Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.

Þingskjal 602  —  468. mál.


Frumvarp til laga

um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      2. tölul. 2. mgr. fellur brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skal virðisaukaskattur af útleigu hótel- og gistiherbergja og annarri gistiþjónustu vera 14%.

2. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2013“ í 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV í lögunum kemur: 1. janúar 2014.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað „2,45%“ í 1. mgr. kemur: 2,05%.
     b.      Í stað „4,99%“ í 3. mgr. kemur: 5,29%.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

4. gr.

    8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Allir aðilar sem hafa tekjur af afleiðusamningum, þó ekki vaxtaskiptasamningum, skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „verðbréfum“ í 1. málsl. 3. tölul. 1. mgr. kemur: vaxtaskiptasamningum.
     b.      Á eftir orðinu „víxlum“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: vaxtaskiptasamningum.

6. gr.

    Á eftir orðunum „Söluhagnaður eigna“ í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: þar með talinn hagnaður af uppgjöri afleiðusamninga, þó ekki vaxtaskiptasamninga.

7. gr.

    Á eftir orðunum „Hagnaður af sölu hlutabréfa“ í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: og afleiðusamninga sem seldir eru á skipulegum verðbréfamarkaði þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf.

8. gr.

    Á eftir orðunum „sölu hlutabréfa“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 9. tölul. a 31. gr. laganna kemur: og afleiðusamninga sem seldir eru á skipulegum verðbréfamarkaði þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 68. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðanna „152.331 kr.“, „181.323 kr.“, „253.716 kr.“ og „260.262 kr.“ í 1. og 2. málsl. 4. mgr. kemur: 167.564 kr.; 199.455 kr.; 279.087 kr.; og: 286.288 kr.
     b.      Í stað fjárhæðanna „3.600.000 kr.“ og „1.800.000 kr.“ í 3. málsl. 4. mgr. kemur: 4.800.000 kr.; og: 2.400.000 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „61.191 kr.“ í 7. málsl. 4. mgr. kemur: 100.000 kr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. tölul. 70. gr. laganna:
     a.      Í stað „10%“ í 1. málsl. a-liðar kemur: 20%.
     b.      2. málsl. a-liðar fellur brott.
     c.      Í stað „10%“ í b-lið kemur: 18%.

11. gr.

    1. mgr. 111. gr. laganna orðast svo:
    Skattar álagðir samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð og hefur tollstjóri á hendi innheimtu þeirra í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur en sýslumenn í öðrum stjórnsýsluumdæmum, sbr. þó 2.–4. mgr. þessarar greinar og ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Auk þeirra verkefna sem tollstjóra eru falin skv. 1. málsl. skal tollstjóri annast eftirtalin verkefni sem lúta að framkvæmd við innheimtu skatta og gjalda:
     1.      Stefnumótun á sviði innheimtumála á landsvísu með hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi varðandi innheimtu opinberra gjalda að leiðarljósi.
     2.      Samræmingar- og eftirlitshlutverk gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs, m.a. með setningu verklagsreglna. Tollstjóra er heimilt að beina bindandi fyrirmælum til annarra innheimtumanna um innheimtuaðgerðir í einstökum málum ef settar reglur eru ekki virtar.
     3.      Umsjón og þróun tölvukerfa og rafrænnar stjórnsýslu á sviði innheimtu skatta og gjalda.

12. gr.

    Í stað orðanna „árunum 2011 og 2012“ í ákvæði til bráðabirgða XXXVIII í lögunum kemur: árunum 2011, 2012 og 2013.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2012“ í 1.–5. mgr. kemur: 2012 og 2013.
     b.      Í stað orðanna „og 2011“ í 1.–5. mgr. kemur: 2011 og 2012.

14. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við álagningu opinberra gjalda 2014, 2015 og 2016 vegna tekjuáranna 2013, 2014 og 2015 er heimilt að lækka tekjuskatt manns sem ber fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. að því gefnu að hann hafi aflað tekna vegna vinnu erlendis samfellt í sex mánuði eða lengur. Lækkunin skal nema þeim tekjuskatti sem reiknaður er hér á landi af hinum erlendu tekjum. Heimilt er að taka tillit til hinna erlendu tekna þegar tekjuskattur er reiknaður á aðrar tekjur. Lækkun tekjuskatts skv. 1. málsl. er þó eigi heimil ef tvísköttunarsamningur milli Íslands og vinnuríkisins kveður á um að Ísland eigi skattlagningarréttinn á tekjunum.
    Maður telst afla tekna með vinnu erlendis skv. 1. mgr. hafi hann verið sendur af vinnuveitanda sínum til starfa á erlendri grundu og svo fremi sem hann dvelur ekki hér á landi í meira en 6 daga í hverjum mánuði allan ráðningartímann eða samtals lengur en 36 daga miðað við hálft ár eða 72 daga miðað við heilt ár.
    Heimild til lækkunar skv. 1. mgr. á hvorki við um starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem fara til starfa erlendis á vegum launagreiðenda sinna né þá menn sem starfa á íslenskum skipum eða loftförum.
    Kjósi maður sem á rétt á lækkun skv. 1. mgr. að ákvæðum tvísköttunarsamnings milli Íslands og vinnuríkisins verði frekar beitt þarf slíkt að koma fram í umsókn um lækkun.
    Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis með reglugerð þar sem fram kemur hvaða gögn skuli fylgja umsókn um lækkun og hvernig lækkun skuli reiknuð.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt.

15. gr.

    Í stað „5,45%“ í 6. gr. laganna kemur: 6,75%.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, með síðari breytingum.

16. gr.

    1. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Kolefnisgjald á kolefni af jarðefnauppruna.

    Greiða skal í ríkissjóð kolefnisgjald af eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna sem notað er á fljótandi eða loftkenndu formi eða í iðnaðarferlum þannig að sú notkun leiði til losunar koltvísýrings í andrúmsloftið. Með eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna á fljótandi eða loftkenndu formi er átt við gas- og dísilolíu, bensín, brennsluolíu og jarðolíugas og annað loftkennt kolvatnsefni.
    Fjárhæð kolefnisgjalds skal vera 5,75 kr. á hvern lítra af gas- og dísilolíu, 5,00 kr. á hvern lítra af bensíni, 7,10 kr. á hvert kílógramm af brennsluolíu og 6,30 kr. á hvert kílógramm af jarðolíugasi og öðru loftkenndu kolvatnsefni.

17. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „0,12 kr.“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: 0,126 kr.

18. gr.

    2. málsl. 13. gr. laganna orðast svo: 2. mgr. 5. gr. laganna, skattur af raforku, fellur úr gildi 31. desember 2015.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

19. gr.

    Í stað töflu í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur:
Gjald í %
Gjaldbil Skráð losun CO2 Aðalflokkur Undanþáguflokkar skv. 5. gr.
1., 3. og 4. tölul. 2. tölul.
A 0–80 0 0 0
B 81–100 10 0 5
C 101–120 15 0 7,5
D 121–140 20 0 10
E 141–160 25 5 15
F 161–180 35 10 22,5
G 181–200 45 15 30
H 201–225 55 20 37,5
I 226–250 60 25 42,5
J yfir 250 65 30 47,5

20. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „24,46 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 25,59 kr.

21. gr.

    Í stað fjárhæðanna „39,51 kr.“ og „41,87 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 41,33 kr.; og: 43,80 kr.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „91,33 kr.“ í 1. tölul. kemur: 95,53 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „82,14 kr.“ í 2. tölul. kemur: 85,92 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „106,93 kr.“ í 3. tölul. kemur: 111,85 kr.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „365,64 kr.“ í 1. tölul. kemur: 439,83 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „7,21 kr.“ í 2. tölul. kemur: 14,42 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „13,08 kr.“ í 3. tölul. kemur: 15,73 kr.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „459,29 kr.“ í 1. tölul. kemur: 552,48 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „22,96 kr.“ í 2. tölul. kemur: 27,62 kr.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „1. janúar 2012 til 1. október 2012“ í 1. mgr. kemur: 1. janúar 2013 til 1. janúar 2014.
     b.      Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2012“ í 2. og 3. mgr. kemur: 1. janúar 2013.

26. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. október 2012“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IX í lögunum kemur: 1. janúar 2014.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XIV í lögunum:
     a.      Orðin „og 2013“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Orðin „og 1. nóvember 2013“ í 2. málsl. falla brott.
     c.      Orðin „og 1. nóvember 2012“ í 3. málsl. falla brott.
     d.      Orðin „og 2011“ í 3. málsl. falla brott.

IX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „7.700 kr.“ í a-lið 1. tölul. kemur: 8.200 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „15.200 kr.“ í b-lið 1. tölul. kemur: 16.200 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „3.850 kr.“ í c-lið 1. tölul. kemur: 4.100 kr.
     d.      Í stað fjárhæðarinnar „2.900 kr.“ í a-lið 2. tölul. kemur: 3.100 kr.
     e.      Í stað fjárhæðarinnar „5.650 kr.“ í b-lið 2. tölul. kemur: 6.100 kr.
     f.      Í stað fjárhæðarinnar „1.450 kr.“ í c-lið 2. tölul. kemur: 1.550 kr.
     g.      Í stað fjárhæðarinnar „7.700 kr.“ í a-lið 3. tölul. kemur: 8.200 kr.
     h.      Í stað fjárhæðarinnar „15.200 kr.“ í b-lið 3. tölul. kemur: 16.200 kr.
     i.      Í stað fjárhæðarinnar „2.900 kr.“ c-lið 3. tölul. kemur: 3.100 kr.
     j.      Í stað fjárhæðarinnar „5.650 kr.“ í d-lið 3. tölul. kemur: 6.100 kr.

X. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.

29. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „54,88 kr.“ í 4. mgr. 1. gr. laganna kemur: 57,40 kr.

30. gr.

    1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 6. gr. og 8. gr. laganna falla brott.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                 Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
10.000–11.000 0,29 21.001–22.000 7,09
11.001–12.000 0,91 22.001–23.000 7,71
12.001–13.000 1,53 23.001–24.000 8,33
13.001–14.000 2,15 24.001–25.000 8,93
14.001–15.000 2,77 25.001–26.000 9,55
15.001–16.000 3,39 26.001–27.000 10,18
16.001–17.000 4,01 27.001–28.000 10,79
17.001–18.000 4,61 28.001–29.000 11,41
18.001–19.000 5,23 29.001–30.000 12,03
19.001–20.000 5,85 30.001–31.000 12,65
20.001–21.000 6,47 31.001 og yfir 13,26
b.     6. mgr. orðast svo:
         Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum ökutækjum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
5.000–6.000 8,69 18.001–19.000 22,95
6.001–7.000 9,40 19.001–20.000 23,98
7.001–8.000 10,13 20.001–21.000 25,04
8.001–9.000 10,85 21.001–22.000 26,08
9.001–10.000 11,55 22.001–23.000 27,11
10.001–11.000 12,57 23.001–24.000 28,15
11.001–12.000 13,92 24.001–25.000 29,19
12.001–13.000 15,25 25.001–26.000 30,23
13.001–14.000 16,58 26.001–27.000 31,26
14.001–15.000 17,92 27.001–28.000 32,31
15.001–16.000 19,25 28.001–29.000 33,36
16.001–17.000 20,57 29.001–30.000 34,39
17.001–18.000 21,92 30.001–31.000 35,42
31.001 og yfir 36,47

32. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a.     (I.)
    Þeir sem hafa einkaleyfi samkvæmt samningi við sveitarfélag eða samtök sveitarfélaga til reksturs almenningsvagna í áætlunarferðum innan þéttbýliskjarna sveitarfélags eða samliggjandi þéttbýliskjarna fleiri en eins sveitarfélags skulu fá endurgreidd 57% olíugjalds af olíu vegna rekstrar almenningsvagna í áætlunarferðum frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2013 og 29% olíugjalds frá 1. janúar 2014 til 31. desember 2014. Sama gildir um sveitarfélög sem reka sömu starfsemi í eigin nafni. Eingöngu skal endurgreiða olíugjald af olíu sem nýtt er beint til reksturs almenningsvagna innan þéttbýliskjarna. Þeir sem eiga rétt á endurgreiðslu olíugjalds skulu halda í bókhaldi sínu skrá yfir akstur ökutækja. Jafnframt skulu þeir halda í bókhaldi sínu reikninga og skrár yfir olíukaup og olíunotkun og annað sem máli skiptir fyrir sönnun á réttmæti endurgreiðslunnar. Vanræki aðili að skrá akstur eða færa fullnægjandi bókhald fellur niður réttur til endurgreiðslu fyrir tímabilið þegar bókhald eða skráning var ekki fullnægjandi. Beiðnir um endurgreiðslu skulu afgreiddar af ríkisskattstjóra sem jafnframt tilkynningu til beiðanda skal tilkynna ákvörðun sína til innheimtumanns ríkissjóðs til útborgunar hjá honum.

    b.     (II.)
    Ef ekki er komið með ökutæki til álestrar á öðru álestrartímabili ársins 2012, sem stendur frá 1. til 15. desember 2012, sbr. 1. mgr. 14. gr., skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir 1. janúar 2013.
    Við ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds skv. 13. gr. á álestrartímabilinu 1. júní til 15. júní 2013 skal ríkisskattstjóri deila eknum kílómetrum frá fyrri álestri með dagafjölda sama tímabils og reikna kílómetragjald af hverjum eknum kílómetra miðað við fjölda gjaldskyldra daga fyrir 1. janúar 2013 og fjölda gjaldskyldra daga eftir 1. janúar 2013.

XI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðanna „5.255 kr.“ og „126 kr.“ í 2. mgr. kemur: 5.497 kr.; og: 132 kr.
     b.      Í stað fjárhæðanna „49.229 kr.“, „2,10 kr.“ og „77.495 kr.“ í 4. mgr. kemur: 51.565 kr.; 2,20 kr.; og: 81.177 kr.

XII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

34. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „9.182 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 9.604 kr.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum.

35. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „18.800 kr.“ í 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: 19.700 kr.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

36. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2012“ í ákvæðum til bráðabirgða II, III, V og VI í lögunum kemur: 31. desember 2013.

XV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., með síðari breytingum.

37. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga vera 728 kr. á mánuði árið 2013 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

XVI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, með síðari breytingum.

38. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal skuldbinding ríkisins skv. 60. gr. á árinu 2013 samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar vera 1.412 millj. kr. á árinu 2013. Framlag til Kristnisjóðs skal vera 73,1 millj. kr. á árinu 2013.

XVII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum:
     a.      Í stað ártalsins „2013“ tvisvar sinnum kemur: 2014.
     b.      Í stað ártalsins „2012“ kemur: 2013.

XVIII. KAFLI
Gildistaka.

40. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
     a.      1. gr. öðlast gildi 1. maí 2013 og tekur til afhendingar og útleigu hótel- og gistiherbergja og annarrar gistiþjónustu frá og með þeim degi.
     b.      2., 12.–14., 25.–27., 32., 36. og 38.–39. gr. öðlast þegar gildi.
     c.      3. gr. öðlast gildi 1. janúar 2013 og kemur til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda 2013 og álagningu 2014.
     d.      4.–8., 10.–11., 16.–24., 28.–31., 33., 35. og 37. gr. öðlast gildi 1. janúar 2013.
     e.      9. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við ákvörðun barnabóta í fyrirframgreiðslu og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2013.
     f.      15. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda í staðgreiðslu vegna launagreiðslna frá og með 1. janúar 2013.
     g.      34. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2013 vegna tekna ársins 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu eftir hrunið haustið 2008 hafa þegar á heildina er litið skilað tilætluðum árangri sem sést best á því að tekjuáætlanir fjárlaga hafa í stórum dráttum gengið eftir. Þá eru tekjuhorfur fyrir yfirstandandi ár góðar og raunar talsvert betri en reiknað hafði verið með við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2012. Tekjuhliðin hefur því átt mikilvægan þátt í því að draga úr miklum hallarekstri ríkissjóðs í kjölfar hrunsins og þar með að skapa sterkan grundvöll undir jákvæða afkomu ríkissjóðs til framtíðar.
    Við undirbúning fjárlagavinnunnar fyrir árið 2013, sem hófst snemma árs 2012, var þó fljótt ljóst að markmiði stjórnvalda um jafnvægi í ríkisfjármálum yrði ekki náð nema með frekari tekjuöflunaraðgerðum eða áframhaldandi niðurskurði ríkisútgjalda til viðbótar þeim sem þegar hefur verið gripið til síðastliðin fjögur ár. Umfang þeirra aðgerða er þó sýnu minna en fyrri ár og byggist á því meginmarkmiði að afkoma ríkissjóðs verði jákvæð á árinu 2014.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur að breytingum á ýmsum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013, en einnig breytingar á útgjaldahlið frumvarpsins í vissum tilvikum. Breytingum frumvarpsins má skipta í fjóra meginflokka.
    Í fyrsta lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir sem ætlað er að skila ríkissjóði nýjum tekjum, eða samtals 8,4 milljörðum kr. á næsta ári, eins og fram kemur í meðfylgjandi yfirliti:

Milljarðar kr.
2013
14% virðisaukaskattur í stað 7% á gistiþjónustu frá og með 1. maí 2013 1,1
Almennt tryggingagjald hækki um 0,3% 2,9
Sérstök hækkun á tóbaksgjaldi 1,0
Almennur fjársýsluskattur hækki úr 5,45% í 6,75% 0,8
Vörugjald á bílaleigubíla fært nær almennu vörugjaldi á fólksbifreiðar 0,5
Áframhaldandi úttekt á séreignarsparnaði 1,5
Bætt skattskil 0,6
Samtals 8,4

    Fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja fram sérfrumvarp um endurskoðun á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, sem er ætlað að skila ríkissjóði 800 millj. kr. í viðbótartekjur á næsta ári.     
    Í öðru lagi eru breytingar sem viðhalda tekjum ríkissjóðs eða lækka þær frá því sem er á þessu ári. Þar má nefna lög um umhverfis- og auðlindaskatta sem taka til kolefnisgjalds, raforkuskatts og gjalds á sölu á heitu vatni. Í þessu frumvarpi er lagt til að kolefnisgjald og gjald á sölu á heitu vatni verði varanleg, en raforkuskatturinn falli niður að þremur árum liðnum. Að óbreyttu hefði gjaldtakan samkvæmt umræddum lögum fallið niður um næstu áramót. Samtals er þessari gjaldtöku ætlað að skila ríkissjóði 5,9 milljörðum kr. á næsta ári. Einnig má nefna framlengingu á 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði o.fl. um eitt ár sem lækkar tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti um 1,5 milljarða kr. á ári. Þá er lagt til að gjald, sem ætlað er að fjármagna hlut lífeyrissjóða í sérstakri tímabundinni vaxtaniðurgreiðslu sem bókfæra hefði átt sem tekjur á næsta ári, verði fellt brott, en það hefði skilað ríkissjóði 1,6 milljörðum kr.
    Einnig er um að ræða breytingar sem hafa áhrif á útgjöld ríkisins. Þar má nefna sérstaka hækkun á barnabótum og sömuleiðis framlengingu á sérstakri 30% hækkun vaxtabóta um eitt ár, en þær lagabreytingar leiða til aukinna útgjalda hjá ríkissjóði. Hækkun barnabóta kostar ríkissjóð 2,5 milljarða kr. á ári og óbreyttar vaxtabætur um 2 milljarða kr.

Milljarðar kr.
2013
Framlenging á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta 5,9
Framlenging á 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði -1,5
Niðurfelling gjalds á hreina eign lífeyrissjóða – fjármögnun vaxtaniðurgreiðslu -1,6
Samtals áhrif á tekjuhlið 2,8
Framlenging á sérstakri 30% hækkun vaxtabóta -2,0
Hækkun barnabóta -2,5
Samtals áhrif á útgjaldahlið -4,5

    Í þriðja lagi eru breytingar sem snúa að aðgerðum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga. Þar ber fyrst að nefna lækkun atvinnutryggingagjalds um 0,4% sem hefur umtalsverð áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs eða um 3,9 milljarða kr. til lækkunar. Sú breyting kemur einnig fram sem lækkun á útgjaldahlið frumvarpsins vegna minni framlaga til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þá er í frumvarpinu að finna tillögu um brottfall afdráttarskatts af vöxtum sem aðilar með skattalegt heimilisfesti erlendis hafa af íslenskum innstæðum eða verðbréfum. Sú breyting er talin rýra tekjur ríkissjóðs um 2,2 milljarða kr. á árinu 2013. Jafnframt eru reglur um skattlagningu launþega sem starfa erlendis á vegum íslensks vinnuveitenda rýmkaðar tímabundið.

Milljarðar kr.
2013
Lækkun atvinnutryggingagjalds um 0,4% -3,9
Afnám afdráttarskatts af vaxtatekjum erlendra aðila -2,2
Samtals áhrif á tekjuhlið -6,1

    Í fjórða lagi eru hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur frumvarpsins auk smærri breytinga af ýmsu tagi. Má þar nefna hækkun á bensíngjaldi, olíugjaldi, bifreiðagjaldi, gjaldi á áfengi, gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjaldi. Hér á eftir er fjallað nánar um einstaka þætti frumvarpsins.

2.1. Virðisaukaskattur.
    Lagt er til að skattþrep virðisaukaskatts á útleigu hótel- og gistiherbergja og aðra gisitiþjónustu verði fært úr lægra skattþrepi virðisaukaskatts, þ.e. 7%, í nýtt 14% skattþrep. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir komandi ár sem lagt var fram í september síðastliðnum var hins vegar gengið út frá því að umrædd þjónusta yrði færð í almenna skattþrepið, sem er 25,5%.
    Í upphafi virðisaukaskattskerfisins var þessi þjónusta undanþegin virðisaukaskatti skv. 2. gr. laga um virðisaukaskatt og frádráttur innskatts því óheimill. Með lögum nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, var þessu breytt og útleiga hótel- og gistiherbergja gerð skattskyld en sett í lægra skattþrep, þ.e. 14% á þessum tíma. Breytingin tók gildi 1. janúar 1994. Var þetta gert m.a. í þeirri viðleitni að fækka undanþágum í virðisaukaskatti og jafnframt til að einfalda skil aðila sem annars voru í blandaðri starfsemi. Með þessari breytingu öðluðust rekstraraðilar hótel- og gistiþjónustu jafnframt rétt til frádráttar innskatts af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum í samræmi við almennar reglur virðisaukaskattslaga.
    Á árinu 2007 var lægra skattþrepið í virðisaukaskatti lækkað í 7% og hélst útleiga hótel- og gistiherbergja áfram í því þrepi. Áhrif þeirrar lækkunar eru þau í grófum dráttum að rekstraraðilar hótela og gistiþjónustu skila að jafnaði ekki virðisaukaskatti í ríkissjóð þar sem virðisaukaskattur af aðföngum í rekstri þeirra hefur oftast verið hærri en útskattur þannig að þessir rekstraraðilar njóta almennt endurgreiðslu á virðisaukaskatti fremur en hitt. Þetta sést glöggt í töflunni hér á eftir sem byggist á virðisaukaskattsskilum greinarinnar samkvæmt gögnum frá embætti ríkisskattstjóra. Í henni sést að nettótekjur ríkisins af virðisaukaskatti á gistiþjónustu lækkuðu töluvert eftir árið 2007 þegar virðisaukaskattur á gistingu lækkaði úr 14% í 7%.

VSK 14% VSK 7%
2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011
Innskattur 1296 1493 1.612 1.811 1.935 1.676 1.971 2.319
Útskattur 1788 1994 2.321 1.544 1.558 1.496 1.606 1.898
Álagning 492 501 709 -267 -377 -180 -365 -421

    Fjöldi erlendra ferðamanna sem koma hingað til lands hefur tvöfaldast á síðastliðnum tíu árum. Það er ekki einungis fjöldi ferðamanna sem skiptir máli heldur líka hvaða tekjum þeir skila. Verðmætasköpun ferðaþjónustunnar hefur vaxið mikið síðustu ár og var hlutur ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu orðinn tæp 6% árið 2009. Þetta er mun hærri tala en í nágrannalöndum okkar. Mikil fjölgun á sölu gistinátta hefur því átt sér stað undanfarin ár. Þeim fjölgaði um 13% á árinu 2011 og fyrstu sex mánuðina á þessu ári hefur þeim fjölgað um 23% miðað við sama tíma árið áður. Með vísan til þessarar aukningar á sölu gistinátta er talið heppilegt á þessum tímapunkti að færa sölu gistinátta úr lægra þrepi virðisaukaskattsins í nýtt 14% skattþrep, en fyrstu áform voru þau, eins og áður sagði, að færa gistinguna í almenna þrepið sem nú er 25,5%.
    Að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins vann Hagfræðistofnun Háskóla Íslands greinargerð um áhrif þess að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu. Meginniðurstaða skýrslunnar um áhrif hækkunarinnar úr 7% í 25,5% er að heildarfækkun gistinátta vegna hækkunar virðisaukaskatts geti orðið 1,7–5,5%. Er þá gert ráð fyrir að allir aðrir þættir sem áhrif hafa á komur ferðamanna til landsins haldist óbreyttir. Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að langtímavöxtur í komu erlendra ferðamanna hefur verið um 7,7% á ári. Í skýrslu stofnunarinnar er komist að þeirri niðurstöðu að ef fram heldur sem horfir megi gera ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi áfram þrátt fyrir þessa hækkun virðisaukaskatts. Því má ætla að neikvæð áhrif af hækkun virðisaukaskatts á greinina verði óveruleg. Talið er að sú breyting að færa gistingu úr neðra þrepinu í 14% skattþrep skili ríkissjóði 1,5 milljörðum kr. á ársgrundvelli, þar af 1,1 milljarði kr. á árinu 2013 miðað við að umrædd breyting taki gildi frá og með 1. maí 2013.
    Við undirbúning að framangreindri lagabreytingu hefur verið rætt um álagningu gistináttaskattsins og skattlagningu ferðaþjónustunnar almennt. Tillögur um frekari breytingar er ekki að finna í þessu frumvarpi en skattaumhverfi ferðaþjónustunnar verður áfram til skoðunar í ráðuneytinu með tilliti til samræmingar. Þar á meðal er nánari skoðun á gistináttaskattinum í samhengi við hugmyndir um upptöku hins svokallaða „náttúrupassa“ sem einnig hefur verið hluti af umræðunni.
    Þá er lagt til að bráðabirgðaákvæði XV í lögum um virðisaukaskatt verði framlengt um eitt ár en ákvæðið lýtur að heimild til að endurgreiða byggjendum og eigendum að fullu virðisaukaskatt vegna vinnu manna við íbúðar- og frístundahúsnæði á byggingarstað og vegna vinnu við endurbætur og viðhald þess. Auk þess nær heimildin til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga. Að óbreyttu hefði umrædd heimild fallið úr gildi um næstu áramót og við hefði tekið regla um 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts. Verði þessi breyting að lögum skerðir hún tekjur ríkissjóðs um allt að 1,5 milljarða kr. á ári, en ætti að sama skapi að auka ráðstöfunartekjur heimilanna um samsvarandi fjárhæð.

2.2     Aðgerðir í tengslum við kjarasamninga.
    Hér er um að ræða tvíþættar breytingar. Annars vegar eru breytingar á tekjuskattlagningu fyrirtækja og einstaklinga en hins vegar áframhaldandi lækkun á atvinnutryggingagjaldi. Tilefnið er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar tengd kjarasamningum sem dagsett er 5. maí 2011.
    Í yfirlýsingunni er m.a. að finna sérstakan kafla um skatta á fyrirtæki þar sem fram kemur að síðustu misseri hafi fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands átt í samstarfi um breytingar á skattalögum. Afrakstur þess var m.a. sá að fjármálaráðherra lagði fram á vorþingi 2011 frumvarp til laga um ýmsar breytingar á skattalögum. Því til viðbótar segir í yfirlýsingunni að áfram verði unnið að öðrum atriðum, þ.m.t. niðurfellingu afdráttarskatts af vaxtatekjum erlendra aðila, skattlagningu afleiðuviðskipta, skattlagningu vegna tímabundinnar vinnu erlendis og reglum um þunna eiginfjármögnun.
    Fjármálaráðherra skipaði tvo starfshópa, annars vegar um skattlagningu afleiðusamninga og hins vegar um reglur þunnrar eiginfjármögnunar. Frumvarp þetta byggist á vinnu þessara starfshópa en þeir luku störfum með skýrslum til ráðherra í júní 2012. Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra skipað starfshóp til að undirbúa upptöku milliverðlagningarreglna en með milliverðlagningu er í skattaréttarlegu tilliti almennt átt við þau vandamál sem skapast við verðlagningu í viðskiptum milli tengdra aðila. Þær reglur byggjast almennt á fyrirmynd OECD (OECD Transfer Pricing Guidelines). Þeim starfshópi er ætlað að ljúka störfum fyrir lok október 2013 og eru aðilar sammála um að starfshópurinn taki einnig að sér að vinna að reglum um þunna eiginfjármögnun enda eru þær nátengdar reglunum um milliverðlagningu.

Afdráttarskattur af vaxtagreiðslum til erlendra aðila.
    Með lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var gerð sú breyting á tekjuskattslögum að aðilar, sem hafa ekki heimilisfesti hér á landi og bera því takmarkaða skattskyldu, sæta hér skattlagningu vegna vaxta sem þeir fá greidda hér á landi. Innheimta tekjuskatts af vöxtunum er í staðgreiðslu en undanþága frá skattinum er veitt þeim sem fá vaxtagreiðslur frá Seðlabanka Íslands sem og erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum og erlendum opinberum aðilum sem eru ekki skattskyldir í heimaríkinu. Þá á ákvæðið ekki við kveði tvísköttunarsamningur sem Ísland hefur gert við erlent ríki á um að ekki skuli haldið eftir afdráttarskatti af vöxtum.
    Að baki lagabreytingunni voru margvísleg rök. Má þar nefna að vaxtatekjur íslenskra skattaðila, einstaklinga sem fyrirtækja, eru skattskyldar og ójafnræði felst í því að undanskilja vaxtatekjur erlendra aðila skattlagningu. Aðrar tegundir tekna erlendra aðila sem aflað er hér á landi, svo sem laun, þóknanir, rekstrarhagnaður, arður, leigutekjur og söluhagnaður, eru skattskyldar hér og með skattlagningu vaxta er skapað samræmi í þessum efnum. Ein meginástæða þess að tillagan varð að lögum er að skattleysi vaxta úr landi opnar leiðir til að skjóta tekjum undan skatti hér á landi. Hér voru vextir erlendra eigenda skattlagðir þar til skattlagning vaxta almennt var afnumin. Við upptöku fjármagnstekjuskatts voru vaxtatekjur að nýju skattskyldar að undanskildum vaxtatekjum erlendra aðila. Bent var á að íslenskt atvinnulíf væri nú mjög skuldsett og því ljóst að á næstu árum mundi umtalsverður hluti landsframleiðslunnar renna úr landi í formi vaxta til erlendra aðila. Skattlagning vaxta mundi tryggja það að nokkur hluti þeirra rynni í sameiginlegan sjóð landsmanna.
    Með lögum nr. 164/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var skatthlutfall vaxtatekna erlendra aðila lækkað úr 20% í 10% í tilviki einstaklinga en úr 18% í 10% í tilviki lögaðila. Litið var á það sem fyrsta skref í afnámi skattsins í samræmi við fyrirheit stjórnvalda við gerð kjarasamninga. Í þessu frumvarpi er skrefið tekið til fulls og lagt til að skattskylda erlendra aðila af vaxtatekjum, sbr. 8. tölul. 3. gr. tekjuskattslaga, verði felld brott frá og með 1. janúar 2013. Af því leiðir að ríkissjóður verður af tekjum af afdráttarskatti af vaxtatekjum aðila með takmarkaða skattskyldu. Reiknað er með að tekjutap ríkissjóðs vegna þessa nemi 2,2 milljörðum kr.

Skattlagning afleiðusamninga.
    Afleiður eru algengt form verðbréfaviðskipta sem einkum eru notaðar sem varnir í viðskiptum og þar með taldar mikilvægur hluti af áhættustýringu fyrirtækja. Undir hugtakið falla verðbréf sem eiga það öll sameiginlegt að greiðsluskylda útgefanda, og þar með verðmæti afleiðanna, fer eftir verðþróun annarrar eignar. Nafnið afleiða vísar þannig til þess að verðmæti afleiðna leiðir af verðþróun annarra eigna og þær eignir sem afleiðurnar eru leiddar af eru nefndar undirliggjandi eignir. Afleiða er þannig oftast samningur milli tveggja aðila og virði samningsins ákvarðast af verði á einhverju öðru, t.d. hlutabréfi, skuldabréfi, olíu, gulli, korni eða gjaldmiðlum, svo eitthvað sé nefnt. Mörg afbrigði af afleiðusamningum eru til, en algengustu formin eru valréttarsamningar (e. options), framtíðarsamningar (e. futures), framvirkir samningar (e. forwards), framvirkir vaxtasamningar (e. forward rate agreements), framvirkir samningar um gjaldeyri (e. foreign exchange forwards), skiptasamningar (e. swaps) og vaxtaskiptasamningar (e. interest rate swaps). Framangreind hugtök eru hvergi skilgreind í íslenskum lögum en í greinargerð með lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, er þó að finna skilgreiningar á þeim.
    Gildandi tekjuskattslög, nr. 90/2003, hafa ekki að geyma sjálfstæð ákvæði um skattalega meðferð tekna sem stafa frá afleiðusamningum. Skattframkvæmd hefur því byggt á túlkun skattyfirvalda á almennum ákvæðum tekjuskattslaganna á eðli tekna samkvæmt slíkum samningum. Túlkun skattyfirvalda er að tekjur af afleiðusamningum beri að meðhöndla sem eitt form vaxtatekna. Af því leiðir það álit skattyfirvalda að frá 1. janúar 1997, þegar lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, komu til framkvæmda beri að halda eftir staðgreiðslu við uppgjör afleiðusamninga.
    Í þessu frumvarpi er lögð til sú breyting á gildandi lagaákvæðum skattalaga að litið verði á tekjur af afleiðusamningum sem söluhagnað í stað vaxta að undanskildum vaxtaskiptasamningum sem taka mið af breytingum á vöxtum sem undirliggjandi verðmæti. Það leiðir til þess að staðgreiðsla af afleiðuviðskiptum fellur brott í þeim tilfellum þar sem tekjur af afleiðusamningum teljast til söluhagnaðar.

Tímabundin vinna útsendra starfsmanna.
    Síðustu ár hefur það færst í aukana að íslensk fyrirtæki sendi út starfsmenn sína til starfa erlendis. Þannig eru íslensk fyrirtæki að verða æ alþjóðlegri og starfsemi þeirra fer oftar en ekki fram í fleiri en einu landi. Á hitt ber þó einnig að líta að verkefni margra fyrirtækja hér á landi hafa dregist saman síðustu ár sem rekja má til efnahagsástandsins og hafa þessi fyrirtæki í auknum mæli sótt í verkefni á erlendri grundu og þannig komist hjá því að segja upp jafnmörgu starfsfólki og ella. Því hefur sú krafa komið fram frá aðilum í rekstri að settar verði reglur sem einfaldi skattlagningu starfsmanna sem fara tímabundið til starfa erlendis, jafnframt því að draga úr hættu á tvískattlagningu.
    Meginreglan um skattlagningu launamanna er í 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en samkvæmt henni eru allar tekjur skattskyldar á Íslandi (búseturíki) hvar sem þeirra er aflað. Samkvæmt alþjóðaskattareglum eru laun almennt skattskyld í því ríki þar sem þeirra er aflað. Til þess að komast hjá tvískattlagningu eru gerðir samningar við önnur ríki þar sem búseturíki launamanns gefur eftir skattlagningarrétt sinn. Velflestir samningar sem Ísland hefur gert beita svokallaðri venjulegri frádráttaraðferð þar sem greiddur skattur í vinnuríkinu er dreginn frá þeim skatti sem lagður er á í búseturíkinu en frádrátturinn tekur mið af þeirri fjárhæð sem reynist lægri. Ef greiddur skattur í vinnuríki er hærri en greiddur skattur í búseturíki getur komið upp sú staða að ekki sé tekið að fullu tillit til greidds skatts í vinnuríkinu. Er þetta í samræmi við samningsfyrirmynd OECD þegar um er að ræða frádráttaraðferðina. Sum ríki aðhyllast undanþáguaðferðina (sem einnig er að finna í samningsfyrirmynd OECD) þar sem tekjur erlendis frá eru undanþegnar skattlagningu í búseturíki þannig að heildartekjur eru reiknaðar út í búseturíki og hlutfall þeirra tekna sem eiga uppruna sinn erlendis er undanþegið innlendri skattlagningu. Ástæða þess að Ísland, auk margra annarra OECD-ríkja, hefur tekið frádráttaraðferðina fram yfir undanþáguaðferðina er að sú aðferð stuðlar að jafnari skattlagningu í búseturíki og kemur í veg fyrir að launþegi reyni að fá tekjur sínar greiddar frá löndum þar sem lítil eða engin skattlagning er fyrir hendi.
    Í dag hefur Ísland gert tvísköttunarsamninga við 39 ríki og fimm tvísköttunarsamningar til viðbótar bíða eftir undirritun og fullgildingu. Má því segja að net tvísköttunarsamninga sé orðið nokkuð þétt og nái yfir flestöll ríki sem íslensk fyrirtæki standa í viðskiptum við. Með upptöku sérstakrar skattlagningarreglu fyrir tímabundna vinnu útsendra starfsmanna er vikið frá þeim sjónarmiðum sem liggja að baki þeirri aðferð sem Ísland notar sem meginreglu við gerð tvísköttunarsamninga. Í því skyni að styðja við bakið á íslenskum fyrirtækjum í harðnandi samkeppni á erfiðum tímum er hér lagt til að tekin verði upp tímabundin heimild til þess að undanþiggja laun útsendra starfsmanna skattlagningu hér á landi. Sambærilegar reglur er að finna annars staðar á Norðurlöndunum nema í Danmörku þar sem nýlega var ákveðið að fella úr gildi reglur um skattlagningu útsendra starfsmanna og beita alfarið ákvæðum tvísköttunarsamninga til þess að koma í veg fyrir tvísköttun. Sanna þarf dvölina erlendis með framvísun vinnusamnings við launagreiðanda og sækja þarf um skráningu sem starfsmaður erlendis hjá skattyfirvöldum á þar til gerðum eyðublöðum. Launagreiðandi þarf einnig að sækja um sérstaka skráningu hjá skattyfirvöldum þar sem honum er heimilað að falla frá innheimtu staðgreiðslu á laun starfsmanns sem uppfyllir skilyrðin. Heimildin á ekki við um launþega sem starfa á Íslandi en fara reglulega í ferðir til útlanda á vegum vinnuveitanda.

Áframhaldandi lækkun á atvinnutryggingagjaldi.
    Á árunum 2009–2010 hækkaði tryggingagjald verulega, en þó einungis sá hluti þess sem rann til atvinnuleysistrygginga, enda jókst atvinnuleysi mjög mikið á umræddu tímabili. Gjaldið var hækkað úr 0,65% í 2,21% 1. júlí 2009 og á ný í 3,81% 1. janúar 2010, eða samtals um 3,16 prósentustig frá ársbyrjun 2009. Þó að nokkur óvissa ríki um þróun atvinnuleysis á næstu árum liggur fyrir að atvinnuleysi mælist umtalsvert minna nú en áður og myndast því nokkurt svigrúm til að lækka atvinnutryggingjald. Er því lögð til lækkun á atvinnutryggingagjaldi um 0,4%. Tillagan er sem fyrr segir í samræmi við viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengda kjarasamningum frá 5. maí 2011. Gengið var út frá því í nefndri yfirlýsingu að atvinnutryggingagjald mundi lækka um 1,36% milli áranna 2011 og 2012 og yrði 2,45%. Miðað við spár um lækkandi atvinnuleysi á árinu 2013 er gert ráð fyrir því að gjaldið geti lækkað enn frekar eða um 0,4% og verði 2,05% á árinu 2013. Við þessa breytingu lækka tekjur ríkissjóðs af atvinnutryggingagjaldi um 3,9 milljarða kr. á ári.

2.3     Breytingar á almennu tryggingagjaldi – fjármögnun almannatrygginga.
    Ein af tekjuöflunaraðgerðum frumvarpsins er tillaga um 0,3 prósentustiga hækkun á almennu tryggingagjaldi, þ.e. úr 4,99% í 5,29%. Hækkunina má rekja til vaxandi útgjalda í almannatryggingakerfinu. Útgjöld til lífeyristrygginga hafa aukist ár frá ári umfram það sem áætlanir hafa gert ráð fyrir og stafar sú þróun einkum af lækkandi fjármagnstekjum bótaþega á síðustu árum. Nemur útgjaldaaukningin í fjárlagafrumvarpi ársins 2013 alls 2,5 milljörðum kr. að undanskildum verðlagshækkunum. Af þeirri fjárhæð er 1 milljarður kr. tilkominn vegna samkomulags um víxlverkun bóta og lífeyrissjóðsgreiðslna og hækkun frítekjumarks fjármagnstekna hjá ellilífeyrisþegum. Má þannig halda því fram að um 1,5 milljarður kr. sé tilkominn vegna fjölgunar bótaþega og endurmetinnar fjárþarfar lífeyristrygginga á árinu 2013. Sú hækkun sem hér er lögð til á almennu tryggingagjaldi er talin skila ríkissjóði 2,9 milljörðum kr. árlega.
    Verði frumvarpið að lögum verður samanlagt atvinnutryggingagjald og almannatryggingagjald 7,34%. Ofan á heildarprósentutöluna, þ.e. 7,34%, leggst markaðsgjald til útflutningsráðs sem nemur 0,05% sem verður framlengt um eitt ár og gjald í Ábyrgðasjóð launa sem nemur 0,3%. Heildargjaldið nemur þá 7,89% og lækkar þannig um 0,1 prósentustig milli ára.

2.4. Breytingar á fjársýsluskatti.
    Lagafrumvarp um fjársýsluskatt á fyrirtæki í fjármála- og tryggingastarfsemi var lagt fyrir Alþingi í nóvember 2011. Frumvarpið fól í sér áform um að leggja 10,5% skatt á allar tegundir launa, þóknana og hlunninda fyrir störf sem skattskyld eru samkvæmt lögum um tekjuskatt. Aðgerðin var liður í tekjuöflunaraðgerðum ársins 2012 en var þó einnig ætlað að færa rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja nær því sem aðrar greinar atvinnulífsins búa við enda eru þau að mestu undanþegin virðisaukaskatti. Þá var skattinum einnig ætlað að stuðla að fjármálalegum stöðugleika með því draga úr launaskriði innan greinarinnar og þar með fyrirbyggja óæskilega þenslu á fyrstu rekstrarárum endurreists fjármálakerfis. Við samningu frumvarpsins var tekið mið af dönskum lögum um launaskatt sem verið hafa í gildi frá 1990 og reynst vel.
    Nokkur munur varð á útfærslu upphaflega frumvarpsins og endanlegu fyrirkomulagi skattsins sem samþykkt var með lögum um fjársýsluskatt og breytingum á lögum um tekjuskatt undir lok árs 2011. Í stað þess að leggja 10,5% skatt á laun og hlunnindi var farin sú leið að leggja 5,45% skatt á launastofninn auk 6% viðbótartekjuskatts á hagnað fjármálafyrirtækja umfram 1 milljarð kr. Auk þess var ákveðið að undanskilja lífeyrissjóði. Skatturinn á laun og hlunnindi er nefndur almennur fjársýsluskattur og viðbótartekjuskatturinn er nefndur sérstakur fjársýsluskattur. Þessum tveimur hlutum skattsins var hvorum um sig ætlað að skila helmingi þeirra tekna sem að var stefnt, eða 2,45 milljörðum kr., og alls 4,9 milljörðum kr. á árinu 2012.
    Til þess að tryggja ríkissjóði tekjur af sérstökum fjársýsluskatti strax á árinu 2012 var farin sú leið að innheimta fyrirframgreiðslu árið 2012 á grundvelli tekjuskattsálagningar fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga árið 2011 á rekstur ársins 2010. Ýmis vandamál hafa komið upp sem tengjast fyrirframgreiðslu sérstaks fjársýsluskatts. Þótt þau séu einungis tímabundin er sá vandi varanlegur að sérstakur fjársýsluskattur er óreglulegur tekjustofn sem eykur óvissu í áætlunum um fjármál ríkissjóðs. Þannig sýna gögn um álagningu banka með óyggjandi hætti að lítið samband er á milli hagnaðar fyrir skatta samkvæmt ársreikningi og endanlegs tekjuskattsstofns til álagningar.
    Í ljósi framangreinds voru í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 kynnt þau áform stjórnvalda að gera þær breytingar á fyrirkomulagi fjársýsluskatts að fella úr gildi sérstaka fjársýsluskattinn og hækka þess í stað skatthlutfall almenna fjársýsluskattsins þannig að hann vegi upp tekjumissi ríkissjóðs af niðurfellingu sérstaka hlutans og skapi auk þess 0,8 millj. kr. viðbótartekjur eða alls 5,9 milljarða kr. árið 2013. Nú hefur hins vegar verið fallið frá þeim áformum og er lagt til að sérstaki fjársýsluskatturinn haldist óbreyttur, eða 6% á skattskyldan hagnað umfram 1 milljarð kr., en skatthlutfall almenna fjársýsluskattsins hækki úr 5,45% í 6,75%.

2.5. Hækkun barnabóta.
    Barnabætur hafa verið óbreyttar að krónutölu með hverju barni frá árinu 2009. Óskertar barnabætur hjóna eru þessar:
Kr.
Óskertar barnabætur hjóna:
Með fyrsta barni 152.331
Með hverju barni umfram eitt 181.323
Óskertar barnabætur einstæðra foreldra:
Með fyrsta barni 253.716
Með hverju barni umfram eitt 260.262
Viðbót vegna barna yngri en 7 ára: 61.191

    Barnabætur eru óskertar ef tekjur eru lægri en 1,8 millj. kr. hjá einstæðu foreldri en 3,6 millj. kr. hjá sambúðarfólki. Sé um að ræða eitt barn skerðast barnabætur um 3% af tekjum umfram þessi mörk, ef börnin eru tvö um 5% og ef börnin eru þrjú eða fleiri um 7%. Skerðing viðbótar vegna barna yngri en 7 ára er 3% með hverju barni. Barnabætur eru fyrst greiddar út árið eftir að barn fæðist og í síðasta sinn á því ári sem 18 ára aldri er náð.
    Við álagningu tekjuskatts einstaklinga árið 2012 var úthlutað 7,5 milljörðum kr. í formi barnabóta til tæplega 52.000 fjölskyldna en þær voru um 8% færri en árið áður. Heildarfjárhæð barnabóta nam um 8 milljörðum kr. á síðasta ári. Fjárhæð meðalbóta var nær óbreytt milli ára.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 er 10.762 millj. kr. ætlaðar til úthlutunar barnabóta á árinu 2013. Sú upphæð er 2,5 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum ársins 2012 enda stendur í stefnukafla fjárlagafrumvarpsins að áhersla hafi verið lögð á að bæta mjög hag barnafjölskyldna. Í eftirfarandi töflu má sjá hverjar barnabætur verða samkvæmt þessari tillögu.

Kr.
Óskertar barnabætur hjóna verða:
Með fyrsta barni 167.564
Með hverju barni umfram eitt 199.455
Óskertar barnabætur einstæðra foreldra verða:
Með fyrsta barni 279.088
Með hverju barni umfram eitt 286.288
Viðbót vegna barna yngri en 7 ára verður: 100.000

    Barnabætur verða óskertar ef tekjur eru lægri en tekjuskerðingarmörk sem hækka nokkuð frá því sem nú er, eða úr 1,8 millj. kr. í 2,4 millj. kr. hjá einhleypu foreldri og úr 3,6 millj. kr. í 4,8 millj. kr. hjá foreldrum í sambúð og er þá miðað við samanlagðar árstekjur. Skerðingarhlutföll bótanna haldast hins vegar óbreytt.
    Eftirfarandi tafla sýnir barnabætur samkvæmt núverandi kerfi og frumvarpinu, eftir tekjum, hjúskaparstöðu og barnafjölda. Dæmið miðast við að þar sem er eitt barn sé það undir 7 ára aldri. Þegar um er að ræða tvö börn er annað undir 7 ára en hitt eldra. Þegar um er að ræða þrjú börn þá er eitt undir 7 ára aldri en hin tvö eru eldri.

Barnabætur
Tekjur Börn Frumvarp Breyting
Einhleypir foreldrar
2.500.000 1 272.907 373.088 37%
2.500.000 2 519.169 657.376 27%
2.500.000 3 765.432 941.664 23%
4.000.000 1 187.716 283.088 51%
4.000.000 2 403.978 537.376 33%
4.000.000 3 620.240 791.664 28%
Foreldrar í sambúð
6.000.000 1 80.331 195.564 143%
6.000.000 2 213.653 371.018 74%
6.000.000 3 346.977 546.475 57%
9.000.000 1 0 41.564
9.000.000 2 63.653 157.018 147%
9.000.000 3 136.977 272.475 99%

    Unnið hefur verið að undirbúningi þess að koma á samræmdum stuðningi ríkisvaldsins við barnafjölskyldur með því að taka upp barnatryggingar sem kæmu í stað barnabóta, sérstakra atvinnuleysisbóta vegna barna á framfæri atvinnulausra og barnalífeyris. Fari svo að því kerfi verði komið á mun það koma í stað barnabóta. Jafnframt er áformað að það verði með samtímagreiðslum og tengist því ekki álagningu tekjuskatts. Hér eru gerð tillaga um úthlutun barnabóta á næsta ári sem tekur mið af þeim áherslum sem áður voru nefndar en gera ekki ráð fyrir grundvallarbreytingum á úthlutun bótanna eins og tilefni hefði verið til ef ekki stæði til að taka upp nýtt stuðningskerfi við barnafjölskyldur. Það kerfi krefst vandaðs undirbúnings sem nú stendur yfir.
    Þá er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga þess efnis að skuldajöfnun barnabóta í móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði áfram óheimil út árið 2013, en hún hefði að óbreyttu fallið niður í lok árs 2012.

2.6.     Vaxtabætur.
    Vaxtabætur fá þeir sem hafa greitt vaxtagjöld af lánum sem þeir hafa tekið til kaupa á eigin húsnæði hvort sem um er að ræða hefðbundin íbúðarkaup, húsbyggingu eða kaupleigu. Einnig mynda lán Íbúðalánasjóðs sem tekin eru vegna verulegra endurbóta á íbúðarhúsnæði stofn til vaxtabóta og það gera einnig lán vegna greiðsluerfiðleika á lánum til öflunar húsnæðis. Einungis er hægt að fá vaxtabætur vegna greiddra vaxta. Vaxtabætur eru ákvarðaðar á grundvelli upplýsinga sem að stærstum hluta eru forskráðar á framtöl einstaklinga enda skila lánastofnanir nauðsynlegum upplýsingum til skattyfirvalda.
    Að undanförnu hefur verið unnið að stefnumótun varðandi stuðning hins opinbera í húsnæðismálum. Tillögur hafa verið lagðar fram um að koma á húsnæðisbótum í stað vaxta- og húsaleigubóta þar sem stuðningur miðist við fjölskyldustærð en verði ekki mismunandi eftir því hvort um er að ræða leigu- eða eignarhúsnæði. Hingað til hafa einungis mjög tekjulágar fjölskyldur átt rétt á húsaleigubótum frá sveitarfélögunum en nú er áformað að þær nái til stærri hóps. Stefnt er að því að jafna eftir því sem kostur er stöðu þeirra sem eiga og leigja og að það verði valkostur að vera í leiguhúsnæði til lengri tíma. Jafnframt er ætlunin að greiða húsnæðisbætur út mánaðarlega. Þetta krefst mikils tæknilegs undirbúnings og verður ekki komið á með skjótum hætti.
    Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðunarfjárhæðir vaxtabótakerfisins haldist óbreyttar milli ára, en að óbreyttu hefðu greiðslur vaxtabóta sem gilda fyrir árið í ár átt að lækka verulega, eða um allt að 30%.

2.7. Umhverfis- og auðlindaskattar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta. Í fyrsta lagi er tillaga um að gjaldtakan samkvæmt lögunum verði varanleg hvað kolefnisgjald og gjald af sölu á heitu vatni varðar, en raforkuskatturinn renni sitt skeið í núverandi mynd eftir þrjú ár. Að óbreyttu hefðu lögin fallið úr gildi í lok árs 2012. Í öðru lagi er lagt til að gjaldið verði lagt á gas af jarðefnauppruna til viðbótar við þær tegundir eldsneytis sem bera kolefnisgjald í dag en á hinn bóginn fellt niður af þotu- og flugvélaeldsneyti. Í þriðja lagi er miðað við að raforkuskattur hækki í takt við verðlag, en kolefnisgjald og gjald af sölu á heitu vatni haldist óbreytt.

2.8. Breyting á vörugjaldi bílaleigubifreiða.
    Samkvæmt gildandi lögum er vörugjald á bílaleigubifreiðar umtalsvert lægra en vörugjöld á fólksbifreiðar af sömu gerð. Bílaleigur hafa notið niðurfellingar vörugjalda á ökutæki frá 15. maí 2000. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 8/2000, um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, kemur fram að tillagan um sérstakan afslátt fyrir bílaleigur af vörugjaldi sé í samræmi við þá stefnu að ökutæki sem nýtt eru til atvinnustarfsemi séu án vörugjalds, þjónusta við ferðamenn sem nýti sér bílaleigubíla sé arðvænleg, hátt verð á ökutækjum hafi hamlað uppbyggingu í greininni og því væri markmið breytingarinnar að gera þessa þjónustu betur samkeppnishæfa í samanburði við sömu þjónustu í öðrum löndum.
    Undanþágan er framkvæmd á þann hátt að ökutæki er skráð sem bílaleigubifreið í bifreiðaskrá við innflutning og sótt er um niðurfellingu vörugjalds til tollstjóra. Það fer svo eftir koltvísýringslosun ökutækisins hvort vörugjald er fellt niður að öllu leyti eða að hluta. Niðurfelling vörugjalds er veitt eftir að kvöð hefur verið undirrituð sem kveður m.a. á um að í 15 mánuði skuli bifreið að jafnaði aðeins leigð til þriggja vikna eða skemur og óheimilt sé að gera leigusamning við sama leigutaka lengur en 45 daga á sérhverju 100 daga tímabili. Bílaleigan þarf að geta gert grein fyrir 90% af akstri ökutækisins með leigusamningum hvenær sem tollstjóri óskar eftir því. Þeim afslætti af innkaupsverði sem bílaleiga nýtur umfram hinn almenna kaupanda er svo velt áfram í söluverði ökutækisins. Þegar bílaleiga ákveður að selja ökutækið er mismunurinn nýttur til þess að greiða niður leiguverðið. Með kerfinu er því verið að koma því þannig fyrir að hinn almenni kaupandi ökutækisins niðurgreiðir leiguverð bílaleigubíla.
    Á árinu 2011 voru fluttir inn 2.466 bílaleigubílar sem fengu niðurfellingu vörugjalda. Þar af voru 2.173 sem fengu fellt niður vörugjald að fjárhæð 750.000 kr. eða minna og 293 sem fengu niðurfellingu yfir 750.000 kr. Þá hefur bílaleigum fjölgað verulega sem kallar á stóraukið eftirlit sem erfitt hefur reynst að bregðast við.
    Straumur ferðamanna til landsins hefur aukist mikið undanfarin ár og eftirspurn eftir bílaleigubílum hefur aukist verulega og því er talið að unnt sé að draga úr skattaafslætti til bílaleiga. Til stóð að afnema þennan skattaafslátt að fullu í tveimur jöfnum skrefum, þ.e. 1. janúar 2013 og 1. janúar 2014. Nú hefur verið fallið frá þeim áformum og þess í stað ákveðið að fella aðeins helming skattaafsláttarins niður 1. janúar 2013. Bílaleigur munu því áfram njóta verulegs afsláttar umfram það sem gildir um fólksbifreiðar almennt. Gert er ráð fyrir að sú breyting skili ríkissjóði samtals 500 millj. kr.

2.9. Sérstök hækkun á tóbaksgjaldi.
    Lagt er til að tóbaksgjald hækki um 20%, eða um nálægt 15% að raungildi. Einnig er lögð til tvöföldun á gjaldi af neftóbaki en það þykir óeðlilega lágt samanborið við gjald af öðru tóbaki sem leitt hefur af sér meiri neyslu þess hérlendis. Þessari breytingu er ætlað að skila ríkissjóði 1 milljarði kr. í viðbótartekjur á næsta ári.

2.10. Áframhaldandi útgreiðsla séreignarsparnaðar og fjármögnun lífeyrissjóða á sérstakri vaxtaniðurgreiðslu felld brott.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem fyrst var sett með lögum nr. 13/2009, síðan breytt með lögum nr. 130/2009, þá lögum nr. 164/2010 og síðast með lögum nr. 164/2011, taki gildi að nýju og að rétthöfum verði heimilt að sækja um að fá greiddan út séreignarsparnað að ákveðnu marki, samanlagt allt að 6.250.000 kr., á tímabilinu 1. janúar 2013 fram til 1. janúar 2014. Breytingin er gerð að höfðu samráði við Landssamtök lífeyrissjóða, vörsluaðila og skattyfirvöld. Í ákvæði til bráðabirgða XIV við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er að finna reglur um fjármögnun lífeyrissjóða í sérstakri vaxtaniðurgreiðslu á árunum 2011 og 2012. Forsaga málsins er sú að í lok árs 2010 var samþykkt bráðabirgðaákvæði, þ.e. ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem var hluti stjórnvalda í víðtækum aðgerðum vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Þessar greiðslur eru ígildi viðbótarvaxtabóta sem greiddar skyldu tvisvar á ári, 1. maí og 1. ágúst, á árunum 2011 og 2012. Greiðslur þessar hafa þegar verið inntar af hendi og námu um 6,4 milljörðum kr. á árinu 2011, en reiknað hafði verið með að þessar sérstöku vaxtaniðurgreiðslur yrðu kringum 6 milljarðar kr.
    Í því samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við hagsmunaaðila í tengslum við þessar aðgerðir segir að aðilar muni í samstarfi leita leiða til að þeir síðarnefndu, þ.e. fjármálafyrirtæki (viðskiptabankar) og lífeyrissjóðir, fjármagni þessi útgjöld. Vorið 2011 lágu fyrir tillögur þess efnis að heildargreiðslur þessara aðila í formi tímabundinnar skattlagningar yrðu 3,5 milljarðar kr. á árinu 2011 sem skiptist jafnt á milli þeirra, þ.e. 1,75 milljarða kr. á viðskiptabanka og 1,75 milljarða kr. á lífeyrissjóði. Við meðferð málsins hjá efnahags- og skattanefnd á vorþingi 2011 kom fram rík andstaða hjá lífeyrissjóðunum, bæði varðandi skiptinguna og formið, um leið og óskað var nánara samráðs við stjórnvöld um hvernig greiðslum lífeyrissjóðanna skyldi háttað. Niðurstaðan varð því sú að 2,1 milljarður kr. skyldi fjármagnaður af viðskiptabönkunum og var það samþykkt í formi viðbótarbankaskatts, sbr. lög nr. 155/2010, og er sú skattlagning þegar komin fram. Tillagan um fjármögnun lífeyrissjóða, sem samkvæmt samkomulagi skyldu fjármagna 1,4 milljarða kr., var hins vegar felld brott vorið 2011 af hálfu efnahags- og skattanefndar, en tillagan var sú að ákvæði um tímabundinn skatt á lífeyrissjóði yrði að finna í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í áliti nefndarinnar með breytingunni var stjórnvöldum og Landssamtökum lífeyrissjóða hins vegar falið að eiga nánara samstarf á sumarmánuðum um útfærslu og greiðslur lífeyrissjóðanna á umræddri fjárhæð. Fyrir nokkru lá hins vegar fyrir að ekki yrði unnt að fara þá leið að fjármagna hlut lífeyrissjóðanna með öðrum hætti og því var sú leið farin sem finna má í bráðabirgðaákvæði XIV við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, til að fjármagna áðurnefnda 1,4 milljarða kr. af vaxtaniðurgreiðslunni árið 2011 og samsvarandi fjárhæð á árinu 2012. Með ákvæði frumvarpsins er lagt til að álagning gjaldsins á árinu 2013 og fyrirframgreiðsla þess 1. nóvember 2012 verði felld brott og þar með fjármögnun lífeyrissjóða á áðurnefndum 1,4 milljarði kr. af sérstakri vaxtaniðurgreiðslu.

2.11. Verðlagsuppfærsla einstakra skatta og gjalda.
     Í frumvarpinu eru einnig tillögur um almenna 4,6% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins með það að markmiði að fjárhæðirnar haldi raungildi sínu frá fyrra ári.

Bensíngjald, olíugjald, kílómetragjald, bifreiðagjald, gjald á áfengi og gjald fyrir vegabréf.
    Í frumvarpinu er lagt til að hækkun almenns og sérstaks vörugjalds á bensín, svo og olíugjalds, kílómetragjalds og bifreiðagjalds verði í takt við ofangreindar verðlagsforsendur. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði 1.150 millj. kr. Þá er lagt til að felld verði brott í áföngum heimild til 85% endurgreiðslu olíugjalds vegna almenningsvagna í áætlunarferðum. Þess í stað er lagt til að þeim fjármunum sem varið hefur verið til þessa málaflokks verði útdeilt á fjárlögum að hluta. Jafnframt er lagt til að gjald á áfengi hækki til samræmis við verðlag, eða um 4,6%, en sú hækkun er talin skila um 500 millj. kr. í viðbótartekjur árlega. Að lokum er rétt að nefna hækkun á gjaldi fyrir útgáfu vegabréfa, en þá gjaldtöku er að finna í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Aðfangakostnaður við útgáfu vegabréfa hefur hækkað stórlega á undanförnum árum, bæði vegna aukinna krafna við útgáfuna og hærra gengis án þess að gjaldið sjálft hafi verið hækkað. Það hækkaði síðast í ársbyrjun 2010, en frá þeim tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um og yfir 13%. Í þessu frumvarpi er lagt til að umrætt gjald fyrir útgáfu vegabréfa og annarra sambærilegra skjala hækki um 6–7% til að mæta a.m.k. að hluta þeirri hækkun sem orðið hefur á framleiðslukostnaði þeirra. Tekjur af þeirri hækkun eru áætlaðar um 25 millj. kr.

Útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Lagt er til að fjárhæð útvarpsgjalds hækki um 900 kr. frá gildandi lögum og nemi 19.700 kr. á hvern gjaldanda í stað 18.800 kr. á árinu 2013. Um er að ræða 4,6% hækkun í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru áætlaðar 190 millj. kr. Sambærileg tillaga er um hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra þannig að gjaldið verði 9.604 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2013 vegna tekna ársins 2012. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði aukalega 77 millj. kr.

2.12. Ýmsar breytingar.
    Auk þeirra tillagna sem þegar hefur verið fjallað um eru nokkrar tillögur af ýmsu tagi eins og nánar er fjallað um hér á eftir.

Stimpilgjald.
    Í gildandi lögum er að finna tímabundnar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfa er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila. Í frumvarpinu er lagt til að þessar undanþágur verði framlengdar um eitt ár, eða til ársloka 2013. Framlengingin nær einnig til undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda við skilmálabreytingar bílalána. Þessi framlenging þykir nauðsynleg í ljósi þeirra greiðsluerfiðleika sem enn blasa við mörgum heimilum.

Sóknargjöld.
    Í frumvarpinu er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 701 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 728 kr. fyrir árið 2013. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2012, með breytingu á lögum nr. 91/1987 gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda.

Framlag til þjóðkirkjunnar.
    Í frumvarpinu er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2013 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 79 millj. kr. Lagt er til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 0,9 millj. kr. á árinu. Með þessari breytingu er verið að ná aðhaldsmarkmiðum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2013 sem nema 1,2% en einnig er tekið tillit til launa- og verðlagshækkana.

Markaðsgjald.
    Markaðsgjald sem er lagt á sama stofn og tryggingagjald er markaður tekjustofn Íslandsstofu. Að óbreyttu mun þetta gjald falla niður um næstu áramót og verður þá í síðasta sinn lagt á árið 2013. Í þessu frumvarpi er lagt til að þessi gjaldtaka verði með óbreyttu sniði eitt ár til víðbótar, eða fram til ársins 2014.

Bætt skattskil.
    Stjórnvöld hafa uppi þau áform að bæta skattskil, jafnt einstaklinga sem fyrirtækja, sem kostur er með hertum aðgerðum skattyfirvalda og innheimtumanna ríkissjóðs á komandi mánuðum og árum. Vonir standa til að þessar aðgerðir skili ríkissjóði 500–600 millj. kr. í viðbótartekjur á næsta ári. Stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram aðgerðaráætlun um bætt skattskil í samræmi við fram komna þingsályktunartillögu (þingskjal 51, 51. mál) í samráði við þær stofnanir sem málið varðar jafnframt því sem leitað verði viðhorfa frá hagsmunaaðilum á sem flestum sviðum. Í ljósi þessara áforma hefur verið fallið frá fyrirhuguðum niðurskurði á fjárheimildum hjá embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra að hluta. Þá er lagt til í þessu frumvarpi að lagagrunnur að baki hlutverki tollstjóra sem samræmingar- og eftirlitsaðila gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs verði styrktur til að auka líkur á því að settum markmiðum við bætt skattskil, þ.m.t. greiðslu skatta, verði náð.

3. Áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.
    Erfitt er að meta af nákvæmni hvaða áhrif framangreindar aðgerðir hafa á einstakar efnahagsstærðir eins og ráðstöfunartekjur heimilanna, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna, sem aftur hafa áhrif á framvindu efnahagsmála og þar með tekjur ríkissjóðs, enda aðgerðirnar mjög margvíslegar. Þá eru áhrif þeirra bæði bein og óbein sem koma ekki einungis fram á árinu 2013 heldur á næstu árum.
    Nettólækkun tryggingagjaldsins ætti að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna þar sem hún leiðir til lækkunar á tilkostnaði fyrirtækja sem gerir þau betur í stakk búin til að greiða hærri laun, lengja vinnutíma eða fjölga starfsmönnum. Sama má segja um hærri barnabætur, frekari útgreiðslur séreignarsparnaðar, framlengingu hækkunar á vaxtabótum og 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu vegna íbúðarhúsnæðis. Þegar allt er lagt saman ættu þær skattbreytingar sem kynntar eru í þessu frumvarpi að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna á árinu 2013 og þar með eftirspurn í hagkerfinu.
    Áhrif hækkana á krónutölugjöldum og gjaldskrám koma fyrst og fremst fram í hærra verðlagi. Sama gildir um hækkun tóbaksgjalds. Lauslegt mat bendir til að áhrifin gætu verið um 0,2% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Gangi það mat eftir mun kaupmáttur ráðstöfunartekna minnka samsvarandi, eða um 0,2%. Rétt er að hafa í huga að hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu og breytingar á vörugjöldum bílaleigubifreiða hafa óveruleg áhrif á vísitölu neysluverðs.
    Heildaráhrif frumvarpsins á einstaklinga og fyrirtæki ættu því að vera jákvæð fremur en hitt og tiltölulega almenn.

4. Samráð.
    Auk tillagna í framkomnu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 var við gerð þessa frumvarps m.a. stuðst við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengda kjarasamningum sem dagsett er 5. maí 2011. Yfirlýsingin er afrakstur víðtæks samráðs stjórnvalda og aðila hins almenna vinnumarkaðar um margvíslega þætti er lúta að efnahags- og kjaramálum í aðdraganda kjarasamninga. Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að höfðu samráði við flest ráðuneytin um þá málaflokka frumvarpsins sem undir þau heyra. Auk þess var haft samráð við embætti ríkisskattstjóra, tollstjóraembættið og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands auk samráðs við ýmsa hagsmunaaðila við vinnslu frumvarpsins.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu gerir ekki athugasemdir við frumvarpið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Virðisaukaskattur.
Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að lagður verði 14% virðisaukaskattur á útleigu hótel- og gistiherbergja og aðra gistiþjónustu í stað 7%. Gert er ráð fyrir að sú breyting gildi frá og með 1. maí 2013. Með þessari breytingu verður tekið upp nýtt 14% skattþrep til viðbótar við hin tvö, þ.e. 25,5% og 7%. Áætlað er að breytingin skili ríkissjóði nálægt 1,5 milljörðum kr. á ársgrundvelli, þar af rúmlega 1 milljarði kr. á árinu 2013.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verði framlengdur til 1. janúar 2014, en að óbreyttu hefði það runnið út um áramót. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem byggjendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað og eigendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Jafnframt nær sama heimild til byggjenda/eigenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis vegna þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu/endurbótum eða viðhaldi þess háttar húsnæðis. Heimildin nær einnig til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga. 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts er talin hafa reynst vel og orðið þess valdandi að fleiri heimili hafi ráðist í framkvæmdir en ella.

Tryggingagjald.
Um 3. gr.

    Í a-lið er lagt til að sá hluti tryggingagjalds sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs, atvinnutryggingagjald, verði lækkaður úr 2,45% í 2,05%, eða um 0,4%. Ástæðan er minnkandi fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs samhliða því að atvinnuleysi fer minnkandi og aukin eftirspurn er eftir vinnuafli. Hér er um að ræða annað skrefið í lækkun atvinnutryggingagjalds sem fór hæst í 3,91% í ársbyrjun 2010.
    Í b-lið er lögð til 0,3% hækkun á almennu tryggingagjaldi sem er liður í viðbótartekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári, m.a. til að vega upp á móti auknum útgjöldum í lífeyristryggingum. Við þá hækkun fer gjaldhlutfallið í 5,29%.
    Samanlagt mun almennt tryggingagjald og atvinnutryggingagjald lækka um 0,1% á næsta ári frá því sem það er í ár, og verða 7,34%. Sú lækkun skerðir tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi um ríflega 1 milljarð kr. Um frekari skýringar vísast til almennra athugasemda.

Vextir og afleiður.
Um 4. gr.

    Verði þær breytingar sem lagðar eru til með þessari grein að lögum mun skattskylda erlendra aðila af vaxtatekjum, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, falla brott frá og með 1. janúar 2013. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir því að í 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga verði kveðið á um skattskyldu erlendra aðila af tekjum vegna hagnaðar af afleiðusamningum óháð undirliggjandi eignum, að undanskildum vaxtaskiptasamningum.

Um 5. gr.

    8. gr. tekjuskattslaga fjallar um skattskylda vexti, afföll og gengishagnað og er með ákvæðinu gert ráð fyrir því að vaxtaskiptasamningar verði felldir undir ákvæði 1. og 2. mgr. þeirrar greinar. Tekjur af vaxtaskiptasamningum munu því teljast til vaxtatekna hvort sem þær tengjast atvinnurekstri eða einstaklingum utan rekstrar. Af því leiðir að um staðgreiðsluskyldu vaxtatekna verður að ræða eins og áður hefur verið í tilviki vaxtaskiptasamninga.

Um 6. gr.

    Í frumvarpinu er lögð til breyting á gildandi lagaákvæðum skattalaga í þá veru að litið verði á tekjur af afleiðusamningum, óháð undirliggjandi eignum, sem söluhagnað í stað vaxta að undanskildum vaxtaskiptasamningum sem taka mið af breytingum á vöxtum sem undirliggjandi verðmæti. Það leiðir til þess að staðgreiðsla af afleiðuviðskiptum verður afnumin í þeim tilfellum þar sem tekjur af afleiðusamningum teljast til söluhagnaðar en skylda fjármálafyrirtækja til að halda eftir og standa skil á fjármagnstekjuskatti í staðgreiðslu af afleiðusamningum hjá innlendum aðilum tekur eingöngu til vaxta og arðs. Að öðru leyti gilda ákvæði tekjuskattslaga um söluhagnað vegna tekna af afleiðusamningum, að undanskildum vaxtaskiptasamningum, sbr. 12.–27. gr. laganna.
    Framangreind breyting hefur ekki áhrif á upplýsingaskipti skv. 92. gr. tekjuskattslaga. Þrátt fyrir að ekki verði lengur um staðgreiðsluskyldu að ræða er gert ráð fyrir að áfram verði ríkisskattstjóra skilað upplýsingum um vexti skv. 92. gr. tekjuskattslaga.
    Samkvæmt 2. mgr. 59. gr. tekjuskattslaga eru tekjur og gjöld af verkefnum ekki færð í rekstur fyrr en verkefni er lokið eða kröfur eru uppfylltar. Er hér um að ræða svokallaða verklokaaðferð en samkvæmt henni verður litið svo á að tekjur af afleiðusamningum séu óvissar fram að þeim tíma er verðmæti er reiknað út, þ.e. á sölu- eða innlausnardegi. Skattalegt uppgjör fer þá fram við lokun samnings og er horft til samningsins sjálfs og þeirrar dagsetningar sem samið er um í upphafi.

Um 7. og 8. gr.

    Hagnaður af sölu hlutabréfa eða annarra peningalegra eigna telst mismunur á söluverði annars vegar og kaupverði hins vegar skv. 2. mgr. 18. gr. tekjuskattslaga. Með ákvæði 7. gr. frumvarpsins er lagt til að sama gildi um hagnað af afleiðusamningum sem seldir eru á skipulegum verðbréfamörkuðum þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf. Með 8. gr. frumvarpsins er jafnframt lögð til breyting á 31. gr. tekjuskattslaga sem heimilar frádrátt slíks söluhagnaðar ásamt hagnaði af sölu hlutabréfa frá tekjum lögaðila. Tap umfram söluhagnað heimilast ekki sem frádráttur frá tekjum og myndar þar af leiðandi ekki yfirfæranlegt tap. Verði þessi tillaga að lögum mun verða heimilt að draga sölutap frá söluhagnaði ársins, að uppfylltum skilyrðum laganna, í tilviki afleiðusamninga þar sem undirliggjandi verðmæti eru hlutabréf og færa mismuninn til tekna.

Barnabætur.
Um 9. gr.

    Með ákvæði þessu er lögð til hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta sem komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2013.
    Gert er ráð fyrir því að barnabætur vegna barna yngri en 7 ára verði hækkaðar úr 61.191 kr. á ári í 100.000 kr. Þá er lagt til að tekjuskerðingarmörk verði hækkuð úr 1.800.000 kr. á ári fyrir einstæða foreldra í 2.400.000 kr. Sams konar mörk fyrir foreldra í sambúð verði hækkuð úr 3.600.000 kr. á ári í 4.800.000 kr. Þessi hækkun tekur mið af örorkubótum og verður til viðmiðunar í húsnæðisbótum enda mikilvægt að samræmi sé í viðmiðunarmörkum félagslegra stuðningskerfa. Þá er að auki gert ráð fyrir því að upphæðir barnabóta (annarra en bóta vegna barna yngri en 7 ára) verði hækkaðar um 10%. Til nánari skýringar vísast í almennar athugasemdir frumvarpsins.

Vextir og afleiður.
Um 10. gr.

    Lagt er til að ákvæði 8. tölul. 70. gr. er fjallar um tekjuskatt aðila með takmarkaða skattskyldu verði breytt í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 4. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að tekjuskattur aðila sem falla undir 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. verði 20% í tilviki manna og 18% í tilviki lögaðila vegna tekna af afleiðusamningum að undanskildum vaxtaskiptasamningum. Um er að ræða sama tekjuskattshlutfall og í tilviki söluhagnaðar aðila með takmarkaða skattskyldu skv. 7. tölul. 1. mgr. 3. gr., sbr. 7. tölul. 70. gr. tekjuskattslaga.

Hlutverk tollstjóra varðandi innheimtu skatta og gjalda.
Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að verkefni tollstjóra sem snúa að framkvæmd við innheimtu skatta og gjalda verði sérstaklega tilgreind. Um er að ræða þrjá töluliði þar sem verkefnin eru talin upp. Í fyrsta lagi að tollstjóri beri ábyrgð á stefnumótun á sviði innheimtu opinberra gjalda. Í því felst að hann gerir tillögur um hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi varðandi innheimtu á opinberum gjöldum. Tollstjóri skal hafa það að leiðarljósi að innheimta opinberra gjalda verði sem hagfelldust fyrir atvinnulífið, almenning og samfélagið í heild. Í öðru lagi að tollstjóri fari með samræmingar- og eftirlitshlutverk gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs og setji verklagsreglur um framkvæmd innheimtu skatta og gjalda. Lagt er til að tollstjóri geti beint bindandi fyrirmælum til annarra innheimtumanna fari þeir ekki eftir verklagsreglunum. Í þriðja lagi að tollstjóra verði falið að leiða þróun rafrænnar stjórnsýslu á sviði innheimtu opinberra gjalda með það í huga að efla rafræna þjónustu og sjálfsafgreiðslumöguleika einstaklinga og fyrirtækja við skil á sköttum og gjöldum í samræmi við stefnu stjórnvalda um rafræna stjórnsýslu.

Skuldajöfnun barnabóta.
Um 12. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði áfram óheimil út árið 2013, ella mundi hún falla niður í lok árs 2012.

Vaxtabætur.
Um 13. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að tímabundin hækkun á vaxtabótum sem að óbreyttu hefði fallið niður um næstu áramót verði framlengd um eitt ár. Því er ártalinu 2013 bætt við ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum, en það hefur að geyma ákvæði um vaxtabætur á árunum 2011 og 2012. Gert er ráð fyrir að ákvæðið komi til framkvæmda við ákvörðun á fyrirframgreiðslu vaxtabóta og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2013. Til nánari skýringar vísast í almennar athugasemdir frumvarpsins.

Útsendir starfsmenn.
Um 14. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um tímabundna vinnu útsendra starfsmanna og vísast til ítarlegrar umfjöllunar um ákvæðið í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Fjársýsluskattur.
Um 15. gr.

    Lagt er til að almennur fjársýsluskattur sem lagður er á launagreiðslur fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga verði hækkaður úr 5,45% í 6,75% í ársbyrjun 2013. Tekjuáhrif af þeirri hækkun er áætluð um 800 millj. kr. á ári. Sérstökum 6% fjársýsluskatti á sömu aðila er hins vegar haldið óbreyttum. Að öðru leyti vísast til skýringa í almennum athugasemdum frumvarpsins.

Umhverfis- og auðlindaskattar.
Um 16. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á 1. gr. laga nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, sem miða að því að kolefnisgjald verði lagt á gas af jarðefnauppruna og að álagning kolefnisgjalds á flugvéla- og þotueldsneyti verði felld brott.
    Markmið kolefnisgjalds er að skattleggja kolefnisinnihald jarðefnaeldsneytis sem við bruna losar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Það er því ákveðið ósamræmi falið í því að gas af jarðefnauppruna skuli vera undanþegið kolefnisgjaldi. Í greininni er því lagt til að jarðolíugasi og öðrum loftkenndum kolvatnsefnum verði bætt við upptalningu á þeim eldsneytistegundum sem bera gjaldið. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði lagt á vörur sem flokkast í tollskrárnúmer sem innihalda gas eða annað loftkennt kolvatnsefni af jarðefnauppruna. Fjárhæð gjaldsins tekur mið af kolefnisgjaldi á annað jarðefnaeldsneyti og kolefnisinnihaldi eldsneytisins. Áætlað er að þessi viðbót komi til með að skila um 13 millj. kr. í ríkissjóð.
    Í greininni er jafnframt lagt til að kolefnisgjald á flugvéla- og þotueldsneyti verði fellt brott úr lögunum. Hingað til hefur kolefnisgjald ekki verið lagt á eldsneyti sem selt er á för með áfangastað í erlendri höfn á grundvelli þess að um útflutning er að ræða. Stór hluti, eða um 95%, af því flugvéla- og þotueldsneyti sem flutt er til landsins er selt á flugvélar með áfangastað í erlendri höfn og hefur gjaldið því verið endurgreitt af þeim hluta. Innanlandsflug hefur hins vegar borið gjaldið frá gildistöku laganna. Þann 1. janúar 2012 féll innanlandsflug undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins (EU ETS) með losunarheimildir og þurfa flugrekendur í byrjun árs 2013 að standa skil á losunarheimildum með gróðurhúsalofttegundir vegna starfsemi sinnar. Þar sem kolefnisgjald er lagt á aðföng í formi kolefnis en viðskiptakerfi Evrópusambandsins leggur gjald á útblástur gróðurhúsalofttegunda vegna sama kolefnis er lagt til að innheimta gjaldsins vegna þessara aðila verði felld niður. Gert er ráð fyrir að sú breyting ein og sér kosti ríkissjóð um 35 millj. kr. Þegar áhrif þessarar breytingar eru metin út frá heildarinnheimtu á kolefnisgjaldi af flugvéla- og þotueldsneyti kemur í ljós að þegar búið er að undanskilja millilandaflug og áætlunarflug innanlands er meira en 99% af því flugvéla- og þotueldsneyti sem flutt er til landsins undanþegið kolefnisgjaldi. Það er því nærtækast að fella gjaldið niður að fullu til að komast hjá kostnaði við endurgreiðslur. Gert er ráð fyrir að sú tilhögun muni kosta ríkissjóð undir 2 millj. kr. til viðbótar en á móti kemur að vinna við endurgreiðslur gjaldsins sparast hjá viðkomandi stofnunum.

Um 17. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að skattur af raforku verði hækkaður úr 0,120 kr. í 0,126 kr. í samræmi við verðlagsbreytingar.

Um 18. gr.

    2. málsl. 13. gr. laganna kveður á um það að lögin skuli falla úr gildi 31. desember 2012. Lagt til að ákvæðið verði fellt brott og lögin gerð varanleg. Sú tekjuöflun sem skattlagning umhverfis- og auðlinda byggist á er nauðsynleg forsenda þess að takist að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun með tilheyrandi vaxtakostnaði.
    Hins vegar er lagt til að skattur á raforku verði áfram tímabundinn og falli úr gildi eftir þrjú ár eða 31. desember 2015.

Vörugjald af ökutækjum og eldsneyti.
Um 19. gr.

    Hér er lagt til að dregið verði úr þeim afslætti sem bílaleigur hafa notið af vörugjaldi á ökutækjum. Þau gjaldbil sem lögð eru til að gildi við álagningu vörugjaldsins nú eru miðgildi aðalflokksins. Að öðru leyti er vísað til almennrar athugasemda við frumvarpið.

Um 20. og 21. gr.

    Lagt er til að almennt vörugjald af bensíni hækki um 1,13 kr. á hvern lítra, úr 24,46 kr. í 25,59 kr., og að sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni hækki um 1,82 kr. á hvern lítra, úr 39,51 kr. í 41,33 kr. Einnig er lagt til að sérstakt vörugjald á hvern lítra af öðru bensíni hækki um 1,93 kr. á hvern lítra, úr 41,87 kr. í 43,80 kr. Þessi hækkun á bensíngjöldum nemur 4,6% sem er almenn viðmiðun við verðlagsuppfærslu krónutölugjalda í ársbyrjun 2013.

Gjald á áfengi og tóbak.
Um 22.–24. gr

    Með greinunum er lagt til að fjárhæð áfengisgjalds verði hækkuð um 4,6% í samræmi við verðlagshækkanir. Einnig er lagt til að gjald á neftóbak hækki um 100% og almennt tóbaksgjald verði hækkað um 20%

Séreignarsparnaður.
Um 25. og 26. gr.

    Í 25. gr. er lagt til að heimild til úttektar á séreignarsparnaði taki gildi að nýju frá og með 1. janúar 2013, en að önnur skilyrði útgreiðslu haldist óbreytt. Heimildin rann úr gildi 1. október 2012 og er gert ráð fyrir því að heimilt verði að sækja um að fá greiddan út séreignarsparnað samkvæmt ákvæðinu fram til 1. janúar 2014.
    Til samræmis við breytingar í 25. gr. er í 26. gr. lagt til að vörsluaðila séreignarsparnaðar verði heimilt að fresta útgreiðslum séreignarsparnaðar til 1. janúar 2014 að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Sérstakt gjald á lífeyrissjóði fellt niður.
Um 27. gr.

    Í ákvæði til bráðabirgða XIV í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er að finna reglur um gjaldstofn, gjaldhlutfall og greiðslufyrirkomulag á fjármögnun lífeyrissjóða á þeirra hlut í sérstakri vaxtaniðurgreiðslu samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum um tekjuskatt. Í ákvæðinu kemur fram að gjaldstofninn sé hrein eign þeirra til samtryggingar í lok árs 2011 og 2012 og gjaldhlutfallið sé 0,0814%. Jafnframt segir í ákvæðinu að álagning gjaldsins fari fram með álagningu opinberra gjalda á lögaðila fyrir þessi ár, en að sjóðirnir greiði hins vegar fyrir fram upp í þá álagningu á árunum 2011 og 2012 á grundvelli hreinnar eignar í árslok 2010 og 2011. Í lok árs 2010 nam hrein eign samtryggingardeilda lífeyrissjóða samtals 1.718.855 millj. kr. samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2010. Gjaldhlutfallið, 0,0814%, byggðist á þeirri fjárhæð og fjármögnun upp á 1,4 milljarða kr. á árinu 2011. Með ákvæði frumvarpsins er lagt til að álagning gjaldsins á árinu 2013 og fyrirframgreiðsla þess 1. nóvember 2012 verði felld brott og þar með fjármögnun lífeyrissjóða á áðurnefndum 1,4 milljörðum kr. af sérstakri vaxtaniðurgreiðslu.

Aukatekjur ríkissjóðs, vegabréf.
Um 28. gr.

    Í ákvæðinu er lagðar til hækkanir á gjaldi vegna útgáfu vegabréfa til að mæta auknum kostnaði við útgáfu þeirra.

Olíugjald og kílómetragjald.
Um 29. gr.

    Með greininni er gerð tillaga um 4,6% hækkun á olíugjaldi, úr 54,88 kr. á hvern lítra í 57,40 kr., í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins.

Um 30. og 32. gr.

    Lagt er til að felld verði brott í áföngum heimild til 85% endurgreiðslu olíugjalds vegna almenningsvagna í áætlunarferðum. Þess í stað er lagt til að þeim fjármunum sem varið hefur verið til þessa málaflokks verði útdeilt á fjárlögum að hluta.
    Þann 7. maí sl. undirrituðu innanríkisráðherra, fjármálaráðherra og fulltrúar Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu samning um 10 ára tilraunaverkefni til að efla almenningssamgöngur. Samningurinn kveður m.a. á um að ríkissjóður veiti 1.000 millj. kr. á ári til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2022 en í stað þess frestist tilteknar stórar vegaframkvæmdir á sama svæði. Í samningnum er jafnframt kveðið á um það að endurgreiðslur á olíugjaldi til almenningsvagna í áætlunarferðum verði hætt.
    Á árinu 2011 námu endurgreiðslur olíugjalds vegna almenningsvagna í áætlunarferðum um 156 millj. kr. þar af nam styrkur til almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu 132 millj. kr. Endurgreiðslur olíugjalds vegna almenningsvagna ná því til fleiri aðila en þeirra sem eingöngu reka almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu.
    Upphaflegt markmið endurgreiðslnanna var að endurgreiða olíugjald, sem er markaður tekjustofn, vegna aksturs almenningsvagna sem á sér stað á vegakerfi í umsjón og rekstri sveitarfélaga. Hins vegar hafa skilgreiningar laga á reglubundnum fólksflutningum innan og utan þéttbýliskjarna sveitarfélaga breyst nokkuð frá því að endurgreiðslufyrirkomulaginu var komið á. Sú þróun hefur gert það að verkum að fleiri aðilar hafa notið endurgreiðslna olíugjalds en upphaflegt markmið reglnanna var.
    Í samræmi við tilvitnaðan samning frá 7. maí er lagt til að í stað 85% endurgreiðslu olíugjalds verði 57% endurgreitt á árinu 2013, 29% á árinu 2014 og að endurgreiðslan falli endanlega niður 2015. Á árunum 2013 og 2014 mun endurgreiðslan vera afmörkuð við þá sem geta sýnt ríkisskattstjóra fram á að þeir stundi rekstur almenningsvagna í áætlunarferðum innan þéttbýliskjarna samkvæmt samningi við sveitarfélag eða samtök sveitarfélaga. Sveitarfélag sem annast akstur almenningsvagna í áætlunarferðum í eigin nafni hefur einnig þessar heimildir til endurgreiðslu enda séu skilyrði a-liðar 32. gr. uppfyllt.
    Akstur á milli samliggjandi þéttbýliskjarna, óháð því hvort þeir eru innan eins eða fleiri sveitarfélaga, er endurgreiðsluhæfur. Akstur sem er að einhverjum hluta á þjóðvegi og á milli þéttbýliskjarna er ekki endurgreiðsluhæfur þó að þéttbýliskjarnarnir séu innan sama sveitarfélags. Þannig mundi t.d. akstur á milli samliggjandi þéttbýliskjarna á höfuðborgarsvæðinu verða endurgreiðsluhæfur en akstur á milli t.d. Ólafsfjarðar og Siglufjarðar mundi ekki hljóta endurgreiðslu. Þó svo að fyrir liggi samningur við sveitarfélag, byggður á einkaleyfi, getur ríkisskattstjóri skoðað sjálfstætt hvort önnur ákvæði um heimildir til endurgreiðslu séu uppfyllt, t.d. hvort um sé að ræða akstur innan þéttbýliskjarna og almenningsvagna í áætlunarferðum.
    Eftir árið 2014 mun endurgreiðslan falla endanlega niður. Hins vegar er gert ráð fyrir því að á fjárlögum ársins 2014 verði fjármunum varið til þess að halda áfram endurgreiðslum á olíugjaldi til aksturs almenningsvagna innan þéttbýliskjarna sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins í hlutfalli við akstur á vegum í rekstri og umsjón sveitarfélaga. Á árinu 2014 yrði endurgreiðslan miðuð við sams konar skilyrði og tilgreind eru í a-lið 32. gr. en eingöngu til sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins sem reka almenningsvagna í áætlunarferðum innan þéttbýliskjarna sveitarfélaga. Á árinu 2014 yrði sú greiðsla sem sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins fá endurgreidd af olíugjaldi hins vegar dregin frá styrkjum sem koma af fjárlögum. Eftir niðurfellingu endurgreiðslunnar á árinu 2015 og á meðan kerfið verður óbreytt yrðu endurgreiðslurnar miðaðar við akstur innan þéttbýliskjarna utan höfuðborgarsvæðisins.
    Í b-lið 32. gr. er kveðið á um það hvernig nýtt kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald skuli reiknað við áætlun og ákvörðun samkvæmt álestri ef ekki er komið með ökutæki til álestrar innan álestrartímabila.

Um 31. gr.

    Í greininni er lagt til að fjárhæð almenns kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds hækki um 4,6% í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013.

Bifreiðagjald.
Um 33. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að bifreiðagjald hækki um 4,6% milli áranna 2012 og 2013.

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
Um 34. gr.

    Hér er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, verði hækkað í takt við almennar verðlagsbreytingar, eða um 4,6%, og nemi 9.604 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2013 vegna tekna ársins 2012.

Sérstakt útvarpsgjald.
Um 35. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds verði hækkuð um 900 kr., eða 4,6%, og nemi 19.700 kr. á hvern gjaldanda í stað 18.800 kr. samkvæmt gildandi lögum.

Stimpilgjald.
Um 36. gr.

    Hér er lagt til að framlengdur verði gildistími bráðabirgðaákvæða sem heimila niðurfellingu stimpilgjalds af skilmálabreytingum fasteignaveðskuldabréfa ásamt bílalánum einstaklinga. Samkvæmt gildandi bráðabirgðaákvæðum hefði heimildin runnið út í lok þessa árs.

Sóknargjöld.
Um 37. gr.

    Í greininni er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 701 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 728 kr. fyrir árið 2013.

Þjóðkirkjan.
Um 38. gr.

    Í greininni er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2013 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 79 millj. kr. og að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 0,9 millj. kr. á árinu.

Markaðsgjald framlengt.
Um 39. gr.

    Um er að ræða sólarlagsákvæði um markaðsgjald og er gert ráð fyrir því að gjaldið falli úr gildi 1. janúar 2014 í stað 1. janúar 2013 verði annað ekki ákveðið.

Um 40. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem einkum miða að því að auka tekjur ríkissjóðs í samræmi við forsendur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 en einnig til að tryggja forsendur nokkurra ráðstafana á útgjaldahlið frumvarpsins og til að fylgja eftir ákvörðunum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga sem gerðir voru á árinu 2011. Í frumvarpinu eru tekjuáformin byggð á markmiðum áætlunar um að jöfnuði verði náð í ríkisfjármálum árið 2014 en umfang sérstakra tekjuöflunaraðgerða er samt nokkuð minna en verið hefur síðastliðin ár.
    Breytingunum í frumvarpinu má skipta í fjóra meginflokka. Í fyrsta lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir sem ætlað er að skila ríkissjóði nýjum tekjum á næsta ári. Í öðru lagi eru breytingar sem viðhalda tekjum ríkissjóðs eða lækka þær frá þessu ári ásamt því að lögfesta nokkrar breytingar á útgjaldahlið fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013. Í þriðja lagi eru breytingar sem snúa að aðgerðum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga. Í fjórða lagi eru hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur frumvarpsins auk smærri breytinga af ýmsu tagi.

Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir.
    Í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár er gert ráð fyrir sérstökum aðgerðum á tekjuhlið sem samtals eiga að skila 8,4 milljörðum kr.
Milljarðar kr.

2013

    14% virðisaukaskattur í stað 7% á gistiþjónustu frá 1. maí 2013          1,1
    Almennt tryggingagjald hækki um 0,3%          2,9
    Gjald af tóbaki hækki um 15% og tvöfaldist af neftóbaki          1,0
    Almennur fjársýsluskattur hækki úr 5,45% í 6,75%          0,8
    Vörugjald á bílaleigubíla aðlagað almennu vörugjaldi á bifreiðar          0,5
    Áframhaldandi úttekt á séreignarsparnaði          1,5
    Bætt skattskil          0,6
     Samtals          8,4

    Í fyrsta lagi er lagt til að skattþrep virðisaukaskatts á útleigu hótel- og gistiherbergja verði fært úr lægra skattþrepi virðisaukaskatts, þ.e. 7%, í nýtt 14% skattþrep frá og með 1. maí 2013. Talið er að sú breyting skili ríkissjóði 1,5 milljarði kr. á ársgrundvelli, þar af 1,1 milljörðum kr. árið 2013.
    Í öðru lagi er lögð til 0,3 prósentustiga hækkun á almennu tryggingagjaldi, þ.e. úr 4,99% í 5,29%. Verði frumvarpið að lögum verður samanlagt atvinnutryggingagjald og almannatryggingagjald 7,34%. Ofan á heildarprósentutöluna, þ.e. 7,34%, leggst markaðsgjald til útflutningsráðs sem nemur 0,05% og gjald í Ábyrgðarsjóð launa sem nemur 0,3%. Heildargjaldið nemur þá 7,89% og lækkar þannig um 0,1 prósentustig milli ára. Sú hækkun sem hér er lögð til á almennu tryggingagjaldi er talin skila ríkissjóði 2,9 milljörðum kr. árlega.
    Í þriðja lagi er lagt til að tóbaksgjald hækki um 15% umfram verðlag eða um það bil 20%. Einnig er lögð til tvöföldun á gjaldi af neftóbaki en það þykir óeðlilega lágt miðað við annað tóbak sem leitt hefur af sér aukna neyslu hérlendis. Gert er ráð fyrir að hækkun á gjaldi af tóbaki og neftóbaki skili ríkissjóði um 1 milljarði kr. í auknum tekjum.
    Í fjórða lagi er lagt til að gerð verði breyting á fjársýsluskatti sem lagður er á fyrirtæki í fjármála– og tryggingastarfsemi. Annars vegar er um að ræða almennan fjársýsluskatt sem er skattur á allar tegundir launa, þóknana og hlunninda fyrir störf sem skattskyld eru samkvæmt lögum um tekjuskatt og hins vegar sérstakan fjársýsluskatt sem er viðbótartekjuskattur á hagnað fjármálafyrirtækja umfram 1 milljarð kr. Lagt er til að hækka skatthlutfall almenna fjársýsluskattsins úr 5,45% í 6,75% en að sérstaki fjársýsluskatturinn haldist óbreyttur. Gert er ráð fyrir að hækkunin skili ríkissjóði 0,8 milljörðum kr. árlega.
    Í fimmta lagi er lagt til í öðru frumvarpi að vörugjald á matvæli taki mið af magni af viðbættum sykri eða sætuefnum í vöru. Samtals er gert ráð fyrir að þessi endurskoðun á lögum um almennt vörugjald skili ríkissjóði 0,8 milljörðum kr.
    Í sjötta lagi er lagt til að dregið verði úr þeim afslætti sem bílaleigur hafa notið af almennu vörugjaldi á ökutæki. Gert er ráð fyrir að þessi breyting skili ríkissjóði samtals 0,5 milljörðum kr.
    Í sjöunda lagi er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem fyrst var sett með lögum nr. 13/ 2009, en síðan breytt með lögum nr. 130/2009, þá lögum nr. 164/2010 og síðast með lögum nr. 164/2011, taki gildi að nýju og að rétthöfum verði heimilt að sækja um að fá greiddan út séreignarsparnað að ákveðnu marki, samanlagt allt að 6.250.000 kr., á tímabilinu 1. janúar 2013 fram til 1. janúar 2014. Gert er ráð fyrir að þessi breyting skili ríkissjóði samtals 1,5 milljörðum kr.
    Í áttunda lagi hafa stjórnvöld uppi áform um að bæta skattskil, jafnt einstaklinga sem fyrirtækja, sem kostur er með hertum aðgerðum skattyfirvalda og innheimtumanna ríkissjóðs á komandi mánuðum og árum. Telja má að þessar aðgerðir skili ríkissjóði 500-600 m.kr. í viðbótartekjum á næsta ári.

Breytingar á núverandi skattheimtu og útgjaldaráðstafanir.
    Breytingar sem viðhalda tekjum ríkissjóðs eða lækka þær frá því sem er á þessu ári eru í fyrsta breytingar á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta. Lagt er til að gjaldtakan samkvæmt lögunum verði varanleg hvað kolefnisgjald og gjald af sölu á heitu vatni varðar en að raforkuskatturinn renni sitt skeið í núverandi mynd eftir þrjú ár. Að óbreyttu hefðu lögin fallið úr gildi í árslok 2012. Einnig er lagt til að gjaldið verði lagt á gas af jarðefnauppruna til viðbótar við þær tegundir eldsneytis sem í dag bera kolefnisgjald en á hinn bóginn falli það niður af þotu- og flugvélaeldsneyti. Í þriðja lagi er miðað við að raforkuskattur hækki í takt við verðlag en að kolefnisgjald og gjald af sölu á heitu vatni haldist óbreytt. Samtals er þessari gjaldtöku ætlað að skila ríkissjóði 5,9 milljörðum kr. á næsta ári.
    Í öðru lagi er lagt til að bráðabirgðaákvæði XV í lögum um virðisaukaskatt verði framlengt um eitt ár en ákvæðið lýtur að heimild til að endurgreiða að fullu virðisaukaskatt vegna kaupa eða viðhalds einstaklinga á eigin íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði. Auk þess nær heimildin einnig til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga. Verði þessi breyting að lögum skerðir hún tekjur ríkissjóðs um allt að 1,5 milljarða kr. miðað við að endurgreiðslan mundi annars lækka niður í 60% af virðisaukaskatti.
    Í þriðja lagi er lagt til að gjald sem ætlað er að fjármagna hlut lífeyrissjóða í sérstakri tímabundinni vaxtaniðurgreiðslu sem bókfæra hefði átt sem tekjur á næsta ári verði fellt brott en það hefði skilað ríkissjóði 1,6 milljörðum kr.
Milljarðar kr.

2013

    Framlenging á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta          5,9
    Framlenging á 100% endurgreiðslu vsk af vinnu við íbúðarhúsnæði          -1,5
    Niðurfelling á gjaldi á hreina eign lífeyrissjóða – fjármögnun vaxtaniðurgr.          -1,6
     Samtals áhrif á tekjuhlið          2,8

    Framlenging á sérstakri 30% hækkun vaxtabóta          -2,0
    Hækkun barnabóta          -2,5
    Samtals áhrif á útgjaldahlið          -4,5

    Einnig er um að ræða breytingar sem hafa áhrif á útgjöld ríkisins. Í fyrsta lagi er lagt til að viðmiðunarfjárhæðir vaxtabótakerfisins haldist óbreyttar milli ára, en að óbreyttu hefðu þær fjárhæðir sem gilda fyrir yfirstandandi ár átt að lækka um 30%. Gert er ráð fyrir að framlenging á sérstakri hækkun vaxtabóta um eitt ár leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð sem nemur 2 milljörðum kr.
    Í öðru lagi er lagt til að barnabætur hækki um 2,5 milljarða kr. frá fjárlögum fyrir árið 2012. Þá er áætlað að barnabætur til úthlutunar verði samtals 10.762 m.kr. árið 2013 og er það í samræmi við stefnukafla fjárlagafrumvarpsins þar sem áhersla er lögð á að bæta mjög hag barnafjölskyldna.

Aðgerðir í tengslum við kjarasamninga.
    Vegna aðgerða stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á árinu er í fyrsta lagi lagt til að atvinnutryggingagjald verði lækkað um 0,4% sem mun lækka tekjur ríkissjóðs um 3,9 milljarða kr.
    Í öðru lagi er lagt til brottfall afdráttarskatts af vöxtum sem aðilar með skattalegt heimilisfesti erlendis hafa af íslenskum innstæðum eða verðbréfum. Sú breyting er talin rýra tekjur ríkissjóðs um 2,2 milljarða kr. á árinu 2013.
    Aðrar breytingar eru tímabundin rýmkun á reglum um skattlagningu launþega sem starfa erlendis á vegum íslensks vinnuveitenda. Jafnframt er lögð til breyting á gildandi lagaákvæðum skattalaga þannig að litið verði á tekjur af afleiðusamningum sem söluhagnað í stað vaxta að undanskildum vaxtaskiptasamningum sem taka mið af breytingum á vöxtum sem undirliggjandi verðmæti. Það mundi leiða til þess að staðgreiðsla af afleiðuviðskiptum yrði afnumin í þeim tilfellum þar sem tekjur af afleiðusamningum teljast til söluhagnaðar. Ekki er áætlað að umræddar breytingar hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs sem meta má með góðu móti.
Milljarðar kr.

2013

    Lækkun atvinnutryggingagjalds um 0,4%          -3,9
    Afnám afdráttarskatts af vaxtatekjum erlendra aðila          -2,2
     Samtals áhrif á tekjuhlið          -6,1

Verðlagshækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám.
    Hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám nema 4,6% og eru í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins með það að markmiði að fjárhæðirnar haldi raungildi frá fyrra ári. Í fyrsta lagi er lagt til að hækkun almenns og sérstaks vörugjalds á bensín, svo og olíugjalds, kílómetragjalds og bifreiðagjalds verði í takt við ofangreindar verðlagsforsendur. Gert er ráð fyrir að hækkunin skili 1,15 milljörðum kr.
    Í öðru lagi er lögð til 4,6% hækkun á áfengisgjaldi og gert er ráð fyrir að umrædd hækkun skili ríkissjóði 0,5 milljörðum kr.
    Í þriðja lagi er lagt til að fjárhæð útvarpsgjalds hækki um 900 kr. frá gildandi lögum og nemi 19.700 kr. á hvern gjaldanda í stað 18.800 kr. á árinu 2013. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru áætlaðar 190 m.kr.
    Í fjórða lagi er til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækki þannig að gjaldið verði 9.604 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2013 vegna tekna ársins 2012. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði aukalega 77 m.kr.

Ýmsar aðrar breytingar.
    Einnig er um ýmsar smærri breytingar að ræða í frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að tímabundnar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds, þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfa er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila, verði framlengdar um eitt ár eða til ársloka 2013. Framlengingin nær einnig til undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda við skilmálabreytingar bílalána. Ekki er gert ráð fyrir því að það hafi teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Í öðru lagi er lagt til að sóknargjöld hækki úr 701 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 728 kr. fyrir árið 2013 eða í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013 um almennar verðlagsbreytingar á milli ára. Með breytingunni er gert ráð fyrir að framlög ríkisins á árinu 2013 til trúfélaga hækki um 78,5 m.kr. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs hækki um 25,7 m.kr. vegna Jöfnunarsjóðs sókna, en framlag í sjóðinn reiknast sem 18,5% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld, og vegna kirkjumálasjóðs, sem reiknast á sama hátt sem 14,3% af sóknargjöldum.
    Í þriðja lagi er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2013 til reksturs þjóðkirkjunnar og biskupsstofu samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar nemi alls 1.412 m.kr. að frádregnum sértekjum hennar í samræmi við fjárlagafrumvarpið. Með þessari breytingu er framfylgt aðhaldsmarkmiðum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2013 sem nema 1,2% en á hinn bóginn hefur einnig verið tekið tillit til launa- og verðlagshækkana.
    Í fjórða lagi er lagt til að sólarlagsákvæði um markaðsgjald falli úr gildi 1. janúar 2014 í stað 1. janúar 2013 verði annað ekki ákveðið. Sú framlenging mun ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs árið 2013 þar sem tekjur á næsta ári stafa af álagningu á árinu 2012 og er gert ráð fyrir þeim og ráðstöfun þeirra til Íslandsstofu í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013.
    Í fimmta lagi er lögð til hækkun á gjaldi fyrir útgáfu vegabréfa og er áætlað að tekjur ríkissjóðs hækki um 25 m.kr. með þeim breytingum.
    Þær ráðstafanir sem lagðar eru til í þessu frumvarpi gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni að öllu samanlögðu um 2,7 milljarða kr. frá því sem hefði orðið að óbreyttu. Þær eru í samræmi við forsendur sem settar eru fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki í skattkerfinu við að koma þessum breytingum í framkvæmd verði ekki verulegur og að hann rúmist innan fjárheimilda ráðuneytisins.