Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 378. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 595  —  378. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um stefnu varðandi tannheilsu eldri borgara.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra einhverja stefnu varðandi tannheilsu eldri borgara?

    Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 var tannheilsa aldraðra eitt af forgangsmarkmiðum. Stefnan var sett á það markmið að yfir 50% fólks 65 ára og eldra hefði a.m.k. 20 tennur í biti. Um þriðjungur (30%) reyndist hafa 20 eða fleiri eigin tennur og 25% fólks 65–79 ára var með 10 eða fleiri tennur í hvorum gómi árið 2007 samkvæmt óbirtum niðurstöðum spurningakönnunarinnar Heilsa og líðan Íslendinga sem gerð var á vegum Lýðheilsustöðvar. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar má því ætla að markmið heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 vegna fólks 65 ára og eldri hafi ekki náðst að fullu.
    Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) taka þátt í tannlæknakostnaði einstaklinga eldri en 67 ára. Endurgreitt er 100% af gjaldskrá SÍ vegna aldraðra sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum. Kostnaðarþátttaka SÍ er 75% af gjaldskrá SÍ vegna aldraðra sem fá greidda tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins og 50% af gjaldskrá SÍ vegna aldraðra sem fá ekki greidda tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins. Gjaldskrá SÍ vegna tannlækninga var hækkuð um 50% fyrir börn í júlí sl. en því miður reyndist ekki unnt að hækka gjaldskrána fyrir aldraða eða öryrkja. Áherslan var lögð á börnin að þessu sinni í ljósi takmarkaðra fjármuna ríkisins.
    Tannvernd eldri borgara er mikilvæg og hefur embætti landlæknis stóru hlutverki að gegna í fræðslu og forvörnum á því sviði. Sérstakur margmiðlunarfræðsludiskur um munnhirðu fólks með sérþarfir var gefinn út árið 2008 og hefur honum verið dreift endurgjaldslaust til stofnana og heilbrigðisstarfsfólks sem annast aldraða. Þetta er leiðarvísir fyrir heilbrigðisstarfsfólk um tannvernd skjólstæðinga þeirra sem þurfa aðstoð við tannhirðu. Myndböndin eru einnig aðgengileg á vefsíðu embættis landlæknis. Í aðgerðaráætlun embættis landlæknis 2012–2016 er gert ráð fyrir að unnið verði að því að skilgreina faglegar lágmarkskröfur fyrir tannvernd á dvalarheimilum ásamt því að aðlaga RAI-mælitækið að tannheilsu. Þar er starfandi faghópur sem vinnur að tillögum um bætta menntun umönnunar- og hjúkrunarstétta varðandi munnheilsu. Hópurinn telur mikilvægt að skoða samþættingu á grunnáföngum fyrir heilbrigðis- og félagsgreinar og hefur bent á nauðsyn þess að horft verði sérstaklega til áfanga um munnheilsu við endurskoðun námsskráa umönnunar- og heilbrigðisstétta. Einnig hefur hópurinn útbúið drög að námskeiðslýsingu á viðbótarnámi fyrir félagsliða, sjúkraliða og tanntækna svo auka megi þekkingu og færni þeirra sem liðsinna fötluðum og öldruðum við þrif tanna og tanngerva.