyrði um niðurgreiðslu flutningskostnaðar. Engin takmörk eru sett á heildarfjárhæð þeirrar kröfu sem myndast á ríkissjóð með þeim hætti og getur það valdið óvissu um útgjöld vegna styrkjanna. Þessi umbúnaður kann að leiða til þess að skuldbindingar til greiðslu úr ríkissjóði verði umfram fjárheimildir fjárlaga og að sækja þurfi um auknar fjárheimildir vegna þeirra til Alþingis eftir á. Dæmi eru um verulegar umframgreiðslur sem leitt hefur af áþekkum umbúnaði styrkjakerfis fyrir endurgreiðslur framleiðslukostnaðar við kvikmyndagerð. Í þessum lögunum eru þó reistar skorður við því að framleiðendur fái styrki umfram tiltekið hámark á þriggja ára tímabili og ætti það að varna örum vexti skuldbindinga. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur þetta þó vera óheppilegt fyrirkomulag fyrir fjárstjórnarvald Alþingis og stjórn ríkisfjármála. Fjárheimildir slíks styrkjakerfis ætti fremur að ákvarða fyrir fram í árlegum fjárlögum og vægi stuðningsins við framleiðendur að ráðast af því. Benda má á að einnig þekkjast dæmi um slíkan umbúnað, sbr. niðurgreiðslur á raforku til húshitunar sem fara eftir þeirri fjárveitingu sem ákveðin er í fjárlögum viðkomandi árs.
    Í fjárlögum fyrir árið 2012 er veitt 200 m.kr. fjárheimild til jöfnunarstyrkjanna en þar sem útgreiðslur hefjast ekki á þessu ári mun hún falla niður. Gert er ráð fyrir að fjár-heimildin lækki í 196,5 m.kr. á næsta ári þar sem atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið gerði tillögu um 3,5 m.kr. aðhald í styrkgreiðslunum í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013. Í upphaflegri áætlun efnahags- og viðskiptaráðuneytisins var gert ráð fyrir að niðurgreiðslur ríkisins til flutningsjöfnunar gætu numið um 230 m.kr. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hefur endurmetið mögulegar styrkveitingar með tilliti til verðbreytinga, vegalengda, fámennis sveitarfélaga og fjarlægða frá innanlandsmarkaði en útreikningar sýna óverulegar breytingar frá fyrri áætlun. Þá telur ráðuneytið að umsýslukostnaður verk-efnisins verði um 5,3 m.kr. á næsta ári. Hér er annars vegar um að ræða einskiptiskostnað við tölvukerfi sem nemur 2,3 m.kr. og hins vegar launakostnað sem nemur 3 m.kr. en hann lækkar síðan í 1,5 m.kr., ári eftir það. Ekki er sérstök fjárheimild á fjárlögum vegna umsýslukostnaðar en gera verður ráð fyrir að hann greiðist með styrkjunum af fjárlagalið verkefnisins.
    Enn hafa ekki verið greiddir út styrkir vegna laganna og því hefur ekki reynt á framan greinda áætlun en gangi hún eftir er ljóst að útgjöld verða nálægt 40 m.kr. umfram væntanlega fjárheimild ársins 2013. Í ljósi erfiðrar stöðu ríkisfjármála hlýtur að koma til álita að bregðast við því með því að þrengja nokkuð reglur fyrir greiðslu styrkjanna eða að ráðuneytið forgangsraði að nýju innan síns ramma þannig að heildarútgjöld þess verði þau sömu eftir sem áður.