Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 469. máls.

Þingskjal 603  —  469. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (innri endurskoðun, skilyrði til greiðslu örorkulífeyris, meðferð framlags til starfsendurhæfingar o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um þau atriði sem eiga samkvæmt lögum þessum að koma fram í reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað.

2. gr.

    Á eftir 5. mgr. 15. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er, að fengnu áliti trúnaðarlæknis lífeyrissjóðs, að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans.

3. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. júlí“ í 3. mgr. 24. gr. laganna kemur: 15. maí.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      2. málsl. fellur brott.
     b.      Á eftir orðinu „endurskoðanda“ í 3. málsl. kemur: aðila sem annast innri endurskoðun.

5. gr.

    2. tölul. 3. mgr. 29. gr. laganna orðast svo: að ákveða hvernig innri endurskoðun skuli háttað, annaðhvort með því að ráða forstöðumann endurskoðunardeildar eða semja við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila.

6. gr.

    Í stað orðanna „innra eftirlit“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 34. gr. laganna kemur: innri endurskoðun.

7. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Rekstur, innra eftirlit og innri endurskoðun.

8. gr.

    2. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur reglugerð um form og efni fjárfestingarstefnu skv. 36. gr. og 36. gr. a og úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar.

9. gr.

    3. málsl. 6. mgr. 40. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Orðin „og innra eftirliti, sbr. 35. gr.“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „VII. kafla laga um ársreikninga“ í 3. mgr. kemur: IX. kafla laga um ársreikninga.

11. gr.

    Í stað orðanna „og 2015“ í ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum kemur: 2015, 2016 og 2017.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er lagt til að hugtakanotkun, þegar fjallað er um endurskoðun, verði færð til samræmis við notkun hugtaka í löggjöf á fjármálamarkaði, en þar er hugtakið „innri endurskoðun“ notað yfir það sem er nefnt „innra eftirlit“ á nokkrum stöðum í lögum nr. 129/1997. Í öðru lagi er lagt til að lífeyrissjóði verði veitt heimild til þess að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, enda liggi fyrir álit trúnaðarlæknis sjóðsins. Samsvarandi ákvæði er að finna í lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði 2. málsl. 28. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að tilkynning um breytingar á samþykktum lífeyrissjóða skuli birtar í Lögbirtingablaði, skuli fellt brott. Í fjórða lagi er ráðherra falin heimild til þess að kveða nánar á um þau atriði sem eiga samkvæmt lögunum að koma fram í reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað og í fimmta lagi er lagt til að framlag lífeyrissjóða skv. 6. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna fyrir árin 2016 og 2017. Að auki eru lagðar til smávægilegar breytingar sem varða m.a. reglugerðarheimildir og fresti.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið og Landssamtök lífeyrissjóða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að ráðherra verði heimilt að kveða nánar á um þau atriði sem eiga að koma fram í reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Þau atriði eru ekki talin upp í lögunum með beinum hætti en verða hins vegar leidd af ákvæðum laganna.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að heimilt verði að binda greiðslu örorkulífeyris því skilyrði að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, sem geti bætt heilsufar hans, enda liggi fyrir álit trúnaðarlæknis sjóðsins í þá veru. Samsvarandi ákvæði er í 16. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Lagt er til að öðrum lífeyrissjóðum verði heimilt að byggja á slíkum sjónarmiðum og í því sambandi er sérstaklega litið til laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, þar sem m.a. er mælt fyrir um rétt þeirra sem þiggja örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum til starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða.
    

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að frestur lífeyrissjóða til þess að skila tryggingafræðilegri athugun til Fjármálaeftirlitsins verði færður fram, eða til 15. maí ár hvert. Undanfarin ár hefur Fjármálaeftirlitið beint þeim tilmælum til lífeyrissjóða að flýta skýrsluskilum vegna tryggingafræðilegra athugana og því er þessi breyting lögð til.

Um 4. gr.

    Í a-lið er lagt til að birting tilkynningar um breytingar á samþykktum lífeyrissjóða í Lögbirtingablaði verði lögð af, enda þykir upplýsingagjöf lífeyrissjóða til sjóðfélaga skv. 2. mgr. 18. gr. laganna fullnægjandi, m.a. þegar litið er til upplýsinga er lúta að breytingum á samþykktum.
    Í b-lið er lagt til að kveðið verði á um það með skýrum hætti að tilkynningarskylda gagnvart Fjármálaeftirlitinu tekur jafnt til breytinga á endurskoðanda og þeim aðila sem annast innri endurskoðun lífeyrissjóðs.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að kveðið verði á um það með skýrum hætti að ákvæði 2. tölul. 3. mgr. 29. gr. laganna lúti að því verkefni stjórnar að ákveða hvernig fyrirkomulagi innri endurskoðunar verði háttað, annaðhvort með því að ráða forstöðumann endurskoðunardeildar, sem hefur það verkefni með höndum að annast innri endurskoðun, eða semja við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til þess að annast þá endurskoðun.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að orðin „innri endurskoðun“ komi í stað orðanna „innra eftirlit“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 34. gr. laganna og í því sambandi er vísað er til þess sem fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu.

Um 7. gr.

    Hér er lagt er til að heiti VI. kafla laganna endurspegli þá breyttu hugtakanotkun sem lögð er til í frumvarpi þessu.

Um 8. og 9. gr.

    Í greinunum eru lagðar til breytingar á ákvæðum 2. mgr. 37. gr. og 3. málsl. 6. mgr. 40. gr. laganna þar sem í ákvæðunum er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið setji reglur, annars vegar um form og efni fjárfestingarstefnu skv. 36. gr. og 36. gr. a og hvernig henni skuli skilað til eftirlitsins og hins vegar um form og efni skýrslna um úttekt á eignasöfnum síðasta árs og fjárfestingarstefnu. Ráðherra hefur fjallað um þessi atriði í reglugerð nr. 916/2009, um fjárfestingarstefnu og úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar, sem sett var með stoð í 56. gr. laganna. Ákvæði reglugerðarinnar hafa því leyst þær reglur sem ákvæðin kveða á um af hólmi og því eru þessar breytingar lagðar til.

Um 10. gr.

    Til samræmis við lagfæringar á hugtakanotkun um endurskoðendur, innri endurskoðun og innra eftirlit er í a-lið lagt til að orðin „og innra eftirliti, sbr. 35. gr.“ falli brott.
    Í b-lið er lagt til að tilvísun til laga um ársreikninga verði breytt með vísan til þess að IX. kafli laga nr. 3/2006, um ársreikninga, kom í stað VII. kafla laga nr. 144/1994, um ársreikninga. Kaflarnir eru efnislega samhljóða.

Um 11. gr.

    Í greininni er byggt á því að framlög lífeyrissjóða til starfsendurhæfingar verði ekki núvirt fyrr en niðurstöður þeirrar heildarúttektar á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, liggja fyrir. Frestur til þess að framkvæma umrædda úttekt var framlengdur um tvö ár í meðförum Alþingis og því er lagt til að ákvæði til bráðabirgða XV verði breytt til samræmis við framlenginguna.

Um 12. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (innri endurskoðun, skilyrði til greiðslu örorkulífeyris, meðferð framlags til starfsendurhæfingar o.fl.).

    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á hugtakanotkun. Frumvarpið tryggir að þegar fjallað er um endurskoðun sé hugtakanotkun til samræmis við löggjöf á fjármálamarkaði, en þar er hugtakið „innri endurskoðun“ notað yfir það sem er nefnt „innra eftirlit“ á nokkrum stöðum í lögum nr. 129/1997. Í öðru lagi veitir frumvarpið lífeyrissjóði heimild til þess að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði 2. málsl. 28. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að tilkynning um breytingar á samþykktum lífeyrissjóða skuli birt í Lögbirtingablaði, verði fellt brott. Í fjórða lagi er ráðherra falin heimild til þess að kveða nánar á um þau atriði sem eiga samkvæmt lögunum að koma fram í reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Að lokum er lagt til að framlag lífeyrissjóða skv. 6. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna fyrir árin 2016 og 2017. Í núverandi lögum er kveðið á um að slíkt framlag lífeyrissjóða verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna fyrir árin 2012–2015, og er því um að ræða framlengingu á tímabilinu til og með 2017. Með þessu er átt við að þegar tryggingafræðileg athugun fer fram sé ekki reiknað með því að framlögin verði til frambúðar. Ef reiknað væri með slíku útstreymi allt það tímabil sem athugunin nær yfir mundu lífeyrisskuldbindingar sjóðanna aukast umtalsvert sem gæti leitt til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga og því er reynt með þessu bráðabirgðaákvæði að draga úr hættu á því. Vonir standa til þess að með atvinnutengdri starfsendurhæfingu megi draga úr útgreiðslum sjóðanna vegna örorkubóta á móti þannig að tryggingafræðileg staða þeirra verði ekki lakari. Gert er ráð fyrir því að framlög atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkisins verði endurskoðuð fyrir árslok 2015 og að þá verði athugað hver áhrifin hafa verið á örorkubyrði lífeyrissjóða og almannatrygginga og hvort framlög til starfsendurhæfingarverkefna hafa skilað tilætluðum árangri.
    Breytingar frumvarpsins eru tvenns konar. Annars vegar er um að ræða minni háttar breytingar sem miða eingöngu að því að samræma hugtakanotkun og fella á brott tilkynningarskyldu í Lögbirtingablaði. Hins vegar er um veigameiri breytingar að ræða þar sem verið er að rýmka heimildir lífeyrissjóða til að skilyrða greiðslu örorkulífeyris, auka heimildir ráðherra og framlengja tímabil bráðabirgðaákvæðis um núvirðingu á framlögum lífeyrissjóða skv. 6. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.
    Ekki verður séð að þessar breytingar muni hafa bein áhrif á fjárhag ríkissjóðs verði þær að lögum.