Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 240. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 609  —  240. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar
um nýja flugstöð á Akureyrarflugvelli.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað líður uppbyggingaráformum við flughlað og nýja flugstöð á Akureyrarflugvelli?
     2.      Hefur samkomulag náðst um að nota hratið úr Vaðlaheiðargöngum í nýtt flughlað?
     3.      Hver er áætlaður kostnaður vegna vinnu við nýtt flughlað?
     4.      Ef af verður hvernig verður verkinu háttað með tilliti til samgangna?
     5.      Hvenær eru verklok áætluð við gerð nýs flughlaðs?
     6.      Hvað gildir undanþága vegna núverandi flughlaðs lengi (nálægð við flugbraut)?


    Nýtt flughlað norðan við flugstöðina á Akureyri hefur verið fullhannað og er kostnaður við fullbúið flughlað áætlaður tæpar 800 millj. kr. Einnig hefur stækkun á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli verið frumhönnuð og er áætlaður kostnaður við byggingu hennar um 1.200 millj. kr.
    Samkvæmt áætlunum Isavia er árleg fjármagnsþörf til lágmarksviðhalds á núverandi mannvirkjum í innanlandsflugvallakerfinu a.m.k. 500 millj. kr. Ekki hefur tekist að ná þessu markmiði um fjármagn, en sem dæmi er gert ráð fyrir að framkvæmdafé til flugmála verði um 300 millj. kr. árið 2013. Því er ljóst að svigrúm til nýframkvæmda er ekki fyrir hendi en áform um nýtt flughlað og stækkun flugstöðvar á Akureyrarflugvelli falla þar undir.
    Aðilar á vegum þeirra sem standa að Vaðlaheiðargöngum hafa verið í sambandi við Isavia um hugsanlega nýtingu efnis úr Vaðlaheiðargöngum og hefur hugmyndum um hugsanlega greiðsludreifingu kostnaðar verið velt upp. Af fyrrgreindum ástæðum er þó ljóst að fjárhagslegt svigrúm til þessara framkvæmda á flugvellinum er ekki fyrir hendi.